Liverpool – Napoli 1-1

0-1 – 21.min, Mertens.

1-1 – 64.min, Lovren.

Leikurinn fór afskaplega rólega af stað, bæði lið að þreifa fyrir sér fyrstu 15 mínúturnar án þess að skapa sér neitt. Þá urðum við fyrir smá áfalli þegar Fabinho fór útaf meiddur, við fyrstu sýn fannst mér eins og hann fengi slink á hnéð þegar leikmaður Napoli datt á hann en vonandi var þetta bara öklinn og þessi frábæri miðjumaður verði ekki lengi frá – hann er í banni um næstu helgi svo vonandi kemur þetta ekki að sök.

Liverpool varð fyrir öðru áfalli fimm mínútum síðar eða svo þegar Mertens kom Napoli yfir eftir að mér fannst brotið á Van Dijk á miðjum vallarhelmingi Liverpool (gerði enga tilraun í boltann en fór inn í Virgil þegar hann var í loftinu), Napoli vann boltann í kjölfarið, sendi innfyrir á Mertens (með Van Dijk liggjandi og ekki í stöðu) sem kláraði færið frábærlega. VAR skoðaði aðdragandan og mögulega rangstæðu en markið stóð, 0-1.

Liverpool skapaði sér afskaplega lítið í þessum fyrri hálfleik, það var í raun ekki fyrr en síðustu fimm mínúturnar sem að liðið virkaði eitthvað líklegt. Líklega kom besti sénsinn á 40 mínútu þegar Mané og Firmino tóku þríhyrning inn í vítateig Napoli en Mané átti slaka sendingu með Gomez í dauðafæri á fjærstönginni. Stuttu síðar vildi Mané fá vítaspyrnu eftir að togað var í hann innan vítateigs, persónulega fannst mér þetta frekar lítið en leikmenn Liverpool voru orðnir ansi pirraðir á þessum tímapunkti, rétt eins og Klopp (og ég).

Nákvæmlega ekkert að gerast í þessum hálfleik en Napoli sátu ansi aftarlega eftir að þeir komust yfir og Liverpool að ekki að finna nein svæði, 0-1.

Síðari hálfleikur

Firmino fékk ágætis tækifæri á 53 mínútu eftir að markvörður gestanna missti fyrirgjöf Henderson en Koulibaly bjargaði á línu. Ox kom inná 3 mínútum síðar í stað Gomez og Milner færði sig í bakvörðinn.

Á 64 mínútu kom loksins jöfnunarmarkið, Milner tók hornspyrnu hægra megin sem rataði beint á kollinn á Lovren sem skallaði í vinstra hornið, óverjandi fyrir Meret í marki Napoli! Gestirnir mótmæltu og vildu meina að Lovren hafi ýtt í bakið á varnarmanni Napoli en VAR taldi svo ekki vera. Hann var vissulega með höndina á bakinu en varnarmaðurinn gerði ekki einu sinni tilraun í boltann svo líklega var þetta réttur dómur þó eflaust munu einhverjir benda á samskonar brot í Palace leiknum þegar Lovren var fórnarlambið. Hvað um það, staðan 1-1!

Eftir markið hélt maður að nú kæmi þetta en ef það eru einhverjir sem kunna að loka leikjum þá eru það ítalir. Afskaplega lítið gerðist síðustu 25 mínúturnar utan það að Salah átti að fá víti eftir að Koulibaly hékk í honum hálfan vítateiginn, hefði líklega verið dæmt ef hann hefði látið sig falla. Lítið gerðist eftir þetta og afskaplega pirrandi leik lauk með 1-1 jafntefli, úrslit sem gera afskaplega lítið fyrir okkur með útleik gegn Red Bull Salzburg 10. desember í leik sem við þurfum a.m.k. jafntefli úr.

Maður leiksins

Erfitt að velja. Fannst liðið vera frekar slakt heilt yfir (eða þá Napoli bara þetta góðir) en Lovren skoraði mikilvægt mark svo hann fær nafnbótina í þetta skiptið.

Við erum auðvitað ofdekraðir með þetta lið og líklega lætur maður þessi úrslit fara of mikið í taugarnar á sér. Það verður samt að segjast að Mané átti líklega sinn slakasta leik þetta tímabilið (verið algjörlega frábær síðustu vikur og mánuði) og Salah má fara að mæta til leiks bráðlega, við þurfum á honum að halda.

