Liverpool 2-2 Man City

1-0 Mane 59′

1-1 Foden 69′

2-1 Salah 76′

2-2 De Bruyne 81′

Hann var ekki upp á marga fiska fyrri hálfleikurinn sem varð boðið upp á á Anfield í dag. Liverpool liðið kom ágætlega til leiks og litu vel út fyrstu mínúturnar en eftir um korters leik tóku City menn öll völd á vellinum og héldu allt þar til flautað var til leikhlés. De Bruyne skallaði yfir og Alisson varði frá Foden í þeirra bestu færum hálfleiksins. Síðari hálfleikur var hinsvegar allt önnur saga. Snemma í hálfleiknum sáum við loks okkar fyrsta skot á markið þegar Matip náði að þræða bolta inn á Jota sem snéri og náði skoti beint á Ederson. Ekki frábær tilraun en við allavega komnir á blað.

Stuttu seinna kom svo fyrsta markið þegar Salah tók smá áhlaup á vörn City manna og náði svo að skila boltanum inn á Mane sem kláraði vel framhjá Ederson í markinu.

Forrustan dugði þó aðeins í tíu mínútur eða þar til Gabríel Jesus fann Phil Foden sem var búinn að stinga James Milner af úti vinstra meginn og setti boltan í netið 1-1. Foden var einmitt búinn að eiga mjög góðan leik fyrir City og gerði Milner lífið leitt aftur og aftur í leiknum. Í fyrri hálfleik hafði Milner stöðvað Foden tvisvar þegar hann var að sleppa í gegn. City menn vildu víti í fyrra skiptið þó brotið, ef brot mætti kalla, byrjaði fyrir utan teig og í seinna skiptið fékk Milner gult.

Svo var það Mo Salah. Hann fékk boltann úti á hægri kanti og snéri af sér Cancelo og Silva áður en hann stakk sér inn fyrir Laporte og skoraði framhjá Ederson á veikari fætum. Þvílíkur leikmaður sem við eigum og farið vinsamlegast að koma bleki á pappírinn því þetta er ekki leikmaður sem við megum við því að missa.

Andartaki síðar braut Milner á Bernando Silva. Dómarinn dæmdi aukaspyrnu en ákvað að halda seinna gula spjaldinu í vasanum. Guardiola varð brjálaður sem og Silva sem fengu báðir gult fyrir mótmæli en dóminum vissulega ekki breytt og Klopp lét Gomez gera sig kláran um leið og skipti Milner útaf og við heppnir að hafa ellefu menn enn á vellinum.

Það dugði þó ekki til því níu mínútum fyrir leikslok átti Foden sendingu inn á teig sem breytti um stefnu og barst til De Bruyne sem átti skot sem fór í Matip og þaðan í netið. Staðan jöfn og grátlegt að þetta mark hjá Salah hafi ekki fengið að vera sigurmark. Bæði lið reyndu að sækja sigur undir lokinn og varð það Fabinho sem komst næst því en Rodri náði að koma í veg fyrir það.

Góður dagur

Það er ekki hægt að horfa framhjá Mo Salah sem er ekki aðeins okkar besti maður í dag heldur líklegast heimsins besti maður akkúrat í dag. Hann átti stórleik í seinni hálfleik og guð hvað hann er ótrúlega góður í þessu sporti. Einnig vaknaði Mane til lífs í seinni hálfleik eftir að hafa átt erfitt í fyrri. Hann skoraði gott mark og var ógnandi. Síðan var Joel Matip frískur og átti nokkur hlaup upp völlinn með boltann sem brutu upp vörn City manna þó það hafi síðan ekki orðið mikið úr þeim en gerði vel í að eiga við pressu City manna.

Vondur dagur

Væri auðveldast að nefna Milner hér enda átti Foden mjög góðan dag hjá City og náði ítrekað að komast framhjá honum. Hann fékk hinsvegar afar litla hjálp og slakastur fannst mér einn af þeim sem hefði mátt veita honum meiri vernd fyrirliðinn okkar Jordan Henderson sem átti í miklum vandræðum. Sendingar voru mjög lélegar, pressan slök og átti erfitt með miðjumenn City, Miðjan okkar var ekki góð í dag en Henderson var þar manna verstur og hreinlega spurning hvort meiðslin sem urðu til þess að hann spilaði lítið á EM séu enn að plaga hann.

