Upphitun: Mánudagur í Lundúnum.

Myndaniðurstaða fyrir olympic stadium London controversy

Það er aldrei slæmur tími til að vinna fótboltaleik, en það er stundum mjög góður tími til þess. Núna væri virkilega góður tími fyrir Liverpool að vinna fótboltaleik. Annað kvöld halda rauðliðar suður til Lundúna, heimsækja Hamrana á Ólympíuleikvangnum og freista þess að halda bilinu á milli sín og City í fimm stigum í allavega eina umferð í viðbót. Síðustu ár hafa Liverpool haft hreðjartak á West Ham, skorað fjögur gegn þeim í síðustu fjórum leikjum en það er ekki laust við að það sé kvíði í manni fyrir leiknum.

West Ham.

West Ham eru skrýtið lið. Fyrir 10 árum hefði ég lýst þeim sem stærri útgáfu af Crystal Palace, hverfislið í Lundúnum, oftast í efstu deild og spiluðu mjög enska knattspyrnu, háir boltar og svo framvegis. Þeir voru síðast í annarri deild árin 2011-12, tóku eitt tímabil og komu strax aftur upp. Þeir eru líklega frægastir fyrir hlutverk þeirra í myndinni Green Street Hooligans, sem er fínasta B-mynd. Þeir voru oftast um miðja deild og áttu til að gera góðverk eins að kaupa Andy Carroll án þess að fatta að hann yrði meiddur í um það bil öðrum hverjum leik.

Árið 2016 stökkbreyttist klúbburinn og hann er enn þá að jafna sig á þeim breytingum. Arsenal og Tottenham þurftu að hafa gífurlega fyrir því að byggja nýja velli og Chelsea eru ekki búnir að láta draum eigandans um nýjan leikvang rætast. Það er einfaldlega drulluerfitt að byggja í London og hrikalega dýrt. En West Ham fengu bara Ólympíu leikvanginn frá 2012 svo gott sem gefins. Hvernig það gerðist er löng saga og eitthvað af henni ekki orðið opinbert en í stuttu máli var mjög óljóst hvað ætti að gera við leikvanginn eftir Ólympíuleikana. Eftir alls konar drama og vesen endaði hann hjá West Ham af því að ekkert annað fótbolta lið kom lengur til greina. West Ham fékk ekki að kaupa hann, en geta huggað sig við að leigusamningurinn var þeim svo hagstæður að borgarstjóri London, Sadiq Khan, skipaði rannsóknarnefnd til að fara yfir málið. Hún komst að því að fyrri borgarstjórar hefðu verið út á þekju, en ekki væri við West Ham að sakast fyrir að reyna að fá sem besta dílinn. Einhverjar eftirmálar gætu orðið með tíð og tíma en líklegast er málinu lokið í bili.

Flutningurinn gekk skelfilega. Fyrsta árið voru stöðug mótmæli, öðru hverju brutust út slagsmál milli áhorfenda og vallarvarða og árangurinn á vellinum var ekki til þess fallinn að bæta skap áhorfenda. Það hjálpaði mjög lítið að sífellt var verið að skipa fólki að setjast og jafnvel að vera ekki að með hávaða svo það truflaði ekki. Íslendingar þekkja það manna best að þó að völlur sé mjög góður frjálsíþróttavöllur er hann ekki endilega góður fótboltavöllur.

Núna er liðið á þriðja ári á vellinum og búið að vinna úr eitthvað af vandamálunum. Með flutningum lýstu eigendurnir því yfir að þeir ætluðu að gera liðið að Evrópuveldi. Það hefur gengið brösulega en þeir eru að reyna og réðu Pelligrini fyrir þetta tímabil. Hann er byrjaður að byggja upp sóknarsinnað lið sem minnir ögn á ódýrari útgáfu af City liðinu sem hann stjórnaði. Það mun taka sinn tíma fyrir að hann að koma liðinu þangað sem það vill komast, en ég hugsa að það væru margir verri stjórar til að vera með.