Umræðan

  • Liverpool fer aldrei auðveldu leiðina. Ef Liverpool getur tryggt sér efsta sæti riðilsins með heimasigri í næst síðasta leik riðilsins, sem myndi þá þýða að við gætum hvílt leikmenn um miðjan desember mánuð þá er það nánast öruggt að Liverpool grípur ekki tækifærið. Alveg merkilegt að jafnvel þó að við séum komnir með þetta frábært lið þá förum við samt alltaf erfiðu leiðina!
  • Napoli. Það eru fá lið sem reynast okkur jafn erfið og þetta blessaða Napoli lið. Ekki nóg með að stuðningsmenn þeirra séu snældurvitlausir heldur er þetta lið bara óþolandi gott og hafa síst verið lakari aðilinn í þessum fjórum CL leikjum síðustu 16 mánuði eða svo.

Næsta verkefni

Það eru tvö heimaverkefni næst, Brighton á laugardaginn áður en Everton kemur í heimsókn eftir nákvæmlega viku í sturluðum desember mánuði þar sem Liverpool spilar líklega 9 leiki í það heila!

28 Comments

  1. Ömurleg úrslit núna þurfum við að fara að spila úrslitaleik í meistaradeildinni í miðri jólatörn.
    Í staðinn fyrir að geta hvílt kappan þá er bara meiri álag og það er helvíti pirrandi fyrir utan að það að við getum mögulega dottið í Evrópukvöld.

    kveðja
    siggi

    8
  2. Mikil þreyta í liðinu. Þetta verður erfitt tímabil er ég hræddur um. Samt hefði liðið getað unnið leikinn með smá heppni.

    4
  3. Mikið verið að spila á sömu 11 til 13 og það hlaut að koma í bakið á okkur fyrr en seinna. Náum þó held ég stiginu í Saltborg og skundum inn í seinustu 16….

    4
  4. Skil ekki af hverju hann notar ekki hópinn betur, vissulega auðvelt að segja það núna eftir jafntefli á heimavelli eftir leik sem hefði getað tryggt okkur áfram, en það sjá allir að það eru komin þreytumerki í nokkra leikmenn og þeir spila eftir því.
    Ég hefði viljað sjá Origi og Lallana í byrjunarliðinu ásamt Chamberlain.
    En núna þarf að klára lokaleikinn og tryggja okkur í 16 liða úrslit.

    2
  5. Ég er eiginlega drullupirraður. Sáralítil alvöru ógn, endalausir flugboltar af köntunum og liðið hálf kraftlaust. Mér líður hálfpartinn eins og við höfum tapað þessu gegn liði þar sem allt logar stafnanna á milli. Núna þurfum við að spila upp a líf og dauða í erfiðum útileik í stað þess að klára þetta á frábærum heimavelli.

    3
  6. veit að það er enginn sammála mér, mikið svakalega finnst mér Robertson ofmetinn (setti fyrst inn , lélegur en þorði ekki að láta það standa)

    3
  7. Siguróli á hvaða lyfjum ert þú…
    Mér fannst liðsuppstillingin flott fyrir leikinn. Klopp ætlaði að hvíla Gini og Trent sem virkuðu þreyttir í síðasta leik. Fremstu þrír áttu slakan leik, Mane þó skástur. Ég skil ekki afhverju Klopp skipti ekki Shaqiri inn fyrir Salah. Verður fróðlegt að sjá hvernig liði hann stillir upp á laugardaginn.

    3
  8. Það voru margir sem áttu ekki góðan leik og fannst mér þá Salah og Robertson ásamt Gomes standa upp úr en við áttum klárlega að fá víti þegar Salah er haldið með báðum höndum af tröllinu og ég held bara hann hafi ekki einusinni haft færi á því að láta sig falla þar sem takið var svo fast! Það var eiginlega allt pirrandi við þennan leik dómarin var einhvern veginn ekkert að höndla það að vera dómari var meira upptekinn af því að vera töff en að vanda vinnubrögðin o.s.frv næsta leik get ekki fleirri svona samt.

    YNWA

    3
    • Mikilvægt að halda því til haga að honum tókst vel upp að vera töff. Töff og óþolandi reyndar.

      2
  9. Mjög slakur leikur. Skrýtinn leikur þar sem sóknarsinnað Napoli lið allajafna pakkar í vörn eftir að hafa komist yfir. Koulibaly og Manolas er suddalegt miðvarðapar og engin lömb að leika sér við. En Salah hafði ekkert í þennan leik að gera, hrikalega off eitthvað. Af hverju verður hann að spila alla cl leiki? Meiddur á móti man.utd, spilar svo genk leikinn, meiddur gegn cp, spilar svo í kvöld í engu standi. Hægt að telja upp fleiri sem voru úti á túni, afskaplega lítið skapað sóknarlega, eins og á móti cp. Hvar eru Keita og Lallana? Virtust vera komnir í leikform en nei, nei, sama iðnaðarmiðjann leik eftir leik. Getum ekki unnið alla leiki 2-1 með endalausum grís, myndi taka það allan daginn en finnst eins og liðið eigi miklu meira inni og þarf að fara sýna betri spilamennsku. Rant over.

