Atletico Madrid 1-0 Liverpool

Mörkin

1-0   Saul Niguez 4.mín

Leikurinn

Okkar menn hefðu varla geta byrjað verr. Atletico pressaði hraustlega frá fyrsta flauti og við vorum í vandræðum. Eftir rétt rúmar þrjár mínútur fengu heimamenn hornspyrnu og upp úr henni hrökk boltinn af Fabinho fyrir fætur Saul Niguez sem skoraði framhjá Alisson af stuttu færi.

Vandræðagangurinn hélt áfram næstu mínútur en smátt og smátt náðum við að hemja boltann og halda honum í okkar röðum. Uppspilið var þó ekki beisið og fátt markvert að gerast. Ef eitthvað var þá voru Atletico hættulegri þrátt fyrir að vera minna með boltann og á 25.mínútu þá átti Morata skot í teignum sem Alisson varði vel. Stuttu síðar þá fékk Salah boltann við misheppnaða hreinsun en móttakan olli því að þrátt fyrir að boltanum var að lokum komið í netið að þá var réttilega dæmd rangstaða.

Madridar-menn voru grimmir í pressu og návígum sem olli Liverpool talsverðum vandræðum með samspil. Þó kom færi á 35.mínútu með laglegu spili en skot Salah í teignum fór í varnarmann og í horn. Pirringurinn var augljós og síðla hálfleiks fékk Mané gult spjald fyrir að slæma hönd í Vrsaljko. Stuttu síðar gerðist svipað en léttvægara atvik milli sömu manna og hugsanlega hafði það þau áhrif að Klopp tók á endanum Mané útaf í hálfleik til að taka ekki séns á rauðu spjaldi.

1-0 í hálfleik

Síðari hálfleikur byrjaði með sama móti, LFC meira með boltann en gekk illa að brjóta á bak aftur þéttan og vel skipulagðan varnarleik Atletico. Á 53.mínútu fékk Salah gott skallafæri eftir fína sendingu Gomez en setti boltann framhjá. Það var því miður þema leiksins enda setti Liverpool ekkert skot á rammann og Oblak þurfti engan bolta að verja allt kvöldið.

Ef eitthvað er þá fengu heimamenn hættulegri færin og á 68.mínútu fékk Morata upplagt tækifæri í teignum en rann á rassinn við skottilraunina. Besta færi Liverpool í leiknum var líklega fimm mínútum síðar er Henderson náði ágætu skoti við erfiðar aðstæður en stýrði boltanum framhjá. Innáskiptingar, vond dómgæsla, japl og jaml og fuður fór í hönd en ekkert breyttist fram að leikslokum.

1-0 fyrir Atletico Madrid í fyrri leik liðanna

Bestu menn Liverpool

Flestir okkar manna spiluðu undir pari í kvöld og fátt um fína drætti ef draga á fram fínar frammistöður. Joe Gomez þótti mér standast raunina að mörgu leiti ágætlega, var kjarkaður við erfiðar aðstæður og líklega skástur okkar manna í kvöld. Firmino átti nokkra spretti en átti erfitt með að skapa sér eða samherjum opin færi. Fabinho var einnig reffilegur á köflum og stóð í hárinu á heimamönnum en enginn okkar manna á skilið neina merkilega sæmdatign fyrir leikinn í kvöld.

Vondur dagur

Sem fyrr segir var frammistaða okkar manna ekki upp á marga fiska og mætti draga nokkra marhnúta til ábyrgðar í þeim efnum. Ég læt það þó vera en fannst einna versta kvöldið eiga pólski heimadómarinn Szymon Marciniak. Hann spilaði alveg eftir skrifuðu leikriti Simeone þar sem hvert tilefni var nýtt til fullnustu í að tefja eða dæma á tittlingaskít. Vissulega gaf hann enga vonda vítaspyrnu eða þvíumlíkt en dómgæslan var fyrir neðan allar hellur í leiknum. Szymon segir slæm frammistaða.

Umræðan

Niðurstaðan er högg eftir velgengni síðustu mánaða þar sem allt hefur gengið upp. En það þarf meira en eins marks tap á útivelli til að slá Klopp & co. útaf laginu. Við eigum Evrópukvöld á Anfield inni og þar verður allt annar leikur spilaður. Atletico eru sannarlega eitt besta varnarlið í heimi og það sást vel í kvöld en erfiðleikarnir eru til þess að yfirvinna þá og eftir tæpan mánuð verður hlaðið í fallbyssurnar. Klopp lætur ekki að sér hæða og mun liggja yfir taktíkinni nótt sem dag þar til lausnin er fundin.

