Hver er besta staða Gerrard?

Árið 2000 fór ég til Kaupmannahafnar á úrslitaleik UEFA Cup þar sem Arsenal tók á móti Galatasaray. Fyrirliði Tyrkjana og óumdeildur konungur liðsins var Gheorghe Hagi,  hann var potturinn og pannan í þeirra spili og spilaði gjörsamlega free role þar sem hann var baneitraður fram á við og gerði álíka mikið gagn og Matt Le Tissier í varnarleiknum. Hann var 35 ára á þessum tíma og ennþá langbestur. Hann var meira trúarbrögð hjá stuðningsmönnum Gala frekar en leikmaður.

Liverpool á leikmann sem hægt væri nota á ekki svo ósvipaðan hátt næstu árin, það sem meira er þá hefur hann aldrei spilað betur heldur en akkurat í þessu hlutverki og lýsingin á honum er ekki það ósvipuð Hagi. Þeir sem eru í kringum hann spila líka betur þegar hann fær þetta hlutverk alveg eins og með Hagi.

Mín skoðun er sú að Steven Gerrard hefur ekki verið notaður rétt undanfarin ár og nú þegar Coutinho er meiddur gæti ekki verið augljósara hvernig eigi að leysa vandann enda eigum við (að mínu mati) betri leikmann nú þegar í þessa stöðu.

Ég er búinn að reyna það í nokkur ár að fíla Gerrard á miðri miðjunni hjá okkur og er alls ekki að gera lítið úr honum þar, hann er oftar en ekki meðal okkar bestu leikmanna og einn besti miðjumaðurinn í enska boltanum. Það sem fer í taugarnar á mér er að þetta er bara ekki hans besta staða og við eigum leikmenn í hópnum nú þegar sem passa betur í þessa stöðu á miðri miðjunni.

Gerrard á að vera í grend við markið, fremstur á miðjunni og núna þegar aldurinn færist yfir með aðeins minna hlutverk varnarlega. Þar er hann einn sá besti í boltanum. Sá leikmaður skilaði okkur meistaradeild Evrópu, bikar ári seinna og kom okkur aftur í úrslit meistaradeildarinnar árið þar á eftir.

Ég veit fullvel að Gerrard er ekki að fara spila af sama krafti aftur og hann gerði þá en ég fer ekkert af ofan af því að þetta sé það hlutverk sem eigi best við hann. Að nota hann sem varnarsinnaðan á miðjunnu er sóun á hæfileikum og hann er að mínu mati ekki þessi leikstjórnanda týpa sem tekur yfir leiki og stjórnar tempóinu. Hann hefur aldrei verið það. Álagið á honum í núverandi hlutverki er engu minna en t.d. Coutinho og öfugt við t.d. Hagi (og Le Tissier) er Gerrard alls ekkert gagnslaus varnarlega.

Rodgers er ekki að leggja leikinn upp alveg eins og Benitez gerði (mjög svipað þó) en ef við bara skoðum miðjuna hjá okkur þessa fyrstu leiki þá eru líklega fáir að hlaupa meira en Lucas og Gerrard og álagið á þeim er mun meira en Coutinho. Lucas og Gerrard virðast alveg vera bensínlausir í seinni hálfleik á öllum leikjum Liverpool í ár og alltaf undirmannaðir á miðjunni. Við hættum alveg að stjórna spilinu og eins og sást gegn Swansea bjóðum hættunni heim. Jonjo Shelvey sem var að spila sama hlutverk hjá þeim og Gerrard hjá okkur fannst mér sjá allt of mikið af boltanum t.a.m. sérstaklega m.v. á móti hverjum hann var að spila á miðsvæðinu.

Eins og Coutinho hefur byrjað þetta tímabil er ég á því að Gerrard væri bestur í holunni hvort sem Coutinho er heill eða ekki. Hann gæti þá farið út á vænginn og þeir róterað á meðan leik stendur. En núna þegar Coutinho er meiddur sé ég enginn fyrir mér koma þarna inn og gera betur en Gerrard. Við vorum að nota Aspas í síðasta leik sem ætti að styðja mitt mál.

