Áfram gakk, Newcastle á laugardag

Það er ágætt að það sé stutt í næsta leik eftir vonbrigði miðvikudagsins, en eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og leita hefnda…

Í þetta skiptið er komið að síðasta útileik tímabilsins þegar Liverpool sækir Newcastle heim á St James’ Park í seinni parts leik laugardagsins. Liverpool mætir sært til leiks eftir úrslit miðvikudagsins og getur enn og aftur sett pressuna yfir á City sem á að þessu sinni mánudagsleik þegar Leicester liðið hans Brendan Rodgers heimsækir meistarana.

Sagan og formið

Liverpool hefur ekki unnið á St James’ Park undir stjórn Klopp, töpuðu þar 2-0 árið 2015 og gerðu svo 1-1 jafntefli á síðustu leiktíð. Það þarf að fara aftur til ársins 2013 til þess að finna síðasta sigur okkar manna á þessum velli. Hann var nokkuð góður, 6-0 sigur þar sem að meira að segja Borini komst á blað! Það er n.b. eini sigur okkar á þessum velli síðasta áratugin eða svo (Newcastle reyndar verið að hoppa á milli deilda og því færri leikir en ella).

Eftir tvo ósigra gegn Crystal Palace og Arsenal leit út fyrir að Newcastle gæti mögulega farið að dragast niður í alvöru fallbaráttu þá hefur liðið náð 7 stigum af síðustu 9 mögulegum með góðum sigrum gegn Leicester og Southampton og gerðu svo gott jafntefli við Brighton í 6 stiga leik um síðustu helgi. Drengirnir hans Rafa Benitez sitja því í 13 sæti deildarinnar með 42 stig, komnir yfir þessi 40 stig sem svo oft er miðað við og búnir að tryggja veru sína í deild þeirra bestu á næstu leiktíð (eiga þó eftir að tryggja sér nærveru Rafa áfram sem hefur náð ótrúlega mikið úr þessu liði).

Liverpool kemur einnig inn í þennan leik í nokkuð góðu formi. Liðið tapaði vissulega í vikunni gegn Barcelona en í deildinni þá hefur liðið unnið 7 leiki í röð (síðan í jafnteflinu gegn Everton) og hefur ekki tapað nema einum leik, ekki bara það sem af er árs heldur það sem af er tímabils.

Newcastle

Hjá heimamönnum eru svo gott sem allir heilir. Það var eitthvað talað um að Lascelles og Perez væru tæpir en þeir tóku víst þátt í æfingu í dag og eiga að vera klárir fyrir leikinn, Yedlin er þó enn tæpur. Perez auðvitað búinn að vera sjóðheitur undanfarið og skorað 5 mörk í síðustu 3 leikjum.

Það er ekki ólíklegt að Benitez stilli þessu svipað upp og síðustu 3-4 leiki, með Rondon á toppnum og Perez og mögulega Atsu þarna í kringum hann. Verði svo með Shelvey og Hayden á miðjunni.

Það hefur nú eitthvað verið skrifað um að Benitez muni eitthvað halda aftur af sér og sínum mönnum þar sem að Liverpool er að berjast um titilinn. Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja við svoleiðis skrifum. Newcastle er stór klúbbur, fullur af atvinnumönnum sem hafa nákvæmlega engin tengsl við Liverpool (bar Jonjo), að menn haldi að Benitez gangi inn í klefann í síðasta heimaleik tímabilisins og biðji leikmenn um að spila á hálfu tempói þar sem hann var stjóri Liverpool fyrir áratug er ofar mínum skilningi. Rafa er topp maður og klárlega stuðningsmaður Liverpool og með mikil tengsl við stuðningsmenn og borgina, hann mun samt sem áður mæta til þess að sækja 1-3 stig og enda tímabilið vel, það er alveg á hreinu.

Er auðvitað að renna svolítið blint í sjóinn en þetta gæti mögulega litið svona út:

Dubraka

Manquillo – Schar – Fernandez – Dummett – Yedlin

Pérez – Shelvey – Hayden – Ritchie

Rondon

 

Liverpool

Okkar menn eru nú í ágætis málum hvað meiðsli varðar. Keita meiddist auðvitað gegn Barcelona (Nárameiðsli) og mun að öllum líkindum ekki spila meira á leiktíðinni og Lallana er ennþá að jafna sig eftir enn ein meiðslin. Gomez, Ox og Firmino ættu allir að vera leikfærir þó að líklega sjáum við eingöngu þann síðastnefnda í byrjunarliðinu á morgun.

Ég ætla að skjóta á að Klopp geri 4-5 breytingar á liðinu frá því á miðvikudaginn. Trent komi inn í stað Gomez, Lovren í stað Matip, Firmino í stað Milner (Gini fari þá á miðjuna) og Henderson í stað Keita. Liðið verði þá á þessa leið:

Alisson

TAA – Lovren – Virgil – Robertson

Fabinho – Henderson – Gini

Salah – Firmino – Mané

Firmino, Lovren og Trent ættu að vera ferskir eftir að hafa hvílt að mestu í vikunni og ég bara sé ekki að þetta sé staður né stund til þess að hvíla aðra leikmenn eins og Mané, Salah eða Robertson.

