Peningamál 2017 (síðari hluti) – samkeppnisaðilarnir

Síðastliðinn föstudaginn fjallaði ég um ársreikning Liverpool FC, þróunina undir FSG og mína sín á framtíðina. Í dag vil ég taka þessar upplýsingar áfram og bera Liverpool saman við samkeppnisaðilana  og þá sérstaklega topp 6 liðin í ensku úrvalsdeildinni.

Tekjur

Mikið hefur verið rætt og ritað um misskiptingu auðs og er fótboltaheimurinn þar engin undantekning. Deloitte birtir árlega samantekt (Deloitte Football Money League) þar sem þeir fara yfir tekjur stærstu liða Evrópu og skoða samanburð á milli ára, hvaðan tekjurnar koma og framtíðarhorfur.

Samantekt Deloitte fyrir tímabilið 2015/16 er fróðleg og þá ekki síst sú staðreynd að Liverpool er eina liðið í topp 10 sem ekki spilar í Champions League!

Einnig vekur gríðarlegur vöxtur Manchester United athygli mína. Þeir eru tekjuhæsti fótboltaklúbbur í heimi (í fyrsta sinn síðan 2003/04) og bendir flest til þess að þeir haldi toppsætinu á núverandi leiktímabili og fari yfir £530 milljónir í veltu og það án Champions League!

Það sem vekur athygli þarna eru auglýsingatekjur Manchester United sem nema £272,1 milljón samanborið við £119,5 milljónir hjá Liverpool. Við höfum alltaf vitað að við værum að fá minna inn á leikdegi og í sjónvarpstekjur vegna þeirra takmarkana sem að Champions League þáttaka og „lítill“ leikvangur setja okkur en að bilið væri svona rosalegt í auglýsingatekjum átti ég engan vegin von á.

Ef við skoðum tekjur topp 6 liðanna í ensku úrvalsdeildinni er samanburðurinn forvitnilegur.

Ef við skoðum tekjuaukningu 2014/15 – 2015/16 þá trónir Manchester United á toppnum með 30,4% vöxt á milli tímabila, næst koma Manchester City með 11,3%, Tottenham 6,8%, Arsenal 5,8%, Chelsea 4,7% og að lokum Liverpool með eingöngu 1,3% vöxt á milli tímabila sem eru ákveðin vonbrigði. Sérstaklega í ljósi þess að auglýsingatekjur er sá liður sem er að aukast hvað mest á milli tímabila hjá þessum félögum en á sama tíma dragast þær saman hjá Liverpool.

Ég fór nokkuð ítarlega í þessa þrískiptingu tekna Liverpool í pistil mínum á föstudaginn og ætla því ekki að fara djúpt í þetta hér heldur eingöngu bera Liverpool saman við stærstu lið ensku úrvalsdeildarinnar hvað varðar tekjur á leikdegi annars vegar og auglýsingatekjur hins vegar.

 • Tekjur á leikdegi

Liverpool hefur verið í 4 sæti af þessum topp 6 liðum þegar kemur að tekjum á leikdegi s.l. 2 ár.

Það á ekki að koma neitt sérstaklega á óvart að Arsenal og United séu þarna í algjörum sérflokki. Spilar þar inn í bæði fleiri leikir oftast nær (Champions League) og auðvitað mun stærri leikvangur.

Svona til gamans þá má benda á að þessi stærðarmunur sem við höfum horft upp á síðustu ár á Anfield (fyrir stækkun) og Old Trafford (46.000 / 76.100) er í raun sá sami og ef við berum saman Anfield og Home Park, heimavöll Plymouth Argyle (46.000 / 16.400).

Anfield var auðvitað stækkaður um 8.250 sæti haustið 2016 og eftir næstu stækkun er gert ráð fyrir að völlurinn taki um ~58.000 manns sem væri þá nánast á pari við Ethiad (framkvæmdir þar hefjast á árinu, völlurinn mun taka 61.000 manns eftir að þeim er lokið. Hélt reyndar að þeir ættu í vandræðum með að fylla völlinn í dag en þetta ætti að gefa eigandanum fleiri sæti til þess að kaupa til að koma fjármunum inn í félagið) og Emirates (60.432).