Púlarar þurfa almennt að reisa upp höku og ekki vera niðurlútir, hlífa hetjum sínum við neikvæði og bölmóð og vera tilbúnir í að styðja sína menn í næsta verkefni. Upp, upp, mín Saul en ekki seljum sál okkar dýrt í seinni hálfleiks þessa einstaka einvígis.

YNWA

 

32 Comments

  1. Hélt að enska deildin væri með lélegustu dómarana en nei þeir eru til verri gjörsamlega brjálaður í skapinu eftir svona leik!

    YNWA.

    4
  2. Hálfleikur……

    En þvílíkt skrímsli sem Gomez er að verða.

    Getum bara verið bjartsýn á framhaldið

    6
  3. Menn að koma alveg rosalega þungir undan þessu vetrarfríi. Leoikurinn spilaðist alveg eins og Atletico vildu að hann myndi spilast. Trúi samt að við klárum þetta á Anfield.

    3
  4. Finnið þið þessa tilfinginu, þetta kallast að tapa alvöru leik og það er drullu sárt en góðu fréttirnar eru að við eigum leik eftir á Anfield og maður er mjög bjartsýn að klára þetta einvígi.

    Þetta A.Madrid er auðvita ógeðslegt lið en þetta er þeira aðferð til að sigra leiki og þeir gerðu það vel. Það var farið að tefja frá 4 mín , það var farið að kasta sér niður og vera með leikaraskap, boltastrákarnir ekkert að flýta sér og það var hópast að dómaranum við hvert tækifæri sem gafst.

    Nú er bara að vona að Mane/Henderson eru ekki mikið meiddir og ég neita að trú því að Klopp tók Mane útaf bara af því að hann var með gult spjald á bakinu(mjög líklega fundið eitthvað í lærinu og engin áhætta tekinn). Maður var samt ekki ánægður að sjá Origi koma inná enda sá leikmaður sem maður finnst ekki í gæðaflokki hinna strákana og hefði Ox, Minamino eða jafnvel bara Keita verið meira spennandi kostur en hvað um það Klopp stjórnar og ég held að hann viti miklu betra hvað hann er að gera en nokkur tíman ég.

    Við erum komnir á þann stað að A.Madrid voru gjörsamlega í skýjunum og fögnuðu eins og þeir væru komnir áfram í leikslok á meðan að maður mátti sjá reiðisvipinn á okkar mönnum(sem var gaman að sjá).

    Nú getur maður ekki beðið eftir 11.Mars, þar sem stemmningin á Anfield verður sturluð og ég vona að við náum að keyra yfir þá.

    4
  5. Keyrum yfir þetta leikaralið á Anfield… FAST! Þvílíkt hvað þeir fengu að komast upp með spaghetti-taktana sína. Hélt að dómararnir væru búnir að undirbúa sig fyrir svona bull.

    Við verðum samt að skapa okkur betri færi og mikið svakalega munu AM pakka á Anfield. Þeir munu taka tvöfalda rútuleggjingu á þetta. Þetta minnti mig stundum á handboltaleik þar sem AM spiluðu aftarlega 10-0 vörn.

    4
  6. Sárt og ekki sangjarnt sama hvað “sérfræðingarnir” á stöð 2 segja. Jafntefli hefði gefið mun betri mynd af þessum leik. AM skora eftir horn sem þeir fá eftir innkast sem var aldrei þeirra. Við fáum spjöld fyrir eitthvað sem AM fá ekki. Við fáum hagnað sem er engin hagnaður. Leikmaður AM setur út hendina til að breyta stefnu boltans, hélt að það væri klárt spjald og aukaspyrna, en nei ekki á þessum velli. Það voru mörg svona smáatriði sem féllu gegn okkur en það er bara hálfleikur og við getum mun betur en í þessum leik. Of margir okkar manna ekki að sýna sitt rétta andlit en vonandi er þetta bara lognið á undan storminum. Svo má ekki gleyma því að maður er orðin svo ofdekraður að maður verður hreinlega brjálaður eftir svona leik. En annars er ég bara góður 🙂
    YNWA

    14
  7. Sælir félagar

    Þetta fór ekki vel og dómgæslan í leiknum var í einu orði sagt ógeðsleg. Það er ef til vill ekki hægt að kenna henni beint um þatta tap en það er erfitt að spila þegar dómarinn er 13. maðurinn með leikmönnum og áhorfendum sem studdu vel við bak sinna manna í Madrid. Það vantaði svolítið uppá gæðin hjá okkar mönnum en baráttan var í lagi. Verðum að halda hreinu heima og skora 2 áþá í seinni leiknum. Mér finnst þurfa betra “bakkupp” fyrir þá fremstu en það er nú bara ég.

