Útileikur á Turf Moor

Það er ekki langt ferðalagið á morgun þegar evrópumeistararnir skjótast rétt norðaustur til Burnley og mæta Sean Dyche og hans mönnum í Burnley. Burnley menn hafa byrjað tímabilið ágætlega en þeir hófu tímabilið á 3-0 sigri gegn Southampton, töpuðu svo naumlega gegn Arsenal 2-1 og í síðustu umferð gerðu þeir 1-1 jafntefli við Wolves þar sem Úlfarnir skoruðu jöfnunarmark úr vítaspyurnu á 97. mínútu. Að lokum spiluðu þeir í deildarbikarnum í miðri viku þar sem þeir mættu Sunderland með róterað lið og þrátt fyrir að hafa komist yfir í leiknum steinlágu þeir 3-1 og mæta því með mikið að sanna á morgun.

Burnley spila klassískan enskan risaeðlubolta þar sem lagt er upp með að koma boltanum á stóru sterku sóknarmennina Barnes og Wood í 4-4-2 leikkerfi en hann gæti fórnað einum sóknarmanni fyrir auka miðjumann sem Dyche gerði iðulega gegn stórliðunum þó hann hafi haldið sig við 4-4-2 á undanförnum mánuðum sama hverjum hann er að mæta. Ef hann fórnar sóknarmanni verður Barnes líklegast einn frammi enda í hrikalegu formi því aðeins Segrio Aguero (16) og Sadio Mané (15) hafa skorað fleiri úrvalsdeildarmörk á almannaksárinu en Barnes (13). Skori Barnes í leiknum verður hann fyrsti leikmaður í sögu Burnley til að skora í fimm úrvalsdeildarleikjum í röð. Þó maður óttist yfirleitt að mæta svona liðum sem eru mjög skipulögð í varnarleiknum sínum og vita hvernig þau vilja sækja og hvenær hefur Burnley gengið mjög illa gegn stórliðunum en þeir hafa tapað fjórtán af átján heimaleikjum sínum gegn topp sex liðunum síðan þeir komust upp í úrvalsdeildina.

Í Burnley liðinu er lítið um fjarverur en Steven Defour og Robbie Brady verða frá en þeir hafa ekkert verið með á tímabilinu. Svo er óvissa í kringum Jóhann Berg Guðmundsson sem meiddist í síðasta deildarleik en fyrstu fréttir voru á þá veg að hann myndi líklega getað verið á bekknum í þessum leik en landsliðsþjálfari okkar Erik Hamrén tilkynnti í morgun að hann yrði ekki valinn í landsliðið sem spilar aðra helgi og yrði frá í nokkrar vikur. Skelfilegar fréttir fyrir okkur sem íslendinga en fínar fréttir fyrir Liverpool því Jóhann hefur verið hættulegur í leikjum sínum gegn félaginu og hefur átt það til að skora í leikjum liðanna.

Það verður einnig gaman að sjá hvernig Burnley höndlar þennan leik enda sjaldan þar sem Liverpool fær meiri undirbúningstíma en andstæðingurinn nema þegar andstæðingurinn er einnig eitt af topp liðunum. Burnley hefur verið með hálfan hugan við deildarbikarleikinn og því fengið minni tíma til að einblína á Liverpool. Dyche skaust svo suður eftir leikinn gegn Sunderland og sást á Reading tónlistahátíðinni en hann hafði mest gaman af 21 Pilots fyrir þá sem hafa áhuga á tónlistarsmekk Dyche.

Ég tel að hann haldi sig við leikkerfið sitt líkt og hann gerði gegn gegn Arsenal á þessu tímabili og í seinni leikjunum gegn Liverpool og City í fyrra og reiði á að Barnes og Wood geti ollið ursla í sókninni en nýti meiðsli Jóhanns Bergs og setji Jeff Hendick á kantinn sem er að upplagi miðjumaður og gæti því hjálpað miðsvæðinu betur.

Hægt er að ýta á myndina til að sjá hana skýrar.

Þá að okkar mönnum en Liverpool liðið er á ótrúlegri siglingu en við höfum unnið síðustu tólf deildarleiki, eitthvað sem hefur ekki gerst síðan í október 1990 undir Kenny Dalglish og félagið aldrei unnið þrettán leiki í röð og því getur liðið brotið blað í sögu félagsins um helgina. Það væri risastórt statement fyrir þetta Liverpool lið að vera með flesta sigurleiki í röð í sögu hjá liði sem hefur verið jafn dóminerandi og Liverpool hefur verið.

