Liverpool 1 – 0 Everton

This city has two great teams: Liverpool and Liverpool reserves.
– Bill Shankly

Þessi ógleymanlegu ummæli voru endanlega sönnuð í dag þegar Klopp tefldi fram ungu og óreyndu liði gegn aðalliði Everton í bikarnum í dag, og vann að sjálfsögðu öruggan 1-0 sigur.

Mörkin

1-0 Curtis Jones (71. mínúta)

Gangur leiksins

Það sást fljótlega að rauðklædda liðið sem mætti út á Anfield var ekki með neina minnimáttarkennd gagnvart Everton, jafnvel þó svo að hinir bláu hafi að langmestu leyti teflt fram A liðinu, á meðan langflestir úr okkar A liði horfðu á leikinn uppi í stúku eða mögulega heima í sófa. Liðið einfaldlega barðist, hljóp og pressaði bara nákvæmlega eins og aðalliðið. Að vísu þurftum við að sjá á eftir Milner ganga af velli strax á 9. mínútu, líklega tognaður í læri. Við vonum að sjálfsögðu að þetta reynist ekki alvarleg meiðsli, enda Milner gríðarlega mikilvægur liðinu. Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, en vissulega myndi maður segja að Everton hafi fengið hættulegri færi. Betri andstæðingar hefðu sjálfsagt nýtt þau betur, en Adrian fékk í þrem tilfellum á sig skot sem hann varði, tvö með hægri fætinum og einn skalla sló hann út í teig. Í öllum tilfellum voru skotin tiltölulega beint á hann, en það þarf að verja þessi skot eins og hin. Hinumegin fékk Origi líklega hættulegasta færið, en Pickford varði í horn. Að líkum lætur hefði það nú ekki fengið að standa ef Origi hefði skorað, því hann var rangstæður þegar sendingin kom til hans, en aðstoðardómarinn sá það ekki.

Staðan 0-0 í hálfleik, og eins og Einar Matthías talaði um í hálfleik, þá var varnarlína með Williams, Phillips, Gomez og Larouci að halda hreinu, og með Adrian í marki. Það má líka rifja upp að aðalliðið fékk einmitt á sig 2 mörk í leik liðanna á Anfield nú í haust. Reyndar skoruðu okkar menn 4 á móti svo það gerði lítið til.

Hugsanlega áttu einhverjir von á því að Everton liðið myndi stíga upp í seinni hálfleik, en það var aldeilis fjarri því. Í raun voru okkar menn mun ákveðnari og það er ekkert fjarri lagi að segja að þeir hafi átt seinni hálfleikinn með húð og hári. Á 70. mínútu kom önnur skipting okkar manna, en þá kom Oxlade-Chamberlain inná fyrir Takumi Minamino. Sá var þarna að spila með liðinu í fyrsta skipti, og þó hann hafi ekki skorað mark þá smellpassaði hann alveg inn í liðið. Hann var greinilega að spila svipað hlutverk og Firmino, þ.e. hann leiddi framlínuna en var samt duglegur að koma til baka og vinna boltann á miðjunni. Þá var afskaplega jákvætt að sjá Ox aftur inni á vellinum eftir meiðslin sem hann varð fyrir í Qatar.

Og þessi skipting átti eftir að skila árangri strax mínútu síðar. Ox tók sér stöðu vinstra megin á miðjunni, Curtis Jones fór fram vinstra megin og Origi tók stöðuna sem Minamino hafði spilað. Ox vann boltann úti á kanti, sendi á Origi sem spilaði upp að vítateigshorninu, tók nett samspil við Jones á vítateigslínunni, þóttist ætla að spila inn í teig en lék svo boltanum aftur á Jones sem var rétt fyrir utan teiginn. Curtis Jones – og það er rétt að rifja það upp á þessu augnabliki að hann er innfæddur scouser – hlóð í eitt stykki sveigbolta sem fór í slána og inn rétt við samskeytin, gjörsamlega óverjandi fyrir Jordan Pickford. Fagnaðarlætin voru gríðarleg eins og er rétt hægt að ímynda sér.

Eftir markið hélt Liverpool einfaldlega áfram að ráða leiknum, undir lokin gerði svo Klopp sína þriðju skiptingu þegar Elliott fór af velli og Brewster kom inná. Við erum því að tala um að reynsluboltar eins og Henderson og Mané sátu á bekknum allan tímann, fóru kannski eitthvað aðeins að hita upp, en annars reyndi ekkert á þá.