 • Auglýsingatekjur

Auglýsingatekjur er sú tekjulind sem ekki bara skilur að topp 6 liðin í ensku úrvalsdeildinni heldur einnig topp 10 liðin í heiminum í dag.

Þessar tölur eru í raun lygilegar. Auglýsingatekjur Manchester United jukust um  £71,3 milljónir punda eða rúm 35,5% og námu £272,1 milljónum fyrir tímabilið 2015/16 sem er 20% hærra en samanlagðar auglýsingatekjur Arsenal og Liverpool!

Þarna koma inn af fullum krafti samningar United við bæði Adidas og Chevrolet. Eins og ég skrifaði um í pistli mínum á föstudaginn þá má færa rök fyrir því að sá samningur sem Liverpool gerði við Warrior 2012/13 væri eflaust 50%+ verðmætari ef hann væri gerður í dag og miða ég þá við markaðsverð þeirra samninga sem topp 10 liðin í heiminum hafa verið að gera síðustu 2 árin eða svo.

Án þess að ég taki afstöðu til þess þá er vert að benda á það að menn hafa gagnrýnt þessa samninga sem Manchester City gerði á sínum tíma. Gagnrýnin hefur helst snúist um það að þessir samningar og þessar fjárhæðir endurspegli ekki stærð félagsins heldur hafi þarna verið samið við tengdað aðila til þess að komast hjá Financial Fair Play reglunum (þegar þær reglur voru eitthvað meira en klósettpappír).

 Leikmannakaup

Mikið hefur verið rætt um kaupstefnu Liverpool á síðustu árum. Það er fróðlegt að skoða þróunina á fjárhæðum sem fara í leikmannakaup samanborið við tekjur.

Þrátt fyrir að tekjur Liverpool hafi aukist um 46,4% frá því 2012/13 (og væntur vöxtur frá 2012/13 til 2016/17 sé um 70%) þá:

 • hafa nettó leikmannakaup sem hlutfall af tekjum lækkað umtalsvert á hverju ári (utan 2014/15).
 • eru brúttó leikmannakaup mjög sveiflukennd á milli ára, toppa 2014/15 og 2015/16 þar sem tvær stórar sölur eiga sér stað þessi tímabil (Suarez og Sterling) en eru fyrir utan það talsvert lægri en þau voru 2012/13.

Mér finnst þetta fullkomlega eðlileg þróun í klúbbum sem eru að vinna hluti (eða eru árlega í meistaradeildinni) en þróunin er svolítið sérstök ef horft er til þess að við höfum selt lykilleikmenn nánast árlega frá þessum tíma og verið í 6-8 sæti frá 2013/14 tímabilinu.

Nettó eyðsla Liverpool FC (kaup að frádregnum sölum tímabilsins) hafa aðeins einu sinni farið yfir £45,0 milljónir en það var leiktíðina 2012/13 og er meðaltal nettó leikmannakaupa þessara 5 ára er £28,5 milljónir. Til að setja þetta í samhengi þá er meðaltal nettó eyðslu Manchester félaganna s.l. 5 tímabil á bilinu £79,8-£87,4 og er Liverpool í 5 sæti þegar kemur að nettó eyðslu og í 6 sæti (af 6) yfir brúttó leikmannakaup.

Hvað þýðir þetta samt? Jú við erum að eyða næst minnst þessara topp 6 liða í leikmannakaup þegar við tökum sölur með inn í reikninginn. Þetta snýst þó við ef við skoðum meðaltal síðustu þriggja ára þegar kemur að brúttó eyðslu.

Liverpool er að kaupa leikmenn síðustu 3 ár fyrir £101,1 milljón á ári að meðaltali og er því að fjárfesta meira en Arsenal, Tottenham og Chelsea sem öll hafa verið að enda fyrir ofan okkur síðustu 3 ár (utan Chelsea 2015/16).

