Tvær góðar greinar

Helvítis landsleikjahlé. Ef þið hatið landsleikjahléð jafn mikið og ég er hægt að gera margt verra í dag til að drepa tímann en að lesa þessar tvær greinar í Sports Illustrated:

Jonathan Wilson um Steven Gerrard.

Góð grein frá manninum sem skrifaði Inverting the Pyramid, bók um taktík sem ég mæli með. Wilson fjallar í greininni um hæfileika Gerrard og hvernig hann gæti hreinlega hafa verið uppi á vitlausum tíma, upp á það að nýta hæfileika sína til fulls.

Persónulega er ég á þeirri skoðun að það er engin tilviljun að Gerrard lék sinn besta fótbolta með Xabi Alonso fyrir aftan sig. Með Alonso auk varnartengiliðs (Sissoko, Hamann, Mascherano, Lucas) fyrir aftan sig gat Gerrard virkað eins og vopn, frekar en áhald. Það var ekki hans hlutverk að stýra tempóinu eða vinna of mikla varnarvinnu heldur átti hann að koma sér í stöður til að geta valdið skaða og treysta því að Alonso myndi finna hann. Sem gerðist iðulega. Hvort sem hann lék í holunni fyrir aftan Fowler, Crouch, Bellamy og svo loks Torres var hann með bestu leikmönnum í heimi í þessari rullu, og það er engin tilviljun að spilamennska Gerrard virðist hafa dottið niður um eitt stig við brottför Alonso í fyrra.

Kannski er það hugsunin með kaupunum á Meireles. Hann er enginn Alonso, en hann er samt svipaður leikmaður og gæti verið lykillinn að því að „frelsa“ Gerrard á nýjan leik í vetur. Vonum það.

Seinni greinin er svo stórgóð grein Sid Lowe um Rafa Benítez. Lowe reynir að útskýra hvers vegna Benítez er svona umdeildur karakter (bæði hjá Valencia og Liverpool voru menn fegnir að losna við hann, en í dag myndu Valencia-menn gefa allt fyrir að fara aftur í tímann og laga þau mistök að láta hann sleppa frá sér).

Lowe er hvorki með eða á móti Benítez heldur lítur hlutlaust á málið og kemst að mínu mati að nokkurn veginn réttri niðurstöðu; Benítez var hvorki gallalaus dýrðlingur sem varð fyrir barðinu á óprúttnum þrjótum né bjáni sem átti ekkert erindi í þjálfarastöðu. Sannleikurinn er þar einhvers staðar á milli:

“Ultimately, it was the simplest skill of all that proved the hardest. The tragedy of Benítez’s time at Liverpool was that he just couldn’t talk to key members of his squad, he couldn’t relate to them, communicate to them, motivate them. He couldn’t do the same with the owners and administrators of his club. And, for all the good things, that inability ultimately cost him his job. In the end, he probably had to go. Yes, he had become a problem. But he wasn’t the only problem. And he wasn’t only a problem.”

Gæti ekki orðað það betur sjálfur.

43 Comments

  1. Við sem höfum fylgst með Liverpool í meira en 5 ár vitum hversu mikill þvættingur það er að Steven Gerrard geti ekki spilað á miðjunni og stjórnað leik liðsins. Það gerði hann einmitt á árunum 2000-2005 með frábærum árangri og festi sig í sessi sem einn af allra bestu miðjumönnum heims.

    Gerrard átti heilt yfir slakt tímabil í fyrra á hans mælikvarða, ásamt flestum af lykilmönnum liðsins. Eitt slakt tímabil hjá Gerrard hefur orðið til þess að það spretta upp allskonar spekingar með ævintýralegar skýringar á spilamennsku Gerrard. Þetta er að verða ansi þreytt.

  2. Auðvitað á Gerrard að geta spilað á miðjunni og stjórnað leik liðsins eins og hann hefur ótal sinnum gert í gegnum tíðina, hann getur í raun spilað hvar sem er á vellinum, ég var staddur á Anfield árið 2000 þegar Gerrard spilaði sem hægri bakvörður gegn Everton og var að mig minnir valinn maður leiksins í þeim leik en hvar sem maðurinn mun koma til með að spila í vetur þá væri það vel þegið ef hann myndi detta aftur í gamla góða gírinn sinn og spila eins og kóngurinn sjálfur í vetur með tilheyrandi þrumufleygum og skemmtilegu samspili við Torres eins og við sáum ansi oft á þarseinasta tímabili tildæmis.

