Stöðumat: Varnartengiliðir

Varnartengiliðir

Ég verð að viðurkenna það að ég datt alveg úr gírnum í þessu stöðumati hjá mér eftir að Rafa var rekinn. Ekki endilega vegna ákvörðunarinnar sjálfrar, heldur kannski meira vegna þess að mikil óvissa er um það hver tekur við og hvernig áherslur sá stjóri er með. Þessi varnartengiliðastaða er sú “vinsælasta” meðal margra stuðningsmanna, því það eru flestir sammála því að alltof oft á síðasta tímabili, var spilað með tvo slíka leikmenn. Ég hef persónulega alltaf haft soft spot fyrir góðum varnartengiliðum, oft á tíðum er þetta gríðarlega vanmetin staða á vellinum. Það var t.d. unun að horfa á leikmann eins og Didi Hamann spila þessa stöðu, sömu sögu er að segja af mönnum eins og Makalele og í rauninni Javier Mascherano þegar hann er í góðum gír. En skoðum þetta nú aðeins:

Núverandi varnartengiliðir (nafn, aldur, land):
Javier Mascherano, 25, Argentína
Lucas Leiva, 23, Brasilía
Jay Spearing, 21, England
Damien Plessis, 22, Frakkland
Conor Coady, 17, England

Í mínum huga þá er þessi staða afar vel mönnuð hjá okkur, þá ætla ég að ganga útfrá því að aðeins einum varnartengilið sé spilað í hvert skipti. Javier er einn af þeim bestu í þessari stöðu í heiminum í dag og persónulega finnst mér Lucas hafa fengið fáránlega mikla gagnrýni frá stuðningsmönnum Liverpool FC. Fyrir aftan þá tvo í röðinni koma svo tveir slarkfærir leikmenn, en þeir eru engir 18 ára guttar lengur, þeir eru fæddir árið 1988 en Lucas 1987. Lucas er þó mörgum klössum ofar hinum tveim í getu. Ég er handviss um það að Javier fari frá félaginu í sumar og núna er ég bara algjörlega búinn að sætta mig við brottför hans, því hann hefur ekki verið að spila fallegan leik í sambandi við framtíð sína hjá félaginu. Hann vildi fara síðasta sumar til Barca, fór í fýlu, komst ekki í gang vegna þess fyrr en vel var liðið á tímabilinu. Og svo er sama fíaskó að byrja núna og hann segist ekkert vilja tala um framtíð sína, talar bara um að hann sé byrjaður að læra ítölsku. Hvað er það? Ef hann hefði einhvern hug á að vera áfram, þá væri hann í fjölmiðlum að leggja áherslu á að spúsan hans væri loksins að læra ensku, ekki hann að læra ítölsku og segjast ekki vera viss um hvert hann fari.

Ég ætla sem sagt að gefa mér það að hann fari og að við fáum góðan pening fyrir hann. Sá peningur verður fyrst og fremst notaður í að styrkja aðrar stöður innan liðsins því ég treysti Lucas fullkomlega til að eigna sér þessa stöðu og stíga upp og sýna okkur endanlega sitt mikla potential. Damien Plessis fer líka frá félaginu, lofaði góðu um stund en hefur akkúrat engum framförum tekið. Jay Spearing verður að mínu mati aldrei neitt meira en neðrideilda leikmaður á Englandi. Efast um að hann verði seldur í sumar, en væntanlega lánaður út aftur. Síðasti leikmaðurinn á þessum lista er svo bráð efnilegt kvikindi. Fyrirliði U-17 ára liðs Englands sem lyfti Evrópudollunni um daginn. Mikill leiðtogi og hörku strákur frá Liverpool borg, eitt mesta local efni sem komið hefur fram lengi, en næsta tímabil er full snemmt fyrir hann að mínu mati, næsta skref hans er að tryggja sér fast sæti í varaliðinu. Það er því ljóst að með brottför Javier og Plessis, þá þarf væntanlega að finna einn leikmann til að “covera” þessa stöðu. Lítum á hugsanlega valkosti:

