Æfingaleikirnir byrjaðir & slúður

Undirbúningstímabilið hófst í gær, eftir þjófstartið síðasta laugardag. Þá rigndi svo mikið að fresta varð leik liðsins gegn Al Hilal en í gær rigndi nógu lítið til að hægt væri að leika við Grasshoppers Zurich. Það er frá frekar litlu að segja úr þessum leik. Honum lauk með 0-0 jafntefli og var hann frekar tíðindalítill.

Roy Hodgson stillti upp eftirfarandi liði:

Cavalieri

Degen – Kelly – Ayala – Darby

Amoo – Lucas – Spearing – Eccleston
Aquilani
Ngog

Frekar ungt lið. Í síðari hálfleik tók Roy svo aðalliðsmennina Cavalieri, Degen, Lucas, Aquilani og Ngog útaf og leyfði Peter Gulacsi, Steve Irwin, Viktori Pálssyni, Lauri Dalla Valle, Jonjo Shelvey og Tom Ince að spila aðeins. Okkar maður, Mr Pálsson, fór inn í vörnina og stóð sig vel.

Þetta var náttúrulega bara fyrsti æfingaleikur og mjög ungt lið að spila. Ungu strákarnir stóðu sig vel og einna helst var ég hrifinn af David Amoo á hægri vængnum og markverðinum Peter Gulacsi í síðari hálfleik. Þá voru miðverðirnir okkar sterkir, Kelly og Ayala, og vona ég að þeir eigi eftir að leika eitthvað hlutverk með aðalliðinu í vetur.

Af aðalliðinu er lítið að segja. Mér fannst Aquilani og Lucas greinilega í engu leikformi, Spearing var aðeins ferskari. Ngog var mjög fínn og Cavalieri þurfti lítið að gera í markinu en það kemur sennilega fáum á óvart að Philipp Degen var slakasti maður vallarins, enda búið að staðfesta að hann megi finna sér nýtt lið.

Þá langar mig að nefna aðeins Jonjo nokkurn Shelvey. Um leið og hann fór að fá boltann og spila aðeins sá maður hvaðan samlíkingin við Steven Gerrard kemur. Shelvey er mjög líkur leikmaður í fasi og spilamennsku og maður getur bara krosslagt fingur og tær og vonað að það rætist jafn vel úr honum og fyrirmyndinni.

Annað var það ekki. Liðin notuðu leikinn til að æfa þol og úthald, frekar en að spila mikla knattspyrnu. Joe Cole og Milan Jovanovic horfðu á leikinn frá hliðarlínunni og það er vonandi að þeir, auk fleiri aðalliðsmanna, fái að taka þátt í næsta æfingaleik á laugardaginn kemur. Það er jú bara vika í leiktímabilið, okkar menn eiga Evrópuleik á fimmtudag í næstu viku.


Annars eru þetta búnir að vera villtir dagar hjá Liverpool FC. Auk þess að staðfesta að Degen megi fara hefur klúbburinn staðfest að verið sé að semja um sölu Albert Riera til Olympiakos í Grikklandi. Emiliano Insúa er farinn til Fiorentina eins og áður var sagt frá (var þó, einhverra hluta vegna, að æfa á Melwood með Gerrard, Carra og co. fyrir tveimur dögum) og í þeirra stað eru komnir Joe Cole og Danny Wilson á síðustu 48 klukkustundum.

Mikið að gerast, sem sagt.

Auk alls þessa heldur leitin að vinstri bakverði áfram sem og fleira slúður. Aggi sagði mér frá mjög áreiðanlegum heimildum í gærkvöldi að Maynor Figueroa hjá Wigan væri bakvörðurinn sem væri á leið til Liverpool og ég treysti þeim heimildum. Blöðin í dag orða okkur hins vegar við Wayne Bridge. Við verðum að sjá hvað setur en ef ég mætti velja myndi ég frekar setja peninginn í Figueroa. Hann er yngri og hefur verið minna meiddur en Bridge undanfarin ár.

