A Scousers view

Það var í desember 1992 að ég fór í mína fyrstu ferð til Liverpoolborgar að horfa á leik með því liði sem ég hafði fylgst með af sannfæringu um nokkurra ára skeið. Í fylgd með mér var góður vinur, sem reyndar heldur með hinum illu, en hafði búið í borginni í eitt ár sem námsmaður. Ferðin var sú fyrsta “boltaferða” sem farin var á Íslandi, ansi skrautleg að mörgu leyti.

Þessi vinur minn fór í það að uppfræða mig um þjóðflokk sem ég síðan hef virkilega sótt í. Scouserana sem búa á Merseyside. Sá flokkur fólks er hrekkjóttur, opinn, hress, húmorískur, kærulaus (kannski latur) og algerlega upptekinn af því að láta daginn vera góðan, óháðan fortíð eða framtíð. Borgin er ekki bara fótboltaborg, það er beinlínis skylda að fara á Matthew Street og gleðjast, labba um Albert Dock og nú er komin þessi flotta verslunarhefð sem vissulega var ekki.

Um liðna helgi dvaldi ég í fjóra sólarhringa á Merseyside, í kringum leikinn okkar gegn QPR. Mér finnst leikurinn sjálfur í raun ekki alltaf aðalatriðið, þó vissulega sé stórkostlegt að fá tækifærið til að berja sína menn augum, ég var í fyrsta sinn á The Kop, sat í fremstu röð og miklu návægi við skallann hans Suarez.

En mér finnst svo dásamlegt að drekka í mig lókalana og þvælast í kringum Anfield á leikdeginum og síðan ná spjalli við þá sem stjórna túrnum um völlinn – maður getur aldrei stólað á að leikurinn sjálfur verði dásemd (hef upplifað ýmislegt í þeim efnum) en Scouserarnir eru einstök upplifun og þeim sleppi ég ekki. Eftir helgina hefur komið upp í kollinn á mér oft og ítrekað vangavelta hvort að í raun við áttum okkur á því hversu sterk ítök þessi þjóðflokkur á í klúbbnum okkar og þá kannski ástæða okkur til að velta því frekar fyrir okkur. Við “sófaaðdáendurnir” sem horfum á leikina á skjánum í þúsunda fjarlægð og ímyndum okkur kannski að klúbburinn okkar sé svipaður öðrum.

Sem hann er alls ekki!

Á leikdegi er ég mættur snemma upp á Walton Breck Road, ég hef áður talað um HJC heimsóknina þessa helgi en ég fer á The Park í kringum hádegið og reyni að grípa spjall. Að þessu sinni var reyndar ansi mikið af Norðmönnum á svæðinu og þá lægra hlutfall heimamanna svo ég settist niður nálægt hóp Scousera sem voru að ræða við Nojara.

Þar fannst mér gaman að rifja upp eitt af þeim lykilþáttum sem verður til þess að Scouserar elska leikmenn. Það að leggja sig alltaf 100% í leikinn. Ég t.d. minnist þess hve ánægður ég var með jákvæðni þeirra út í Lucas Leiva eiginlega alla tíð, þó í dag sé hann dáður og eigi sitt lag þá voru menn að gefa honum tækifærið. Á laugardaginn snerist þessi umræða um Andy Carroll, Scouserarnir töluðu mikið um þá orrahríð sem “Lundúnapressan” hefði staðið fyrir í sumar þegar hann var í sumarfríinu að slaka á. Þar væri á ferðinni “hard working young man who always gives 100% when he plays”, og þeir margtuggðu það að fyrst Kenny hefði trú á honum hefðu þeir það líka. Mörkin myndu koma.

Talandi um það, þá hef ég ekki áður verið úti þegar kóngurinn er við völd. Scouserarnir hafa þar fengið sinn Messías, og hann skilur þá. Einhver umræða um að nota ekki varamennina, hvers vegna Carroll var keyptur, markaþurrðin. Alltaf sama svar. “In Kenny we trust, the King will lead us back to the promised land”. Annað einfaldlega ekki í myndinni.