Umræðupunktar

  • Eftir leikinn erum við í öðru sæti deildarinnar stigi á eftir Chelsea og stigi á undan hinum keppinautunum. Auðvitað hefðum við viljað vera með fullt hús stiga en ágætis staða til að hafa á leið í landsleikjahlé númer tvö í deildinni.
  • Erum eina taplausa liðið sem er eftir í deildinni. Þrjú jafntefli í fyrstu sjö svíða en alltaf gott að tapa ekki.
  • Þurfum að bæta hluti í varnarleiknum eftir landsleikjahléið. Vörðumst heilt yfir ágætlega í dag en bæði mörk City virtust alltof einföld og gegn Brentford vorum við í allskonar vandamálum.
  • Vonandi verður Trent í lagi eftir landsleikjahlé en það er ljóst að við þurfum að finna lausn sem virkar þegar hann er ekki til staðar. Það er erfitt að kaupa vara hægri bakvörð þar sem Trent mun alltaf spila þegar hann er heill og það er enginn annar hægri bakvörður sem spilar eins og hann. Milner er að eldast og virkar ekki gegn stóru liðunum í bakverði lengur þó hann hafi leyst þetta vel gegn Porto og Palace. Annað hvort þurfum við að finna mann sem getur spilað hefbundari bakvörð sem er til í að sitja á bekknum eða skipta hreinlega um leikkerfi þegar Trent er ekki með.
  • Öll umræðan í dag ætti hinsvegar að vera um hinn ótrúlega Mo Salah. Hann er ekkert eðlilega góður og ég elska að hann sé í rauðu treyjunni.

Næsta verkefni er eftir þrettán daga gegn Watford en því fylgja svo tveir erfiðir útileikir gegn Atletico Madrid og Man United þannig það verður krefjandi vika eftir landsleikjahlé og því áhugavert að sjá hvernig Klopp nýtir hópinn þá. Niðurstaðan því jafntefli í dag, ekki skelfileg niðurstaða en svekkjandi að ná ekki að halda út eftir að hafa komist yfir með tæplega korter eftir.

47 Comments

  1. Algjör heppni að missa Milner ekki út af. Hann átti klárlega að fá seinna gula spjaldið.

    7
  2. Salah rosalegur í dag. Klopp þurfti því miður að taka Milner út af og vörnin varð mjög ‘shaky’ eftir að Gomez kom inná. City uppsker í kjölfarið jöfnunarmarkið, óheppni hjá Matip, sem spilaði vel í dag. Er fyrsti kostur við hlið VvD og Konaté annar kostur.
    Sanngjarnt jafntefli.
    YNWA

    4
    • Ég held að Gomez sé oftast annar í goggunarröð hafsenta. Matip var kominn lengra í fitness fyrir fyrsta leik og með góðri spilamennsku hefur hann haldið stöðunni. En ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær við sjáum Gomez – Van Dijk aftur saman. Hraðasta miðvarðarpar deildarinnar.

      5
  3. Svekkjandi eftir að hafa verið yfir í tvígang.

    En frammistaðan var heilt yfir þannig að liðið er heppið að taka stigið.

    Milner átti að fá rautt. Heppni þar.

    Salah algjörlega heimsklassa!

    Mané skárri í seinni og skorar flott mark eftir frábæran undirbúning Salah.

    Van Dijk á pari.

    Alisson frábær.

    Restin þarf að hugsa um sína frammistöðu í dag.

    Fabinho ótrúlega seinn að bregðast við og nær ekki að klára þetta dauðadauðafæri sem hann fær til að skora sigurmarkið. Potaðu boltanum inn með tánni fjandinn hafi það!
    Þetta var svipaður seinleiki og þegar hann gaf markið á móti Brentford.

    Vörnin er smá áhyggjuefni og þá helst bakverðirnir. Trent er meiddur. Milner á ekki séns í unga, graða og fljóta menn. Gomez er ekki bakvörður. Og Robbo virðist því miður kominn yfir sitt besta.

