Upphitun: Liverpool í Rómaveldi

 

Kató gamli var fríður maður og forkunnafagur fýr

Praeterea censeo Carthaginem esse delendam”  eða á hinu ástkæra ylhýra:  “Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði!“. Þannig endaði Rómverjinn Kató gamli allar sínar ræður sökum einstakrar óbeitar sinnar á Púnverjum sem hýstu þá ágætu borg. Gilti þá einu máli hvort að ræða hans fyrir öldungarráði Rómverja snérist um það málefni eða eitthvað algerlega ótengt; alltaf skildi Karþagó vera gereytt!

Halda mætti að Andrea Cecchini, talsmaður rómversku lögreglunnar, upplifi sig sem nútímaútgáfu af Kató gamla og hafi skipt heiftinni gegn Púnverjum í Karþagó út fyrir hatur á Púlverjum Liverpoolborgar. Slíkur er boðskapurinn sem miðlað er frá lögregluyfirvöldum Rómaborgar um að von sé á þúsundum Lucas-Lazio-styðjandi boltabullna með Scouser-vegabréf til hinnar eilífu borgar. Þá er auðvitað sú staðreynd lögð algerlega til hliðar að Rauði herinn hefur verið á sinni allra bestu hegðun á fótboltaferðalögum sínum um Evrópu á meðan svokallaðir stuðningsmenn Roma gerðu heigulslega og lífshættulega árás á írska Púlarann Sean Cox fyrir utan The Albert rétt fyrir fyrri leik liðanna.

Má vel vera að Roma og stuðningsmenn þeirra hjá lögregluyfirvöldum sjái þá eina von vænsta í stöðunni að hleypa stemmningunni og ástandinu upp á lífshættulegt stig miðað við það hvernig Liverpool slátraði Rómverjum á fótboltavellinum fyrir viku síðan. Eða kannski eru Rómverjarnir bara klikk eins og Evrópu-Einar fjallaði svo listavel um í síðustu viku. Við verðum einfaldlega að vona að leikurinn fari stórslysalaust fram og að allir Púlarar komi heilir heim.

Ástæðan fyrir örvæntingu rómverskra er sú að Liverpool er í afar sterkri stöðu. Vissulega hleyptu okkar menn vonarglætu í unnið einvígi með eftirgjöf á lokamínútum fyrri leiksins, en þeir unnu samt leikinn með þriggja marka mun og það er stór biti til að kyngja fyrir hvaða lið sem er. Jafnvel þótt að Roma hafi tekist að hesthúsa þann markamun gegn meistara Messi og hans katalónsku kumpánum þá þarf klifun á kraftaverki til að ná slíku fram að nýju. Liverpool hefur algerlega yfirhöndina og Kató gamli, Cecchini , Di Francesco þjálfari og allir hinir vita það mætavel.

Mótherjinn

Roma geta stólað á svo gott sem sitt sterkasta lið á heimavelli með enga menn alvarlega meidda né í leikbanni. Þeir hituðu upp fyrir leikinn gegn Liverpool með því að vinna Chievo 4-1 í ítölsku Seria A deildinni um síðustu helgi. Nöturleg tilhugsun þar sem að sú niðurstaða myndi einmitt koma heimamönnum alla leið til Kænuborgar ef hún næðist gegn Púlverjum. Þeir gátu einnig leyft sér þann munað að hvíla nokkra leikmenn og munu pottþétt blása til sóknar frá fyrstu mínútu.

Mín taktíska ágiskun er að þeir muni falla frá 3-4-3 kerfinu sem þeir stilltu upp á Anfield og fari í 4-3-3 líkt og þeir spiluðu með um helgina. Reyndar voru þeir með 3-5-2 gegn Barcelona sem svínvirkaði í það skiptið og því gæti Di Francesco reynt að koma Klopp og okkar mönnum í opna skjöldu með óvæntum tilfæringum. En mitt skot í myrkri með liðsuppstillingu heimamanna er svona:

Líklegt byrjunarlið Roma í kerfinu 4-3-3

Liverpool

Síðasta vika hefur verið viðburðarík í okkar herbúðum frá því að við lögðum Roma 5-2 í stórkostlegum fótboltaleik á mögnuðum Anfield. Skyldusigur gegn botnliði Stoke stóð ekki undir væntingum og breyttist í frústrerandi fýlubombu með dæmigerðu dómarabulli. Svekkelsið entist ekki lengi því að daginn eftir skrifaði meistari Firmino blindandi undir 5 ára samning og gladdi rauðliða víða um heim. Sérlega mikilvæg skilaboð um framtíð lykilmanns liðsins þó að reyndar séum við Púlarar ýmsu vanir varðandi það hversu lengi s-amerískir leikmenn verða hjá okkur eftir að þeir skrifa undir langtímasamninga.

Gleðin var þó skammlifuð því að í gær staðfesti klúbburinn að Klopp yrði heilalaus út tímabilið þar sem að Buvac the Brain, nánasti samstarfsmaður Jürgen til tæpra tveggja áratuga, verði ekki meira með liðinu á tímabilinu útaf persónulegum ástæðum. Hugsanlega kemur ofurheilinn og hægra höndin til greina sem stjóri hjá stórliðum Dortmund eða Arsenal eða kannski kom alvarlegur ágreiningur upp á milli þeirra félaganna. En það sem við Púlarar höfum mestar áhyggjur af er hvort að þetta gæti haft einhver skammtímaáhrif á undirbúning liðsins fyrir þennan gríðarlega mikilvæga leik. Persónulega held ég að leikmenn séu alveg nógu miklir atvinnumenn og þokkalega mótiveraðir af úrslitaleik Meistaradeildarinnar til að komast í gegnum þennan leik án herra Zeljko. En þetta hjálpar ekki til.

Mannaval fyrir leikinn hefur farið minnkandi á síðustu vikum og er svo komið núna að byrjunarliðið velur sig að mestu leyti sjálft. Hin slæmu meiðsli Oxlade-Chamberlain ásamt fjarveru Emre Can tryggja byrjunarliðssæti Wijnaldum ásamt Milner og Henderson. Mané og Alexander-Arnold virðist vera búinn að jafna sig og hin óvæntu tíðindi um að Lallana sé nógu heilsuhraustur til að komast í 23 manna hópinn sem ferðast til Roma í dag eru vel þegnar fréttir í jákvæðari kantinum. Svona mun lið Liverpool væntanlega vera stillt upp á Stadio Olimpico annað kvöld:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í kerfinu 4-3-3

 

Það að Roma þurfi að opna sig og sækja á okkur mun væntanlega hjálpa Liverpool með að beita hröðum skyndisóknum á móti. Það er kjörstaða fyrir okkar taktík en líkt og við sáum gegn Man City um daginn að þá getur mark snemma leiks sett skrekk í mannskapinn og þá er aldrei að vita hvað getur gerst í suðupottinum í Rómaborg. Fótbolti er fótbolti og getur rúllað í hvaða átt sem er. Liverpool þurfa því að mæta óhræddir til að spila sinn hugrakka fótbolta áfram og muna hvernig þeir komust svona langt. Ef við förum að ætla að verja forskot í heilan leik þá er voðinn vís. Við höfum ekki tapað leik í Meistaradeildinni í vetur og vonandi verður framhald á því þegar að mest á reynir (7,9,13).

Spakra manna spádómur

Mín vongóða spádómsviska er sú að við skorum mark í fyrri hálfleik sem rói taugar og dragi úr trú Rómverja á kraftaverkefninu. Sagan er með okkur og ég vonast eftir 1-2 sigri Rauða hersins í Rómaborg.

YNWA

46 Comments

  1. Ég hef samt áhyggjur. Barcelona var í svipaðri stöðu og vissu að Roma þyrfti að sækja. Við vitum allir hvernig það endaði. Við höfum það að vísu fram yfir Barca að við getum stúderað hvernig Roma gerði þetta taktískt. Ég hef líka áhyggjur af brotthvarfi Buvac. Hvaða áhrif mun það hafa á hópinn og hvaða áhrif hafði hann þegar að kemur að taktískum hlutum leiksins? Líkurnar eru engu að síður með okkur og vonandi fáum við að njóta úrslitaleiksins 26 Maí með okkar menn á vellinum.