Og er það gott eða slæmt?

Ég bara veit það ekki, það fer svolítið eftir því hvernig núverandi tímabil fer. Ekki tjalda til einnar nætur og allt það. Ég held að það sé ekki slæm regla að gefa ungum leikmönnum amk 2-3 ár til að sanna sig, við höfum fjárfest mikið í slíkum leikmönnum undanfarin ár og því kannski eðlilegt að árangurinn sé eftir því. Endi Liverpool leiktíðina í meistaradeildarsæti þá verður ekki annað sagt en að ýmislegt bendi til þess að Liverpool sé á réttri leið. Það er ekki ideal að vera kaupa 5 leikmenn á hverri leiktíð, við verðum einnig að fara að ná stöðugleika innan vallar og hluti af því felst auðvitað í því að ná í hryggsúlu í liðið sem kemur til með að spila á komandi árum og við getum í kjölfarið frekar farið að kaupa gæði í stað magns.

Þeir sletta skyrinu sem eiga það

Ef við horfum eingöngu til s.l. 2 tímabila og samkeppnisaðilanna í ensku úrvalsdeildinni þá er samanburðurinn ansi merkilegur.

Mikið hefur verið hamrað á Manchester United. Kaup þeirra á Pogba, að þeir séu með dýrasta leikmannahópi ensku úrvalsdeildarinnar og svo mætti áfram telja. Ef við skoðum s.l. tvö tímabil þá eru þeir undir meðaltali hvað varðar leikmannakaup sem hlutfall af tekjum. Þeir hafa m.ö.o. efni á því að kaupa einn auka Pogba á hverju ári, það hefði einmitt þurft tæpar £100,0 milljónir í viðbót í leikmannakaup svo að Manchester United væri sá klúbbur sem eyddi hlutfallslega mest í leikmenn.

Það er ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir því sem að Manchester United er að gera. Útlitið var ekki gott á tímabili. Eftir skuldsetta yfirtöku 2005 og endurfjármögnun á árinu 2006 jókst hreinn fjármagnskostnaður (með smá einföldun: í raun bara vaxtagjöld) félagsins gríðarlega og nam rúmum 42% af veltu á tímabilinu 2008/09. Tekjur hafa ekki bara vaxið gríðarlega síðan þá heldur hefur félagið verið að greiða niður skuldir og nemur hreinn fjármagnskostnaður (nettó) ekki nema tæpum 4% af veltu félagsins í dag.

Laun

Laun eru langstærsti kostnaðarliður knattspyrnufélaga og ekki er óalgengt að launakostnaður sé 50%-70% sem hlutfall af tekjum.

Þessi tafla hér að ofan er forvitnilegt. Það að launakostnaður Tottenham skuli vera helmingi lægri en hjá hinum topp 6 liðunum í ensku úrvalsdeildinni er í raun ótrúlegt, sérstaklega ef við horfum til árangurs þeirra s.l. 5 tímabil. Það er að vissu leyti skiljanlegt. þeir eru að greiða svipað hlutfall af tekjum og önnur félög. Hendur þeirra  eru einfaldlega bundnar vegna lægri tekna.

Fyrir okkur Liverpool stuðningsmenn er auðvitað fásinna að vera að greiða 3 hæstu launin 2015/16 en vera samt í 8 sæti deildarinnar og standa uppi án titils og evrópukeppni í lok tímabils með lið eins og Tottenham, West Ham og Southampton fyrir ofan okkur sem öll greiða meira en helmingi lægri laun en Liverpool gerir.

Þessi ofurlaun sem Manchester United greiðir sínum gríðarlega dýra leikmannahóp (Pun intended) eru hlutfallslega lægstu launin sem hlutfall af veltu ef við horfum á topp 6 lið ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta er enn eitt dæmið sem sýnir hve gríðarlega sterkir þeir eru sem fyrirtæki.

