Stöðumat: Framsæknir miðjumenn

Framsæknir miðjumenn

Ég ákvað þegar ljóst hver yrði næsti stjóri hjá okkur að skipta stöðunum þannig að vera ekki með neinn sem “holuleikmann” heldur skoða framherjana miðað við tvo þar og miðjumannapar með einum holding og öðrum framsæknum. Roy Hodgson er þekktur fyrir 4-4-2 kerfi og á ég ekki von á því að hann sé að fara að breyta neitt mikið út af þeirri stefnu sinni. Eins og með sumar aðrar stöður, þá erum við auðvitað oft að tala um leikmenn sem geta leyst hinar ýmsu stöður. Þetta er áfram bara mitt mat á þessu og þarf ekki að endurspegla skoðun þjóðarinnar.

Ég veit ekki með ykkur, en ég get hreinlega ekki beðið eftir að sjá hinn raunverulega Aquilani með eitt stykki pre-season á bakvið sig. Þessi strákur er virkilega hæfileikaríkur og skemmtilegur spilari og ég er einna spenntastur fyrir honum af öllum þeim leikmönnum sem núna eru á okkar bókum. Hann er aðeins 26 ára gamall og ég vona svo sannarlega að hann sé búinn að leggja þetta meiðslastand sitt fyrir aftan sig og nái núna að sýna almennilega hvað í honum býr. Nýji yfirlæknirinn hjá félaginu segir hann vera í virkilega góðu standi og búinn að ná sér 100%. Við erum auðvitað líka með sjálfan Stevie G. Ég hreinlega bara vil ekki trúa því að hann sé að yfirgefa liðið, bara hreinlega trúi því ekki og neita þeirri hugsun að koma upp í kollinn á mér. Af hverju ætti hann að fara núna þegar hann er orðinn 30 ára gamall, er kominn á legendary status hjá félaginu og þar fyrir utan nýbúinn að skrifa undir langtíma samning. Nei, hlíðin er fögur, hann fer ekki rassgat, svo vitnað sé í hann Gunnsa karlinn.

Núverandi framsæknir miðjumenn(nafn, aldur, land):
Steven Gerrard, 30, England
Alberto Aquilani, 26, Ítalía
Daniel Pacheco, 19, Spánn
Jonjo Shelvey, 18, England
Francisco Durán, 22, Spánn
Nicolaj Køhlert, 17, Danmörk
Adam Pepper, 18, England

Eins og áður sagði þá tel ég þá Alberto og Stevie verða algjöra lykilmenn á tímabilinu. Gegn litlum liðum, þá gætu þeir tveir meira að segja spilað saman á miðjunni, þ.e.a.s. með engann varnartengilið. En staðreyndin er samt sú að fyrir utan þessa tvo, þá erum við að mestu bara að tala um kjúklingasalat. Við erum reyndar með einn kappa þarna, Durán, sem er virkilega góður og skemmtilegur spilari. Ég er sannfærður um að ef hann hefði ekki verið svona fjandi óheppinn karl greyið, en hann hefur slitið krossbönd þrisvar sinnum frá byrjun árs 2007 (tvisvar á hægra hné og einu sinni á því vinstra), þá væri hann búinn að spila slatta af leikjum með aðalliðinu. Hann er samt orðinn 22 ára gamall og spurning hvort hann hreinlega sé búinn að missa of mikið úr. Gæðin eru samt klárlega til staðar þarna.

Við erum einnig með hinn bráðskemmtilega Danny Pacheco og þarf líklegast lítið að kynna hann fyrir stuðningsmönnum félagsins. Gríðarlega leikinn og flinkur strákur, sem er bara 19 ára gamall. Mikið hefur verið hrópað á fleiri tækifæri fyrir hann í aðalliðið, en það er eitthvað sem segir mér að hann komi til með að fá tækifæri á að fara að láni í vetur til að ná sér í aðeins meiri reynslu. Ólíkt mörgum, þá finnst mér alltaf betra að þessir strákar séu lánaðir út þar sem þeir fá að spila reglulega, frekar en að spila með varaliðinu, enda eru leikir þar af afar skornum skammti. Ég er þó á því að nýjasti liðsmaður Liverpool FC, Jonjo Shelvey, komi til með að fá flesta sénsana. Hann er nú þegar kominn með talsverða leikreynslu og er sagður rosalegt efni. Hann er samt einungis 18 ára gamall og verður spennandi að fylgjast með þessum gutta í vetur.

