Liverpool 3 – 1 City – samfélagsskjöldurinn í höfn!

Liverpool hirti samfélagsskjöldinn / góðgerðarskjöldinn / fyrstiæfingaleikurtímabilsins-skjöldinn með góðum 3-1 sigri í dag þar sem hávaxna nían sem hirti fyrirsagnirnar var rauðklædd.

Mörkin

1-0 Trent (21. mín)
1-1 Álvarez (70. mín)
2-1 Salah (83. mín – víti)
3-1 Nunez (90+4 mín)

Gangur leiksins

Það var í raun bara eitt lið inni á vellinum fyrsta hálftímann eða svo, nánast öll færin sem litu dagsins ljós féllu okkar mönnum í skaut. Salah skaut boltanum í hliðarnetið eftir að hafa labbað framhjá Cancelo eins og hann væri ekki einusinni á vellinum, Robbo átti skalla í hitt hliðarnetið eftir fína sendingu frá Trent, en á 21. mínútu brutu okkar menn ísinn með góðu marki hjá téðum Trent Alexander-Arnold. Díaz fékk boltann vinstra megin, renndi á Thiago sem svissaði yfir á Salah hægra megin, hann renndi á Trent sem hafði gott pláss og lét vaða í skot sem hefði líklega líka geta verið sending inn á teig. Það eina sem sú sending snerti var hins vegar kollurinn á Nathan Ake, en sú snerting hafði þó tæplega nein áhrif á niðurstöðuna því breytingin á stefnunni var lítil og Ederson átti engan séns í boltann.

Eftir markið vöknuðu City menn aðeins, Kevin De Brunye átti skot framhjá eftir að hafa verið kominn nálægt markteigshorninu en var með van Dijk í sér allan tímann og Adrian lokaði vel á hann. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði hálfleiks.

Síðari hálfleikur byrjaði svo á svipuðum nótum og sá fyrri endaði, en fyrstu skiptingar komu þegar um klukkutími var liðinn af leik. City menn skiptu Foden og Álvarez inná, en hjá okkar mönnum kom Darwin Nunez inná í staðinn fyrir Bobby. Hann byrjaði strax á að sleppa einn í gegn en reyndist vera rangstæður, og fimm mínútum síðar slapp hann aftur í gegn, réttstæður í það skiptið, en skotið fór í Ederson (í andlitið á honum nánar tiltekið).

Á 70. mínútu jafna svo City menn, boltinn barst til Foden sem átti skot sem Adrian varði en út og til hliðar, þeir tveir börðust um boltann og okkur fannst Adrian vera með hendur á boltanum, en hann hrökk út þar sem nýliðinn Álvarez potaði honum í netið. Fyrst taldi aðstoðardómarinn að um rangstöðu hefði verið að ræða, en eftir að VAR skoðaði málið kom í ljós að svo var ekki. Það þótti heldur ekki ástæða til að dæma brot á Adrian, og markið fékk því að standa. Líklega réttur dómur, Adrian hefði einfaldlega átt að gera betur.

Það var svo rúmum 10 mínútum síðar að Nunez fékk sendingu inn á teig þar sem hann átti skalla sem fór í varnarmann City og var svo hreinsaður. Nunez heimtaði strax hendi, ekkert dæmt strax en næst þegar boltinn fór úr leik skoðaði VAR málið. Pawson var sendur í skjáinn og þetta þótti nægilega mikil hendi til að dæma víti. Aftur réttur dómur hjá VAR og Pawson. Það var aldrei spurning að boltinn fór í hendina á varnarmanninum, en bara spurning hvort höndin hefði verið í eðlilegri stellingu. Salah fór á vítapunktinn og skoraði með öruggu skoti neðst í vinstra markmannshornið.

