Spá Kopverja – seinni hluti

Í gærkvöldi datt hér inn á síðuna fyrri hluti spár okkar Kopara um sæti 11 – 20 í deildinni þar sem í fréttum var líklega helst að við teljum að Fulham, WBA og Aston Villa falli og nýliðar Leeds endi í 13.sæti.

Við skulum nú rúlla í gegnum efri hluta deildarinnar sem er auðvitað sá hluti sem við ætlum okkar liði að vera í. Minni á að hámarksmöguleg stigatala er 200 stig.

10.sæti Southampton 104 stig

Liðið sem við settum í 11.sæti fékk 79 stig svo að ef að okkar spá er eitthvað að marka þá erum við að tala um nokkuð bil í efstu 10 sætin og við nú komin í miðja deildina í lið sem verða á örugga rólinu en þó ekki að berjast um Evrópusætin. Það verður semsagt hlutskipt Soton með Hassenhuttl við stjórnvölinn. Dýrðlingarnir áttu mjög erfiða byrjun á liðnu tímabil sem dýpst fór í 0-9 tapi á heimavelli gegn Leicester en þeir náðu að sparka vel í botninn þar og styrktust jafnt og þétt þegar á leiktíðina leið og voru í lokin sáttir við sína niðurstöðu. Þeir misstu góðan mann í Hojberg nú í sumar en hafa ekki bætt mikið við hópinn sem mun væntanlega breytast fyrir gluggalokun. Það er auðvitað sérlega gleðilegt að benda á þeirra lykilmann sem er framherjinn knái Danny Ings. Værum við ekki bara til í að hafa hann enn á Anfield…líklega. Semsagt. Öruggt miðjusæti fyrir Southampton.

9.sæti Everton 125 stig

Blánefir verða á svipuðu róli, ofan við miðju en ekki í alvöru keppni um Evrópusætin í vetur ef okkar spá reynist rétt. Við skulum ekki horfa framhjá því að Everton eru nú með mann í brúnni sem gæti í alvörunni náð árangri með liðið hinu megin við Stanley Park, Ancelotti nær bara yfirleitt árangri. Verkefni hans nú er býsna stórt og hann þarf að beita öllum sínum kröftum til að nálgast þann stað sem eigendur liðsins vilja vera á – berjast um titla og Meistaradeildarsæti. Þeir hafa í sumar bakkað hann upp í leikmannaglugganum og líklegt er að þeir skipti alfarið um miðjuna þar sem Doucoure, Allan og James Rodrigues hafa allir komið inn fyrir töluverðar upphæðir og því ljóst að Gylfi mun þurfa að hafa vel fyrir því að fá mínútur í þessu liði. Þeir þurfa að fá inn reglulegri mörk í framlínunni og bæta vörn og markvörslu til að taka þeirra vonarskref og það verður ekki í vetur, 9.sæti verður hlutskiptið en kannski gæti bikarkeppni glatt þá. James hlýtur að verða lykillinn þeirra, þetta er langstærsta nafn sem komið hefur til liðsins á undanförnum árum og það hlýtur að vera krafa á hann að standa sig!

8.sæti Wolves 131 stig

Úlfarnir héldu uppteknum hætti á liðnu tímabili og náðu flottum árangri í deild og alla leið í 8 liða úrslit Evrópudeildarinnar. Þetta portúgalska fótboltaútibú í Englandi er orðið massívt á erfiðum heimavelli, mikil ákefð í þeirra leik og stjórinn Santo virðist mikill taktíker í bland við gríðarlegt keppnisskap sem hann hefur náð að færa út í liðið sitt. Þeir eru þéttir varnarlega í þriggja miðvarða kerfi og með góðan markmann. Miðjan hefur leikmenn með auga fyrir samspili, þeir eru með öskufljóta vængmenn og öfluga níu auk þess sem ekkert má gleyma því að margir þessara leikmanna hafa í gegnum tíðina náð góðum árangri með lands- og félagsliðum sínum. Það vantar eilítið upp á breiddina og í sumar hafa þeir aðeins bætt við sig einum leikmanni, portúgölsku ungstirni að nafni Fabio Silva en meira þarf uppá til að taka næsta skref. Úlfarnir verða áfram mjög sleipir en enda utan Evrópusætanna í vetur, þetta verður svo síðasti vetur þeirra Ruben Neves og Adama Traore hjá félaginu, þeir eiga heima í topp fjögur liði í Englandi án nokkurs vafa!

