MK Dons 0-2 Liverpool

0-1 James Milner (41′)

0-2 Ki-Jana Hoever (69′)

Það var gríðarstórt bananahýðið sem var í boði að stíga á í Milton Keynes í kvöld þar sem við mættum með mjög breyttan leikmannahóp frá því sem við erum vanir. Mikið um unga stráka bæði fram á við og í marki en miðjan og vörnin að mestu reynslumeiri menn og var hætta á að ósamstillt lið yrði sigrað.

Það var strax hætta eftir tíu mínútna leik þegar Lovren tók illa við boltanum virtist ekki vita af Ndombe rétt fyrir aftan sig sem stakk sér fram fyrir hann og tók boltan. Ndombe keyrði síðan á teigin framhjá Lallana sem reyndi að renna sér á boltann og lagði hann síðan tilbaka á McGrandles sem skaut yfir markið. Aðeins tveimur mínútum seinna átti Milner gott hlaup upp kantinn, inn á teigin þar sem hann komst framhjá varnarmanni MK Dons og vippaði svo boltanum inn á Harvey Elliot sem átti skot í þverslánna fyrir opnu marki. Dauðafæri hjá stráknum sem hefði mátt koma okkur yfir þarna.það var svo um miðjan fyrri hálfleik sem hann launaði Milner greiðan með frábærri fyrirgjöf úr djúpinu en Milner skallaði framhjá úr þröngu færi.

Það var svo rétt fyrir hlé sem fyrsta markið kom þegar James Milner fékk tíma til að stilla sér upp í skot rétt fyrir utan teig. Hann tók fast skot beint á Moore í markinu sem ætlaði að grípa boltann við bringuna en misreiknaði skotið lítillega og missti boltan yfir sig og í netið. Svekkjandi fyrir Moore en fögnuður fyrir rauðliða.

Eftir hlé réðu Liverpool leiknum en fengu smá skelk þegar leikmaður Dons vann boltann af Hoever við miðlínu og stakk boltanum inn fyrir og var sóknarmaður þeirra kominn framúr varnarmönnum Liverpool en Lovren náði að tækla boltann aftur fyrir. Úr horninu komu þeir boltanum á markið en hann endaði í stönginni og aftur fyrir.

Þegar 69 mínútur voru á klukkunni fengum við svo bakvarðarmark. Lallana kom boltanum út á James Milner sem kom boltanum fyrir þar sem Ki-Jana Hoever var vel staðsettur og skallaði boltanum í betið 2-0 fyrir Liverpool.

Fram að þessu hafði Kelleher lítið þurft að hafa fyrir hlutunum en tveimur mínútum eftir markið kom algjör negla utan af velli sem hann varði meistaralega og stuttu seinna tók Chamberlain sambærilegt skot sem Moore varði í stöngina. Á loka mínútunum var ljóst að MK Dons vildu ekki yfirgefa keppnina án þess að allavega særa Liverpool og áttu þeir nokkrar góðar sóknir en önnur varsla frá Kelleher og bjarganir frá Lovren og Gomez komu í veg fyrir að þeir næðu að skora í leiknum. Í uppbótatíma fékk Harvey Elliot svo boltann á vinstri kantinum náði að leita inn á völlinn og eiga gott skot sem endaði í þverslánni, hans annað skot í þverslánna í leiknum hrikalega óheppinn að skora ekki í sínum fyrsta keppnisleik fyrir félagið.

Bestu menn

Ungu strákarnir stálu svolítið senunni í kvöld. Harvey Elliot sýndi af hverju hann var svona eftirsóttur í sumar, vantaði kannski aðeins meiri ákefð í hann í fyrri hálfleik en hefði með meiri heppni getað skorað tvö mörk og lagt upp annað og þá hefði umræðan verið svakaleg! Curtis Jones sýndi mér loks í fyrri hálfleik af hverju menn hafa talað hann upp á síðustu árum en dró svo af honum þegar leið á leikinn. Hoever komst ágætlega frá sínum leik, sérstaklega sóknarlega þar sem hann skorar mark og var ógnandi á kantinum en það var öldungurinn í liðinu James Milner sem var bestur allra stýrði leiknum á köflum úr vinstri bakverðinum, vann vel með Adam Lallana á miðjunni og kórónar leikinn með marki og stoðsendingu.