Hinsvegar eigum við þrjá leikmenn sem geta spilað á miðri miðjunni með Lucas og bæði stjórnað tempóinu og unnið skítavinnuna sem Gerrard er að vinna í dag. Joe Allen væri fyrir mér augljós kostur og ef hann kemur ekki inn núna á hann ekki framtíð fyrir sér á Anfield (gefið að hann sé heill). Hann spilaði þessa stöðu hjá Swansea og var keyptur til Liverpool sem gríðarlega spennandi leikmaður í nákvæmlega þetta hlutverk.

Jordan Henderson væri annar kostur og hann hefur kraftinn í að spila þanra á miðjunni, mun frekar en 33 ára Gerrard. Henderson var miðjumaður hjá Sunderland og hefur spilað þessa stöðu með landsliðinu þar sem hann er fyrirliði. Versta við Henderson er að við megum ekki við því að missa hann af kantinum núna og að því leiti söknum við Stewart Downing. Hann var sá eini sem gat skilað þessari vinnu varnarlega sem Henderson er að gera núna. Stewart Downing var svolítið sökudólgurinn hjá okkur undanfarin ár og ég ætla ekkert að fara halda því fram að ég hafi verið mikill aðdáandi hans en hann var að skila vanþakklátu og mikilvægi hlutverki á seinni hluta síðasta tímabils sem Henderson er að skila núna. Ekki gleyma því að okkur gekk alveg ágætlega á þessum tíma. Ágætt dæmi um að þú veist ekki hvað þú hefur átt fyrr en misst hefur.

Þriðji kosturinn væri svo Luis Alberto sem hefur undantekningalaust komið á miðja miðjuna þegar hann fær tækifæri frekar en í holunni eins og maður hélt að hann myndi spila. Sá strákur er auðvitað óskrifað blað ennþá en einhver er ástæðan fyrir því að hann var keyptur á sæmilega upphæð og Jonjo Shelvey látinn fara. Liðið er ekki það vel mannað á miðjunni að þessi strákur sé ekki að fara fá séns í vetur og það jafnvel tölvert mikinn séns.

Eftir leikinn um helgina kemur svo Suarez inn og margir sjá hann fara beint í þessa stöðu fyrir aftan Sturridge. Líklega er mikið til í því en við vitum það líklega öll að Suarez er ekkert að fara spila í holunni heldur væri þetta þá mun frekar 4-4-2 heldur en 4-2-3-1…og ég hata 4-4-2 kerfið.

Miðjan væri með þessu ennþá berskjaldaðari heldur en hún hefur verið og ég óttast að innkoma Aspas um helgina sýni ágætlega hversu illa hægt yrði að yfirmanna okkur á miðsvæðinu. Swansea tók kantmann útaf í hálfleik og setti mann inná sem dregur sig mikið meira inn á miðsvæðið. Þeir tóku gjörsamlega öll völd á vellinum og bættu töluvert í þegar Coutinho fór útaf og Aspas (ennþá sókndjarfari) leikmaður kom inná. Með þessu voru öll tengsl við Sturridge rofinn og hann var bara áhorfandi í seinni hálfleik. Ég bara man varla eftir hálfleik sem öskraði meira á miðjumann fyrir sóknarmann eins og seinni hálfleikur gegn Swansea.

Steven Gerrard hefur alltaf viljað spila á miðri miðjunni en var oftar en ekki nýttur annarsstaðar þar sem hann er svo góður og kraftmikill að hann skilar góðu verki hvar sem er. Persónulega held ég að það sé engin tilviljun að hann spilaði aldrei betur heldur en undir stjórn Benitez þegar hann hafði menn eins og Macsherano og Alonso yfir aftan sig. Hvort sem hann var í holunni eða í frjálsu hlutverki út frá hægri vængnum.

Hodgson henti honum á miðja miðjuna og lagði svo upp með að sparka boltanum bara yfir hann, áhrif Gerrard hurfu bara undir stjórn Hodgson sem þó er að nýta hann betur hjá landsliðinu núna og byggir leik liðsins upp í kringum hann. Það gengur ágætlega og Gerrard er jafnan bestur í landsliðinu en guð minn góður hvað við værum orðin geðveik (aftur) ef Liverpool væri að spila eins og enska landsliðið.

Dalglish var ef ég man rétt svolítið að nota Adam með Lucas á miðjunni og Gerrard fyrir framan en það kom lítil reynsla á það vegna meiðsla. Gleymist svolítið að bæði Adam og Liverpool voru að spila ágætlega þangað til Lucas meiddist, þá hrundi leikur liðsins. Gerrard fór t.a.m. aftar á miðjuna.