Myndaniðurstaða fyrir manuel pellegrini

Þeir vilja sækja, halda boltanum og eyddu 100 milljónunum punda í leikmenn í sumar. Að spila við þá í fyrsta leik tímabilsins gaf okkur líklega vitlausa mynd af þeim. Eftir því sem leið á tímabilið fóru þeir að spila betur og ná í fínustu úrslit en meiðsli hafa verið að hrjá þá í janúar. Tímabilið þeirra náði líklega lágpunkti í síðustu viku þegar þeir voru slegnir út úr bikarnum af AFC Wimbledon, sem eru í þriðju deild. Þeir hafa tapað síðustu þrem leikjum en það er lítið um að þeir séu að kalla eftir að Manuel sé rekin, en það gæti breyst ef þeir fara ekki að ná aftur í punkta.

Meiðslalisti West Ham er ansi langur og margir lykilmenn á honum. Það eru spurningamerki við Cresswell, Wilshere, Yarmolenko, Fabianski, Balbuena, Nasri, Lanzini og Arnautovic. Sá síðastnefndi er byrjaður að æfa aftur og það mun breyta leiknum helling ef hann getur byrjað. Austuríkismaðurinn er komin með 7 mörk á tímabilinu og er stórhættulegur. Ef hann spilar mun ég breyta spá minni um að Liverpool haldi hreinu laki í þessum leik. Að sama skapi væri ég helmingi stressaðari fyrir leiknum ef þeir gætu teflt fram sínu sterkasta liði, sem þeir geta ekki.

Okkar menn.

Meiðslakrísan í vörninni heldur áfram. Bæði Lovren og Gomez fengu bakslög í vikunni, hreinlega óvíst hvenær þeir koma aftur inn í liðið. Ég held að Klopp hljóti að vera farin að leita að nýjum miðverði, það gengur bara ekki að vera með þrjá meiðslapésa sem annan kost við hlið Van Dijk. Á móti kemur að Trent nálgast liðið og sem betur fer getum við sett Milner í hægri bakvörðinn aftur eftir að þetta leiðinda leikbann. Það er eiginlega bara ein varnarlína sem kemur til greina: Andy, Van Dijk, Matip og Milner.

Svo er það miðjan. Já. Hvernig á hún að vera? Ég held að Fabinho sé búin að stimpla sig inn sem lykilmaður á miðjunni, Shaqiri er búin að vera frekar slappur síðustu vikur og ég er farinn að hallast að því að hann sé best geymdur á bekknum þangað til líður á leikinn og hann getur komið inn og sprengt upp leiki. Mig langar rosalega að Keita fái að byrja en hann hefur bara ekki komist í takt við liðið og virðist þurfa meiri tíma. Spurning hvort Klopp gefi honum næstu tvo leiki til að spila sig í gang. Efa það, en hver veit.

Ég ætla að giska á Fabinho, Henderson og Gini á miðjunni og svo segir sóknarlínan sig sjálf. Ekki alveg viss um hvernig er best að teikna þetta upp, þar sem Salah verður að öllum líkindum upp á topp, en einhvern vegin svona:

Grái kallinn er Ribena maðurinn.

 

Spá:

Þessi leikur er svo stór. Liverpool eru ekki búnir að vera sannfærandi á árinu 2019 og ólíkt í haust þá eru þeir að leka mörkum í ósannfærandi leikjunum. City voru rétt í þessu að sigra Arsenal og ég meiri trú á að svín fljúgi en að Everton reynist þeim erfiðir á miðvikudaginn. Við þurfum að svara fyrir þessa leiðinda vitleysu gegn Leicester. Eins leiðinlegt og það er að segja það, þá held ég að það hjálpi liðinu að leikurinn sé ekki á Anfield, stuðningsmenn þar voru aðeins of stressaðir gegn Leicester og það smitaðist á völlinn.