Liðið sigldi þessu síðan í höfn á öruggan hátt, og ég efast um að Adrian hafi spilað jafn leiðinlegan og viðburðarlítinn hálfleik á ferlinum.

Bestu menn

Hér er afskaplega erfitt að ætla að taka einhvern einn út fyrir sviga. Það var greinilegt að þarna voru komnir leikmenn sem voru hungraðir í að spila, og að standa sig vel. Það gerðu þeir heldur betur, allir með tölu. Adrian gerði vel í þau skipti þar sem reyndi á hann í fyrri hálfleik. Gomez stýrði vörninni eins og herforingi með áratuga reynslu á bakinu (hann er 22ja ára). Phillips var kannski ekki alveg jafn öruggur og Gomez, enda að spila sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir félagið, en var engu að síður að spila afskaplega vel. Yasser Larouci var sömuleiðis að eiga sína frumraun með aðalliðinu, jú hann er greinilega hrár og átti eitt smá Cissokho augnablik fimm mínútum fyrir leikslok, en var annars sívinnandi og barðist eins og ljón. Neco Williams sýndi mjög vel af hverju hann hefur fengið að æfa með aðalliðinu síðustu vikur og mánuði. Þetta er sóknarsinnaður bakvörður og því að mörgu leyti mjög svipaður Trent. Aðeins líflegri ef eitthvað er, en vantar að sjálfsögðu mikið upp á að ná sömu sendingargetu eins og Trent. Engu að síður, þetta er 18 ára strákur sem lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu gegn Arsenal í Carabao Cup í haust, en var að sýna að það er alveg hægt að leita til hans ef aðalliðið vantar varaskeifu í hægri bak. Chirivella – sem við skulum muna að hefur spilað sem fyrirliði Liverpool – átti bara fínasta leik á miðjunni. Lallana – sem tók við fyrirliðabandinu af Milner þegar hann fór af velli – átti sömuleiðis virkilega góðan leik. Í framlínunni þá höfum við svosem alveg séð Origi refsa Everton harðar, en hann skilaði sínu engu að síður. Minamino gerði það sömuleiðis, Klopp á örugglega eftir að prófa hann í fleiri stöðum en þessari en við sjáum betur á næstu vikum og mánuðum (misserum?) hvar hann mun njóta sín best. Elliott átti líka fínan leik. Síógnandi. Oxlade-Chamberlain átti virkilega góða innkomu, það sem var nú gott að sjá hann koma inná.

Við skulum að lokum tilnefna Curtis Jones sem mann leiksins. Alveg örugglega ekki leiðinlegt fyrir scousera að skora sigurmarkið í derby leik gegn Everton. Það er líka rétt að taka fram að hann er yngsti leikmaður til að skora gegn hinum bláklæddu síðan Robbie Fowler nokkur skoraði gegn þeim í leik árið 1994, en hann var þá tveim dögum yngri en Jones er núna.

Umræðan

Það var greinilegt á umræðunni að mörgum fannst Klopp vera að taka mikla áhættu með því að stilla upp svona ungu og óreyndu liði gegn hinum bláklæddu, sem voru sjálfir að stilla upp sínu sterkasta liði. En nú er staðan einfaldlega orðin þannig að hópurinn veit hvernig á að spila, og það skiptir kannski ekki alveg öllu máli hvaða leikmenn eru í hverri stöðu (OK jú það skiptir nú einhverju smá máli). Þau meiðsli sem Milner varð fyrir sýna líka af hverju þetta var nauðsynlegt: menn eru einfaldlega orðnir þreyttir. Eftir á að hyggja hefði alveg mátt segja að það hefði mátt hvíla Milner, enda hljóp hann einhverja 13 kílómetra í leiknum á fimmtudaginn. En á hinn bóginn þá er Milner líka vél sem mallar endalaust, og því ekkert skrítið að honum skyldi treyst fyrir þessum leik sömuleiðis.