Þegar hér var komið sögu var Elliott kominn inná fyrir Henderson, og Milner inn fyrir Trent, skömmu síðar kom svo Keita inn fyrir Thiago, og þegar venjulegur leiktími var liðinn kom Carvalho inn fyrir Díaz. Carvalho þurfti ekki langan tíma til að setja mark sitt á leikinn, því þegar 3 mínútur voru liðnar af 7 mínútna uppbótartímanum (það fór góður tími í bæði VAR tilfellin), þá vann hann boltann á miðjum vallarhelmingi City eftir að City voru að byrja sókn, boltinn barst til Salah hægra megin sem sá Robbo á auðum sjó vinstra megin, sendingin var beint á pönnuna á Andy sem skallaði inn á markteig og þar kom Nunez aðvífandi með Carvalho við hliðina á sér og skallaði örugglega framhjá Ederson. 3-1, og úrslitin ráðin. Darwin reif sig úr skyrtunni í fagnaðarlátunum og fékk auðvitað gult spjald fyrir vikið. Örskömmu seinna fékk svo Erling Braut Haaland dauða-dauðafæri á markteig eftir að Adrian varði skot beint í lappirnar á norðmanninum, en sá ljóshærði skaut í þverslá og yfir. Þar með kórónaðist þessi leikur. Curtis Jones fékk að koma inn fyrir Salah í einhverjar tvær mínútur undir lokin, en fleira markvert gerðist ekki og okkar menn fögnuðu vel góðum sigri og enn einum bikarnum í safnið!

Frammistaða leikmanna

Liðið lék heilt yfir mjög vel, sjálfsagt var frammistaða Adrian sú slakasta, en hann gerði þó það sem til þurfti til að vinna leikinn og varði ágætlega nokkrum sinnum. Tilfinningin er sú að Alisson hefði ekki hleypt þessu marki í gegn, og Adrian verður seint sakaður um að vera mjög góður í að koma boltanum frá sér. Menn virðast vita af veikleikum hans og honum því bara sagt að dúndra boltanum nógu langt, minnugir leiksins gegn Atletico á Anfield í mars 2020. Gallinn er bara sá að þessar þrumur hans fram á við enda yfirleitt hjá andstæðingunum. Við vonum að markverðir númer 1 og 2 verði leikfærir sem allra fyrst, nú og svo spyr maður sig hvort það megi ekki fara að gefa Harvey Davies séns á völdum augnablikum? Hann var a.m.k. á bekk í dag og hefði því verið næstur inn ef Adrian hefði meiðst. En miðað við allt sem Klopp hefur sagt ætti Alisson að vera klár í slaginn um næstu helgi.

Annars er erfitt að ætla að taka einhvern einn út varðandi útnefninguna “Maður leiksins”. Trent er augljóslega með mission í gangi að láta vonbrigði síðasta tímabils ekki endurtaka sig, Salah sýndi svipaða takta og svo oft áður og er greinilega búinn að safna kröftum í sumar, Nunez var mjög ógnandi þegar hann kom inná, Thiago var sami hljómsveitarstjórinn og svo oft áður á miðjunni, bæði Carvalho og Elliott voru ferskir af bekknum o.s.frv.

Almennt má bara segja að liðið okkar leit mjög vel út, það leit klárlega betur út en City, en minnumst þess líka að City eru ekki búnir að vera í jafn massívu prógrammi eins og okkar menn og eru stundum aðeins hægari í gang á haustin. Manni fannst þetta augljóst fyrsta hálftímann, en svo jafnaðist þetta frekar.

Umræðan eftir leik

Klopp nældi sér í dag í síðasta bikarinn sem hann á eftir að vinna á Englandi, og er faktískt búinn að vinna allt sem hægt er með Liverpool. Jú, hann hefði vissulega geta krækt í Evrópudeildarbikarinn á fyrsta árinu með Liverpool, en eftir það hefur liðið svo bara verið í næstu deild fyrir ofan (þ.e. CL), og það stendur ekkert til að detta úr þeirri deild.

Þá var Darwin Nunez aðeins fjórði leikmaðurinn til að skora í sínum fyrsta opinbera leik fyrir Liverpool eftir að Klopp tók við, og fetar þar með í fótspor Sadio Mané, Mohamed Salah og Virgil van Dijk.

Við skulum svo ekkert gera okkur grillur um að það sé búið að gefa út stóradóm yfir Haaland hjá City. Þetta var ekki hans leikur, enda var hann að spila á móti bestu miðvörðum í heimi í dag. Hann á samt eftir að skora fullt af mörkum fyrir City (því miður), og eins eiga eftir að koma dagar þar sem Darwin Nunez á ekki eftir að finna fjölina sína. En njótum dagsins í dag og hvernig sá úrúgvæski átti sviðið í þessum leik.

