Liverpool 3 – 1 Arsenal

Mörkin

1-0 Matip (41. mín)
2-0 Salah (víti) (49. mín)
3-0 Salah (58. mín)
3-1 Torreira (85. mín)

Gangur leiksins

Það var talsvert varnarsinnaðra Arsenal lið sem mætti á Anfield en við höfum átt að venjast hingað til. Vissulega hefur það ekki gefist neitt svakalega vel hjá þeim að liggja mjög framarlega, en nú átti svo sannarlega að pakka í vörn. Og það má segja þeim til varnar að það gekk nokkuð vel megnið af fyrri hálfleik. Liverpool var mun meira með boltann, léku boltanum af þolinmæði sín á milli, oft gekk boltinn milli miðju og hægri kants en svo var svissað yfir á Robertson á vinstri. Ekki var mikið um færi fyrstu mínúturnar, en fyrsta raunverulega hættan kom eftir rúmlega 10 mínútna leik þegar Adrian fór út úr teignum í bolta sem van Dijk hefði líklega náð, en hreinsaði ekki lengra en inn á miðjan eigin vallarhelming þar sem Aubameyang var staddur, hann vippaði boltanum yfir Adrian og vörnina en sem betur fer rétt framhjá. Þarna fór nú aðeins um okkur stuðningsmenn enda vorum við að vonast til að svona lagað væri úr sögunni með nýjum markvörðum. Næsta færi kom á 20. mínútu þegar Mané átti gott skot af vítateig eftir að pressa hinna rauðklæddu höfðu leitt til sendingar frá Arsenal manni á hornfána beint á Mané, en Leno varði vel. Nokkru síðar komst Pépe einn í gegn eftir að Henderson hafði misst boltann á vallarhelmingi Arsenal, en þarna sýndi Adrian hvað í honum býr og varði vel. Þegar langt var liðið á hálfleikinn fékk Liverpool hornspyrnu sem þurfti að bíða talsvert lengi, því VAR vildi skoða eitthvað atvik sem hefði hugsanlega getað leitt til þess að einhver leikmaður hefði átt að fá rautt spjald. Ekkert kom út úr því. Hins vegar uppskáru okkar menn mark á 41. mínútu, þegar Trent tók hornspyrnu og sendi boltann beint á pönnuna á Matip sem stangaði boltann í netið. 1-0 var staðan í hálfleik, nokkuð sanngjarnt miðað við hvernig leikurinn hafði spilast, en Arsenal menn hefðu vissulega getað fengið aðeins meira út úr þessum hálfleik með smá heppni.

Síðari hálfleikur var svo varla hafinn þegar næsta mark kom. Okkar menn í sókn, Trent renndi á Firmino sem sá Salah lausan í teignum og sendi á hann. David Luiz sá að hann var búinn að missa Salah fram hjá sér og togaði því hressilega í treyjuna. Salah fór ekki niður, en þarna var greinilega verið að hindra hann í augljósu marktækifæri, og því dæmdi dómarinn réttilega víti, og Luiz fékk gult. Mönnum ber ekki saman um hvort Luiz hefði hugsanlega átt að fá rautt spjald, en af því varð ekki. Salah tók vítið sjálfur og skaut boltanum örugglega í vinstri vinkilinn, og sendi Leno í vitlaust horn. Liverpool var svo meira með boltann eftir þetta þrátt fyrir að maður hefði haldið að mögulega myndu Arsenal menn sækja meira, enda þurftu þeir nú að reyna að minnka muninn. En á 58. mínútu má segja að Salah hafi gert út um leikinn. Hann fékk boltann frá Fabinho, var með Luiz í bakinu en lék meistaralega á hann (mögulega hefði Luiz brotið á honum ef hann hefði ekki verið kominn með gult spjald á bakið), hljóp inn á teig með boltann og skoraði örugglega framhjá Leno. Að mörgu leyti klassískt Salah mark, og þarna sýndi hann enn og aftur hversu góður knattspyrnumaður hann er. Eftir þetta hægðist aðeins á leiknum, Klopp gaf Milner og Ox mínútur, en á 85. mínútu fengu Arsenal menn smá líflínu þegar Torreira skoraði mark eftir að Trent hafði hreinsað frá hornfána beint í lappirnar á Arsenal manni fyrir utan teig, og það leiddi af sér sókn sem endaði með marki. Það hefði verið afskaplega gaman að ná einum leik þar sem liðið heldur hreinu, en á meðan liðið er að vinna þá er kannski lítið hægt að kvarta. Lallana kom inná strax eftir markið til að þétta miðjuna, og fleiri mörk voru ekki skoruð.

Umræðan

Það er svosem ekki stórmál að velja mann leiksins, en Salah fær þann titil í dag. Ekki það að liðið í heild sinni var að leika mjög vel, og í raun var út á lítið að setja hjá neinum nema þetta úthlaup hjá Adrian og svo þessi hreinsun frá Trent. Þeir voru þó ekki að spila neitt illa að öðru leyti. Verstur var dagurinn auðvitað hjá honum David okkar Luiz.

