Fulham á morgun

Það er svo langt á milli leikja að þetta jaðrar við að vera landsleikjahlé í hverri viku. Þetta er ekki flókið, við þurfum að fara að drullast til að komast í Evrópukeppni aftur, ég bara get þetta ekki lengur. Ég hef verið greindur með alvarlegt fótboltahungur á háu stigi, og nei, að horfa á einhver önnur lið hefur ekki tilætluð áhrif, ekki frekar en að það að horfa á landsleiki láti manni leiðast eitthvað minna í landsleikjahléum. Þú hendir ekki bara einni parkódín töflu í hvern sjúkling, það þarf að láta hann hafa rétt meðöl. En hvað um það, leggjumst ekki í neitt þunglyndi yfir þessu, það er jú leikur á morgun (ræðum samt ekki hvað gerist eftir helgina).

Fulham mæta til Mekka fótboltans, Anfield, á morgun og hefst leikurinn klukkan 15:00. Þetta Fulham lið hefur verið svona klóraséríhausnum lið í langan tíma. Maður veit hreinlega ekki hverju sinni hvort þeir eru að spila yfir getu og væntingum, eða undir. Þeir eru bara svona mehhh lið, þið vitið hvað ég meina. Þeir hafa samt klárlega ekki farið neitt ferlega vel af stað á þessu tímabili, aðeins fengið 10 stig úr fyrstu 10 leikjunum og bara tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Þeir hafa aftur á móti ekkert verið neitt sérlega mikið fyrir það að gefa okkar mönnum kost á að skora í markið hjá sér á Anfield undanfarin ár, en þeir hafa haldið þrisvar hreinu af síðustu fimm leikjum þar. Ekkert voðalega spennandi tölfræði það. En eins og svo oft áður, þá vinnur fortíðin ekki leiki, ekki heldur einhverjir stafir prentaðir á pappír eða á veraldarvefinn, í rauninni alveg sama þótt þú skreytir blaðið með glimmeri eða einhverjum fínheitum, það eru þessir gaurar á ofurlaunum sem spila leikina, sem ákvarða það hvort liðið vinnur (já, dómarar eru líka á ofurlaunum, sér í lagi sumir ef mið er tekið af frammistöðum).

Fulham hafa þó alveg fílað það ágætlega að leka mörkum á þessu tímabili, hafa fengið heil 15 á sig, en hafa ekki verið jafn spenntir fyrir því að setja boltann í netið á hinum enda vallarins. Eftir flókna og erfiða útreikninga þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þeir hafi skorað að meðaltali nákvæmlega c.a. 1,0 mark í leik. Þeir Darren Bent, Steve Sidwell og Pajtim Kasami eru lang markahæstir hjá þeim með 2 mörk hver, en aðrir eru með minna. Það er líka talsvert fróðlegt að sjá að 4 af þessum 10 mörkum þeirra hafa komið í leiknum gegn Crystal Palace og um þá þarf nú ekki að hafa mörg orð, enda sérlega miklir áhugamenn um að fá á sig mörk í bunkum.

Það er nú samt engu að síður svo að þetta Fulham lið er með slatta af fínum fótboltamönnum og ég myndi seint flokka þetta lið sem eitt af þeim allra slökustu í deildinni, þó svo að þeir fari heldur ekkert í neinn ofurflokk heldur. Þeir eru komnir með hollenska landsliðsmarkvörðinn Stekelenburg og í vörninni hefur Brede Hangeland verið öflugur fyrir þá síðustu árin. Sascha Riether hefur verið ansi öflugur líka, eiginlega bara virkilega góður, en hann verður fjarri góðu gamni á morgun þar sem hann tekur út fyrsta leikinn sinn í leikbanni fyrir það eitt að stíga full hraustlega til jarðar. Aðeins framar á vellinum hafa þeir svo menn eins og Sidwell, Kasami, Kacaniklic, Karagounis, Damien Duff, Taarabt, Boateng og Scott Parker. Fullt af frambærilegum leikmönnum og svo frammi eru þeir með fínan mannskap líka í þeim Berbatov, Bryan Ruiz, Darren Bent og Rodallega (sem er reyndar meiddur). Það er því alveg ljóst mál að menn verða að mæta af fullu afli í svona leiki til að næla í stigin þrjú sem í boði eru.

