Huddersfield annað kvöld

Annað kvöld hefst þriðja síðasta umferðin í deildinni og er það Liverpool og Huddersfield sem ríða á vaðið þegar þeir síðarnefndu heimsækja Anfield.

Ég vonaði svo sannarlega að þegar ég myndi rita þessa upphitun að þá gæti ég opnað hana á því að greina frá því að Liverpool væri í bílstjórasætinu eftir að Man City hefði tapað stigum gegn Man Utd en því miður er það ekki staðan. Liverpool er stigi á eftir Man City þegar liðin hafa leikið jafn marga leiki en Liverpool á tvo af þremur leikjum á undan Man City sem vonandi getur þá sett pressu á þá svo þeir misstígi sig eitthvað.

Byrjum á leiknum annað kvöld. Liverpool tekur á móti arfaslöku liði Huddersfield sem er löngu fallið úr deildinni og eru svo neðarlega á töflunni að þeir eru ættu eflaust að vera um miðja Championship deild. Frá því að leiktíðin var flautuð á þá má eiginlega segja að Huddersfield hafi bara fallið, þeir hafa verið afleitir í allan vetur og eru með 14 stig eftir 35 leiki sem er ansi, ansi, ansi, ansi lélegt. Þeir hafa skorað fæst mörk og fengið á sig næst flest.

Með fullri virðingu fyrir Huddersfield þá hef ég varla nennt að leggja einhverja leikmenn þarna á minnið. Lössl markvörður þeirra, Billing, Zanka, Mounie, Mooy, Kongolo, Durm. Þetta er rosalega dauft lið sem rétt bjargaði sér frá falli í fyrra, gerði lítið í sumar og skítfalla í ár. Það verða eflaust ekki margir leikmenn þarna eftir í Úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Held að það séu engin stór og áberandi meiðsli í hópnum hjá Huddersfield svo ég reikna með að þeir verði með flesta af sínum bestu mönnum þarna.

Það sem máli skiptir er Liverpool í þessum leik og ég held að það eina sem gæti hugsanlega truflað Liverpool í þessum leik væri það sjálft. Liverpool kemur inn í þessa viðureign sem algjöra yfirburði á öllum sviðum knattspyrnunnar og með alvöru hungur til að fá eitthvað úr þessum leik.

Mér finnst ég alltaf hljóma eins og vel kokhraustur litaður rugludallur, sem ég eflaust er, þegar ég er að skrifa um leiki gegn liðum eins og þessu. Með fullri virðingu fyrir þeim þá eru þeir bara nokkrum númerum of litlir í deildina og Liverpool ætti að klára þá ansi, ansi auðveldlega.

Liverpool þarf þó eflaust að sýna þeim virðingu og þolinmæði þegar haldið verður inn í leikinn og auðvitað ekki taka þessu sem gefnu en það á að reikna með þremur stigum í pottinn annað kvöld, allt annað yrði bara algjör vonbrigði og í raun skandall.

Af Liverpool er bara allt ágætt að frétta. Óvíst er hvort að Fabinho verði með á morgun eftir höfuðhöggið sem hann fékk þegar hann var nýkominn inn gegn Fulham, það hljómaði á honum og Klopp að þetta væri ekkert alvarlegt en reglur í kringum höfuðmeiðsli eru sem betur fer strangar og gott ef Liverpool tekur enga áhættu með slíkt. Liverpool ætti vel að geta verið án Fabinho í þennan eina leik og fá hann þá sterkan inn gegn Barcelona á miðvikudaginn næsta.

Lovren er líklegur til að koma aftur inn í hópinn og Lallana held ég líka, samkvæmt blöðunum úti þá gæti verið að Oxlade-Chamberlain væri í myndinni þegar valið verður þessa átján sem verða í hópnum en við sjáum til með það. Væri frábært að sjá hann aftur í hóp og ef hann gæti þá fengið nokkrar mínútur á vellinum, yrði góð verðlaun fyrir erfiðis vinnu hans undanfarið ár og gæfi honum þá vonandi smá blóð á tennurnar fyrir undirbúningstímabilið. Lallana er held ég eitthvað tæpur enn, hann vantaði amk á einhverja opna æfingu um daginn.

Ég held að Klopp muni rótera aðeins liðinu og verði svolítið með Barcelona í huga hvað ákveðna leikmenn varðar og þá eflaust bakverðina sem þurfa örugglega að hlaupa töluvert meira gegn Barcelona en Huddersfield. Kannski hvílir hann einn af framherjunum og hrærir aðeins í hópnum á miðjunni.

Alisson

Gomez – Matip – Virgil – Robertson

Henderson – Wijnaldum – Keita

Salah – Firmino – Mane

Ég held að Klopp gæti eflaust róterað meira en þetta. Komið Origi inn fyrir einn af framherjunum, óvænt start fyrir Shaqiri, Milner á miðju eða í bakverði, Lovren að byrja eða guð má vita hvað. Liðið verður engu að síður mjög sterkt og ætti að sigla í gegnum þennan leik nokkuð auðveldlega.

Algjör skyldusigur og við verðum að hoppa aftur upp fyrir Man City og vonast til að þeir misstígi sig gegn orma étandi Liverpool stuðningsmanninum Sean Dyche og lærisveinum hans í Burnley seinna um helgina. Eftir það er útileikurinn gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar og svo leikur gegn Newcastle laugardagskvöldið í næstu viku sem er líka á undan leik Man City sem mæta Brendan Rodgers og lærisveinum hans í Leicester City. Það er því nóg að gera framundan!