Eins og sést hér að ofan er launakostnaður liverpool að aukast langmest á milli tímabila eða sem nemur 25,4%. Næst kemur Manchester United með 14,7% aukningu á meðan restin er með aukningu á bilinu 1,6% – 6,8%.

Hvað skýrir þessa miklu hækkun hjá Liverpool á milli tímabila? Þarna verður auðvitað að gæta að því að um 18 mánaða gamlar tölur er að ræða, þetta er fyrir tímabilið 1.6.2015 – 31.5.2016. Helstu ástæðurnar eru:

 • sumarið 2015 keyptum við Firmino, Benteke, Clyne, Ings, Gomez og Milner en seldum tiltölulega „ódýra“ leikmenn í þeim Aspas, Coates, Lambert, Borini og Sterling.
 • annað sem vegur einnig þungt er að að Coutinho, Skrtel og Sakho skrifuðu allir undir nýjan samning á árinu 2015.

Leicester, undantekningin sem sannar regluna?

Þessi aðferðafræði mín er ekki fullkomin en ég tel að hún gefi okkur ansi skýra mynd engu að síður. Ég ákvað að skoða 7 ár aftur í tímann og skoða hver fylgnin sé á milli launakostnaðar og árangurs. Þá horfi ég til greiddra launa (£) en ekki hlutfall greiddra launa af tekjum því mörg „minni“ lið eru með launakostnað sem samsvarar á bilinu 80-100% af tekjum sem, eðlilega, skekkir myndina.

 • Í 75% tilfella á árunum 2009-2017 stendur liðið sem greiðir hæstu eða næst hæstu launin uppi sem meistari.
  • Tvær undantekningar eru frá þessu. 1) Manchester United 2010/11 sem þá greiddu þriðju hæstu launin. 2) Leicester 2015/16 (sem þá greiddu s.a. sextándu hæstu launin, lægra en Newcastle t.a.m.)
 • Í 75% tilfella á árunum 2009-2017 enda fjögur af sex launahæstu liðunum í efstu fjórum sætunum.
  • Tvær undantekningar eru frá þessu. 1) Tottenham 2009/10 sem þá greiddu sjöundu hæstu launin, Aston Villa var þá í sjötta sæti. 2) Leiceter 2015/16.

Lokaorð

Það er hellingur sem er gott hjá klúbbnum, við erum með heimsklassa knattspyrnustjóra og ungt og efnilegt lið sem getur náð langt. Það er ákveðin mótsögn í því en klúbburinn hefur enn tiltölulega sterka stöðu markaðslega og er stórt nafn en á sama tíma höfum við aldrei verið jafn langt að baki stærstu liðunum.

Þó svo að Liverpool hafi verið að eyða minna á milli tímabila m.t.t. tekjuaukningar þá hefur klúbburinn engu að síður verið að eyða háum fjárhæðum (brúttó) síðustu 3 tímabil í unga leikmenn og í raun meiri fjármunum en t.a.m. Arsenal, Chelsea og Tottenham. Þessir leikmenn eiga samt sem áður enn eftir að réttlæta þær fjárhæðir sem í þá var lagt og erum við enn alltof óstöðugir í okkar spilamennsku. Fari allt eins og best verður á kosið þá eru þessar áhyggjur algjörlega óþarfar. Bara það að ná meistaradeildinni þetta timabilið gæti breytt svo ótrúlega miklu og flýtt framþróun undir stjórn Klopp um nokkur ár. Ef og hefði, á meðan við erum ekki búnir að tryggja okkur neitt þá er ýmislegt sem veldur mér áhyggjum þegar ég skoða þróunina síðastliðin 3-5 ár.

 • Leikmannakaup

Liverpool hefur verið að minnka eyðslu sína s.l. fimm tímabil ef leikmannakaup eru skoðuð sem hlutfall af veltu og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan FSG keypti klúbbinn (2015/16: 19,31%). Auðvitað getur verið að þetta sé tilfallandi og að réttu leikmennirnir hafi ekki staðið til boða í sumarið 2016 eða í janúar 2017 en miðað við þróunina síðustu fimm tímabil verður að teljast líklegra en ekki að þetta sé það hlutfall sem FSG vinnur eftir.