Liðið sem Klopp stillti upp kostaði rétt tæplega 44 milljónir punda, á meðan Everton kostaði rúmlega 220 milljónir punda. Þá var meðalaldur liðsins rétt rúmlega 22 ár, enginn leikmanna var með eins stafs skyrtunúmer, og meðaltal skyrtunúmera var rétt rúmlega 42. Tveir leikmenn sem hófu leik voru að spila sinn fyrsta leik með aðalliðinu: Minamino og Phillips. Larouci átti jafnframt sína frumraun. Williams hafði spilað einn aðalliðsleik, leikir Jones með aðalliðinu eru teljandi á fingrum annarar handar. Chirivella hefur ekki spilað neitt allt of marga leiki með aðalliðinu þrátt fyrir að vera hérumbil aldursforsetinn í hópnum. Og Elliott? Ennþá 16 ára.

Það var afar jákvætt að komast í gegnum þessa leikjatörn sem var í desember og byrjun janúar. Næsti leikur er eftir 6 daga, en þá heimsækja okkar strákar Spurs. Síðan mæta United menn á Anfield helgina þar á eftir, rauðu djöflarnir þurfa reyndar að spila seinni leikinn gegn Wolves í bikarnum í vikunni þar á undan, og það gæti alveg hjálpað okkar mönnum.

Það neikvæða við þetta var að missa Milner í meiðsli, en að sama skapi var gott að fá Chamberlain aftur á völlinn. Þá er Fabinho víst farinn að hlaupa aðeins úti á velli, sjálfsagt er eitthvað í hann þrátt fyrir það, en styttist vonandi.

Semsagt, okkar menn komnir í næstu umferð í FA bikarnum. Það verður væntanlega dregið annað kvöld, eftir að Arsenal og Leeds eigast við á Emirates. Næsta umferð verður leikin dagana 24. – 27. janúar, og rétt að muna að okkar menn eiga leiki fimmtudaginn 23. janúar gegn Úlfunum, og svo verður leikurinn gegn West Ham sem var frestað í desember leikinn þann 29. janúar. Það er því alls ekkert ólíklegt að svipað lið fái að halda áfram með þessa keppni. En við skoðum það auðvitað betur þegar nær dregur. Í millitíðinni fögnum við enn einum sigrinum á Everton!

57 Comments

  1. “A lot of football success is in the mind. You must believe you are the best and then make sure that you are. In my time at Anfield we always said we had the best two teams on Merseyside, Liverpool and Liverpool reserves.”

    Bill Shankly

    34
  2. Aumingja Gylfi Sig að vera í svona lélegu liði – Virkilega verðskuldaður sigur hjá varaliðinu !

    9
  3. Erfiður fyrri hálfleikur, frábær seinni hálfleikur. Lang besti leikur Lallana í vetur. Flott hvernig hann batt saman sókn og vörn. Chirivella líka með sem lang besta leik.

    18
    • Sammála með Lallana!

      Hélt að hann væri búinn en nei, lengir lifir á gömlum rafgeymi!

      17
  4. Coutinho hvað ! þvílíkt mark og þvílíkur leikur hjá drengnum vá.

    YNWA

    11
  5. Frábær seinni hálfleikur hjá okkur. Lallana frábær og flestir að eiga góðan seinni hálfleik gegn aðalliði everton. Ég var líka mjög hrifinn af leik Larouci, frábær gutti sem kom inná kaldur.

    10
  6. Ahhh hvað er betra á Sunnudegi en að horfa á unglingalið Liverpool slá aðallið Neverton verðskuldað út úr FA bikarnum.

    16
  7. Lallana algjörlega frábær í þessum leik hvað er að frétta ? Elliot og Jones að eiga stjörnuleik mér og Adrian var besti maðurinn í fyrri hálfleik með geggjaðar vörslur.

    18
  8. Árið er 2024: Liverpool og Everton eru að fara að keppa og Everton hafa ekki unnið í 14 ár. Liverpool er undir miklu leikjaálag í og neyðast til að spila með U6 ára liðið sitt en það skiptir engu máli. Liverpool halda áfram sigurgöngu sinni á Everton og það skiptir engu máli hvaða Liverpool gæjar mæta til leiks, þeir vinna Everton alltaf.