Um eittleytið fóru söngvarnir að stjórna, barinn orðinn sneisafullur og gleðin við völd. Allir þekktu slagararnir, Scouser Tommy, YNWA, Fields of Anfield Road og Shankly Noise. Leikmennirnir fengu sinn skerf, Pete Sampara sló taktinn. Suarez í byrjun, svo kom langur kafli með Lucas Leiva og síðan ákvað Sampara að Carroll ætti skilið að menn lærðu lagið hans. “Sweet Carroll nine” heyrðist bara furðu oft. Svo auðvitað fengu þeirra menn, Scouserarnir Gerrard og Carra sín lög og þá ætlaði þakið af og gluggarnir út. Það skiptir Scouserana ótrúlegu máli að hafa sína menn á vellinum. Svo kom mér á óvart að Rafa fékk söng, hann greinilega ekki gleymdur. Þeir sem ekki hafa upplifað The Park á leikdegi beinlínis verða að gera það þegar þeir fara í pílagrímsferðina.

Leikurinn sjálfur var auðvitað það sem snerist um. The Kop stúkan í fínum gír, þó auðvitað séu leikir gegn QPR ekki með sama hávaða innan stúku en þegar stórliðin koma, en hafandi verið í Kirkjugarðinum Trafford þá er alveg hægt að lofa því að stemmingin á pöllum Anfield sé alltaf í háum gæðum.

Það er öðruvísi að horfa á leik á vellinum en í sjónvarpi. Þarna sá ég t.d. að Charlie Adam hefur gríðarlega “stöðuvitund”. Þegar Agger eða Skrtel óðu fram völlinn féll hann til baka. Eftir 60 metra sendingu upp hægri kantinn á Glen Johnson var hann alltaf kominn í hálfgerða varadekkun hægra megin ef sóknin brotnaði. Tvö lykilleikbrot sem stöðvuðu skyndisóknir. Kopstúkan hefur enda mikla trú á “Charlie-lad”. Þegar hann er kominn með boltann í fæturna á leið upp völlinn stóð hún upp. Frábær leikmaður þar á ferð!

Varnarvinna liðsins er svakaleg, Clarke greinilega með sín merki þar. Upphitun varnarmannanna var m.a. fólgin í spjalli um stöðufærslurnar. Þegar leikurinn stöðvaðist vegna meiðsla þá var þjálfarateymið komið á hliðarlínuna til að fara yfir málin. Henderson sýndi mér að hann getur leyst mörg hlutverk en ég var mest hrifinn af því hversu ofboðslega vinnusamur hann var, sérstaklega skila sér til baka.

En að Scouserunum aftur. Í hálfleik hitti ég nokkra sem ég hafði spjallað við fyrir leik. Þeir voru afskaplega glaðir með leikinn, liðið væri að spila “football the way it should be played” eins og í vetur, markið hlyti að koma. Menn voru bara ekkert að velta fyrir sér leikmönnunum í raun, heldur bara ánægðir með stöðuyfirburðina.

Leikurinn búinn, 1-0 sigur og þrjú stig í hús. Þá labba ég vanalega á Albert, einhvern veginn bara orðin hefð. Þar var þvílík ánægja með leikinn. “Great football and three points, this a real Saturday” var gegnumgangandi þráðurinn. Án ýkja heyrði ég engan velta fyrir sér einhverju öðru heldur en bara gleðilegum atriðum í spilamennskunni, fullt af krossum, hreyfanleiki og því að QPR fékk ekki færi allan leikinn. Las athugasemdirnar á kop.is í símanum mínum um kvöldið og viðurkenni það að ég var pínu svekktur að sjá að það var ekki alveg sama uppi á teningnum.