    Nú er bara að krossa fingur um að menn komi heilir heim úr þessu satans landsleikjabulli sem allir hata nema spilltu peningasulturnar hjá FIFA og UEFA.

    Áfram Liverpool YNWA!

    8
    • Við höfum greinilega ekki verið að horfa á sama leik, ég sá leik tveggja frábæra fótboltaliða þar sem city var betra liðið í fyrri hálfleik en Liverpool heldur betri en city í seinni. Miller át erfitt og Jones ekki að finna sig í fyrri en mun betri í seinni hálfleik en aðrir voru á pari við sína getu nema Sala sem var stórkostlegur í seinni hálfleik.

      8
      • Já það er greinilegt að við vorum ekki að horfa á sama leik 🙂

        Ef þér fannst t.d. Hendo og Fab á pari við sína getu þá veit ég varla hvað skal segja.

        3
  4. Sæl og blessuð.

    Hvað er hægt að segja? Jú, við erum með þröngan hóp og eiginlega engin skipting í kortunum. Ef Milner hefði ekki fengið spjaldið hefði Gomezinn aldrei farið inn á. Firmino bætti engu við fannst mér. Fékk hann inni í teig en lét taka hann af sér.

    Já, yfir það heila líklega sanngjörn úrslit. Liðið er ekki sterkt í varnarleiknum og þá er ekki von á þremur stigum út úr hverjum leik. Brentford náði þremur … svo það er var að undra þótt City hafi skorað tvö!

    Annars er Salah besti leikmaðurinn á plánetunni þessi misserin.

    4
  5. Frábær leikur hjá 2 af 4 bestu liðum í veröldinni i dag hefðum getað klárað þetta í seinni en líka verið undir i hálfleik sanngjart jafntefli…gæðin i mörkunum hjá Mane og Salah eru á öðru leveli þetta lofar góðu hjá okkur með framhaldið YNWA

    10
  6. Eftir að hafa horft á Man City pakka bæði PSG og Chelsea út á vellinum þá vissi maður að þetta myndi vera heldur betur krefjandi verkefni.

    Svona sá ég leikinn.
    1. Liverpool byrja af krafti fyrstu 15 mín og ná City ekki að halda boltanum og við náum að pressa þá vel.
    2. City tekur hægt og rólega völdin á vellinum og ná að ógna mikið. Þeir eru að sækja mikið á Milner sem er í miklum vandræðum og má segja að við séum ánægðir þegar flautað var til hálfleiks.
    3. Liverpool koma sterkir til leiks í síðari og ná að nýta sér góða kaflan með flottu marki. Salah með kraftmikla rispu, Mane með gott hlaup og frábærlega klárað.
    4. Það var svo bara stál í stál næstu mín eftir markið en Man City ná að jafna eftir að þeir finna pláss mjög óvænt bakvið Milner(kaldhæðni) og Foden skorar úr þröngu færi þar sem maður hefði viljað sjá Alisson gera betur af því að vinkillinn var svo þröngur.
    5. Milner hefði átt að fá sitt annað gula spjald en maður hefur samt séð dómara sleppa svona og gott fyrir okkur þá gerði hann það í dag( en þarna vildi maður fá Gomez útaf)
    6. Salah skoraði svo stórkostlegt mark sem mynti mann á markið gegn Tottenham hér um árið(sem líka endaði 2-2) .
    – Gomez kom inn á og þarna hefði maður vilja sá okkur klóka og þéttari á miðsvæðinu en…
    7. Man City jafna eftir að þeir eru með fyrirgjöf sem hrekkur til DeBrune sem á skot sem Alisson er líklega að fara að verja en Matip ætlaði að bjarga þessu en bjargaði bara boltanum í markið – 10 mín eftir.
    8. Mér fannst Man City líklegri til að skora sigurmark þegar þeir voru að keyra á okkur og fannst manni Henderson/Jones mjög þreyttir (hefði viljað sjá Keita koma inn) en Fabinho var líka alveg búinn en við fengum samt langbesta færið þegar Ederson fór í skógarhlaup og Fabinho náði boltanum fyrir framan opið mark en City náðu að bjarga á síðustu stundu( við erum að tala um sek brot).