Við vorum líklega að sjá okkar menn spila sinn besta leik það sem af er leiktíð. Þessi vika sem liðið fékk í hvíld og undirbúning var greinilega vel þegin, og var notuð til hins ítrasta.

Liðið er núna á toppnum í deildinni, og verður þar sama hvernig leikirnir fara sem eftir á að spila í þessari umferð. Liðið er jafnframt búið að vinna 12 leiki í röð í deildinni, 3 á þessari leiktíð og 9 á þeirri síðustu. Nú og svo er liðið taplaust í 42 leikjum í deildinni á Anfield. Semsagt: þetta lið okkar er frábært. Alveg örugglega besta liðið sem Liverpool hefur átt núna í seinni tíð, og ef það tekst nú að krækja í stóru dolluna í vor þá verður sjálfsagt talað um þetta lið sem eitt albesta Liverpool lið allra tíma.

Okkar menn hafa ekki enn haldið hreinu það sem af er þessari leiktíð. Við vonum að það standi til bóta, og vissulega myndi maður halda að líkurnar séu meiri þegar Alisson kemur til baka, en það er bara ekkert alveg víst hvenær það er. Eitthvað er slúðrað um að það verði e.t.v. ekki fyrr en um mánaðarmótin september/október. Adrian er alveg góður markvörður, en hann er aldrei eins öruggur og Alisson. Ég er a.m.k. viss um að okkur myndi öllum líða betur með Alisson á milli stanganna og Adrian á bekknum, frekar en með Adrian inná og Kelleher næsta mann inn.

Framundan

Næst er það útileikur gegn Burnley eftir viku. Alls ekki auðvelt verkefni, en vonandi nær Klopp og teymi hans að undirbúa okkar menn jafn vel fyrir þann leik eins og þennan. Svo tekur við landsleikjahlé, en strax þar á eftir heimsækir liðið Newcastle.

Svo er bara að vona að Harry Wilson og félagar hirði einhver stig af City á morgun. Ég bið ekki um meira í bili.

34 Comments

  1. Frábær leikur, amk. í svona 80 mín. Svo var þessu bara siglt í höfn. Matip mjög góður og hefur spilað frábærlega meira og minna það sem af er ári. Enginn slakur í dag. Þetta er bara frábært lið! On we go…

    9
  2. Þetta lið okkar er stórkostlegt! Geggjaður sigur og fallegur.

    8
  3. Frábært leikur hjá okkur í dag. Við vorum miklu betri en þeir í þessum leik en þeir fengu samt færi til að skora eins og þeir fá í öllum leikjum.
    Sókarnlínan okkar sýndu öllum að hún er sú besta, miðjumenn okkar voru eins og veðhlaupahestar út um allan vörn og vörnin virkaði nokkuð traust.

    YNWA – Maður leiksins Salah en allir áttu góðan leik.

    9
  4. Mjög góð frammistaða, en pínu brothættir tilbaka. Samt sigur og ég vona að í næsta leik hödum við hreinu. Salah á allt öðru tilverustigi en brassinn krullhærði. fullt hús stiga eftir 3 leiki, og vonandi verður það líka eftir 4 leiki. Ég vona að Harry okkar Wilson geri okkur greiða á morgun 😉

    6
    • Frábær sigur en mér fannst Henderson virka mjög þreyttur síðustu 20 mínúturnar og hefði viljað sjá shaq fyrir hann inn en hvað veit sófa þjálfarinn ég öruggur sigur og við á toppnum get ekki kvartað ?

      7
    • Mikið rétt en það er bannað að hæðast að öðrum liðum á þessari síðu ?

  5. Þetta lið okkar er bara hrikalega flott, takk fyrir mig LIVERPOOL frábær leikur.

    6
  6. Frábær frammistaða og mögnuð byrjun á tímabili eftir mun styttri undirbúning en önnur topplið. Liðið á enn talsvert í að vera komið á fullt skrið og ef Alisson verður ekki þeim mun lengur frá er ég mjög bjartsýnn. Og Guð hjálpi andstæðingum okkar ef Mo er að komast í 2017-18 formið.

    8
  7. Geggjað. Mér fannst ótrúlegt að horfa á þennan leik. Frá fyrstu mínútu var hvílík pressa og hélt hún út í 80 mín. Gaman að sjá Pepe sem var vissulega sterklega orðaður við okkur í sumar. Flottur leikmaður en staðan er bara þannig í dag að við þurfum ekki svona leikmann, þeir eru nú þegar til staðar. Svo þurfti hann að díla við varnartröllið okkir, Virgil. Ekki gaman myndi ég halda 🙂

    6
  8. Ánægður með úrslit dagsins, við á toppnum og ekkert fær breytt því í þessari umferð. Efsta sætið með flest stig og besta markamun og Utd gætu hæglega endað í sjötta sæti eftir þrjár umferðir. Það er eitthvað við það þegar þeir tapa… ég veit – sorry.