Næsta verkefni

Það er æfingaleikur á morgun á Anfield þegar Strasbourg koma í heimsókn, það er ögn óvenjulegt að spila tvo leiki á tveim dögum, en ég er nokkuð viss um að þjálfarateymi Liverpool viti hvað þau eru að gera og hafi jafnvel meira vit á þessu heldur en við sófasérfræðingarnir. Það má reikna með að aðalliðið (þ.e. þeir sem byrjuðu leikinn) komi lítið sem ekkert við sögu á morgun, en meiri spurning með þá sem komu af bekknum. Nunez fékk rúmlega hálftíma í dag, hvað spilar hann þá mikið á morgun? Elliott fékk 20 mínútur í dag, spilar hann allan leikinn á morgun? Manni finnst ljóst að Gomez og Konate verði í miðvörðunum enda komu þeir ekkert við sögu í dag, og líklega fær Harvey Davies að taka markvarðarstöðuna – ekki nema Alisson verði kominn til baka, en kannski tæpt að hætta á að meiðslin taki sig upp hjá honum.

Svo tekur alvaran bara við um næstu helgi. Þá heimsækja okkar menn Harry Wilson og félaga í Fulham í fyrsta deildarleik tímabilsins. Veislan er semsagt byrjuð!

30 Comments

  1. Áttum sigurinn skilið.
    Verður Nunez í banni í fyrsta deildarleiknum fyrir að klæða sig úr fötunum í miðjum leik?

    4
  2. Sælir félagar

    Loksins er ég helsáttur við frammistöðu liðsins (Birgir) og mér fannst Liverpool vera betra liðið í þessum leik og eiga sigurinn skilið. Darwin er skrímsli og á eftir að gera vörnum andstæðinga Liverpool lífið leitt. Mér fannst allir leikmenn spila vel og skila sínu. Þetta hefur verið svona þegar Klopp stillir upp byrjunarliðsmönnum í öllum stöðum þá eiga liðin ekki séns. Markið sem Adrian fékk á sig var með þeim hætti að Alisson hefði ekki látið skora hjá sér þar. Annars var Adrian góður sem 3 markvörður og er sú staða vel skipuð hjá liðinu eins og reyndar allar aðrar stöður.

    Það er nú þannig

    YNWA

    16
    • akkúrat, allir sáttir. Grunnurinn að sigrinum er mögulega fagmannlegt undirbúningstímabil, þar sem álagið var á æfingunum en spilatímanum skipt á milli 35 leikmanna.

      Reyndar við mismikinn fögnuð manna. Það er nú þannig.

      7
  3. Frábær skemmtun þessi leikur. Ótrúlega mikið jakvætt. Salah er kóngurinn.

    9
  4. Til hamingju allir þó að þetta sé ekki kanski merkilegasti bikarinn (skjöldur) þá myndu ManU menn telja allt til til að verða sigursælastir aftur þessi færir okkur fjærri þeim og neglir okkur sem sigursælasta lið englands.

    8
      • Sama hvað þeir gera þá eru flestir okkar titlar stæri en þeirra munar bara einum í ensku og verður hann fljóttlega jafnaður og svo tekið frammúr svo mikið er víst :-).

        YNWA

        1
  5. Verðskuldaður og að mínu mati dálítið óvæntur sigur. Bæði vegna þess að Liverpool hefur ekki sýnt einhverja gloríska tilburði undanfarið og Klopp sjálfur er víst búinn að fá auka æfingaleik til að spila liðinu betur saman eftir að leiktíðin er formlega byrjuð. Liðið var einfaldlega betra lungann af leiknum, líklega vegna þess að Man City fóru öfugu meginn fram úr í morgun og voru enn með pírunar í augunum þegar leikurinn byrjaði. Liverpool gjörsamlega tók öll völd og var langt um betra í fyrri hálfleik.

    Síðari hálfleikur jafnaðist og Man City var samkvæmara sjálfu sér. Fóru að ná meiri völdum á vellinum en þó ekki meiri en svo að Liverpool var alltaf líklegt.

