Upphitun: Grannaslagur á Anfield

Ballon d’Or

Í gær fengum við að vita að Virgil Van Dijk fékk ekki nafnbótina besti leikmaður í heimi en sá heiður fór til Lionel Messi. Liverpool átti hinsvegar fjóra leikmenn á topp tíu listanum Mané var í fjórða sæti og Salah í því fimmta svo var Alisson í því sjöunda og sýnir það hversu gott liðið okkar hefur verið að koma svona mörgum mönnum inn á topp tíu listann.

Andstæðingarnir

Þá er kominn desember og það eru leikir á hverju stái hjá Liverpool næstu vikurnar og næst eru það grannar okkar í Everton sem rölta yfir Stanley garðinn til að kíkja í heimsókn. Það hefur ýmislegt gengið á hjá Everton mönnum í ár en þeir sitja í 17. sæti aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti og er Marco Silva talinn líklegasti stjórinn til að missa starfið sitt í deildinni. Silva reyndi að bregðast við um síðustu helgi og breytti um leikkerfi og leiddu þeir lengi gegn Leicester en gleymdi maðurinn Kelechi Iheanacho kom inn af bekknum og lagði upp jöfnunarmark Leicester og skoraði svo sigurmark í uppbótatíma og erfiði Everton varð að engu.

Það var dregið í FA-bikarnum og fengum við Everton upp úr hattinum og munum því spila aftur við þá á Anfield þann 4. janúar og sjáum við því endurtekningu á leiknum á morgun akkúrat mánuði eftir þennan leik.

Silva mun líklega halda sig við nýja 3-4-3 leikkerfið sem hann spilaði gegn Leicester og reyna að spila svipað upplegg og Solskjaer gerði gegn okkur þó meira af nauðsyn en öðru þar sem það er mikið um meiðsli á miðsvæði Everton manna. Andre Gomes meiddist illa gegn Tottenham fyrr á tímabilinu og óvíst hvenær hann muni ná að spila á ný og ásamt því eru Delph og Gbamin frá og Schneiderlin að stíga upp úr meiðslum og er ekki líklegur til að geta spilað 90 mínútur.

Everton menn eiga erfiðar minningar af þessum leikjum enda ekki unnið þar síðan 1999 þegar Kevin Campbell skoraði sigurmark í leik með þremur rauðum spjöldum og Steve Staunton endaði í markinu hjá Liverpool. Everton hafa í raun ekki unnið gegn Liverpool yfirhöfuð síðan Roy Hodgson var stjóri Liverpool 2010 en versta minningin er úr sama leik fyrir rétt rúmu ári síðan þegar allt leit út fyrir að leikurinn væri að fjara út í 0-0 jafntefli og stuðningsmaður Everton fagnaði með að kasta bláu blysi á völlinn rétt áður en Pickford gerði slæm mistök sem urðu til þess að Divok Origi skoraði sigurmark á 96. mínútu og Liverpool sigraði leikinn.

Marco Silva hvatti menn til að mæta til leiks og hafa gaman að leiknum og þetta væri gott tækifæri fyrir félagið til að sigra loks á Anfield eftir mörg mögur ár og þá í leiðinni að breyta lukku þeirra á tímabilinu en margir hafa talað um að Silva verði rekinn eftir leikinn og aðalástæðan fyrir því að hann sé enn í starfi sé að þeir vilji ekki senda nýjan þjálfara beint í leik gegn Liverpool. Aðrir hafa hinsvegar talað um að leikmennirnir hafi staðið sig vel gegn Leicester og standi við bakið á þjálfaranum og gæti það keypt honum örlítinn tíma. Á fundinum kom einnig fram að Theo Walcott væri heill fyrir leikinn en hann byrjar líklega á bekknum enda að koma úr meiðslum.

Mina, Keane og Holgate reyna þá að eiga við okkar fremstu þrjá meðan bakverðir og kantmenn reyna að búa til hættu á vængjunum til að reyna halda aftur af Trent og Robertson. Hinsvegar er vankosturinn sá að hvorki Davies né Gylfi eru vanir varnarmiðjumenn þó þeir séu báðir vinnusamir og gætu þeir átt erfitt að reyna eiga við miðjuna okkar.

Okkar menn

Tímabilið okkar hefur verið allt önnur saga en undarleg samt sem áður. Stigasöfnunin hefur verið stórkostleg, með 40 stig eftir fjórtán leiki. Ef liðið myndi, á einhvern ótrúlegan hátt, ná að halda þessari stigasöfnun út tímabilið værum við að horfa á 108 stiga tímabil. Hinsvegar er spilamennskan ekki verið eins og við viljum sjá hana en erfitt að kvarta þegar úrslitin eru á þann hátt sem þau hafa verið.