Nicolaj Køhlert og Adam Pepper eiga svo eitthvað lengra í land með að fara að banka á dyr aðalliðsins. Pepper þessi er þó sagður eitt mesta miðjumannsefnið á Merseyside núna, hann var talinn undrabarn þegar hann var 14 ára, en framþróun hans hefur verið aðeins hægari enn vonast var til. Nicolaj veit ég mun minna um, en skilst að Danir fylgist grannt með framþróun þessa stráks og spá honum glæstri framtíð.

Ég sem sagt reikna ekki með að neinn af þessum núverandi leikmönnum í þessari stöðu verði seldir. Einhver/einhverjir jafnvel lánaðir út til að ná sér í reynslu, stærsta spurningamerkið er kannski Durán, hann er kominn á þann aldur að þetta gæti verið make or break hjá honum.

Hugsanleg kaup (nafn, aldur, lið, land):
Christian Eriksen, 18, Ajax, Danmörk
Alan Dzagoev, 20, CSKA Moskva, Rússland
Toni Kroos, 20, FC Bayern, Þýskaland
Miralem Pjani?, 20, Lyon, Bosnía
Javier Pastore, 21, Palermo, Argentína
Éver Banega, 22, Valencia, Argentína
Marek Hamšík, 22, Napoli, Slóvakía
Ramires, 23, Benfica, Brasilía
Yoann Gourcuff, 24, Bordeaux, Frakkland
Keisuke Honda, 24, CSKA Moskva, Japan
Stephen Ireland, 23, Man.City, Írland
Sami Khedira, 23, Stuttgart, Þýskaland
Jamie O’Hara, 23, Tottenham, England
Ibrahim Afellay, 24, PSV, Holland
Matías Fernández, 24, Sporting CP, Chile
Riccardo Montolivo, 25, Fiorentina, Ítalía
Mathieu Valbuena, 25, Marseille, Frakkland
Stéphane Sessègnon, 26, Paris St. Germain, Benin
Rafael Van der Vaart, 27, Real Madrid, Holland
Joe Cole, 28, Chelsea, England

Það er svo sannarlega af mörgu að taka á þessum lista og þó svo að ég listi öllum þessum leikmönnum upp hér undir framsækna miðjumenn, þá eru þeir margir afar ólíkir. Ef keypt yrði í þessa stöðu hjá okkur, þá þyrfti það að mínum dómi að vera leikmaður í svipuðum flokki og Gerrard eða Benayoun, þ.e. að geta verið það sveigjanlegur að hægt sé að henda viðkomandi á kantana. Maður eins og Khedira er á listanum, ég hafði lítið séð til hans og núna eftir HM, á hann líklegast frekar heima á listanum yfir varnartengiliði.

Joe Cole: Ég væri algjörlega til í að næla í þennan pilt. Er á besta aldri, enskur, samningslaus og getur spilað allar framliggjandi stöðurnar á miðjunni. Ég er samt sannfærður um að hann vilji ekki yfirgefa London og sé búinn að klára sín mál við Arsenal. Spurs eru líka eitthvað að míga utan í hann, þannig að ég tel líkurnar á að fá hann…engar.

Yoann Gourcuff: Þetta er hrikalega creative og skemmtilegur leikmaður, á því er enginn vafi. Eitthvað hefur verið sett út á karakterinn hjá pilti og ekki skal ég dæma um það. Held þó að hann myndi kosta of háar fjárhæðir og því vera out of reach.

Keisuke Honda: Sló gjörsamlega í gegn á HM og verðmiðinn hækkaði því talsvert. Enginn vafi á því að hann er öflugur fram á við, myndi svo sannarlega ekki skaða í markaðssetningarátaki félagsins í Asíu og að mínu mati yrði hann einfaldlega mjög öflug viðbót. Þrátt fyrir að verðmiðinn hafi hækkað, þá er hann einna líklegastur til að vera innan okkar þolmarka þegar kemur að peningahliðinni.