Þá halda Mirror-menn því fram í dag að Hodgson hafi boðið franska liðinu Nice pening plús Nabil El-Zhar og Damien Plessis í skiptum fyrir Loic Remy. Ég veit ekki hvað er mikið til í þessu og kunnir menn í Liverpool-borg vilja meina að það sé ekkert að marka það sem Alan Nixon hjá Mirror segi venjulega um Liverpool FC, en ef þetta er á einhvern hátt rétt er ljóst að það er eitthvað talsvert varið í Remy.

Það er búið að vera svo mikið að gerast í leikmannamálum þessa vikuna að maður hefur vart haft undan við að fjalla um það allt. Þetta gengur þó ekki svona endalaust og þegar mesti hasarinn er búinn munum við reyna aðeins að ná áttum og skoða leikmannahópinn eins og hann er að taka á sig mynd fyrir komandi tímabil. Þessa dagana gerum við þó lítið annað en að halda okkur fast í hvirfilbylnum. Við eigum enn eftir að afgreiða framtíð Mascherano og Torres og þó er allt búið að vera á fullu í leikmannamálunum.

Það er aldrei leiðinlegt að vera stuðningsmaður Liverpool. Það var næstum því leiðinlegt undir það síðasta í vor, en það er það svo sannarlega ekki núna. 😉

43 Comments

  1. Það voru nokkrir sem litu vel út í þessum leik í dag. Amoo og Eccleston litu mjög vel út á köntunum. Klárlega leikmenn sem eru með mikla hæfileika og þurf á smá reynslu til að verða frábærir. Darby var fínn í vinstir bakverðinum, en Degen sannfærði mig bara um það að hann eigi að fara. Sóknin var allt í lagi, en ekkert til að hringja heim út af. Lucas virtist vera framar en oft áður og leit ágætlega út, og Aquilani var ágætur en báðum virðist vanta upp á leikform. Jonjo átti mjög fína innkomu og verður án nokkurs vafa frábær miðjumaður eftir ekki svo mörg ár. Ég var hrifinn af Spearing, en er farinn að velta því fyrir mér hvort hann sé laungetinn sonur Sammy Lee.

    Maður leiksins var þó klárlega Ayala, sem er framtíðar miðvörður hjá okkur. Hann gjörsamlega átti okkar vítateig, og ég held að hann sé framtíðarmaður hjá okkur sem á eftir að verða legend ef hann fer ekki!

    En heilt yfir fínn leikur hjá strákunum.

  2. Það er ekki það langt í tímabilið, af hverju eru menn eins og Aquilani ekki komnir strax í ágætis form og byrjaðir þetta af krafti? Ætlar hann að rúlla í form í nóvember? Get ekki að því gert en mér finnst maðurinn virka eins og svo ótrúlega mikil “kelling” eitthvða. Jæja, ég veit þetta er fyrsti æfingaleikur en hann minnir mig bara á æfingaleikina í fyrra sem fylgdu svo liðinu inn í hörmungartímabilið. Best að vera þó jákvæður, góðir hlutir að gerast hjá félaginu þessa dagana.

  3. Torres nýbúinn að skrifa undir samnining ætti ekki einu sinni að þurfa að ræða hans framtíð heldur bara koma honum í stand fyrir tímabilið. Mascherano má hins vegar fara mín vegna

  4. Fínn leikur.

    Jú menn voru sumir hverjir lengi á boltanum og sendingarnar slakar. En þetta voru bara varaliðið. Jákvætt að Guðlaugur fékk 20 mín +

    Roy tala jákvætt um þennan leik og framstöðu þeirra ungu leikmanna. Ég verð að segja að maður er nokkuð jákvæður fyrir þessu tímabili.

  5. Hodgson á örugglega eftir að nýta einhverja af þessum ungu leikmönnum, meira en Benítez gerði í það minnsta. Ég verð að segja að svona eftirá þá var ég ekki jafn mikill Benítez maður og ég hélt ég væri. Margir hlutir pirruðu mig en óskhyggjan fékk mig til að standa með honum á meðan flestir aðrir gagnrýndu hann.