En þá að okkar mönnum. Aðeins þeir Aspas og Coates eru pottþétt fjarverandi, þar sem Enrique er víst mjög nálægt því að vera orðinn heill heilsu á nýjan leik. Við ættum því í fyrsta skipti á þessari leiktíð að hafa úr að moða okkar sterkustu mönnum úr að moða. Þá er það auðvitað spurningin sem brennur á flestum, hvernig ætlar Brendan Rodgers að stilla liðinu upp? Ætlar hann sér að halda sig við þriggja miðvarða kerfið sitt? Ætlar hann að reyna að koma Coutinho inn í þetta kerfi sitt eða einfaldlega að breyta um kerfi? Brendan fór meira í 4-4-2 eftir að Coutinho kom inná í síðasta leik. Ég verð að viðurkenna það að ég er á mörgum áttum þegar kemur að því að reyna að rýna í þetta hjá Rodgers. Ég er skíthræddur við að taka Henderson út fyrir Coutinho upp á yfirferð og varnarleikinn að gera, þó auðvitað sé það ferlega spennandi sóknarlega séð. Ekki fer hann að hrófla við Gerrard og Lucas inni á miðjunni, svo mikið er víst. Ég bara hreinlega veit ekki hvernig þetta verður, en þar sem maður þarf að giska, þá ætla ég að giska á að þetta verði einhvern veginn svona.

Mignolet í markinu (hakan í gólfið) og Glen kemur inn í hægri bakvörðinn. Kolo og Agger munu verða miðverðir og Sakho verður vinstri bakvörður. Gerrard og Lucas verða aftarlega á miðunni, með Suárez þar fyrir framan og þeir Coutinho og Moses verða á köntunum. Frammi verður svo Sturridge. Samt er ég nokkurn veginn viss um að Hendo verði í byrjunarliðinu og þá líklegast á kostnað Moses, en ég ætla samt að stilla þessu svona upp, enda erum við á Anfield. Bara keyra yfir þetta lið, pressa þá hátt þegar við missum boltann og gefa þeim engan grið, klára þá snöggt, enda er það hrein og klár mannvonska að kvelja andstæðing sinn, svo ég tali nú ekki um stuðningsmenn sína. Höfum þetta svona:

Mignolet

Johnson – Kolo – Agger – Sakho
Gerrard – Lucas
Moses – Suárez – Coutinho
Sturridge

Bekkur: Jones, Cissokho, Kelly, Skrtel, Allen, Henderson, Sterling.

En þetta gæti líka verið svona, og kannski er það bara örlítið líklegra:

Mignolet

Touré – Agger – Sakho
Johnson – Gerrard – Lucas – Cissokho
Coutinho
Suarez – Sturridge

Bekkur: Jones, Skrtel, Kelly, Allen, Henderson, Sterling, Moses.

Já, þetta er ekkert annað en skyldusigur, ekki flókið. Ef við ætlum okkur að vera þarna við toppinn, sér í lagi þegar prógrammið byrjar að þyngjast verulega í desember, þá þarf að ná í öll stigin sem í boði eru í þessum leikjum. Það eru það mikil gæði í þessu liði okkar að við eigum að geta gert kröfu á sigur í svona leikjum. Auðvitað verður að bera virðingu fyrir andstæðingnum, enda gæti annars farið illa. En þetta er EPL og menn vita það alveg að þar geta allir unnið alla á góðum degi, þannig að vanmat eða slíkt á bara ekki að vera til í orðabókinni. Við erum með landsliðsmenn í öllum stöðum á vellinum, sem og á bekknum. Nú þarf að rífa sig upp eftir svekkjandi tap gegn Arsenal og halda áfram veginn og fara inn í eitt helv… landsleikjahléið í viðbót með sigur í farteskinu, náum þessu blessaða öðru sæti á nýjan leik.