7.sæti Leicester 131 stig

Þá kemur það í fyrsta skipti í spánni þetta árið að lið eru jöfn að stigum og þá gildir það hvort liðið fékk hærra sæti hjá einhverjum okkar. Leicester var spáð 6.sæti hjá tveimur okkar en enginn hafði þá trú á Úlfunum svo að lærisveinar Brendan fá 7.sætið í spánni okkar að þessu sinni og þar með fyrsta liðið sem gæti fengið Evrópusæti en sú staða gefur sætið ef að lið í topp 6 vinna bikarkeppnirnar í Englandi. Að Leicester. Hversu ótrúlegt klúður kom upp hjá því liði eftir Covid og hvað þýðir það fyrir veturinn sem í kjölfar kemur. Þeir náðu í 9 stig af 27 mögulegum í sumar og það þýddi að þeir hrundu út úr Meistaradeildarsætinu með heimatapi í hreinum úrslitaleik í lokaleiknum gegn Man United. Í sumar seldu þeir svo lykilmann í Ben Chilwell til Chelsea svo það er ekkert endilega endalaus ástæða til að halda að það spretti rósir í Rodgers-garðinum í vetur. Hann virðist enn lenda í því að liðin hans stígi inn í tímabil eins og við sáum í sumar og hann á erfitt með að vinna þau úr því…og svo verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig Evrópudeildin mun hafa áhrif á liðið, stjórinn hefur átt erfiða tíma í Evrópu og það gæti haft slæm áhrif á liðið ef svo verður áfram. Við lítum auðvitað ekki framhjá því að þetta er gott fótboltalið og Brendan er fínn stjóri, markakóngur deildarinnar klæðist búningnum, Vardy er lykilmaðurinn þeirra að sjálfsögðu. Eigendurnir eru metnaðarfullir og munu örugglega styrkja liðið fyrir gluggalok. Það skilar þeim 7.sæti í vetur ofan við Wolves á markatölu.

6.sæti Tottenham 155 stig

Eins og sjá má er töluverður stigamunur á 6. og 7.sæti svo við erum á því félagarnir að það verði hefðbundin staða uppi á enska borðinu þar sem sex lið verða í sterkasta hlutanum og í þeim hluta byrjum við á lærisveinum José Mourinho. Sá “geðþekki gaur” fékk starfið síðasta haust þegar Pochettino var rekinn þvert á vilja margra Spursara og ég held að besta lýsingin á frammistöðu þeirra undir stjórn José væri “sveiflukennd”. Þeir voru í miklu meiðslabrasi en segja má að ef að eitthvað lið græddi á Covid þá voru það þeir því liðsskipan þeirra í sumar var allt önnur en útlit var í vor og þeir náðu ágætis endi á tímabilinu og verða í Evrópudeildinni í vetur. Gangur stjóratíðar José er sá að yfirleitt er ár tvö gott og svo er hann rekinn á þriðja ári en ef hann ætlar að ná árangri þá verður það að vera í bikarkeppnum því liðið er einfaldlega ekki nógu gott til að keppa af alvöru um titilinn og við teljum þá ekki ná að komast inn í Meistaradeildina heldur. Liðið hefur eytt gríðarlegum peningum í að byggja nýjan og stórkostlegan völl og hefur þurft að taka peninga frá styrkingu leikmannahópsins og í þær framkvæmdir. Þeir sóttu Hojberg frá Soton og Doherty frá Wolves til að styrkja sig í vörn og á miðju en eru alltof háðir mörkum lykilmannsins Harry Kane og þurfa miklu meira frá nöfnum eins og Dele Alli og Son í vetur á meðan þeir ná ekki að styrkja leikmannahópinn fremst á vellinum. Vel má vera að José nái sér í bikar en í deildinni verður árangurinn þessi…og það mun hita sætið. Kemur Poch ekki bara aftur þangað í vor?

5.sæti Arsenal 155 stig

Já. Það beinlínis þurfti að búa til reglu til að ákvarða muninn á Norður-London nágrönnunum. Jafnmörg stig og nákvæmlega eins stigadreifing milli penna bjó til hið endanlega tie-break sem er að pistlahöfundur ákvarðar milli þeirra tveggja sem sitja í þessum sætum, þetta hefur aldrei gerst áður í spánni og mín ábyrgð því stórkostleg! Að gamni slepptu þá væri þessi árangur, 5.sæti á fleiri mörkum skoruðum en Spurs skref í rétta átt hjá Arsenal og Arteta. Liðið var í miklu basli síðasta vetur þar til hann tók við, leikstíllinn óráðinn á margan hátt, Özil í fýlu og fleiri með honum þar – áhangendurnir sjóðpirraðir og neikvæð bylgja um allan klúbbinn. Arteta kom inn og nýtti tíma sinn vel, má alveg gefa honum sérstök verðlaun fyrir hvernig hans lið nýtti Covid því þeir komu út úr því með leikstíl sem tryggði þeim góð úrslit í deildinni og sigur í FA cup eftir að hafa unnið City og Chelsea á þeirri leið. Þéttur varnarleikur þar sem varnarlínan er frekar djúp og varin af varnarmiðjumönnum sem eru þó fljótir að snúa vörn í sókn og koma boltanum á öskufljóta framlínu sem er öflug að klára færi. Í sumar nappaði Arteta svo Willian frá Chelsea og þar fer leikmaður sem fellur alveg inn í þá jöfnu og að auki sótti hann brasilískan hafsent, Gabriel að nafni sem á að vera mjög öflugur varnarlega og með mikla sendingagetu. Það er mikið jákvætt í kringum félagið núna og fréttir eru þess efnis að þeirra lykilmaður, fyrirliðinn Aubameyang sé sannfærður um að liðið verði á ný eitt þeirra stærstu í Englandi og Evrópu fljótlega þannig að hann muni skrifa undir langtímasamning nú í haust. Arsenal er á leið til baka í toppslaginn en stoppa í 5.sæti í vetur.