Hér hef ég aðlagað innkaupin 2014/15 og 2015/16 og dregið frá þær fjárhæðir sem við fengum fyrir Suarez og Sterling. Ef Liverpool er ekki selling klúbbur þá viljum við væntanlega horfa á þessi tvö tilfelli sem undantekningu frekar en reglu. Eins og sést í töflunni hér ofar í pistlinum þá eyddi Liverpool óvenju miklu í leikmannakaup þessi tímabil og gefur það e.t.v. betri mynd að horfa á nettó eyðslu í stað brúttó.

Persónulega finnst mér ekki eðlilegt að leikmannakaup félagsins séu nánast þau sömu (£) á þessu fimm ára tímabili þegar tekjuaukning félagsins á sama tímabili er 46,4% 2012-2016 og vænt 70,7% ef horft er til nýja sjónvarpssamningsins sem tók gildi 2016/17.

 • Launamál

Mitt mesta áhyggjuefnið er klárlega hlutfall launa af tekjum á tímabilinu 2015/16, sérstaklega þegar maður reynir að gera sér grein fyrir því svigrúmmi sem að klúbburinn hefur til að fjárfesta og stækka hópinn sinn í sumar. Tala nú ekki um ef Liverpool verður í meistaradeildinni á næstu leiktíð. Á móti kemur þá hefur Klopp tekið talsvert til í leikmannahóp sínum. Matip, Wijnaldum og Mané eru einu „dýru“ leikmennirnir sem hafa komið inn á meðan við höfum losað okkur við leikmenn eins og Enrique, Touré, Skrtel, Ibe, Allen, Benteke, Alberto, Balotelli og Ilori ásamt því að  lána út Sakho.

Ef við gefum okkur það að launakostnaður Liverpool standi í stað á milli ára, þ.e. að kaup og nýir samningar komi á móti þessum sölum leikmanna en tekjur Liverpool FC aukist um £50,0 milljónir vegna nýja sjónvarpssamningsins þá erum við samt að greiða 59,2% af tekjum í laun sem er enn of hátt að mínu mati og gefur minna svigrúm til fjárfestinga næsta sumar.

 • Sérstaða

Þið verðið að afsaka hve mikið hefur verið fjallað um Manchester United í þessum pistli en það verður ekki tekið af þeim að rekstur þeirra er nánast fordæmalaus. Það að einn klúbbur sé með nánast sömu auglýsingatekjur og aðrir 3 hafa til samans af þessum topp 6 liðum í ensku úrvalsdeildinni er ótrúleg staðreynd. Allt bendir til þess að 2016/17 verði jafnvel enn betra en það var 2015/16 og það án Champions League sem er ótrúlega “impressive”.

Það verður að teljast líklegt að þessir yfirburðir séu komnir til að vera, það tekur ekki ár heldur áratugi að vinna sér inn slíkt bakland.

Þetta er ekki vísindalegt en ég tel að þetta renni stoðum undir það commercial value sem að klúbburinn hefur í dag og þá sérstaklega hjá yngri kynslóðinni (viðskiptavinum framtíðarinnar):

Tottenham á einnig skilið að vera minnst á sérstaklega hérna.  Klúbburinn hefur verið að greiða 53,6% lægri laun en Liverpool síðustu sjö tímabil en samt verið þrisvar sinnum í meistaradeildarsæti (Liverpool einu sinni á sama tíma).

Tekjur Tottenham eru s.a. tvisvar sinnum lægri en hjá Manchester United og 44,4%-52,1% lægri en hjá Liverpool s.l. tvö tímabil. Engu að síður er Tottenham að skáka þessum liðum í ensku úrvalsdeildinni og hafa, síðan Bale, náð að halda sínum leikmönnum á milli ára.

