Kvennalið Liverpool – nýtt tímabil að hefjast


Efsta röð frá vinstri: Jesse Clarke, Ashley Hodson, Leighanne Robe, Anke Preuss, Fran Kitching, Kirsty Linnett, Niahm Charles, Rhiannon Roberts.
Miðröð frá vinstri: Melissa Lawley, Missy Bo Kearns, Jade Bailey, Rinsola Babajide
Neðsta röð frá vinstri: Christie Murray, Courtney Sweetman-Kirk, Niahm Fahey, Vicky Jepson, Sophie Bradley-Auckland, Jemma Purfield, Amy Rodgers, Becky Jane

Nú styttist óðum í fyrsta leik kvennaliðs Liverpool, en hann fer fram um næstu helgi, nánar tiltekið þann 8. september.

Okkar konur hafa ekki setið auðum höndum yfir sumarið, og það hafa orðið nokkrar breytingar á hópnum, en þó sem betur fer ekki jafn margar og fyrir ári síðan! Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:

  • Leandra Little var leyst frá samningi. Óhætt að segja að tilraunin með þennan fyrirliða liðsins hafi ekki gengið upp. Svipað gildir um Jasmine Matthews og Yana Daniels, en þær voru líka leystar frá samningi. Engar af þessum leikmönnum spiluðu neitt aðalhlutverk á síðasta tímabili.
  • Laura Coombs er sömuleiðis farin frá félaginu. Nú var hún með mikilvægari leikmönnum liðsins á miðjunni á síðasta tímabili, og gekk til liðs við City í sumar. Það er því ekki víst að þessi breyting sé eitthvað sem Vicky hafi viljað, en það verður líklega að koma í ljós hvaða áhrif þessi vistaskipti munu hafa. Veltur aðeins á því hversu mikið hún mun fá að spila hjá þeim bláklæddu. Laura er 28 ára svo aldurinn ætti ekki að vera lykilatriði í þessum gjörningi.
  • Fyrsti leikmaðurinn sem bættist við hópinn var Becky Jane, en hún er 27 ára varnarmaður sem spilaði fyrir Reading síðustu 8 ár.
  • Þá kom Melissa Lawley í hópinn. Hún er 25 ára miðjumaður/sóknarmaður sem kemur frá City, var þar frá 2016 – 2019 og spilaði 22 leiki á þeim tíma. Hún var nýverið kölluð í landsliðshóp Englendinga vegna vináttuleikja sem liðið mun spila í vikunni.
  • Að lokum var samið við Jade Bailey. Hún verður 24 ára í lok árs og spilar ýmist sem varnarmaður eða sem varnarsinnaður miðjumaður. Jade var á mála hjá Chelsea síðustu 4 ár en þar af var hún á láni hjá Reading síðasta árið á meðan hún var að ná sér af slæmum liðbandameiðslum. Hún hefur leikið með U17 og U20 landsliðum Englands.
  • Svo má ekki gleyma akademíunni, en Missy Bo Kearns fékk sínar fyrstu mínútur með aðalliðinu í mars á síðasta tímabili, og hefur nú verið tekin formlega inn í aðalliðshópinn. Hún er uppalin hjá klúbbnum, og þær Vicky hafa unnið saman frá því að Kearns byrjaði að æfa með klúbbnum 8 ára. Þá hefur undirritaður ekki fengið það að fullu staðfest, en ég hef lúmskan grun um að hún sé skyld manni að nafni Jamie Carragher.
  • Að lokum var svo samið við fyrirliðann Sophie Bradley-Auckland upp á nýtt, og þá fengu markverðirnir okkar, þær Anke Preuss og Fran Kitching báðar nýja samninga í sumar. Jú og Niahm Fahey var gerð að varafyrirliða.

Af öllu framansögðu þá verður nú að teljast að liðið sé sterkara í upphafi þessarar leiktíðar heldur en fyrir ári síðan, þó ekki nema vegna þess að nú er liðið búið að spila saman í heilt ár. Vissulega verður samt að koma í ljós hvaða áhrif það mun hafa að hafa misst Coombs.

Í sumar var svo tekið upp á þeirri nýbreytni að bæði karla- og kvennaliðin fóru saman í æfingabúðir í Bandaríkjunum. Ferðalag liðanna var það sama, en liðin æfðu nú samt á sitt hvorum stöðunum. Leikirnir sem stelpurnar léku voru líka bara tveir. En þetta var afar gleðileg nýbreytni, og sýnir vonandi aukna áherslu á kvennaliðið hjá klúbbnum okkar.

Í framhaldi af því er svo komin upp umræða um að kvennaliðið leiki e.t.v. leik á Anfield í vetur. Á síðasta ári var heimavöllur Tranmere Rovers – Prenton Park – heimavöllur liðsins, en sá völlur er tæknilega séð ekki í Liverpool heldur í Birkenhead (sem er vissulega skammt frá Liverpool). Aðsóknin á leikina á síðasta ári var vissulega ekki slík að það væri ástæða til að opna allan Anfield leikvanginn, áhorfendatölur voru að jafnaði mældar í hundruðum og í besta falli í einhverjum þúsundum. En í kjölfar allrar umræðunnar um kvennaboltann eftir HM í sumar, þar sem leikir enska kvennalandsliðsins drógu jafnvel fleiri áhorfendur að sjónvarpinu heldur en úrslitaleikurinn í meistaradeildinni í vor, þá er kannski ekki loku fyrir það skotið að þessar tölur stefni upp á við. Það var víst gerð tilraun með að láta kvennaliðið spila á Anfield fyrir nokkrum árum, þá var eingöngu hleypt inn í Kop stúkuna, og ku víst hafa tekist vel. Það verður gaman að sjá hvort af verður í vetur. A.m.k. væri undirritaður alveg til í að skella sér á tvennutilboð einhverntímann í vetur: sjá leik með karlaliðinu og svo annan með kvennaliðinu, helst báða á Anfield.

Það mun þó sem betur fer ekki verða nauðsynlegt að ferðast til Bretlands til að sjá leiki liðsins á næsta tímabili, því það nýmæli verður tekið upp að það verður hægt að horfa á alla leikina í FAWSL deildinni í vetur í gegnum sérstakt app sem var einmitt sett í loftið í dag. Appið er ókeypis og allir leikirnir þar inni verða opnir. Þetta er að sjálfsögðu mikil og jákvæð breyting, þar sem þessir leikir voru almennt ekki sýndir á síðasta tímabili, nema þá stöku leikur í beinni á Facebook, en nú er hægt að ganga að þeim vísum þar inni.

Semsagt, fyrsti leikurinn verður næstkomandi laugardagsunnudag þegar okkar konur mæta Reading. Við munum að sjálfsögðu hita upp fyrir þann leik, og vonandi mun sá leikur hjálpa aðeins til við fráhvarfseinkennin vegna landsleikjahlésins hjá strákunum.

4 Comments

  1. Það er næstkomandi sunnudaginn 8. september, en ekki laugadaginn

    1
  2. Takk fyrir þetta Daníel. Þetta er skemmtileg viðbót við síðuna.

    4

Burnley 0 – 3 Liverpool

Gullkastið – Ekkert að óttast á Turf Moor