Besta lið Liverpool í Úrvalsdeildinni?

Hefur Liverpool einhverntíma á þessum tæplega þrjátíu árum frá því Úrvalsdeildin var stofnuð farið inn í nýtt tímabil með sterkari hóp en núna? Hvað þá ef tekið er með í jöfnuna að Jurgen Klopp er stjóri liðsins.

Að sjálfsögðu er ekki gaman að sjá liðin sem helst eru í samkeppni við Liverpool styrkja sig umtalsvert í hverjum leikmannaglugga á meðan Liverpool gerir lítið sem ekkert, Liverpool er komið í þannig stöðu rekstrarlega að félagið á að vera vel samkeppnishæft við öll lið fyrir utan kannski þessi örfáu sem eru bókstaflega ríkisstyrkt af Olíuþjóðum sem eru að reyna sótthreinsa orðspor sitt. FSG hefur sjaldan fengið eins mikla gagnrýni frá stuðningsmönnum Liverpool og einmitt í sumar.

Það sem vantar aðeins í þá gagnrýni er að Liverpool er nú þegar búið að byggja upp mjög vel samkeppnishæft lið sem hefur unnið tvo stóra titla á síðasta og þarsíðasta tímabili. Ótrúlegt í raun að þeir hafi ekki verið þrír miðað við stigasöfnun tímabilið 2018/19. Hópurinn í dag er sterkari en sá sem vann þessa titla og Liverpool er að greiða vel samkeppnishæf laun sem eru að stórum hluta árangurstengd.

Það er alveg hægt að gagnrýna FSG og jafnvel draga metnað þeirra í efa en þeirra rekstrarmódel skilaði nýlega þessum stóru titlum í hús. Eins held ég að menn verði aðeins að bera meiri virðingu fyrir hugsunarhætti og áherslum Jurgen Klopp. Hann hefur margoft sagt að hann vilji þéttan hóp sem þekkist mjög vel og er mjög vel samæfður frekar en að vera alltaf að þjálfa upp nýja leikmenn með tilheyrandi fórnarkostnaði, bæði fjárhagslega og ekki síður tímalega. Eins hefur hann sagt að hann vilji frekar taka inn og/eða ala upp hungraða leikmenn sem þekkja hans áherslur upp á tíu frekar en að koma alltaf inn með nýja leikmenn sem hann þarf að byrja með frá grunni.

Auðvitað er þetta ekki svona svart og hvítt, hann er ekki á móti nýjum leikmönnum en hann er mjög langt frá hugsunarhætti mjög margra stuðningsmanna Liverpool. Hann sér í alvörunni ekki lausnir við öllum vandamálum á leikmannamarkaðnum. Sérstaklega ekki leikmönnum sem hafa nú þegar séð og upplifað allt í boltanum og mögulega misst aðeins hungur í leiðinni. Thiago er t.a.m. undantekning á leikmannamarkaðnum hjá Liverpool. Hann er jafnan ekki sá profile sem Liverpool undir stjórn Klopp er að leita að, ekki nema það passi fjárhagslega líkt og átti við í tilviki Thiago.

Liverpool er að setja rosalega mikinn pening í að endurnýja samninga við sína bestu menn, Jurgen Klopp vill miklu frekar semja áfram við leikmenn sem hann hefur þjálfað upp, treystir og vill halda áfram að vinna með frekar en að selja alltaf sína bestu menn og byrja frá grunni með nýja menn. Hann fékk ekki hjá Dortmund það sem hann er að upplifa hjá Liverpool núna. Það er enginn að fara sem hann vildi alls ekki missa en með brottför Wijnaldum er hafin hæg endurnýjun á gullaldarliðinu, hann væri án vafa ennþá hjá Liverpool hefði Klopp hefði ekki mátt missa hann. Mögulega er þessi endurnýjun á liðinu of hæg en hópurinn fyrir þetta tímabil og jafnvel það næsta er á fínum aldri.

Enn sem komið er sé ég ekki ástæðu til að draga metnað eigenda Liverpool í efa þó lítið hafi verið gert í sumar, það helsta sem maður er að pirra sig á er að ekki hafi verið keyptur betri fimmti kostur í sóknarlínuna í staðin fyrir eða framfyrir Divock Origi, einhvern sem setur pressu á goðsagnirnar sem skipa ennþá sóknarlínu Liverpool og eru allir ennþá undir þrítugu. Já og einn miðjumaður í viðbót til að keppa um stöðu við þessa átta sem eru nú þegar hjá félaginu í þessari stöðu.

