Liverpool 4 – 0 Manchester United

1 – 0 Diaz (05′)

2 – 0 Salah (22′)

3 – 0 Mané (68′)

4 – 0 Salah (85′)

Þessi leikur fór fram í skugga dapurlegra tíðinda af Christiano Ronaldo og fjölskyldu hans. Maður hafði á tilfinningunni að leikurinn gæti orðið skrítinn. Fyrirfram var eiginlega ekki hægt að giska á hvort eða hvernig þetta myndi hafa áhrif á frammistöðu leikmanna. Hvort það yrði þungt hjá öðru liði, eða báðum, eða hvort baráttan yrði kannski meiri en undir venjulegum kringumstæðum. Eftir á að hyggja er líklegt að þetta hafi haft neikvæð áhrif á gestina, sem voru í heimsókn hjá liði sem er e.t.v. það besta í heiminum akkúrat í dag.

Framvindan

Gestirnir mættu með liðsuppstillingu sem gaf til kynna að markmiðið væri aðeins eitt. Það er að verða ekki jafn niðurlægt og í fyrri umferð deildarinnar. Þetta var stór og þykk varnarlína og lítið sem gaf til kynna að liðið vildi heimsækja vallarhelming Liverpoolmanna nema nokkrum sinnum ef tækifæri gæfist til. Það tók þó ekki nema 5 mínútur fyrir okkar menn að splundra þessari þykku en óstarfhæfu varnarlínu þegar Mané smellti boltanum gegnum vörnina á Salah sem sendi boltann fullkomlega frá hægri á Diaz sem kom á fleygiferð og dúndraði boltanum framhjá De Gea af stuttu færi, og kom okkur yfir. Martraðarkennd byrjun hjá gestunum, sennilega það sem þeir vildu allra síst að myndi gerast.

7. mínúta

Leikurinn var réttsvo hafinn aftur þegar 7. mínúta leit dagsins ljós. Það var vitað að línan hafði verið lögð og það átti að senda skilaboð til Christiano Ronaldo og fjölskyldu hans, og hamingjan sanna. Það var klappað og sungið, ekki var annað að sjá en að allir áhorfendur voru með, gestir og heimamenn. Virkilega vel gert og ekki laust við að maður fengi gæsahúð.

Thiago tók völdin

Það má segja að gestrisninni hafi lokið eftir þetta. Leikurinn varð að algjörri einstefnu. Það var ljóst þarna að við vorum að horfa á Thiago eins og hann er bestur. Hann átti miðjuna aleinn og lét gestina líta út eins og þeir væru að prófa að spila fótbolta í fyrsta sinn, og fann alltaf leikmenn og bjó til tækifæri fyrir þá til að skapa meira. Hann gerði alla leikmenn Liverpool betri. Það var svo á 22. mínútu sem annað markið leit dagsins ljós, og aftur var það Mané sem fann Salah með sennilega snyrtilegustu og bestu stoðsendingu tímabilsins. Þetta var eins og hárnákvæm línusending frá Sigurði Sveinssyni, stutt og snyrtileg og kippti vörn Unitedmanna úr sambandi, og Salah kláraði það mjög auðveldlega framhjá De Gea. Einstefnan hélt áfram út hálfleikinn og var Liverpool með boltann í kringum 75% af tímanum, en United átti ekki eitt skot að marki, eða framhjá því.

Seinni hálfleikur

Við byrjuðum akkúrat eins og við gerðum ekki í fyrri hálfleik. United komst inn í leikinn og reyndu að sækja að okkur en þó án þess að skapa sér veruleg marktækifæri. Þetta var orðið frekar þreytt þegar seinni hálfleikur var hálfnaður og Liverpool ekki byrjað að gera sig líklegt.

Leikurinn kláraður

Það var á 68. mínútu, eftir þokkalega viðleitni United manna til að komast aftur inn í leikinn, sem Mané svipti United allri von um að fá nokkuð úr þessum leik. Markið var sprottið af vinstri vængnum þar sem Robbo brunaði upp, og sendi boltann á Diaz sem að lokum fann Mané sem skaut hárnákvæmu, ekki of föstu, skoti viðstöðulaust niður í hægra hornið og De Gea átti aldrei möguleika. Þarna voru allir framherjarnir búnir að skora og leggja upp fyrir hverja aðra. Þokkalegt þríeyki á ferðinni.

Leikurinn kláraður ennþá meira

Salah kláraði leikinn svo fullkomlega á 85. mínútu þegar hann setti fjórða markið. Jota hafði komið inn á fyrir Diaz á 70. mínútu, og náði að setja sitt mark á leikinn með góðri sendingu gegnum vörn United manna á Salah sem kláraði færið sitt af fagmennsku. Það var lítið sem gerðist eftir þetta nema hvað þetta var farið að fara í skapið á gestunum sem hefðu getað sótt sér rauð spjöld með kjánalegum og hættulegum óþarfa brotum.