  3. Ég myndi nú ekki segja að hann sé algjörlega hlutlaus á mati sínu á Benitez fyrir utan þessa síðustu málsgrein þá er hann að verja nánast allt sem Benitez hefur verið gagnrýndur fyrir. Sumt er maður alveg sammála en ég get engan veginn tekið undir að þetta sé hlutlaust mat á Benitez.

    Varðandi Gerrard þá er það svo sem áhugaverð grein. Mér fannst hann reyndar mjög góður í leiknum á móti Arsenal þar sem hann var að spila sem holding midfielder í 4-2-3-1 kerfi. Gerrard var líka frábær þegar hann var með Alonso og hann var í frjálsu hlutverki í holunni. Gerrard var líka mjög góður þegar hann var hægri kanntur. Hann spilaði nánast sem vinstri kanntur á HM og var einn besti maður í slöku liði Englendinga á því móti.
    Getur vel verið að Gerrard sé upp á vitlausum tíma og hafi verið betri þegar 4-4-2 var aðalkerfið. Gerrard er samt þannig leikmaður sem Mourinho gagnrýnir englendinga fyrir að vera ekki að þjálfa upp. Þeas að leikmenn séu bara þjálfaðir til að spila eina stöðu. Gerrard hefur nánast spilað allar stöður á vellinum nema í miðri vörninni og án undartekninga hefur hann skilað þeim stöðum vel. Þannig að ég er heldur ekki alveg sammála honum Wilson þó hann færi vissulega góð rök fyrir sínu máli þá klúðrast það einmitt á þessu með fjölhæfnina því það er ekki að ástæðulausu að Mourinho er búinn að vera eltast við Gerrard síðustu 6-7 ár.

    Fínar greinar báðar tveir en ég er ekki alveg sammála þeim 🙂

  4. Síðasta línan, “Yes, he had become a problem. But he wasn’t the only problem. And he wasn’t only a problem”, minnir mig á Donald Rumsfeld. Get ekki að því gert.

    “There are known knowns. These are things we know that we know. There are known unknowns. That is to say, there are things that we now know we don’t know. But there are also unknown unknowns. These are things we do not know we don’t know.”

  5. Örn, ha? Hvernig færðu út að þessar setningar séu svipaðar? Einnig, ertu ekki frekar ósanngjarn við Lowe að bendla hann við jafn umdeildan mann og Rumsfeld bara af því að þér finnast tvær setningar án samhengis svipaðar?

    Halli (#2) – Sannaði Gerrard sig sem einn besti leikstjórnandi á miðjunni á árunum 2005? Það er það sem greinin fjallar um. Gerrard er frábær á miðjunni en hann þarf réttan mannskap með sér og rétt hlutverk. Hans hlutverk er ekki að stýra spilinu á miðjunni og hefur aldrei verið. Houllier spilaði með hann á miðjunni við hlið manna eins og Murphy, Hamann, McAllister og jafnvel Salif Diao sem áttu allir að vera leikstjórnandinn fyrir aftan sprengikraft Gerrard. Houllier átti það líka til að nota hann á báðum vængjum. Benítez notaði hann svo aðallega í holunni eða á hægri kanti og þar átti hann sín bestu ár, með toppklassa leikstjórnanda til að sjá um boltadreifinguna fyrir aftan sig.

  6. Eitt af því sem ég fíla mest í leik Gerrard er barátta og tæklingar, sá þáttur dettur svolítið mikið úr leik hans þegar hann er í holunni. Fannst alltaf skemmtilegast að sjá hann í 4-4-2 á miðjunni með Hamann, undir stjórn Houllier, þá var hann í essinu sínu sem box-to-box miðjumaður og stýrði spilinu. Er ekki sammála því að Hamann hafi gert það (hvað þá Diao!), hann lá til baka og var svona hálfgerður batti á miðjunni á meðan Gerrard sá meira um dreifinguna. Þegar Xabi kom þá tók hann að sér að stýra spilinu og þá hentaði betur að færa Gerrard framar á völlinn. Mér fannst t.d. Gerrard ekki njóta sín oft með Xabi á miðjunni til að byrja með því hann var svo vanur að allt spil færi í gegnum sig, en svo blómstraði hann með Xabi þegar hann var færður framar á völlinn.

