Burnley 0 – 3 Liverpool

Mörkin

0-1 Wood (sjálfsmark, en samt eiginlega Trent) 33. mín
0-2 Mané 37. mín
0-3 Firmino 80. mín

Gangur leiksins

Það þurfti rétt um hálftíma til að fá fyrsta markið í leikinn, fram að því hafði leikurinn svosem verið sæmilega fjörlegur. Burnley fengu eitt færi sem lyktaði mjög af rangstöðu, Salah átti skot sem fór í stöngina (mögulega með viðkomu á litlaputtanum hjá Pope), og svona eitt og annað fleira. En í eitt skiptið sem okkar menn unnu boltann og sóttu hratt á Burnley þá léku Trent og Hendo aðeins sín á milli hægra megin áður en Trent lét vaða með fyrirgjöf á markið. Boltinn fór aðeins í öxlina á Wood, nógu mikið til að breyta um stefnu og fara úr því að vera fyrirgjöf yfir í að vera fallegt skot sem fór beint í vinkilinn. Formlega séð verður markið skráð sem sjálfsmark, en Trent á að sjálfsögðu allan heiðurinn af markinu og naut fagnaðarlátanna skuldlaust.

Aðeins fjórum mínútum síðar töpuðu Burnley boltanum klaufalega beint í lappirnar á Firmino, hann sótti upp að markinu með Salah hægra megin við sig og Mané vinstra megin, endaði á að stinga boltanum á hárréttum tíma inn fyrir á Mané sem afgreiddi boltann örugglega í fjærhornið.

Seinni hálfleikur var svo ágætlega líflegur, en skilaði ekki marki fyrr en á 80. mínútu. Áður en að því kom komu alls konar hálffæri en fátt sem mun rata í sögubækurnar. Henderson varð fyrir hnjaski og var skipt út fyrir Ox nokkrum mínútum síðar. En það var semsagt um 10 mínútum fyrir leikslok að boltinn barst á Salah á hægri kantinum, hann var nálægt því að leika á varnarmanninn en spilaði svo boltanum inn að vítateigsboganum, þar kom Firmino aðvífandi og var í betra skotfæri en Salah. Brassinn lét vaða og skoraði þar með sitt 50. mark í deildinni, og er fyrsti Brasilíumaðurinn til að ná þeim áfanga (sá næsti í röðinni er Philippe nokkur Coutinho). Nokkrum mínútum síðar var svo Mané og Firmino skipt útaf fyrir Origi og Shaqiri, Shaq fékk þar með sínar fyrstu mínútur í deildinni á þessu tímabili. Mané var eitthvað fúll þegar hann settist á bekkinn, svo virtist vera að hann væri ósáttur við að Salah hafi ekki gefið á hann skömmu áður þegar Mané var í upplögðu færi. Rétt undir lokin komust svo Burnley í hættulega sókn þegar maður hafði á tilfinningunni að okkar menn væru bara komnir í þann gír að sigla þessu örugglega heim, en þar spilaði frammistaða Adrian aðeins inn í. Meira um það á eftir. En leiknum lauk semsagt með frekar öruggum sigri, og liðið því eitt á toppi deildarinnar þegar við siglum inn í landsleikjahlé.

Umræðan

Nokkrar staðreyndir áður en lengra er haldið:

  • Eins og áður kom fram er Firmino fyrsti Brasilíumaðurinn til að skora 50 mörk í úrvalsdeildinni.
  • Liðið er nú komið með 13 sigra í röð í deildinni, en svo löng hefur sigurgangan aldrei verið áður.
  • Liðið er komið í þann gír að setja hvert metið á fætur öðru, en fyrir skömmu náðist sá áfangi hjá Klopp að ná í 300. stigið með liðinu, og það gerði hann í 146 leikjum, en engum öðrum knattspyrnustjóra hefur tekist að ná þeim árangri í þetta fáum leikjum.
  • Adrian náði að halda hreinu í fyrsta skipti með liðinu.
  • Salah hefur nú átt þátt í 100 mörkum fyrir Liverpool: 74 mörk og 26 stoðsendingar.
  • Liðið er búið að vinna 4 fyrstu leikina í deildinni, annað árið í röð. Slíkt hefur ekki gerst áður.
  • Liðið er eitt efst í deildinni, og verður það a.m.k. þangað til 14. september þegar næstu leikir fara fram.

