Chelsea 2 – 2 Liverpool

Liverpool mætti á Stamford Bridge og gerði 2-2 jafntefli, sem verður líklega að teljast sanngjörn úrslit en þó á vissan hátt svekkjandi í ljósi þess að okkar menn komust í 0-2.

Mörkin

0-1 Mané (9. mín)
0-2 Salah (26. mín)
1-2 Kovacic (42. mín)
2-2 Pulisic (45. mín)

Gangur leiksins

Það var byrjað með látum í dag, Sadio Mané var kominn með gult spjald eftir u.þ.b. 7 sekúndna leik og 2 sendingar (Hendo tók miðjuna, gaf á Konaté sem átti hefðbundna sendingu upp vinstri vænginn) en hann fór full geyst með olnbogann í Azpilicueta í uppstökkinu. Chelsea spiluðu síðan með aðeins meiri ákefð og komust í hættulegt færi á 7. mínútu þegar hreinsun frá Trent fór í sóknarmann Chelsea og barst þaðan til Pulisic sem var einn gegn Kelleher. Sá írski gerði vel að slá boltann frá löppum Bandaríkjamannsins. Skömmu síðar átti Jota sendingu inn að vítateigsboganum sem varnarmaður Chelsea ætlaði að skalla burt, en boltinn var kominn ansi nálægt jörðu og skallinn misheppnaðist svolítið, þannig að Mané náði boltanum, lék á Mendy og sendi boltann örugglega í markið. 0-1 eftir 9 mínútur, hugsanlega aðeins gegn gangi leiksins, en það bara spyr enginn að því. Mané lauk þar með markaþurrð upp á allt of marga leiki, og líklega mesti léttirinn fyrir hann sjálfan. Okkar menn hresstust aðeins við þetta, en þetta var samt áfram ströggl. Á 26. mínútu kom gott samspil hægra megin, boltinn barst til Trent sem spottaði hlaup Salah inn fyrir vörnina, og Salah gerði engin mistök þegar hann renndi boltanum framhjá Mendy í nærhorninu. Mjög klassískt Salah mark, sem fagnaði þó ekki af virðingu við sitt gamla félag, en þarna skoraði hann sitt fyrsta mark gegn þeim á Stamford Bridge. Þarna voru okkar menn komnir almennilega í gang, og áttu leikinn næsta korterið eða svo. Þá gaf Milner klaufalega aukaspyrnu upp við endalínu, Kelleher varði skotið út í teig þar sem Kovacic kom aðvífandi og skaut viðstöðulaust í stöngina inn, gjörsamlega óverjandi fyrir hvaða markvörð sem er í heiminum. Svekkjandi að fá á sig þetta mark með þetta stutt í hálfleik, en það var svo enn meira svekkjandi þegar Pulisic fékk boltann inn fyrir vörnina og jafnaði leikinn fyrir Chelsea, aftur óverjandi fyrir Kelleher.

2-2 í hálfleik, kannski ekki ósanngjarnt þegar á heildina er litið en gríðarlega svekkjandi að hafa misst niður tveggja marka forskot í enn eitt skiptið á leiktíðinni.

Síðari hálfleikur var svo tíðindaminni hvað mörk varðar, en bæði lið fengu samt alveg færi til að gera út um leikinn. Keita og Ox komu inná fyrir Milner og Keita þegar um 20 mínútur voru til leiksloka, en hvorugur bætti leik liðsins nema síður sé. Í lokin kom svo Jones inn fyrir Mané, en fékk nánast bara uppbótartímann.

Úrslitin 2-2, sem almennt væru ekkert alslæm úrslit á þessum velli gegn þeim bláklæddu, en í ljósi stöðunnar verður að segjast að þarna töpuðust 2 stig hjá báðum liðum og staða City á toppnum styrktist enn frekar.

Frammistöður leikmanna

Það er erfitt að ætla að skella skuldinni á einhvern einn leikmann. Auðvitað munar um að missa Alisson, Firmino og Matip úr byrjunarliðinu, en Kelleher stóð fyllilega fyrir sínu og Alisson hefði ekkert frekar varið þessi mörk sem liðið fékk á sig. Konate var ekkert mikið síðri en Matip hefði verið. Jú það hefði verið gott að geta kallað Firmino inná í staðinn fyrir að þurfa að spila Ox úr stöðu, en það var ekki eins og hann breytti miklu í síðasta leik gegn Leicester þegar hann kom inná þá. Almennt eru menn sammála um að miðjan hafi alls ekki fundið sig í þessum leik, þrátt fyrir að hún hafi samanstaðið af tveimur af þremur byrjunarliðsmönnum þegar allir eru heilir. Milner var ekkert áberandi lélegri heldur en Hendo og Fab, þó vissulega eigi hann svolítinn hlut að máli í fyrsta marki Chelsea þegar hann gaf aukaspyrnuna sem leiddi til marksins. Hefði Thiago verið betri? Hann er vissulega með betra vinningshlutfall…

Gefum Kelleher nafnbótina maður leiksins.