    4
  10. Það er þreyta víða. Mér finnast ummælin hérna sem og pistillinn bera þess merki. Allar taugar hafa verið þandar í langan tíma og endalaust verið að telja hversu “margir leikir eftir í deildarbikar.”

    Napoli mættu með einfalt leik plan frá 1990 og spilaður leiðinlegur varnar bolti þar sem stöðugt var sparkað í hæla sóknarmanna og leikurinn svo svæfður. Dómarinn olli ekki sínu verki að vernda jákvæðnina og hefði átt að spjalda fyrr.

    Mark þeirra var dæmi um leik upplag Napoli og eiga þeir hrós skilið fyrir að komast frá Anfield með stig.

    En andleg þreyta og streyta kringum LFC er ahyggjuefni. Klopp skynjar það og leysir.

    1
  11. Þreyta, það er eina orðið sem kemur upp hjá mér. Örugglega íþyngjandi að vita af öllum þessu programi í des.
    Sakna mikið Mane og Salah, gæjar sem hafa oft klarað leiki fyrir okkur. En erum ennþá efstir og klárum þennan riðil efstir.

    ynwa.

    5
  12. Kæru vinir og félagar ef Klopp vill frekar spila þreyttum Mane og Salah en Origi og Shaq þá er það líklega það rétta í stöðunni. Hann er á öllum æfingum og veit nákvæmlega í hvernig standi menn eru í. Við vinnum næsta leik. Punktur.

    10
  13. Ekki sigur, ekki tap og því óþarfi að vera með eitthvað þunglyndisraus. Ef ég tel það rétt hafa okkar menn ekki tapað í 24 leikum í röð á heimavelli í Evrópukeppni. Geri aðrir betur. Það gera reyndar engir betur. Það getur vel verið að okkar menn hafi ekki spilað vel en við vitum að þetta lið hentar sennilega verst af öllum þeim andstæðingum sem þarf að kljást við. Býst svosem við að okkar menn klári þetta gegn RB Salzburg þó sprækir séu. Ef það næst ekki er svosem enginn heimsendir, sæti í Evrópudeildinnu þar sem bikar er í boði. Í raun langar mig meira í þann bikar í augnablikinu frekar en CL. Ástæðan, jú ég bara þoli ekki þegar síðasti úrslitaleikur í einhverri keppni er tap. Eins á við um FA bikarinn sem Liverpool glutraði í sínum síðasta úrslitaleik í þeirri keppni.

    4
  14. Þó nokkur atriði pirruðu mig í leiknum: dómarinn og flæðið á leiknum á tímabili – jedúddamía! … Liverpool á síðasta vallarþriðjungnum (varnarmaður skorar markið – sóknarlínan var döpur í dag) … Robbo var skugginn af sjálfum sér … Klopp fékk gult spjald (geðprúður maður að eðlisfari) … o.fl. —

    En … svona er að vera Liverpool aðdáandi … við förum ekki auðveldu leiðina og þannig verður það bara að vera. En ég ætla að segja að við séu í “vonda” tímabili keppnistímabilsins núna og því verður vonandi fljótt lokið.

    2
  15. Sæl og blessuð.

    Þessi leikur var kornið sem fyllti kornmælin. Það koma svona leikir þar sem átakanlega vantar herslumuninn – í æðislegum framherja sem getur sprengt upp svona ítalskar Fiat-rútur eins og þessa. Leikurinn í Salzburg getur sannarlega endað illa. Þeir eru til alls líklegir.

    Spái því að Timo Werner sé með língafóninn að æfa sig í skásera-ensku þessa dagana.

    4
  16. Veit ekki hvort maður á að vera mjög áhyggjufullur eða bara raunsær…
    … þetta he…..s Napoli lið, ég þoli það ekki
    … 10 leikir á 30 dögum, hrein geggjun
    … þreyta leikmanna í hápressu djöflabolta Klopp er pínleg og aðaltörnin varla byrjuð
    … meiðsli Fabhino sem hefur sennilega verið jafnbesti leikmaður Liverpool
    … meiðsli Matip sem maður hefði gjarnan viljað hafa kláran í þessa törn
    … Matip bestur fram að meiðslum, Fabhino næstbestur og svo bestur fram að sínum meiðslum. Vonandi verður enginn bestur núna því það er bara ávísun á meiðsli
    …jakvætt ef Shagiri er að koma til baka. Sennilega þó vel ryðgaður
    … Ox verður að taka meira til sín þegar hann spilar. Hann getur allt þessi strákur ef hann vill
    … svo höfum við Lallana, með töfrana?
    … og ég tali nú ekki um Milner sem fékk góða dóma eftir leikinn í gær.
    … og Origi, já Origi
    … og Comez sem verður frábær eftir áramót, allavega telja gárungarnir það
    … annars bara góður en mest svekktur í dag er ég yfir jafnteflisleiknum gegn MU. Hve gaman og kannski nauðsynlegt að hafa 10 stiga forskot en ekki 8 sig

