Ó sú náð að eiga Klopp!

Viðvörun.

Hér á eftir fer lofsöngur að mestu byggður á tilfinningum og ekkert endilega rökvís á allan hátt. Ég veit að margir “jinx-hræddir” verða sennilega reiðir mér að skrifa þennan pistil hér eftir aðeins nokkrar umferðir á tímabili.

Þá það – ég ætla samt að skrifa hana því að ég get ekki alveg hamið mig af gleði yfir því sem birtist manni þessar vikurnar.

Ég veit það alveg að hollenskur fitnessþjálfari segir okkur að njóta tímans því um leið og leikjaálagið verður meira í vetur þá muni liðið okkar hrynja eins og flugur. Þá veit ég það líka að við eigum afskaplega kjánalega erfitt með að verjast föstum leikatriðum. Ekki síst veit ég það að uppáhaldsleikstaða mín á vellinum, sú sem kallar á það maður klæði sig í huggulega hanska, henni er deilt á milli tveggja markmanna sem virka ekki alveg í traustasta kantinum. Vel má vera að einhvern tímann í vetur verði eitthvað af þessu til þess að við vinnum ekki titil / titla á þessu tímabili.

Kveikjan að því að ég skrifa kom þegar ég hlustaði á Steve McManaman og Michael Owen í leikslok gærdagsins og þá sérstaklega setning sem McManaman setti út á öldur ljósvakans. Ég ætla að endurrita hana svona u.þ.b. eftir minni.

“Að mínu mati er þetta Liverpool lið ekki bara að vinna leiki. Þetta lið er að vinna með því að spila á þann hátt sem aðdáendur Liverpool FC geta verið stoltir af!”

Þetta finnst mér lykilatriði. Í heimi sem er fullur af fótbolta þá finnst mér undantekningalaust það eiga að vera fyrsta hugsun íþróttaliðs að gleðja aðdáendur sína. Við erum að eyða miklum tíma í þessa ástríðu okkar, mismikla peninga látum við í þetta en tíminn er dýrmætur. Það er auðvitað líka kveikja að þessum pistli að hafa horft upp á fótboltalið…frekar stórt nafn…mæta til leiks með það eitt að leiðarljósi að koma í veg fyrir að áhorfendur sjái eitt mark. Tókst það vissulega þá en um helgina voru vissulega ólík úrslit þessara tveggja liða.

klopparinnSvo ég hafi langlokuna ekki mikla þá finnst mér algerlega frábært að sjá eldmóðinn og ákefðina í okkar manni. Að sjá hann fagna mörkum með fólkinu á vellinum og faðma alla í leikslok er eitt, sjá varalestur þýskra blótsyrða í hita leiksins þegar hann hefði viljað fá betri útkomu sókna eða tryllinginn þegar menn virðast ekki vera að fara eftir fyrirmælum hans.

Hápressan í leik okkar er gígantísk. Hápressa er að verða lykilatriði í heimsfótbolta því þannig kreistirðu fram mistök í vel skipulögðum varnarliðum líkt og við sáum vel í öðru marki okkar í gær. Það er mantran í leik liðsins okkar og val í liðið út frá því virðist vera. Það er ástæða þess að “senterar” eins og Sturridge og Origi sitja á bekknum á meðan sóknarleikur okkur byggist á sóknartengilið og tveimur “framherjum”. Miðjumenn sem eru duglegir að loka svæðum þar fyrir aftan, bakverðir sem fara hátt. Vel má vera að við sjáum ekki hjá Klopparanum “squad-rotation” eins og þekkist hjá öðrum og auk þessara tveggja ofangreindur sjái menn eins og Ings, Grujic, Lucas og Klavan fáar mínútur – manni sýnist það allavega. Til þess að svona pressa virki þarf gríðarlega samæfingu og sameiginlega sýn sem er orðinn augljós hjá þeim sem helst spila leikina og því verður gaman að sjá “aukaleikarana” á þriðjudagskvöldið. Nú eru það video af okkar leik sem hægt er að nýta á æfingasvæðinu í stað klippa frá öðrum liðum.

Svo eftir að við skorum eitt mark – þá reynum við að skora annað. Endalaust rokk. Það sást heldur betur eftir að WBA minnkaði ósanngjarnt muninn. Einhver annar hefði mögulega lagst aftur og lokað. Ekki okkar maður fyrr en í uppbótartíma. Hann trúir á það að verjast framarlega á vellinum, vinna boltann áður en andstæðingurinn nær að verða hættulegur. WBA fékk ekkert færi til að jafna…við áttum að skora þriðja markið.