    11
  9. Að sjá þessa gutta spila reitarbolta á móti besta liði Everton var ótrúlegt að sjá. Sjálfstraustið er algerlega í toppi. Chirivella var lang bestur í fyrri hálfleik og mjög góður allan leikinn.
    Adrian hélt okkur á floti í fyrri hálfleik með 3 frábærum vörslum.
    Shit hvað ég hlakka til að fara á Anfield í mars.

    15
  10. Jæja! Hver ætlar að vera fyrstur og viðurkenna bullið sitt með því að gagnrýna Kloppo fyrir liðsvalið hans?

    Ég er nánast orðlaus yfir þessari frammistöðu hjá B-liðinu okkar. Þetta er sjúkt!

    40
  11. – lykilmenn fengu verðskuldað frí (utan Gomez)
    – Gomez er að verða kóngur í þessari vörn
    – Ungu strákarnir fá annan leik
    – Pedro Chriviella er vel nothæfur leikmaður
    – United spilar endurtekinn leik á meðan við fáum vikuhvíld fyrir þann stórleik
    – Lallana er aldeilis að vakna til lífsins

    Nokkrir af svo mjög mörgum jákvæðum punktum

    15
  12. Þessir krakkar eru snillingar. Sýndu að þeir eru betri en bezta lið Everton sem er snilld. Krakkarnir eiga skilið að fá að spila við eitthvert neðri deildar lið í næstu umferð a la M. City sem að venju hefur hefur fengið einhver utandeildarlið eins og venjulega. En krakkarnir sýndu hvað Everton er í reynd lélegt lið og ónýtt því miður fyrir Gylfa sem getur nagað sig í handarbökin og iljarnar fyrir að vilja ekki koma til Liverpool liðsins þegar það bauðst. Fyrir vikið er hann bara venjlegur miðlungsleikmaður í miðlungsliði.

    Það er nú þannig

    YNWA

    15
  13. Fleiri jákvæðir punktar…

    Harvey Elliott – sá graðspólaði sig í gegnum þennan leik! Hann er sextán!
    Lallana – ég er að skoða sokkaskúffuna mína. Hélt að hann væri alveg búinn.
    Adrián – vörslur vörslur vörslur!

    10
    • Gleymdi Neco Williams.

      Hann virðist vera yngra ljósrit af Trent Alexander-Arnold!

      6
  14. Ég leyfi ykkur að hrósa ungu strákunum, minn maður leiksins er Jurgen Klopp. Handbragð hans skein í taktík, ákvafa og spilamennskunni. Við bókstaflega völtuðum yfir þá í seinni hálfleik.

    Guardiola gaf einum varnarmanni tækifæri ásamt Foden (55 leikir fyrir City) í gær á heimavelli gegn Port Vale. Klopp skiptir út 10 byrjunarliðsmönnum og eina ástæða þess að Gomez spilaði var sú að Lovren og Matip eru meiddir ásamt Keita, Fabinho og Shaqiri.

    20
  15. Adrian frábær, og liðið flott. jú Everton fékk fullt af dauðafærum, en það þarf að klara þau. Geggjað Mark hjá Curtis

    5
    • Getur þú gefið mér með þér einn af sokkum þínum ? Ég sem hélt að Lallinn væri búinn djöfull er maður klikkaður sófasérfræðingur.

      YNWA

      8
  16. Með betri sigrum YNWA. Lallana Man of the march en C.Jones á ekki eftir að samþykkja það!
    Ancelotti blessaður, heim á æfingasvæðið vinur.

    7
  17. Mogginn á morgun:
    “Gylfi og félagar reknir heim af menntaskólaballi nærri Stanley Park.´

    19
  18. Það verður að hafa í huga að þessi leikur er sá síðasti á þessu álagstímabili. Frá 4. des hafa þetta verið 11 leikir og allir unnist nema deildarbikarleikurinn gegn Villa.

    Liðsval Klopp hlýtur að hafa tekið mið af þessu gríðarlega álagi, enda sást það á Everton liðinu í seinni hálfleik að þeir voru það gjörsamlega búnir á því að þeir sköpuðu sér ekki eitt færi.

    Eins vel og þeir stóðu sig þá held ég að Chirivella, Phillips og Elliott séu ekki að fara að byrja næsta leik í þessari keppni ef Fabinho, Lovren og Shaqiri verða heilir.

    Að Gomez undanskyldum munu okkar menn hafa hvílt í 9 daga þegar við heimsækjum Kane lausa Tottehham menn þann 11. jan.