4.sæti Chelsea 173 stig

Enn á ný er talsverður stigamunur milli sæta, nú milli fjórða og fimmta. Sem sýnir það að við teljum topp fjóra skera sig frá þeim neðar og Chelsea verði í sætinu sem fyrst gefur Meistaradeildarsæti. Chelsea átti fínt tímabil undir stjórn Lampard en þó kannski eilítið súrt þar sem að þeir töpuðu tveimur úrslitaleikjum og voru í raun lengra frá toppsætinu en árið á undan. Þeir ákváðu að horfa til sinna ungu manna sem lánaðir höfðu verið út og suður fram að því og það var kannski ástæða óstöðugleikans sem einkenndi liðið, þeir áttu virkilega góða leiki en svo ferlega dapra þess á milli. Í sumar hefur því verið skipt um gír og Chelsea eytt peningum eins og barn í nammilandi sem fær eins mikinn pening og það langar í. Þeir kaupa þrjá spennandi leikmenn í formi Haverts, Werner og Zyiech og náðu svo í varnarstyrkingu með Thiago Silva og Ben Chilwell. Svo segja má að þeir hafi verið líklegir sigurvegarar gluggans og breiddin í liðinu, sér í lagi fremst á vellinum, hefur aukist mjög. Þetta hlýtur þá að þýða að á ný verði margir þeirra sem fengu mínútur í fyrra fari nú á lánsflakkið sem fylgt hefur Chelsea síðustu ár. Stórar spurningar verða sendar í átt stjórans sem nú hefur fengið fullt af peningum til að sækja þá leikmenn sem hann þá á að ná betri árangri með. Krafa Roman hlýtur að vera titla og þá sérstaklega alvöru atlaga að stóru tveimur. Frank þarf að kunna að vinna með stóran hóp fullan af óþolinmóðum egóum og ef það tekst gæti veturinn orðið Chelsea gjöfull. Þegar kemur að því að finna lykilmann Chelsea þá er eiginlega pínu erfitt, ég segi Kanté í dag en líklega horfa bláliðar til þess að Werner eða Pulisic verði þeir sem að komi liðinu þangað sem þá langar.

3.sæti Man United 174 stig

Litlu munar á sætum þrjú og fjögur í spánni okkar, með Óla við stýrið enda United í þriðja sætinu, sjónarmun ofan við Chelsea. Mjög margt færðist í rétta átt hjá þeim eftir að Bruno Fernandes mætti til liðsins, hann fór að skapa færi fyrir framherjana sem var mjög af skornum skammti fram að því og um leið héldu þeir betur í boltann ofar á vellinum. Það skipti heilmiklu máli því varnarleikurinn var ekki glimrandi hreint og De Gea í bulli á löngum stundum, nokkuð sem kemur okkur öllum á óvart að hafi ekki verið unnið í nú í sumarglugganum. Mögulega er bara Dean Henderson hugsaður sem sá sem gæti komið á milli stanganna og með kaupum á Van de Beek er ljóst að miðsvæðið þeirra verður mjög vel skipað. Solskjaer einhvern veginn býður ekki upp á það að maður hafi trú á að liðið vinni titla eða nái að blanda sér af alvöru í slíka baráttu. Það er ójafnvægi í leikmannahópnum þrátt fyrir að miklum fjárhæðum hafi verið eytt í það undanfarin ár og á meðan svo er þarf stjórinn að vera sterkari en Norðmaðurinn til að ná árangri. United leiddir af Fernandes verða þó á betra róli en í fyrra og nokkuð öruggir með Meistaradeildarsætið – en ennþá töluvert frá því að keppa um titilinn. Leikmannahópurinn sér til þess að þeir verða ekki neðar og ef að United sækir sér stjóra sem ræður við stórlið þá eru þeir ekki mörgum skrefum frá alvarlegri atlögu að titlinum. Vonandi bara heldur Óli áfram um stýrið sem lengst!