Vondur dagur

Dejan Lovren átti erfitt í fyrri hálfleik, gaf gott færi undir byrjun leik og var nokkrum sinnum ýtt of auðveldlega af boltanum en vann sig inn í leikinn í seinni hálfleik og reyndist okkur vel undir lokinn.

Einnig hefði ég viljað sjá meira frá Rhian Brewster, hann var nálægt því að skora eftir góða fyrirgjöf frá Milner þegar hann náði að troða sér milli þriggja varnarmanna en náði ekki að komast nógu vel í boltann en fyrir utan það var hann inn og út úr leiknum.

Naby Keita átti einnig erfitt vonandi að það sé bara því hann er að stíga upp úr meiðslum.

Umræðupunktar

  • Ungu strákarnir komu vel út úr leiknum og vonandi að það sé styttra frekar en lengra að þeir geri alvöru tilkall til að vera hluti af aðalliðshópnum
  • Salah, Robbo, Hendo, Trent, Bobby, Mané, van Dijk, Matip, Fabinho og Wijnaldum fengu allir hvíld í leiknum, voru ekki einu sinni á bekk, vonandi mun það hjálpa um næstu helgi
  • Bikarkeppnirnar eru mikilvægar til að gefa mönnunum á jaðrinum leiktíma og koma þeim í stand til að geta nýtt þá í deildinni ef eitthvað bjagar á og því frábært að vera komnir áfram í þessari keppni, væri líka ekkert verra að vinna þennan titil!
  • Hef ekki horft nægilega mikið á unglingaliðin en það kom mér á óvart hversu vel Kelleher stóð sig í sínum aðgerðum. Bæði í þeim markvörslum sem hann átti og hvað hann var fljótur í flestum aðgerðum sínum.
  • Harvey Elliot er svakalegt efni og það verður gaman að sjá hvað verður úr þessum strák.
  • Á meðan við unnum þennan leik með okkar bestu ungu stráka töpuðum við í vítaspyrnukeppni gegn Joey Barton og félögum í Fleetwood í EFL bikarnum, bjóst við stærra tapi þar eftir að hafa séð leikmannahópinn í dag.

Það er þegar búið að draga og næsta viðureign verður í lok október gegn Arsenal á Anfield. Það verður allt öðruvísi verkefni en vonandi skemmtilegt engu síður. Næst sjáum við Liverpool hinsvegar á laugardaginn næsta í hádegisleik gegn Sheffield United.

13 Comments

  1. Liðið kláraði þetta verkefni og fékk í verðlaun alvöru leik á Anfield gegn Arsenal sem verður skemmtilegt verkefni fyrir ungu strákana en sá leikur verður spilaður 29.okt aðeins tveimur sólahringum á eftir Tottenham leik á heimavelli svo að stjörnurnar okkar verða hvíldar.

    Í sambandi við leikinn í kvöld þá var þetta bara fín framistaða.
    Kelleher átti mjög góðan leik í markinu. Milner flottur í vinstri bakverði, Lallana kom bara vel út sem djúpur miðjumaður og var duglegur að halda boltanum á hreyfingu, Jones átti mjög góðan fyrirhálfleik en maður leiksins að mínu mati var Elliot sem var mjög hættulegur og var nálagt því að skora í tvígang. Keita fékk 60 mín sem er bara hið besta mál.

    Mér fannst Lovren/Gomez ekki líta vel út, menn keppast við að gagnrína Lovren en hann bjargaði okkur nokkrum sinnum vel en átti auðvita klúðru í upphafi leiks.
    Gomez fannst mér bara vera í pínu vandræðum varnarlega og var skrítið að sjá hann tapa einvígi og liggja eftir á rassinum í síðarihálfleik(Lovren bjargaði því vel þegar hann varðist einn á móti tveimur)
    Hoever skoraði flott mark en heilt yfir átti hann ekki góðan leik, sendingar að klikka mikið, of mikið úr stöðu og þeir komust oft bakvið hann.
    Brewster var einfaldlega lélegur í kvöld en hann hélt boltanum mjög illa, var með lélegar fyrirgjafir og var ekki mikil ógn í honum í þessum leik. Miða við það sem maður hefur séð til stráksins þá á hann mikið inni og við eigum eftir að sjá það á næstu árum en þetta er gríðarlegt efni.