Jurgen Klopp hefur oft ítrekað að hann vill ekki of stóra hópa, eitthvað sem hann hefði mátt hugsa betur fyrir síðasta tímabil en þetta er ekkert eitthvað sem hann tók upp á nýlega. Klopp vill minni og þéttari hóp, færri ósátta leikmenn. Tökum Saul Niguez sem dæmi, einn af 30 miðjumönnum orðaðir við Liverpool í sumar, ég held í alvöru að Klopp hafi frekar viljað gefa Elliott og Jones mínútur í vetur frekar en að bæta 27 ára Saul við. Klopp er fyrir með Henderson, Fabinho, Thaigo og Keita á undan þeim í röðinni. Ef að Klopp hefði ekki getað hugsað sér tímabilið án Saul (eða sambærilegs leikmanns) trúi ég því að FSG hefði ekkert staðið í vegi fyrir því að fá viðkomandi. Thiago er sem dæmi það ógeðlega góður leikmaður að það er vel réttlætanlegt að fá hann til félagsins 29 ára gamlan. Til að gefa leikmönnum eins og Jones og Elliott séns þarf stjórinn að þora að taka áhættu og Liverpool er akkurat með stjórann í það.

Fyrir utan Fabinho, Henderson, Thaigo og Keita eru Jones og Elliott líka að keppa við Milner og Oxlade-Chamberlain um þessar þrjár stöður á miðjunni. Við erum ekki á æfingum eða með aðgang að sömu gögnum og þjálfarateymi Liverpool og persónulega hefði ég  klárlega viljað sjá meiri metnað hjá félaginu á markaðnum, en á sama tíma er alveg hægt að skilja hvaðan Klopp er að koma þegar hann metur það sem svo að hann þurfi ekkert bráðnauðsynlega níunda miðjumanninn.

Hvað er langt í að Elliott og Saul verði svipað hátt skrifaðir knattspyrnumenn? Enginn dregur í efa að Saul er miklu miklu ofar í fæðukeðjunni í dag. Rétt eins og landsliðsbakvörðurinn Nathaniel Clyne var miklu hærra skrifaður en Trent Alexander-Arnold þegar Trent fékk fyrst sénsinn.

Hefur Liverpool liðið verið betra en það er núna? 

Sóknarlínan hjá Liverpool hið ótrúlega 99 stiga titiltímabil 2019/20 samanstóð af Salah, Mané, Firmino og Origi. Minamino kom í janúar og skipti nánast engu máli. Tímabilið á undan þegar Liverpool náði 97 stigum og vann Meistaradeildina samanstóð sóknarlínan af sömu mönnum auk Daniel Sturridge sem var svo gott sem bundin við í hjólastól.

Breytingin núna er Diogo Jota sem hefur fengið heilt tímabil til að aðlagast liðinu, hann skorar mörk í opnum leik meira reglulega en allir aðrir sóknarmenn Liverpool (líka Mo Salah). Eins er Minamino búinn að aðlagast Liverpool og fá reynslu af deildinni á láni. Minamino er þessi fimmti kostur í dag og ætti undir eðlilegum kringumstæðum lítið sem ekkert að koma við sögu. Þetta er miklu sterkari sóknarlína en 2018-20. Rafa Benitez liðin voru heldur ekki nálægt því með svona góða sóknarlínu. Mögulega Rodgers liðið 2013/14 en allt fyrir aftan hana var ekki nálægt því sem Liverpool er með núna.

Miðjan

Thiago kom fyrir ári síðan og hefur líklega lengi verið hugsaður í staðin fyrir Wijnaldum. Auk hans er Curtis Jones kominn miklu meira inn í myndina sem alvöru miðjumaður. Jones spilaði sem dæmi fleiri mínútur í Meistaradeildinni á síðasta tímabili en allir miðjumenn Liverool nema Wijnaldum og Fabinho. Keita, Thiago og Ox komu rétt svo aðeins við sögu í þeirri keppni.

Naby Keita er búinn að vera í sérmeðhöndlun vegna sinna meiðsla og Harvey Elliott er kominn fram á sjónarsviðið og þegar farinn að gera tilkall til þess að vera valin maður leiksins gegn tuddunum í Burnley.

