Liverpool – Porto (aftur), upphitun

Þegar dregið var í riðla fyrir Meistaradeildina í ár vissu allir að B-riðilinn var dauðariðill. Ríkjandi Spánarmeistarar Atletico Madrid, Porto lið sem er hokið reynslu, hinir fornfrægu AC Milan og Liverpool sem þrátt fyrir hörmungartímabil árið á undan eru alltaf líklegir í Evrópu. Ef litið er á söguna var þetta líka rosalegur riðill, samtals fimmtán evrópumeistaratitlar í bikarskápunum. Spekingar spáðu spennu í þessum riðli og að allt gæti gerst.

Það sem gerðist var að lærisveinar Klopp snýttu riðlinum svo gjörsamlega að eftir fjórar umferðir er staðfest að riðilinn er unninn. Það eina sem er í húfi fyrir Liverpool í þessum síðustu tveim leikjum er sá aukapeningur sem UEFA gefur fyrir sigurleiki, að Liverpool geti orðið fyrsta enska liðið til að vinna alla leikina í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, og stoltið.

Ég efa að Klopp sé að hugsa um einhver met, en hann er keppnismaður og vill vinna þennan leik, en væntanlega verður engin séns tekinn á tæpum leikmönnum.

Það má færa rök fyrir að fyrsti leikur þessara liða undir stjórn Klopp hafi verið besti leikur Mané

Andstæðingurinn – Porto

Porto menn eru orðnir okkur púllurum mjög kunnir. Þeim hafa verið gerð góð skil hér áður, enda er þetta sjötti leikur liðanna á fjórum árum. Ég ætla að gera gömlum Kopverjum þann greiða að linka ekki á elstu fréttina á síðunni um Porto, sem var um sigur þeirra í Meistaradeildinni 2004. Í kommentaþræðinum þar má finna nokkra góða menn að ræða hversu geggjað væri að fá þjálfara Porto til Liverpool. Nafn þjálfarans? Mourinho.

Niðurstöðurnar hafa vera nokkuð einsleitar síðustu ár: 5-0, 0-0, 2-0, 4-1 og nú síðast 5-1. Fjórir sigrar og jafntefli, markatalan 16-2. Mönnum myndi fyrigefast fyrir að halda að þetta Porto lið sé ekki upp á marga fiska.

En það er langt því frá að þeir lifi á fornri frægð. Kosturinn við að vera í áskrift að toppsætum í sinni deild er að komast ár eftir ár í Meistaradeildina og reglulega hafa þeir komist uppúr riðlinum. Þeir eru með öfluga blöndu af reynsluboltum og ungum og efnilegum.

Svo er einn lykilmunur á liðunum í þessum leik: þeir hafa að einhverju að keppa. Þeir eru stigi á undan Atletico í riðlinum og eiga lokaleik við Spánverjana. Porto vita að ef hið ótrúlega gerist og þeir sigra á Anfield gætu þeir mögulega komist uppúr riðlinum fyrir loka leikinn (ef Milan tekur upp á að vinna Simone og hans menn). Porto vita líka að ef þeir tapa báðum leikjunum sem þeir eiga eftir gætu þeir mögulega endað í seinasta sæti riðilsins.

Á sama tíma eru þeir í hörku glímu í Portúgölsku deildinni við hin stórveldin þar: Porto og Sporting eru með 29 stig hvor og einu á stigi á eftir þeim eru Benfica. Portúgalarnir hituðu upp með stíl fyrir leikinn annað kvöld. Þeir slátruðu Feirenese 5-1 í bikarnum og hafa þeir aðeins tapað einum af síðustu níu leikjum.

Þeir náðu að hvíla nokkra lykilmenn um helgina og munar mestu um að Pepe spreytir sig á Anfield eftir að hafa meiðst í upphitun fyrir Liverpool og Porto síðast. Við munum líklega fá að sjá hann Grujic aftur, en hann hefur verið að gera fínt mót hjá Porto í vetur, eins og í fyrra. Þjálfarinn þeirra, Sergio Conceicao sagði á blaðamannafundi fyrir leik að Liverpool mættu eiga vona á harðara Porto liði. Líklega hárrétt. En það hefur verið sagt af góðum mönnum nýlega að þegar Liverpool spilar skiptir minna hvernig andstæðingurinn spilar og öllu hvernig Liverpool mætir til leiks.

Okkar menn

Klopp komst skemmtilega að orði í dag þegar hann sagði að á þessum tíma sé liðslæknirinn oft valdamesti maðurinn þegar kemur að byrjunarliðinu. Það er samt farið að rofa aðeins til í meiðslamálum, „aðeins“ Firmino, Jones, Gomez og Elliot eru staðfest úti. Allir aðrir æfðu eitthvað í gær þó nokkuð margir séu tæpir.