Þetta var annars solid liðsframmistaða, og margir sem léku vel. Gefum samt Roberto Firmino nafnbótina maður leiksins, hann lagði upp mark Mané og skoraði svo síðasta markið. Enginn leikmaður átti neitt sérstaklega slæma frammistöðu.

Það verður sjálfsagt eitthvað rætt um meinta græðgi hjá Salah varðandi það að gefa boltann ef annar leikmaður er í betra færi en hann. Þetta gerðist a.m.k. tvisvar í leiknum í dag, annars vegar þegar Firmino var í betra færi, og í seinna skiptið þegar Mané hefði átt að fá boltann. Sjálfsagt verður þetta rætt innan hópsins. Það er ansi fín lína sem þarf að finna í þessum efnum, menn verða ekki markakóngar tvö ár í röð með því að vera ekki pínku gráðugir. Þar að auki má líka alveg finna dæmi þar sem Salah lætur boltann fara til annarra leikmanna sem eru í betra færi en hann, t.d. eins og bara í þriðja markinu í dag. Það má samt reikna með einhverri umræðu um þetta á næstunni.

Við skulum líka aðeins ræða frammistöðu Adrian í markinu. Það er greinilegt að liðið veit að hann er ekki jafn góður í löppunum eins og Alisson, reyndar alveg fjarri því, og því er boltanum minna spilað til baka. Þegar Adrian sendir boltann langt fram er það alveg hipsum haps hvort hann lendir innan vallar eða utan, og hvort hann lendir hjá okkar mönnum eða andstæðingunum. Þetta færi sem Burnley fékk í lokin kom einmitt upp úr því að menn voru að spila boltanum örugglega sín á milli, boltinn barst til Adrian sem þrumaði honum upp á hægri kantinn og þar tapaðist boltinn, Burnley komst í sókn og voru ögn óheppnir að ná ekki að skora. Það er því ljóst að við munum fagna því þegar Alisson verður leikfær aftur, en á sama tíma er líka alveg ljós að við viljum ekki að hann verði kallaður til of snemma. Á meðan liðið er að vinna leikina sína skiptir þetta ekki öllu máli.

Að lokum er líka áhugavert að skoða stöðu hinna liðanna í hinu svokallaða “topp 6”. Það er áhugavert að í augnablikinu er Arsenal eina liðið fyrir utan Liverpool og City af þessum topp 6 liðum sem er raunverulega í topp 6. Og ef við skoðum hvaða lið eru taplaus í deildinni í fyrstu fjórum leikjunum, þá eru það Liverpool, City, Leicester og Wolves. Það borgar sig alveg örugglega að gefa þessu nokkra leiki til viðbótar, og taka stöðuna eftir 10-15 leiki, en mögulega erum við að sjá breytingu á þessum “hefðbundna” topp 6 lista.

Hvað er framundan?

Jú það er blessað landsleikjahléið. Flestir okkar leikmanna eru einmitt landsliðsmenn og verða því á ferð og flugi. Það eru einhverjar undantekningar á því eins og gengur, t.d. er talað um að Shaqiri ætli ekki að gefa kost á sér í landsliðið í þetta skiptið og ætli að vinna á Melwood að því að komast betur í takt við leik Liverpool. Munum líka að hann var jú eitthvað meiddur í upphafi tímabilsins. Þetta verður svo áhugavert landsleikjahlé hjá Trent sem var valinn í enska landsliðið, á meðan Kyle Walker situr heima.