Miðjan er mun öflugri á pappír í dag en miðjan sem vann Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina. Líklega komum við til að meta framlag og mikilvægi miðjumanna Liverpool enn frekar í vetur eftir að þeir spiluðu mest lítið á miðjunni síðasta vetur.

Vörnin

Það er ekki hægt að ítreka nógu oft hversu sturluð óheppni það er að missa alla miðverðina í langtímameiðsli fyrir áramót á einu tímabili. Miðvarðahópur Liverpool er sá besti hvað gæði varðar sem félagið hefur verið með. Allir gera sterklega tilkall til byrjunarliðssætis þegar þeir eru heilir heilsu og innkoma Konate þéttir breiddina gríðarlega í þessari stöðu m.v. síðasta vetur.

Nat Phillips sem var óþekkt stærð síðasta vetur verður í dag að flokkast sem einn besti fimmti kostur í þessari stöðu í deildinni. Hann er alveg nógu góður til að spila fyrir Úrvalsdeildarlið í neðri helmingi deildarinnar. Hann er þrátt fyrir það enn lengra frá byrjunarliði Liverpool en hann var fyrir 12 mánuðum.

Tsimikas er mjög fínn kostur sem varamaður fyrir Robertson og bætir breiddina töluvert í vinstri bakverði, eitthvað sem hefur varla verið til staðar nema í formi leikmanna eins og Milner eða Gomez sem eru þá báðir massíft að spila úr stöðu.

Kelleher er m.a.s. betri varamarkmaður en Liverpool hefur verið með allajafna í Úrvalsdeildinni.

Liverpool hefur aldrei verið með hóp sem vantaði ekki þessa 1-2 leikmenn inn í til að fullkomna hann. En þrátt fyrir allan pirringin eftir sumarið á leikmannamarkaðnum með tilheyrandi áhyggjum af liðinu til framtíðar, getum við ekki verið sammála um að Liverpool hefur líklega aldrei farið inn i tímabil með sterkari hóp eða betri stjóra?

10 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir þetta Einar skemmtilegur pistill og pælingar. Þú skautar samt alfarið framhjá tvennu í þessum ágæta pistli. Fyrir það fyrsta er sú staðreynd að Klopp hefir ekkert unnið á Englandi nema þann stóra sem enginn skyldi vanþakka. Ég tel hinsvegar að ástæðan fyrir því sé sú hvað hópurinn af topp leikmönnum er lítill. Það er einfaldlega ekki hægt að vinna bikarkeppnir nema að láta byrjunarliðið spila þær. Þar með er álagið á fyrstu 14 – 15 orðið of mikið. Þar af leiðir að leikir tapast í þessum keppnum því byrjunarliðið verður að fá hvíld.

  Hitt er að það er ekkert “bakkup” fyrir TAA sem nær máli. Ef til vill má segja að Gomes geti komið inn í þá jöfnu en hann er fyrst og fremst miðvörður þó hann hafi hraða til að spila bakvörð. En þar sem hann er fyrst og fremst varnarmaður þá kemur það niður á sókninni. Að vísu hefur Klopp verðið að spila einhverkonar “hringekju” með TAA, Elliot og Salah hægra megin í sókninni sem getur ef til vill leyst einhver vandamál ef TAA meiðist – en samt . . . Fram hjá þessum tveimur vandamálum skautar þú alfarið í þínum annars ágæt pistli. 🙂

  Það er nú þannig

  YNWA

  1
  • Ástæðan fyrir því að ég nefni ekki bikarkeppnirnar eru vegna þess hversu ofboðslega litlu máli þær skipta í samanburði við þá bikara sem krafan er að Liverpool sé að keppa um (og hefur verið að vinna). Er nánast fullkomlega sáttur við það hvernig Klopp hefur hugsað bikarkeppnirnar.

   Varðandi back up í vissum stöðum þá er ég ekki að halda því fram að hópurinn sé fullkominn, bara að þetta er besta lið sem ég man eftir hjá Liverpool í Úrvalsdeildinni. Bæði hvað byrjunarlið og breidd varðar.

   3
  • Hefur ekkert unnið á Englandi nema þann stóra? Sem við vorum búnir að bíða eftir í 30 ár. Gerum nú ekki lítið úr þessum árangri.

   3
 2. Þetta er allt rétt og satt. Vandamálið er að MC, MU og Chelsea hafi bætt sinn mannskap á síðustu tveimur árum og eru hugsanlega kominn fram úr okkur.