Ég ætla að spá því að við vinnum þennan leik nokkuð sannfærandi, höldum hreinu og setjum þrjú kvikindi á hinum endanum. Stevie setur eitt úr víti, Luis skorar svo hin 2. Er fólkið ekki bara sátt við það? (svar óskast á telefaxi eða í kommentakerfinu)

25 Comments

  1. Glæsileg upphitun að vanda. Það yrði afrek að tapa fyrir þessu Fulham liði. Veðja á að Martin Jol verði næsti stjóri til að fjúka ásamt Ian Holloway hjá Crystal Palace.
    Hann hefur verið að nota Bryan Ruiz og Dimitar Berbatov á sama tíma. Þeir sem þekkja þá leikmenn vita að þeirra framlag til varnarleiksins er ekki upp á neina fiska. Lið eins og Fulham sem berst í neðri hluta deildarinnar hefur ekki efni á svoleiðis dúkkulísum. Ég vona samt að Jol þrjóskist til að nota þá enn einu sinni enn og tapi illa gegn okkur.

    Ég spái 4-0 sigri og vona að Jordon Ibe fái tækifæri í leiknum. Þá væri gaman að sjá fyrirliðann hvíldann svona til tilbreytingar. YNWA

  2. Þurfum að vinna með tveimur fleiri mörkum en Chelsea vinnur WBA (ef svo fer) til að komast upp í annað sætið fyrir landsleikjahléið, fer ekki fram á meira 🙂

  3. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun SSteinn og ég er sammála því að þetta á að vera skylduusigur. Það þarf ekki endilega að þýða að leikurinn verði auðveldur og án fyrirhafnar. Nei fjarri því. En samt – Fulham á ekki að verða óyfirstíganlegur þröskuldur.

    Á heimavelli okkar magnaða liðs á ekki að stilla upp varnarliði. Ég er því nokkuð sammála upphituninni um uppstillinguna (þá seinni) sem ég held að verði raunin. Það er alveg sama við hverja er að eiga, við eigum alltaf og án undantekninga að spila til sigurs á Anfield. Sú held ég að verði raunin og því spái ég (svolítið óvænt að vísu) 3 – 1 sigri okkar manna.

    Það er nú þannig

  4. Afh er Skrtel á bekknum hjá þér hann lék betur en hinir varnarmennirnir á móti arsenal og búinn að vera góður í þeim leikjum sem hann hefur spilað

  5. Bara eitt atriði sem ég set spurningamerki við hjá þér varðandi byrjunarliðið og þá kröfu (þína 🙂 ) að við pressum þá hátt uppi. Hef ekki betur séð í þeim leikjum sem við höfum verið að pressa andstæðingana hátt uppi á velli og vinna boltan af þeim að þar leiki Henderson nánast lykilhlutverk. Afhverju??? Jú vinnslan og hlaupageta hans er sú langmesta hjá okkar miðjumönnum og hann hefur oft gert þetta mjög vel. Held að ef hann er ekki á miðjunni hjá okkur að þá eigi þetta eftir að verða lítil pressa á öftustu línu Fulham.

    En já, algjör skyldusigur, held að það sé ekki spurning að hann reyni að setja Coutinho í liðið. Held að hann spili 4-4-2 með Hendo, Gerrard, Lucas og Coutinho á miðjunni og SAS frammi. Johnson, Skrölti, Toure og Sakho í vörninni.

  6. Það er bara gaman að sja að það se kominn sma samkeppni um þetta byrjunarlið og leikmenn ein og Henderson gætu att a hættu að detta ut, þo finnst mer það slæmt þar sem að hann hefur leikið betur en bæði Gerrard og Lucas, sem mer finnst að eigi að vera a bekknum i þessum leik.
    Eg vil sja Rodgers blasa til soknar i þessum leik og hafa þetta 4-2-3-1 þar sem að eg tel það vera rugl að spila með 3 miðverði a moti svona liði a Anfield.
    Spai þessu 3-0 sigri þar sem að Hendo, Suarez og Johnson skora mörkin fyrir okkur.