Það verður síðan heimaleikur á móti Newcastle sem bíður okkar manna, á meðan City þurfa að sækja Teemu Pukki og félaga í Norwich heim. Krossum fingur og vonum að Finninn fljúgandi sökkvi þeim bláklæddu, í kjölfar þess að okkar menn haldi áfram að hirða 3 stig á Anfield. Og í framhaldi af því tekur við ansi þétt leikjaprógram hjá okkar mönnum, og alveg klárt mál að við munum sjá talsverða róteringu á liðinu. En njótum þess að vera á toppnum, og vonum að það vari sem lengst!

26 Comments

  1. Síðarihálfleikurinn okkar var virkilega flottur við einfaldlega lokuðum þessum leik á eins fagmannelgan hátt eins og hægt er. Þeir fengu varla færi(eitt alveg í blálokinn) á meðan að við réðum mjög auðveldlega við háloftaboltana og náðum að stjórna leiknum mun betur.

    Eina sem setur gráan(ekki svartan) svip á þennan leik er pirringur Mane sem var tekinn af velli. Eftir svona leik þá vill maður að umræðan sé á okkar flotta lið og 13 sigurleiki í röð í Enskuúrvaldsdeildinni en við vitum að það mun núna snúast mikið um umræðuna um Mane.
    Mane er keppnismaður sem maður fýlar í botn og hann má vera pirraður en hann þarf að passa að sína þetta ekki svona. Hann var líklega pirraður yfir því að Salah sem hefði átt að gefa nokkrum sinnum fyrr í leiknum til samherja sinna fékk að hanga inná á meðan að hann var tekinn af velli en maður hefur sjaldan séð mann eins pirraðan í stöðuni 0-3 og 5 mín eftir af leiknum.

    Jæja nóg um þetta 0-3 útisigur í sterkum útivelli.
    Sóknarmenn okkar voru sprækir, Matip/Dijk unnu háloftabaráttuna sem var góður grunnur að sigri, Adrian átti fínan leik en fyrir mér var leikmaður leiksins. Fabinho sem ég held að hafi sett evrópumet í að vinna boltan og vera alltaf til taks í að berjast um síðariboltan ásamt því að skila boltanum vel frá sér.

    YNWA – 4 leikir og 4 sigrar = 12 stig og allir sáttir (Mane verður svo sáttur eftir kalda sturtu)

    14
  2. Fullt hús stiga!

    Þvílíkt lið – TAA er kominn til að vera sem hægri bakvörður nr.1 á Englandi! Fremstu 3 hjá okkur eru náttúrulega á einhverju öðru leveli an aðrir leikmenn í deildinni!

    Það er alveg sama hvaða hluti liðsins er skoðaður – liðið er það sterkt að það verður í toppbaráttu út leiktíðina nema einhver freak meiðsli herji á það!

    Vörnin, jebb.. erum með besta leikmann í Evrópu (heimi) þar og Matip heldur bara áfram frá síðustu leiktíð og kemur upp völlinn með Messi sendingarnar sínar! Bakverðirnir eru world class og halda áfram að opna liðin sem við spilum á móti!

    Á miðjunni erum við með mann sem okkur hefur vantað svo lengi í Fabinio – það sem þessi maður hentar inn í liðið okkar að brjóta upp sóknir andstæðinga! Hendo var góður og vann allan leikinn en ég held að “the unsung hero” í þessum leik sé Gini Wijnaldum! Hann var ekki síðri en Fabinio í að brjóa upp sóknir – sendingarnar frábærar og hættulegur fram á við!

    Það er í raun ótrúlegt hvað liðið heldur áfram þar sem frá var horfið síðasta vor – þetta verður geggjað tímabil og ég get ekki beðið eftir að taka þátt í því með liðinu okkar!! YNWA!!!

    16
  3. Það er nú samt þannig, að framherji sem er ekki eigingjarn, er engin framherji. Sem betur fer er Sane þannig líka, þess vegna erum við með bestu framherja heimsins, að viðbættum þeim snillingi sem Firminio er og mynda fab 3. En liðið varí heild að spila frábæran bolta, bara eðal solid.