  7. Jú Kristján Atli, Gerrard var í því hlutverki að stjórna spilinu á árunum 2001-2005 og gerði það mjög vel. Ég veit ekki hversu oft það var verið að nota þá liðsuppstillingu að hafa Owen og Heskey frammi og Gerrard og Hamann á miðjunni. Danny Marphy var oft notaður hægra megin á miðjunni, en stundum á miðri miðjunni með Gerrard. Mcallister kom og átti eina góða leiktíð með Liverpool en var ekki alltaf í byrjunarliðinu, en heilt yfir á árunum 2001-2005 var Gerrard að spila á miðri miðjunni og stjórna leik liðsins og gerði það frábærlega. Þú bara getur ekki litið framhjá því Kristján Atli þó þig langi rosalega mikið til þess. Steven Gerrard er einn af bestu leikmönnum heims í þeirri stöðu. Þessi grein er fer í sama flokk og aðrar undanfarið um Gerrard.

    Annars er nú bara ótrúlega létt Kristján Atli að finna góðar greinar sem rökstyðja það hversu stórkostlegur alhliða leikmaður Steven Gerrard er hversu frábær hann er í að spila á miðri miðjunni og stjórnað spilinu . Þú hinsvegar af einhverjum ástæðum velur alltaf að pósta hér inn “öðruvísi” greinum um Steven Gerrard.

  8. Varðandi Gerrard og sökunun hans á Alonso þá var það ekki vandamál. Því Marcherano var varnartengilliður, Gerrard í hlutverki Alonso og svo Cole í hlutverki Gerrard.

  9. Halli (#8) – endilega vísaðu mér á eitthvað af þessum greinum og ég skal bæta þeim við færsluna.

    Hvað Houllier-árin varðar staðfestirðu bara orð mín. Ég veit að Gerrard spilaði á miðjunni en það var aldrei hans hlutverk að stýra spilinu. Aldrei. Þess vegna var alltaf leikmaður á borð við Hamann, McAllister eða Murphy með honum á miðjunni. Góður sendingamaður. En við verðum greinilega að vera ósammála um þetta þar sem þínar minningar af Gerrard frá 2000-2005 virðast aðallega snúast um flottar sendingar hans kanta á milli og glæsilega stungubolta, á meðan ég minnist hans sem annars konar leikmanns. Leikmanns sem var (og er) snillingur í að koma sér fram á völlinn, inn í teiginn, upp kantana og búa til hættu. Eins og ég segi, sitt sýnist hverjum.

    Annars er nokkuð ljóst að meirihluti stuðningsmanna Liverpool held ég að sé á þeirri skoðun að Gerrard eigi að vera á miðri miðjunni og stjórna spilinu. Ég er alfarið ósammála þeirri skoðun en verð að vona að ég hafi rangt fyrir mér fyrst Hodgson virðist ætla að prófa Gerrard á miðjunni með Joe Cole í holunni. Ég vona að Gerrard láti mig éta orð mín.

  10. Kristján Atli þannig að þú ert í raun sammála um að hann sé fínn leikmaður á miðri miðjunni? Gerrard er búinn að vera talinn einn besti miðjumaður heims undan farin 10 ár ca. og af þessum 10 árum er hann bara búinn að spila 2-3 ár í þessar svokallaðri holu eitt árið í holunni var hann frábær í samvinnu við Torres en annað árið þá var hann bara hreint út sagt slakur. Ég minnist hins vegar ekki eftir því að Gerrard hafi verið slakur þegar hann hefur spilað á miðri miðjunni og fannst mér einmitt hann eiga mjög góðan leik á móti Arsenal þar sem hann spilaði svipað hlutverk og Alonso gerði í þessu 4-2-3-1 kerfi.

    Ég trúi ekki að þú ætlir að halda því fram að Hamann og Diao hafi átt að stjórna spilinu á miðjunni þeir eru klassískir varnarmiðjumenni og Diao gæti nú ekki stjórnað spilinu þó hann væri einn í liðinu. Að mínu mati er Alonso eini miðjumaðurinn sem stjórnaði spilinu í staðinn fyrir Gerrard og þá fékk Gerrard frjálsara hlutverk á miðjunni og fór að sækja meira.