Núna er því spurning hvort Rodgers hafi bein í nefinu til að færa Gerrard úr hans uppáhalds stöðu. Ég leyfi mér að efast um að liðið sé að spila þann bolta sem Rodgers vill spila, jafnvel þó liðið sé núna taplaust í efsta sæti og ég held að Gerrard sé stærsta “vandamálið” hvað þetta varðar. Joe Allen sem Rodgers keypti á 15m.pund gjörsamlega í þetta hlutverk kemst varla í liðið og ef hann gerir það spilar hann ekki sína bestu stöðu, Gerrard er í henni.

Mögulega er ég alveg út á túni með þessar pælingar mínar og er að misskilja rosalega mikilvægi Gerrard á miðjunni. En það breytir því ekki að mér hefur alls ekki fundist þetta sannfærandi og hef svosem sagt það eftir hvern leik.

Þegar Benitez var með liðið spilaði Gerrard aldrei þessa uppáhalds stöðu sína heldur var hann alltaf framar á vellinum. Hann skoraði 13 mörk 04/05, 23 mörk 05/06, 11 mörk 06/07, 21 mark 07/08, 24 mörk 08/09 og 12 mörk 09/10. Hann hefur aldrei hvorki fyrr né síðar skorað meira en 10 mörk undir öðrum stjóra og samt tekur hann víti og aukaspyrnur.

Þá er ótaldar allar stoðsendingarnar hans er hann var framar á vellinum. Á tíma fannst manni eins og hann ætti þátt í öllum mörkum FernandoTorres og kannski er eitthvað til í því enda hefur Spánverjinn verið skugginn af sjálfum sér eftir að hann hætti að fá þjónustu frá Gerrard.

Hvernig það varð bara almennt viðurkennt að best væri að færa mann með þessa tölfræði aftar er eitthvað sem ég skil ekki. Fyrst hélt ég að það væri bara Roy Hodgson sem væri svona “vitlaus” en svo virðist ekki vera.  Á sama tíma hefur Frank Lampard verið nokkuð solid notaður í svipuðu hlutverki hjá Chelsea og skilar alltaf um og yfir 20 mörkum. Hann er ekki nærri því jafn oft settur í annað hlutverk og Gerrard heldur er hann að mínu mati alltaf notað rétt og hæfileikar hans fullnýttir.

Steven Gerrard er ennþá lykilmaður hjá Liverpool og einn allra besti leikmaður liðsins. Ég er augljóslega ekki á Melwood alla daga og hef ef út í það er farið ekki séð eina æfingu hjá Liverpool. Engu að síður held ég að framtíð Gerrard næstu 2-3 árin væri miklu bjartari og betri fyrir Liverpool ef við notum hann meira í þessu Hagi hlutverki heldur en því orku krefjandi hlutverki sem hann er að spila núna.

Ég myndi ekki einu sinni óttast það ef leikur liðsins yrði aftur að miklu leiti byggður í kringum hann svipað og gert var við Hagi þegar hann var 35 ára og ennþá lang bestur.

35 Comments

 1. Pistill sem ég ætlaði að setja inn í gær í kjölfar meiðsla Coutinho en náði ekki alveg að klára. Pælingin á alveg jafn mikið við í dag fyrir því.

 2. Alveg sammála þessum pistli. GERRARD er okkar langbesti maður í þessari stöðu og ég vona svo sannarlega að hann spili “í holunni” á móti Southamton. Málið er bara hvern getum við sett í staðin fyrir Gerrard, með Lucas ?

  Mun BR setja Henderson aftar, of síðan Alberto og Moses á sitt hvorn vænginn ? Það væri alveg möguleiki.

 3. Ef einhver vissi hver besta staða Gerrard væri þá yrði viðkomandi kandidat í stjórasætið hjá Liverpool og enska landsliðið.

  Ætli honum finnist ekki sjálfum hann vera bestur inn á miðjunni stjórnandi öllu. Það er síðan allt annað mál hvort það er best fyrir liðið. Agi virðist ekki vera hans sterka hlið þótt hann sé dúndurvarnarmaður þá dettur hann út úr stöðu reglulega.

