Hornets heimsóttir

Það er búið að vera óvenju rólegt hjá okkar mönnum núna í febrúar: fyrst kom vetrarfríið í deildinni, og eftir það hefur að jafnaði bara verið einn leikur í viku. En nú fer að detta í ansi annasamt tímabil því næstu 3 vikurnar verður aldrei meira en 5 dagar á milli leikja. Þessari lotu lýkur semsagt með leik gegn Palace þann 21. mars, en þá tekur við landsleikjahlé. Það hvort Palace leikurinn fer fram þann 21. mars er svo ekki 100% öruggt þar sem við gætum vel fengið eitt stykki bikarleik þá helgina, þ.e. ef liðinu tekst að leggja Chelsea að velli í næstu viku.

En nóg um það, gerum eins og Klopp og Lijnders og einbeitum okkur bara að næsta leik. Sá leikur fer fram núna á laugardaginn þegar okkar menn leggja land undir fót, og heimsækja býflugurnar á Vicarage Road í Watford, rétt norðan við Lundúnir.

Örstutt um andstæðingana

Stemmingin í kringum Watford í byrjun tímabils var bara nokkuð góð. Þeir enduðu síðasta tímabil í 11. sæti og komust í úrslit bikarsins (án þess að Watford menn vilji endilega rifja upp hvernig sá leikur fór). Sem dæmi um væntingar til liðsins þá spáðum við kop.is pennar liðinu áfram 11. sæti í deildinni, enginn spáði þeim hærra sæti en því níunda, en enginn neðar en því þrettánda. En eitthvað breyttist í stemmingunni innan hópsins, og liðið er í framhaldinu búið að skipta tvisvar um knattspyrnustjóra á tímabilinu. Nigel Pearson tók við í byrjun desember, og eftir mánuð hafði liðið náð í nokkur ágæt úrslit: jafntefli gegn Palace og Sheffield, sigur gegn Man Utd, Villa og Wolves. Reyndar var fyrsti leikur Pearson við stjórnvölinn gegn okkar mönnum á Anfield, og það eru engin stig í boði fyrir að geta upp á hvernig sá leikur fór (hint: Watford tapaði). Eftir þetta mánaðar jómfrúartímabil hefur liðið aðeins unnið einn leik: gegn Bournemouth þann 12. janúar. Liðið hefur náð jafntefli gegn Spurs og Brighton, en tapað fjórum af síðustu fimm leikjum og eru í næst neðsta sæti deildarinnar í augnablikinu. Þeir eru að vísu með jafn mörg stig og West Ham í þriðja neðsta sæti, en lélegra markahlutfall.

Semsagt, Liverpool er að fara að mæta særðu dýri sem gæti vel bitið frá sér. Klopp talaði sjálfur um það á blaðamannafundinum að þó svo að úrslitin hafi ekki fallið með þeim gulröndóttu, þá hafi spilamennskan verið ágæt. Kannski var það bara hefðbundið bragð hjá Klopp að bera lof á Pearson svona fyrir leik, manni hefur sýnst hann reyna að hrósa andstæðingunum sé þess nokkur kostur.

Pearson hefur úr nánast fullmönnuðum hóp að velja, Femenia og Janmaat eru víst báðir að stíga upp úr meiðslum en tæpast leikfærir alveg strax. Það má því reikna með svipuðu liði hjá þeim eins og gegn United í síðasta leik.

Okkar menn

Við sáum nú reyndar mjög vel í leiknum á mánudagskvöldið hvernig er að spila gegn liðunum sem eru að berjast fyrir veru sinni í deildinni, og það er því ekkert á vísan að róa með úrslit þessa leiks. Í raun má færa rök fyrir því að liðin sem enn eiga séns á að bjarga sér frá falli séu e.t.v. erfiðustu andstæðingarnir, því restin af liðunum í deildinni hafa rosalega lítið að spila um. Jújú, það skiptir auðvitað einhverju máli hvor lið lendir í 8. eða 11. sæti upp á verðlaunafé að gera, og vissulega er í gangi barátta um sæti 4 og 5 til að komast í meistaradeildina (ef við gerum ráð fyrir að brottvísun City úr meistaradeildinni haldi sér), en þar fyrir utan má segja að fallbaráttan sé sú barátta sem sé einna mest “mótíverandi” fyrir leikmenn og lið almennt. Þetta veit Klopp mætavel, og er örugglega að undirbúa leikmenn sína fyrir baráttuleik.