    Aldrei þessu vant virkaði VAR í þetta skipti og bæði mörkin sem voru dæmd, bæði hjá City og síðan vítið sem Salah skoraði úr voru hárréttir dómar. Eina sem þarf að bæta er hægagangurinn í kringum það.

    Það var mikill léttir að sjá Núnes skapa usla hjá Man City. Þvílíkur leikur hjá honum. Hann bjó til vítið og innsiglaði síðan sigurinn á lokamínútunum.

    Núnes er minn maður leiksins.

    Í

    13
  6. Geggjað!
    Byrjar vel og full ástæða til bjartsýni með framhaldið.

    Til lukku öll!

    YNWA

    4
  7. Það eina sem Klopp hefur ekki unnið með LFC er “Starfsmaður Mánaðarins”

    #FSGOUT…

    10
  8. No matter what, sigur er sigur, um það sníst málið. Það lið sem fer í þennan leik án vilja til að sigra er ekki á réttum stað. Til hamingju Liverpool með sigurinn, og viljan.

    YNWA

    4
  9. Ég var virkilega ánægður með vinnuna sem Diaz gerði í þessum leik hann var að mínu mati einn af þeim bestu á vellinum þá sérstaklega í þeim fyrri.
    Nunez hvað getur maður sagt þessi gaur kemur inná og gjörsamlega valtar yfir City fær vítið sem Salah skorar úr og svo 3dja markið til að sökkva þeim.

    Getur ekki fengið betra test en að mæta City og skiptir engu þó þetta sé pre season.
    1 Bikar “Skjöldur” í hús og fleiri á leiðini !

    9
  10. Bara geggjað og ef ég hefði fengið að skrifa handritið fyrirfram hefði það verið svona plús eitt mark frá Diaz og firmino. En geggjað að sjá Nunez með þessa innkomu. Þetta er skrímsli. Sá a eftir ef hann vill getað skorað í hverjum einasta leik með þjónustu Arnold, Robertson, Salah, Diaz, Thiago og fleiri. Mun fá 7-10 færi í leik. Hann er ekki eins og Firmino sem er meira og alltaf verið eins og miðjumaður, hann er eins og Lewandowski og Kane. Liggur í boxinu og alltaf a réttum stað. Ég er handviss um að hann verður einn af bestu framherjum í sögu félagsins.

    Allir góðir í dag og Adrian líka en var pínu þreytt að sjá hann taka nánast hvern einasta bolta og skjóta honum útaf.

    6
    • Ertu kvennmaður Viðar Skjoldal ? þreytt en ekki þreyttur bara smá forvitni þar sem nafnið Viðar skjoldal gefur ekki annað til kynna en þú sért karlmaður ?

      YNWA

      4
  11. Stórkostlegur sigur og við með þriðja valið í markinu okkar.

    Sá fyrsti er kominn í hús og örugglega ekki sá síðasti!

    YNWA!

    2
  12. Sæl og blessuð.

    Fyndið sem það er – en ég skrifaði bölsýnispóst við upphitunina sem gekk út á það að Haaland væri klössum fyrir ofan Nunez. En kerfið hleypti póstinum ekkii í gang og ég lét þar við sitja. Sjálfsagt verið einhver spámannspúki á kop.is sem meinaði þessu að fara fyrir almenningssjónir.

    Fyrir mér er þessi skjöldur risastór áfangi og jafn ánægjulegt að pakka mc saman á hlutlausum velli. Takk fyrir mig.

    4
    • Kannaði þetta með að færslan hafi ekki komið inn í upphitunarpóstinum og sé að þú ert alls ekki sá eini sem er að lenda því því að innlegg fari beint í spam, lagaði það sem ég sá.
      Endilega látið einhvern af okkur vita með öðrum leiðum ef þetta er að gerast ítrekað

      5
    • það hefði verið gaman að sjá þennan bölsýnispóst. Varstu kannski að draga ályktanir út frá
      leikjunum á undirbúningstímabilinu?

      Það er engin vafi að í dag er Haaland er stærra nafn en Nunez, enda er Haaland á hærri launum en Mo Salah.

      Það settust nú margir í dómarasætið eftir að Nunez hafði spilað 2x 30 mínútur á undirbúningstímabilinu.