  Ég held að lausnin öll þessi ár er ekki leikkerfið heldur að finna rétta menn með honum. Lucas virðist vera sá eini í liðinu núna og spurning hvort ekki þurfi að færa Sakho þangað. Sakho getur varla verið verri sendingarmaður heldur en Sissoko sem var náttúrulega meiriháttar sópari áður en hann meiddist.

  Ég allavega sé alveg fyrir mér að hafa 2 sópara í liðinu eða minnsta kosti möguleikann á því. Liðið þarf á Gerrard að halda en ég er sammála Babu að það á ekki að vera í varnarmiðjuhlutverki.

 4. Nr. 3

  Ef einhver vissi hver besta staða Gerrard væri þá yrði viðkomandi kandidat í stjórasætið hjá Liverpool og enska landsliðið.

  Þetta er ruglandi hjá þér? Það er núna maður að stýra enska landsliðinu sem á einhvern ótrúlegan hátt var einu sinn talinn kandídat til að stýra Liverpool, hann er alls ekki að ná því mesta út úr Gerrard sem hægt er.

  Sá sem veit hver er besta staða Gerrard og sannaði það í 5-6 ár er núna að stýra Napoli.

 5. Ég átti ekki við það. Mér finnst eins og allir stjórar séu í tómu rugli með Gerrard. Hafa ekki ennþá fundið lausnina en ég er sammála að Benitez komst næst því að smella honum bara í sóknina.

 6. Alltaf að koma betur í ljós hvað Benitez er frábær þjálfari en við getum ekki annað en treyst Brendan Rodgers og leggjum allt okkar traust á hann.
  En ég er hjartanlega sammála með Joe Allen,ef hinn welski xavi dettur ekki inn í liðið núna er jafngott að selja hann í janúar.

 7. Já Benitez er góður þjálfari en alls ekki frábær skill ekki allveg þessa svaka dýrkun á honum en auðvitað gerði hann góða hluti hjá liverpool í smá tíma en svo fór allt á verri veg.
  Er samt samála miðjan undan farið alltaf í seinni hálf leik verið hræðileg og það þarf að grandskoða kannski er lausnin að setja Gerrard í holuna en hann bara ekki jafn teknískur og Coutinho sem mundi kannski ekki henta Sturrige mjög vel…. en hvað veit ég er bara helvítis sófa Mananger 😉 YNWA

 8. Skemmtileg og áhugaverð pæling, Babú.

  Sannfærðir mig allavega í að vilja sjá Gerrard spila þessa stöðu allavega í nokkrum leikjum til að sjá hvernig mun ganga.

  Southampton á Anfield alveg fullkominn vettvangur til þess að starta því.

 9. ,,Já Benitez er góður þjálfari en alls ekki frábær skill ekki allveg þessa svaka dýrkun á honum en auðvitað gerði hann góða hluti hjá liverpool í smá tíma…”

  Guð miskunni oss.

 10. Ef ég man rétt þá hafði Benitez einmitt orð á því að Gerrard ætti eftir að færast framar á völlinn eftir því sem árin liðu. samt var hann nú að spila frekar framarlega hjá honum. Ég var allavega hjartanlega sammála þessu hjá Benitez.

 11. Flott pæling, sammála því að ég vil sjá Gerrard framar. Kallinn hefur gott auga fyrir úrslitasendingum eins og Torres getur td vitnað um. Svo er hann hættulegur skotmaður við teiginn. Myndi þá vilja Henderson á miðjuna sem mér finnst vera í mikilli framför og er kraftmikill um allan völl. Allen hefur ekki hrifið mig, Henderson alla daga frekar en hann inn á miðjuna.

 12. Tek 1000000% undir komment nr 9. ” Guð miskunni oss.” Varðandi komment nr 7. Það á ekki að þurfa að fara yfir það hér, ENN OG AFTUR hvað varð þess valdandi að Benitez hrökklaðist frá völdum hjá Liverpool. Ég legg samt til að Dabbster kynni sér það betur, svona einn og sér. 😉

 13. Það væri mjög áhugavert að sjá Gerrard í holunni í næstu leikjum og ég vildi gjarnan sjá það gerast.

  Eina sem ég sé athugavert við þessa samlíkingu á honum og td. Hagi er að það sem gerir Gerrard svona góðan leikmann er krafturinn og determination að koma að fullu poweri inn í boxið. -Hversu mörg mörk skoraði hann þar sem hann kom að harðfylgni inn í teig og var óvaldaður og réttur maður sem slúttaði vel.