Hjá okkar mönnum eru Naby Keita og Nathaniel Clyne frá vegna meiðsla auk Alisson Becker en Klopp vildi meina að það væri enn óvíst hvenær hann kæmi tilbaka og hann væri enn ekki búinn að fá áætlaðan dag þannig Alisson myndi fá þann tíma til að jafna sig sem hann þyrfti. Í fjarveru hans hefur Adrian verið í markinu sem er ágætis markmaður en vissulega langt frá þeim gæðum sem við höfum fengið að kynnast síðasta árið. Það sást augljóslega milli leikjanna gegn Southampton og Arsenal að vörnin treystir Adrian lítið fyrir boltanum hvort sem það er vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í ofurbikarnum eða að hann sé bara ekki nógu góður þá fækkaði sendingum tilbaka á markmanninn hjá Liverpool úr 16 niður í 6 milli þessara tveggja leikja og megum við því búast við því að varnarmenn Liverpool haldi áfram að leitast eftir að koma boltanum til hliðar eða fram völlinn næstu vikurnar, nema þetta hafi hreinlega verið vegna meiðslanna.

Í fyrsta sinn í langan tíma virðumst við vera komnir með “fyrstu ellefu”, það er byrjunarlið sem virðist vera það lið sem Klopp grípur í þegar hann fer í erfiða leiki. Burnley á útivelli er vissulega skrýtinn erfiður leikur því það þarf sköpun en einnig þarf mikla þolinmæði og því býst ég við að hann fari í það lið sem við höfum séð mest núna í vor, þó gæti ég séð að annaðhvort Chamberlain eða Milner fái að byrja einmitt vegna þessara eiginleika – þolinmæði og sköpunargáfa.

Skori Bobby Firmino í leiknum þá verður hann fyrsti brasilíumaðurinn til að skora fimmtíu mörk í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði þrjú mörk í leikjunum tveimur gegn Burnley í fyrra.

Ég býst við hrikalega erfiðum leik sem mun ráðast í seinni hálfleik en þar hefur Klopp verið að skína undan farið og ég ætla að skjóta á 2-0 sigur þar sem fyrra markið kemur stuttu eftir hálfleikinn og Firmino mun komast í sín fimmtíu mörk í leiknum.

Minni á umræðu á Facebook síðu Kop.is þar sem hefur verið mikið líf undanfarna daga!

4 Comments

  1. þetta verður engin ganga í garðinum leikur(walk in the park), enda held ég að Klopp og okkar strákar komi í þennan leik með það í huga, en enn og aftur er gæðamunurinn of mikill fyrir gestgjafana, 2-0 fyrir okkur.

    YNWA

    2
  2. einhvernveginn hefur maður ekki áhyggjur af neinum leikjum, liverpool er bara allt of gott fyrir önnur lið, verði markaveisla, vinnum þetta 5:2

    2
  3. Sælir félagar

    Allir leikir eru erfiðir og það þarf að vinna fyrir sigrunum í þeim öllum. Það hefir gengið eftir hjá okkar mönnum og engin ástæða til að halda að það gerist ekki núna gegn einu lakasta liði deildarinnar. En slys gerast og það getur orðið erfitt að brjóta niður 11 manna varnarmúr og þurfa um leið að verjast hættulegum skyndisókum.

    Liverpool liðið er með besta varnarmann í Evrópu og líklega í heiminum. Vörn liðsins með hann í hjarta hennar ætti að ráða við nokkrar skyndisóknir og ekki síst þegar allir sóknarmenn andstæðinga Liverpool hræðast Virgilinn mjög. Það er líka full ástæða til því hann er afburðamaður. Sóknin ætti að öllu eðlilegu að skora 2 til 5 mörk eftir því hvað snemma fyrsta markið kemur.

    Ég spái því 0 – 4 í miklum baráttuleik framan af og mörkin koma þannig að liðið skora 1 í fyrri en 3 í seinni þegar varnarmenn Burnley verða gjörsamlega búnir á því og gefa amk. 1 víti. Sala með 2, Mané 1 og Firmino 1. Ef 5. markið kemur inn þá verður það Virgillinn sem stangar hann inn í tilefni nýjustu titlanna.

    Það er nú þannig

    YNWA

    1
  4. Fínasta upphitun takk en *olli ursla?! Þessi ambaga er ein sú gressilegasta.

Van Dijk og Alisson bestir í Evrópu

Byrjunarliðið gegn Burnley á Turf Moor