Það eru ekki margir á meiðslalista: Clyne og Shaqiri (samkvæmt venju), Milner er farinn að hlaupa en er líklega ekki leikfær fyrr en í bikarleiknum gegn Chelsea. Og svo er það Henderson. Hann er líka á batavegi, en klárlega ekki leikfær og það munar um minna. Orðrómurinn um að Henderson ætti skilið að vera valinn leikmaður tímabilsins hefur ekkert verið að hljóðna upp á síðkastið, og í síðasta leik sást kannski einna best hvað hann er mikilvægur. Mér er til efs um að liðið hefði hleypt West Ham svona inn í leikinn eins og gerðist í síðasta leik ef Hendo hefði verið inná, öskrandi á sína menn að missa ekki einbeitinguna eins og manni fannst gerast, sérstaklega á fyrsta korterinu í seinni hálfleik. Keita er hæfileikaríkur knattspyrnumaður, en hann hefur ekki leiðtogahæfileikana sem Hendo hefur (hann hefur ekki einusinni enskukunnáttuna hans!). Það breyttist ýmislegt þegar Chamberlain kom inn á, og því er ekkert ólíklegt að Klopp stilli upp svipuðu liði og síðast, nema með Ox í stað Keita:

Alisson

TAA – Gomez – VVD – Robertson

AOC – Fabinho – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

Auðvitað eru ýmsir aðrir möguleikar í stöðunni. Lallana er ennþá leikmaður Liverpool, og er ennþá í uppáhaldi hjá Klopp. Minamino er alveg örugglega í langtímaplönum Klopp, og einhverntímann fer hann að banka á dyrnar í byrjunarliðinu (þó það gerist tæpast í þessum Watford leik).

Við spáum að sjálfsögðu að liðið haldi áfram sigurgöngu sinni. Hins vegar hefur liðið ekki verið með neinar flugeldasýningar, heldur bara gert það sem þarf til að landa sigrum. Spáum að það mynstur haldi áfram og að leikurinn endi 0-2 með mörkum frá Virgil (eftir horn frá Trent) og Mané.

KOMA SVO!!!

7 Comments

  1. Sælir félagar

    Þetta er ekki flókið – sigur og ekkert annað á minn disk. Watford kemur grenjandi brjálað inn í leikinn og sést ekki fyrir og gleymir að verjast. Í þeim darraðardansi skorar Firmino gull af marki og svo koma Salah og Mané með sitt hvor. Í uppbótartíma þegar ekkert er í gangi skorar einhver en ég er ekki viss um hver. Þar með eru úrslitin ráðin. Annað hvort 1 – 3 eða 0 – 4.

    það er nú þannig

    YNWA

    6
  2. Við sjáum í dag hversu mikla áherslu Klopp leggur á bikarleikinn á þriðjudaginn.
    Ef við sjáum svipað lið og jafnvel bara OX inn fyrir Keita þá sjáum við mun veikara lið gegn Chelsea en ef hann lætur kappa eins og Origi, Lallana, Matip fá að byrja þá er hann að hvíla menn fyrir Chelsea leikinn.

    Ég spái að hann stilli upp sínu sterkasta(Ox byrjar fyrir Keita) og við sjáum Adrian, Lovren, Matip, Lallana, Keita, Origi, Minamino, Milner(ætti að ná leiknum) ásamt 2-3 ungum leikmönum byrja í bikarnum.

    Watford fengu eiginlega fleiri dauðafæri gegn okkur á Anfield en nokkuð annað lið á þessari leiktíð og spái ég hörku leik sem við náum að sigra 1-2 Mane og Firmino með mörkin okkar.

    2
  3. Við Verðum bara að tryggja okkur titillinn sem fyrst aður en keppninn verður flautuð af. Sýnist menn vera alvarlega að skoða það.
    Vá hvað þetta er eitthvað livepool týpist, þurfti virkilega að koma heimsfaraldur núna loksins þegar liðið okkar er að vinna þann stóra.

    Ekki segja, slakaðu á gerist ekki! Þetta er að gerast mínir kæru bræður og systur, Em í hættu, Ólimpiuleikar í hættu og Enska premier league osfrv..
    Yrðu margir sáttir að ná skemma hátíðina fyrir okkur.

    1
  4. Tippa á sama byrjunarlið og gegn West Ham með Ox aftur kláran sem impact player í seinni hálfleik. Mögulega gerir hann einhverjar breytingar með Chelsea leikinn á þriðjudaginn í huga en á ekki von á því fyrr en titillinn er í höfn.

    1

Liverpool 3-2 West Ham

Byrjunarlið gegn Watford klárt! Lovren inn!