 • Að lokum

Það er svo auðvelt að  gagnrýna Liverpool fyrir að eyða ekki nægilega miklu í leikmenn, greiða ekki samkeppnishæf laun eða að hafa ekki breiðari hóp og svo mætti áfram telja. Ef betur er að gáð þá er það mitt mat að kannski erum við bara ekki nægilega klókir, a.m.k. hefur stefnan ekki verið að virka s.l. fimm tímabil, og því má segja að viðskiptamódel FSG fái falleinkunn. Hver eru þá næsta skref?

Það er einfaldlega staðreynd að klúbbar með bæði lægri tekjur og lægri laun (hlutfallslega og í pundum) eru að enda ofar en Liverpool tímabil eftir tímabil og þá er ég ekki bara að tala um Leicester eins og ég hef rakið hér að ofan. Fylgnin á milli greiddra launa og árangurs er vissulega til staðar, Liverpool er bara á öfugum jaðrinum. FSG talaði mikið um það frá upphafi að eitt af þeirra áhersluatriðum væri að frammistaða inn á vellinum endurspeglaðist í launum þeirra. Liverpool greiðir að meðaltali fjórðu hæstu launin síðustu sjö tímabil en samt sem áður bara einu sinni verið í topp fjórum og greiddu þriðju hæsti launin tímabilið 2015/16 og enduðu í áttunda sæti.

Það er algjörlega ljóst að til skemmri tíma litið þá erum við aldrei að fara að berjast við Manchester United, Manchester City eða Chelsea á jafnréttisgrundvelli. Þessi félög hafa einfaldlega aðgang að mun meira fjármagni, hvort sem það sé á bankareikningnum eða í vasa eigandans. Það er ekki þar með sagt að þessi barátta sé glötuð, alls ekki. Við höfum bara minna “margin for error” og þurfum að vera klókari en við höfum verið á síðustu árum.

Annars vona ég að einhverjir hafi haft gagn og gaman af þessum tveimur pistlum. Það getur verið snúið að gera áhugaverða pistla þegar þeir eru að mestu til búnir til og hannaður í kringum ársreikninga og aðrar tölulegar upplýsingar.

YNWA

 

22 Comments

 1. Flottur pistill! Takk fyrir!

  Hvenar rennur þessi Warrior/New Balance samnigur út svo við getum vonandi fengið meiri auglýsingatekjur?

 2. Takk kærlega fyrir mig 🙂

  Í sambandi við kaup og sölur þá virkar reyndar Klopp á mig sem stjóri sem veit hvernig leikmenn hann vill. Hann hefur sagt að penningar til að kaupa eru til staðar en eins og í janúar þá ætlaði hann ekki að eyða þeim bara til að eyða þeim, heldur voru þarna nokkrir leikmenn sem hann reyndi við en þeir voru ekki til sölu og því fór sem fór.

  Ég held að eigendur liverpool standa ekki í veg fyrir Klopp að versla. Þeir eru ekki samt í klassa eins og Real, Man utd, Barca, Chelsea og Man City þar sem stjórar þeira liða geta keypt hvað sem er fyrir hvað sem er þá held ég að eigendur liverpool myndu alveg setja 50m pund í leikmann ef Klopp myndi segja þeim að hann þarfnast hans.

  Svo að ég haldi áfram þá held ég að breyddinn hjá okkur þarf að batna og EF við komust í meistaradeildina þarf Klopp að vera mjög klókur og fjárfesta í 5-6 nýjum leikmönum sem styrkja liðið(ekki 2-3 af þeim ungir og efnilegir, mesta lagi 1). Því að horfa á bekkinn hjá okkur vs önnur lið þá erum við ekki nálagt þeim.

  Vill samt þakka aftur fyrir mig fyrir frábæran pistil um penninga og Liverpool en því miður er þetta eitthvað sem maður þarf að vera meðvitaður um í nútímafótbolta.