Á sunnudaginn fór ég með stelpuna mína í túrinn um Anfield, upp í safnið og þar les maður ítrekað og aftur og aftur um tengingu klúbbsins við Scouserana, þar liggur kjarninn. Við hittum nokkra starfsmenn klúbbsins sem fóru með okkur um völlinn. Þeir flestir notuðu setningarnar “hope you enjoyed the great result yesterday as much as I” og “a great way to celebrate a good perfomance from our lads yesterday” þegar þeir kynntu sig til leiks. Hreinræktuð gleði og ánægja, í túrnum held ég að nafnið Dalglish hafi hljómað tuga-sinnum, en Benitez fékk líka sinn skerf af hrósi. Hann lét búa til nýtt “Boot room” inn af heimabúningsklefanum, hann bjó til ritualana í kringum blaðamannaheimsóknirnar. Ein setning situr eftir um Rafa sem kannski er ágæt til að draga saman. Hún var sögð þegar einn leiðsögumannanna fór með okkur í setustofuna þar sem “Liverpool legends” fá mynd af sér.

Hún benti á að Rafa væri ekki komin ennþá en hún hefði grun um að það styttist í að hann fengi mynd af sér, þó ekki væri nema fyrir Istanbul. En svo bætti hún við.

“People have their opinions on Rafa, but nobody will ever take it away from him that he is one of us”.

Allir hafa lesið um Scouserana, en ég held í alvörunni að maður eigi að reyna að kynnast þeim eins mikið og hægt er þegar maður kemst í pílagrímstúrinn, það er allt öðruvísi að ræða við þá um LFC heldur en aðra aðdáendur og við eigum að nálgast skilninginn á því hvað fær þá til að tikka. Því sá sem stjórnar liðinu núna er einn þeirra og einstaklingur sem mun frekar taka mark á lífsýn Scousera og ást þeirra á Liverpool en 1000 sérfræðingum.

Skýrasti munurinn liggur kannski í nýlegum úrslitum, 0-0 gegn Swansea. Við hópuðumst í athugasemdakerfin á kop.is og liverpool.is og görguðum okkur hás af reiði, hvað var að gerast á Anfield. Jú, Scouserarnir stóðu upp og klöppuðu fyrir frammistöðu gestaliðsins.

Það er hægt að nota alls konar lýsingarorð yfir þær ákvarðanir þeirra, en í mínum huga eru Scouserar snilldarþjóðflokkur og það er einlæg ósk mín að í næsta lífi fá ég að verða einn slíkur.

“In Kenny we trust”

36 Comments

  1. Frábær pistill.  Ég tek þetta til mín! Kominn tími til að maður hætti þessu tuði…

  2. Skemmtileg lesning Maggi. Þetta er nánast eins og jólaguðsspjall barasta 🙂

  3. Svakalega góður pistill. Já ég held svei mér þá að maður reyni að komast á leik einhvern daginn.

  4. Snilldar pistill Maggi. Frábærir stuðningsmenn, innan sem utan vallar!
    Það er einfaldlega ekki hægt að vera fúll með þetta tímabil, liðið er búið að spila frábæran bolta og þeir eiga það skilið að við styðum þá í gegn um súrt og sætt! Hættum að haga okkur eins og Chelsea stuðningsmenn hérna..

  5. Flottur pistill. Það e alltaf jafn spes að koma til Liverpool og sjá hverig heimamenn upplifa liðið. Neikvæðnin hjá okkur sem erum fjær er yfirleitt alltaf meiri og við erum kannski að einhverju leyti óraunsærri og/eða fljótari að kvarta. T.d. með Carroll – ef við treystum King Kenny eigum við ekki að hafa áhyggjur af Carroll. Það hljómar einfalt, en þegar maður situr hér í öðru landi, pirraður eftir markaleysið, þá er erfitt að standast þá freistingu að fara að kryfja hlutina.

  6. frábær pistill Maggi og kominn tími á að mynna menn á það að maður á að tala liðið sitt upp. er búin að vera Kop.is lesari í mörg ár hef lesið allt nema núna undanfarið þegar við töpum stigum þá les ég ekki commentinn og mér finnst að það eigi alltaf að velja mann leiksins sama hversu slappir við erum það hlýtur einn að standa upp úr