    2-2 er niðurstaðan og er það sangjörn úrslit en tilfinning eftir þennan leik er sú að líklega er Man City sterkara lið en við í dag en við hefðum átt að gera miklu miklu betur marki yfir og 15 mín eftir. Þéttum þetta aðeins, hættum í þessari pressu og höldum þetta bara út án þess að gefa þeim pláss.

    – Við söknuðum Trent rosalega í dag því að Man City keyrðu bara aftur og aftur á Milner og litu á hann sem veikleika sem hann klárlega var.
    – Við söknuðum líka að geta ekki kallað á Thiago á miðsvæðið til þess að halda bolta og ná aðeins meiri tökum á miðsvæðinu en er samt pínu fúll í Klopp að hafa ekki tekið Hendo eða Jones útaf síðustu 10 mín þegar bensínið var búið( já eða rafmagnið ef menn eru þar)

    7 leikir 4 sigrar 3 jafntefli 0 töp = 15 stig 2.sætið – þetta er bara allt í lagi eftir að hafa spilað gegn bæði Chelsea og Man City

    YNWA – Man City, Liverpool og Chelsea eru í algjörum sér klassa í vetur og mega lið ekki misstíga sig neitt.

    15
  7. Töpuðum stigum annan deildarleikinn í röð á lélegri varnarvinnu og afskaplega slæmri frammistöðu tveggja lykilmanna á miðjunni, Henderson og Fabinho, sem mér fannst ekkert minna en hræðilegir í dag.
    Stóra málið er, hvar værum við án Mo Salah??
    Vel hægt að taka einhverja Pollýönnu á þetta en þetta er ekki nógu gott ef liðið ætlar sér eitthvað á þessu tímabili.

    7
    • Miðjan var í vandræðum en maður er búinn að sjá þetta Man City lið slátra gríðarlega vel mönnuðum miðjumönnum hjá PSG og Chelsea í leikjunum á undan en þetta var ekki nógu gott hjá okkur í dag en það fyndna er að margir stuðningsmenn Man City eru líka að tala núna eftir leikinn um að þeir hefðu átt að gera betur á miðsvæðinu.

      Þetta kannski gerist í svona leikjum sem eru enda á milli(með þvílíku tempói) með slatta af færum að miðjumenn líta kannski ekki vel út og þá sérstaklega varnarlega.

      4
  8. Miðað við stemmarann í hópnum stóran hluta leiksins, þá finnst mér 2-2 flott úrslit. Liðið virkaði ekki eins samhelt og maður hefur vanist, vörnin var hrikalega slöpp stundum og mér fannst Van Dijk ekkert brillera í dag. En hvort sem það er kallað Pollýanna eða ekki, þá ætla ég að vera sáttur. Liverpool að spila ekki sinn besta leik á móti City í fínu formi … og það er jafntefli. Liðið sem hafði ekki fengið á sig nema eitt mark, eftir skot utan af velli (Son í fyrsta leik) … fær á sig tvö í dag eftir meistaratakta Salah í bæði skipti …

    Liverpool upp á sitt besta mun vera í góðri baráttu um sigur í deildinni. Og já … Salah definitely maður leiksins!

    8
  9. Átti Milner að fá rautt? Líklega skv. reglunum, og það hefði alveg verið réttlætanlegt. En brotið er ekki gróft og hann var ekki að ræna City menn færi. Hefðin og óskrifuðu reglurnar hafa lengi veriðþær að mönnum er oft sleppt við seinna gula fyrir brot sem mögulega hefði orsakað fyrra gula. Þetta er ekkert nýtt og Milner ekki sá fyrsti sem sleppur með skrekkinn.

    8
  10. við erum eina taplausa liðið í EPL og eina taplausa enska liðið í CL og margir í okkar liði þrátt fyrir allt ekki allveg komnir upp á sitt besta Van D var frá í heilt ár og á fullt inni ásamt öðru miðvörðum okkar meiðsl eru að hrjá nokkra heimsklassa menn í okkar liði og hefur liðið þrátt fyrir allt tapað einum æfingaleik síðan á síðustu leiktíð koma svo ekkert neikvætt við þessa stöðu henni ber að fagna!