    YNWA

  2. Takk fyrir þessa flottu upphitun.

    Mér líður óþægilega vel fyrir þennan leik, enda staðan í hálfleik þessarar viðureignar afar góð þrátt fyrir að okkar menn hafi ákveðið að opna smá rifu fyrir Rómverja á lokamínútum heimaleiksins.
    Ég hef fulla trú á því að okkar ástkæru sigli þessu heim og alla leið til Kiev.

    Hvað “heilann” varðar þá hefur Echo eftir blaðamanni í heimalandi Buvac, að hann sé kominn heim til að vera með mjög veikum föður sínum. Flóknara sé það nú ekki.
    En þetta eru því miður ennþá óstaðfestar getgátur, vonandi fáum við staðfest fljótlega að það sé ekki um alvarleg illindi milli Klopp og Buvac að ræða.

    Y.N.W.A!

  3. Flott upphitun.

    Það er ekkert öruggt í þessu og Liverpool langt í frá öryggir í úrslitaleikinn en það eru samt teikn á lofti sem geta hjálpað okkur.

    Roma getur ekki komið tvisvar sinnum á óvart. Þeir skelltu Barcelona 3-0 og vitum við því að þeir geta unnið góð lið stórt á heimavelli svo að eitthvað sem heitir að þeir koma á óvart er ekki í boði.

    Liverpool er búið að ganga í gegnum svipaðan hlut gegn Man City. Liverpool vann 3-0 fyrirleikinn(sem er betra en 5-2) og fengu strax á sig mark gegn þeim í síðari og hafði Man City því hátt í 88 mín til að skora tvö mörk tilviðbótar(það tókst ekki).Ég held að okkar menn hafa lært af þessu og mæta tilbúnir í átökinn og ekkert kæruleysi í gangi og kæmi það mér ekkert á óvart ef varnarmenn liverpool spara nokkrum löngum sendingum fram í upphafi leiks í staðinn fyrir að spila úr pressu heimamanna.

    Nú þarf bara að halda focus standast fyrstu 20 mín áhlaupið hjá Roma. Draga aðeins hraðan úr leiknum og vera skynsamir í okkar aðgerðum og þá ættum við að eiga góðan möguleika.

    Spái 2-1 sigri Roma í leiknum en manni verður drullu sama á meðan að við endum í úrslitaleiknum. Firminho fagnar nýjum 5 ára samning með marki og jafnar leikinn í síðari hálfleik.

    YNWA

  4. Ekki ætla ég að fara efast um Klopp en alveg hreint ótrúlegt hvernig Moreno kemst allt í hópinn. Alveg sérstaklega glataður leikmaður.

  5. Nr.4
    Já alveg fáránlegt hjá Klopp að skilja ekki aðalliðsmenn eftir heima vegna þess að þér finnst viðkomandi svo lélegur. Sérstaklega miðað við standið á hópnum. Moreno hefur þar fyrir utan spilað sjö af þessum ellefu meistaradeildarleikjum sem hafa nú skilað okkur þar sem við erum í þessari keppni.

    Frábær upphitun meistari Beardsley, reynum að hafa umræðun á sama plani.

  6. #4

    Það er nú ekki eins og við eigum einhvern betri vinstri bakvörð til að hafa á bekknum.

  7. Moreno sérstaklega glataður leikmaður? Hvernig nenna menn að skrifa komment bara til að láta þetta út úr sér. Er það bara til að geta verið neikvæður.

    Moreno er fínasti leikmaður sérstaklega í backup fyrir byrjunarliðsmennina, fínt að hafa svona mann á bekknum til að koma inn á eða til að dreifa álagi þegar á þarf að halda. Hann hefur hæfileika og mikinn hraða en ákvörðunartökurnar hjá honum eru ekki upp á það besta og þess vegna hefur þetta ekki alveg gengið upp hjá honum hjá Liverpool en að segja að hann sé glataður leikmaður er algjör þvæla.

