Opnunarleikur kvennaliðsins gegn Reading

Núna kl. 13 að íslenskum tíma hefst fyrsti leikur tímabilsins hjá stelpunum okkar. Leikurinn fer fram á heimavelli, þ.e. á Prenton Park. Liðið hefur verið tilkynnt og lítur svona út:

Bekkur: Kitching, Purfield, Kearns, Hodson, Babajide, Linnett

Afar ánægjulegt að sjá Jesse Clarke aftur í byrjunarliðinu eftir meiðsli sem héldu henni frá vellinum seinnihluta síðasta tímabils. Þá verður athyglisvert að sjá nýju leikmennina, en þær byrja allar inná.

Reading verða klárlega erfiðir andstæðingar, enda er þetta lið sem endaði í efri hluta deildarinnar á síðasta tímabili. Leikir liðanna voru þó jafnir og okkar konur voru síst lakari aðilinn, töpuðu vissulega fyrri leiknum 0-1, en gerðu 2-2 jafntefli í þeim síðari, og svo áttust liðin við í bikarnum þar sem venjulegum leiktíma lauk með jafntefli en okkar konur unnu í vítaspyrnukeppni. Það má því reikna með að allt verði í járnum í dag.

Vert að minna á að það er hægt að horfa frítt á leikinn, ýmist í gegnum app sem heitir The FA Player og er fáanlegt fyrir iOS og Android, en einnig með því að fara hingað:

https://faplayer.thefa.com/home/womens-super-league

Í báðum tilfellum þarf þó að búa til aðgang hjá FA, og það borgar sig klára það áður en leikur hefst.

Tveir leikir fóru fram í gær, Bristol og Brighton gerðu 0-0 jafntefli, en sá leikur sem fékk meiri athygli var derby leikur milli City og United. Sá leikur fór 1-0 fyrir City með marki frá fyrrum Liverpool leikmanninum Caroline Weir. Þar var gamla aðsóknarmetið slegið all rækilega, en rúmlega 31 þúsund manns mættu á leikinn. N.b. þá var gamla metið í kringum 5 þúsund, og það var sett í vor. Það er nú óvíst að við eigum eftir að sjá þessar tölur á Prenton Park núna á eftir, en það kæmi ekki á óvart að sjá fleiri áhorfendur en voru að jafnaði á heimaleikjum liðsins á síðasta tímabili.

Við uppfærum svo færsluna að leik loknum með úrslitum, en minnum á umræðuna bæði í athugasemdum við færsluna sem og undir #kopis myllumerkinu á Twitter.


Leik lokið með sigri Reading, 0-1. Það var að sjálfsögðu Fara Williams sem skoraði sigurmarkið með óverjandi skoti úr aukaspyrnu um 5 mínútum fyrir leikhlé. Vicky skipti síðan þeim öllum sóknarmönnunum inná í seinni hluta síðari hálfleiks, fyrst Babajide, þá Ashley Hodson, og að lokum Kirsty Linnett. Engri þeirra tókst að finna netmöskvana, þó svo að Babajide hafi nú verið ansi nálægt því með góðu skoti frá vítateigshorninu sem fór rétt framhjá.

Anke Preuss varði mjög vel a.m.k. í tvígang, þar af á fyrstu 10 sekúndunum, en annars vil ég tilnefna Niamh Charles sem mann leiksins, en hún var sívinnandi á miðjunni og átti a.m.k. tvö góð upphlaup upp vinstri kantinn, í báðum tilfellum gaf hún stórhættulegar fyrirgjafir fyrir markið en í hvorugt skiptið voru sóknarmennirnir okkar á réttum stað.

Semsagt, ekki úrslitin sem við óskuðum eftir, en klár bæting frá 5-0 tapinu í fyrsta leik í fyrra.

Ein athugasemd

  1. Gaman að sjá skýrslur frá kvenna liðinu líka hér. Vel gert

    2

Afhverju er Liverpool svona stórt á Íslandi?

Sigurvegari ágústmánaðar í fantasy deild Kop.is