    Í hvert skipti sem ég sé mynd eða frétt af Hodgson verð ég spenntari fyrir tímabilinu. Gengur beint til verks og segir hlutina eins og þeir eru…..þannig skipstjóra vilja allir hafa.

  6. Man einmitt eftir því þegar maður var að horfa á eitthvað Youtube myndband með Jonjo þegar hann var keyptur að hann spilaði rosalega mikið af einföldum góðum sendingum. Það sást aftur í gær og hann er flottur svona pass-n-move gæi og ég er virkilega spenntur fyrir því að sjá meira af honum á undirbúningstímabilinu.

    Ngog sýndi flotta takta á köflum og Amoo virtist fara fram hjá mönnum þegar honum sýndist. Hvernig væri nú bara að fara að selja Jay Spearing, þetta er nokkurn veginn orðið fullreynt með hann greyið.

  7. Mjög áhugaverð grein sem segir að Roy Hodgson ætla selja meira hluta af liðinu og Gerrard, Carragher, Torres, Reina & Agger eru þeir einu sem eru safe allir hinir eru meira komnir í transfer listann en hann ætlar bíða eftir rétt verð fyrir Alberto Aquilani og Glen Johnson
    Meira um þetta er hér:
    http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2010/07/22/2036709/goalcom-special-report-nearly-entire-liverpool-squad-up-for
    Ein af þeim sem ég myndi ekki vilja fara er Dirk Kuyt.

  8. allir mínir draumar eru að rætast… afa farinn, Insúa farinn, El Nabin Sar að fara og Plessis, Mascherano vonandi að fara á 25 milljónir punda og vonandi Degen og Lucas, þegar þessir menn eru farnir, þá getum við farið að spila fótbolta aftur
    hef ekki trú á Ayala
    hef ekki trú á Aquilani því miður

  9. Ég óttast bara að Liverpool eigi eftir að vera með slatta af HM þynnku í byrjun deildarinnar, united eru farnir að spila nánast á fullu liði en bara Aquilani og Lucas eru byrjaðir hjá okkur.
    Við vorum með 15 manns á HM þar sem að Cole og Milan voru á HM líka, sem sagt með fleiri menn en öll önnur lið í heiminum og það gæti kostað okkur slæma byrjun í deildinni. Hodgson talar líka um að þessir landsliðsmenn munu sennilega ekki spila fyrsta leikinn í UEFA bikarnum þannig að það er töluverð áhætta á að detta út þar og þá höfum við bara deildina til að spila í.
    En vonandi förum við að sjá landsliðsmennina byrja sem fyrst og að þeir verði fljótir að koma sér í form.

  10. Ekki vera að taka Goal.com Ziggi. Þeir eru þekktir fyrir að búa til fréttir. Hodgson er aldrei að fara að selja menn eins og Glenn Johnson, Kuyt, Babel og Aquilani. Hópurinn er nú ekki það stór fyrir að hann geti losað sig við 4-6 mjög góða leikmenn! Þá þyrfti hann að kaupa aðra í staðinn og þurfa síðan að slípa liðið saman í allan vetur. Þessi frétt meikar engann sens.

  11. Já manni finnst þetta vera bara steypa sem kemur þarna frá þeim hjá Goal.com

    Td tala þeir um að selja G.Johnson sem er einmitt enskur og einn af þeim sprækari í sinni stöðu á englandi !! Myndi halda að hann væri einn að þeim síðustu sem Hodgson myndi vilja selja.

    Annars líst mér rosalega vel á þessa ensku byltingu sem virðist eiga sér stað hjá Liverpool undir stjórn Hodgson. Nú vonar maður bara að það komi ekki einhverjir Saudar og kaupi klúbbinn, reki Hodgson, ráði erlendan þjálfara og byrji að endurnýja liðið á nýjan leik.