    8
    • Það eru vissulega leikmenn að koma til baka, en að sama skapi eru svo aðrir að meiðast, eins og Milner í þessum leik. Það verða alveg örugglega ekki síðustu meiðslin á tímabilinu.

      1
    • Enginn með einsstafs númer ????

      Var milner þá þeð 07 á bakinu ?

      • Mikið rétt, þetta átti við um liðið eftir að Milner fór út af.

        4
    • “Það má líka rifja upp að aðalliðið fékk einmitt á sig 2 mörk í leik liðanna á Anfield nú í haust. Reyndar skoruðu okkar menn 4 á móti svo það gerði lítið til.”

      Voru reyndar 5 ef ég man rétt 🙂

      4
  19. Mér fannst í allri þessarri veislu Chiravella bestur.

    7
  20. Frábær sigur og það virðist vera að Liverpool hafi einhver sálræn tök orðið á Everton,því það skiptir engu máli hvaðam menn eða drengir spila undir merki LFC gegn þeim núorðið.

    Missti af þessum leik,en sá uppstillinguna fyrir hann og hugsaði með mér að þetta gæti orðið snúið. En það var öðru nær og Adrian er gríðarlega vanmetinn markmaður og bara vex með hverri mínútu sem hann fær.

    Við erum svo sannarlega heppin að vera uppi á tímum Jürgen Klopp og fá að njóta þess að sjá þetta lið umbreytast úr algjöru meðalliði í eitt besta lið í sögu LFC og enn er nóg eftir undir stjórn þessa áhugaverða stjóra.

    Spurs næst undir mulningsvélina….

    11
  21. Daginn félagar.

    Kiki alltaf hérna inn reglulega, þessi síða er frábært framtak og þeim sem að henni standa mikill sómi. Hef ekki tjáð mig oft en í dag get ég ekki orða bundist yfir frammistöðu liðsins. Ég sagði í dag fyrir leik að það kæmi endanlega í ljós hversu gott lið við erum , guttar +eh varamenn og kannski 1-3 fastamenn. Mun engu breyta, við vinnum. Það var nákvæmlega það sem gerðist, við unnum og það sannfærandi. Held þessi sigur ranki inná topp 10 bestu sigra undir Klopp. Þarna sá maður svo vel hvað þessi snillingur er búinn að skapa, hugarfar sigurvegara, taktik og plan. Sama hver spilar, þú veist til hvers er ætlast.

    Hver og einn sem spilaði þennan leik getur spilað með aðalliðinu. Pedro, Jones, Elliott voru frábærir, eða hey bara allir.

    Og þetta eigum við allt að þakka bestu kaupum Liverpool ever Herr Jurgen Klopp.

    Að endingu, getum við ekki hætt þessu sokkatali, aðeins orðið þreytt…..?

    YNWA

    36
  22. Ég fletti upp orðinu “Trú” í orðabók. Þar er ekkert sagt en þar er að finna mynd af Jurgen Klopp. Maðurinn er bara á hraðferð að skrifa einn magnaðsta kafla og viðsnúning í sögu Liverpool. Hann gæti líklega stillt upp ellefu manna liði strætóbílstjóra á móti Everton og þeir
    myndu hafa trú á verkefninu.

    Var að klára bókina um hann. Skyldulesning fyrir alla Púllara.

    Held að það verði ekkert rosalega gaman fyrir Everton aðdáðendur að mæta til vinnu á morgun. 🙂

    13
  23. Ég sá aldrei neitt LIVERPOOL varalið á vellinum, ég sá hinvegar Anceblátt langaraðvera lið å vellinum

    3
  24. Þetta var frábært hjá þessum strákum, Liverpool þarf ekkert að fara kaupa leikmenn á næstunni fyrst við erum með þessa gæja !!!

    5
  25. Algjörlega stórbrotið að sjá þessa ungu menn klára sterkasta lið þeirra bláklæddu handan Stanley Park, ekki síst eftir að hafa misst einn af fáum reyndari sem áttu að vera í leiðandi hlutverki af velli í byrjun leiks. Vonandi verður Milner heill sem fyrst en jafnframt jákvætt að Ox sé leikfær.