Rafael Van der Vaart: Ég hreinlega veit ekki hversu oft þessi drengur hefur verið orðaður við okkur síðustu árin, en það er ansi oft. Eitt mesta efni sem komið hafði fram á sjónarsviðið í Hollandi afar lengi, en ferill hans staðnaði talsvert og er hann ekki alveg það stóra nafn sem stefndi í þegar hann var afar ungur orðinn fyrirliði Ajax. Hann er fringe player hjá Real Madrid í dag og á ég alveg von á því að hann færi sig um set. Hann getur spilað margar stöður á vellinum og í rauninni passar inn í það sem við erum að leita eftir. Ég á heldur ekki von á því að hann fari á einhverja svaðalega upphæð og gæti því verið innan okkar marka.

Stephen Ireland: Hvort sem menn trúa því eða ekki, þá er þessi strákur bara 23 ára gamall (nema eitthvað Nígeríu svindl sé í gangi). Ég hef hrifist mikið af þessum leikmanni, var algjörlega frábær tímabilið 2008-2009 og virðist núna ekki vera mikið inni í myndinni hjá Mancini. Hann flokkast sem uppalinn á Englandi og fellur því undir þá reglu. Væntanlega værum við ekki að ræða um neina stjarnfræðilega upphæð en ég er ekki viss hversu mikill kantmaður hann getur verið. Engu að síður mjög spennandi kostur.

Marek Hamšík: Það er einungis tímaspursmál hvenær þessi strákur yfirgefur Napoli fyrir stærra félag. Virkilega öflugur leikmaður sem getur spilað á miðjunni eða á köntunum. Marksækinn mjög og setur tuðruna reglulega í netið. Verðið á honum yrði spurning, en hann er algjörlega týpan sem myndi styrkja liðið okkar.

Ibrahim Afellay: Kosturinn við hann að hann getur leikið allar þessar stöður, en það er bara spurning hvort um næg gæði sé að ræða. Er fastamaður í hópnum hjá Hollandi og er fínn leikmaður, allavega það sem ég hef séð af honum, en hversu miklu hann bætir við hópinn okkar er svo aftur annað mál.

Aðrir á listanum eru fínir og flottir leikmenn svo sem. Að mínum dómi erum við með nóg af ungum og efnilegum strákum, þannig að ég myndi ekki vilja setja einhverjar háar fjárhæðir í stráka sem eru að hefja feril sinn eins og
Christian Eriksen og Alan Dzagoev, þó efnilegir séu. Kroos er í eigu FC Bayern og þeir láta hann alls ekki. Pjani? er að mínu mati ekki týpan sem við leitum að, Banega ekki heldur og plús það að ég efast um að Valencia haldi endalaust áfram að selja leikmenn. Pastore er spennandi leikmaður, sem og Ramires, en ég held að við séum ekki að fara að bæta við okkur mörgum strákum sem þurfa á atvinnuleyfi að halda. Jamie O’Hara er ekki nógu góður, og ég er ekki spenntur fyrir Fernández, Montolivo, Valbuena og Sességnon.

Ég veit ekki hvað skal segja í þessu, Joe Cole væri draumamaðurinn okkar, tikkar í öll boxin sem eru á blaðinu, en því miður eins og áður sagði, þá er hann ekki að fara frá London. Ég er ekki sannfærður um að Roy fari á eftir manni eins og Honda eða Van der Vaart, en líklegra að hann skelli sér í keppni um Ireland. Þannig að ég ætla að spá því hér og nú, þó svo að hann sé ekki sá kostur sem ég er mest spenntur fyrir.

Framsæknir miðjumenn 2010-2011 (nafn, aldur, land):
Steven Gerrard, 30, England
Alberto Aquilani, 26, Ítalía
Stephen Ireland, 23, Írland
Daniel Pacheco, 19, Spánn
Jonjo Shelvey, 18, England
Francisco Durán, 22, Spánn
Nicolaj Køhlert, 17, Danmörk
Adam Pepper, 18, England

Ef þetta gengur eftir, þá sé ég fyrir mér að Stevie verði notaður á köntunum í meiri mæli á næsta tímabili. En Alberto Aquilani, sviðið er þitt, nú skaltu sýna okkur úr hverju þú ert gerður. Taki hann keflið á þann hátt sem ég held að hann geti gert, þá erum við með hörku playmaker og þeir geta svo sannarlega gert gæfumuninn með það hvernig tímabilið gengur.