    YNWA

    6
  11. Mo Salah er kominn í Gerrard-hlutverkið. Ber allt liðið á herðunum og bjargar því trekk í trekk. Sér bæði um markaskorun og varnarleik. Ímyndið ykkur útkomuna úr þessum leik ef Salah hefði ekki spilað…

    5
  12. Salah einfaldlega geggjaður í dag eins og oftast, þessi leikmaður verður bara betri og betri.
    Vonbrigði dagsins er miðja liðsins, Hendo, Fabinho og Jones voru allir slakir í þessum leik og ég hefði viljað sjá Naby Keita koma inná með aðeins öðruvísi leik.
    Það er alltaf gott að tapa ekki á móti city en mér fannst liðið eiga meira inni í dag

    2
  13. Bíðið aðeins við, er ekki allt í þessu fína að fá 1 stig á móti englandmeisturum spilandi illa, hvernig hefði leikurinn endað spilandi vel? Að þessum punkti getum við vel við unað, taplausir. Meira að segja Matip enn heill, 4 sigrar 3 jafntefli, tvö af þeim gegn city og chels, síðan tveir sigrar í meistaradeild, hefði tekið þessu í upphafi og málað grænt. Er síður en svo að koma mér á óvart, en mikið djö. er Salah góður í fótbolta, markið hans er eins og endurtekning af Messi upp á sitt besta.

    YNWA

    3
  14. Stór mistök að hafa gefið Henderson fjögur ár í viðbót, eitthvað sem meikar ekkert sens og hann er búinn að sína lèlega tvo leiki í röð.

    1
    • Skulum endilega hengja alla sem eiga 2 slaka leiki í röð héðan í frá.

      5
    • Kæmi mér ekki á óvart að Henderson væri að spila í gegnum meiðsli núna. Þegar bæði Elliott og Thiago eru meiddir, Ox ónýtur og Keïta óútreiknanlegur – þá spilar kafteinninn, hvort sem hann getur það eða ekki. Flóknara er það nú ekki.

      4
      • Ég skil ekki hvað Klopp sér við Keita eða hvað hann ætlar að gefa þessum meiðsla pésa marga sénsa. Jú hann er góður þegar hann er í lagi en allt of mikið wildCard.
        Uxinn, algjör varaskeifa, Elliot strax buinn að henda honu út ur liðinu…. erum ansi tæpir á miðjunni finnst mér þ.e. ef miðjan lendir í meiðsla tímabili eins og vörnin í fyrra

        1
    • Mögulega hefði verið skynsamlegast að láta Hendó renna út á samning eftir 2 ár.

      Að halda þv’í fram að Henderson hafi verið lélegur í 1-5 sigrinum gegn Porto er í meira lagi furðulegt. Í dag var hann sæmilegur, t.d. mun meira í boltanum og betri varnarlega en Jones.

      5
  15. Um tíma var Hendó sá eini sem maður vissi að væri á miðjunni. Sást hvorki til Jones né Fabhino í fyrri.
    Skil ekki alveg suma umræðuna eftir leik. Milner lélegur? Í stöðu sem er ekki hans? Gegn sumum af bestu kantmönnum og sóknarmönnum í deildinni? Auðvitað dæla Man C öllu á vinstri kantinn hjá sér vitandi að það er ekki pjúra hægri bakvörður hjá okkur. Samt náðu þeir bara að skora eitt mark meðan hann var inná, og það verður ekki klínt á hann. Rautt? Já – kannski – en kannski er Milner bara svo reyndur að hann vissi allan tímann að þetta væri bara svona fölgult brot…
    Gallarnir hjá okkur (að mínu mati): Alison að hanga á boltanum þegar var spilað út. Var ítrekað þröngvaður í að negla fram. Þetta einkenndi dálítið leikinn hjá okkur – vorum oft of lengi með boltann og Man C náði pressu. Jones missti boltann ítrekað fyrsta hálftíman. Jota var ekki vaknaður fyrr en rétt fyrir hlé.

    Svo ætla ég að leggja til að þeir sem eru enn í Lucas Leiva gírnum velji sér hvaða leikmann þeir ætla að klína allri ógæfu heimsins á núna. Allir vita að Lucas gaf okkur Covid, er það ekki?