    Frammistaðan í síðari hálfleik var ótrúleg miðað við kjúklingaherinn sem Klopp tefldi fram. Þvílíkur snillingur og þvílíkur happafengur hann Jürgen Klopp. Einhver sá mesti og besti í glæstri sögu félagsins.

    8
  26. Ég er nokkuð viss um að hefði Klopp verið eftir heima og stýrt liðinu geng Aston Villa, þá hefðum við unnið þann leik, ekki tapað 5-0…. hann hefði svo bara getað tekið flug út til Katar og mætt í leik 24 tímum seinna 🙂

    4
  27. Janúarglugginn? Erum við ekki að fara sjá mikið útstreymi í “silly seasoninu” í lánssamninga fram á vorið?

    Margir sem hafa vakið eftirtekt eftir þennan leik. Beðið verður með að senda þá út og hópurinn nýttur eins og best verður hægt síðustu 10 daga mánaðarins, síðan fjöldi undirskrifta síðustu 1-2 dagana? Hægt að gera kröfur um spilatíma.

    2
    • Það virðist vera klárt mál að Brewster fari til Swansea einhvern næstu daga. Spurning hvað verður með Curtis Jones, hvort hann fari líka á lán út tímabilið. Ég held að Klopp vilji halda í Nat Phillips á meðan miðvarðarkrísan er enn í gangi, og sama held ég að sé með Neco Williams og Yasser Larouci, Milner hefur eiginlega verið eina backupið fyrir þá og nú er hann meiddur. En Chirivella gæti vel farið á lán ef hann verður ekki hreinlega bara seldur.

      3
      • *eina backupið fyrir þá -> eina backupið fyrir bakverðina okkar. Neco og Larouci gætu þurft að vera backup fyrir Trent og Robbo á næstunni, a.m.k. á meðan Milner er meiddur.

        2
      • Vonandi hefur frammistaða Chirivella í þessum bikarkeppnum vakið áhuga á honum. Hann er á 23. aldursári og á enga framtíð á Anfield.

        Nat Phillips fer líklega aftur á lán í febrúar enda var hann einugis kallaður til baka út af miðvarðakrísunni. Hann er jafnaldri Chirivella og 5 árum eldri en Hoever og Berg.

        Af unglingunum eru Neco W. og Larouci næst þvi að fá tækifæri vegna þess að breiddin í bakvarðasveitinni er lítil. Sama má segja um Harvey Elliott, meðsli Shaqiri gerðu það að verkum að hann komst í hópinn, svo ég yrði ekki hissa ef hann fengi nokkur tækifæri í viðbót. Enginn af þessum þremur er að fara á lánsdíl.

        Hetja gærdagsins Curtis Jones er þó einna lengst frá tækifærinu vegna þess að liðið hefur hvað mesta breidd í hans stöðu. Þrátt fyrir að hann hafi átt góðan leik heilt fyrir í gær, þóttu mér Lallana og Chirivella jafnvel enn öflugri en hann á miðjunni. Síðan kom markið góða sem breytti myndinni talsvert.

        Það að Curtis hafi kvartað í viðtali eftir leikinn undan fáum tækifærum sýnir vissulega að ekki vantar metnaðinn hjá stráknum, en einnig ber að hafa í huga að liðið sem hann vill komast í er nánast ósigrandi og það besta í heiminum um þessar mundir. Því miður fyrir Curtis er hann aldrei að fara að byrja gegn Spurs, en mögulega verður hann á bekknum út af meiðslum Milners, Fabinho og Keita.

        Ef einhver PL klúbbur vill fá hann að láni með loforði um spilatíma, gæti það orðið gott move fyrir strákinn. Ég hef ágætis trú á að hann eigi eftir að meika það á Anfield eftir kannski 2+ ár.

        4
      • Það er rétt að hafa í huga að Curtis Jones spilaði víst í gegnum veikindi í þessum leik, sem skýrir e.t.v. af hverju hann var ekki mest áberandi miðjumannanna. Hann er jú ennþá 18 ára (þangað til í lok janúar), og á því klárlega framtíðina fyrir sér. Þá hefur hann þann kost að hann er óhræddur við að láta vaða á markið eins og sást berlega í gær, en það er klárlega kostur að það sé markaógnun frá miðjumönnunum. Reyndar getur hann alveg spilað í framlínunni sömuleiðis, og er þess vegna þessi dæmigerða Klopp-týpa af leikmanni: vinnusamur, fjölhæfur, og svo sakar ekki að það vantar ekkert upp á sjálfstraustið hjá honum. Ég held að það sé því alveg rétt sem Klopp segir að Jones verði Liverpool leikmaður í framtíðinni.

