Upphitun: Liverpool vs. Tottenham í Madrid

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar 2019

Frá því að flautað var til leiksloka á Anfield kvöldið 7. maí þá hafa Púlarar beðið óþreyjufullir eftir fyrsta degi nýs mánaðar til þess að geta háð lokaorustuna um Evrópumeistaratitilinn árið 2019. Meðan Barcelona brynnir músum marserar Rauði herinn að meistarabikar segir máltækið og messíasinn Messi mun missa af meistarartign í Madrid. C’est la vie.

Vettvangur er tryggður á nýuppgerðum heimavelli Atletico Madrid og þó að allt of fáum Púlurum sé tryggður miði þá erum við handvissir um að kórréttir söngvar munu hljóma um allar spænskar Kop-agrundir! Allez, allez, allez!

Þetta er okkar tími. Þetta er okkar stund. Hitum upp!

Mótherjinn

Þrautaleið Tottenham Hotspur í úrslitaleikinn voru gerð góð skil í úttekt gærdagsins hjá meistara Hannesi og því óþarft að tvítaka það. Við þá ágætu ádrepu má þó bæta einvígi okkar við Spurs í deildinni á síðasta tímabili og jafnvel fyrri viðureignum þar á undan. Á vetri líðandi mættum við Lundúna-drengjunum hvítklæddu í tvígang og í bæði skiptin var niðurstaðan 2-1 fyrir rauðliða. Hörkuleikir þar sem að ekki var auðséð með úrslitin fyrr en seint og síðar meir.

Horft aftur í tímann þá höfum við haft ansi gott tak á þeim og í raun er 1-4 tapið á Wembley í október 2017 alger undantekning frekar en regla. Frá árinu 2012 höfum við bara tapað þeim eina leik fyrir Spurs í 14 leikjum spiluðum og sú tölfræði gefur vonandi góð fyrirheit fyrir stórleikinn á spænskri grundu.

Stóra spurningin sem kastað var fram eftir að Lucas Moura skoraði á síðustu andartökunum í Amsterdam var hvort að biblíudrengurinn Kane yrði Able (leikfær). Læknavísindum hefur fleygt fram síðan að blauti undrasvampurinn læknaði öll fótboltasár og svo virðist sem að Harry prins þeirra Spurs-manna verði takkaskóklæddur á leikdegi. Um það hafa sparkspekingar og tölfræðingar deilt hvort að liðið spili betur með eða án Citizen Kane en þeirri stóru og háspekilegu spurningu verður hugsanlega svarað í þessum leik.

Myndin tengist upphituninni ekki með beinum hætti

Innkoma óskasonarins Kane hefur þau áhrif að eitthvað þarf undan að láta og allar líkur á að Son þurfi frá að hverfa til bekkjarsetu. Lúxus sem Tottenham geta leyft sér og hættumerki fyrir Liverpool ef sú innáskipting á sér stað. Liðið er þó vel skólað, skipulagt og skilar sínu á vinnuskýrslunni þannig að þar mun skóinn seint kreppa.

Horfandi á valkosti señor Pochettino fyrir þennan leik þá ætti uppstillingin að líta svona út:

Liðsuppstilling Tottenham í leikkerfinu 4-3-1-2

Liverpool

Hvað er hægt að segja um okkar frábæra lið sem ekki hefur verið sagt nú þegar? Einstök 97 stig í deildarkeppni vetrarins og bara fjármálasvindli frá því að vera krýndir verðugir Englandsmeistarar. Komnir í úrslit Meistaradeildarinnar eftir mikla þrautagöngu líkt og Ólafur Haukur fjallar listilega um. Þetta magnaða Liverpool-lið á verðug verðlaun skilið en fótbolti er grimmur leikur sem útdeilir ekki ávallt eftir sanngirni.

