eythorÉg er Eyþór Guðjónsson og er 82 módel. Fæddur á Akranesi en búið í Reykjavík frá því ég var 6 ára eða svo.

Ég hef haldið með Liverpool síðan ég man eftir mér, eflaust fengið það í vöggugjöf frá honum föður mínum sem er forfallinn Liverpool aðdáandi.

Að vera með Liverpool á heilanum er ekki eitthvað sem maður kveikir á á leikdegi og hugsar ekki um utan við það. Maður leitar uppi öll viðtöl, myndbönd, blogg, greinar og hvað það nú heitir á milli leikja. Skal þó fúslega viðurkenna það að þessi leit er öllu ítarlegri og tímafrekari vikuna eftir sigurleik en eftir tapleik. Ætli ég hafi ekki staðið sjálfan mig að því að horfa á Match of the day um fimm sinnum (+) eftir sigurleik, en nenni varla að kveikja á því eftir tapleiki. Þetta er rússíbanaferð, verður ekki annað sagt.

Ég er á þeim aldri að ég var aðeins of ungur til þess að upplifa og njóta gullaldartímabils Liverpool. Ég man fyrst eftir mér horfandi á liðið undir lok stjórnartíð Souness. Það er því í raun bara einn leikmaður sem kemur til greina sem uppáhaldsleikmaður minn frá upphafi. Það er að sjálfsögðu Gerrard. Ég elska Steven Gerrard og skammast mín nákvæmlega ekki neitt fyrir það.

Ég spilaði sjálfur fótbolta lengi vel. Þegar ég verð eldri segi ég eflaust barnabörnunum frá því hvernig hnémeiðsli eyðilögðu annars bjarta framtíð inná vellinum (og stoppuðu mig í því að spila með Liverpool). En ég get víst ekki logið því að ykkur í dag. Ég var eflaust bara þessi meðalmaður og spila bumbubolta í dag eins og veika hnéð leyfir. Utan fótbolta var ég mikið á snjóbretti hér á árum áður en í dag er það UFC og fótbolti það eina sem maður fylgist með, kannski ágætt að það sé ekkert fleira því að vera forfallinn Liverpool aðdáandi er alveg heilt stöðugildi og rúmlega það.

Ég sá um upphitanir og leikskýrslur á Liverpool.is hér fyrir nokkrum árum ásamt því að skrifa stöku pistla fyrir síðuna. Tók mér þó hlé frá þessum skrifum þegar ég kláraði námið mitt. Ég starfa í dag sem endurskoðandi hjá Deloitte, kynntist betri helmingnum árið 2008 og erum við gift í dag og eigum saman tvo syni. Eldri syninum þykir hin mesta skemmtun að horfa á Liverpool leiki, þó hann sé bara rúmlega fimm ára. Aðalega þegar Liverpool skorar þó, því þá tekur pabbinn villtan stríðsdans.

Kop.is hefur verið fyrsta stoppið á net-rúntinum hjá manni í þó nokkur ár. Er ekki frekar klisjukennt að segjast ætla að gera góða síðu betri ? Ég held að hún verði ekkert betri, slík eru gæðin, þannig að ég skal bara gera mitt besta og reyna að klúðra ekki neinu. Að fá að taka þátt í langbesta bloggi landsins eru forréttindi.

Hikið ekki við að senda mér línu á eyigud@hotmail.com ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað ykkur með.

Góðar stundir,

YNWA

2 Comments