2.sæti Man. City 192stig

Þá liggur það klárt, spáin okkar tryggir City mönnum silfrið annað árið í röð. Sem er frábær árangur auðvitað og ekki spurning að það gleður þá óstjórnlega…eða? City var ekki nálægt okkar mönnum í fyrra, munurinn alveg ótrúlegur og við teljum að þeir muni ekki ná að brúa það bil í vetur og niðurstaðan verði sú sama og á þessari leiktíð, Pep hendir sér pirraður í jörðina oft í vetur en þó sjaldnar en í ár því munurinn á City og Liverpool verður minni í vetur. Það eru þó stór viðfangsefni framundan hjá Pep því liðið var í töluverði brasi með varnarleikinn eftir að Kompany fór og þrátt fyrir að þeir hafi nú í sumar keypt Nathan Aké þá er það ekki nóg að okkar mati og ekki ólíklegt að þeir hendi upphæðum í Koulibaly áður en glugginn lokar. Þeir hafa líka átt í brasi með bakverðina sína og það auðvitað er ekki gott í nútímafótbolta. Þeir missa líka annan leiðtoga úr liðinu því David Silva tók við hlutverki Kompany sem fyrirliðinn í klefanum og utan vallar en hefur nú líka kvatt. Eins og með Kompany var hann ekki að spila alla leiki en var stór rödd í klefanum og á æfingasvæðinu og verður saknað. Það er alveg klárt að City er sært dýr í vetur, það var þeim mjög erfitt að horfa á bak titilsins með þeim hætti sem varð og þeir ætla að gera allt til að komast aftur á sinn stall um leið og það er hvert ár sem er árið þar sem Pep ætlar að vinna Meistaradeildina og það verður áfram krafan í vetur. Þeir eru náttúrulega með frábæra leikmenn innan sinna raða, lykilmaðurinn Kevin de Bruyne líklega besti leikmaður deildarinnar og það er alveg inn í myndinni að þeir sæki sér enn meiri styrkingu áður en tímabilið hefst til að koma til móts við hækkandi aldur Aguero og til að auka breidd á vængjunum og í bakverði. Þeir vilja ná titlinum aftur og tveir í hópi okkar pennana telja að þeim takist það. Heildarspáin okkar er þó ekki sú. Við teljum þá fá silfrið annað árið í röð…sem þýðir að….

1.sæti Liverpool 197 stig

Elskurnar, við höfum fulla trú á því að við höldum Úrvalsdeildarbikarnum við Merseyána áfram að þessu tímabili loknu og við náum alvöru titilvarnartímabili með partý á endanum. Auðvitað höfum við eilitlar áhyggjur af því að bilið frá fyrstu 11 leikmönnunum á leikskýrslunni og þeim sem eiga að leysa þá af sé full mikið og það geti orðið vandamál á leiktímabili eins og því sem verður í gangi í vetur þar sem mikið álag verður á liðin vegna tímapressu á að klára mótin á réttum tíma þrátt fyrir að það hefjist mánuði síðar en vanalega. Við teljum bara muninn á okkur og City vera of mikinn til að þeir ljósbláu nái okkur í vetur þrátt fyrir að okkur finnist ólíklegt að við náum í 99 stig þá muni 91 – 93 stig duga til að vinna titilinn í vetur og það muni okkar mönnum takast. Við erum með besta markmanninn og vörnina í deildinni og framherjatríó sem allir vilja eiga, það er kannski miðjan sem við myndum vilja sjá uppfærslu á og það er ekkert ótrúlegt að það verði gert áður en glugginn góði lokar 5.október. Undirbúningstímabil nákvæmlega eins og Klopp vill sjá hjálpar til, hann var með allan leikmannahópinn að mestu leyti nú í sumar og ekkert heimshornaflakk til að spila marklausa leiki við misgóðar aðstæður sem truflaði. Þetta allt er uppskrift að góðum vetri sem við höfum fulla trú á enda átta af okkur tíu sem eru á því að við verjum titilinn leiddir af Klopparanum sem er okkar lykill auðvitað en ég held að ég pikki Sadio Mané út sem lykilmanninn okkar nú orðið. Margir auðvitað tilkallaðir þar og mér finnst alveg erfitt að tala ekki um Hendo eða Bobby hérna en Mané er bara hinn fullkomni LFC og Kloppleikmaður. Öskufljótur og áræðinn, frábær að klára færi og gríðarlega duglegur að vinna boltann til baka þegar við töpum honum. Jordan Henderson mun því lyfta titli númer 20 hjá Liverpool ef spá okkar nær fram að ganga – SEM AUÐVITAÐ ER ÓSKEIKULT AÐ GERIST!!!

Þá liggur spá tímenninganna hér á kop.is klár svo tímabilið bara getur byrjað! Endilega hendið ykkar spám í athugasemdir hér að neðan og sjáum hvort þið eruð sammála okkur hér á kop.is!