  11. Gerrard hefur spilað tvö ár í holunni, fyrra árið þegar hann var frábær hafði hann Alonso fyrir aftan sig til að stýra spilinu en seinna árið var enginn Alonso og Aquilani sem kom í stað hans var meiddur meira og minna allt tímabilið, já eða með magakveisu. Þess á milli kaus Benitez að spila honum sem minnst. Ekki er ég hissa á að hann hafi ekki verið að virka vel í holunni í fyrra.

  12. Auðunn (#14) segir:

    „Kristján Atli þannig að þú ert í raun sammála um að hann sé fínn leikmaður á miðri miðjunni?“

    Já, hann er frábær miðjumaður. En leikstjórnandi er hann ekki. Það eru til margar tegundir af miðjumönnum og alveg jafnt og að Alonso er enginn Gerrard, þá er Gerrard enginn Alonso.

  13. Mér finnst Gerrard einfaldlega nýtast best á bakvið senter.

    Hans helstu kostir snúast í kringum vítateiginn, hann er afar góður skotmaður, vill fara út á kanta eftir boltanum og til að skipta um stöður við leikmenn þar. Hvað þá hversu vel honum gengur að vinna með Torres.

    Með tilkomu Meireles, sem er leikmaður í svipuðum stíl og Alonso, finnst mér langbesti kosturinn að stilla honum, Jovanovic og Cole í þriggja manna línu aftan við Torres, með Meireles og Lucas/Poulsen þar fyrir aftan.

    Auðvitað getur Gerrard spilað allar stöður en þetta snýst um hvar liðið græðir mest. Ég sé engan í okkar hóp betri en hann í holunni aftan við Torres en hins vegar marga sem geta lagt alvöru lið á miðjunni aftan við holuna. Besta liðið okkar undanfarin ár var þegar Masch og Alonso sátu aftan við Gerrard og ég er ekki sannfærður um að betra verði að setja Gerrard niður á miðju og Cole fyrir framan.

    Þau ár sem Gerrard spilaði aftan við Torres með þessa menn að baki sér skoraði hann 49 mörk og gaf 30 stoðsendingar. Það eru 79 mörk alls, sem er töluvert öflugt. Þar er hans stærsti kostur af mörgum og ég vill halda í. Ég sé ekki Chelsea t.d. færa Lampard aftar á völlinn og mér finnst við ekki eiga að gera það.

  14. Eins og maðurinn sagði (þ.e. sá sem skrifaði greinina) þá fær maður alltaf á tilfinninguna að Gerrard sé ekki alveg á sínum “rétta” stað. Að mínu mati er það sóun á hæfileikum Gerrard að binda hann við holding eða playmaker stöðu. Gerrard er enn sá kraftmesti í deildinni og það getur vel verið að leikir spilist þannig að best sé að hafa hann í baráttunni á miðjunni. Hann á s.s. að vera þar sem liðinu gengur verst á vellinum í hverjum leik – af því að hann er bestur.

    Hvað Benítez varðar, þá hef ég eiginlega enga skoðun á honum lengur…

  15. “Hvað Benítez varðar, þá hef ég eiginlega enga skoðun á honum lengur…”

    Sama hér 🙂

  16. Fair enough Kristján Atli við erum einfaldlega ósammála um þetta, en ekki reyna að halda því fram að þú getir ekki fundið ótal greinar um það hversu frábær alhliða miðjumaður Steven Gerrard er. Ekki stinga hausnum í sandinn þó þú sért á annarri skoðun. Af hverjum ástæðum kýstu að birta hér greinar og viðtöl reglulega sem fjalla um að Steven Gerrard sé ekki nógu góður í hinu og þessu þó svo að það sé búið að birta heilt bókasafn af greinum um það hversu góður Gerrard er á miðri miðjunni.

    Fyrir mér þá þarf ég ekkert að lesa um það hvort Steven Gerrard sé góður. Ég er búinn að fylgjast með manninum spila fótbolta í 10 ár. En ef menn ætluðu að mynda sér skoðanir á því hvort Steven Gerrard sé góður miðjumaður einungis útfrá rituðu máli, þá ættu menn fljótt að verða sannfærðir um að þarna er á ferð einn albesti miðjumaður í heimi vegna þess að á móti hverri grein sem fjallar um ókosti hans eru um 10 sem fjalla um kosti hans.