Sjáum hvað setur annað kvöld. Stórsigur þar sem við getum vonandi saxað á forskot Man City í markamismun og hoppum aftur í toppsætið væri afar vel þegið og verður vonandi raunin.

Þess má svo til gamans geta að u18 ára lið Liverpool sem er svo smekkfullt af spennandi leikmönnum varð í kvöld bikarmeistari eftir að þeir unnu Man City í vítaspyrnukeppni eftir að Bobby Duncan skoraði gott mark seint leiks sem jafnaði metin fyrir Liverpool. Strákarnir skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum en það var fyrirliðinn Paul Glatzel sem tryggði sigurinn í síðustu spyrnunni.

Þetta er fyrsta skiptið sem liðið vinnur bikarinn síðan 2007 og þeir eru einnig í dauðafæri á að vinna deildina sína líka. Vonandi sjáum við bæði u18 og aðalliðið landa tvennum í vor!

8 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    1. Í fullkomnum heimi: Vinnum þá með sjö marka mun. Spilum á varamönnum. Moreno fær að vera í bakverðinum og klúðrar engu. Chambo mætir í restina, leggur upp mark og skorar svo þegar varir dómarans eru í þann mund að kyssa flautuna fyrir lokablístrið. Frí í skólum í Liverpoolborg á mánudaginn.

    2. Í heimi glataðra tækifæra. Mætum með fullskipað lið okkar bestu manna, sem spila þó á hálfu tempói mestallan leikinn og mistekst að setja hann í markið. Meiðsli og hnjask. (Gleymum því ekki að slík staða kom ítrekað upp hér á árum áður þegar liðið lék í bikar við einhverja utandeildargarpa).

    3. Líkleg niðurstaða: Shaq, Origi og co. fá að spreyta sig og vinna 2-0. Moreno ekki treyst í bakvarðarstöðunni (væri samt fyndið að sjá hann í leik!)

    Svona að allt öðru – og af því að við erum að hlaða í jákvæðni í garð BRodgers. Þá voru síðustu sjö leikmannaviðskipti hans hreint ekki svo galin:

    https://www.youtube.com/watch?v=R1DYhyuAJGo

    1
    • 1. Ekkert fyndið við Moreno.
      2. Fer frítt í sumar.
      3. Aldrei aldrei aftur Moreno.

      En annars bara góður YNWA.

      7
  2. Takk fyrir góða upphitun. Það er eins gott að við gefumst ekki upp því bæði okkar ástkæra lið og City þurfa að spila þá leiki sem eftir eru og klára þá til að eiga séns á titlinum. Þó svo City hafi verið á ótrúlegu cruise control síðan í janúar getur enn ýmislegt gerst og kannski klára þeir ekki prógrammið með 9 stigum? Ég verð reyndar að segja að tap Burnley í vetur á heimavelli fyrir liðum eins og Leicester, Crystal Palace og Everton (1-5) er ekki hughreystandi en… þar unnu þeir þó Tottenham svo auðvitað er möguleiki að þeir taki stig af City á sunnudag. En lykillinn er líka að við klárum okkar leiki. Ekkert vanmat í boði í kvöld, teflum fram okkar sterkasta liði og aftur Top of the league!

    Varðandi lokaniðurstöðuna í ensku deildinni í maí þá kemur upp í huga minn söngl Bubba um árið ,,…trúa, trúa, trúa.”

    5
  3. þessi leikur fer easy 5-0 plús. En ef manni sýnist rétt þá mun markatala aldrei ráða um hver verður meistari, ekki á þessari leiktíð, heldur 1-2 stig. Vona bara að Burnley eigji leik aldarinnar á heimavelli.

    YNWA

    1
    • Sammála – ólíklegt að markatalan ráði úrslitum, nema MC tapi leik og við gerum jafntefli.

      3
  4. Sælir félagar

    Þetta á að vera öruggur sigur ef allt fer að líkum. Ég sagði einhvers staðar að ég vildi fá 6 -0 leik til að laga markahlutfallið en í reynd býst ég ekki við því. Ef okkar menn mæta einbeittir til leiks þá á þessi leikur altaf að vinnast. Spái 2 – 0 í tilþrifalitlum og frekar leiðinlegum leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  5. Ekkert bull í gangi. Við stillum upp okkar sterkasta og látum Gomez byrja fyrir Trent í hægri bakverði(Trent virkaði þreyttur í síðasta leik þegar verið var að bruna framhjá honum gegn Cardif í fyrirhálfleik tvisvar).

    Já það skemmir partýið þegar Man City nær 98 stigum en það er ekki hægt að vera fúll út í framistöðu Liverpool í vetur.

    2009 – hefðum við mátt vera meira sókndjarfir.
    2014 – vorum við nálagt þessu en varnarleikurinn var stundum vandamál
    2019- Þá er varnar og sóknarleikurinn bara í góðu jafnvægi.

    3
  6. Það er ekki hægt að kvarta yfir neinu með 97 stig eftir 38 leiki – ef við vinnum rest þ.e.a.s. Þetta City lið er nánast óvinnandi eins og þeir eru að spila þessi dægrin,en ég held að þeir gætu hrasað um steinvölu í síðustu þremur hringjunum og LFC þarf bara að klára sína leiki og vonast eftir kraftaverki.

    Leikurinn á eftir mun ráðast af því hvort við skorum snemma,sem hefur verið þrautinni þyngri í vetur. 5-0 annars 2-0 ef við förum inn í hálfleik í stöðunni 0-0.

    2

Gullkastið – Búið að loka gamla skólanum

Liðið gegn Huddersfield