  12. Að hugsa sér það að Rafa hafi ætlað að semja aftur við Aurelio undir lok síðasta tímabil. Þetta sýnir bara hversu verulega hugmyndasnauður hann var í leikmannamálum, þjálfari sem átti að hafa svo mikil sambönd út um allar jarðir.

    Það er ekkert að því að losa sig við menn eins og Degen, Ngog, Kyrgiakos, Plessis og El Zhar (svo einhverjir séu nefndir í fljótu bragði), til að minnka í hópnum og fá betri menn inn sem bakkaðir verða upp af unglingum.

    Danny Wilson og Ayala geta auðveldlega leyst af Kyrgiakos og eru framtíðarmenn ásamt Jonjo á miðjunni sem og fleiri sem ég nenni ekki að nefna. The future´s so bright…..I gotta wear shades!

  13. Er alfarið á móti því að selja Ngog því hann á klárlega mikið inni enda aðeins 21 árs. Degen, Plessis, El Zhar og Kyrgiakos mega allir fara svo og ýmsir leikmenn úr varaliðinu sem útséð er með að geri e-ð af viti. Ungu leikmennirnir sem spiluðu leikinn við Grasshoppers hafa þroskast mjög vel og eru margir mjög spennandi. Hef fylgst með þeim undanfarin ár og þar eru klárlega framtíðarmenn svo sú uppbygging mun skila sér.
    Hvað Aurelio varðar er hann klárlega góður leikmaður en mikið meiddur og því vildi Rafa aðeins gera samning við hann um greiðslur fyrir spilaða leiki. Því hafnaði Aurelio og ákvað að leita annað.
    Gaman að fylgjast með allrir bjartsýninni í kringum liðið þessa stundina:-)

  14. Varðandi Figueroa, þá var einhver búinn að breyta Wikipedia síðunni hans í gærkvöldi og þar stóð að hann væri að koma til Liverpool fyrir sirka 5-6 milljónir punda.

    Það er hins vegar búið að taka þær breytingar út.

  15. Svo má alveg minnast að þátt Pacheco í sigri U19 landsliðs Spánar í gær, hann skoraði bæði mörk Spánar í 2-1 sigri á Portugal í gærkveld 🙂

  16. Já hvað með Pacheco, verður þetta ekki bara tímabilið sem hann fær sénsinn? Hann virðist allavega hafa nánast allt sem þarf í þetta og ég hef fulla trú á því að hann gæti orðið fastamaður í 11/16 manna lið LFC í vetur. Ég væri allavega til í að sjá mun meira af honum í vetur en síðasta vetur.

    Mér sýnist Ayala svo orðin fínt backup í hafsentinn og Shevely virkilega flottur kostur á miðjuna. Ég held að það sé langt síðan við höfum átt svona marga frambærilega unga stráka sem eru að banka á dyrnar og það er kanski bara komin tími á að gefa þeim sénsinn?

  17. Hefur einhver heyrt/séð eitthvað um Nemeth? Verður hann áfram hjá Aþenu eða kemur hann heim?

  18. Helvíti á Liverpool erfiða leiki í upphafi tímabilsins ! Hvað með evrópudeildina ? Hvenaær er fyrsti leikur þar og liggur fyrir við hverja ?

  19. Er búið að taka út linkana á síðurnar sem voru hérna hægra meginn eða er tölvan mín eitthvað að stríða mér ?

  20. Það er jákvætt að mínu mati að spila fyrri leikinn úti. Getum tryggt okkur áfram þar, sem er augljóslega mjög gott.