  80s þegar Liverpool voru uppá sitt besta þá var maður ekkert að pæla í penningum og meiri segja Man utd sem gátu ekkert(oki ekkert er full gróft en ég held mig samt við það) þá voru ríkari en við sem voru líklega besta lið í heimi.
  Djöfull sakna ég þess tíma að maður hugsaði bara um fótbolta en ekki sjónvarpstekjur, netó eyðslur, nöfn á öllum eigendum og hvort að olíuverðið í arabíu mun hafa áhrif á kaup stórliða í sumar.

 3. Frábær pistill.

  Svart á hvítu sýnir þetta vanhæfni eigenda okkar. Liverpool er sigursælasti (ásamt Man Udt) klúbbur Englands frá upphafi EN það er ekki nýtt sem skildi. Því miður. Með hverju árinu siglir United frammúr okkur…..

  Hvað haldið þið að á þessu ári hafi “framleiðst” miklu fleiri United aðdáendur heldur en Liverpool aðdáeindur?? Með því að kaupa Zlatan, Pogba… alvöru stjörnur sem eru vinsælir um alla veröld á móti því að kaupa Klavan

  Þessir tveir pistlar eru frábærir og negla enn harðar þá skoðun mína að Liverpool þarf “sugardaddy” eigendur og titla strax til þess að vaxa aftur.

 4. Money talks og það á vel við um þennan pistil!
  Virkilega vel sett upp Eyþór takk fyrir mig.

 5. # 4
  Áttum okkur á því hvar Man utd er og hvar Liverpool er.

  Já við erum ásamt þeim sigursælastir en hvenær var það?
  Það eru heilar kynslóðir að fæðast sem hafa bara séð Liverpool sem ágæt lið en ekki meistaralið.
  Man utd toppaði á hárréttum tíma þegar allt í einu fóru penningar að dælast inn í boltan á meðan að bestu ár Liverpool 70s og 80s voru penningar hluti af leiknum en ekki aðalatriðið.

  Við erum aldrei að fara að berjast við fyrirtækið Man utd í penningum í dag en við getum barist við þá inn á vellinum og við getum getum með góðum stjóra, skynsamri kaupstefnu og pínu heppni(allir þurfa svoleiðis) orðnir meistara, farið langt í evrópu og komið okkur að hlið Man utd aftur en eins og staðan er í dag er ekki hægt að bera okkur fjárhagslega saman við þá því miður.

 6. #2 – Hann rennur út 2018.

  #4 & 6 – Sammála því að við erum aldrei að fara berjast t.a.m. við Manchester United á jafnréttisgrundvelli. Það tekur fjöldmörg ár að vinna þennan mun upp og það verður aðeins gert með því að stimpla liðið inn sem meistaraefni ár eftir ár. Ekki sem klúbb sem missir oftar af Europa League heldur en ekki og, eins og Sigurður Einar bendir réttilega á, það er komin heil kynslóð sem hefur ekki upplifað Liverpool sem annað en miðjumoðsklúbb.

  Það sem er spennandi við framhaldið er að sjá hvaða stefni klúbburinn tekur undir stjórn Klopp. Hann er auðvitað bara búin að stýra Liverpool í gegnum eitt sumar en ég geri ráð fyrir því að hann fái talsvert svigrúm til að móta klúbbinn og kaupstefnu rétt eins og spilamennsku.

  Ég trúi. Gallinn er bara að ég hef trúað síðustu 20 ár og þau hafa verið fremur dræm þannig að vonin minnkar með hverju árinu sem við endum í 8 sæti og þetta verður alltaf erfiðara um leið.

  Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessi lokasprettur fer. Það að vinna sér inn CL þáttöku myndi breyta sumrinu algjörlega fyrir okkur, andanum í kringum félagið og öllu sem því tilheyrir.