  7. Ég get mögulega verið sammála fyrri uppstillingunni hjá þér SSteinn en ef hann ætlar að spila með þriggja manna varnarlínu finnst mér að Lucas ætti að fá að sitja á bekknum þennan leik. Ég sé ekki hvað við höfum að gera með 3 miðverði og varnarsinnaðan miðjumann gegn Berbatov. Ég hefði viljað hafa þetta 3-5-2 þar sem Toure, Sakho og Skrtel eru í miðverði. Svo vil ég Johnson og helst Enrique í bakvarðarstöðunum. Svo vil ég sjá Henderson, Gerrard og Coutinho á miðjunni með Sturridge og Suarez fremsta.

    Ég er alls ekki sammála að það megi ekki hrókera við Gerrard og Lucas. Ég hef ekki verið sérlega heillaður af þeirra spilamennsku ef litið er yfir þessa fyrstu leiki. Mér finnst ekkert að því að prófa að taka varnarsinnaðan miðjumann út fyrir léttleikandi miðjumann eins og Henderson og láta Coutinho vera svo fyrir aftan SAS.

    En þetta er lið sem Liverpool á virkilega að vinna og spái ég 3-1 sigri þar sem við skorum fyrstu þrjú mörkin og þeir setja svo eitt þar sem við slökum of mikið á. Coutinho skorar eitt, Suarez eitt og Sturridge eitt.

  8. Veit einhver um góðan stað í Køben til að horfa á leikin? Annars er mér sama um uppstillingu liðsins þetta verður rúst 5-0 fyrir okkur

  9. Afhverju í ósköpunum ætti Skrtel að fara á bekkinn þegar hann hefur verið að spila mun betur en Toure og Sakho undan farið. Kjánalegt að setja hann á bekkinn hér!

  10. Flott og góð upphitun.

    Tek undir með þeim sem nefna Skrtel, sé enga àstæðu til að taka hann úr liðinu þar sem hann hefur verið hvað mest solid hjà okkur það sem af er tímabils. Þetta er einn af þeim leikjum sem verður að vinnast, erum að spila við “lala” lið sem er í hópi þeirra liða sem er lykilatriði að vinna ef Liverpool FC ætlar í CL à næsta àri. Sigrar í svona leikjum eins og à morgun munu koma LFC þangað, það er bara þannig. Ef það gengur eftir skiptir ekki höfuð màli þó við töpum fyrir t.d. Arsenal à útivelli eða gerum jafntefli við Man City heima o.s .frv. Þetta verður solid 3-0, Suarez með þrennu…. Jà og vil halda Hendo inni, hann à það skilið fyrir þà vinnu sem hann framleiðir fyrir liðið – flottur í pressuni, sem þarf einmitt að vera til staðar à morgun..

  11. Ég spái því að það verði spilað 4-2-3-1 á morgun með Skrtel og Agger í hafsentum. Agger á skilð að fá sénsinn og Skrtel á minnst skilið að detta út.

  12. Er ekki kominn tími til að hvíla Lucas. Hann er bara alltof hægur inná miðsvæðinu. Það sást í leiknum við Arsenal.

  13. SSTEINN. Á að vera skyldusigur en fulham eru komnir upp að vegg. Ef þeir fá ekki úrslit í þessum leik þá eru “Jólin” rekinn og koma ekki í bráð hjá fulham.