  21. ásmundur… hjá mer kemur upp einhver skilaboð frá ritstjórn um að það se verið að vinna í breytingum á síðunni eða einhvað og þetta verði klárt á morgun

  22. Mér er alveg sama um þessa UEFA keppni. Hafði engan áhuga á keppninni síðasta season og það breytist ekki. B-evrópukeppni…nei, ekki mitt kaffi. En ég er samt orðinn mjög spenntur fyrir deildinni. Mér líst vel á Cole og Roy H. Rogers virðist alveg vera að taka þetta með þvílíkum stæl. Ég held að svartsýnisrausurum fari stöðugt fækkandi…kannski er bara líf eftir Rafa eftir allt saman?

  23. Held að þetta sé rétt hjá honum ef menn haldast heilir JónMB, en ég ætla svo sannarlega ekki að detta í þessa gömlu vonargryfju og fara að halda að Liverpool verði “a real force to be reckoned with and suggests Roy Hodgson’s side will challenge for the Premier League” 🙂

    En mikið yrði nú gaman að vera bara í baráttunni 🙂

  24. Það er ekki alltaf leiðinlegt þurfa að éta vitleysuna ofaní sig. Ég var t.d. hreinlega harmi lostinn í vor þegar mér fannst Liverpool stíga tvö skref til baka með því að ráða roskinn, tiltölulega lítt þekktan þjálfara. Mér fannst þetta vera örvænting og metnaðaleysi.

    Staðreyndin er hins vegar sú að Hodgson er að gera flesta hluti rétt. Stemmingin fyrir liðinu hefur ekki verið betri í mörg ár. Frábærir leikmenn eru að koma til félagsins og karlinn hefur tæklað Mascherano bullið af visku og klókindum.

    Öfugt við Benitez varð Hodgson svona Paisley týpa á stundinni. Allt lítur þetta ágætlega út og byrji karlinn leiktíðina vel hrekkur liðið pottþétt í gang og þá er aldrei að vita.

    Ég er í það minnsta þakklátur í bili að þurfa ekki að hugsa um Gillett og Hicks og aðrar slíkar búksorgir.

  25. Án þess að vilja vera leiðinlegi gaurinn þá held ég að það sé vert að minna menn á að stilla væntingunum í hóf. Það væri skelfilegt ef menn væru orðnir brjálaðir yfir brostnum vonum í lok september þegar Liverpool er um miðja deild fyrir neðan Arsenal, Chelsea, Manchester United, Manchester City, Tottenham, Aston Villa og Sunderland.

    Ég er alls ekki að segja það verði raunin. Og ég tek undir með mönnum eins og #30 Þórði að ég bjóst svo sannarlega við töluvert slakari frammistöðu af hálfu Roy Hodgson þegar hann var ráðinn stjóri hjá okkar ástsæla liði. Og koma Cole (loksins, loksins) blæs manni heldur betur byr í brjóst.

    Staðreyndirnar eru samt þær að:

    1. Gillett og Hicks eru ennþá ‘eigendur’ klúbbsins og fjármálin eru í óreiðu. Enginn kaupandi hefur ennþá verið opinberaður og ekkert okkar veit hveru vel þau mál standa.
    2. Við erum mjög þunnskipaðir á ýmsum stöðum á vellinum. Nægir að nefna framherja og vinstri bakverði. Það má vel vera að Torres ákveði að klæðast rauðu treyjunni áfram. Það má vel vera að Torres nái að jafna sig af meiðslunum og halda sér sæmilega heilum í heilt tímabil. Það má vel vera að búið sé að line-a upp öflugum leikmönnum til að fylla í skörðin. Það má vel vera að ungu leikmennirnir fái tækifæri til að sanna sig og það má vel vera að einhverjir þeirra standi undir (og fari jafnvel fram úr) þeim væntingum sem gerðar eru til þeirra. Málið er hins vegar að það eru stór “EF” við öll þessi atriði.
    3. Lykilleikmenn eins og Torres og Mascherano eiga eftir að staðfesta það að framtíð þeirra liggi hjá félaginu – og það viku fyrir fyrsta alvöru leik tímabilsins.
    4. Og að lokum, talandi um fyrsta alvöru leik tímabilsins: Liverpool lið Roy Hodgson hefur ekki ennþá leikið alvöru leik.