West Ham munu líklega vilja sækja, þeir kunna illa við að pakka í vörn og það mun henta okkar mönnum fínt. Ég ætla að vera svo brattur að segja að við klárum þetta 3-0, Salah vantar 2 mörk til að vera komin með 50 hjá Liverpool, spái því að hann klári það í þessum leik og svo mun hann Bobby okkar bæta þriðja við.

KOMA SVO!

29 Comments

  1. Bíddu, náði Salah ekki 50 mörkum í október?

    Er ég að misskilja eitthvað?

  2. West Ham liðið er algjört jójó lið og maður veit aldrei hvað maður fær frá þeim. Þeir geta nefnilega vel bitið frá sér og er maður pínu hræddur við Felip Anderson sem mun keyra á okkur en hann er ekki mikið fyrir það að róa leikinn og er ég viss um að hann muni verða Milner erfiður andstæðingur og vonandi lendir Milner ekki í svona Zaha vandræðum.

    Maður sér það í þessum leik hvernig stemmning er hjá liðinu. Förum við inn í þetta af krafti eða er stressið að yfirbuga menn.
    Það væri frábært að fara með sigur á morgun því að ef ekki þá getur Man City komist á toppinn á miðvikudaginn, já það er svona stutt á milli.

    Höfum bara trú á verkefninu 1-2 sigur þar sem Salah og Milner(víti) skora fyrir okkur.

    YNWA

  3. Sæl og blessuð.

    Ég er nú ekki á Keita-vagninum svona almennt en ef við erum jákvæð þá lagði hann upp mark í þarsíðasta leik og átti skv. öllum spekúlöntum að hafa fiskað víti í þeim síðasta (dómaraómyndin er ekki fótboltaspekúlant). Það verður því ekki annað sagt en að hinn ,,gíneski Joe Allen” sé aðeins að vakna til lífsins og þróunin sé einhver og í rétta átt. Ég held því að hann byrji og Shaq-arinn verði tilbúinn að hlaupa í skarðið ef karlinn verður í hlutlausum fram eftir síðari hálfleik. Svo mætti lika sjá Gini í þessu hlutverki, sem getur þá líka hoppað inn ef þarf að efla miðjuna.

    Vörnin velur sig sjálf sem og sóknin. Aðrir á miðjunni verða Fabinho og Hendo: 4-3-3, sumsé.

    Held að okkar menn hafi náð að berja í sig rétta hugarfarið. Það er í raun ágætt að taka út þessa angist snemma og sleppa svona bærilega fyrir horn með slappa frammistöðu. Nú er það bara *slapp slapp* og ekkert meira rugl. Rúlla yfir þá purpurarauðu og, já, ekkert meira rugl.

  4. ,, Liverpool er ekki búið að vera sannfærandi á árinu 2019 “. Svo satt og nú verður liðið okkar bara að vinna rest. Það er auðvitað hægara sagt en gert, enda mikil meiðslavandræði í vörninni og hópurinn ansi þunnur. Leikurinn á móti West Ham VERÐUR einfaldlega að vinnast, annars …

  5. Nú er að duga eða drepast við verðum að vinna mér er alveg sama hvernig. Vona að við verðum ekki með þessa 3 á miðjunni finnst það alltof varnarsinnað. Vill að við spilum hugað balls out. Keita fyrir hendo og eiga shaq inni ef við þurfum. Núna þurfa allir að rísa upp og eiga góðan leik. Pellegrini spilar bolta sem hentar okkur að spila gegn við eigum og verðum að vinna. Koma svo

  6. Anderson á móti Milner eða Henderson í bakverði líst mér bara alls ekki á. Ég vill bara fá Fab eða vona að trent verði heill. Ég sé fyrir mér vængjahurð þarna hjá okkur eins og á móti palace og Leicester. Við þurfum að loka á anderson, enda svipaður og saha. Þetta er annars leikur sem við verðum að vinna, ef ekki þá geta shitty verið komnir á toppinn eftir að vinna everton

  7. Sælir félagar

    Þetta er leikur sem verður að vinnast. Mér er nákvæmlega sama hvernig sá sigur verður en ekkert er boðlegt annað en sigur. Ég er eins og fleiri drullustressaður fyrir leikinn en hugsa að ég verði barac að treysta Klopp og strákunum. Það er bara ekkert annað í boði.