14 Comments

  1. Svona hljóðaði mín spá:

    1. Liverpool: Hef bara svo mikla ofurtrú á þessu stórkostlega fótboltaliði. Síðasta tímabil var sturlun, og ég held að menn haldi dampi, þó svo að þetta verði mun erfiðara og jafnara á toppnum. Barátta við City fram á síðustu stundu, en númer 20 verður dreginn í hús.
    2. Man.City: Frábært fótboltalið og er að bæta sinn helsta veikleika. Verða skelfilega sterkir í ár.
    3. Chelsea: Þegar þetta er ritað, þá hafa þeir styrkt sig liða mest á milli ára. Hef þó trú á að breytingarnar séu of miklar til að þeir blandi sér strax í titilbaráttu, en það nálgast hjá þeim.
    4. Man.Utd: Hef bara einfaldlega litla trú á Ole. Ójafnvægi í liðinu og eins og staðan er núna, ekki mikil breidd þrátt fyrir öll fjárútlátin undanfarin ár. Eru samt fremri liðunum þar fyrir neðan.
    5. Tottenham: Móri kraflar sig í Evrópudeildina (sem hann elskar svo mikið), en ekki mikið meira en það. Hann veit að núna styttist í annan endann hjá honum, er aldrei lengi á hverjum stað og síðasti séns hjá honum að gera eitthvað af viti áður en hann fær alla upp á móti sér og verður rekinn á næsta ári.
    6. Arsenal: Arteta að gera fína hluti með Arsenal, en það vantar bara of mikið upp á hópinn hjá honum svo þeir geti blandað sér eitthvað af viti í baráttu um sæti þarna ofar í töflunni.
    7. Leicester: Skemmtilegt lið og Brendan að gera fína hluti þarna. Skitu smá á sig í lok síðasta tímabils, er ansi hræddur um að sénsinn þeirra hafi farið þá, munu ekki ná að stríða þessum stóru 6 í bili. Samt miklu betri en restin.
    8. Everton: Þessi fjárútlát þeirra hljóta að fara að skila þeim aðeins ofar, en ekki telst það mjög ofarlega. Geta verið ánægðir ef þeir ná þessu sæti og eru að bitrast upp töfluna.
    9. Wolves: Ég er á því að Wolves séu aðeins að staðna, skemmtilegt lið með flottan stjóra, en bilið að breikka í liðin sem ég spái fyrir ofan þá.
    10. West Ham: Alltaf klikkar maður á þessu liði, setur þá yfirleitt alltof ofarlega, en hana nú, ég geri það bara enn og aftur. Þetta lið á ekkert heima þarna við botninn, loksins held ég að þeir komist í langþráð miðjumoð.
    11. Southampton: Mér finnst skemmtilegir hlutir vera að gerast hjá Southampton, hafa verið ansi öflugir eftir niðurlæginguna gegn Leicester síðasta vetur. Þeir verða á lygnum sjó um miðja töflu.
    12. Newcastle: Manni sýnist að Newcastle séu að feta veginn upp á við, hægt og hljótt. Ef þeir næla sér í öflugan framherja, þá getur allt gerst hjá þeim. Bruce kann alveg á enska boltann.
    13. Brighton: Potter er að gera virkilega frábæra hluti, spilamennska liðsins virkilega skemmtileg og ég er á því að núna fari það að skila betri árangri, á öðru ári.
    14. Crystal Palace: Mikið væri ég til í að senda þá niður, en þeir eru með nokkra gæðaleikmenn sem ég er á því að geri gæfumuninn, þrátt fyrir Woy.
    15. Burnley: Annað lið sem ég þrái að sjá falla. Alveg drepleiðinlegt stórkallalið sem alltaf nær að hnoða sig frá fallsvæði og stunum bara alltof hátt upp töfluna. Held að þeir verði ekki í stórri fallhættu frekar en fyrri daginn.
    16. Aston Villa: Rétt björguðu sér frá falli síðast og verða í bullandi baráttu um það aftur núna. Held að þeir séu reynslunni ríkari og muni aftur halda sér uppi og geta byrjað að byggja á því.
    17. Leeds: Ég vil hafa Leeds í efstu deild, en þetta verður geysilega erfitt tímabil fyrir þá og ég er skíthræddur um að þeir fari niður aftur. Ég vildi bara ekki spá öllum nýliðunum niður, þannig að ég tippa á Bielsa og félaga í þessu kapphlaupi.
    18. Sheff.Utd: Já, þetta kemur kannski mörgum á óvart, þar sem þeir voru spútnik lið síðasta tímabils. Ég er þó á því að „second season syndrome“ komi til með að bíta þá fast í rassgatið, hópurinn er þunnur og það verður erfitt að fylgja síðasta tímabili eftir.
    19. WBA: Munurinn á milli efstu og næst efstu deildar er bara mjög mikill og það sem maður hefur séð af WBA er bara einfaldlega ekki nægilega gott til að halda sér í deild þeirra bestu. Er enginn aðdáandi þeirra og get ekki sagt að það myndi græta mig á kvöldin ef þeir myndu falla.
    20. Fulham: Fulham komu upp fyrir 2 árum, styrktu sig mikið og skítféllu. Nú eru þeir aftur komnir upp, með veikari hóp og munu ekki bæta miklu við að manni skilst. Held að þeir fari rakleitt niður aftur.

    2
  2. Hérna er mín 🙂

    1. Man City
    Þetta lið hefur mikil gæði og mikla breydd. Það verður spilað mjög þétt og þeir geta bjargað sér er leikmenn fara að meiðast og svo líklega auka hungur að vinna titilinn aftur. Vonum samt að meistaradeildar áhyggjur Pep verða áfram að stríða honum. Þeir eru samt ekki hættir að versla og því miður þá segir hausinn að Man City klára þetta í ár.