    Munum eitt: Engin reynsla er komin á Roy sem stjóra hjá Liverpool og ef illa gengur í blábyrjun stjóratíðar hans, er ansi hætt að sú stjóratíð verði stutt. Sérstaklega ef við, aðdáendurnir, stillum ekki væntingum okkar í hóf. Því eitt er víst, London pressan er ekki um það bil að fara að stilla væntingum sínum í hóf.

    YNWA

  26. Illa gert hjá #31 ÓHJ að skella manni svona harkalega niður á jörðina á föstudegi. Því miður meira í orð hans spunnið en ég vildi að væri raunin.

    Ég ætla samt sem áður að halda áfram bjartsýnn, þannig gengur dagurinn betur fyrir sig hjá mér 🙂

  27. Roy Hodgson var ráðinn til að gera betur en Bentiez. Benitez vann meistaradeildina á sínu fyrsta tímabili.

    Af hverju ættum við að stilla væntingum okkar í hóf?

    Robben segir að við séum með jafn góða sókn og Barcelona.

  28. Ég er alveg sammála #31. Maður má ekki fara alveg að missa sig. Hversu oft höfum við púllarar gert það og endað svo í brjálaðri fýlu í lok september og það sem eftir lifir tímabils. En aftur á móti byrjar RH mjög vel og ég ét ofan í mig alla mína vantrú á þeim manni, hann virðist vita vel hvað hann er að gera. Ég ætla samt ekki að gera mér neinar aðrar vonir en það að hann nái meistaradeildarsæti !

    • En aftur á móti byrjar RH mjög vel og ég ét ofan í mig alla mína vantrú á þeim manni,

    Er ég einn um að bíða eftir því að tímabilið byrji nú allavega þar til maður dæmir manninn!
    Lýst vel á hann það sem af er og hef ágæta trú á honum, en það er ekki fyrr en vel er liðið á tímabilið sem ég fer að dæma hann almennilega.

  29. Ég er að bíða eftir því líka og þess vegna ætla ég ekki að missa mig meir en það að lítast vel á RH :=)

  30. er sammála Babu. það er ekki hægt að dæma hann fyrr en eftir jólatörnina.. en aftur á móti held ég að þetta mjög stutta sumarfrí gæti líka setið mikið í mönnum því nú er liðið með 15 menn á launaskrá sem voru á HM sem er miklu meira en hin liðin í deildinni og ég er frekar hræddur við það. eins og torres t.d. þá fór hann alla leið á HM og endaði það á því að meiðast. síðasta sumar var hann lengi með spáni í álfukeppninni og árið þar á undan fór hann alla leið á EM, þessi maður þarf sumarfrí !! ég vona að þetta hafi ekki áhrif en það er alveg miklar líkur á því að margir muni meiðast oftar en einu sinni á tímabilinu og það er ekki hægt að kenna RH um það. en ég vil vera bjarsýnn fyrir tímabilið þvi gamli er búinn koma miklu betur út en ég héllt í fyrstu og ég vona að hann geri það áfram !

  31. Það er rétt Babu, það er erfitt að dæma manninn fyrr en tímabilið byrjar. En ég er ekki frá því að margir andi töluvert léttar eftir hræðsluáróðurinn sem fór í gang þegar byrjað var að tala um að reka Benitez. Margir pennar, erlendir, sem og á þessari ágætu síðu fóru oft á tíðum frammúr sér í dómsdags-spám yfir klúbbnum og framtíð hans.

    RH er enginn messías enn. En hann virðist vera að gera góða hluti og enn hefur engin stórstjarna ,,flúið” klúbbinn eins og þeir allra hörðustu Benitez menn hömruðu á.

    Það var kominn tími á breytingar hjá okkur og mér lýst vel á arftaka Rafa. Ég vona bara að fótboltinn verði jafn jákvæður og þessir fyrstu dagar hans í starfi.