    Það er nú þannig

    YNWA

    10
    • Þegar hann gulltryggði okkur champions leauge titilinn kanski? En er sammála að hann hangir of lengi á boltanum stundum og missir hann með þeim afleiðingum að við fáum á okkur skyndisókn.

      YNWA.

      10
  8. Sælinú.

    Nokkur sundurlaus atriði:

    1. Hrikalega er Moreno lélegur sóknarmaður.
    2. Æ, hvað maður hefði nú verið tilbúinn í Financial Almost-Unfair Play tilboð í norsku ljóskuna. Stóð virkilega aldrei til að kaupa hann??? Þótt mér þyki vænt um Origi eins og öllum sönnum púlurum – þá er þessi í allt öðrum gæðaflokki.
    3. Drungi yfir okkar mönnum – man ekki eftir svona löguðu í seinni tíð. Enginn skaraði fram úr. Alltof seinir, ónákvæmir og ragir. Að ná ekki skoti á markið er ekki gott.
    4. Varamenn bættu litlu við. Origi var samur við sig. Eins og bóndi á þungum skóm lengst af en átti svo gull af sendingu sem Hendó hefði getað gert betur með.
    5. Dómarinn.
    6. Þessi leikur minnti mig á Chelsea leikinn vorið 2014. Rútubílataktík og taugatrekktir andstæðingar verða allt í einu stórir karlar. Sem betur fer er tækifæri til að rífa sig upp á rassgatinu eftir þetta og sýna okkar réttu hliðar.

    5
    • 1 sammála enda bæði lélegur sóknarlega og varnarlega og því var hann seldur frá Liverpool 🙂

      5
  9. Hræddur um að seinni leikurinn verði gríðarlega erfiður. Napólí stimpill á þessu. Sama taktík. Dómarinn var ótrúlega slakur, á ekki að sjást á þessu leveli. Ekkert samræmi í dómgæslunni. Var ekkert VAR? Að því sögðu þá þurfa menn að girða sig í brók. Frí hafa yfirleitt ekkert gert fyrir Liverpool og oft eru það liðin sem fá meiri hvíld sem virka stirðari og þreyttari. Sáum þetta hjá Barcelona í fyrra er þeir hvíldu allt sitt byrjunarlið í deildinni fyrir leikinn gegn Liverpool í meistaradeildinni, töpuðu svo 4-0. Halda mönnum á tánum og láta menn spila annars dettur takturinn úr þessu.

    3
    • Sammála. Síðari leikurinn verður gríðarlega erfiður… Fyrir AM.

      2
  10. A.Madrid gerðu bara vel og áttu þetta skilið. Þeir voru nær því að bæta við marki en við að skora.

    Vona Henderson verði klár í heimaleikinn. Fannst hann líklegastur í dag.

    Þetta var ekta leikur fyrir Philippe Coutinho, að því sögðu hefði hann sennilega engu breytt. Liverpool var ekki að fara að skora.

    4
  11. Takk fyri skýrslu en bíðum nú við … var það ekki Fabinho sem fékk boltann í sig og kostaði þetta mark? Firmino var saklaus í þeim efnum!

    2
    • Hárrétt. Slógu saman F-in brasilísku nöfnin. Leiðrétt.

      Muchos gracias.

      2
  12. Lélegt samspil í framlínunni var því og miður jafn áberandi í leikjunum á móti Norwich og A Madrid.