 7. Virkilega góð lesning, og ánægður með þetta sérstaklega:

  “Það er svo auðvelt að gagnrýna Liverpool fyrir að eyða ekki nægilega miklu í leikmenn, greiða ekki samkeppnishæf laun eða að hafa ekki breiðari hóp og svo mætti áfram telja. Ef betur er að gáð þá er það mitt mat að kannski erum við bara ekki nægilega klókir…”

  Það er engum gerður greiði með því að fara í feluleik með þennan punkt. Rekstrarlega eru FSG skynsamir; hlífa klúbbnum við vaxtagreiðslum, stækka völlinn, fjárfesta í ungum leikmönnum og taka ákvarðanir sem munu a.m.k. ekki setja klúbbinn í sama ástand og þegar þeir tóku við honum. En það er langt frá því að veran nóg. Eins og þessi pistill sýnir þá er veltan hjá okkur að vaxa hægar en hjá þeim sem við erum að reyna að ná, meðan við erum að borga sambærileg eða hærri laun. Á sama tíma erum við að gera atlögu að titli c. 8 hvert ár.

  Með því að reka Rodgers fóru 3 ár af uppbyggingu fyrir lítið. Klopp lofar góðu en eins og tölurnar sýna þá erum við að biðja um ákveðið kraftaverk ef LFC á að vera í top 2-4 á næstu árum.

  Það sem ég vil sjá er að LFC hætti að selja sína bestu leikmenn – það er statement sem mun skila sér á fótboltavöllinn og þaðan í ársreikningana.

 8. #8 Sammála og sérstaklega þegar þú talar um að LFC hætti að selja bestu leikmenn sína.
  Hvaða leikrit verður núna sett upp í sumar sambandi við Coutinho til Barca það verður gaman að fylgjast með því.

 9. Frábær (en reyndar smá ömurlegur fyrir okkur) pistill.

  Þetta lyftir umræðu um leikmannakaup og fjármál Liverpool á annað level.

  Við tökum púlsinn á þessu með Eyþóri í Podcast þætti í kvöld.

 10. Lallana meiddur. Hefur sjaldan átt betur við að segja: Djöfulsins fokking fokk.

 11. Hvaða helvítis bull er þetta með landsliðsmennina okkar og koma meiddir tilbaka úr landsleikjahléum!!!!

  Lallana frá í 4 vikur segja þeir og missir líklega af 5-6 leikjum hjá liðinu. Alltaf þarf þetta samt að vera leikmenn sem eru að standa sig eða í góðu formi hjá liðinu.
  Ég veit að maður vill ekki að neinn meiðist en þarf það alltaf að vera leikmaðurinn sem er að standa sig hvað best.

  Við erum að fara í gegnum gríðarlega mikilvægt endasprett og erum með pínu lítin hóp.
  Sturridge alltaf meiddur, Henderson tæpur, Ings úr leik tímabilið, Brassarnir okkar að koma tilbaka rétt fyrir Everton leikinn(ef þeir meiðast ekki báðir í kvöld).

  Það eru sumir leikmenn mikilvægari en aðrir og tel ég Lallana einn sá mikilvægasta í liðinu og hefur hann líklega verið leikmaður tímabilsins þar sem af er.

 12. Hvernig er það eins og með Sturridge og Ings sem hafa spilað ca. 5 leiki síðastliðin 2 ár. Er Liverpool tryggt fyrir slíku eða þurfa menn bara að punga út 100.000 pundum á viku og take it up the ass.

 13. #13 pretty much LFC keypti þá og er að borga þeim laun hvort sem þeir eru meiddir eða ekki.
  Jæja another bites the dust og núna er það Lallana verður lengi frá segja þeir það mun ekki hjálpa en hey Henderson er að fara koma aftur eitthvað jákvætt allavega.

 14. Frábær blaðamennska í þessum tveimur pistlum. Þakka ykkur kop.is piltum fyrir ósérhlífið starf öll þessi ár.

 15. Þetta eru það góðar greinar að þær ættu skilið amk 200 athugasemdir og 2000 like. Takk fyrir mig.

 16. Frábærir pistlar.

  Mjög gaman að lesa þá og þeir setja alla umfjöllun um fjármál á annað level.

  Hlakka til að hlusta á podcastið.

  Takk fyrir mig.

Peningamál 2017

Podcast – Enginn árangur miðað við bókhald