 

Spá

Ég flakka svolítið á milli þess að vera bjartsýnn eða svartsýnn, þ.e. hvað deildina varðar – ekki beint þennan leik. Ég er á því að Liverpool sé bara orðið þannig lið í dag að það vinnur leiki sem þessa. Þetta lið hefur vaxið gríðarlega á síðustu tveimur árum og virðast höndla pressuna einstaklega vel. Ég ætla því að segja að okkar menn taki þetta, 0-2, með mörkum frá Salah og Firmino.

Í dag er glasið hálf fullt. Ég sé alveg smá vonarglætu í því að ef það er eitthvað lið sem getur meitt þetta Man City lið með hröðum sóknum þá er það Leicester. Vonin er veik, en hún er til staðar. Ég ætla að skjóta (vona) á að City taki aðra höndina af titlinum á mánudagskvöld þegar að Vardy tryggir Leicester stigið á Ethiad og setji upp rosalega lokaumferð um aðra helgi!

Vonbrigðin yrðu vissulega mikil og það er ákveðin hræðsla í gangi (hjá mér þar með talið) um að þetta Liverpool lið fari í gegnum þessa leiktíð án titils þrátt fyrir að vera líklega sterkasta Liverpool lið í einhver 30 ár hið minnsta. Hvernig sem þetta endar þá held ég að við sem stuðningsmenn eigum að reyna að njóta þess að eiga svona hriklalega gott fótboltalið til þess að horfa á. Það er svo stutt síðan að manni nánast kveið helgunum, það eru aðrir í því hlutverki þessa stundina.

 

YNWA

10 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Mun seint jafna mig á þessari Camp Nou viðureign. Meiðsli Keita settu allt úr skorðum að mínu mati. Strákurinn er bara ekki eins harður og maður hélt. Mikil vonbrigði þegar á allt er litið.

    Stefnir í epískar lokasennur en bjartsýnin sem dreif mig áfram hefur dofnað til allra muna. Skiptir samt máli að ná sigri í þessum leik, nokkuð sem er sannarlega ekki sjálfgefið. Hallast að því að hann róteri að vanda á miðju en haldi sókninni á sínum stað og TAA kemur í stað Gómezsins.

    Þeir verða lurkum lamdir þegar tímabilið er á enda en það er nægur tími til að sofa í gröfinni eins og Bjartur sagði í Sumarhúsum.

    3
  2. Ég er ekki svo viss um að Firmino byrji, þó svo hann hafi komið inná á miðvikudaginn. Held við gætum alveg séð Origi frammi eða mögulega Shaqiri. Vona samt að Firmino sé 100% leikfær og geti spilað allan leikinn, en yrði semsagt ekkert hissa ef hann byrjar á bekknum.

  3. Sammála þér Daníel, held hann spari Firmino, alla vega fram að hálfleik og setji hann þá inn á nema allt sé í goodie. Hef lengi verið smeykur fyrir þessum leik, hefur ekkert minnkað miðað við stöðuna. En auðvita er stór munur á getu þessara liða, en því miður telur það stundum svo takmarkað. Newcastle tók til að mynda City þarna, sem segjir okkur margt. það sem ég vona er að engin komi meiddur frá þessum leik, því ég trúi því að við eigum bullandi séns í Barca þó svo staðan sé eins og hún er, bendi bara á Roma í fyrra, og það verði dómari með viti, ekki einhver sem leyfir leikaraskap og árásir eins og í fyrri leiknum. Messi ætti t.d. að vera í banni fyrir beina árás á Fabinho.
    En leikurinn endar 0-1 í dag, verður strembinn en þeir eiga nóga orku þessir strákar okkar.

    YNWA

    2
    • Dómaraskandall. Við áttum 3 mörk í þessum leik. Heilladísir, dómari og snilldar leikaraskapur leikmanna barca sem ættu að fá Oscarsverðlaun fyrir gerðu út um leikinn. Endalust þras við dómara sem hefði aldrei átt að leyfa slíkt og gefa þessum leikmönnum bara gul spjöld. þeir nýttu sér þetta sem gaf Messi tækifæri til að stilla upp boltanum að vild. Þetta á ekki að leyfast í meistaradeil.

      2
  4. Útúrdúr: var Manquillo ekki eitt tímabil í Liverpool? Kom á sama tíma og Moreno.
    Rugl í mér?

    1
  5. Það verða óvænt úrslit í næstu leikjum bæði í Evrópukeppninni og um Englandsmeistara titil.

    3
    • Gott að dreima en þetta er búið, city rústar leicester á mánudag, Barcelona spilar leiðinlegan bolta á þriðjudaginn, Eiða tíma í allt og halda boltanum, sjá allir að það dæmi er búið, við tókum united á þetta, óþarfi að blekkja sjálfann sig, vorkenni þeim sem eiddu pening og keyptu miða á leikinn á þriðjudaginn.

  6. Það verður drullu erfitt fyrir liðið okkar að gíra sig í gang eftir síðasta leik, þetta tekur á líkamlega en ekki síður andlega.
    Ég held samt að við verðum tílbúnir í þennan slag en þetta verður hörkuleikur því að heimamenn eru skipulagðir og agaðir eins og alvöru Benitez liði.

    Spái því að við vinnum þetta samt 0-1 og verður það Salah með markið

    YNWA – já þetta er ólíklegt en við gefumst aldrei upp

    2
  7. Ein spurning.

    Er leikurinn korter í sex eða korter í sjö?
    Erum við ekki klst. á eftir Englandi núna?

    1

Gullkastið – Fari það í kolbölvað!

Liðið gegn Newcastle