  8. Afsakið þráðránið en mér tókst að hlera áhugavert samtal um daginn, það var eitthvað á þessa leið:

    Buvac: Heyrðu Jurgen, ég hérna sko var að fá tilboð frá Lundúnum…
    Klopp: Hvað áttu við?
    Buvac: Jú, sko hann Arsene fékk sparkið og félagið langar til að spila skemmtilegan fótbolta, þ.a. þeir buðu mér stólinn hans Arsene.
    Klopp: Elsku karlinn minn, þú veist að við erum að gera einstaka hluti hérna, við erum að skrifa söguna.
    Buvac: Já, en ég fæ að stjórna fyrir sunnan.
    Klopp: En við höfum hingað til alltaf tekið skref fram á við, við höfum alltaf farið til stærra félags en við vorum hjá. Ætlarðu að eyðileggja orðsporið þitt með þessu óheillaskrefi?

    Þegar hér var komið sögu voru félagarnir orðnir verulega æstir og skiptu úr ensku í þýsku þ.a. ég skildi ekki það sem á eftir kom. Ég skildi þó að þeir voru að tala um dýrin, þeir minntust allavega á svín og hund.

  9. Hef engar áhyggjur af þessum leik. Menn horfa til þess að þeir hafi slegið barcelona út með frábærum leik sem er reyndar rétt. Enn þá vil ég minna menn á að bæði Messi og Suarez voru teknir af lífi fyrir frábæran metnað að verjast ekki í seinni leik. Báðir sýndu mikinn hug við að labba á eftir mönnum og gefa þeim mikið svæði og tíma. Eitthvað sem Bobby okkar þekkir ekki eða hreinlega neitar að láta þekkja sig af! Við erum alltaf að fara skora eitt í þessum leik spurninginn er hvað mörg?

  10. Við erum bara svo miklu miklu betri en þetta Roma-lið. Spái 3 – 1 sigri. Ef ég er að jinxa þetta þá bara so be it.

    Klopp og félagar eru búnir að stúdera vel þetta Roma-lið og vita nákvæmlega hvernig þeir munu mæta til leiks. Þá er Klopp búinn að segja oftar en einu sinni að við erum ekki Barcelona. Þeir hafa unnið allt undanfarin ár en við ekkert. Þeir gleymdu bara að mæta til leiks í seinni leiknum. Hungrið hjá okkar mönnum er svo sannarlega til staðar og það er nákvæmlega engin hætta á því að lið okkar mæti værukært til leiks.

    Þetta verður geggjað miðvikudagskvöld. Trúið mér!

  11. Sæl og blessuð.

    Þetta er snilldar upphitun! Mórenó karlinn er að spila sig í gang. Hann er afar mistækur í vörninni og hefur líklega kostað okkur eitt stk. Evrópubikar. Skil samt ekki af hverju gaurinn er ekki hafður á kantinum eða jafnvel miðjunni. Hann er öskurfljótur og getur skotið af löngu færi!

    Nú er bara að mæta til leiks og landa þessu með yfirvegun!

    Játa samt að ég er skíthræddur. Hvernig er annað hægt?

  12. Sælir , ég er gjörsamlega að fara á límingunum yfir þessum leik, Minnugur úrslitanna hjá Róma gegn Barcelona er ég ekki í rónni fyrr en við erum búnir að setja eins og eitt mark í andlitið á Rómverjum. ÉG býst reyndar við drama en spái okkur áfram eftir 1-2 sigur , mark á lokametrunum hjá okkar mönnum en betra að fá sér róandi á morgun 🙂

  13. Markmaður Bayern að gera sitt besta til að senda Real í úrslitaleikinn. Þvílíkt klúður hjá honum í seinna markinu þeir sakna Nuer núna.

  14. Vona að Real komist áfram þó ég þoli þá ekki. Bayern bara miklu betri í báðum leikjum.
    Spái því að ef við komumst áfram og mætum Real þá tökum við þá.

