Helgaruppgjör

Það er erfitt að hugsa fótboltahelgi í enska boltanum sem hefur farið mikið betur en þessi helgi. Everton er í fallsæti, United lá úti gegn liði í fallsæti, Spurs var niðurlægt aftur og City tapaði heimaleik gegn liði sem er ekki eitt af toppliðunum.

Liverpool

Staðan í deildinni mun ekkert breytast næstu tvær vikur og því um að gera að njóta á meðan, en við eigum líklega öll ennþá eftir að hitta stuðningsmann Liverpool sem heldur því fram af einhverri alvöru að þetta sé komið.

Átta sigrar í fyrstu átta leikjunum er auðvitað fullkomin byrjun en telur ekkert meira en átta sigrar í röð á miðju tímabili eða undir lokin. Man City vann 18 af síðustu 19 leikjum síðasta tímabils. Man Utd vann fyrstu tíu leikina 1985/86 en endaði í 4.sæti.

Það sem vinnur hinsvegar frekar með Liverpool er að þetta var 17 sigurleikurinn í röð í deildinni og stór hluti af þessum leikjum hefur verið meðfram gríðarlega þéttu prógrammi í Meistaradeildinni. Liverpool er búið að tapa einum leik frá því síðasta tímabil byrjaði. Eitt tap í 47 leikjum er galið.

Liverpool hafa sóað urmul af færum í síðustu þremur leikjum og unnið þá alla með eins marks mun eftir sigurmark á lokamínútunum. Enginn af þessum sigrum var sannfærandi og satt að segja á liðið ennþá eftir að komast í einhvern fluggír. Ekki ósvipað fyrstu mánuðum síðasta tímabils. Auðvitað er viðbúið að Liverpool nái ekki alltaf að breyta þessum leikjum í sigur en það er gríðarlega jákvætt að maður hefur á tilfinningunni að það sé ennþá töluvert svigrúm til bætinga. Liverpool er búið að fá fæst mörk á sig í deildinni en fær samt besta markmann deildarinnar aftur í næstu umferð ef allt er eðlilegt. Eftir átta leiki í fyrra var Liverpool búið að fá á sig helmingi færri mörk en liðið hefur fengið á sig núna (en skora fimm mörkum minna).

Man City hent fyrir Úlfana

Adama Traore er fljótasti maður á jörðinni og mjög líklega einn mest pirrandi leikmaður deildarinnar fyrir stuðningsmenn þeirra liða sem hann spilar fyrir.  Ég hef ekki tölu á því hversu oft maður hefur séð hann rjúka fram og koma sér í ákjósanlega stöðu en vera svo töluvert nær því að fótbrjóta sig í skotinu heldur en að setja það í netið. Ég hafði ekki einu sinni trú á því að hann myndi skora þegar ég var að horfa á svipmyndir af mörkunum úr leik City og Wolves. Sá hitti á leikinn og var auk þess mjög öflugur sem bakvörður í fimm manna varnarlínu Wolves. Sterling hafði ekkert í hann á sprettinum sem er óvanalegt fyrir hann.

Það að Wolves taki stig af City eru ekkert rosalegar fréttir í sjálfu sér. Þeirra leikur hentar stóru liðunum illa og þeir tóku töluvert af stigum í þessum leikjum á síðasta tímabili, t.a.m. gegn Man City. Það sem gerir þessi úrslit áhugaverð er að Wolves hafði aðeins unnið einn leik í deildinni fyrir þennan (gegn botnliði Watford í síðustu umferð) og átti erfiðan útileik í Istanbul á fimmtudaginn. Man City spilaði við Zagreb heima daginn áður. Auðvitað geta svona “freak” úrslit komið inn á milli en Wolves hefur einmitt gengið mjög illa í vetur að tengja saman Evrópudeildina og deildarkeppnina. Þeir spiluðu eðlilega þéttan varnarleik en sigurinn var ekkert ósanngjarn og City gekk ekkert að opna vörn Wolves. Þetta var enganvegin sama einstefna og á síðasta tímabili þegar Wolves stal stigi gegn City.

Stóru fréttirnar eftir þennan leik rétt eins og tap City gegn mjög vængbrotnu liði Norwich eru vonandi þær að það er engin ástæða lengur fyrir lið að gefa leikina gegn City fyrirfram eins og við höfum séð gerast af og til undanfarin ár. Það er hægt að stríða þessu City liði sem virkar núna í byrjun tímabils ekki eins rosalega ósigrandi og undanfarin tvö ár. Þeir eru alveg 88-90+ stiga lið en kannski ekki 98-100+ stiga lið eins og þeir hafa verið.