  7. Frábær pistill Maggi sammála þér í öllu!
    Þegar ég fór í mína pílagrímaferð fyrir að verða 10 árum síðan pantaði ég mér gistingu á B&B sem var útleigt herbergi í heimahúsi hjá Scouser-um. Ég og félagi minn sem reyndar er Manchester United maður vorum úti í viku og sáum 2 leiki. Fyrri leikurinn var við Roma í Meistaradeildinni sem vannst 2-0. Upplifunin að labba upp tröppurnar í stúkuna og sjá fyrst flóðljósin og svo undursamlega fallega græna grasið var ólýsanlegt, það kom næstum tár. Þetta var leikurinn sem Hullier kom til baka eftir veikindin, það var farið að kvissast út á Park fyrir leik að hann myndi mæta, en almennt var talið að næsti leikur yrði hans fyrsti eftir hjartaveikindin. Leikurinn var að vinnast 2-0 til að færum áfram og sú var raunin. Gífurlega mikil upplifun. Stemmningin á Park eftir leik var mögnuð. Upplifunin af leiknum var svo gríðarlega mögnuð að morguninn eftir fór ég til Richie Clarke og lét hann tattoo-a LFC fuglinn á mig, nú var LFC orðið partur af mér það sem eftir er. Seinni leikurinn við Chelsea sem vannst 1-0. Ég dvaldi ss í viku í Liverpool og eyddi dögunum mínum í að skoða borgina. Ég fór flestra minna ferða í strætó og spjallaði mikið við fólkið í borginni, LFC fólk sem og stuðningsmenn litla bróður. Við félagarnir vorum ekki með gistingu síðustu nóttina, þar sem einhver CFC stuðningsmaður ákvað að koma frá London til Mekka fótboltans og sjá sitt lið tapa. Hjónin sem voru með B&b-ið töluðu við nágranna sína og þau leyfðu okkur að gista hjá sér síðustu nóttina án endurgjalds. Upplifun mín af borginni og það hversu almennilegt fólkið í henni er varð til þess að liðið sem skipaði svo stóran sess í lífi mínu varð mér enn mikilvægara.

    Þetta tímabil var liðið í bullandi séns á titlinum lengi vel. Þeir stuðningsmenn litla bróður sem ég spjallaði við vonuðu að Liverpool myndi vinna titilinn og voru vissir um að EFC myndi vinna Arsenal á Higbury í maí mánuði til að hjálpa Liverpool að vinna dolluna, EFC tapaði þeim leik naumlega 4-3.

    Oft tek ég umræðu við fólk um uppáhaldsstaði/borgir í heiminum þá segi ég ætíð Liverpool, og fæ þá alltaf að heyra það að ég sé ekki með öllum mjalla. En eftir þetta æfintýri mitt verð ég bara að segja að ég Liverpool borg er einn uppáhaldsstaður í heiminum.

    ‘YNWA’

  8. Það eru forréttindi að fá að labba um Anfield og skoða og fá sögurnar beint í æð, sjálfur var ég þarna í feb 08 3-0 leikurinn á móti sunderland og það var æðislegt, sitja með mönnum eins og John Aldridge og Bruce Grobbelaar og sötra öl eða 2 gaf mér heilmikið

  9. Síra Jón hefði ekki getað snarað fram betri hugvekju á aðventunni.
    Eldmóður, ást, jákvæðni og svo virðing fyrir andstæðingum, það er klúbburinn okkar.
    Bara það að hafa fengið að upplifa YNWA á Anfield, fundið hárin rísa og skælt svolítið gerir það að verkum að ég hallmæli ekki liðinu mínu. Gleðst eins og lítið barn yfir sigrum og umber töp.
    Get samt alveg pönkast yfir dómurum og leikmönnum annarra liða enda er ég ekki borinn og barnfæddur Scouser.
      