Heilbrigðisstéttir hafa útfyllt læknisvottorðin og svo virðist sem að við höfum allt okkar sterkasta byrjunarlið leikfært ásamt vel völdum varamannabekk. Það gerir val þjálfarans að sumu leyti erfiðara en slíkur lúxus er velkominn eftir síðustu tvo úrslitaleiki Evrópukeppna þar sem meiðsli og úrvinda hefur spilað stóran þátt í lokatölum leiksins. Helsta ákvarðanataka verður með miðjumennina en undirritaður hallast að því að fyrirliðinn Henderson, hinn fantaflotti Fabinho og markamaskínan Wijnaldum hefji leikinn en maraþon-maðurinn Milner bíði taktískrar innáskiptingar til að skora úr vítaspyrnu. Matip hefur verið frábær á árinu 2019 og hann ætti því að vera sjálfvalinn í varnarlínuna.

Kop-kanslarinn Klopp er því líklegur til að skila inn leikskýrslu í takt við þetta fyrir úrslitaleikinn:

Liðsuppstilling Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Fyrir áhugasama þá er stórfínn blaðamannafundur meistara Klopp, Matip og Wijnaldum verðugt áheyrnarefni til að fylla tómu stundirnar fram að upphafssparki:

 

Spakra manna spádómur

Þetta verður alvöru leikur á milli tveggja öflugra, vel mannaðra og vel þjálfaðra liða. Okkar von og viska segir að Liverpool verði hænufetinu framar og síðustu úrslit þessara liða gefa vísbendingu um tæpan sigur. Ég mun gera spádóm eðal-Strandamannsins Þórarins Magnússonar að mínum eigin en hefð er fyrir því að hann spái Liverpool 2-1 sigri í öllum leikjum allra keppna. Tölfræðilega er sú spaka spá ansi líkleg og vonandi verður það niðurstaðan fyrir okkar blóðrauða Liverpool-lið.

Undirritaður á ekki auðsótt með að mæta til Madrid að þessu sinni en mun láta sér Liverpool-Rauða Ljónið duga til áhorfs. Þar verður Eiðistorgið gernýtt með stórum skjám til að taka á móti mannfögnuðnum og vonandi til að fagna frækilegum sigri að auki. Allt í góðfúslegu boði Egils Gull að sjálfsögðu sem vonandi færir okkur Evrópu-Gull heim í hús.

Come on you REDS!

You’ll Never Walk Alone

JFT96

6 Comments

  1. Erum tveir félagar staddir í Osló og erum að spá hvar við ættum að horfa á leikinn. Er einhver staður sem þið mælið með að fara á, með góða skjái, stemmingu og slíkt?

    1
  2. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæra upphitun og hún eykur spennustigið enn ef það er hægt. Það er ekki gott að segja hvernig maður sefur í nótt en vonandi sefur maður bara þeim mun betur aðra nótt sæll og glaður í sinni eftir 3 – 1 sigur okkar manna. það er nú þannig

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  3. Hvar ætla menn að horfa á þennann leik, Heima, Spot, Keiluhöllin, Ölver, eða annarstaðar???

    1
  4. Kæru Kopverjar

    Ég er að vinna í Húsafelli á morgun og kemst með engu móti í bæinn að horfa á leikinn. Þó það væri gaman að horfa á hann í staffa bústaðnum væri þeim mun skemmtilegra að gera það umkringdur púllurum, er einhver sem verður í bústað um helgina og ætlar að horfa á leikinn, sem hefði pláss fyrir einn auka?

    Ynwa
    Ingimar

    2
  5. Tek hattinn ofan fyrir Kain og Abel innslaginu Meistari. Frussaði aðeins yfir skjáinn sem er bara hollt ?

    4
  6. I’m not sure where you’re getting your information, but good topic. I needs to spend some time learning much more or understanding more. Thanks for wonderful info I was looking for this info for my mission.

Leið Tottenham til Madrídar

Gullkastið – Forsætisráðherra á lokaorðið