    7
  17. Sælir félagar

    Takk fyrir góða skýrslu Eyþór og flest gott og rétt þar. Þetta voru einfaldlega slæm úrslit hvernig sem á þau er litið. Það sem mér finnst verst er að Ancelotti hefur haft taktiska yfirburði yfir Klopp í báðum leikjunum. Það má ef til vill ekki segja þetta en þetta er það sem mér finnst. Klopp hefur ekki fundið svar við uppsetningu leikjanna við Napoli og það er ekki nógu gott.

    Við getum auðvitað kennt um meiðslum og þreytu hjá leikmönnum Liverpool en leikmenn Napoli voru nánast dauðir úr þreytu síustu 10 – 15 míútur leiksins. Þeir djöfluðust eins og brjálæðingar og skildu allt eftir á vellinum og uppskáru samkvæmt því. Venjulega getum við talið upp 5 – 6 dauðafæri hjá liðinu í hverjum leik sem flest fara forgörðum í undanförnum leikjum. Í þessum leik voru þau ef til vill tvö. Það segir manni að eitthvað vantaði uppá miðað við venjulega leiki hjá liðinu. Leikkerfi Ítalans gekk nánast fullkomlega upp og því fór sem fór.

    Ancelotti hefur gífurlega reynslu sem stjóri og kann leikinn út í hörgul. Hann vissi nákvæmlega hvað hann ætlaði að fá út úr þessum leik og það var að tapa honum ekki. Það er stundum sagt um boxara að þeir hafi númer einhvers annar boxara sem þýðir að þeir vinna þann boxara hvernig sem staðan er hjá þeim að öðru leyti. Mér sýnist að Ancelotti hafi númerið hjá Klopp og það er vont. Það er vont að lenda á móti manni sem hefur númerið manns. Þá fer einfaldlega illa.

    Eins og ég sagði fyrst þá eru þessi úrslit mjög vond fyrir liðið okkar þegar gífurlegur álagstími fer í hönd. Það yrði mjög vont ef við þyrftum að fara að spila Evrópuleiki á fimmtudögum. Við þekkjum það og vitum að það kemur niður í frammistöðunni næstu helgi á eftir. Það verður of stutt í deildarleikina og liðið verður þreytt eftir Evrópuleikina og þannig geta stig farið forgörðum. Því erum við í þeirri stöðu að verða að vinna Salzburg hvað sem tautar. Það er vont eins og álagið verður í des og jan.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
    • Reyndar er nóg að ná í stig á móti Salzburg. Við vitum samt að það kann aldrei góðri lukku að stýra að spila upp á jafntefli.

      5
  18. Ég fagna þessu Lovrenmarki heils hugar. Gott að vera ósigruð óslitið áfram á heimavelli.

    5
  19. Jú, tökum íslensku (gömlu) leiðina á þetta. Leikurinn byrjar 0-0 og reynum að halda leiknum þannig eins lengi og hægt er… Not!

    Keyrum bara við þessa gauka og sýnum þeim hvar Davíð keypti ölið handa Dóra.

    2
  20. Fabinho okkar einn besti leikmaður á þessu tímabili verður frá í 4-6 vikur í það minnsta og við að fara inn í sturluðustu törn í desember frá upphafi þetta á eftir að verða mjög erfitt og að lenda á móti Salzburg í úrslitaleik á útivelli í þeirra formi er heldur ekkert spes.

    Það eina sem er hægt er að trúa á að okkar menn stígi upp sem þurfa fylla í skarðið fyrir hann þaes Milner og Ox aðalega sem og mögulega Lallana veit ekki um fleiri viable kosti en þetta meðast við að Hendo og Winjaldum geti keyrt 100% líka skal alveg viðurkenna það að ég er smá kvíðinn í desember fyrir liðið en hef trú á þessu !

    YNWA !

    4
  21. Er nú ekki sammála að þetta Napoli lið sé óþolandi gott, þeir eru að standa sig langt undir getu heima fyrir í Serie A, sitja í 7. sæti deildarinnar. Það er bara þessi blessaða grýla með LFC og lið frá Ítalíu, hafa oftast reynst okkur erfið.

    Ég er því miður ekki bjartsýnn fyrir síðasta leikinn á móti RB Salzburg. Finnst ólíklegra að kraftaverkin gerist á útivelli sem er eins sterkur og þessi

    1

Liðið gegn Napoli

Brighton á morgun