Hugsanleg kaup (nafn, aldur, lið, land):
Yann M’Vila, 19, Rennes, Frakkland
Rene Krhin, 19, Inter, Slóvenía
Javi Martinez, 21, Athletic Bilbao, Spánn
Sandro, 21, Internacional, Brasilía
Axel Witsel, 21, Standard Liege, Belgía
Fabrice Muamba, 22, Bolton, England
Michael Johnson, 22, Man.City, England
Steven Defour, 22, Standard Liege, Belgía
Lee Cattermole, 22, Sunderland, England
Francisco Javier García, 23, Benfica, Spánn
Yaya Toure, 24, Barcelona, Fílabeinsströndin
Claudio Marchisio, 24, Juventus, Ítalía
Miguel Veloso, 24, Sporting CP, Portúgal
Mario Bolatti, 25, Fiorentina, Argentína
Sulley Muntari, 25, Inter, Ghana
Demy De Zeeuw, 26, Ajax, Holland
Jérémy Toulalan, 26, Lyon, Frakkland

Eins og ég sagi að ofan, þá myndi ég telja best að eyða seðlunum sem fást fyrir Javier í aðrar stöður, en nota bara hluta af henni til að kaupa varnartengilið. Það útilokar leikmenn eins og Jæja Túre, enda er hann á leið til Man.City að mér skilst. Það gæti reyndar verið jákvætt fyrir okkur, þar sem að þar minnka stórlega líkurnar á að Michael Johnson fái að spila. Hann er ungur, enskur og virkilega fínn leikmaður. Vandamálið við hann er að hann hefur verið mikið meiddur undanfarin 2 ár, en mér skilst að hann sé allur að braggast og verði klár í undirbúningstímabilið.

Annar leikmaður sem ég er ákaflega hrifinn af og ætti ekki að kosta neinar stjarnfræðilegar upphæðir, er Javi Martinez. Ef hægt væri að kaupa þann kappa á einhverjar 12 milljónir punda, þá tel ég að þeim peningi væri vel varið. Sandro er víst fáránlega efnilegur Brassi, en ég set spurningamerki við að hafa 2 Brassa að keppa um þessa stöðu (Er víst farinn til Spurs). Steven Defour er leikmaður sem ég er líka mjög hrifinn af og yrði væntanlega ekki neitt fáránlega dýr í innkaupum og gæti ég vel hugsað mér að sjá þann pilt í rauðu treyjunni.

Aðrir sem koma alveg til greina að mínum dómi og myndu væntanlega ekki vera “out of reach” eru þeir Fabrice Muamba, Miguel Veloso, Mario Bolatti og Demy De Zeeuw.

Draumurinn í mínum huga væri auðvitað að geta nælt í Martinez, en ég væri líka algjörlega sáttur með Michael Johnson. Ég held að sá síðarnefndi fáist á tiltölulega lítinn pening (miðað við enskan leikmann) út af meiðsladæminu hans undanfarið og því myndi ég henda mér á hann.

Varnartengiliðir næsta tímabil?

Varnartengiliðir 2010-2011 (nafn, aldur, land):
Lucas Leiva, 23, Brasilía
Michael Johnson, 22, England
Jay Spearing, 21, England
Conor Coady, 17, England