Góður dagur og maður leiksins

Valkvíði. En já, ef leikurinn hefði bara verið fyrri hálfleikur þá væri það Thiago. Hann átti leikinn og alla miðjuna, og gladdi augað með frábærum tilþrifum í sífellu. Ef hann hefði verið jafn góður í seinni hálfleik væri þetta engin spurning, en hann átti svolítið erfitt eftir leikhlé. Enda kannski þreyttur eftir þrekvirkið sem fyrri hálfleikurinn var hjá honum. Diaz, Mané og Salah áttu allir stoðsendingu og mark, auk þess sem Salah bætti við einu marki. Það er erfitt að gera upp á milli þeirra, því þeir gerðu gestunum virkilega erfitt fyrir og hjálpuðu hverjum öðrum að gera það. Mætti kannski segja að samvinna þeirra væri maður leiksins? Þá má ekki gleyma því að vörnin pakkaði sóknarlínu United saman og drógu allar tennur úr þeim með töng. Ein og ein sending rataði í gegn, og þá var Alisson alltaf á tánum og tryggði að engin raunveruleg hætta steðjaði að. En ég held ég endi samt sem áður á þeim sem ég nefndi fyrst. Frammistaða Thiago í fyrri hálfleik lagði grunninn að öllu saman og ég vel hann mann leiksins.

Slæmur dagur

Ertu að grínast? Þessi kafli á ekki heima í umfjöllun um þennan leik.

Að lokum

Enn erum við á sigurgöngu. Næsti leikur í deildinni er heima gegn Everton á sunnudaginn. Þetta er einn af leikjunum þar sem andstæðingurinn þráir að gera okkur grikk. Þeir eru vissulega ekki með sterkt lið um þessar mundir, en þetta verður örugglega baráttuleikur. Þetta fer e.t.v. að snúast um hvaða leikmenn við þorum að nota og viljum halda heilum. Þegar Thiago á svona leik eins og í dag, þá fer aðeins um mann þegar maður hugleiðir meiðslasöguna. Við höfum alveg misst mikilvæga leikmenn í meiðsli í nágrannaslögum og þetta er ekki tímapunktur þar sem við nennum að taka þátt í svoleiðis.

En nóg af þessu stress-tali. Leikurinn var gjörsamlega frábær og liðið hefur sjaldan eða aldrei verið betra en núna. Það er fátt sem bendir til þess að það sé að breytast.

YNWA

36 Comments

  1. Ég man hvað það var svakalegt að horfa á Suarez 13-14 leiktíðina. Það var eins og hann væri leveli fyrir ofan alla aðra á vellinum. Thiago gefur manni svipaða tilfinningu…

    29
    • Er ekki örugglega búið að reka Spænska lansliðsþálfarann ! Thiago ætti að vera fyrsti maður á blað alltaf þvílíkt fótbolta guð þessi maður.

      YNWA.

      5
    • Skil hvað þú meinar, en mér finnst frekar að flestir í liðinu sitji núna þétt saman á hillunni hans Suarez.

      2
  2. Sæl og blessuð.

    Jæja hver segir svo að boltinn geti ekki bæði verið spennandi og fyrirsjáanilegur en skemmtilegur á sama tíma?

    Ærandi spenna í deildinni. Hef trú á að brighton geri þeim þetta erfitt. En þessi leikur var masterklass í stöðufótbolta og klíník. Það var eins og þeir hefðu ekkert fyrir þessu.

    Og í kaupbæti þá leysi MU Salah okkar úr klakaböndunum og nú er hann farinn að skora aftur. Einmitt það sem við þurftum!

    Geggjað.

    18
  3. Frábær leikur United áttu að sjálfsögðu aldrei séns.
    Salah með yfirburði ásamt Thiago. Diaz og Mané frábærir líka.
    Djufull voru United menn orðnir pirraðir í lokin en skiljanlega voru allir að reyna komast uppúr vösunum hjá okkar leikmönnum orðnir þreyttir að vera þar í 90+ mínutur.

    18
  4. Enn og aftur Thiago Alcântara Maður leiksins, annars var Liverpool fjórfalt betra liðið

    12
  5. Vá. Þvílikir yfirburðir hjá okkar frábæra liði! Thiago var stórkostlegur! Þessi leikmaður er að toppa á hárréttum tíma og liðið allt í rauninni. Enginn er meiddur og sjálfstraustið er í botni. Þvílíka veislan og við komnir á toppinn, þar sem við eigum svo sannarlega heima! I love it!