Þessi lífssýn Klopp og leikstíll veitir mér þvílíka gleði. Auðvitað vill maður vinna leiki og þiggur leiðinlegan 0-1 sigur oft í stað markajafntefla. Ég er hins vegar á sömu skoðun og þeir McManaman og Owen voru í gær, það eru forréttindi að vera viss um það að liðið manns veiti manni yfirleitt þá gleði að horfa á flottan fótbolta.

Saga Liverpool var því lengi samofin en við höfum vissulega þurft að horfa á stjóra laga sig að varnaráherslum alheimsfótboltans. Við fyrirgáfum Houllier það lengi vel vegna titlanna en gáfumst loks upp. Rafa var sigursæll og liðin hans upp á sitt besta massív með flottar sóknir en þegar hann var sviptur fjöðrunum var erfitt að vinna sig út úr því skipulagi. Botninum náðum við með ráðningu Hodgson og síðustu 13 mánuðir Rodgers var auglýsing fyrir varfærinn fótbolta sem gekk út á að halda boltanum…ekkert endilega sækja.

heavymetalSem sést á mörgum bæjum þessi misserin.

En ekki á Anfield. Þar þrífst nú sá “heavy metal” fótbolti sem mig dreymdi um þegar hlæjandi Klopp mætti til leiks. Ég efa það ekki að hann mun gera mistök og það er ekkert sjálfgefið að hann raði til okkar endalausu bikarasafni.

Það er samt eitthvað að bruggast í bakheilanum, eitthvað sem segir manni að missa helst ekki af mínútu af leikjum okkar, eitthvað sem fær mann til að lesa öll komment frá honum…eða bara um hann. Hrós hans um stemminguna á Anfield núna um helgina bar enn vott um hvað hann er að átta sig á þeim risa sem hann nú stýrir og þeirri orku sem hann getur sótt í áhangendurna. Hann er með plan.

Hann bað um trú. Það er löngu klárt að hún er í blússandi gangi hjá mér þrátt fyrir alls konar efasemdir og möguleika.

Ég fullyrði það að ansi mörg lið á heimsvísu gæfu mikið fyrir að eiga hann sem stjóra…en við eigum hann – þvílík náð!

17 Comments

 1. McManaman hittir naglann á höfuðið og þú sömuleiðis, nafni.

  Þvílíka gleðina að eiga ‘ligeglad’ þjálfara sem veigrar sér ekki að fagna með fólkinu á gólfinu á meðan aðrir sitja uppi með fúlan ManU-Móra sem kann ekki einu sinni að tapa með sæmd…

  YNWA!

 2. Magnús Viðar. “Ligeglad” á dönsku þýðir að vera alveg sama. Don’t give a fuck. Indifferent. Það á ekki við um Klopp.

 3. Sindri; þetta er innan quotation-merkja og að vera indifferent eða don’t give a fuck á svo sannarlega við um Klopp þegar það kemur að hans nálgun um hvað öðrum finnst. Ekki sjáum við við Klopp taka einræður á aðra þjálfara líkt og ManU-Móri af því honum er sama. Af hverju er honum sama? Það er af því hann veit hvað hann er að gera og gerir það með stæl og er sama hvað öðrum finnst, sbr. að vera ‘ligeglad’.

  Þessi heavy-metal-bolti er eitthvað sem maður eiginlega er agndofa yfir. Hápressa sem sjálfur Svarthöfði væri stoltur af og fyrir mig persónulega þá fannst mér hugarfarið sjást best í leiknum á móti ManU. Þar voru menn að berjast á fullu og voru ekki að væla heldur keyrðu áfram og voru ekkert að hangsa.

  Megi þetta halda sem lengst áfram og marka upphafið að nýju afrekstímabili í sögu Liverpool.

 4. pep er að hiksta því hann er ekki búinn að manna sig eins og hann vill. jurgen er m forskot hvað það varðar en dugar það?

 5. Skemmtileg lesning og sammála hverju orði. Klopp er sniðinn fyrir Liverpool og það er ekki annað hægt en að elska þennan mann.

 6. Það á að gleyma sér í gleðinni… 🙂 Tek undir hvert orð í frábærum pistli meistari Maggi!

  YNWA .. Rock on Klopp…

 7. Ferguson var nú heldur ekkert glaður fyrir hönd andstæðinga LFC þegar Klopp var ráðinn, var það? Honum fannst þetta nú heldur betur góður díll fyrir Liverpool.