Næst mun ég fara yfir stöðu framherja hjá Liverpool FC.

20 Comments

  1. Joe Cole eða Ireland eru klárlega efstir á listanum mínum.
    Ég held reyndar að Cole muni ekki koma til okkar en ég held að það ætti að vera hægt að fá Ireland á nokkuð góðu verði.
    Og ég er alveg sammála þér með Aquilani.

  2. Takk fyrir alla pistlana félagar, þið eruð alvöru.

    Gerrard fer ekki fet frekar en Torres, sem stakk ærlega upp í móðursjúka púllara strax inn í búningsklefa eftir úrslitaleikinn. Pressan á Aquilani hefur líka minnkað frá síðasta tímabili og vonandi er hann nógu góður til að vera byrjunarliðsmaður. Það væri fín viðbót í Ireland, nokkuð öruggt að hann myndi standa sig vel. Þið nefnduð líka Gourcuff, virkilega flottur leikmaður og klárlega áhættunnar virði að splæsa í hann – væri mitt fyrsta val, en er sennilega of dýr.

    Það verður annars virkilega spennandi að sjá hvernig uppleggið verður hjá Hodgson. Sjálfur vonast ég eftir að staða afturliggjandi miðjumanns verði notuð sparlega og að það verði alvöru ógn í báðum miðjumönnum liðsins.

    Fjórir dagar í fyrsta leik, vúhúúú…

  3. Maxi spilar meira á köntunum eða fyrir aftan sóknarmanninn, ég held að hann sé ekki mikið að spila á miðri miðjunni.

  4. Flottur pistill Steini. Góðar pælingar og væri alveg til í Ireland sem þennan kost. Annars væri ég líka til í Defour eða Johnson, jafnvel báða. Við þurftum í raun að hafa sex leikmenn í þessar tvær stöðu, þá værum við með Gerrard, Aquilani, Lucas, Johnson og Defour ásamt Shelvey.

    Svo gæti Babel og Jovanovic vel dregið sig inn á miðjuna og þá má ekki gleyma því að Lucas er bestur framar á vellinum en hann hefur verið að spila….

    Bottom line fyrir miðja miðjuna, selja Mascherano fyrir 30 milljónir, kaupa tvo menn á samtals 20 og eiga afgang eftir til að kaupa sóknarmann. Annar peningur (td sala á Benayoun og Riera) á að fara í vinstri bakvörð og hægri bakvörð ef Degen fer. Ættum að geta fengið ódýran varamarkmann fyrir það sem við fáum fyrir Cavalieri.

    Þó vantar líklega enn kantmann og ég væri líka til í að sjá Thierry Henry koma til okkar. Er því miður líklega búinn að semja við lið í USA.

  5. Til hvers að fá nýjan hægri bakvörð þó svo að Degen fari ?
    Það er ekki eins og Degen sé búin að vera að spila fullt af leikjum fyrir okkur, Kelly er sá sem ég vil að leysi Johnson af.

  6. Við eru nú orðar við Defour sem ég væri til skoða og kannski Líka Keisuke Honda sem var algjör snilld í HM með Japan svo gæti líka Ireland verði flottur kostur.
    http://www.goal.com/en/news/11/transfer-zone/2010/07/13/2023475/liverpool-bid-for-standard-liege-star-steven-defour-report
    Ætli ekki fyrsta verk þessara fimm manna sé að koma Torres í lag: http://www.liverpoolfc.tv/news/latest-news/five-new-arrivals-at-melwood og koma gott form fyrir Leikmenn einsog Aqui og Torres lenda ekki í meiðsli lengur.

  7. Tek undir það að það verður sannarlega spennandi að sjá hvernig Hodgson hyggst nota Gerrrard. Þetta er svo einkennilegt með Gerrard alltaf að honum er einhvernveginn bolað úr sinni stöðu trekk í trekk þó að hann sé einn sá besti á miðjunni sem völ er á.