  15. Þetta Real lið er svakalegt. Vinna Bayern án þess að spila vel og engin tilviljun að þeir séu tvöfaldir Evrópumeistarar. Verðugir andstæðingar í úrslitunum ef við klárum Rómverja. YNWA

  16. Númer 1,2 og 3 að einbeita okkur að Roma leiknum. Það má pæla í Real þegar það verkefni klárast en ekki fyrr.

    p.s #17 það er styrkleiki að ná að vinna leiki án þess að spila vel en að spila ekki vel og vinna gerir lið ekki svakalegt 😉

  17. @18 Gleymum því samt ekki að þetta eru tvöfaldir Evrópumeistarar. Fengu þá titla ekki úr Weetos pakka.

  18. @ 18 Real hörkulið og myndu vera sigurstranglegri gegn liverpool. Við myndum samt mæta 2018 liðinu þeirra sem er ekki eins sannfærandi og 2016 og 2017 liðinn. Liverpool ætti meiri séns gegn þeim heldur en gegn Milan 2005 svo þetta væri fróðlegur leikur 😉

  19. Við munum fá á okkur mark/mörk.
    Lykilatriði að við skorum mark/mörk.

    Þetta verður rosalegur thriller.
    Okkar menn verða að halda haus allan tímann hvað svo sem poppar upp í leiknum.
    Roma munu reyna að hleypa þessu upp með brjálaðan völlinn með sér.

    Ég hef trú á stáltaugum okkar manna og skipulagi.
    3-2 fyrir Roma
    YNWA

  20. Madrid voru heppnir að vinna í kvöld og einnig gegn Juve….þeir hennta okkur vel…spila svipað og man-city….

  21. Er ansi hræddur um að þessi tvö aulamörk sem við fengum á okkur eftir panic attack sem liðið lendir svo oft í eigi eftir að kosta okkur. En vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér. Áfram Liverpool FC

  22. Hvernig ætti Klopp að leggja leikinn upp í byrjun til að gera ekki sömu mistök og Barcelona?

    Í vörn, miðju og sókn?

  23. Hvernig ætti Klopp að leggja leikinn upp í byrjun til að gera ekki sömu mistök og Barcelona?

    Í vörn, miðju og sókn?

  24. #24 það er náttúrlega nr 1, 2, og 3 að menn mæti í leikinn til að vinna, Barca hélt að þetta væri bara klárt og pakkað. Ég er viss um að Klopp sendi okkar menn trítilóða inná völlinn og á morgun munum við kynna Heavy Metal fyrir Rómverjum.

    Spái 2 – 1 sigri fyrir okkur. Og takk fyrir góða upphitun!

  25. Real Madrid fóru eins erfiða leið í þennan úrslitaleik eins og hægt er að fara held ég. Þeir voru í erfiðum riðli með með Tottenham og Dortmund og í útsláttarkeppninni fengu þeir besta lið Frakklands, svo besta lið Ítalíu og svo besta lið Þýskalands. Þó svo að þeir hafi lent í veseni á leiðinni að þá slógu þeir þessi stórlið úr keppni og þetta lið er með svo mikla reynslu og kunnáttu í svona leikjum og í þessari keppni að þetta verður fjandi erfitt fyrir okkar menn ef þeir komast í úrslitaleikinn. Real verða alltaf sigurstranglegri en það er einmitt gegn þannig andstæðingum sem Liverpool virðist spila sinn besta bolta og það verður gaman að fylgjast með þeim slag ef að það gerist og maður vonar að fleiri leikmenn Liverpool verði komnir af meiðslalistanum svo að við getum stillt upp okkar sterkasta liði og haft eitthvað gott á bekknum líka.
    Maður má samt ekki fara framúr sjálfum sér því það þarf að tryggja sig til Kiev fyrst áður en það sé hægt að byrja að fabúlera um úrslitaleikinn sjálfan en það eru spennandi tímar framundan og um að gera að njóta þess að horfa á okkar öfluga og mjög svo skemmtilega lið.

    YNWA

  26. Eg verd ad vidurkenna ad eg skil ekki thegar menn eru ad tala um panic attack thegar Roma setti 2 a okkur undir lok sidasta leiks. Er thad panic attack thegar annar midvordur lidsins gleymir ser thegar ad har bolti sem er lengi i loftinu svifur yfir hann og heimsklassa striker gerir allt rett og skorar? Er thad panic attack thegar thad er dundrad i hondina a manni thegar madur er ad leggja sig 100% fram vid ad verjast?

