Simon Mignolet til Club Brugge

Strax eftir leikinn gegn Man City fór Simon Mignolet á Luton fluvöll og flaug heim til Belgíu þar sem hann fer í læknisskoðun á morgun áður en hann gengur frá félagsskipum og fimm ára samningi við Club Brugge.

Þetta eru auðvitað ákveðin tímamót enda Mignolet einn af sjö markmönnum sem hafa eignað sér markmannstöðuna hjá Liverpool (fyrir alvöru) á þessari öld. (Með Grobbelaar, James, Westerveld, Dudek, Reina og Alisson). Hann spilaði 204 leiki samtals í öllum keppnum og þar af 155 leiki í deildinni. Það verður seint sagt að mikill söknuður verði af Mignolet í markinu hjá Liverpool en á móti verður að gefa honum að hann var aðalmarkmaður Liverpool í gegnum nokkur erfið ár varnarlega.

Livrpool var reyndar ansi nálægt því að vinna deildina á hans fyrsta tímabili en það hafðist ekki þar sem liðið lak 50 mörkum. Mignolet var vissulega partur af vandamálinu varnarlega en honum er líka vorkun af varnarleiknum fyrir framan sig sem innihélt hetjur eins og Skrtel, Agger, Sakho, Toure, Flanagan, Johnson, Enrique og að sjálfsögðu Cissokho. Allt leikmenn sem eru fyrir löngu farnir frá Liverpool.

Mignolet var aðalmarkmaður Liverpool næstu tvö tímabilin á eftir en á hans fjórða tímabili var fyrst reynt fyrir alvöru að skipta honum út úr markinu. Hann vann þann slag við Karius og fékk hálft tímabil til viðbótar en eftir þegar Karius tók af honum stöðuna var ljóst að dagar hans hjá Liverpool væru senn á enda. Hann vildi satt að segja fara fyrir ári síðan.

Mignolet var einfaldlega aldrei nógu góður markmaður fyrir Liverpool og tilheyrði hópi sem hefur verið að kveðja Liverpool undanfarin ár (af sömu ástæðu). Fram að úrslitaleiknum í Kiev var Karius alveg að réttlæta þessa skiptingu í markinu og eftir innkomu Alisson höfum við loksins fengið að sjá fyrir alvöru hvað heimsklassa markmaður skiptir miklu máli.

Það vantar ekki að Mignolet átti auðvitað sín moment á þessum sex árum sínum hjá Liverpool (þó það nú væri) hann varði slatta af vítum sem dæmi og er langt í frá alslæmur markmaður. Utanvallar virkar hann líka toppmaður og allur af vilja gerður til að standa sig. Það bara skiptir svo litlu máli innanvallar, líklega er það kostur af hafa kolklikkaðan markmann aftast á vellinum sem horfir á vítateiginn sem sitt konungsríki.

Ef Mignolet kveður (gangi þessi skipti í gegn) er Liverpool búið að kveðja Moreno, Sturridge og Mignolet, 3 af 5 sem ég myndi perónulega telja að félagið þyrfti að losa sig við með Lallana og Clyne. Enginn þeirra var að standa undir launapakkanum undanfarin ár og allir tilheyra tíma þar sem Liverpool var bara klassa neðar en núverandi árgangur. Það er sannarlega ekki söknuður af þeim, ekki þegar Edwards og Klopp eru hægt og rólega að kaupa menn í staðin eða taka þá upp úr akademíunni. Þeirra track record á leikmannamarkaðnum saman er svo miklu betra en Liverpool náði t.d. á tíma Rodgers. Það er reyndar alls ekkert auðvelt að kaupa markmann fyrir Mignolet enda enginn að fara hagga Alisson í markinu.

Með Brottför Mignolet eru aðeins sjö leikmenn eftir sem komu til félagsins (í aðalliðið) þegar Rodgers var stjóri félagsins og fjórir af þeim (Firmino, Milner, Gomez og Clyne) voru aðeins þrjá mánuði undir hans stjórn. Hinir þrír eru Origi, Lallana og Lovren. Það er aðeins einn eftir frá tíma Kenny Dalglish með Liverpool, Jordan Henderson.