    YNWA

  10. Mjög skemmtilegur pistill.
     
    Ég fór til Milan síðastliðinn Október til að sjá Inter á móti Juventus. Ég upplifði fótboltastemninguna og hin almennu viðhorf til fótboltans gjörólíkt því sem þú lýsir í þessum pistli. Í borginni hitti ég fleiri Juventus stuðnignsmenn en ég ímyndaði mér að hitta í Tórínó. Ég hitti engan sem hélt með A.C Milan þótt að þeir væru deildarmeistarar og allir Intermenn sem ég hitti virtust vera löngu búnir að gleyma Mourinho þrennunni þótt ekki væri nema eitt og hálft ár síðan. Þótt Intermenn væri áberandi á vellinum þá snerist stemningin miklu meira um ríginn milli Juve og Inter heldur en að styðja sína eigin menn. Það voru frekar sungnir söngvar til höfuðs Juve heldur en annað. 
    San Siro logaði í stemningu klukkutíma fyrir leik og á torginu fyrir utan voru í það minnsta 20 þús manns. Manni var vel tekið í stúkunni fyrir aftan Buffon, menn voru glaðir að sjá Íslending að styðja Inter og eitthvað var maður spurður um ,,Al-fered-son” (Hallfreðson) sem skoraði fyrir Verona sama dag. En ég tók einmitt eftir að rígurinn milli Juve skipti meira máli en annað. Einhversstaðar á vellinum voru líka Inter menn með stóran borða þar sem Juve-menn voru minntir á Heysel-slysið, sem mér þótti mjög miður að sjá.
    Vucinic kom Juve yfir eftir aðeins 10-15 mín leik en stúkan sem ég sat í var ekki alveg hætt að syngja þó eitthvað minna væri um það. Maicon janfaði stuttu seinna og hin sanna fótbotlastemning sem ég vonaðist til að upplifa kom varð loksins að veruleika í hálfa mínutu. Marchiso kláraði stuttu seinna leikinn fyrir Juve með öðru marki fyrir hlé – og stemningin var gjörsamlega búin. Engin söngvar, ekkert klapp fyrir færum og varla klappað fyrir þeim sem komu inn á eða neitt í þeim dúr út restina af leiknum. Menn virtust ansi fljótir að gefast upp á sínum mönnum, ólíkt því sem þú lýsir í pistlinum.
    En maður stefnir á Anfield á næstunni.

  11. Áhrifamikill pistill sem ber að þakka fyrir.

    Liverpool borg er kannski ekki miðdepill alheimsins en hefur þrennt af því sem gerir lífið miklu ánægjulegra að lifa því; Bítlana, LFC og fólkið sem styður LFC.

  12. Gary McAllister“I think the one thing that’s missing from the midfield is the leadership of Steven Gerrard. I think Henderson, Adam and Downing would have benefited if the captain had been there, to lead by example.

  13. Frábær lesning Maggi, það er orðið þannig að þegar maður sér að þú ert að skrifa pistla, þá undantekningarlaust les maður þá! Frábær penni!

  14. Vantar það að geta þumlað pistla upp hér… Alveg bráðvantar í ljósi þess hvað stendur hér efst á síðunni! Uppþumall fyrir þér Maggi!

  15. flottur pistill, vel skrifadur og efnistøkin hlyja manni talsvert i kuldanum :o) 

  16. Ég var einmitt í minni fyrstu ferð núna um helgina, og upplifði allt þetta stórkostlega andrúmsloft í kringum leikinn. Ræddi kannski ekki mikið við Scouserana, en spjallaði aðeins við Magga á Albert fyrir leik og ekki er hann síðri viskubrunnur um félagið en þeir infæddu!

    En eftir þessa fyrstu ferð get ég varla beðið eftir því að komast aftur… Mæti vonandi aftur strax á næstu leiktíð

  17. “Einhver umræða um að nota ekki varamennina, hvers vegna Carroll var keyptur, markaþurrðin. Alltaf sama svar. “In Kenny we trust, the King will lead us back to the promised land”. Annað einfaldlega ekki í myndinni.”

    See no evil, hear no evil.  

  18. Takk fyrir alveg magnaða ferðasögu.   Það eru svona pistlar sem gera Kop.is að því sem það er!

    YNWA 

  19. Mikið væri ég til í að geta farið á síðu eins og þessa, tileinkaða mínu liði með málefnalegu spjalli, í stað þess að þurfa að lesa stöðuga kvartmongóaspjallið á manutd.is. Jú, þið hafið eins og manchester united, glory hunting kvartmongóa, en megið allavega gleðjast yfir því að þeir eru orðnir það fullorðnir að þeir kunna ekki á tölvur 😉 Góð síða, sem ég kíki reglulega á, gangi ykkur vel, en ekki betur en frændum ykkar í norðri.  