    2. Liverpool
    Við erum með stórkostlegt lið en áhyggjur snúast um að gæðin hrapa meira niður hjá okkur ef lykilmenn meiðast en hjá Man City. Ef allir eru heilir þá endum við á toppnum en sökum þess að það er spilað svo þétt þá gætum við lent í vandræðum. Spái samt í kringum 90 stig. Þetta verður samt Keita tímabilið. Annað hvort stimplar hann sig inn sem stjarna eða hann verður seldur næsta sumar.

    3. Chelsea
    Frank er að gera góða hluti með þetta lið en núna er hann að fara í aðra átt. Það er verið að versla og þessir ungu leikmenn fá kannski aðeins minna hlutverk en gæðinn framávið og breyddinn þar eru rosaleg. Timo Werner verður því miður góð viðbót og varnarleikurinn á eftir að þéttast. Ef þeir kaupa alvöru markvörð þá gætu þeir jafnvel blandað sér í titilbaráttu í ár.

    4. Man utd
    Á meðan að Óli er að stjórna þessu þá er maður ekkert stressaður að þeir séu að fara að berjast um titilinn. Bruno breytti öllu hjá þeim(eins og ég var búinn að spá) og sóknarlínan virkar góð en vandamálið hefur verið markvörðurinn og að ná að halda dampi allt tímabilið. Dean Henderson gæti reyndar lagað markið hjá þeim.

    p.s Vissu þið að Van Dee Beek er sá leikmaður í Hollenskudeildinni sem hefur fiskað flest víti síðan 2018 en það var einmitt það sem þeim vantar. Fleiri víti ?

    5. Arsenal
    Ég er hrifin af Mikel Arteta sem stjóra og þeir eru klárlega á réttri leið. Hann hefur náð að þétta varnarleikinn hjá þeim sem var númer 1, 2 og 3 . Aubameyang mun alltaf raða mörkum inn og þeir eru með nokkra skemmtilega leikmenn t.dTierney, Saka og svo eru Arsenal aðdáendur mjög spenntir fyrir Saliba.

    6. Tottenham
    Móri kann að ná í úrslit og því get ég ekki sett þetta lið neðar(Var nálagt því að láta Wolves fyrir ofan). Maður veit að liðin hans Móra munu verjast en spurning er hvort að hann nær að búa til nógu miklan sóknarþunga gegn minni spámönnum. Þeir ættu samt að vera með nóg af köllum til að opna varnir Harry Kane, Son, Alli, Moura, Lamela og Bergwin eru leikmenn sem eru hættulegir en annað meiðslatímabil hjá Kane og þá er mesta ógnin farinn. Þetta er lið sem mun annað hvort ná þessu við gegn heiminum stemmningu og jafnvel ná uppí top 4 eða jafnvel allt springa í loft upp og Móri klárar ekki tímabilið. Ég var ekki alveg viss svo að ég setti þetta bara þarna mitt á milli.

    7. Wolves
    Viltu fá harðduglegt, skipulagt og skeinuhætt lið sem auðvelt er að hrífast með þá bara gjörið þið svo vel Wolves. Nuno er að gera góða hluti með þetta lið og ef eitthvað lið fer að troðast í vetur inn fyrir top 6 þá er það þetta lið. Það væri samt ágæt fyrir þá að auka smá að breyddina hjá sér og ég spái því að þeir gera það.

    8. Leicester
    Ég get ekki fyrirgefið Brendan að hafa hleypt bæði Man utd og Chelsea inn í meistaradeildina. Þeir voru svo með þetta en eins og 2014 þá bara fer allt í fuck undir lokinn. Þeir verða enþá pínu niðurbrotnir þegar þetta tímabil hefst en þeir eru alltof gott lið til að detta úr top 10. Þeir eru með all mjög solid s.s markvörð, vörn, miðju og sókn og á sínum degi geta þeir unnið öll lið.
    Brendan lætur þá spila flottan bolta en ég er samt ekki viss um að þeir nái aftur sömu hæðum og á síðasta tímabili.

    9. Southampton
    Var að pæla í að setja Everton á undan þeim en maður á alltaf að nota tækifærið og setja Everton neðar ef maður getur.
    Maður hefur tilfiningar til Southampton fyrir að útvega okkur svo marga lykilmenn í meistaraliðið okkar en þjálfarinn þeira Ralph Hasenhuttl er að gera frábæra hluti með þetta lið. Hann hefur greinilega náð að búa til sterkaliðheild og lætur liðið sitt spila fínan bolta með sjóðheitan Ings til að raða inn mörkum (vá hvað maður væri til í Ings á bekknum hjá Liverpool í dag).

    10. Everton
    Þeir eru heldur betur að fjárfesta þessa dagana og veit maður að Ancelotti mun því miður rífa þetta lið aðeins upp. Þeir eru með einn af lélegri markvörðum deildarinar sem mér finnst vera bara kostur og það eru ekki leikmenn þarna sem maður finnst vera mjög spennandi. Það er samt skilda að nefna Gylfa þegar maður talar um Everton og er það hér með lokið en ég hef ekkert að segja um hann enda vita allir á Íslandi um hans framistöðu.