Umræðan eftir leik

Núna er staðan sú að City eru með 10 stiga forystu á Chelsea í 2. sæti, og 11 stiga forystu á okkar menn, sem þó eiga leik til góða og gætu því minnkað forystuna niður í 8 stig með sigri gegn Leeds. Sá leikur hefur ekki verið tímasettur, og spurning hvort honum verður skellt á áður en Mané, Salah og Keita koma til baka. Það væri mjög dæmigert.

Spurningin er hvort Liverpool nái að vinna upp þetta 11 stiga (mögulega 8) forskot á City. Það er a.m.k. ljóst að á meðan allt fellur með City mönnum, þá eru líkurnar nákvæmlega engar. Okkar menn búnir að vinna 2 stig af síðustu 9 mögulegum, á meðan City eru núna búnir að vinna 11 leiki í röð í deildinni, töpuðu síðast stigum gegn Palace þann 30. október. En ef gæfan yfirgefur þá ljósbláklæddu, þá getur allt gerst.

Eins er ljóst að okkar menn verða að girða sig í brók og hætta að glutra niður forskoti. Það að hafa misst niður tveggja marka forystu niður í jafntefli jafn oft og raun ber vitni getur ekki gengið til lengdar.

Svo er ekki eins og AFCON og Covid séu að hjálpa til. Mané, Salah og Keita munu missa af næstu 5 leikjum; tveir í Carabao Cup gegn Arsenal, einn gegn Shrewsbury, og svo tveir leikir í deildinni gegn Brentford og Crystal Palace. Ef það halda áfram að koma upp smit í hópnum þá verður hópurinn ansi fáliðaður. Þá er líka eins gott að Minamino og Origi braggist fljótlega, það væri t.d. mjög gott ef þeir verða búnir að ná vopnum sínum á fimmtudaginn.

Framundan

Jú mikið rétt, á fimmtudaginn er næsti leikur. Fyrri leikurinn gegn Arsenal í undanúrslitum Carabao bikarsins. Leikurinn fer fram í London, og í ljósi þess að aðalliðið hefur í raun ekkert annað betra að gera en að spila þessa tvo leiki áður en Brentford mætir í heimsókn á Anfield í deild þann 16. janúar, þá má reikna með að Pep Lijnders stilli upp eins sterku liði og mögulegt er, en láti einhverja pjakka taka bikarleikinn gegn Shrewsbury á sunnudaginn eftir viku. Hvaða pjakkar ættu að fá að taka þann leik? Einhverra hluta vegna fengu engir þeirra einusinni að vera á bekk í dag, jafnvel þó svo það vantaði allt sem héti framherja á bekkinn (þeir hefðu svosem aldrei fengið að spila hvort eð er, en mögulega hefðu þeir haft gott af því að venjast andrúmsloftinu á bekknum). Við höfum líka ekkert heyrt af Covid status á þeim leikmönnum, en svona fyrirfram myndi maður veðja á að sjá andlit eins og Kaide Gordon, Matheuz Musialowski, Max Woltman, nú og spurning hvort James Balagizi sé búinn að ná sér af meiðslunum sem voru að hrjá hann. Kannski sjáum við Harvey Blair aftur, en hann hefur lítið sést eftir frumraunina fyrr í vetur.

Og gleymum því svo ekki að það gætu enn komið upp smit meðal leikmanna. Sem betur fer virðast leikmenn vera að sleppa að mestu vel undan veirunni, vonum að það haldist áfram.

Krossum fingur, þó líkurnar á deildarsigri fari stöðugt minnkandi eru samt ennþá þrír bikarar þar fyrir utan í boði. Hirðum allavega einn, ef ekki tvo. Díll?

25 Comments

  1. Sanngjörn úrslit í hörku leik. Akkúrat núna eru þetta næst bestu liðin í enska boltanum….en er einhver að gefast upp fyrir city……..ekki ég og örugglega ekki Klopp eða leikmennirnir en alltof margir stuðningsmenn. Hvað er að þegar menn gefast upp strax í janúar…..skil það ekki en það er bara ég. Brekkan er brött en langt frá því sú brattasta sem við höfum verið í.
    Gleðilegt ár og allt það, þið eruð bara ágæt öll sem eitt 🙂
    YNWA

    30
  2. 1 stig á þessum velli væru venjulega ekki slæm úrslit en þau eru það eiginlega í dag því að við erum að missa Man City annsi langt fram úr okkur og núna snýst þetta bara um að ná meistaradeildarsæti og keyra á hina bikarana.