  20. Mjög góður pistill hjá þér Maggi.  Ég hef ekki farið eins oft til Liverpool og þú og hef öruggelga ekki minglað eins mikið við innfædda en ég held ég deili ást þinni á þessum “þjóðflokki” sem Scouserar eru.  Finnst magnaður húmorinn.  Fannst t.d. mjög gaman í síðustu skoðunarferð minni um völlinn (mars síðastliðinn) þar sem leiðsögumennirnir voru endalaust að skjóta á næsta mann sem tók við okkur í ferðinni, allir voru þeir frábærir í því að segja skemmtilegar sögur úr sögu félagsins.
     
    Get því ekki verið annað en sammála þér með það að ef maður er nú endurunninn eftir þetta líf þá væri ég til í að fæðast í Liverpool !

  21. Frábær pistill og fróðlegur. Þegar ég fór í fyrra vor á minn fyrsta leik upplifði ég þetta bara eins og stórt
    ættarmót og King Kenny var ættfaðirinn. Ég þurfti þarna aldrei að útskýra afhverju ég væri í Liverpooltreyju eða
    afhverju ég hélt með Liverpool þarna vorum við öll með sama áhugamálið og sömu lífsgildin…The Liverpool way. Hlakka mikið til að fara aftur í vor og upplifa þessa sérstöku tilfinningu.

    Ég ætla að setja fram þá ósk við endurvinnslu mína að ég fái að hafa aðsetur í Liverpool.

    YNWA 

  22. Veit einhver hvenar þetta suarez og evra máli verið búið, átti ekki að dæma í því í dag?

  23. FA seinkar ákvörðunartöku sinni þangað til í fyrsta lagi 20. desember, þetta er nú meiri sirkúsinn..

  24. Kæru félagar afsakið en ég verð að ryðjast inn í þessar samræður…..nú erum við félagarnir að plana ferð á Anfield og mig langaði að vita hvar er ódýrast að kaupa allt þar er að segja miða, flug og gistingu hef ekki en farið á Anfield og dauðlangar vonandi getiði hjálpað mér með fyrir fram þökk Dabbi 🙂

  25. Takk fyrir skemmtileg komment, gleður mig að sjá að það eru fleiri en ég sem fíla Scouserana.
     
    Dabbi, það er langöruggasta leiðin að fara í ferðir á vegum Liverpoolklúbbsins, en annars þarftu bara að finna ódýrt flug á netinu, finna hótel í Liverpoolborg sem eru í fínum verðklassa og vinna í því hjá ferðaskrifstofum að grafa upp miða á völlinn.
     
    Þar eru Vita-ferðir öruggastir held ég, en þú getur líka tékkað á fleirum.  Svoleiðis ferð getur verið ódýrari en þá þarf að bóka snemma og vinna undirbúningsvinnuna sjálfur…

  26. þó Redknapp sleppi við ákæru gerir Suarez það varla þar sem búið er að ákæra hann í málinu.

  27. Þessi pistill hafði alveg farið fram hjá mér….
    Ég vil þakka Auðunn G að hafa bent mér á þennan pistil og að sjálfsögðu Magga fyrir að hafa sagt & skrifað svona vel frá þessari einstöku ferð sinni.
    Ég er einn af þeim sem að hafa verið einstaklega pirraðir og hrifist með í þessari neikvæðu umræðu sem að hefur verið undanfarið. Þessi pistill er eins og gott verkjalyf og svei mér þá ef ekki bara lækning.
    Ég hef sjálfur farið í svona ferð 2001, takk Maggi fyrir að minna mig á að klúbburinn er stærri en öll þessi umræða liðinna vikna. 
    “Liverpool is more than just a fottball club,, it´s a way of life” þssi yndislegu orð voru viðhöfð af erlendum gest á árshátíð LFC klúbbsins s.l.

    Hafið þau hugföst.

    YNWA 

Opinn þráður – Torres til sölu í janúar?

Aston Villa á morgun