    11. Sheffield United
    Ég held að ég sé nokkuð örlátur að láta þá svona ofarlega. Wilder gerði stórkostlega hluti með þetta lið á síðasta tímabili og það verður erfitt að ná þeim aftur á svoleiðis skrið. Þetta er lið sem mun sakna stuðningsmanna sinna hvað mest í þessu covid drasli en það er erfitt að brjóta þá niður og þótt að maður var að gæla á tímabili við þá hugsun að þeir gætu dottið í fallbaráttu þá ætla ég bara að henda þeiri hugsun í sjóinn hér með.

    12. Burnley
    Þarf ekkert að tala um þetta lið. Spilar alltaf eins og verður alltaf á svipuðum slóðum. Já var næstum því búinn að gleyma. Jói Berg spilar með þessu liði( sjá Gylfa hjá Everton)

    13. Brighton
    Þetta er eitt af fáum liðum sem eru í neðrihlutanum sem mér finnst gaman að horfa á. Potter er að láta þá spila flottan fótbolta, þar sem þeir eru að halda bolta og reyna að sækja á mörgum mönnum. Ekki alltaf þessi 11 manna varnarpakki sem maður sér oft gegn minni spámönnum. Adam Lallana á eftir að koma sterkur þarna inn og smita aðeins út frá sér meistarasjálfstrausti og hugsunarhátt.
    Tariq Lamtpey er leikmaður sem menn ættu að taka eftir og Lewis Dunk/Ben White eru leikmenn sem verða ekki þarna mikið lengur.

    14. West ham
    Mér finnst þetta frekar leiðinlegt lið en þetta leiðinlega lið er samt með inná milli fína leikmenn sem ættu að hjálpa þeim að falla ekki. Rice, Yarmolenko, Soucek og Antonio

    15. Newcastle
    Lið sem næstum því var ógeðslega ríkt en stuðningsmenn liðsins eru að átta sig á því að þeir eru á sama stað og á síðasta tímabili og gætu jafnvel fallið í ár. Steve Bruce mátti eiga það að hann gerði ágæta hluti með þetta lið með því að láta þá spila skelfilegan fótbolta en ég held að þeir gætu verið í meiri veseni í ár. Það ætti eitthvað stærra lið að skoða að fjárfesta í Allan Aint – Maximin held að hann gæti orðið góður með betri samherjum sem þora að fara yfir miðsvæðið.

    16. Leeds
    Það er líklega mjög vinsælt að spá þessu liði ofar. Þetta er Leeds mætir aftur og þeir eru ekki að koma upp til þess að lenda í fallbaráttu. Bielsa er geðveikur þá meina ég bókstaflega en eins og svo margir sem eru aðeins öðruvísi þá er hann líka algjör snillingur og ég held að hann haldi þeim uppi en þetta verður sko engin endalaus gleði hjá þeim. Þetta er lið sem eru mjög vanir að spila á móti liðum sem pakka í vörn á móti þeim en í Enskuúrvaldsdeildinni þá eru lið ekkert að fara að pakka í vörn á móti Leeds(jú nema Steve Bruce og Newcastle sem gera það á móti öllum).

    17. C.Palace
    Fyrir nákvæmlega 5 sek þá voru Palace að fara niður hjá mér en ég breytti því og var það eiginlega af því að ég fór að pæla meira í næsta liði. Roy gamli vantar ekki reynsluna og þeir eru enþá með Zaha sem er lykilinn á því að þeir halda sér uppi en eitt árið. Þeir eru samt að verða svo gamlir að þessi svo kallaða reynsla fer að verða til vandræða frekar en hit. Þeir binda samt vonir við að Eze mun fríska aðeins uppá þetta en það er svo lítið til að fríska uppá, það er flest allt á niðurleið.

    18. A.Villa
    Já, þetta er liðið sem var að halda sér uppi þangað til að ég fór að pæla í hver í andskotanum á að skora fyrir þetta lið. Þeir voru í vandræðum með sóknarmenn á síðastatímabili annað hvort vegan meiðsla eða hæfileikaskorts og þetta vandamál er enþá í gangi.
    Ef marklínutækni væri í lagi þá væru þeir líklega í championships deildinni núna en þeir gera það þá bara á næsta tímabili.

    19. Fulham
    Hef farið á þeira heimavöll og var það skemmtileg upplifun(Sturridge skoraði þrennu) og það er svona fjölskyldustemmning. Þetta lið fer samt eins langt og Aleksandar Mitrovic tekur það og þar sem hann er alveg eins líklegur til að skora 15 + mörk eða fá 5 bein rauðspjöld þá ætla ég bara að setja þá niður.

    20. WBA
    Ég held að þeir verða ekki góðir en þið hafði líklega giskað á það fyrst að ég setti þá neðsta. Bilic fór óvænt upp með þá en ég held að hann fari sanfærandi niður með þá. Ég sá þá samt spila nokkra leiki á síðustu leiktíð og þeir geta alveg bitið frá sér. Matheus Pereira er skemmtilegur leikmaður sem ég held að myndi ekki fara með þeim niður um deild.