    Það er nú þannig

    YNWA

  8. Fyrir það fyrsta skil ég ekki þessa umræðu um stress í síðasta leik. Ef liðið er að farast úr stressi þegar ekki 2/3 af mótinu er búið hvernig verður þá stressið 5 umferðum fyrir mótslok. Ef stress er að heltaka menn þá vona ég að menn hristi það af sér gegn WH í kvöld og ekkert væl. Mér finnst einhvernveginn að tími sé að koma á leik sem tekinn er með stæl. En svosem eins marks sigur dugar mér alveg. Áfram Liverpool.

  9. Er sammála hjalta þ #9 varðandi þetta svokallaða stress. Spurning hvort það sé eingöngu hjá stuðningsfólki, sem ég held að sé raunin. En þetta leiðir okkur samt að hópnum, við kaupum 3, tveir voru hugsaðir sem byrjunarliðs menn, bara annar hefur náð því, meðan Keita er í einhverju limbói. Shaqiri er svona heilt yfir að standa undir því sem kaupin voru hugsuð fyrir. En samt, það er áhyggjuefni að hafa lykil menn sem eru nánast í áskrift að meiðslum. Leikurinn fer 1-3 í kvöld.

    YNWA

  10. Afsaka þráðrán en vitið þið hvar er hægt að nálgast miða á Fulham vs Liverpool sem verður 17 mars?

    Að leiknum þá er ég hræddur um þennan leik og spái 1-1 jafntefli í scrappy leik.

  11. Takk fyrir góða upphitun.

    Ef að fólk er svona stressað að leggir og limir skjálfi þá á það ekkert erindi í toppbaráttu. Það þarf mikinn andlegan styrk til að ná árangri og vinna titla. Við stuðningsfólk eigum að taka undir með Klopp og co sem virðast vera svalir og hafa trú á að fá að hengja gullið um hálsinn í maí. Hlýðum Klopp og njótum ferðalagsins… þetta er þvílíkt spennandi og skemmtilegt ferðalag. Það er frábært að halda með Liverpool í dag.

    Vinnum leikinn í kvöld!

  12. Er drullustressaður fyrir leiknum.

    Spái liðinu:
    Alisson
    Milnerinho-Matip-VVD-Robertson
    Fabinho-Gini-Hendo
    Salah-Firmino-Mané

    Spái 1-0 fyrir okkar mönnum í drulluerfiðum leik…
    Ég er ekki viss um að ég hafi taugar í restina af tímabilinu miðað við stressið þegar svona margir leikir eru eftir úff…

  13. #13
    Ég á klárlega ekkert erindi í toppbaráttuna en þess vegna er gott að ég er ekki í liðinu. Vona að leikmennirnir séu kokhraustari en ég 🙂

  14. Sælir félagar

    Hjalti#9 ég skildi Alisson þannig þegar hann var að tala um stressið að það hafi andað stressi frá áhorfendum á Anfield í leiknum við Leicester. Leikmenn hafi fundið það mjög greinilega og það hafi verið óþægilegt. Hann bað menn að hafa trú á Klopp og liðinu því Klopp og leikmenn hefðu trúna. Hitt er svo annað að við stuðningsmenn erum að deyja úr stressi fyrir hvern leik en það er áratugalöng saga og tekur tíma fyrir gamla freti eins og mig að vinna sig út úr því 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

  15. Gomez er að fara í aðgerð í dag sem eru ömurlegar fréttir en Klopp hafði reiknað með að hann myndi vera klár núna. Það var reiknað með 6.vikum frá en þær eru að nálgast 9.vikur og óvissa um hvort að hann spilar meira á þessari leiktíð.

    Það er víst samt ekkert við þessu að gera og núna þurfa bara aðrir að stíga upp.