Norwich hefur unnið einn af síðustu sex leikjum og bara tvo leiki það sem af er þessu tímabili. Það eru fá lið í eins miklum meiðslavandræðum og þeir sem gerir sigur þeirra og frammistöðu gegn City svo áhugaverða. Rétt eins og gegn Liverpool þorðu þeir að spila sinn fótbolta og sækja. Eitthvað sem City líður mun verr með en liðin sem pakka í vörn frá fyrstu mínútu. Það er því spurning hvorn leikinn stjórar sambærilegra lið horfa á þegar þeir eru að undirbúa sig fyrir Man City, 3-2 tap þeirra gegn óhræddum Norwich mönnum og tap heima gegn Wolves eða 8-0 slátrunina þeirra gegn Watford.

City er búið að fá á sig 9 mörk það sem af er tímabili eða 66% fleiri mörk en liðið hafði fengið á sig á sama tíma í fyrra. Auðvitað of lítið úrtak en sýnir kannski að meiðsli og breytingar í vörninni hafa verið að bíta.

Stærri spurningin er hvort það sé komin einhver smá þreyta í City liðið? Þá er ég ekki að meina svona Man Utd hrun heldur meira svona 6-12 stiga niðursveifla sem er alls ekkert fjarstæðukent hjá liði sem hefur sett standardinn í kringum 100 stiga tímabil. Guardiola er pottþétt þreytandi til lengdar enda geðbilað kröfuharður.

Lykilmenn liðsins hafa verið lengi saman og spurning hvort þeir haldi sama standard endalaust. Aguero, Silva, Fernandinho, Otamendi og De Bruyne spila allir ennþá risahlutverk hjá Guardiola en er einhver þeirra jafn góður og hann var fyrir tveimur árum? Kannski De Bruyne sem er yngstur af þeim en hann var ekki í meiðslavandræðum þá. Aguero er kannski ekki verri en er hann eitthvað betri núna norðanmegin við þrítugt? Vörnin er miklu verri í fjarveru Laporte og Kompany sérstaklega þar sem ekkert hefur ennþá verið keypt í staðin fyrir þá.

Vonandi er þessi byrjun City ekki tálsýn, þeir hafa náð í 16 stig af 24 þrátt fyrir að hafa átt léttara leikjaprógramm en okkar menn. Það er 67% stigasöfnun sem myndi duga í 76 stig yfir heilt tímabil. Man City tapaði fjórum leikjum á síðasta tímabili og gerði aðeins tvö jafntefli. Þeir hafa núna eftir átta umferðir gert eitt jafntefli og tapað tveimur sem er helmingurinn af töpuðum stigum síðasta vetur.  Eini svokallaði topp sex andstæðingurinn sem þeir hafa mætt það sem af er tímabili nú er Tottenham heima og þeir unni hann ekki. Liverpool er nú þegar búið með Chelsea á Stamford og Arsenal heima.

Everton toppaði helgina

Everton í fallsæti er stærra mál í Liverpool borg en margir utan hennar gera sér grein fyrir og ljóst að eitthvað mikið þarf að breytast þar á bæ. Marco Silva tók við eftir tímabilið 2017/18 og því spurning hvort lausnin fellst í því að losa sig við hann? Hvað geta þeir fengið í staðin? Leita aftur til Moyes?

Hver er að kaupa inn leikmenn fyrir félagið? Þeir hafa eytt rúmlega 500m EUR undanfarin fjögur ár (meira en Liverpool) og árangurinn er ekki betri en þetta. Gylfi og Richarlison kostuðu báðir meira en Fabinho, Salah, Mané og Firmino hafa kostað svo dæmi sé tekið.

Þessi hópur er miklu sterkari en staðan í deildinni gefur til kynna og væntanlega ná þeir að rífa sig upp en núna strax eftir átta umferðir er ljóst að draumar þeirra um að berjast um jafnvel Meistaradeildarsæti eru fuðraðir upp.

Það er eins og það sé kominn keppni milli Silva, Solskjaer og Pochettino hver fer fyrstur.

Tottenham rassskellt, aftur.

Ef að það er komin vottur af þreytu í City liðið og Guardiola hvað í fjandanum er þá hægt að kalla þessa byrjun tímabilsins hjá Tottenham? Meistaradeildin faldi þetta vandamál vel síðasta vetur en frá því síðasta tímabil byrjaði hefur Tottenham tapað 25 leikjum í öllum keppnum.