Ég veit að það eru eflaust margir ósammála mér með Lucas kallinn, en ég er algjörlega sannfærður um þennan strák og mér finnst hann hafa sýnt mér marga frábæra hluti síðan hann kom. Hann var á mörkum þess að komast í hóp hjá Brasilíu fyrir HM og hefur vaxið mikið. Hann hefur jú svo sannarlega goldið fyrir það að hafa verið spilað með Javier á miðjunni í stað þess að geta fengið að einbeita sér að sinni stöðu og við hliðina á manni sem á að sjá um creative hlutina. Hann er ekki alveg sama ryksugan og Javier, en er með mikla yfirferð og talsvert meiri og betri sendingargetu. No nonsense gaur sem er ekki að gaspra endalaust í fjölmiðlum og einbeitir sér að sinni vinnu. Með Johnson þarna líka, sem er ekki ósvipaður að því leiti að hann er fínn sendingamaður og gott auga fyrir spili, þá gætum við verið með gott combo til að skipta þessari stöðu með sér næstu tímabilin, jahh alveg þar til Conor kemur inn eftir 2-3 og slær þá út.

Næst mun ég fara yfir stöðu miðjumanna hjá Liverpool FC.

24 Comments

  1. Held ég hafi aldrei heyrt um þennan Conor fyrr en nú! Hljómar spennandi leikmaður.

    En af þessum lista þá lýst mér vel á þessar tillögur en væri frekar til í Defour heldur en Johnson. Hvað í ósköpunum fær þig til að halda að meiðslahrúga hætti allt í einu að vera meiðslahrúga þegar hann kemur til Liverpool? Það er ekki beint hefðin.

    En ef við seljum Mascherano þá þurfum við að eyða pening í nokkuð gott cover í þessa stöðu og helst leikmann sem er betri en Lucas (þá er ég að meina svo samkeppnin verði hörð um stöðuna því ég hef líka þó nokkra trú á Lucas).

  2. En HVAÐ ef peningarnir sem við fáum fyrir sölu verða ekki notaðir í leikmannakaup? er það stjarnfræðilegur möguleiki að það geti gerst?

    Mér er slétt sama þó við seljum alla þá leikmenn sem vilja fara EF allir peningar og helst eitthvað meira en það fer þráðbeint í það að fjárfesta í nýjum leikmönnum sem vilja spila fyrir okkar stórkostlega klúbb.

  3. Þið öðlingar haldið þessari frábæru vinnu áfram og takk fyrir það.

    SSteinn þú ert magnaður og líka virkilega gaman að sjá að það er einn sem hefur virkilega sömu tilfinningu og ég, gagnvart Lúkas. Þetta er flottur spilari, ungur og eitt sem að heillar mig mest er jákvæðnin við hann. Alltaf brosandi og hugsið ykkur, heldur alltaf áfram þrátt fyrir alla þá neikvæðni sem að honum er sýnd. Fyrir minn smekk hefur hann spilað of framarlega. Það er virkilega mín trú að hann verði fyllilega verðskuldaður arftaki vælukjóans Mascherano. Það eru einmitt svona vælarar sem meiga missa sín, og ALLIR……..

    Með vinsemd og virðingu/ 3XG

  4. Flott samantekt. Sammála þér með mönnun í þessa stöðu í dag og ég er líka nokkuð öruggur á því að Mascherano fari í sumar. Hvað sem okkur finnst um hegðun og virðingarleysi hans er ekki spurning að brottför hans veikir stöðuna og það eru bara nokkrir leikmenn í heiminum sem eru á pari við Mascherano í þetta hlutverk. Og við erum ekki að fara að eyða stórfé í neinn þeirra.

    Þar af leiðir að jafnvel þótt menn hafi mikið álit á Lucas er ekki spurning að þessi staða mun veikjast með brottför Mascherano, sama hver kemur inn.

    Þetta veltur að mínu mati allt á nýjum þjálfara, og hvaða álit sá þjálfari hefur á Lucas. Það eru skiptar skoðanir um Lucas og því allt eins líklegt að næsti stjóri vilji losna strax við hann líka og fá sína eigin menn inn, eins og það er líklegt að næsti þjálfari sé til í að gefa Lucas tækifæri til að gera þessa stöðu endanlega að sinni. Eða, kannski vill næsti þjálfari ekki nota varnartengilið.

    Eins og með allt annað, þá er ómögulegt að spá á þessari stundu.