    Áfram LFC

  32. Já Gestur, ég er sammála þessu. Hræðslu áróðurinn var frábær. “Gerrard og Torres fara þá” o.s.frv. Það átti hreinlega ekki að vera líf eftir Benitez og mátti halda að eyðilegging klúbbsins væri í vændum.

    Tíð Roy H byrjar vel og er bjartara yfir öllu. Einnig virðist bjartara yfir leikmönnum sjálfum, sem skiptir öllu meira máli.

    Vonandi heldur þetta áfram.

  33. 40

    Vonandi heldur þetta ekki áfram. Það þarf nýja eigendur.
    Hvernig er hægt að segja að tíð Roy byrji vel? Það er ekkert byrjað. Whoopdeedooo enska pressan líkar þjálfarinn og hann talar við alla hægri vinstri, hvað fær klúbburinn marga bikara fyrir það? Það er það eina sem hann hefur gert vel, enda ekki verið mikið af tækifærum til að vekja hrifningu á annan hátt. Mér finnst það aðeins of perfect að þjálfari sé ráðinn og ekki löngu seinna er hann farinn að tala um að það þurfi að fá aðra í staðin fyrir þá sem réðu hann.. hvað um það.
    Staðreyndin er sú að við þurfum að biðja til puppet mastersins Purslow að fá einhverja leikmenn, hópurinn er allt of þunnur eins og hann er núna.

  34. Hvað segja menn um Huntelaar? Frábær leikmaður sem var þó ekki alveg að ná sér á strik með Milan. Nú eru fréttir á lfc.tv sem renna stoðum undir það að hann sé að koma til okkar (http://www.liverpoolfc.tv/news/transfer-gossip/huntelaar-to-sign-for-liverpool – þetta er reyndar frá Goal.com, sem er ekki endilega mjög traust heimild). Babel myndi þá fara í dílnum, en það er nú ekki eitthvað sem maður grætur svo mikið..

    En hvað um það, væri það ekki alveg stellar lineup með Torres og Huntelaar í strikernum (m.v. 4-4-2) og Jovanovic og N’gog sem back up, Gerrard fyrir aftan þá, Maxi á hægri, Cole á vinstri og svo Mash/Lucas fyrir framan vörnina.

  35. Mér finnst bara vera bjartara yfir klúbbnum. Finnst jákvæðara andrúmsloft o.s.frv. Miðað við það sem ég hef lesið.

    Ég hef saknað jákvæðu fréttanna af Liverpool og maður fagnar því litla sem kemur yfir sumarið. Nóg af hryllingssögum er alla vega í gangi.

    Roy hefur byrjað eins vel og hann gat held ég að sé hægt að segja. Æfingar fóru af stað, klúbburinn virðist ekki vera að degja og engin stórstjarna virðist ætla að hlaupa á brott. Meira að segja frábær leikmaður hefur bæst við.

    Þess vegna finnst mér hans tíð fara vel af stað.

    Ég nefnilega er á því að mannskapurinn sé nægilega góður til að keppa við þá bestu. Það þarf ekki mikið að gerast til að LFC geti hreinlega unnið ensku deildina (þó að liðið hafi endað númer 7. í fyrra). Nokkrir hlutir:
    Leikmenn þurfa að haldast heilir.
    Liðið þarf að halda stórstjörnum áfram hjá félaginu (Virðist vera að gera)
    Liðið þarf að styrkjast aðeins (það virðist vera að gerast).
    OG Leikmenn þurfa að spila Á GETU!
    Það var akkúrat vandamálið í fyrra. Leikmenn eins og Gerrard o.fl. o.fl. spiluðu langt frá eðlilegri getu. Leikmenn voru í fýlu, andlausir og virkuðu hreinlega kraftlausir. Takist að virkja þessa leikmenn og ná öllu út úr þeim þá er allt hægt.

    Það er svona í megindráttum af hverju ég er ánægður þróun mála hjá LFC hefur að Roy tók við.

Roy hreinskilinn.

Riera farinn