    9
    • Svo algjörlega sammála þér varðandi Hendó var fínn úti í Portó og miðjan öll var í fyrri hálfleiknum öll frekar slök og sama má segja um Man City hafi verið lítt skárri bara lélegur fyrrihálfleikur púnktur. Betri seinni hálfleikur nema miðjan var að láta B Silva fara frekar létt framhjá sér og valda vandræðum. Hendó er að sjálfsögðu ekki okkar besti miðjumaður í dag en það að vera klína öllu á hann bara til að finna sökudólga er umræða sem ekki er vert að vera eiða orðum í, hann leggur sig yfirleitt 100% fram en var bara ekki að eiga góðan dag á móti mjög góðri miðju Man city. slökustu framistöður hjá liðinu heilt yfir eru hjá Mané Jóta og Firmino sem sleppur ekki orðið í liðið en þessir menn fá ekki þá gangríni eins og Hendó aðþví að þeir gera sexí mörk einstaka sinni. Ef Hendó hefði til dæmis brent af 10 dauðafærum í einum og sama leiknum þá værum við allir hér inni að fara taka þátt í rafrænni jarðaför hans.

      YNWA.

      3
  16. Takk fyrir þessar umræður. Skil samt ekki allt í þeim og sumar ræða um leikinn eins og hann hafi tapast og það stórt. Það kom stig í hús og eins og leikar þróuðust þá hefðu 3 stig getað komið. Óskaplega er líka grunnt þegar verið er að nánast kenna einum og einum leikmanni um ef ekki gengur sem best. Fótbolti er liðsíþrótt þar sem menn vinna saman og hollning á liði og uppsetning getur virkað á ýmsan hátt gegn mismunandi andstæðingum.
    Eins og ég hef sagt og segi enn hef ég ekki áhyggjur af liðinu ef allir eru heilir en það er bara ekki staðan núna. Að jafnaði hefur einn leikmaður meiðst í leik. Að vísu hafa menn komið til baka en sumir þeirra hálfmeiddir og því lengi í gang. Með nokkra í meiðslum liggur okkar lið örlítið á eftir MC og Chelsea og því er svo dýrmætt að tapa alls ekki fyrir þeim sem hefur tekist fram að þessu. Staðan í deildinni er góð, toppbaráttan ein hrúga og okkar menn með í baráttunni og taplausir.

    8
  17. Ég ætla að fá að horfa á úrslit leiksins með Pollýönnu gleraugunum mínum. Núna eru okkar menn búnir að spila á móti þeim tveim liðum sem var vitað fyrirfram að yrðu okkur erfiðust (nei ég er ekki að tala um Brentford heldur Chelsea og City), vissulega báðir leikirnir á heimavelli, en munum að á síðasta tímabili töpuðust báðir þeir leikir. Ekki í ár. Jú það kom hálftíma kafli í fyrri hálfleik þar sem okkar menn voru bara mjög heppnir að sleppa án þess að fá á sig mark, gleymum ekki að fyrsta korterið var bara ljómandi, og maður vissi þegar maður sá spilið á fyrstu mínútunum að slík ákefð gæti ekki gengið allan hálfleikinn. Svo vitum við að menn voru að standa sig misvel. Mér fannst Jones engu að síður alls ekki vera svo slæmur, það er nettur Gini í honum á köflum með það að halda boltanum. Hendo og Fab hafa átt betri leiki. En meira að segja þeir bestu í boltanum eiga off leiki, munum t.d. að PSG var að tapa á svipuðum tíma fyrir Rennes með Messi, Neymar og Mbappé í fremstu víglínu og áttu ekki skot á markið.

    Og talandi um Messi, hvernig hefði umræðan verið ef Messi hefði skorað markið sem Salah skoraði í gær? Ég hugsa að þetta mark færi klárlega í flokk með bestu mörkum sem hann hefði skorað. Og ekki misskilja mig, Messi er og verður í 1.-2. sæti yfir bestu knattspyrnumenn sinnar kynslóðar. En það fer alveg að koma að því að við megum fara að tala um Salah á svipuðum nótum. Svona gera bara snillingar. Og núna er þetta bara spurning um það hvaðan veskishaldarar Liverpool taka peningana til að borga Salah það sem þarf.