  Hann gat gert þetta því hann var með sterka miðju fyirr aftan sig, Mascherano í varnarvinnunni og Alonso að sjá um tempóið.

  Að mörgu leiti finnst mér hann hafa búið til nýja útgáfu af framliggjandi miðjumanni sem kemur með sóknarþunga til að styðja framlínuna og aðstoðar við markaskorun. Þrátt fyrir að margir áður hafi spilað í holunni og verið sóknartengiliðir þá voru þeir meira eins og má nefna; Hagi, Cantona, Gullit, Rui Costa, Rivaldo, Bergkamp og Del Piero (þó sumir voru meira framherjar) en allt eiga þeir sameiginlegt að vera léttleikandi og menn sem bjuggu til færi fyrir aðra ásamt því að skora sjálfir.

  Ég sé Gerrard svolítið öðruvísi týpu en þá, þar sem hans helsti kostur er eins og áður sagði krafturinn hans og yfirferð (ásamt skotfærni í heimsklassa). Þessi kostur getur hann nefnilega ekki viðhaldið endalaust því með aldrinum missir hann þessa eiginleika. Að því sögðu tel ég að vilji koma sér aftar með aldrinum og fara í meiri stíl eins og Scholes hefur verið að spila síðustu ár og vera plain midfielder.

  En þetta er allavega mín skoðun.

 14. Var ekki málið að Gerrard var alltaf að togna aftan í læri eða í náranum? Líkaminn þoldi ekki lengur þegar hann var að sprengja upp í sprettina og tognaði nánast stanslaust. Eitt tímabilið spiluðu Torres og Gerrard nánast engan leik saman vegna meiðsla.

  Síðan Gerrard var færður aftar hefur hann verið nánast meiðslalaus og hann er mun betri þannig en meiddur. Auðvitað var hann frábær þegar hann spilaði holuhlutverkið með Torres en það er liðin tíð.

 15. 9 og 12 Liverpool spilaði mjög varnasinaðan og leiðinlegan bolta síðustu 2 ár Benitez það er alvega mín skoðun hann var með ágættan hóp þó ekki eins og hann og flestir vildu. (svo má ekki gleyma að hann keypti haug af miðlungs leikmönum sem aldrei urðu neitt)
  En það er ekki endalaust hægt að benda á gömlu eigendurnar þó svo að þeir skitu upp á bakk fjárhagslega þá keyptu þeir nöfn inn á milli…það sem stendur upp úr hans ferli hjá okkur er auðvitað Istanbul og breytingar á akademínu sem verður aldrei tekið af honum hann hefur gert mikið fyrir klúbbinn en að hafa hann sem þjálfar aftur og guð hjálpi mér nei takk

 16. Höldum okkur við umræðuefnið. Ekki stjóratíð Benitez í heild sinni, sú umræða hefur verið rædd til blóðs og útséð úr þessu að menn eins og ég/Kristinn/Höddi höfum alls ekki sömu skoðun á honum og Dabbster.

  Dabbster ég er að fullyrða að enginn hefur nýtt Gerrard eins vel og Benitez og ekki einu sinni komist nálægt því. Ræðum þetta út frá þeim punkti, sammála eða ósammála?

 17. 16 = Sammála 🙂

  Góð pæling og ég var ekki búinn að hugsa Gerrard þarna í holunni. Það væri gaman að sjá hann þar enn er ekki bjartsýnn á að BR fari þá leið.

 18. Nr. 18

  Man eftir þessum pósti, mögnuð lesning og þó maður viti ekkert um það hvort þetta er Duncan Jenkins týpa að bulla eða maður með alvöru sambönd þá er ansi margt til í þessu. Hvað þennan pistil varðar stendur þetta uppúr um Gerrard (þarna var Hodgson stjóri):

  He has played under 9 managers during his career and every manager bar Hodgson have preferred to play him anywhere but CM.

  Nr. 19

  Podcast næst á mánudaginn.