    18
  6. Munið þið þegar voru tvö stórlið í Manchester borg?
    Bæði Man City og Bolton…

    11
  7. Hvenær unnum við MunU síðast 9-0 á einu tímabili?
    Þvílík frammistaða!
    Mane minn maður leiksins.

    15
  8. það var ekki leiðinlegt að vera staddur á þessum leik. Þvílíkt lið sem er búið að skapa. þetta var frábært kvöld.

    23
  9. Sælir félagar

    Takk fyrir mig Jurgen Klopp og félagar. Yndislegt kvöld á Anfield og allir leikmenn að skila sínu. Thiago og Salah mínir menn leiksins og vonandi er þessi Salah kominn til að vera og í þeirri von vel ég hann endanlega mann þessa leiks. Tvö mörk og stoðsending, það gerist varla mikið betra.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  10. Thiago átti 110 sendingar i leiknum 105 heppnaðar samkvæmt sky…þessi gæi er alveg magnaður….það er augljóst að Keita byrjar i stað Hendo um helgina á móti everton þvilíkt sem það er að hjálpa okkur að geta skipt leikjum á svona gæðaleikmönnum….sem betur fer fékk Keita ekki rautt í kvöld…

    6
    • Ein af þessum fimm misheppnuðu var mjög nálægt því að verða tilþrif leiksins. 105 sendingar og það er ekki eins og hann sé bara safe sendingum

      11
  11. Þvílíkir YFIRBURÐIR ! ! Ég man síðast eftir svona í kringum 1978 til 1982. Mikið er það æðisleg tilfinning þegar scum getur ekki blautann ! Salah mættur, það er æði, Thiago ótrúlegur. Ég var orðinn stressaður á að hannibal hárprúði og fernades myndu meiða einhvern leikmann okkar, en vonandi meiddist engin því næsti leikur er BARÁTTA og þar verð ég.

    Þvílíkir YFIRBURÐIR ! ! TAKK KLOPP !

    11
    • Já, við vorum miklu betri á þessum árum en þeir en það var aldrei svona mikið rúst og burst. Ég man eftir því að leikirnir á milli þessarra tveggja liða voru oft mjög jafnir þrátt fyrir að manstueftirjúnæted gátu ekki mikið þá.

  12. 4 framherjar á vellinum í kvöld. 3 þeirra með mark og stoðsendingu, sá 4. Reyndar bara með 1 stoðsendingu. Á að gera meiri kröfur?

    United mætti ekki bara með rútu í kvöld. Þetta var rúta ofan á trailer en samt sundur spiluð.

    Geðveik mörk, stendur samt mest uppúr hvernig Trent fór með Sancho þegar united reyndi að vera með.

    4
  13. Góðan daginn. Við erum á toppnum í dag bara ef fólk var ekki búið að sjá það. Lallana ætlar að hjálpa okkur í kvöld!

    YNWA!

    15
  14. Fannst best þegar Milner húðskammaði Fernandes fyrir tæklinguna á TAA. Milner er minn maður.

    11
  15. 90tt að 9l0tta vegna 90ðsagnarkenndrar frammistöðu gegn djöflunum á tímabilinu 9:0

    2
  16. Frábær sigur!
    Hvað eru samt margir að horfa á sjittý leikinn í stað chelsea arsenal?

    2
    • Maður sér það á líkamstjáningunni að þeir eru pínulítið stressaðir, City menn. Tókst ekki að skora í fyrri hálfleik og svona…

  17. Af hverju er Graham Potter ekki óskastjóri ManU? Brighton spila fínan fótbolta með leikmönnum sem kosta minna en meðal eins árs leikmannakaup Utd og með launapakka fyrir 25 manna hóp á við hvað bekkurinn hjá Utd er með í laun.

    Með tvo topp klassa sóknarmenn myndu þeir vera að keppa um 4ða sætið.

    2
    • höldum í vonina. 0-0 lokaniðurstöður fengju mann til að fyrirgefa Brighton fylleríið þarna um árið

    • city vinnur alla þá leiki sem þeir eiga eftir það efast enginn um það eftir að hafa horft á leikja prógrammið, þetta eru allt auðveld 3 stig.

      bara við sem eigum erfiða leiki ekki city.

      1
      • Mér fannst nú þessi leikur á móti utd mjög léttur, ætti að vera eins á móti neverton. Bara að þeir slasi ekki okkar menn. Shitty á eftir west ham og banana leiki

        1
  18. Burnley farið að anda ofan í hálsmálið á Everton. Eftir sigur kvöldsins munar bara einu stigi og fall-línan á milli. Ég ætla rétt að vona að Everton láti þetta ekki draga sig ofan í tuddaskap og spörk á sunnudaginn, en Richarlison og Pickford er trúandi til alls. Sjö, níu, þrettán…

    1

Byrjunarliðin Liverpool – Manchester United

Roman Abramovich tíminn á enda