    Þessi leikur
    Byrjum ekki vel og voru heimamenn sterkari en við komust yfir.
    Svo er þetta bara fram og til baka og viti menn við skorum aftur 0-2 yfir.
    Þarna tókum við svo völdinn á vellinum og fórum að láta boltan ganga og þeir virtust vera sleggnir út af laginu svo að við sigldum þessu heim er það ekki? Neibb, ekki Liverpool.
    Milner gaf óþarfa heimskulega aukaspyrnu sem þeir skora úr eftir hreinsun( geggjað mark)1-2
    Konate ríkur úr vörn og Van Dijk á skokkinn og Chelsea jafnar 2-2.

    Þessi fyrir hálfleikur var geggjuð skemmtun ef þú hélst ekki með Chelsea eða Liverpool því að hraðin og ákefðin + færi = Skemmtun.

    Síðari hálfleikur var ekki með eins mikil læti og voru báðir stjóranir aðeins búinir að múra fyrir götin í varnarleiknum en á tímabili stjórnuðum við leiknum mjög vel en svo hægt og rólega datt þetta bara í ekkert og 2-2 niðurstaðan sem eru svekjandi úrslit eftir ágætan leik.
    Það var ömurlegt að missa stjóran, Bobby, Alisson og Matip fyrir þennan leik en það er engin afsökun að hafa ekki náð 3 stigum í dag. Í stöðunni 0-2 þurfum við að geta verið skynsamir, draga úr hraða, halda boltan betur og passa að gefa þeim ekki ódýrar aukapsyrnur eða leyfa þeim að sleppa í gegn.

    Kelleher stór sig eins og hetja í dag. Varnarlínan var frekar óstöðug, miðjan var í tómu tjóni lengi vel í fyrri hálfleik en vann sig svo inn í leikinn, sóknarlínan var mætt í dag og var áræðin en bæði Mane/Salah skoruðu mjög flott mörk en það var helst Jota sem var ekki með í dag.

    Næst á dagskrá er Arsenal í deildarbikar, Fa Cup leikur og svo aftur Arsenal í deildarbikar en Covid hjá Bobby hefði ekki getað komið á verri tíma því að núna þurftum við verulega á honum að halda og þá er hann ekki til staðar(ekki honum að kenna en dæmigert fyrir Liverpool). Mane, Salah og Keita eru þá farnir og þurfa hinir einfaldlega að standa sig en það var gott að sjá C.Jones koma inn á og svo styttist víst í Minamino, Origi og H.Elliott

    YNWA –

    9
  3. Enn eitt jafnteflið. Og enn einn leikurinn þar sem liðið tapar niður forystu og í þetta sinn voru það tvö mörk.

    Gerist þetta nógu oft, þá stimplar liðið sig út hægt og rólega.

    Og nú er raunin sú; deildin er búin þetta tímabilið – og það 2. janúar.

    Það er alltaf næsta tímabil.

    10
  4. Tek undir. City búnir að vera frábærir – líka svolítið heppnir og dómgæsla oftar en ekki þeim í vil. Við getum ennþá unnið ef hlutir falla rétt. Ég hef verið ánægður með spilamennsku liðsins síðustu vikur og þennan vetur – og við höfum ekki alltaf haft heppni með. Í nýafloknum leik vorum við betri framan af, Chelsea frekar betri í seinni hálfleik. Við tökum þetta stig á útivelli án Klopps. Og áfram gakk!

    5
  5. Mig langar að sjá Liverpool gera allt til að vinna Carabao Cup. Ég veit þetta þykir ekki merkilegur bikar en þetta er bikar enga að síður og allt í lagi fyrir liðið að lyfta einum.

    Ég er einn af þeim sem spáði City titlinum og ég er bara sannfærðari en fyrr. Liverpool spilar áfram skemmtilegan bolta en þetta er ekki eins sannfærandi og maður hefði viljað. Liverpool þarf að vinna tíu leiki í röð til að mögulega ná City, ég sé það bara ekki gerast.

    En gleymum því ekki þetta var á Stamford Bridge og jafntefli hafa þó ágætt úrslit þar.

    Áfram Liverpool!!!

    15
  6. 2 stig úr síðusu þremur leikjum er bara alltof lítið í þessari baráttu við city. Jafnteflin við B&B og tap á móti WH verða rándýr þegar talið verður í vor. Til að halda í við city verður að kaupa amk einn á hverju sumri sem styrkir liðið, eitthvað sem FSG hafa ekki áhuga á.