    Thad eru svo margar tilviljanir i einum fotboltaleik ad stundum er einfaldlega ekki haegt ad fa allt sem madur vill, thratt fyrir ad menn seu ad leggja sig fram. Milner var t.d. duglegasti madur vallarins, reynslumikill og er med mjog gott winner-hugarfar, en faer samt daemda a sig vitaspyrnu. Var hann hluti af thessu panic attacki? Thetta er svo grunn hugsun og odyr skyring.

    Bjuggust menn i alvorunni vid thvi ad Liverpool vaeri i hapressu undir lok leiksins, 5-0 yfir? Mer finnst oft gleymast ad thad eru 2 lid inni a vellinum og baedi lid hafa eitthvad ad segja um tempoid og hvar leikurinn fer fram a vellinum. Roma hofdu engu ad tapa 5-0 undir og their eiga skilid credit fyrir execution undir lok leiks og ad syna karakter. Morg lid hefdu pakkad nidur og farid heim 5-0 undir.

    Thad koma alltaf ahlaup i nanast ollum ithrottum, og thad er fjandanum erfidara ad taka orkuna til baka af lidi sem gerir ahlaupid. Liverpool FC er ekkert eitt um ad finnast thad. I korfubolta taka thjalfarar leikhle um leid og theim finnst ahlaup andstaedingsins vera komid of langt, til ad brjota thad upp og koma skilabodum til sinna manna. I fotbolta er thetta vopn ekki til stadar, og thad er einmitt thetta sem gerir fotboltann svo skemmtilegan. Sem daemi eru fyrri og seinni halfleikur oft svart og hvitt, eftir ad coachinn er buinn ad raeda vid menn og leggja linurnar i halfleik, eins og sast svo vel i seinni leiknum a moti City.

    Thad er nakvaemlega thetta sem hraedir mig fyrir leikinn i kvold, ad Roma komi med sudda ahlaup i fyrri halfleik og setji 2-3 adur en flautad verdur til halfleiks. Liverpool munu samt alltaf skapa ser faeri og ef thau eru nytt tha er thetta liklega buid.

  27. Takk fyrir frábæra upphitun, get ekki beðið eftir leiknum, spái 3-1 f. Roma þar sem Liverpool skorar síðasta markið til að koma sér áfram, bara svona til að hafa stressið í viðeigandi hæðum í kvöld.

    Langaði aðeins að nefna Moreno sem var til umræðu hér að ofan. Vissulega hefur hann átt misgóðar innkomur en hann var frábær fyrr á tímabilinu áður en hann meiddist. Hann hélt Robertson alveg út úr liðinu og var stöðugur og góður og þaggaði niður í öllum (eða amk flestum) efasemdaröddum. Svo meiddist hann eins og gengur og gerist og þegar hann var orðinn klár þá var Robertson búinn að spila svo vel að hann var búinn að vinna stöðuna. Mér finnst mjög ósanngjarnt að hafa svona valkvætt minni af frammistöðu Moreno og ég tel að við séum mjög vel settir með breidd í vinstri bak með hann og Robertson.

    Fleira var það ekki, áfram Liverpool!

  28. Hvernig á maður að getað unnið í dag? Shit hvað eg er ekki að höndla spenningin

  29. Haha ferlega eru menn viðkvæmir. Slaka á bjórnum þangað til eftir kornflexið.

  30. Flott upphitun.

    Veit einhver hér hvort leikurinn verður í opinni dagskrá í kvöld?

  31. 33, þeir sýndu Rm BM í opinni í gærkvöldi einn leikur í hverri umferð var einhverntíma sagt þannig að líkurnar eru litlar enda Liverpool mjög sjaldan í opinni en ætti alltaf að vera, ha.