  5. Ég verð nú að þakka þér fyrir þessa frábæru pósta sem er virkilega skemmtilegt að fá svona í frétta þurrki.
    En ég er sammála Babu með þennan Conor Coady, ég hef aldrei heyrt um þennan dreng en þú lætur þetta líta virkilega spennandi út og væri skemmtilegt að sjá þennan strák fá kannski tækifæri á undirbúningstímabilinu.
    En með Mascherano þá vona ég að hann verði seldur í sumar EF að þjálfarinn sem er ekki kominn verði kominn og fái að eyða þessum peningum en ef ekki þá verðum við að fá að halda núverandi hóp.

    Ég treysti á að Lucas eigi eftir að koma fáranlega sterkur inn ftir sumarið og vonandi eigna sér þessa miðju með þeim Aquilani og Gerrard.

  6. Hef ekki áhyggjuar af þessari stöðu þó að Masch fari og ekkert komi í staðinn. Lucas leysir þetta og vonandi verður nýr þjálfari ekki áfram með tvo afturliggjandi miðjumenn. Við eigum þá Gerrard, Lucas og Aquiliani til að covera þetta svæði.

  7. Lee Cattermole er maður sem vert að minnast á, enskur harðnagli sem að hatar ekki að tækla. Var keyptur til Sunderland fyrir seinasta tímabili en ætti ekki að vera dýr miðað við enska leikmenn, myndi halda að hann væri í svipuðum verðflokki og M.Johnson. Af því sem að ég hef séð af þeim þá er Cattermole miklu betri varnarlegri en Johnson, alveg frábær tæklari og þvílíkur baráttuhundur. Þeir eru fæddir sama ár, Cattermole á að baki helmingi fleiri úrsvalsdeildarleiki heldur en Johnson og 16 u21 landsliðsleik á móti 2 hjá Johnson.

  8. Mjög góður pistill. Ég held að gagnrýnin á Lucas hafi að mörgu leyti haft með þá einkennilegu ákvörðun Rafa að gera að láta hann spila með Mascherano á miðjunni. Af einhverjum furðulegum ástæðum hélt Rafa því endalaust áfram þótt löngu væri útséð að það virkaði engan veginn. Brottför Mascherano myndi þó klárlega veikja liðið verulega. Ef svo færi, sem ég óttast, yrðum við að fá sterkan mann þarna inn. Tel ekki nóg að treysta á Lucas einan þarna. Johnson er of mikið meiddur. Martinez eða Defour myndi maður einna helst vilja fá í staðinn. Eins hef ég verið hrifinn af Muntari. Spurning hvort ekki væri hægt að díla honum uppí verðið á Masch?

  9. Já ef Rafa væri til í skipti á muntari og masch þá ætti ekki að hugsa tvisvar um !
    Mascherano er frábær leikmaður en ég hef misst alla virðingu fyrir honum.. og hvernig ætla maður sem getur ekki lært ensku eftir að hafa búið í englandi í 4 ár, að læra ítölsku!

    Riera má fara með honum.

    Lucas hinsvegar er byrjaður sýna góða takta og ég held það væru mistök að losa okkur við hann

  10. Ég vil líka benda mönnum á mann að nafni Gary Medel, djúpur miðjumaður frá Chile, sem spilar fyrir Boca Juniors. Ef svo vill til að Pellegrini tekur við, þá vil ég endilega að það verði tékkað á þessum gaur. Hann virðist vera skemmtilegur karakter, skaphundur, rosalegur tæklari. Minnir mikið á Gattuso. Tékkið á honum á youtube og fylgist með honum á HM.