      Fylgdist þú annars vel með Benfica á síðustu leiktíð eða ertu að draga ályktarnir út frá þessum tveimur keppnisleikjum sem þú sást með Darwin Nunez? Vissulega var hann frábær í þeim leikjum.

      En væri ekki skynsamlegra að bíða með að fella þessa dóma þína þar til búnir eru sirka 10 leikir á tímabilinu í stað þess að koma með þá áður en tímabilið hefst?

      3
      • “Það er enginn vafi að í dag er Haaland stærra nafn en Nunez, enda er Haaland á hærri launum en Mo Salah”

        vildi ég sagt hafa

        2
  13. Sælir allir og til hamingju með sigurinn. Þetta var svona sigur þar sem sem aö allir vildu vinna en eftirá ef þú tapar þá myndir þú segja, þessi leikur skipti engu máli. Annað er sem mér finnst skrítið er að við erum með Adrian sem þriðja markmann, reiknar varla með að splia en er móralskt búinn að vera frábær fyrir liðið. Hann fær svo tækifæri í dag og á nokkrar frábærar vörslur en það er eins og það skipti engu máli vegna þess að hann sparkaði ekki nógu vel trá markinu. Held að Allison hefði fengið fimmu fyrir það sem Adrian gerði í dag..

    12
  14. Ég gat ekki betur séð en að með innkomu Darwin þá breyttist leikkerfið hjá Klopp og núna held ég að við höfum þá ógn i níunni sem að hefur vantað lengi. Mér fannst hann fara í 4-2-3-1 en var klárlega að stilla upp 4-3-3 í byrjun þar sem Bobby var falska nían. Með Darwin getum við ekki annað en farið fram á vegin og brotið upp oft þetta dútl sem oft fyrir framan tegin hjá liðum sem sitja djúpt og þröngt.
    Ég er líka mjög spenntur fyrir því að sjá Carvalho því mér var sagt að hann hefði verið prímus mótorinn í því að Fulham náði upp, vona virkilega að hann fái nógu marga sjensa.
    Annars bara solid sigur, City ekki alveg komið i topp form og það sást í dag.

  15. Varðandi Adrian, blessaðan kallinn. Þá fannst mér hann standa sig ágætlega fyrir utan markið sem hann fékk á sig. Mér leið allavega miklu betur að hann dúndraði boltanum af hættusvæði í stað þess að koma liðinu i óþarfa klandur með einhverjum tilraunar sendingum. Hann er þrátt fyrir allt þriðji valkostur hjá liði sem er að spila blússandi sóknarbolta.
    Ef Alison hefði verið í markinu hefði liðið getað spilað allt öðruvísi bolta. Þeir hefðu getað sent boltan meira til markvarðarins því Alison er afburðar sendingamaður. Liðið hefði líka getað verið með varnarlínuna framar því Alison er einn besti markvörður í veröldinni maður á móti manni.

    Adrian er miðlungs markvörður sem gæti mögulega spilað fyrir fallbaráttulið í úrvaldsdeildinni en Alison er einn allra besti markmaður sem uppi hefur verið. Það væri eitthvað undarlegt ef það væri ekki gæðamunur á þeim tveimur.

    Ég hef aldrei séð neinn markmann sem er jafn fjölhæfur og Alison. Ef þeir eru einhverjir þá eru það markmannsgoðsagnir eins og Oliver Neuer. Ég hef séð Alison kasta bolta yfir hálfan völlinn á Mo Salah. Sendingageta hans er ótrúleg, bæði langar og stuttar. Ég er ekki að grínast en mér finnst eins og hann sé með svipaða sendingagetu og krafist er af miðvörðum ef þeir eiga að spila á hæsta kvaliberi.
    . Hann er frá bærmaður á móti manni og á mjög oft undraverðar markvörslur þegar þörf er á því. Það sem er enn ótrúlega er að hann er afburðargóður í öllu þessu.
    Ég furða mig oft á því afhverju Alison er ekki meira í umræðunni um að vera besti markvörður veraldarinnar. Fyrir mér er hann jafn góður og Van Dijk og Mo Salah. Algjör lykill.

    Fyrir vikið áfelli ég ekki Adrian. Hann var ágætur í markinu, þrátt fyrir allt.

    13

Liðið gegn City í góðgerðarskildinum

Æfingaleikurinn gegn Strasbourg