  17. Halli, það er enginn hérna, hvorki KAR né neinn annar, að segja að Gerrard sé ekki góðu á miðri miðjunni. Hins vegar má vel færa rök fyrir því að Stevie, eins frábær og hann er, hefur marga svipaða galla og landar hans, þ.e. ekki nægilegt tactical awareness til að stjórna heilu leikjunun eins og t.d. Xabi gat (og getur) gert.

    Auðvitað hefur hann tekið þetta að sér og jú gert það ágætlega, en það sást samt hversu miklu effektívari hann var eftir að Rafa kom og breytti honum úr mjög góðum enskum miðjumanni sem skoraði ekkert rosalega mikið í háklassa alhliða frábæran knattspyrnumann sem eins og Maggi kemur inn á hefur á tveimur árum skorað eða búið til tæplega 80 mörk. Það reynir enginn nema einhver bjáni að halda því fram að það sé ekki að stórum hluta Rafa og Xabi að þakka. Þetta er náttúrulega líka spurning að spila manninum þar sem mest kemur úr honum. Hann hefði getað spilað þessa central stöðu öll þessi ár og væri sennilega einn af betri í heiminum í þeirri stöðu en það er bara ekki hægt að líta framhjá því að hann er svo töluvert hættulegri og nytsamlegri í frjálsa hlutverkinu.

    Þ.a.l. finnst mér þessi grein alveg spot on

  18. Nr. 21 Brúsi segir þetta eiginlega alveg fyrir mitt leyti. Liverpool saknar Xabi Alonso eða svipaðar týpu alveg hrikalega og Gerrard hefur aldrei sýnt það almennilega að hann sé sú týpa taka alveg stjórn á leiknum líkt og Alonso gerir svo vel þegar sá gallinn er á honum. Gerrard hefur verið svona tifandi tímasprengja og einn albesti leikmaður á þessari pláhnetu þegar hann hefur frelsi til að gera það sem hann vill út frá miðjunni (eða kantinum) og manna hættulegastur þegar hann hefur annan góðan sendingamann með sér á miðjunni.

    En eftir því sem árin færast yfir hann býst ég fastlega við því, eins og nú virðist vera að gerast bæði hjá Liverpool og Englandi, að Gerrard færist aftar á völlinn og fari að taka meiri stjórn á leikjum. Þ.e. verði ekki alveg jafn mikið box-to-box leikmaður eins og hann var áður en Benitez kom heldur meira plain miðjumaður. Hugsa að hann taki svipað hlutverk og Danny Murphy hefur gert eftir að árin færðust yfir hann ef svo má segja. Fyrir utan að Gerrard er mikið betri auðvitað en Murphy og spilar á hærra leveli.

    Eins spilar Hodgson ekki sömu taktík og Benitez og því hlutverkin á miðjunni ekki alltaf sambærileg. Eins og liðið lítur út í dag sé ég fyrir mér að þegar allir eru heilir séu miðju combóið Gerrard og Meireles á miðri miðjunni og Cole þar fyrir ofan og mér lýst ágætlega á það.

    Gerrard yrði ekkert fyrsti leikmaðurinn í sögunni til að færast aftar á völlinn þegar aldurinn færist yfir og líklega verður hann einn besti miðjumaður í heimi á næstu árum þó ég búist við að mörkunum frá honum muni aðeins fækka. En ég man ekki mikið eftir honum sem leikstjórnanda á miðjunni a la Alonso. Hann var alltaf í frjálsara hlutverki, nema reyndar undir lokin hjá Houllier þegar enginn sótti hjá Liverpool, enginn miðjumaður skoraði neitt og leikskipulagið var að senda upp á Heskey og vonast til að boltinn myndi hrökkva af honum á Owen. Houllier var svo geldur sóknarlega að hann gat ekki notað Fowler.