6 Comments

  1. Var engin pæling hjá Klopp í dag að láta hann inná fyrir vítaspyrnukeppnina ? (áttum eina skiptingu eftir).

    2
  2. Sæl og blessuð.

    Það rann upp fyrir manni einhvern tímann eftir fíaskóið vorið 2014 að liðið myndi aldrei vinna neitt með Mignó í markinu. Hann er bara ekki af þeim gæðum, á að vera í minni liðum sem fagna því að falla ekki niður um deild. Veit ekki hvað menn voru að hugsa þegar hann var ráðinn – betri markmaður hefði gerbreytt sögunni, þótt auðvitað hafi vörnin ekki verið betri en hún var.

    Karius var svo ákveðinn harmleikur – handleggsbraut sig á undirbúningstímanum, einmitt þegar maður hélt að við værum að fara að kveðja þann belgíska. Það var því lítil bót í Kariusi og tími Mignos varð lengri en efni stóðu til. Nú er hann farinn og ég tek undir með höfundi að Clyne mætti sannarlega kveðja líka (hélt það væri bara formsatriði eftir að hann fór á láni s.l. vetur). Er á hinn bóginn pínu vongóður með Lallana, sem er þrátt fyrir allt, gæðagaur – svo fremi hann haldist heill. Mér fannst hann koma vel út úr leik dagsins, hraður og úthugsaður. Origi var líka bara góður, fannst mér, með nokkrum undantekningum.

    Hvað um það. Nú er tækifærið að ala upp yngri markmann sem unir sér vel á bekknum og lærir um leið af Alison. Ekkert nema gott um það að segja.

    1
  3. Tjahh….

    Get tekið undir margt sem er sagt. Alison er mörgum klössum fyrir ofan Mignolet í gæðum og Liverpool hefur uppfærst töluvert í gæðum með tilkomu Alison en ég held að Mignolet hafi verið fínn valkostur nr 2.

    Nú veit ég ekki hvernig varaskífa nr 3 er og spyr mig hvort hann sé nægjanlega góður til að spila í úrvalsdeild ef babb kemur í bátinn. Annað hvort verður að kaupa markvörð eða treysta valkost nr 3.. Mér finnst það fullmikil áhætta að treysta á það að Alison haldist heill út tímabilið.

    1
  4. Kalla Karius heim úr láni og vona að hann sé búinn að jafna sig eftir síðasta leik sem hann spilaði fyrir okkur og krossa putta um það að hann þurfi aldrei að stíga inna á völlinn nema til að lyfta ensku dollunni til himins í vor.

    1
  5. Við þökkum Mignolet fyir veruna á Anfield. Sæmilegasti markvörður en ekki í toppklassa. Hefði samt viljað fá amk tvöfalt hærra verð fyrir kauða. Megi honum vegna sem best á nýjum vígstöðvum. Liverpool þarf að hafa góðan varamarkvörð því Allison getur meiðst eins og aðrir og hvað gera bændur þá ef enginn er á bekknum til að leysa hann af? Milner kannski?
    Ein dolla farin í hundana þetta tímabilið. Ef satt skal segja þá er ég að verða svolítið þreyttur á þessu með 2. sætið. Ef ég tel rétt á mínum fingrum þá var þetta í áttunda skiptið á sl 10 árum sem nr 2 er á afrekalista okkar góða klúbbs. Tveir sigrar á sama tíma, staðan 2-8, fulllangt gengið fyrir minn smekk, punktur.

    5
  6. Ég hugsa að launin hafi einhver áhrif á verðmiðann. Mignolet er sagður þéna um 80þ. pund á viku og væntanlega að fara að taka á sig talsverða launalækkun.

    FSG verða hins vegar ánægðir. Þeir hafa nú lækkað launakostnaðinn um ca 250þ. pund á viku og væru líklega búnir að lækka hann enn meira ef Clyne hefði ekki meiðst.

    Ég hugsa að nú sé horft í að losa Lovren þar sem hann er væntanlega að þéna of mikið fyrir að vera fjórði kostur.

    1

Tap í vítaspyrnukeppni

Adrian nálgast Liverpool