Nokkrar af helstu burðarásum félagsins undanfarin ár eru á síðasta ári samningsins og hafa einhverjir þeirra talað um það opinberlega að hugur þeirra sé að fara annað. Það er augljóslega ekki allt í standi bakvið tjöldin því Pochettino hefur talað um að kaupa leikmenn í janúar og taldi þörf á fleiri breytingum síðasta sumar en þeir þó gerðu.

Verðmiðinn á Eriksen var líklega of hár og því líklegt að hann fari fyrir ekki neitt í staðin næsta sumar. Alderweireld og Vertonghen virðast báðir vera skugginn af sjálfum sér og gætu mögulega báðir farið í næsta eða þarnæsta glugga. Rose var mættur til Watford á síðasta degi leikmannagluggans núna og Aurier getur ekki átt mjög langa framtíð hjá þeim. Dele Alli endar í Everton eftir 2-3 ár haldi hann áfram að spila eins og hann hefur gert undanfarið, Dier er ennþá nær því og Hugo Lloris virðist stefna hratt yfir hæðina sem heimsklassa leikmaður þó hann sé reyndar bókstaflega fyrirliði heimsmeistaranna. Þeir eiga góðan varamarkmann sem gæti alveg tryggt sér stöðuna núna þegar Lloris er kominn á meiðslalistann.

Þessi hópur hefur verið meira og minna saman frá því Pochettino tók við liðinu og ítrekað spilað “yfir getu”. Þeir fá mun minna borgað en sambærilegir leikmenn hjá öðrum liðum og virðist sem þetta hafi loksins náð í rassinn á þeim. Meistaradeildarsæti er m.a.s. frekar ólíklegt eins og staðan er núna.

Væri ég stuðningsmaður Tottenham myndi ég frekar vilja halda Pochettino og selja megnið af lykilmönnum liðsins til að byggja upp nýtt lið. Það er hinsvegar aldrei að fara gerast og virðist staðan núna vera þannig að það er bara tímaspursmál hvenær Pochettino verður rekinn eða hættir. Síðasta lagi næsta vor.

Hann er 47 ára og búinn að vera sex ár á Engandi þar sem hann hefur byggt upp orðspor sem einn af fimm bestu knattspyrnustjórunum á markaðnum í dag. Hann var í kjöri hjá UEFA um daginn með Klopp og Guardiola. Hann fer ekki lengra með þetta Tottenham lið í bili og því blasir við að tímasetningin fyrir næsta skref er núna og ljóst að hann verður ekki atvinnulaus lengi.

Mest óttast ég að hann endi hjá United næst, hann er nákvæmlega sú tegund af nútíma stjóra með alvöru presence til að snúa því félagi við. Hann fengi þar nóg af peningum öfugt við það sem hann hefur þurft að vinna með hjá Spurs. Eins væri hann draumur fyrir Jöklana og Woodvard þar sem hann leggur rétt eins og Klopp meira upp úr því að vinna með það sem hann hefur og þróa leikmenn frekar en sjá alltaf bestu lausnina á leikmannamarkaðnum.

Þetta snýst auðvitað um tímasetningu en næsta skref fyrir hann er topp 10 lið í Evrópu.

Hafa ber samt í huga að þrátt fyrir allt er Tottenham bara þremur sigum frá Meistaradeildarsæti og fimm stigum á eftir Man City í deildinni. Á móti er tap í Grikklandi og 2-7 heima gegn Bayern ansi þung högg í Meistaradeildinni.

Man United

Það er auðvitað ljótt að sparka í liggjandi mann en á það við um United? Helsti óttinn við gengi þeirra núna er að Liverpool fer á Old Trafford í næstu umferð. Ef það er einhver karakter eftir í þessu liði er sá leikur stærri fyrir þá en úrslitaleikur HM. Liverpool jafnar með sigri met yfir sigurleiki í röð og það vilja þeir ekki sjá gerast á Old Trafford. Það hjálpar ekki heldur að þegar þessu var öfugt farið náði Liverpool oftar en ekki í úrslit gegn United í þessum leikjum en tapaði þeim svo jafn harðan aftur gegn Stoke, Bolton, Sunderland eða álíka stórliðum. Svona Hróa Hattar fílingur, taka frá þeim ríku og gefa þeim fátæku. Ég óttast að United geri einmitt þetta og þeim tókst það á síðasta tímabili í leik þar sem Liverpool voru of ragir gegn liði sem var “there for the taking”

Á móti er þetta United lið ótrúlegt en satt verra í vetur en það var á síðasta tímabili. Síðast þegar Liverpool spilaði við þá var Ole Gunnar á fleygi ferð á hlaupahjólinu sínu en eftir að hann tók formlega við hefur United náð í 17 stig í 17 leikjum á meðan Liverpool hefur unnið 17 leiki í röð. Southampton og Newcastle hafa verið betri á þessum leikjakafla svo dæmi sé tekið og gegn United sett í samhengi.