  19. Brúsi og Babú auðvitað saknar Liverpool Xabi Alonso. Ástæðan er svo sáraeinföld, hann var seldur og ENGINN var keyptur í staðinn! Aquilani átti að fylla skarðið en fékk að spila um 6-7 leiki í PL og oftast kom hann inná sem varamaður. Xabi Alonso var lykilmaður hjá Liverpool og ekkert lið þolir að missa lykilleikmenn sýna án þess að fá neinn í staðinn. Menn eru að halda því fram að liðið hafi ekki verið nægilega sterkt í fyrra vegna þess að Gerrard tókst ekki að fylla skarð Alonso, en átta sig ekki á því að þeir eru að gagnrýna Gerrard fyrir að spila ekki á við tvo heimsklassa menn! Gerrard stóð sig bara mjög vel fyrra þegar hann fór á miðjuna til að reyna að stjórna spilinu en var oftast með N’gog, Yossi, Kuyt eða Babel fyrir framan sig á meðan Alonso var með Gerrard og Torres. Torres og Gerrard spiluðu sáralítið saman í fyrra vegna meiðla. Þessar greinar sem menn hafa verið að birta hingað til um það að Gerrard sé lélegur leikstjórnandi eru því einfaldlega bara forkastanlegt bull.

    Ef Torres og Joe Cole haldast heilir í vetur og Gerrard fær að spila á miðjunni með þá tvo fyrir framan sig, þá fyrst er hægt að bera saman leikstjórnendahæfileika Steven Gerrard og Xabi Alonso.

    Það má svo bæta því við að þessi leikstjórnandastaða er EINA staðan sem Xabi Alonso gat spilað á vellinum á meðan Gerrard getur spilað allar stöðurnar á miðjunni frábærlega.

  20. Halli, í fyrra fannst mér nú þeir bræður Lucas og Mascherano aðallega vera á miðjunni og Gerrard oftar en ekki fyrir framan í sinni holu fyrir aftan framherja, ef hann var þá ekki meiddur. Málið var bara að Gerrard átti ekki gott tímabil, hafði sjaldan Torres til að senda á og Lucas og JM fyrir aftan sig sem hvorugur er mikið í þessum lykilsendingum á sóknarþenkjandi mennina. Þar að auki voru kantarnir ekki að gera sig heldur, ýmist sökum, meiðsla, getuleysis eða fýlukasta.

    En punturinn er að mér fannst eins og í fyrra hafi alveg jafn mikið verið reynt að láta Lucas fylla skarð Alonso eins og Gerrard.

  21. Hefur Gerrard nokkuð áður fengið miðjuhlutverkið einhverntímann í enska landsliðinu ?. Mér fannst þegar hann og Lampard voru á miðjunni þá þurfti Gerrard alltaf að vera sá varnarsinnaðri og síðan hefur hann verið á sitthvorum kantinum. Mér finnst bæði núna með enska landsliðinu og Liverpool, Gerrard vera stíga fram í sinni bestu stöðu.

  22. Engin comment gul. Það er greinilegt að fólk hefur skiptar skoðanir um þessi mál.

  23. Halli (#24) – Þú talar eins og þú sért að reyna að halda því fram að Gerrard sé betri leikmaður en Alonso. Misskildirðu mig? Hélstu að ég væri að segja að Alonso væri betri leikmaður en Gerrard? Ég sagði það ekki og meinti það alls ekki svoleiðis. Ég meinti einfaldlega að Gerrard er betri í holunni en sem leikstjórnandi á miðri miðjunni. Ef Poulsen, Lucas og Meireles geta séð um að stýra traffíkinni í vetur væri ég hæstánægður með að hafa Gerrard í holunni. Hugsa að ég myndi frekar vilja hann á kantinn en sem leikstjórnanda.

    Svo hélstu því fram að það væru til fullt af greinum um hversu góður Gerrard er á miðri miðjunni sem ég væri vísvitandi að sleppa því að vísa í. Ég bað þig um að vísa mér á þessar greinar og þú hefur skrifað tvö ummæli síðan … án þess að vísa í eina einustu grein. Eru þessar greinar sem sagt ekki til? Ef ég get auðveldlega fundið þær eins og þú heldur fram ættir þú að geta það líka.

    ziggi (#23) – endilega lestu greinina sem Babú vísar í í ummælum nr. 13 og reyndu svo að sjá klúbbinn fyrir þér kaupa Karim Benzema í janúar. Svona slúður er ekki raunverulegt, því miður.