    Þetta fer samt allt í reynslubankan og tel ég að við munum strax sjá eftir mánuð gegn Arsenal framfarir hjá þessum unguleikmönum og kappar eins og Gomez, OX, Milner og Lallana eiga eftir að fá að spila meira í úrvaldsdeildinni þegar leikjaprógramið þéttist og er því gott að fá þennan spilatíma í kvöld.

    4
  2. Virkilega gaman að sjá Elliot, einföld touch og vill greinilega klára færin alveg upp í hornin, maður sér það á yfirvegun inni eins og í seinna skiptingu í sammann!Átti flottar fyrirgjafir og óheppinn að skora ekki í leiknum. Virkilega spennandi kostur!

    3
  3. Tek fram að ég sá bara seinni hálfleikinn en er bara nokkuð sáttur með það sem ég sá. Maður þarf auðvitað að muna eftir svona leik að engin er jafn góður né eins lélegur og manni finnst í honum. Nokkrir punktar sem ég hugsaði á meðan leik stóð:

    Í leiðsögninni tölum við mikið um mikilvægi væntingarstjórnunar, Harvey Elliot er búin að henda öllum pælingum um slíkt útum gluggan. Magnað að sjá hann bara 16 ára, þá sérstaklega leikskilningurinn hans og ákvarðanatakan sem er langtum betri en maður er vanur hjá svona ungum leikmanni. Kæmi reyndar ekki á óvart ef hann mætti með sleggju í dag á MK Dons völlinn og réðist á þessa blessuðu slá, hversu pirrandi að vera tveim sláar skotum frá því að verða yngsti markaskorari í sögu Liverpool í þínum fyrsta leik?

    Mér fannst markið frá Hoever frábært. Miðað við hversu sóknarsinnaðar bakverðir okkar eru, þá er sjaldgjæft að sjá hlaupið sem hann tók til að komast í færið og hann afgreiddi skallann frábærlega.

    Reynslan lak af Lovren og Milner í þessum leik og mér fannst Lallana fínn. Lovren bjargaði ansi oft í erfiðri stöðu. Við sáum kannski hvers vegna Klopp elskar að henda Lallana inn á seint í leikjum, Dons var lífsins ómögulegt að ná boltanum af honum. Flott að vera með svona stálbita til að byggja annars ungt lið í kringum.

    Keita og Oxlade fengu sínar mínútur, voru kannski ekki að brillera en unnu sína vinnu og færðust einum leik nær í að vera komnir í topp stand.

    Já og markmaðurinn var mjög góður. Ég sé ekki hann eiga sér framtíð hjá Liverool sökum þess að Alisson verður auðvitað aðalmarkmaður til 2030 en strákurinn á samt bjarta framtíð.

    Hægt að byðja um mikið meira úr leiknum? Held ekki, nú er bara að fjölga deildarstigunum í 21 um helgina!

    5
    • Sammála þér en ég skellti samt upp úr þegar þú kallaðir Lallana stálbita. Myndi sennilega frekar lýsa honum sem frauðplasti eftir síðustu ár. En djöfulli góður er hann með boltann!

      2
  4. Sá ekki allann leikinn en vá, gaman að þessum leik þó að andstæðingarnir fengu færi þá fengum við fleiri. Milner var algjör höfðingi þarna og lallana með. Miðverðirnir okkar virkuðu á köflum frekar stirðir eða annarshugar, kannski hefði Hollendingurinn ungi átt að vera þarna. Þessir ungu strákar glöddu alla, já Ellott 16 þetta er rán um hábjartann daginn. Nöfnin á varamannabekknum glöddu líka, bætir við traustið sem þeir fengu að engir “kallar” voru á bekknum. Gleymdi næstum, vörslunar, móttökur á boltann, heitir Kellegher, kannski setja það í minnið. Brewster kannski að reyna spila einsog Bobby en spennustigið hefur sjálfsagt haft ýmislegt að segja um frammistöðuna. Takk fyrir mig.

