Ég er fæddur á því herrans ári 1973, og ólst því upp við enska boltann á RÚV á laugardögum í umsjá Bjarna Fel. Snemma varð ljóst að Liverpool var það lið sem heillaði helst og þannig hefur það haldist alla tíð síðan. Það var þó þannig að fótboltaáhuginn var settur aðeins á ís frá tvítugsaldri eða þar um bil, allt þar til á síðustu mánuðum Rafa-tímabilsins. En Liverpool hjartað sló þó allan tímann, og frá árinu 2009 eða þar um bil hefur varla fallið úr leikur.

Þegar þetta er skrifað er ég tveggja barna faðir í Vesturbænum, fyrrverandi stjörnuháskólakennari, og núverandi forritari hjá Edico. Fyrir utan fótboltann og tölvur má segja að helstu áhugasvið séu tónlist og smíðar.

Þegar kop.is ákváðu að stækka hópinn haustið 2017 ákvað ég að sækja um og hlaut náð fyrir augum stjórnenda, blessunarlega. Áður hafði ég gert eldri pennum síðunnar grikk með því að taka saman tölfræði um spáhæfileika þeirra, og hyggst halda því áfram, ásamt reyndar því að taka þátt í spádómunum sjálfur. Tölfræðipælingar hvers konar eru mér nokkuð hugleiknar, og það má reikna með að það muni sjást í stöku pistlum hér og þar. Þá hefur kvennalið Liverpool einnig fengið sinn skerf af athyglinni.

Ég hef farið á tvo leiki á Anfield. Fyrst fór ég á leikinn við West Ham í desember 2013, tímabilið góða þar sem okkar menn voru svoooo nálægt því að vinna titilinn. Þá fór ég á heimaleikinn gegn Porto í Meistaradeildinni í mars 2018. Vonandi verða þessi ferðalög talsvert fleiri.