        3
  28. Það er frábært að sjá hvert LFC er að stefna, Klopp virðist ná til allra í klúbbnum með sinni sýn og hugarfari. Það virðist ekki vera til aðallið og varalið, það er bara Liverpool sama hvað menn heita og á hvaða aldri þeir eru. Það er eitthvað stórkostlegt í gangi hjá Liverpool sem á eftir að endast lengur en flesta grunar. Þetta er allavega mín tilfinning núna.

    10
  29. Algjörlega stórkostlegt þetta lið okkar!

    Svo eru bara heilir 5 dagar í næsta leik OG varaliðið var notað í þessum leik. Þvílíkur lúxus í gangi en vonandi fara menn að detta inn úr meiðslum. Erum með heilt byrjunarlið á meiðslalistanum, sem er ekki skrítið þar sem leikjaálagið er langt yfir meðaltali.

    4
  30. Það má líka bæta við að Larouchi sem kom inn fyrir Milner þegar hann meiddist átti stjörnuleik.
    Spennandi bakvörður sem er mjög gott þar sem Robertson mun þurfa backup í framtíðini.
    Þessi leikur var algjör unun að fylgjast með frá A-Ö strákarnir eiga mikið hrós skilið og sýndu á þeir munu eiga fullt erindi í byrjunarliðið þegar fram líða stundir!

    YNWA

    4
  31. Sæl og blessuð.

    Þetta var algjörlega galið! Að vinna það besta sem Everton hafði upp á að bjóða með þessu óreynda og unga liði okkar. Enginn Virgill, ekki sóknartríóið, enginn Hendó og fjórði kostur í fyrirliðann sinnti því hlutverki í gær! Það var einmitt Lallana sem sagði í viðtali eftir leik, að þeim hefði aldrei dottið annað í hug en að sigur væri framundan í þessari viðureign og lýsir það hugarfarinu mjög vel. Þetta er auðvitað bara eðal-masterklass dæmi um frábæra frammistöðu þeirra sem halda um stjórnartaumana hjá okkar ástkæra félagi.

    Sá annars staðar að kaupverð þeirra bláklæddu sem spiluðu þennan leik næmi 220 m. punda en æskulýðsfylkingin fagurrauða var ekki metin á nema 44 m. Það þýðir í raun (pínu leiðinlegt samt að velta sér upp úr þessu – en látum vaða…) að samanlagt verðmæti þessara pilta inni á vellinum í gær náði ekki kaupverði Gylfa okkar Sigurðssonar. Sá þarf að fara að endurskoða málin, blessaður karlinn. Það er pínlegt að horfa á hann inni á vellinum – enginn virðist hafa burði til að nýta sendingar hans og vinnusemi. Held það hafi verið risastórt klúður hjá honum að ganga til liðs við Töggurnar.

    Þá eru ,,Móri og félagar” næstir á matseðlinum. Óþreyttir en hungraðir og þaulreyndir aðalliðsmenn munu taka á móti þeim. Þetta verður eitthvað.

    Annars berast þær fregnir að nú standi til að lána þessi ungmenni til annarra félaga í janúarglugganum. Er það nú alveg rétt í stöðunni? Má ekki leyfa þeim að taka næstu umferð í bikarmótinu? og eiga þá auðvitað inni ef fleiri meiðast.

    5
    • 21 árs framherji sem hefur skorað 40 mörk í 80 leikjum fyrir Brentford B team.

      2
  32. Eini leikurinn sem liðið má spila með heimsmeistaramerkið á búninginn leifði Kloop unglingunum að hafa. Þvilik upphefjun fyrir unglinga.

    1
      • Vona að það verði ekki búið að lána alltof marga af ung-folunum okkar. Væri til í sjá megnið af þessum sem spiluðu á móti Everton…

  33. Kinder-Klopp flokkurinn á útivelli, sunnudaginn 26. janúar nk.

    1

Liðið gegn Everton

Joe Hardy keyptur frá Brentford (Staðfest)