    Það kæmi mér hreinlega ekki á óvart að Hodgson myndi hreinlega frysta Aquilani út úr hópnum og selja hann svo um áramótin eða næsta sumar.

    Afhverju, jú þetta er pjúra Rafa signing, og maður einhvernveginn sér fyrir sér Hodgson nota Gerrard á miðjuna ásamt einhverjum varnarsinnuðum miðjumanni. Ef Aquilani blómstrar er það aldrei Hodgson að þakka.

    Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér en maður hefur þetta á tilfinningunni með Hodgson að hann sé ekkert að spila mönnum úr stöðum. Noti Gerrard á miðjunni, selji Masch og einhverja fleiri, leggi áherslur á að fá öfluga kanntmenn og hreinræktaða sóknarmenn.

    Annars eru þetta bara léttar pælingar og vona ég nú bara að Aquilani blómstri í vetur en þá þarf Gerrard væntanlega að spila einhverstaðar annarstaðar því maður sér þá ekki alveg virka saman á miðjunni og sér í lagi undir Hodgson.

  8. Flottur pistill að vanda, klárlega sammála varðandi Aquilani, hann varð betri með hverjum leik á síðasta tímabili og var á endanum með 1 mark og 6 stoðsendingar í ca. 9 leikjum í deildinni. Held að hann verði öflugur í vetur.
    Varðandi hægri bakvörðinn þá treysti ég Kelly alveg fyrir því að vera varamaður fyrir Johnson. Framherji, vinstri kantur og vinstri bakvörður ættu að hafa forgang varðandi kaup í sumar. Er svo eiginlega farinn að vona að Mascherano verði seldur þar sem hann kemur ekki til með að spila fyrir okkur nema með hálfum hug, held samt að við fáum ekki nema svona 25m fyrir hann.

  9. Ég væri alveg til í að skipta á Mascherano og Zlatan. Ég held ekkert að það sé að fara að gerast en ég yrði mjög sáttur við það.

  10. Djöfull eru þetta ógeðslega mettnaðarfullir pistlar… Hreinlega elska að lesa þetta…. Margir leikmenn Liverpool mættu taka sér þetta til fyrirmyndar á vellinum. heyr fokking heyr

  11. Stephen Ireland er strákur sem mundi styrkja okkar lið rosalega. Og hann mundi ekki kosta mikla peninga þar sem Money City eiga svona 99.99% eftir að kaupa sér leikmann í hans stöðu í sumar. Hann er first priority hjá mér í þessa stöðu.

  12. http://visir.is/manchesterlidin-slast-um-zlatan/article/2010484679904

    Ef að Zlatan fer frá Barcelona þá er ég nokkuð smeykur um að þeir muni koma með tilboð í Torres, og þeir fara varla að selja Zlatan nema með vitneskju um að það sé möguleiki á að fá Torres.
    Allavega finnst mér skrýtið að Iniesta sé eitthvað að tala um að Torres muni ákveða sig á næstu dögum, hvað kemur honum það við….

  13. Stephen án efa spennandi kostur, verð samt að segja að persónulega fyndist mér Honda vera meira spennandi. Hann var að mínu mat án efa besti leikmaður grúppuspilsins á HM. Sá alla leiki Japans og hann kom Japan nánast aleinn síns liðs upp úr riðlinum (með smá hjálp frá ando). Alveg ótrúlegur leikmaður sem hefur allt sem að við þurfum í þessa stöðu!!!

  14. Kannski getur Torres hugsað sér að spila með Barcelona en ekki öðru úrvalsdeildarliði á englandi. Hver myndi ekki vilja spila í þessu fáránlega góða liði sem Barcelona liðið er í dag ?

  15. Ef reiknað er með að einn leikmaður spili þessa stöðu í hverjum leik þá ætti að duga að vera með Gerrard og Aquilani þarna og Shelvey og Pacheco að auki. Ég myndi vilja Ireland sem þennan box to box miðjumann með öðrum þeirra ef Mascherano fer.

  16. já endilega kaupum alla sem komast ekki í aðallið chelsea og man city

Spánverjar heimsmeistarar!!!

HM + spekingar