    5
  18. Getum verið sáttir með stigið enda frábær leikur.

    King Mo Salah er búinn að vera einn besti leikmaður heims undanfarinn 4 ár það er bara þannig í dag er hann besti leikmaður heims, gæði hans er engu lík.
    – Salah varð fyrsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar til að verða leikmaður mánaðarins þrisvar á tímabili.
    – Salah er markahæsti leikmaður Liverpool í Meistaradeild Evrópu tók framúr Seeven Gerrard.
    – Salah varð fyrsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að skora í fyrsta leik tímabils, fimm tímabil í röð
    – Hann er bara búinn að vera hjá Liverpool síðan 2017-18 tímabilið.

    PSG klárið samninginn við manninn ekki hægt að hafa þetta svona.

    2
    • Eigendurnir heita reyndar FSG, PSG er svolítið annað.

      6
    • PSG mega alveg láta Salah í friði – FSG mega hinsvegar semja við okkar mann sem fyrst 🙂

      1
  19. Ótrúlega gaman að lesa hér krítík á leikmenn Liverpool. Það er ýmist í ökla eða eyra.
    Síðastliðin vetur las maður hér og víðar að það ætti að selja Salah, hann væru búinn á því og losna bara við hann fyrir góðan pening. Núna er hann besti leikmaður í heimi. Það mátti líka sjá í fyrra “Reka Klopp” hann er búinn á því…fáum nýjan stjóra. Tugir annarra leimanna fengu á baukinn og áttu skilið að vera seldir. Greinilega erfitt að gera stuðningsmönnum lífið létt.
    Í haust hefur maður séð mikið af hrósi sem var betrun frá síðari hluta síastliðins árs.
    Skil ekki þessa reiði í fólki……það er ýmist elskað eða hatað.
    Já það er stutt á milli ástar og haturs.
    YNWA

    7
  20. Sælir félagar

    Takk fyrir góða leikskýrslu Hannes og ekkert að henni. Skoðanir manna eru skiptar bæði á leiknum almennt séð og á einstökum leikmönnum. Það er bæði eðlilegt og í góðu lagi. Allir eru frjálsir að skoðunum sínum og allir hafa leyfi til að segja álit sitt hversu sem einhver er því ósammála. Frammistaða okkar manna í upphafi fyrri var góð (ca 12 mín) en eftir það tóku MC strákanir leikinn yfir og við vorum heppnir (Alisson) að vera ekki undir í hálfleik. Matip og þar með liðið óheppinn að skora sjálfsmark en við svona atvikum er ekkert að gera og ekki ástæða til að lasta neinn fyrir það. Hér á eftir koma mínar krónur fyrir þennan leik.

    – fyrri hálfleikur 4 af 10, einkunn City því 6 af 10
    – seinni hálfleikur 6 af 10 einkunn City því 4 af 10 Þetta er nottla bara spaug en hvað gerir það til. Grísmarkið sem þeir fengu í restina telst þeim ekki til tekna. 🙂

    – Alisson 8
    – Milner 6
    – Mtip 7
    – Virgil7
    – Robbo 7
    – Fab 7
    – Hendo 6
    – Jones 6
    – Mane 7
    – Jota 6
    – Sala 9

    Firmino 6
    Gomes 6

    Þetta eru mínar krónur fyrir þennan leik og einkunnir leikmanna frá mínum bæjardyrum séð. Ég get vel ímyndað mér að einhverjir hafi aðrar skoðanir og mundu gefa aðrar einkunnir og það er í góðu lagi.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  21. Mér fanst vanta Fab í þessum leik, það var eins og hann hafi verið týndur stóran part af leiknum, ef hann hefði eignað sér þessa svokölluðu seinni bolta osfrv þá hefðum við getað dominerað meira, eins þetta dauðafæri hjá honum uff. Annars fannst mér aðrir á pari nema Salah svona miðað við aðstæður.

    3
  22. Veit einhver hvernig staðan er a samningamalum Salah. ER umbinn hans af fara fram á 300 Eda 500 tus á viku. Hann á alveg skilið 300 en Liverpool er aldrei að fara borga honum 4-500 Tus pund á viku. Ef hann semur ekki fyrir næsta sumar munum við alltaf selja hann því okkar menn munu aldrei sleppa honum frítt. Sömdum við nokkra lykilmenn í sumar og núna verður að ná að semja við Salah.