  1
 3. Það skiptir ekki máli hvað við berjum höfðinu oft í steininn og reynum að telja okkur sjálfum trú um að allt sé í góðu lagi hjá klúbbnum. Við erum núna með of þunnan hóp til þess að geta keppt við shitty, utd, og celski. Vonandi náum við fjórða sætinu, allt annað er bónus og skrifast þá á Klopp og hans snilli, og heppni með meiðsli.
  Nú þegar er Bobby frá og svo Minamino líka. Leiktíðin rétt að hefjast !

  2
  • Það getur vel verið, hann er samt ekkert minni núna en árin sem Liverpool fór í úrslit Meistaradeildarinnar, eða tímabilin sem liðið náði 97 og 99 stigum. Hópurinn er þvert á móti breiðari núna.

   Ég hefði sannarlega viljað sjá hann ennþá breiðari en ekki svo rosalega að ég efist um hugmyndafræði Klopp eða vilji skipta um eigendur.

   5
 4. Skoðum þetta aðeins frá öðru sjónarhorni.

  Liverpool er liðið sem var með 97 og 99 stig áður en allt fór í skrúfuna á síðasta tímabili. Við erum en þá með alla lykilmenn frá þessu meistaraliði fyrir utan Gini og má segja að liðið okkar sé betuð mannað í dag en þá.
  Man City hafa verið með geggjuð lið undanfarinn ár og viti menn þeir eru með geggjað lið líka í ár. Er það eitthvað sterkara en undanfarinn tímabili? Ég er ekki viss með það heldur er en þá mjög sterkir en ekki endilega betri.
  Man utd hafa ekki verið merkilegir undanfarinn ár og hafa þurft að styrkja sig en þrátt fyrir að hafa nælt sér í þrjá flotta leikmenn eru þeir virkilega taldnir vera komnir á sama level og við, Man City og Chelsea? Ég er ekki heldur viss með það.
  Chelsea er það lið sem manni finnst vera kominn í hópinn með okkur og Man City. Þeir urðu evrópumeistara og eru með rosalega stóran og flottan leikmannahóp en myndu þið skipta á þeirra byrjunarliði og okkar? Mitt svar er nei.

  Já þetta snýst allt um meiðsli og allir sem segja já ef Van Dijk meiðist alvarlega eða ef Salah meiðist o.sfrv þá náum við ekki að vinna deildina eða meistaradeildina og viti menn þeir eru það mikilvægir að það er bara alveg rétt því að það á ekkert lið svona kappa á bekknum sínum en það má líka segja um flest lið.
  Ef de bruyne verður frá meirihlutan af tímabilinu veikir það Man City mikið. Ef Bruno verður frá meirihlutan af tímabilinu þá veikir það Man utd mikið eða ef Lukaku er frá meirihlutan af tímabilinu þá veikir það Chelsea mikið og í ár ef þinn besti leikmaður er frá lengi þá líklega þýðir það að önnur lið sem verða með heila leikmenn munu líklega enda fyrir ofan þig. Top 4 liðin eru nefnilega það góð í vetur.

  Mér finnst FSG hefðu átt að setja seðla í framherja og jafnvel hægri bakvörð fyrir Trent en lífið er bara ekki alltaf fullkomið en ég er samt sáttur við Liverpool liðið í dag því að það er ekkert lið í heiminum sem væru ekki til í að styrkja sig aðeins meira.
  Man City sem hafa verið að drukkna í seðlum vilja fá 25 marka + framherja, Man utd vilja fá djúpan miðjumann og Chelsea ja þeir eru sáttir við byrjunarliðið sitt en á stuðningsmanna spjallinu hafa þeir áhyggjur ef Jorginho meiðist því að hann er spilandi varnar miðjumaður hjá þeim og þeir eiga ekki eins eintak s.s Chelsea langar í en þá meiri breydd og City/Utd vilja styrkja byrjunarliðið.

  Við í Liverpool erum sáttir við byrjunarliðið en voru meira að pæla í ef Trent meiðist og ef tveir af fjóru fremstu meiðast sem þýðir að við erum samt í góðum málum.