  32. #33.
    Liverpool leikurinn verður í opinni dagskrá, sko úrslitaleikurinn 😉

  33. Miðað við fréttirnar af Adam Lallana, þá er það nánast öruggt að hann verði orðinn leikfær fyrir 26. maí (Kíev)… sem skiptir gríðarlega miklu máli finnst mér. Ómögulegt að vera bara með þrjá “fullorðna” miðjumenn til taks á roster í heild.

  34. Þetta verður veisla þeir þurfa að sækja. sem þyðir að þeir verða að færa vörnina sýna ofarlega á völlinn sem er frekar hæg það ætti að vera veisla. Annars vegar gætu þeir verið með línuna aftarlega þá myndast bil milli miðju og varnar og þá erum við nú líka með hraðann til að spæna okkur í gegn. ‘i versta falli erum við að minsta kosti að fara skora allavega 1 mark og hvort sem roma þarf 4 eða 5 mörk þá sé ég þá ekki skora þau.

  35. Shiiiiiiiiit hvað ég er að fara yfir um af spennu.
    Las áðan fyrirsögnina “Liverpool gæti komist í úrslitaleik meistardeildarinnar í fyrsta skipti í 11 ár”
    11 ÁR!!
    Mér finnst hún hljóma eins og það sé eitthvað annað en glæsilegur árangur. 99,99999999% liða í evrópu komast aldrei þangað og sennilega í kringum 10 eða 15 lið sem hafa verið þar sl 20 ár.

    Þetta verður samt bara að hafast!

  36. Þetta mun ráðast af hvort Liverpool takist að spila sinn eðlilega leik. Þá verður Roma ekki fyrirstaða og allt eins líklegt að Liverpool vinni stórt. Gegenpressen virkar bara þannig þegar hún virkar. Það þarf ekki Liverpool til og er skemmst að minnast þegar að þýska landsliðið vann Brasilíu á þeirra heimavelli 1-7.

    En gegenpressen virkar ekki alltaf. Þeir sem hafa fylgst með Real og Bayern leikjunum sáu þá síðarnefndu búa til margfalt fleiri færi en sitja samt eftir með sárt ennið. Hvort taugarnar klikkuðu eða hvað gerðist er ekki gott að segja.

    Vandamál gegenpressen er að vörnin er skilin eftir fáliðuð þegar að miðja og sókn hamast framarlega á vellinum við að vinna boltann aftur. Af þeim sökum tapa gegenpressen lið oft stórt. Nýleg dæmi eru Barcelona gegn Roma . Ekki má heldur gleyma að Juventus var bara hársbreidd frá því að vinna Real 3-0 úti.

    Við verðum bara að treysta Klopp til að setja leikinn rétt upp. En það er ekkert í höfn kæru vinir.

  37. Ætli það sé fleiri eins og ég enda laus verið að horfa á klukkuna og bíða eftir leiknum og að fara af taugum af spenningi
    YNWA

  38. Vitið þið hvort leikurinn verði í opinni dagskrá á Stöð2Sport eins og leikurinn í gær?
    Var það ekki þannig að undanúrslit og úrslit verði að vera í opinni dagskrá eða er það bara rugl í mér?

  39. Liðið okkar er komið og er það bara eins og ég held að 99% af þeim sem fylgjast vel með liverpool hefðu spáð.

    Karius, Trent, Djik, Lovren, Robertson, Milner, Winjaldum, Henderson, Mane, Salah og Firmino.

  40. #43
    Það er bara einn leikur í hverri umferð í opinni dagskrá.
    Úrslitaleikurinn á að vera í opinni dagskrá.

  41. Byrjunarliðið komið: Karius, Trent, Lovren, van Dijk, Robertson, Wijnaldum, Henderson, Milner, Salah, Firmino, Mané.

    Bekkur: Mignolet, Clyne, Moreno, Klavan, Ings, Solanke, Woodburn

    Byrjunarliðið verður að standa sig og gera vel, eini miðjumaðurinn á bekknum er Woodburn. Þessi leikur er reyndar tíminn fyrir hann og aðra á bekknum að sýna það að þeir eigi heima í þessum hóp. En ég vona innilega að það verði enginn meiðsli hjá okkur.

    KOMA SVO!!!!!

Buvac í frí

Byrjunarliðið gegn Roma