Persónulega hélt ég að Solskjaer yrði látinn fjúka eftir tapið í Newcastle og ég sé hann ekki klára fram að áramótum. Einhver á twitter súmmeraði þetta vel upp

The irony is the players don’t care, the board don’t care, yet the only cunt who does will get sacked.

Við hitum vel upp fyrir stórleikinn gegn United í Gullkasti og upphitun í næstu viku.

Að lokum

Liverpool hafa byrjað tímabilið mjög vel án þess að spila frábærlega í 90.mínútur í einum einasta leik. Það er rosalegur karakter í þessu liði, þetta lið hefur nú þegar sannað það að það getur tapað 3-0 úti gegn Barcelona á stærsta sviðinu og snúið því við.

Hikst hjá öðrum liðum á sama tíma er mikið gleðiefni en deildin er líklega sterkari núna en hún hefur verið. Það eru fleiri lið núna sem geta tekið stig en fyrir einu eða tveimur árum þegar City náði 100 stigum.

  • Wolves, West Ham, Leicester eru mun þéttari núna og undir stjórn öflugra stjóra.
  • Chelsea og Arsenal virðast bæði hafa náð botninum og eru á uppleið þaðan.
  • Nýliðarnir þrír eru allir sterkari en liðin sem fóru niður. Norwich og Sheffield United koma með látum og þora að spila sinn bolta á meðan Aston Villa er auðvitað Úrvalsdeildarlið. Huddersfield, Fulham og Cardiff voru öll afleit í fyrra þannig að það er ekki mikið að bæta.
  • Brighton er allt annað lið en liðið sem hefði með réttu átt að fara niður í fyrra. Eins er Southampton er með miklu betri stjóra en í byrjun síðasta tímabils
  • Burnley er farið að líkjast sjálfu sér aftur eftir Evrópuhörmungina og eins er Bournemouth orðið þéttara.
  • Crystal fucking Palace hefur verið eitt besta lið deildarinnar það sem af er ári 2019!
  • Everton og Watford ættu að vera sterkari en eru það ekki.
  • Spurs gætu verið að stefna í tímabil þar sem félagið endar ca. þar sem þeir ættu að enda m.v. kaupverð og laun leikmannahópsins. Ekki afskrifa þá strax samt.
  • Man Utd er svo það lið sem virðist hafa veikst hvað mest þó reyndar séu þeir sem komu í sumar bestu leikmenn liðsins. Þeir verða eðlilega sterkari en þeir eru núna þegar þeir endurheimta menn úr meiðslum. Ekki mjög mikið samt.

10 Comments

  1. Frábær úttekt. Og allt getur gerst ennþá og ófyrirséðar sveiflur væntanlegar hvað öll þessi lið varðar [staðfest]. Deildin er óútreiknanlegri í ár en nokkuð lengi áður. Okkar menn með pálmann í höndunum eins og er, en þó held ég að hver og einn í 21 manns leikmannahópi Liverpool sé ekki að gera sér rósir að svo stöddu. Það eru 30 leikir eftir og enginn fagnar núna.

    Einhvern komment hafa verið hér um Henderson, “fyrirliðann á bekknum”. Hann á eftir að reynast mikilvægur í þeirri baráttu sem er framundan, með langa reynslu af súru og sætu í þessari erfiðustu deild allra deilda, harður og auðmjúkur í senn og hefur það held ég í sér að halda utan um ungu strákana og hafa þá á jörðinni þegar með þarf. Það má vera að hann sé stundum fyrirliði á bekknum en ef utan vallar væri ekki leiðtogi nema eingöngu stjórinn þá væri pússlið ekki svona gott. Svo spilar Hendo oft frábærlega fyrir okkur. Þeir Milner eru bestu helgarpabbar í heimi.

    Þess utan er náttúrlega enn annar leiðtogi – í miðvarðarstöðu – sem óþarfi er að nefna. Einn af þrem bestu fótboltamönnum í heimi.

