Fyrsti stórleikur kvennaliðsins á leiktíðinni: heimsókn til Sheffield

Á morgun, laugardaginn 9. október kl. 13, er komið að fyrstu virkilegu þolrauninni hjá kvennaliði Liverpool á þessari leiktíð, ekki svosem að fyrstu leikirnir hafi verið einhver dans á rósum, en nú má segja að fyrst fari virkilega að draga til tíðinda. Liðið heimsækir Sheffield United, sem er jafnt okkar konum við topp deildarinnar, aðeins Durham er ofar.

Það að mæta liði Sheffield í dag er svolítið eins og að horfa í ca. tveggja ára gamlan spegil, enda fyrirfinnast þar ýmis gamalkunnug andlit. Markvörður er Fran Kitching, fyrirliði og miðvörður er Sophie Bradley-Auckland, með henni í vörninni er Tara Bourne, og frammi eru þær Jesse Clarke og Courtney Sweetman-Kirk. Þjálfari er Neil Redfearn. Allt andlit sem sáust hjá Liverpool í lengri eða skemmri tíma. Tara Bourne lék reyndar aldrei aðalliðsleik fyrir Liverpool, en var með á myndinni frægu “two teams, one club” sem tekin var 2019. Hún er reyndar samningsbundin Manchester United, en var lánuð til Sheffield á þessari leiktíð.

Langlíklegast er að Matt Beard stilli upp sama liði og síðast, og haldi sig við 3-4-3 leikkerfið:

Laws

Moore – Robe – Matthews

Wardlaw – Kearns – Holland – Hinds

Kiernan – Hodson – Lawley

en við uppfærum færsluna með réttu byrjunarliði um leið og það verður tilkynnt.

Leikurinn verður sýndur á Youtube rás Sheffield United. Búum okkur undir að þulirnir muni þekkja stelpurnar okkar svona misvel.

Við uppfærum svo færsluna með úrslitum síðar sama dag.


UPPFÆRT: leik lokið með góðum 0-2 útisigri. Lánskonan Charlotte Wardlaw opnaði markareikning sinn með góðu skoti í upphafi leiks, og Leanne Kiernan hélt uppteknum hætti og bætti öðru við upp úr miðjum fyrri hálfleik, aftur eftir stoðsendingu frá Rachel Furness eins og í síðasta leik. Þar við sat, en Liverpool var mun líklegra til að bæta við marki í síðari hálfleik. Annars átti Rachael Laws stórleik í því að taka góðan tíma í útspörk og fékk m.a. gult fyrir vikið, en henni tókst a.m.k. að drepa niður allan hraða sem Sheffield gat einhverntímann vonast til að ná upp.

Það var reyndar alls ekkert sama lið og síðast sem hóf leik, því Niamh Fahey kom í vörnina í stað Meikayla Moore, þá kom Rachel Furness inn á miðjuna í stað Missy Bo Kearns, og Yana Daniels fékk sénsinn í framlínunni á kostnað Ashley Hodson.

Staðan er þá þannig að Liverpool er efst í deildinni! Mögulega tímabundið að vísu, því Durham á leik á morgun og geta með sigri endurheimt efsta sætið. En við tökum öllum svona fregnum fagnandi.

Næsti leikur í deildinni er svo ekki fyrr en 31. október, en líklega er leikið í deildarbikarnum í millitíðinni, og við munum að sjálfsögðu fjalla um það.

3 Comments

  1. Áfram stúlkur! Upp í efstu deild með ykkur! Þar og hvergi annarsstaðar á Liverpool heima.

    2
    • Við vonum það að sjálfsögðu. Durham reyndar vann sinn leik á sunnudaginn, svo okkar konur eru í 2. sætinu í augnablikinu. En þá er ekkert annað að gera en að vinna innbyrðis viðureignir þessara liða!

      1

Gullkastið – Sanngjarnt svekkjandi jafntefli

Sádi-Arabía kaupir Newcastle