    Þeir eru samt með góða knattspyrnumenn eins og berba og hangeland og fleiri. Mér finnst þetta lið hafa verið að spila undir getu undanfarið og ég vona að það fari ekki að breytast á Anfield, en þó svo þeir myndu spila yfir getu eigum við samt að vinna þá. Síðasti þráður hér var um væntingar okkar til LFC. Ég er af þeirri kynslóð að ég var vanur því að við værum í topp 2, titlar á hverju tímabili, yndislegt að horfa á DAGLISH,BARNES,BEARDSLEY og ég gæti talið svona upp í allan dag og nótt. Mínar væntingar eru að LIVERPOOL vinni svona lið eins og fulham 6-0, á heimavelli sama þó þeir séu í fallbaráttu eða ekki.

    Mínar væntingar eru titill, og topp 4. og að vinna lið eins og fulham á heimavelli, og að eigendur standi ALMENNILEGA við bakið á BR. blaðri ekki bara í pressunni.

    KOMA SVO, rúlla yfir þetta lið.

  14. Fyrir áhugasama þá verð ég í fótboltaspjalli í þætti Fótbolta.net á X-inu 97.7 kl. 12:30 á eftir. Mun ræða málin við Newcastle-mann og tvo spjallþáttastjórnendur.

    Svo verðum við Kop.is-gengið á SPOT í dag að horfa á leikinn ef einhver vill kasta kveðju á okkur. Leikskýrslan kemur aðeins í seinna fallinu inn eftir leik þar sem við erum allir á pöbbnum, vonandi verður það fyrirgefið.

    3-0 sigur í dag og málið er dautt. 🙂

  15. Sælir. Vitið þið hvar hægt sé að hala niður heilum leikjum? Missi af leiknum og vil helst sjá hann án þess að ég viti úrslitin.

  16. Hef enga trú á því að Skrtel sé að fara á bekkinn í dag…hann er búinn að vera betri en Toure í síðustu leikjum. Kæmi mér allavega á óvart.

  17. mín skoðun er sú að við eigum að hvíla Gerrard í dag.mér fannst hann ekki góður í síðasta leik og mer fannst hann virka frekar gamall síðustu 10-15 mín og þreyttur að sjá. hefur reyndar að mínu mati verið frekar slakur það sem af er tímabili.menn tala her inni um að það þurfi að vera samkeppni um stöður.er eh að veita Gerrard keppni?ef að Rodgers getur ekki leyft sér að hvíla kappann af og til og sérstaklega í heimaleikjum á móti liðum sem við teljum að séu lakari,þá erum við einfaldlega í ekki nógu góðum málum.hvað með Allen,er hann virkilega svo slakur að það sé ekkert hægt að nota´nn?

  18. Sælir félagar

    Er búinn að tjá mig um leikinn sem fer óvænt 3 – 1 og ekki orð um það meir.

    Hitt er annað að ég er ekki að fíla þetta nýja kommenta-kerfis-útlit. Það eru engin númer á kommentum þannig að þegar maður kíkir inn og les þá þarf maður að leita hvar maður endaði síðast í stað þess að muna númer hvar maður endaði síðast. Nöfn þeirra sem tjá sig eru smá og daufgerð og þetta er eitthvað svo sviplaust og dauft og ég er eitthvað svo ókátur með þetta og allt er eitthvað svo leiðinlegt því liðið mitt spilar svo sjaldan og svo missi ég af leiknum í dag og allt.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  19. Byrjunarlið: Mignolet, Johnson, Skrtel, Agger, Cissokho, Lucas, Gerrard, Henderson, Coutinho, Suarez, Sturridge

    Bekkur: Jones, Enrique, Alberto, Moses, Sakho, Allen, Sterling

  20. Byrjunarliði komið og nokkuð ljóst að við erum að fara í 4 manna vörn aftur.

    Liverpool: Mignolet, Johnson, Skrtel, Agger, Cissokho, Lucas, Gerrard, Henderson, Coutinho, Suarez, Sturridge

    Bekkur: Jones, Enrique, Alberto, Moses, Sakho, Allen, Sterling

    Lýst ágætlega á, kemur kannski örlítið á óvart að hann skuli byrja með Agger og Skrtel saman. Og enginn Toure í hóp?

Opin umræða: Suarez og Meistaradeildin

Liðið gegn Fulham