Ég hef séð spekúlanta ganga svo langt að spá Kelleher í markinu, sem ég held að verði ekki. Við lærðum í fyrra að Klopp vill vinna evrópuleiki þó riðillinn sé dauður þannig að ég held að hann reyni að halda einhvers konar hrygg af reyndum mönnum. Þannig að ég spái Alisson og Matip í byrjunarliðinu, með Konate honum við hlið. Ég held að Tsimikas fái að halda sæti sínu en einhvern tíma verður Trent að fá hvíld og Neco Williams fær vonandi sénsinn á morgun.

Á miðjunni er dæmið flóknara. Hendo, Keita og Milner eru allir tæpir þó þeir hafi æft, Thiago og Fabinho spiluðu um helgina gegn Arsenal. Finnst líklegt að Alex Oxlade Chamberlain fái að halda sæti sínu og flestir vilja að Tyler Morton fái að byrja eftir að hann kom inná gegn Arsenal. Svo er það spurning hver verður með þeim en ég ætla að giska á Thiago.

Fremst á vellinum finnst mér augljóst að Minamino fái að byrja leikinn, spurning hver fær að hvíla. Líklegast að það verði Jota eftir höggið sem hann fékk nýlega. Þetta verður semsagt svona:

 

Spá.

Ég er ekkert að farast úr bjartsýni fyrir þennan leik. Held ef ég segi eins og er að þetta fari 2-2. Minamino og Salah koma okkar mönnum í góða stöðu fyrir hálfleik áður en einhver klúður valda því að Porto komist inn í leikinn og jafni. Það verðuru bara að hafa það.

Er ég of bölsýnn? Hvernig spáið þið þessu? Eruð þið kannski í Liverpool á leið á leikinn?

7 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir upphirunina Ingimar. Mér er nokk sama hvernig þessi leikur fer. Ég vil að hann sé notaður til aðkoma meiddum mönnum í gang aftur ef þeir eru á annað bortð orðnir góðir af meiðslum sínum. Svo verði fyllt uppí með kjúllum og framlínan verði eins og Ingimar leggur til. Annars bara góður eftir leik helgarinnar sem var unaðsleg skemmtun.

  Það er nú þannig

  YNWA

  6
 2. Takk fyrir þetta. Vona þó að Matip sleppi við þennan leik og N Phillips komi í staðinn.

  6
 3. Sigur í þessum leik skiptir miklu máli og sérstaklega peningalega, Liverpool fær 2,75 mp fyrir sigur í hverjum leik í riðlakeppninni.
  Ég er sammála Ingimar með byrjunarliðið, Klopp mun byrja með sterkt lið og að sjálfsögðu reyna að sækja sigur.

  3
 4. Óvæntar fréttir frá teamtalk sem segja Salah a barmi þess að skrifa undir nýjan samning. En hversu áreiðanlegar eru fréttir frá Teamtalk ? Eru þeir ekki svona meðal blað bara mun skárri en mörg rusl blöðin eða eru þeir bara í þeim flokki. Ef er búin að hugsa allt tímabilið að þetta sé síðasta tímabilið sem ég sé dag hjá okkur því við semjum aldrei um 4-500 þús pundin en kannski kemur hann Aníta við okkur eins og van dijk í sumar sem samdi um 220 en hefði vel getað fengið 400 annarsstaðar.

  En verður gaman að sjá liðið í kvöld , spái 6-7 breytingum frá leiknum síðustu hekgi sem á samt að vera nóg til að vinna Porto heima, okkur reyndar gengið betur með þá á útivelli og rúllað yfir þá þar en breytir engu við viljum vinna í kvöld og gerum það vonandi

  2
 5. Atti að sjálfsögðu að standa að eg sé búin að hugsa allt tímabilið að þetta sé það síðasta sem ég sé Salah hjá okkur.

  Svo atti að standa kannski kemur hann eittthvad til móts við okkur eins og van dijk gerði í sumar.

  Svona gerist þegar maður er að drífa sig sorry með tetta

  2
 6. Held að Klopp byrji með nokkuð sterkt lið, reyni að ná mörkum í fyrri, sem eigi að duga til sigurs. Breyti síðan ef ekki strax í seinni, þá fljótlega. þetta er plan A, plan B kemur í ljós, en sigur væri sterkt.

  YNWA

 7. Liverpool team news
  Team to play Porto: Alisson, Williams, Matip, Konate, Tsimikas, Morton, Thiago, Oxlade-Chamberlain, Mane, Salah, Minamino.

  Subs: Adrian, Kelleher, Fabinho, Van Dijk, Milner, Henderson, Jota, Robertson, Origi, Phillips, Alexander-Arnold.

Gullkastið – Af Molde ertu kominn, að Molde skaltu aftur verða

Sterkt en róterað lið gegn Porto