  Hver er krafan hjá Liverpool í vetur? Við viljum berjast um alla stóru titlana í vetur af fullum krafti og ég held að við munum gera það. Kannski koma bikarar inn og kannski ekki en þanngað til er maður bara spenntur og hef trú á liðinu(þótt að ég eins og margir viljum alltaf hafa fleiri góða leikmenn)

  YNWA – Þegar Liverpool voru t.d í 80s að rústa deildinni og vinna allt sem hægt er að vinna þá voru samt margir á því að liðið þurfti að styrkja þessa stöðu og hina svo að þetta er alls ekki ný umræða.

  8
 5. Ég þekki ekki liðin hjá City, United, eða Chelsea nægjanlega vel til að fullyrða, en fullyrði samt að LFC hafi yfirburði í því hversu margir leikmanna okkar geta spilað fleiri en eina stöðu. T.d., gæti TAA hæglega spilað á miðjunni og miðjumennirnir okkar eru færir um spila mjög margar stöður og leikaðferðir. Við erum líka með nokkra miðjumenn sem geta spilað sóknarstöður (Elliott, Jones, Minamino, Ox). Og svo erum við með Milner sem getur spilað 11 stöður.

  Við erum líka með þjálfarateymi sem reglulega hefur unga leikmenn með aðalliðinu og lætur unga leikmenn spila Coffee Cup leikina. Og yngri liðin okkar spila nákvæmlega sama fótbolta og A liðið. LFC er byggt upp með ólíkum hætti en stórlið eins og t.d., Chelsea sem eru með mikið af ungum leikmönnum en mjög sjaldan koma þeim inní hóp til lengdar.

  Það er hægt að deila um hvort að þessi hugmyndafræði sé góð og hvort hún sé nógu metnaðarfull. En þeir sem hafa horft á fótbolta lengur en eitt tímabil vita að verðmiðar og verðleikar leikmanna fara ekki alltaf saman. Og jafnvel ekki oftast. Persónulega finnst mér meira spennandi að fylgja liði sem hefur heildstæða sýn og mér finnst leikmannahringekjan frekar fráhrindandi. Held ég hefði fyrir löngu hætt að spá í fótbolta ef svo óheppilega hefði viljað að ég hefði stutt Chelsea frá æsku.

  4
 6. Sælir félagar,

  Ég er alveg sammála þeirri nálgun að það sé ekkert tilefni til að efast um FSG sem eigendur. Þessi gluggi kom mér lítið á óvart og ég er merkilega lítið ósáttur.

  Mér finnst ansi margir gleyma einum mikilvægum punkti þegar kemur að því að kaupa leikmenn. Þetta er nefnilega stundum þunn lína að skauta á. Liverpool vill leikmenn sem langar að spila fótbolta. Tökum sem dæmi framherja, sem við gætum svo sannarlega notað til að auka breiddina. Hversu margir leikmenn, sem eru nægilega góðir til að spila fyrir Liverpool, væru tulbúnir að koma og sætta sig við að spila kanski 1/3 af leikjunum ?? Staðreyndin er nefnilega, að við viljum styrkja liðið, en liðið er fjandi sterkt!!!

  Það er ekkert auðvelt fyrir menn að labba inní þetta lið og Liverpool vantar ekki fleiri leikmenn sem ekki eru nægilega góðir. Leikmenn vilja (flestir) spila fótbolta, og fyrir framherja er Liverpool ekkert endilega ákjósanlegasti staðurinn uppá spilatíma.

  Það þarf einfaldlega margt að smella. Áhugi LFC og Klopp á leikmanninum…. Gæði leikmannsins þurfa að vera mikil, aldurinn réttur, og svo þarf hann mögulega að sætta sig við ákveðna hluti sem hann þyrfti kanski ekki að sætta sig við annarsstaðar.

  Ég er t.d ekkert viss um að það sé auðvelt fyrir okkur að finna back up fyrir Trent sem er betri en það sem við eigum, en tilbúinn til að spila mögulega EKKERT í deild og CL fyrir okkur. Hvar finnur maður svoleiðis leikmann ?
  Eða mann sem spilar sömu stöðu og Salah, og getur eitthvað …. Hvað væri sá gaur að fara að spila marga leiki ?? Hvar finnst svoleiðis gaur, spyr ég bara…. ? Góðir leikmenn vilja nefnilega spila, ekki sitja heilt tímabil á bekknum….

  Lakari leikmenn sætta sig frekar við bekkjarsetu, en okkur vantar bara ekkert þannig leikmenn

  Insjallah..
  Carl Berg

  4

Er Liverpool að verða næsta Arsenal?

Sigur hjá kvennaliðinu gegn Watford í 2. umferð