    5
  3. Top 4 verður eins, ég sé ekki tottenham né arsenal hafa næg gæði í þetta. Liverpool er á topp tímapunkti, haldist vörnin heil þá efast ég ekki um úrslit, ég hugsa að klopp gefi skít í dollurnar eins og hann hefur gert, deild og meistaradeild sem verður fokusað á… Vörnin verður fall city annað árið í röð. Vilji wijnaldum ekki krota á samning gæti ég séð klopp kaupa eitthvað,, gæti látið wijnaldum fara núna til að fá pening vona samt að hann skrifi undir hann og hendo eru hryggjarsulan á miðjunni. En að ætla að efast um klopp það er ekki valmöguleiki, gæti örugglega unnið deildina með u21 liðinu ég hann vildi.

  4. Bjartsýni er alltaf gott að hafa. Það jákvæða sem Liverpool og Man City hafa yfir önnur lið er að hópur þessara liða er að miklu leyti óbreyttur og röskun engin.

    Mín spá er að við verðum í topp 4 þetta árið ef hópurinn verður endanlegur eins og hann er í dag. Ef við hinsvegar styrkjum okkur frekar þá er betri séns á að taka dolluna aftur og þá meina ég kaup á leikmönnum sem skipta máli, ekki krakka.

    1
  5. 90% líkur á að LFC eða City vinni titilinn. Meiðsli (heppni) og áhersla á UCL mun ráða hvort þeirra.
    50% líkur á að ManU nái ekki í topp 4. Gæti farið illa hjá þeim ef Harry þarf að sitja hjá Hellas
    25% líkur á að það verði vesen með covid og leikir jafnvel spilaðir annan hvern dag til að klára fyrir Euro 20(21)
    50% líkur á að meira en 50% af áhorfendum verði leyft um áramót
    99% líkur á að bakverðir LFC verði með fleiri stoðsendingar en miðja allra liða nema City
    100% líkur á að LFC spili á móti 5 varnarmönnum í meira en 2/3 af leikjum sínum
    50% líkur á að 433 verði spilað minna en helming af leikjunum
    75%+ líkur á að LFC muni spila A/B miðju og framherjahópa eftir andstæðingum og með mjög mismunandi kerfi. Klassíska A liðið myndi spila 433 gegn topp liðunum, B lið með 4213 eða 42121 eða slíkt gegn rútunum (nema Manu og Tottenham rútunum).

    100% líkur á að menn sem reyni að horfa á alla leikina í beinni þurfi að vera sjálfstæðir atvinnurekendur og/eða fráskildir

    3
  6. Sammala Sigurði Einars að City er með sterkari menn ef bestu menn þeirra detta i meiðsli.
    Einnig hef eg milklar ahyggjur af þvi að það verða engir stuðningsmenn a Annfield sem oft hafa verið okkar 12 maður.

    Vona samt að lfc verji tittilinn

    5
  7. Mín spá: 1. Liverpool. 2. Man. City. 3. Arsenal. 4. Chelsea. 5. Man. U.
    Það er kannski óskhyggja frekar en hyggjuvit sem setur Man fokking utd. í fimmta sætið.
    Takk fyrir podcastið, alltaf gaman að hlusta.
    P.S hvað er podcast á góðri Íslensku?

    1
  8. Ég skil ekki þetta útspil Klopp að Liverpool geti ekki eytt eins og Chelsea gerir nema hann sé með Þýska kaldhæðni. Chelsea eyddi ekkert þetta ár sem bannið var og sama má segja um Liverpool, nema hvað viið vorum ekki í banni.

    Fyrst og fremst er Liverpool stærri klúbbur og svo getur ekkert lið eytt meiri pening af því að eigendur þess eigi peningaprentvél því það stangast á við FFP.

    Þetta eru bara FSG að halda sig við planið sem er að setja engan pening sjálfir í verkefnið.

    • Það má leggja til aukið eigið fé (háð takmörkunum) auk þess sem margir klúbbar eru með lán frá eigendum sem eru á miklu betri kjörum en tíðkast (afborganir jafnvel færðar til eða vextir felldir niður útaf tekjusamdrættinum). FSG bætir engu við heldur á klúbburinn að vera sjálfbær. En svo skilaði söluverð Coutinho sér ekki að fullu og verið er að fjárfesta í aðstöðu sem bætist ofan á tekjusamdráttinn útaf Covid.

      1
    • Án Roman væri Chelsea ekki að gera mikið á markaðnum núna og þeir btw keyptu meira þegar þeir voru í banni en Liverpool

  9. Sælir drengir

    Þakka fyrir góða spá og vonandi að hún rætist svo maður geti fagnað með liðinu næsta vor.
    Hlakka svo mikið til að fara í ferðirnar með ykkur í framtíðinni, ætli maður bjóði ekki konunni með sér til Liverpoolborgar.

    Enn og aftur, takk fyrir mig (eins og Ingó söng svo fallega um eyjuna fögru)

Gullkastið #300 / Spá Kopverja – fyrri hluti

Innkastið með Kop.is / Pikkið.is