    12
  7. Sælir félagar

    Þrátt fyrir að sumir virðist sáttir við niðurstöðu þessa leiks er ég það ekki. Að tapa niður tveggja marka forskoti á 5 mín. er ekki í lagi. Frammistaða varnarinnar undanfarið er mikið áhyggjuefni og er búin að vera okkur dýr.

    Annars bara spurning til ykkar félagar: Hvað eru miðverðir Liverpool búnir að skora mörg mörk með skalla úr óteljandi föstum leikatriðum á þessari leiktíð? Það verður fróðlegt að sjá hvort einhver hefur getað talið mörkin sem þessi hópur tveggja metra manna hefur skorað.

    Svo óska ég M. City til hamingju með meistaratitilinn. Þeir eru einfaldlega bezta lið Englands nú um stundir

    Það er nú þannig

    YNWA

    15
    • Góð pæling, en hefur þessm mörkum ekki bara farið fækkandi hjá öllum liðum? Manni finnst ekki sama ógn að sjá miðverði mæta í teiginn í hornspyrnum og áður.

      5
  8. FSG hefur eftir að tveimur titlum var náð sýnt fádæma metnaðarleysi og skort á framsýnini. Leikmannahópurinn ee þunnur og hungrið ekki til staðar. Fannst Chelsea vinn flesta 50/50 bolta í dag.

    14
  9. Ég segi bara verður gaman að sjá hvernig við leysum það að vera án 2 bestu leikmanna liðsins fyrir utan allt annað sem gengur á meiðslum og covid.
    Get ekkert sagt ég sé spenntur en hver veit kanski nær Jota og mögulega Firmino að redda þessu og styttist ekki í Origi annars en samt úff.

    3
    • hef satt að segja meiri trú á Origi en Firmino í dag. Amk þegar kemur að því að skora mörk.

      3
      • Já Origi kallinn var bara farinn að sýna takta og svo meiddist hann en vonandi styttist það munum þurfa all hands on deck núna það er morgunljóst.

        3
  10. Erum að falla í sama cyndrom og í fyrra.
    Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

    4
  11. Gefumst ekki upp. Loksins skoraði Mané og það verður fróðlegt að sjá hvað smá “breik” frá Liverpool geri honum. Hef talað fyrir að hans tími hjá Liverpool sé búin en ég er tilbúin að gefa honum séns út tímabilið. Ég dýrka þennan gaur og hann er klárlega legend í klúbbnum en hann er enn að tapa boltanum oft klaufalega og er ekki jafn deadly í teignum eins og hann var. Hefði eflaust skorað tvö í dag í sama formi og hann var á meistaratímabilinu.

    11 stig með leik til góða er ekkert ómögulegt. Chelsea – City er í miðjum janúar og fljótlega í febrúar eiga þeir Tottenham, Everton og United í einni beitu samhliða meistaradeildinni. Við mætum þeim svo í 32 umferð og þá gæti staðan verið sú að við gætum nartað í hælana á þeim með sigri, að því gefnu að okkar “slæmi kafli” sé búin og það komi vonandi smá skakkaföll í þeirra hóp.

    Annars vona ég að við verslum inn að minnsta kosti einn leikmann í janúar. Okkur sárvantar striker (níu) að mínu mati sem vill ekki vera jafn mikið í boltanum og Jota og Bobby, einhvern sem hengur inní teig og tekur þessu blindu hlaup á nær/fjær og potar honum inn. Vlahovic í Firoentina tildæmis. Ég sé það samt ekki gerast að það komi nokkur maður inn, svo nískir eru þessir eigendur.

    YNWA

    6
  12. Rosalega finnst mér sem að verið sé að veifa hvíta handklæðinu á völlinn af yfirmönnum Liverpool eins og endranær, af hverju ekki að styrkja liðið almennilega.
    Það er hrokafullt að halda að það sé nóg að hafa Klopp sem stjóra og þá þurfi ekkert meira til, öll önnur lið eyða peningum til að ná árangri.
    Leikmenn eins og Origi, Minamino, Chamberlain eiga í raun ekkert erindi í þetta lið ef við ætlum að reyna að halda í við City og chelsea.
    Ég vil sjá Liverpool fara á eftir alvöru leikmanni sem getur lagt upp og skorað mörk, það er rosalega erfitt að ætla Salah að sjá um þetta endalaust sjálfan.
    En eins og áður þá mun sennilegast ekkert gerast og svo allt í einu verða flestir leikmenn liðsins komnir öfugu megin við þrítugt og þá fyrst verðum við í vandræðum.
    Burt með þessa rusl eigendur.