Stóra spurningin er hinsvegar sú að nú þegar leikjaálagið fer að þyngjast hvort Klopp fari að rótera liðinu meira en hann hefur verið að gera. Það var á svipuðum tímapunkti í fyrra gegn Burnley þann 5. desember sem Klopp mætti með nánast óþekkjanlegt lið á Turf Moor og vann þar 3-1 sigur og spurning hvort við sjáum eitthvað óvænt gegn Everton.

Það er ljóst að við verðum án Alisson sem er í leikbanni eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Brighton og þeir Fabinho og Matip verða frá vegna meiðsla. Í dag komu einmitt þær slæmu fréttir frá Klopp að endurkomu Matip hefði frestast, hann væri ekki að jafna sig eins fljótt og vonast hafi verið til og enn sé bið í að það sé hægt að segja til hvenær hann komi tilbaka. Ég býst við að liðið verði í þessa áttina á morgun.

Frekar óbreytt lið, Klopp reyndi að hvíla Wijnaldum gegn Napoli en það tókst ekki vegna meiðsla Fabinho og nú er Pep Lijnders búinn að vera tala um hvað Milner sé búinn að vera flottur á æfingasvæðinu og það þýðir yfirleitt að menn séu á leið í byrjunarliðið. Það verður síðan líklega leikurinn gegn Bournemouth um helgina leikurinn þar sem við sjáum breytt lið áður en við mætum Salzburg í mikilvægum leik um áframhaldandi veru okkar í Meistaradeildinni.

Leikurinn hefst klukkan 15:00 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð.

21 Comments

  1. Þetta verður slagur og skiptir engu máli í hvaða sæti liðin eru í. Þessir leikir eru alltaf stríð en vonandi náum við að setja í þriðja og jafnvel fjórða gír og keyra yfir þá!

    6
  2. Þetta verður bara eins og á síðustu leiktíð þar sem við vorum miklu sigurstranglegri en það breyttir því ekki að við fáum hörkuleik sem getur farið hvernig sem er.

    Vonandi endum við bara með þrjú stig og þá fer maður sáttur að sofa en það er eitthvað sem segir manni að Adrian mun verða fyrirsögn eftir þennan leik annað hvort eftir góða framistöðu eða slæma. Því að oftar en ekki fær maður allt eða ekker frá honum.

    Horfði á síðasta Everton leik og var ekki eins og stjórinn þeira hafi misst klefan.
    Everton var klárlega í 5-4-1 gegn Leicester þar sem bakverðinir voru alltaf í línu við þrjá miðverði þegar þeir vörðust og það verður klárlega líka gert gegn okkar mönnum.

    YNWA

    3
  3. vinnum þetta ekki þægilega 5:0

    gylfi er búinn að vera ömurlegur í vetur og bíðst við að hann geri mörg mistök og missi boltann

    3
  4. Sælir félagar

    Ég hefi spáð fyrir úrslitum þessa leiks annar staðar og stend við þá spá, 3 – 0 Loksins höldum við hreinu og Adrian fær fyrirsagnirnar fyrir vikið. Andstæðingar og öfundarmenn munu síðan velta sér uppúr því að Adrian sé betri en Alisson en allt það kjaftæði breytir engu um það að hann hefur tvisvar fengið titil á þessu ári sem bestir markvörður heims.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  5. Það eina sem ég bið um er að Everton viti sinn stað og séu ekki að reyna eitthvað meira en þeir geta þaes 2 fóta tæklingar á okkar menn til að slasa þá.

    Annars er 3 stig krafa mér er sama þó að við höldum ekki hreinu hættur að spá í því svo lengi sem þeir vinna.

    Ætla spá 3-1

    3
    • 3-1? Það er nú ekki eins og Everton séu eins og City.

      4
      • Nei alls ekki en við héldum hreinu síðast í september þannig það er ekkert það ólíklegasta sem gæti gerst.

        2
  6. Eins og margoft hefur komið fram þá skiptir staða liðanna í deildinni ekki nokkru máli í þessum leik. Everton mun selja sig dýrt en sennilega mun getumunur liðanna ráða úrslitum.
    Ég er ekki einn af þeim sem óska Everton alls hins versta og alls ekki eftir að Gylfi kom þangað. Mér að meinalausu mættu þeir enda í öðru sæti í deildinni svo fremi sem okkar lið væri fyrir ofan. Held nefnilega að alvöru Liverpoolaðdáendur hafi pínu gaman af Everton ekki síst af því að þeir eru nánast alltaf með lakari árangur heldur en Liverpool. Það þykir bara meira töff að segjast ekki þola Everton en mér er bara alveg skítsama um það. Mínir erkifjéndur eru alltaf Manchester liðin og þar á eftir Chelsea og Arsenal.