    3
  9. Frábær frammistaða. Góður dagur í boltanum, mín lið bæði í Premier og Championship taka 3-1 sigra. Geggjað!

    1
  10. Sæl og blessuð.

    Þetta var flottur sigur. Ég leyfði mér að vera bjartsýnn fyrir leik og það kom líka á daginn að Arsenal átti ekki roð í okkur. Nokkur atriði:

    1. Leikplan Arsenal: Þeir reyndu að fylla teiginn hjá sér af fótum, rössum og jafnvel hausum sem þvældust lengi vel fyrir skotum og samspili. Svo lúðruðu þeir honum fram til hins öskufljóta Pepe og Aubeymang. Vissulega hefði sú atlaga gengið 100% upp á sínum tíma, gegn Benteke/Balotelli og co í sókninni, Allen/Lallana og co. á miðjunni að ógleymdri gömlu varnarlínunni okkar. En í dag þýðir ekkert svona. Þótt nokkrum sinnum hafi skapast hætta þá var leikurinn alltaf í öruggum höndum og sigurinn var skrifaður í skýin.

    2. Pepe: Gaman að fylgjast með Pepe. Þetta er frábær íþróttamaður – svakalegur kraftur í honum, hugmyndaauðgi og örugglega gott dna. En maður sá undir eins af hverju hann er ekki í fagurrauðum búningi okkar liðs. Hann vantar leikreynslu í PL og eins og liðið okkar er skipað þá er bara ekkert slíkt i boði. Þetta væru í mesta lagi fimmtán mínútur á leik og hann væri allt tímabilið að átta sig á hlutunum. Klaufagangurinn í honum var stundum broslegur og lengst af var hann í vasanum á varnartröllum okkar.

    3. Matip snýr aftur: Hann var kóngurinn á vellinum í gær. Hann hefur eins og aðrir leikmenn frelsi til að flæða um völlinn og nýtir það óspart. Markið var kraftmikið – ekki á hvers manns færi að rísa upp úr þvögu sterkra leikmanna og hitta svona vel með föstum skalla.

    4. Salah minnir á sig. Vítið var glæsilegt og hitt markið var vörumerki hans. Hraður, sterkur og hnitmiðaður. Megi hann halda áfram á þessari braut!

    5. Hendó gaf allt í leikinn! Hann var frábær fyrri hlutann. Sumar sendingarnar voru augnayndi fann opin svæði og treysti fótfráum samherjum að þeytast á eftir boltanum. Þetta skapaði oft mikla hættu og upp úr stuttum spilalotum sem hann stýrði líka hefðu á öðrum degi getað orðið tvö-þrjú mörk. Hann var svo gersamlega búinn á því í lokin!

    6. Efst í deildinni. Þurfum bara að vinna rest og þá er þetta öruggt!

    18
  11. Frábær sigur og besti leikur Liverpool á tímabilinu. Nú er bara að halda toppsætinu til loka tímabils ?

    5
  12. Við eigum líklega besta spyrnumann Englands í Harry Wilson. Þvílíkt mark hjá stráknum á móti City. Hann hlýtur að koma aftur og verða hluti af liðinu okkar á næsta áratug.

    15
  13. Sturlað mark hjá þessum unga og efnilega strák. Vonandi kemur hann til okkar þegar hann er búinn að fá góðan spilatíma hjá Bournemouth.

    3
  14. Sælir félagar

    Ég missti af leiknum í gær en samkvæmt öllu sem ég hefi lesið var liðið okkar fábært og sigurinn sanngjarn. Ég hlakka til að horfa á hann í LFCTV þegar fram líða stundir.

    Það er nú þannig

    YNWA

    1
  15. Ég fór að velta fyrir mér en hvenær tapaði Liverpool seinast á Anfield ?

    • Fyrir tveimur og 133 dögum… Alvöru heimavöllur með alvöru liði, þjálfara og stuðningsmönnum.

      3
    • Síðasta tapið (í öllum keppnum) var væntanlega gegn Chelsea í deildarbikarnum síðasta haust, en síðasta tapið í deildinni var vorið 2017 gegn Crystal Palace, þar sem vinur vors og blóma Christian Benteke skoraði bæði mörkin.

      1
    • Tókst ekki að koma því af stað af tæknilegum orsökum. Reynum aftur annað kvöld.

    • Blessaður Enski, það stóð til að hafa Facebook live hjá Kop.is í kvöld klukkan 21 en það var ekki vegna tæknimàla. Það er Facebook síða sem heitir Kop.is og þar má finna ýmis upplýsingar.

Liðið gegn Arsenal

Vikulokin – Eina liðið með fullt hús