  11. en er Michael Johnson einhver varnartengiliður? langt síðan maður hefur séð hann spila, en mig minnir að hann sé meiri box-to-box miðjumaður en akkeri á miðjunni, eins og Hamann og Masch

  12. ég er algerlega sammála með Lucaz,og ég vil hafa hann áfram og gefa honum sénsinn,en hinsvegar vill ég koma því að,að Spearing er bara drasl og mun aldrei hafa neitt að gera þarna…

  13. Ég er mikill Liverpool aðdándi og horfi á alla leiki. Hinsvegar er ég einn af þeim sem bara sé ekkert gott við Lucas. Hef ég þó reynt að týna eitthvað jákvætt frá hans leik en get það ekki með neinu móti. Mig langar því til að spyrja þá sem fynnst hann góður, hvað það er sem menn sjá í honum?

    Helstu rök sem ég hef lesið eru eitthvað á þá leið að hann sé stöðugt að bæta sig og hann átti frábæran leik á móti man-utd síðasta tímabil. That´s it. Ég meina í hverju er maðurinn góður.
    Tæklari. nei
    Sendingum. nei
    Skalla. nei
    Skora. nei
    Leggja upp mörk. nei
    Aukaspyrnur. nei
    Les hann leikinn vel. öhh nei

    Endilega segir mér í hverju hans hæfileikar liggja og ég mun reyna sjá það í næsta leik. Vil taka það fram að ég hef ekkert á móti manninum og vildi óska þess að hann gæti eitthvað í knattspyrnu.

  14. @Finnbogi
    http://www.youtube.com/watch?v=BjLMglVYCGI
    Þetta er stutt og einfalt mynddæmi um þá vanþakklátu vinnu sem Lucas vinnur og virðist oft fara framhjá mönnum. Hann er góður í þessu starfi varnartengiliðs, hleypur endalaust og brýtur upp sóknir. Í lok síðasta tímabils var hann jafnvel farinn að sýna sóknarmannatakta fyrir framan mark mótherjanna (t.d. þegar hann skoraði gegn Benfica).

  15. Afsakið útúrsnúninginn, en hvað átti John Terry að hafa sagt á þessum blaðamannafundi sem olli svona miklu uppnámi fyrir enska landsliðið? Ég er engan veginn að finna þetta.

  16. “Hann er góður í þessu starfi varnartengiliðs, hleypur endalaust og brýtur upp sóknir. Í lok síðasta tímabils var hann jafnvel farinn að sýna sóknarmannatakta fyrir framan mark mótherjanna (t.d. þegar hann skoraði gegn Benfica).”

    Takk fyrir þetta Villi ég mun sannarlega fylgjast með Lucasi í næsta leik og sérstaklega fylgjast með því sem þú telur hérna upp. Vona að hann heilli mig uppúr skónum á næstu leiktíð.

    Finnst þetta engu síðar samt veik rök fyrir ágæti hans og sérstaklega manni sem á að vera byrjunarliðsmaður.

  17. Óli G, ég er að henda inn smá færslu um þetta. Það er búið að segja frá þessu víðar og því óþarfi að leyfa KopTalk að njóta “heiðursins” fyrir að hafa verið fyrstir með fréttirnar. Sem þeir voru ekki, þótt þeir reyni að láta eins og þetta sé “exclusive” frá þeim.

  18. Tveimur leikmönnum mætti bæta við þennan lista. Það er Perez, grjótharður Uruguayskur nagli hjá Monaco og Sidney Keita hjá Barcelona. Held að allavega Keita verði falur.

    Er svona bæði og sammála með Lucas, við verðum að muna að hann er 23 ára og á eftir að bæta sig töluvert í þessari stöðu. Ég tek að nokkru leyti undir með Finnboga, nema hvað hann er ekki lélegur í neinu af þessu, hann er heldur ekki frábær. Mascherano er t.d. fyrst og fremst góður tæklari sem les leikinn vel og stöðvar sóknir andstæðinganna. Ég hef trú á Lucasi og held að hann hafi síðustu árin lært mikið af Mascherano. Er samt sammála höfundi að það þurfi að styrkja stöðuna ef/þegar Mascherano fer.

Jovanovic að hætta við?

Hodgson ræðir við Liverpool