  24. okei ég var að reyna að vera raunsær þegar ég leit á deildina og hina leikmannahópana, hvar við myndum enda og hef verið á þeirri skoðun að við munum taka 6 sætið af villa. en nú eru þeir komnir með THE MAN í stjóra stöðuna ! guð hjálpi okkur

  25. en nú eru þeir komnir með THE MAN í stjóra stöðuna

    Nei fjandinn hafi það maður!!! Tók Stan Collymore við Aston Villa ? 🙂

  26. Hehehe, ég hef enga afsökun, Kristján Atli. Geri mér fulla grein fyrir að þetta voru fáránleg hugrenningatengsl. Það var líklega klifunin sem Lowe beitir sem fékk mig til að hugsa þetta.

  27. Nei Kristján Atli ég var ekki að halda því fram að þú teldir Alonso betri en Gerrard. Þarna tókstu eina setningu útúr öllu sem ég skrifaði í stað þess að kommenta á allt hitt sem ég sagði. Þetta var ekki aðalmálið í því sem ég sagði að það var gjörsmalega augljóst.

    Svo hefurðu ekki beint verið að halda því fram að Alonso sé “betri” en Gerrard í þessari leikstjórnendastöðu, heldur ertu að gefa í skyn að Gerrard sé lélegur í þessari stöðu, annars værirðu ekki alltaf að pósta inn greinum hérna um það hversu ónothæfur leikstjórnandi Gerrard er.

    Ætlarðu að halda þessum leik áfram með greinar um Gerrard? Þú veist það fullvel að bara með því að gúggla nafnið hans þá ættirðu að finna ótal greinar og ótal ummæli eftir fótbolta menn og þjálfara þar sem þeir segja að Gerrard sé einn besti miðjumaður í heimi t.d. Jose Mourinho, Ancelotti og Ferguson.

    Þessi ummæli mín um Gerrard vs Alonso eru vegna þessa að það fer harkalega í taugarnar á mér þegar menn nota þetta orðalag “Gerrard er enginn Alonso” eða “Gerrard nær ekki að fylla skarð Alonso”. Gerrard er í allt öðrum klassa en Alonso. Alonso er góður miðjumaður og frábær í sinni stöðu, en hann er samt afskaplega takmarkaður leikmaður sem getur bara leyst eina stöðu á meðan Gerrard er frábær alhliða leikmaður sem hefur verið í hópi 10 bestu leikmanna heims um áraraðir. Á sínum 5 árum hjá Liverpool átti Alonso 3 góðar leiktíðir, eina arfaslaka þar sem Liverpool reyndi að selja hann um sumarið, og eina mjög góða, á meðan Gerrard hefur átt 9 frábærar leiktíðir af 10. Gerrard er einstakur leikmaður sem getur fært liðum bikara uppá eigin spýtur. Alonso er púsl í púsluspili.

  28. Ókei, hafðu það eins og þú vilt. En það er nokkuð ljóst að við höfum ekki sama álit á Alonso ef þú heldur að Gerrard geti stjórnað spilinu eins og hann.

  29. nr#31. hehe nei en ég held að hann eigi að sjá um andlegu hlið leikmanna..

  30. Jæja vinir… Question: Fer Meireles beint í byrjunaliðið á móti Birmingham?(ég reikna með því)
    er að mixa í fantasy vildi fá ykkar mat á því, ég veit að það er ekkert sérstaklega gáfulegt að kaupa hann svona snemma svona in theory en eitthvað verður maður að gera öðruvísi en hinir og síðan hef ég náttúrulega ómælda trú á honum eins og öllu liverpool liðinu enda draumhyggju maður með meiru.
    En sem sagt breytingarnar væru Glen og Bale út og Meireles og Ashley Cole inn, auðvelt prógram hjá chelsea og tottenham ekki alveg jafn auvelt hjá liverpool, en… tottenham eru shaky.
    Takk fyrir

  31. Thegar aldurinn færist yfir tha minnkar snerpan og hradinn. Tha er edlilegt ad framsæknir midjumenn færi sig adeins aftar a vollinn og treysti a sendingargetu og leikskilning.

Hodgson tjáir sig og Carra líka…

Hodgson talar loksins um sumarið