    Er einhver med eitthvad um þetta ?

    • Sem Liverpool aðdáandi ættir þú að vita hvernig þetta endar. Salah verður seldur í sumar fyrir eins mikið og FSG fær fyrir hann. Sá peningur fer í kaup á leikmanni/mönnum. Þeir fara aldrei að borga honum rugl laun hvort sem hann er þess virði eða ekki.

      Þetta moneyball sem FSG vinnur eftir er alls ekki þannig að þeir bjóði Salah annan samning vegna aldurs þegar þeir geta fengið sæmilegan pening fyrir hann til að endurnýja hópinn. Svona er þetta nú bara. Við verðum að fara að venja okkur á vinnureglur FSG og sætta okkur við þær. Free transfers og útsöluverð. Mjög niðurdrepandi tilhugsun en þetta er bara svona. Eina vonin er að það verði margir með frjálsan samning í sumar (Mbappe einn af þeim) sem þýðir smá von en búið ykkur frekar undir vonbrigði.

      3
      • Ég vil samning á besta leikmann í heimi, 380þ á viku, ekkert mál, ég þoli ekki FSG eyði að meðaltali 20m á ári. Samt er ég kominn þangað að ég er bara að njóta þess að hafa Salah í liðinu og ef þeir selja hann þá trúi ég við verðum áfram sterkir. Það er eitthvað með Klopp og Liverpool sem segir mér partyið heldur áfram svo lengi sem Klopp er við stjórn.

        Ef Salah fer. Þá er hann sjálfur að gera mistök fótboltalega séð. Hann nær ekki þessum hæðum í neinu öðru liði. Óskandi hann fái bara alvöru samning hjá Liverpool. Hann á það svo sannarlega skilið.

        4
    • Eftir að hafa lesið mörg sum ummælin á síðunni er eins og ég hafi ekki verið að horfa á sama leik. Svo mikil er neikvæðnin i garð Liverpool og einstakra leikmanna. Sigur hefði verið frábær en í mínum huga voru þessi úrslit sanngjörn. þessi leikur var frábær auglýsing fyrir elska boltan. Bæði liðin sýndu snilldar leik á köflum og bera höfuð og herðar yfir önnur ensk lið i dag. Mikið var ég stoltur af mínum mönnum. Salah þvílíkur töframaður. Chelsea eru líka góðir en þeir hafa ekki sama stöðugleika og þessi tvö lið. Man. United verður ekki i titilbaráttu með norðmanninn við stjórnvölinn þó þeir hafi mannskapinn til þess. Þetta verður barátta milli tveggja frábærra liða fram á vor.

      6
      • Sammála. Það er ótrúlegt hvað fólk getur verið neikvætt. Við hefðum getað unnið en líka tapað. Við eigum helling inni og við erum með Klopp sem þjálfara. Það þarf ekkert að segja meir en það.

        1
    • Já mig grunaði svosem að þú vissir nákvæmlega hver munurinn á FSG og PSG væri 🙂 Það er bara erfitt fyrir mann að sleppa því að vera með hortugheit undir svona kringumstæðum.

      3
  23. Hver andskotinn er að fab?!? Hann hefur tvo fætur! Skjóttu frekar í hliðarnetið og klúða dauðafæri heldur en að setjann á hægri og bíða til að leyfa city að hafa möguleika á að tækla! Helvítis bara!
    Og nei, ég sætti mig ekki við jafntefli á heimavelli hver sem andstæðingurinn er.

    6
  24. Í þessum aðstæðum hefur þú engan tíma til að hugsa. Mögulega hefði Lewandowski tekið hann í fyrsta. Fab gerir það sem flestir hefðu gert, leggur boltann fyrir sig og hefði auðveldlega skorað hef ekki fyrir þessa heimsklassa tæklingu.

    • Allir framherjar hefðu skotið strax, meira að segja þeir sem spila í 4.deild á íslandi!

Byrjunarliðið gegn Man City

Gullkastið – Sanngjarnt svekkjandi jafntefli