  16. Það sást stress á okkar mönnum í síðasta leik og persónulega fannst mér frammistaðan ekki verðskulda meira en þeir fengu, þó svo að haft hafi verið af þeim augljóst víti.

    Hlutir hafa dottið með liðinu í vetur (Origi markið gegn Everton, Mahrez vítaklúðrið ofl. ) en það er viðbúið að það verði ekki alltaf þannig. Meiðsli, dómararugl, rauð spjöld, óheppni og annað í þeim dúr getur spilað inn í og breytt bestu plönum. Nú er þetta stórskemmtilega lið okkar með laskaða varnarlínu en fullfríska sóknarlínu að fara í erfiðan útileik. Efstir í töflunni bæði fyrir og eftir þennan leik. Ég hef trú á þessu verkefni hvort sem það skilar titli í ár eða ekki.

    Lið sem vinna titla einfaldlega sækja þau stig sem þarf til úr svona leikjum.

  17. ég vona að Kopp stilli upp Fabiho í bakverði, er það ekki staðan sem hann hefur verið að spila með landsliðinu:

    Alisson
    Fabinho-Matip-VVD-Robertson
    Shaqiri-Gini-Hendo
    Salah-Firmino-Mané

    svo er ekkert stress, það bara voru vondar aðstæður sem gerðu okkar mönnum eftiðaðra fyrir en Lester, við vinnum þetta örugglega og skilum pressunni til City.

  18. Sammála #18 nema með þeirri breytingu að Milner byrji til stuðnings Fabinho á hægri væng. Milner gæti síðan í einhverjum tilvikum dregið sig í hægri bak og leyft Fabinho að þjóta fram með boltann.

    Alisson
    Fabinho-Matip-VVD-Robertson
    Milner-Gini-Hendo
    Salah-Firmino-Mané

    A la Rafa þá er uppálagt að henda Shaqiri inn á – á 60 mínútu – fyrir þreyttan.

    Ef þetta gengur eftir er mín spá 0-3.

    Liest du Herr Jurgen Klopp? Ich glaube.

    Fór á fyrsta leikinn á tímabilinu á móti West Ham. West Ham vantaði smá samhæfingu þá. Þeir verða sterkari núna í kvöld.

  19. Jónas #10 við keyptum reyndar 4 og 3 hugsaðir sem byrjunarliðsmenn. Er nokkuð viss um að Alisson sé byrjunarliðsmaður 🙂

    Við vinnum 0-3 í kvöld, Salah og Virgil

  20. Það á að vera gaman að fara á Ólympíuleikvanginn og sækja stigin þrjú. Sýna öllum að Liverpool ætlar sér titilinn. En leikurinn síðast var svo ömurlegur að það er ekki skrítið að maður sé stressaður, maður leiksins var Henderson í bakverði. Finnst við eiga inni öruggan sigur. Hef trú á verkefninu, finnst liðið eiga mikið inni. Koma svo.

    Áfram Liverpool og áfram Klopp!

  21. Er að vinna ef einhver er með link þá er allt skipulagt fyrir sigur á eftir 🙂

    Koma svo Liverpool 4-3!!! fáum nokkur mörk og fjör inn í þetta. Ekkert 1-0 United kjaftæði

  22. Það er einn maður sem þarf að stíga upp til að landa þessu tímabili og það er okkar captain! Hann Hendó okkar. Hann var eins og hæna á kókaíni í síðasta leik. Hann verður að taka pepp vagninn og sýna smá baráttu anda og smita hina í liðinu. Kæri Hendó… reddaðu liðinu EPL titil eða reddaðu þér annarri vinnu!

    Öruggt í kvöld, 1-4!

  23. Úff, nú þarf Lallana að sýna sig, tekin fram yfir Shaqiri?
    Hópur okkar þynnist og þynnist 🙁 en þá þurfa aðrir að stíga upp. Koma svo rauðir! 3 stig please !

Gomez gæti þurft aðgerð – Lovren líka meiddur

Liðið gegn West Ham