    2
  5. Strákarnir stóðu sig flestir vel – góð frammistaða hjá svona pollum felst að mínu mati fyrst og fremst í að koðna ekki niður í leiknum. Sumir stóðu sig m.a.s. mjög vel eins og t.d. Elliot, Hoever og Kelleher.

    Milner alltaf frábær og ekki hægt að hugsa sér betri fyrirmynd á vellinum. Lovren var klassískur Lovren, átti nokkur augnablik þar sem hann leit illa út en var algjör kóngur þess á milli.

    Keita, Lallana, Gomez og Ox voru ekki styrkja tilkall sitt til byrjunarliðssætis fannst mér. Sérstaklega finnst mér það leiðinlegt með Lalla – hann hefur alltaf verið í miklum metum hjá mér – bitið virðist vera farið úr honum. Hinir á tossalistanum eiga enn fína möguleika á að vinna sig tilbaka aftur.

    Vonandi höldum við áfram að keyra með liðið samsett svona í þessari keppni, úr því við komumst áfram.

    2
  6. Ýmindið ykkur fyrir ungu strákana að hafa Milner þarna eins og klett með þeim. Fagmaður í alla staði og gefur 200% í allt skiptir ekki máli hvort það er á móti stærstu liðum eða minni spámönnum en MK Dons þeir spiluðu vel og komu þarna til að spila fótbolta og áttu sín færi og það ber að virða.

    Elliot var að heilla mig lang mest og þvílíkir taktar sem þessi ungi leikmaður sýndi var frábært að fylgjast með ég tel hann eigi fullt erindi í að vera backup í aðaliðið það góður virðist hann vera og algjörlega óhræddur að láta vaða 2svar í slánna er ekkert nema óheppni hæfileikarnir eru þarna nú þegar!

    3
  7. það voru leikmenn í kringum byrjunarlið og strákar úr unglingaragademiunni sem unnu þennan leik. Mér sýnist ekkert annað í stöðunni í næsta leik en gera það sama jafnvel þó leikurinn sé gegn Arsenal. Fyrir mér var það gríðarlega mikilvægt að getað hvílt allt byrjunarliðið fyrir næsta leik í deildinni gegn Sheffield United. Vikuhvíld hefur gríðarlegt ígildi í þessari erfiðu deild þar sem leikjaálagið er þegar orðið allt of mikið. Vonandi dugar svipuð liðsuppstilling gegn Arsenal vegna þess að svona bikarleikir geta skipt máli fyrir leikmenn að komast í almennilegt form og fyrir stráka úr unglingadeildinni að sýna að þeir séu verðugir að spila fyrir aðalliðið.

    4
  8. Frábær sigur hjá okkar B-liði! Við megum vera mjög stoltir og ánægðir með liðið okkar.

    Engin spurning um að Harvey Elliot er svakalegt efni, vonandi mun hann halda fókus og ná næsta stigi sem atvinnumaður en það er klárt að hann er á réttum stað til að slíkt getur gerst.

    Að sama skapi fer dálítið í taugarnar á mér þegar tala um Keita og Lallana eins og að þeir séu að missa af lestinni. Fótboltaheimurinn er bara orðinn svo rosalega harður og hraður að það er ekkert hægt að ætlast til þess að allir séu alltaf í toppformi og meiðslalausir. Ef þeir komast á skrið þá erum við að fá gríðarlega styrkingu í hópinn okkar, vonum bara að það sé að fara að gerast núna í vetur. Þeir gætu verið okkar styrking þegar líður á tímabilið.

    6
    • Alveg sammála. Ferill Keita hefur ekki verið sá besti hjá LFC út af meiðslum, en ef hann nær sér upp úr þeim fáum við vonandi að sjá hvers vegna Klopp lagði svo mikla áherslu á að fá hann. Lallana var svo einn besti leikmaður deildarinnar fyrir 5 árum. Líklega verður hann í varahlutverki en samt mikilvægur í tiltölulega þunnum hóp. Sé báða þessa koma inn í random leik og gera gæfumun þegar líður á leiktíð. Höfum trú á öllum okkar leikmönnum – og fram til sigurs.

      3
  9. Ég bara bíð eftir upphitun, er hún ekki á leiðinni? takk fyrir frábæra síðu!

Liðið gegn MK Dons

Sheffield United – Liverpool (upphitun)