    YNWA

    5
  4. Þetta lið okkar er frábært, ekki einn veikur hlekkur og bekkurinn aldrei verið sterkari. Ég bara get ekki beðið eftir næsta leik þvílík unun að horfa liðið spila.

    3
  5. Skýrslan komin inn. Ræðið endilega. Mun Adrian verða sterkari í löppunum? Er topp 6 að leysast upp? Er Mané í fýlu út í Salah? Hver stal kökunni úr krúsinni í gær?

    6
  6. Sælir félagar

    Það er einfaldlega þannig að ekkert lið er betra en okkar lið. Það má ef til vill segja að M. City sé hugsanlega jafn gott sem lið og ef til vill með betri einstaklinga einhversstaðar í einhverjum stöðum. Ég er bara svo vitlaus að ég kem ekki auga á það. Okkar lið er hærra á töflunni og hefur ekki tapað stigi það sem af er leiktíð. Það táknar einfaldlega að Liverpool ER besta lið á Englandi eins og er enda Evrópumeistari meistaraliða.

    Mané má ekki láta svona eins og dekraður krakki. Menn eins og hann, Salah og Firmino eru auðvitað ekki “alltaf” tilbúnir að gefa boltann ef þeir eru hugsanlega í færi við markið. Þetta hefur skeð hjá þeim öllum og svoleiðis er það bara. Maður man eftir umræðu um það að Mané vildi ekki gefa boltann á Salah á sínum tíma en það var bara málið að hann vildi skora og svona “skordýr” eins og Mané og Salah eiga bara ekki auðvelt með að gefa boltann ef þeir telja sig eiga möguleika á að skora.

    Það er nú þannig

    YNWA

    10
    • Reyndar er Firmino sennilega óeigingjarnasti framherjinn sem ég hef séð, en vissulega þurfa framherjar yfirleitt að vera eigingjarnir svo þeir skori.
      Mane hlýtur að jafna sig, hann er alveg eins og Salah hvað þetta varðar.

      9
  7. Teytið heldur áfram hjá okkar ástsæla.
    Þetta mark hjá TAA verður einungis toppað með viðbrögðum Herr Klopp þegar hann frétti það í viðtali eftir leikinn að markið hefði verið skráð sem sjálfsmark, algerlega stórkostleg viðbrögð.
    https://www.youtube.com/watch?v=_bB0tSv08Hg

    Hef engar áhyggjur viðbrögðum Mané eftir “eigingirni” Salah. Þetta verður tæklað fyrir luktum dyrum og mun skila sér í enn sterkari samvinnu trúi ég.

    Y.N.W.A.

    5
  8. Það tvennt sem stendur uppúr eftir þessar 4 fyrstu umferðir.
    1 lesa commentin hér á síðu Kop, jákvæðni gleði og ánægja í fyrirrúmi.
    2 lesa commentin inni á síðu Rauðu djöflana………….,@#kr)&’bgkd,d,.

    YNWA.

    13
    • Ég gjörsamlega dýrka liðið okkar! Stórkostlegt, í alla staði!

      6
  9. Sæl og blessuð.

    Illu heilli missti ég af leik dagisns en hefur séð hápunktana og er afar sáttur. Þótt Adrian vinur okkar sé augljóslega ekki að tikka í öll boxin þá hefur hann sannarlega mætt, séð og sigrað í ljósi þess hversu skyndilega hann var kominn í fremstu víglínu. Að halda hreinu í dag er mikill áfangi og mér finnst viðeigandi að rifja upp frægan vegg sem nafni hans Hadrianus reisti á Bretlandi á fyrstu öld. Hver veit nema að Adrian okkar haldi uppteknum hætti og þá getum við farið að tala um hann og vörnina sem ,,Vegg Adrians” væri það ekki huggulegt. En auðvitað er sjálfur Alison klassa ofar og aldrei þessu vant þá kemur landsleikjahlé til með að minnka áhrif þess að missa lykilmann úr liðinu. Hann verður vonandi kominn á fullt fyrir næsta alvöruleik. Hnjúkaselið telst nú vart til slíkra leikja.