 19. Þetta er flott grein og pæling. Ég hef skilið þetta þannig að Rodgers hafi viljað lengja líftíma fyrirliðans með því að færa hann aftar. Og eins og Bjarni W #14 bendir á hefur Gerrard verið mun heppnari með meiðsli eftir að hann hætti þessum sprettum sínum. Hvort sem það er ástæðan eða einhver önnur. En það á auðvitað ekkert endilega að vera alveg sjálfgefið. Góður punktur það Babú.

  Mér finnst þetta líka snúast um hvort hann spili 2-1 á miðjunni eða 1-2, þ.e. hvort hann spili með einn eða tvo pjúra varnarsinnaða. Mér finnst eins og þeir spila þetta núna og í fyrra að Lucas sé sá eini sem er pjúra DM en hlutverk Gerrard sé sóknarsinnaðra. Meira eins og gamaldags box-to-box miðjumaður. Í því hlutverki gæti hann vissulega brunnið út hraðar en sem AMC. Samt, þótt hann hlaupi kannski meira þannig er hann á jafnari yfirferð.

  Það væri vissulega gaman að sjá hann í sóknarsinnuðu stöðunni og líklega væri best fyrir liðið að annað hvort Henderson eða Allen kæmu inn á miðjuna, og þá fyrir aftan Gerrard, og Aspas út hægra megin. En eins og bent er á hér að ofan þá værum við kannski í vanda varnarlega hægra megin með slíkri uppstillingu. Sérstaklega meðan Johnson er meiddur. Ég man amk. í fyrra eftir einum leik þar sem Coutinho, Sturridge og Suarez voru allir með, það var mjög slæmur balans á liðinu í þeim leik.

 20. Já auðvitað var ekki planið að koma þessari umræðu af stað 🙂

 21. Flott grein Babu. Ég hef svolítið verið að pæla í þessu sjálfur.

  Steven Gerrard er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrst og fremst vegna þess hver hann er og hvað hann hefur áorkað á sínum ferli. Hann lyftir leikmönnum í sýnu liði upp á hærra plan og er flottur fyrirliði(samt ekki alveg búinn að læra það 100% enn að mínu mati). Hinsvegar, þegar ég lýt á uppstillingu Liverpool í dag, þá finnst mér hann ekki endilega mikilvægasti leikmaður þessa liðs. Sem er mjög skrítið eiginlega að segja upphátt.

  Þar sem að hann spilar sem annar “holding” miðjumaður ásamt Lucas þá er hann ekki sá sem breytir leikjunum fyrir Liverpool í dag. Hann er meira eins og stórt hjól í vel smurði vél. Hann vinnur afar vel með Lucas og er þeirra samvinna alltaf að verða betri að mér finnst.

  En það sem ég sakna við hans leik er þegar að hann verður Superman aftur og breytir leikjum með ákveðni sinni og undraverður hæfileikjum í sóknarleik. Það finnst mér mikilvægara fyrir Liverpool heldur en að hann sé einskonar Alonso miðjumaður.

  Ég myndi gefa mikið fyrir að sjá hann í næsta leik fara ofar upp á völlinn, í einskonar frjálsu hlutverki, þegar uþb 20 min eru eftir að leiknum og menn eru þreyttir. Eða bara að byrja leikinn þar og skipta honum svo út af þegar líður á leikinn og lappirnar eru farnar……því það má alveg skipta honum út af!

  Ég er allavegna kominn á þá skoðun að Lucas og Henderson saman á miðjunni er drauma miðvarðaparið mitt. Þeir hafa, að mínu mati, allt sem að til þarf.

  Ég vill fá Gerrard heim….heim í framlínuna!!

 22. Tengt þessari umræðu þá finnst mér að Lucas ætti að færa sig framar á völlinn. Hann er miklu betri að sækja heldur en af er látið, svona svipað og Hamann. Ég held að Lucas gæti tekið upp Henderson rulluna og verið box to box leikmaður og kaupa þá í staðinn eitthvað naut sem fer helst ekki fram yfir miðju. Það er eiginlega algjör synd að Lucas sé fastur á miðlínunni, hann er miklu betri en það.

 23. Ég er eimmitt buin að vera ræða akkurat þetta við félaga mina i vikunni…

  Lucas og Henderson a miðjuna Takk

  GERRARD i holuna

  Moses og sterling a vængina og Sturridge uppá topp

 24. Staðan sem hentar Gerald best er að spila fyrir Liverpool, hvar á vellinum skiptir engu máli.

  En svona í alvöru þá held ég að tími hans í holunni sé liðinn, hann hefur ekki lengur skrokk í hraðabreitingarnar sem þarf leik eftir leik, en það væri gaman að sjá hann þar öðru hvoru hluta úr leik þegar eitthvað extra þarf.