    11
  13. Hvernig getur man united verið í úrvalsdeild, sjaldan séð jafn lata leikmenn spila fótbolta.

    Þokkalega viss um að Berbatov væri að hlaupa mest í liðinu hjá þeim þó svo að hann væri að reykja 2x pakka á dag og kominn yfir fertugt.

    5
    • Ég verð hissa ef Ralf Rangnick endist út tímabilið. Stóru kaupin byrjuðu leikinn, Varane, Ronaldo og Sancho. Kaupin sem áttu að færa þeim titilinn. Þvílíkt fíaskó.

      5
      • Ekki vildi ég vera Donny van de Beek. Einn af glæsilegustu ungspilurum Hollands og allt í öllu hjá Ajax þegar hann var keyptur til “stórliðs” Man Utd 23ja ára en hefur síðan myglað úti í runna í eitt og hálft ár. Ferilinn í stórhættu, þegar hann ætti frekar að vera að komast á sín allra bestu ár.

        4
  14. GHH, Man U lék vissulega illa og slíkt er smá sárabót núna þegar Liverpool á ekki nokkurn möguleika lengur á englandsmeitaratitli.

    4
    • Svona álíka möguleika og Man U að komast í Meistaradeildina. Verði þér að góðu ef það gleður þig.

      2
  15. Sæl og blessuð.

    Við höldum okkar striki og styðjum okkar lið. ,,Count your blessings” segja þeir og það á vel við um City. Þeir hafa verið ljónheppnir, allt hefur fallið þeim í hag. Svona lagað getur breyst og skyndilega hafa lukkudísir snúið við þeim bakinu. Vissulega þurfa þeir að tapa allmörgum leikjum en mótið er bara hálfnað og allt getur gerst.

    Jæja, en svo sjáum við hvernig á ekki að standa að því að reka fótboltalið – þegar MU er annars vegar. Hvað hafa akademíuþjálfarar, njósnarar og snuðrarar verið að gera öll þessi ár? Þarna eru tveir ,,öldungar” í fremstu víglínu og liðið reynir að töfra fram einhverja gagn-pressu með hlægilegum árangri. Skársti maðurinn hjá þeim var víst sá svipfríði Jones sem hefur ekki alveg glatað neistanum eins og svo margir aðrir sem hafa álpast til þessa liðs.

    Já, þarna voru allir nýju leikmenn tímabilsins mættir, Ronaldo, Varane, Sancho… og hver var víst öðrum slappari. Nú dettur þeim ekkert betra í hug en að opna peningaskápinn enn á ný og reyna að tryggja sér enn eina rándýru patent-lausnina sem á að forða þeim frá niðurlægingu!

    Má ég þá frekar biðja um okkar hóp þar sem leikmenn (langflestir) vaxa og berjast fyrir liðið og stuðningsmennina. Jú, miðjan okkar hefur verið slöpp undanfarna leiki en það er alls ekki víst að lykillinn sé að kaupa eitthvað nýtt (það tekur líka tíma að ala upp fólk). Mögulega taka þeir við sér sem eru nú þegar á staðnum.

    Jæja, fáein ,,vísdómsorð” svona til að slútta þessu. Stig á útivelli á móti Chelsea hefði nú einhvern tímann þótt gott en nú er bara svindl og svínarí í gangi. En vitum til. City á eftir að fipast flugið og þá verður þetta amk. spennandi aftur!

    8
  16. Varðandi næstu leiki með Liverpool (deildarbikar og FA bikar) – eru þeir allir á Stöð2 sport og ætli sé hægt að kaupa einn og einn leik í gegnum Símann Premium?

    Svo er spurning, veit einhver hér hvernig hægt er að horfa á Afríkubikarinn (langar að fylgjast aðeins með t.d. Senegal og Egyptaland), þ.e. er ViaPlay, Stöð2 sport eða Síminn sport að sýna þessa leiki?

  17. City búið að hlaupa burtu með titilinn. Salah og Mané frá í heilan mánuð og ekkert vetrarfrí út af frestuðum Covid leikjum. Klopp vildi ekki fresta leikjum út af einmitt þessu en svona er lífið. Munum alltaf enda í top 4 því West Ham og Tottenham eru ekki að fara ná okkur.

    1
  18. Fréttir að berast af fjölda Covid-smita hjá Liverpool. Frestun í kortunum fyrir bæði Arsenal og Shrewsbury leikina. Skýrist væntanlega á blaðamannafundi Pep Lijnders í fyrramálið.

    1

Liðið gegn Chelsea

Enn fleiri Covid smit