    Og hvað á maður að segja? Sprengjurnar á bakköntunum, snillingarnir frammi, brasílíska skrímslið aftast á miðjunni og leikmaður septembermánaðar í hinni miðvarðarstöðunni – sem svo sannarlega hefur unnið sér inn fyrir þeirri nafnbót með frábærri spilamennsku allt þetta ár. Besti markvörður heims meiddur á bekknum en væntanlegur inn. Það er ekki nema réttileg framrás heilbrigðs sálarlífs að við séum vongóð.

    Það sem ég meina kannski er að vonin felst ekki síst í því að þetta lið – ólíkt öllum Liverpool liðum sem ég hef séð síðan ég byrjaði að fylgjast með af alvöru fyrir svona 20 árum – hefur einbeitingu, metnað, þol og andlegan styrk sem ekki er hægt að bera saman við nokkurt hinna liðanna. Til að toppa það þá eru þessir strákar langbestir í fótbolta af öllum liðum sem við höfum átt amk. síðust 30 árin. Og ég held bara ever.

    Ef liðið heldur áfram með sömu sýn – að þetta sé þrautaganga og helvíti en að engin hindrun sé of stór ef maður beitir sínum mestu styrkleikum – og það má hafa gaman á meðan – þá tökum við þessa deild.

    Þvílíkur fögnuður sem það verður.

    50
    • Sæl og blessuð

      Þetta var nú bara, held ég, eitt best skrifaða komment á þessari síðu sem ég hef rekið augun í.

      Og er maður þó góðu vanur! Sammála hverju orði og það verður unun að fylgjast með í vetur, hvort heldur það verður áframhaldandi niðurlæging hnigandi stórvelda eða nístandi háspenna.

      5
  2. Sælir félagar

    Takk Einar fyrir frábæra yfirferð og svo Sölvi fyrir ekki mikið lakari viðbót. Það er raunar litlu við þetta að bæta og ekkert eftir í bili nema þakka liðinu fyrir frábæra skemmtun og taugaspennu á köflum sem fékk mitt gamla hjarta til að slá nokkur feilpúst.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  3. Það er engu logið með að allt lítur vel út, þarf ekki einu sinni pappíra til að staðfesta það. Sé miðað við að satt sé að Salah sé lítið sem ekkert meiddur en þurfi smá tíma og Alisson væntanlega klár eftir hléð, Keita og Ox komi ferskir inn spyr maður hvað er að, þegar ekkert er að. Nú er bara að vona að allir landsliðsmenn komi heilir til baka úr sínum skylduverkum og sýni manu hvernig alvöru lið spilar fótbollta þann tuttugasta þessa mánaðar, engin vafi í mínum huga.

    YNWA

    4
  4. Hér er ein pæling,en getur það verið að þetta Man Utd lið sem Sólskerjamóri er að berja saman verði hreinlega í neðri hlutanum og jafnvel að berjast í bökkum við að halda sér frá falli í vor?

    Ég er búinn að horfa á nokkra leiki með þeim í haust og ég hef bara sjaldan séð jafn slakt lið frá þeim. Ekki það að það skipti okkur miklu máli,en maður er bara eitthvað svo gapandi hissa á þessu stjörnuhrapi þeirra á svo skömmum tíma og ef þeir ætla ekki að hysja upp um sig brækurnar að þá er kjallarabarátta hjá þeim framundan.

    Þeir féllu vorið ’74 aðeins sex árum eftir að hafa unnið Evrópukeppnina þannig að það er ekkert er ómögulegt í þessu.

    Það væri rosalegt tvist ef við stöndum uppi sem sigurvegarar í fyrsta skiptið síðan 1990 og þeir falla í fyrsta skipti síðan 1974!

    A man can only dream…..

    10
    • Manu og neverton fara niður, bara spurning um hvert þriðja liðið verður.

      En já, þetta er alveg hræðilega lélegt lið hjá þeim og vonandi getum við náð að klára færin okkar á móti þeim og sýnt þeim hvar Davíð frændi keypti gosið!

      3
  5. Madur vonar bara af tad komi podcast i kvold, kemur oftast seint a tridjudagskvoldum en einar talar um i tessum trædi ad teir hiti vel upp fyrir man utd i næstu viku, vonandi tydir tad ekki ad ekkert komi fyrr en ta

    2

Liverpool – Leicester 2-1

Gullkastið – Fullt hús og rúmlega það