 8. Þetta er nákvæmlega það sem hefur verið að brjótast um í heilabúinu.
  Það er “langt” síðan að manni hlakkaði jafn mikið til að horfa á leiki hjá okkar mönnum og að sjá leikgleðina hjá flestum.
  Menn eru að taka tæklingar á miðjum vallarhelmingi andstæðingsins og gefa hvor örðum fimmu fyrir hörku og að vinna boltan hátt. Klopp tekur stökk og boxar útí loftið þegar að menn eru “stuck in”. Þessi tegund af spili og leik er nákvæmlega það sem stuðningsmenn annara liða eru að tala um og halda að þetta eigi eftir að fara langleiðina að titli.

  Klopp er ekki að bauna á dómarann né leikmenn eða þjálfara andstæðinganna, ef það fer eitthvað úrskeiðis er það innanbúðar og það er reynt að laga það.

  Eina sem angrar mig þetta tímabilið er að það er bara ekki nóg af leikjum hjá okkar mönnum til þess að horfa á 😉
  En samt skrifar maður það í dagbókina sína að það er leikur þennan dag, kl þetta og það er allt “must see” leikir.

  Verður gaman að lesa hvað Jinx liðið segir í þessum þræði en þetta er nákvæmlega það sem stuðningsmenn annarra liða óttuðust þegar að Liverpool landaði Jurgen Klopp.

  YNWA – In Klopp we trust!

 9. Þegar Mourinho hefur ekkert slæmt um mann að segja fyrir leik….þá verður maður kjaftstopp sjálfur…vel gert Kloppmeister!

 10. Mér finnst einmitt Karius lykilmaður í þessu uppleggi liðsins. Að sækja endalaust og gjörsamlega drepa andstæðinginn með hápressu.

  Flæðið í öftustu línu hefur gjörbreyst eftir að hann kom inn í liðið. Hann er eldfljótur að koma boltanum í leik þegar hann fær hann í hendurnar og líka þegar hann fær hann í lappirnar. Hann stoppar boltann aldrei, heldur kemur honum á næsta mann í fyrstu snertingu. Þannig er liðið mun sneggra að koma með næstu bylgju.

  Auðvitað hefur ein og ein sending farið í innkast en það er aukaatriði finnst mér.

  Hann á bara eftir að verða betri.

 11. Sælir félagar

  Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta Maggi, minn gamli drengur, og ég hefi ekki áhyggjur af jinxurunum því hverju breytir gleði okkar hér uppi á klakanum hernig liðið spilar og árangri þess. Eini maðurinn sem getur breytt því hefir þegar breytt því sem hann vildi breyta og það er mögnuð breyting. Takk fyrir Jurgen Klopp.

  Það er nú þannig

  YNWA

 12. Sæl öll….

  Ekkert sagt í þessum pistli sem við hin hugsum ekki…Klopp er okkar Klopp og við elskum hann öll. Fótboltinn sem hann lætur strákana spila er þannig að maður er næstum farin að hlaupa með heima í stofu bara til að vera með. Maður þorir ekki að hugsa þá hugsun til enda hvað gerist? Sama hvernig fer þetta er svo skemmtilegt að horfa á liðið spila að ég er næstum farin að horfa á endursýningar á leikjum bara til að njóta.
  Ég sem trúði ekki á Klopp TRÚI núna öllu sem hann segir og öllu sem hann gerir. Ef hann bæði okkur stuðningsmenn um að horfa á leikinn á sundfötum myndi ég gera það því það virkar bara allt sem hann biður um.
  Kæru vinur nú er komin tími til að trúa,njóta og gleðjast…þegar/ef slæmur leikur kemur þá er það bara allt í lagi við getum þá bara skoðað endursýningar af góðum leik og fundið gleðina aftur.
  Ég hlakka mikið til að fara á heavy metal fótboltaleik í vor og njóta…

  Þangað til næst
  YNWA

 13. Njótum þess núna. Munum því miður dala eftir því sem líður á tímabilið. Yrði samt mjög sáttur við 6-7 sætið. Yrði leiðinlegt að enda neðar. Erum að spila vel núna og njótum þess í botn.

 14. Fyrirgefðu Magnús, #1 og #3. Skil hvað þú meinar “Ligeglad” kommentið mitt var óþarfi. 100% sammála þér og greinahöfundi um Klopp. Ó þá náð að eiga Klopp.

 15. Blessaður vertu, Sindri, þetta er ekkert mál, ég hefði átt að vera skýrari í fyrsta innlegginu. Maður er bara svo uppveðraður af gleði og hamingju þessa dagana … og svo tók ‘varaliðið’ okkar Tottenham í gær með stæl, what a time to be alive 😀

Liverpool – WBA 2-1 (Skýrsla)

Bikarbrölt á Anfield