    5
    • Sælir félagar

      Ég er sammála Hjalta hvað Everton varðar. Mér er ekkert illa við þá en þoli samt fátt verr en tapa fyrir þeim. Einnig er mér nokkuð sama um þá ef þeir eru neðar í töflunni en okkar lið. Hinsvegar fannst mér það fyrirlitleg framkoma á síðustu leiktíð þegar þeir lögðust á völlinn grenjandi af aumingjaskap á móti MC en djöfluðust svo á móti okkar mönnum eins og þeir væru að vinna sér það til lífs að ná af okkur stigi. Þá fóru þeir langt með að gera mig að hatursmanni númer 1. En svo er maður svo aumingjagóður að maður nennir ekki að ergja sig á þeim.

      Það er nú þannig

      YNWA

  7. Sæl og blessuð.

    Nú mætast lið sem hafa orðið ólíkrar gæfu njótandi í vetur. Everton ætti með réttu að vera mun ofar í deildinni og …the curious case of Jurgen Klopp and his players heldur áfram að vera ráðgáta. Ef við skoðum þetta:

    1. Höldum ekki hreinu
    2. Höldum aldrei yfirburðum
    3. Missum lykilmenn í meiðsli
    4. Töpum þrátt fyrir það aðeins tveimur stigum (og erum enn pirruð á þeim)

    Everton á hinn bóginn er með eitt af bestu XG hlutföllum í deildinni en ógæfan hefur elt þá á röndum. Ég hallast að því að í kvöld gætu hlutföllin breyst og þar með verði leikurinn annað hvort vendipunktur eða þá gríðarleg prófraun fyrir Klopp og co.

    Því miður óttast ég að nú hrökkvi rjómakaramellugerðin í gang og þeim takist hið ómögulega, að skora fleiri mörk en okkur tekst að skora. 3-4 verður þetta og Adrian verður eins og Karius í dulargervi.

    Ussssss Ekki er það fallegt.

    1
  8. Liverpool tapar í kvöld því miður. Þreyta í hópnum og þegar þetta á að vera easy, þá gengur það aldrei eftir.

    En við sofum rólega samt sem áður því titillinn er kominn í hús.

  9. Það er verið að tala um að Liverpool sé ekki að spila nógu vel en ná í úrslit. Þetta er enska úrvalsdeildin þar sem neðsta liðið getur unnið það efsta. Það sést ekki í neinni annari deild. Það er mikið leikjaálag og það er eðlilegt að að menn slaki á og reyni að spara sig þegar liðið er með forystu, þetta gerist jafnvel þó að fyrir leiki tali menn um annað og reyni að drepa leiki með því að ná góðri forystu. Paul Merson sagði að þegar hann varð meisteri með Arsenal unnu þeir flesta leikina 1-0. Í síðustu umferð unnust allir leikir sem á annað borð unnust með einu marki. Það er ekki alltaf flugeldasýning og á ekki að vera það. Það þarf að klára leiki með aga og skipulagi þannig vinnst deildin. Þolinmæði, þolinmæði og svo banvæn stunga. Þannig vinnum við í kvöld.

    3
  10. Það vita það allir sem eru í fremstu víglínu Liverpool, að staða þessara liða er eiginlegt aukaatriði. Leikir þessara liða er algjört Derby í sinni tærustu mynd. En sjaldan hefur bilið milli þeirra verið meira en nú, það mun skipta máli í leiknum í kvöld, Everton á bara ekki til getuna til að ógna sigri okkar manna. 3-1.

    YNWA

  11. Sælir félagar
    Þetta verður rimma, alvöru derby leikur. Búast má við að þreyta láti á sér kræla um tíma og verði jafnvel töluvert mikið klafs.
    Ég vona að við vinnum þetta þótt erfitt verði.
    Mörk verða skoruð og nokkur klaufaleg, 3-2.
    Hörkuleikur framundan.
    Újé

  12. Vægast sagt skrítið byrjunarlið bæði Salah of Firmino á bekknum Shaqiri byrjar. Þetta verður áhugavert

  13. úff.. wyjnaldum, lallana og milner á miðjunni, origi, mane og shaqiri frammi.

    held að klopp félaginn sé algjörlega að misreikna sig með þennann leik.

Gullkastið – Jonjo van Dijk

Liðið gegn Everton