 25. Henderson í holuna á móti Southampton. Hann á það skilið og ég held að hann skori.

 26. Babu það er alveg klárt að Gerrard er ekki fara spila aftur fyrir aftan strikerinn, undir stjórn síðustu þriggja þjálfara hefur hann spilað á miðri miðjunni og það er að mínu ekki tilviljun. Gerrard spilaði vissulega fyrir aftan strikerinn undir stjórn rafa en það eru ansi mörg ár síðan og hann hefur misst töluverðan hraða síðan þá og held hann hafi bara ekki þann kraft sem þarf til að spila þarna i dag.

 27. Gerrard er að spila mjög vel við hliðiná Lucas á miðjunni og átti mjög gott season í fyrra. Held að hans frammistaða í þessari stöðu eigi ekki að vera mæld í mörkum, og því ósanngjarnt að bera saman skoruð mörk frá tímabilum þar sem hann spilaði framar á vellinum. Þetta snýst um framlegð liðsheildarinnar en ekki einstaklinga og því verður Gerrard að spila í þeirri stöðu þar sem við náum sem mestu úr okkar hóp. Í fyrra skoraði liðið 71 mark í deild með Gerrard við hlið Lucas, liðið náði þeim árangri einu sinni með Gerrard framar á vellinum (77 mörk 08/09).

  Að því sögðu hljómar það þó spennandi að prófa hann framar á vellinum nú þegar Coutinho er meiddur og Suarez enn í banni. Það er fátt skemmtilegra en að sjá Gerrard skora (we know your name son o.s.frv.), en ég er ekki sannfærður um að það sé betra fyrir liðið m.v. núverandi hóp.

 28. Mjög góður punktur Gummi nr.30

  Persónulega finnst mér Liverpool með öllu betri möguleika fram á við núna heldur en 08/09 í þeim Sturridge og Suarez heldur en bara Torres. Eins eru Henderson/Allen og Lucas sókndjarfari heldur en Mascherano og Alonso.

  En eins og þú segir þá er alls ekkert öruggt að það tryggi fleiri mörk fyrir Liverpool að færa Gerrard framar þó hann myndi líklega skora meira.

  En á móti held ég að varnarleikurinn myndi stórlagast og Liverpool næði aftur meiri stjórn á leikjunum á miðsvæðinu. 08/09 fengum við á okkur 27 mörk en þau voru 43 á síðasta tímabili. Auðvitað ekki alveg sanngjarnt að bera þetta saman og alls ekki hægt að skella skuldinni á Gerrard einan en hann hefur ekki sannfært marga af sínum þjálfurum varnarlega í gegnum tíðina og það virðist draga verulega af honum undir lok leikja núna.

  Á móti er Liverpool ekki búið að leka inn mörgum mörkum þannig að kannski erum við að stefna í mun færri mörk á okkur í vetur heldur en 43. (Stefnum reyndar líka í að skora mun færri mörk heldur en 71 eins og á síðasta tímabili).

 29. Sjálfur væri ég til í að sjá Suso í þessari stöðu. Á ennþá erfitt að sætta mig við að lána hann og borga 7m fyrir Alberto…

 30. Það er samt ótrúlegt ef maður pælir í því að Gerrard hefur verið besti maður liðsins sama í hvaða stöðu hann spilar á miðju, í holunni, vinstri, hægri, 2nd striker en samt er liðið í þessu ströggli. Núna loksins þegar hann er orðinn mannlegur þá er liðið í 1.sæti. Tippa á jöfnum leik á móti Southampton, eins marks sigur….vonandi okkar megin.

 31. Þau ár sem Gerrard skoraði sem mest var Alonso fyrir aftan hann á miðjunni. Alonso var heilinn í liðinu og stjórnaði tmepóinu í leiknum, gat sprengt upp þegar á því þurfti að halda og sá um að dreifa spilinu. EIns góður og Lucas er orðinn kemst hann ekki í hálfkvisti við Alonso og Gerrard í raun ekki heldur hvað þetta varðar.

Coutinho á leið í aðgerð!

Southampton á morgun