    En geggjað að vera með fullt hús stiga og slá öll þessi flottu met í leiðinni. Tak fyrir mig!

    kvLS

    4
  10. Þvílíkt lið unnunn að horfa á smá kjánaskapur í mane en það reddast mér finnst salah einmitt hafa verið að bæta sig í að gefa boltann undir lok síðustu leiktíðar vildi hann nánast ekki gera það

    1
  11. Laporte meiddist á hné hjá City og gæti verið lengi frá. Fyrir mitt leyti þá er hann sennilega næst besti varnarmaður deildarinnar.

    2
    • Allt að því fullkominn dagur í gær í þeim enska. Reyndar er bara grín að sjá hvernig Brighton mættu olíuríkinu. Menn verða amk að hafa trú á verkefninu þegar skórnir eru reimaðir.

      Manhju halda áfram að gleðja mann en þeir náðu í sterkt utivallarstig gegn soton í keppninni um 4.sætið.

      Nenni ekki einu sinni að pæla í þessu Mo/Mané máli. Bobby tæklaði þetta stórkostlega þegar hann gekk a milli þeirra eftir leikinn. Hann er greinilega ekki bara besti fótboltaleikmaður heimsins heldur er hann líka mikill húmoristi.

      það er geggjuð tilfinning að getað horft á arsenal-spurs og séð þá rembast við staurinn á meðan við trónum á toppnum eins og kóngar, sem við erum.

      6
  12. Mér finnst liðið enn ekki vera að spila sinn besta bolta en trónir samt á toppnum. Öruggur sigur og þetta stefnir í tveggja liða einvígi aftur eins og staðan er … en það getur margt gerst enn.

    Varðandi Mané og Salah, þá hef ég litlar áhyggjur. Í deildinni það sem af er ári (4 leikir) er Salah með 3 mörk og tvær stoðsendingar og Mané með 2 mörk og eina stoðsendingu. Í fyrra voru þeir með jafnmörg mörk (22) yfir tímabilið, en Salah með 8 stoðsendingar og Mané 1 … — Firmino er með tvö mörk og tvær stoðsendingar, meðan hann var með 12 mörk og 6 stoðsendingar í fyrra. Smá pirringur ( 🙂 ) yfir græðgi annars er eðlilegur … er þaggi?

    4
  13. Sælir félagar

    “Þau eru súr” sagði refurinn þegar hann náði ekki í berin. Rio Ferdinand fannst berin anzi súr þegar Virgillinn fékk verðlaun sem sá besti og það fleiri en ein. Það er dapurlegt þegar menn hafa ekki stærra hjarta en þetta og öfundin teymir þá til eymdar. Paul Scholes sagði í gær að MU þyrfti 4 glugga til að komast á sama stað og hinir klúbbarnir í hinum sex efstu. Það þýðir að það eru amk. 2 ár eftir af eymd MU manna. Leiðinlegt.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
    • ótrúlega skrítin nálgun hjá Ríó þó vissulega megi hann hafa sínar skoðanir en ég veit það ekki. Stundum finnst mér hálfkjánalegt þegar 4-5 fyrrum leikmenn sitja í stúdíó-inu og allir að verja liðin sem þeir spiluðu með. Að sama skapi er yndislegt að heyra Neville segja að það sé vont að horfa á Liverpool því þeir eru svo sterkir. Svo hlítur það að vera vont líka fyrir hann að horfa á gamla liðið sitt, nema bara út af annarri ástæðu.

      Hlakka til næsta hlaðvarps!

      1
  14. Hvað ætli sé stór hluti íslenskra aðdáenda enskra knattspyrnuliða sem heldur með Liverpool?? Sumir jú halda með tveimur liðum t.d. held ég líka með Chester sem áður hét Chester City.

    4

Byrjunarliðið gegn Burnley á Turf Moor

Kvennalið Liverpool – nýtt tímabil að hefjast