    5
  13. Mikið er leiðinlegt að sjá Liverpool tapa fótboltaleik sem sýnir hversu ofdekraðir við stuðningsmennirnir erum orðnir. Mér finnst við hafa verið frekar slakir í vetur á útivöllum í CL og veit ekki alveg hverning og hvort það þarf eitthvað að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af því ? Klopp virðist treysta á að geta snúið þessu við á heimavelli og ég hef fulla trú á því að svo verði ! Mestu áhyggjur mínar snúast að því hvort einhver meiðsli sem virtust hrjá menn hafi áhrif á næstu leiki í ensku deildinni sem er að ég tel það sem Liverpool á að setja í algjöran forgang þ.e að klára hana sem fyrst. En keep on rocking……

    1
  14. Mér fannst ekkert fallegt við sigur Atlético Madrid. Í raun mjög ljótur sigur þar sem Atlético notar öll meðul til að knýja fram hagstæð úrslit. Þeir pakka í vörn og beita skyndisóknum samhliða því sem þeir tefja leikinn og gera sér upp meiðsli og reyna að fá leikmenn Liverpool spjaldaða helst með rauðu. Ekkert er heilagt. Beita jafnvel bolabrögðum. Svona hefur liðið spilað í Evrópuleikjum undan farin ár oft með góðum árangri. Ég á bara mjög erfitt með að skilja afstöðu álitsgjafa og sumra áhangenda Liverpool sem voru á því að þetta væri sanngjarn sigur. Ég held að flestir álitsgjafar séu orðnir svo leiðir og þreyttir á sigurgöngu Liverpool svo þessi sigur Atlético var kærkomin tilbreyting fyrir þá. Því gerðu þeir sér mikinn mat úr þessum úrslitum á kostnað Liverpool. Ég horfði á leikinn í gegnum sænska Viaplay og þar var sama viðhorfið og heima. Mér fannst Liverpool góðir í leiknum með yfirburði á öllum sviðum knattspyrnunar. Var virkilega stoltur af liðinu. Þeir fóru að spila á heimavelli Atlético og réðu algerlega gangi leiksins þó þeim hafi ekki tekist að skora að þessu sinni. Fengu á sig klaufa mark í byrjun leiks sem hleypti eldmóði í Atlético sem fögnuðu í leikslok sem og þeir hefðu unnið Evróputitilinn. Þetta bara sýnir á hvaða stalli Liverpool er í dag. Þeir eru einfaldlega bestir. Þetta Atlético lið nær ekki í hagstæð úrslit á Anfield sem fleytir þeim áfram. Liverpool eru einfaldlega of góðir. Það er einungis hálfleikur í þessu einvígi eins og meistari Klopp sagði eftir leik.

    8
  15. Svo má ekki gleyma því að innkastið sem var dæmt rétt áður en AM fengu hornið sem þeir skoruðu úr var rangur dómur þannig að AM átti aldrei að ná að skapa sér þessa hornspyrnu sem þeir skoruðu úr.
    Lína dómarans var svo á þeirri línu allan leikinn að ná varla einum dómi rétt.

    6
  16. Þegar De Ligt orðrómurinn var hvað hæstur var sögðu mér fróðari menn að Liverpool hafi hætt við hann eftir að Van Dijk átti að hafa sagt að sér þætti best að spila með Joe Gomez.

    Maður gaf ekki mikið fyrir þann orðróm þá, en núna trúi ég að eitthvað sé til í þessu. Þvílíkt monster sem Gomez er orðinn. Maður leiksins okkar megin í gær að mínu mati og í raun okkar besti leikmaður sem af er þessu ári.

    6
  17. Dómgæslan var fyrir neðan allar hellur í leiknum, svo slæm að Starfsmannaleigan Menn í vinnu myndu ekki ráða þessa pólverja í byggingarvinnu hér á landi.

    4
  18. Bráðnauðsynlegt og gott að tapa þessum leik. Það verður að keyra leikmenn, stjóra og aðdáendur niður í átt til jarðar með vissu millibili. Ég fann á sjálfum mér að ég var að verða fullmontinn. AM er með hörkulið og í flokki með Napóli og örfáum öðrum liðum sem ná að brjóta niður sóknaragerðir okkar manna. Anfield er allt annar staður fyrir okkar lið. Á venjulegum degi verður tveggja marka sigur og miðað við að AM var með boltann 30% af tímanum á heimavelli þá hef ég ekki trú á að þeir sæki mikið framm á við þegar þeir mæta á Anfield.

    2

Byrjunarliðið vs. Atletico Madrid á Wanda Metropolitano

Gullkastið – Ekkert stress eftir tap gegn Spænska Stoke