Torres með gegn Atletico

Jæja, góðar fréttir: Fernando Torres mun líklega geta spilað gegn Atletico Madrid eftir tæpa viku.

Eftir sigur Tottenham í fyrradag þá er baráttan um fjórða sætið endanlega úti fyrir okkar menn (þótt að tölfræðilega sé enn örlítill möguleiki, en þá þurfa Man City og Tottenham að hrynja í síðustu umferðunum) – og því eru leikirnir gegn Atletico Madrid hið eina sem skiptir máli á þessu tímabili.

Það hafa vonandi flestir haft tíma til að melta vonbrigðin við því að ná ekki inní Meistaradeildina, en við megum ekki gleyma því að til dæmis Chelsea lék bara 8 leiki í Meistaradeildinni á þessu tímabili, þannig að það er ekki einsog næsta tímabil sé í ræsinu þótt við komumst þar ekki inn. Aston Villa geta reyndar komist upp fyrir okkur í sjötta sætið (þeir eiga ekki erfitt prógramm eftir fyrir utan útileik gegn Man City).

Ég er í raun ekki búinn að gera upp við mig hvort ég vilji að Liverpool komist í Europa League á næsta tímabili. Það hefur vissulega verið gaman að taka þátt í 32 liða úrslitum og uppúr, en ég er ekki alveg viss um að það sé spennandi að taka þátt í riðlakeppninni. Kannski er ágætt að liðið einbeiti sér á næsta tímabili bara að prógramminu á Englandi.

En allavegana, leikirnir gegn Atletico eru allavegana tækifæri til að enda þetta tímabil á góðum nótum. Hvað sem verður sagt um allt annað á þessu hræðilega tímabili þá væri tímabil sem endaði með sigri í Evrópudeildinni ekki afskrifað sem alveg afleitt. Það eru líkur á að við myndum eftir 10 ár bara muna eftir þeim sigri og hafa gleymt tímabilinu í deildinni.

Læknar eru á því að það sé mögulegt fyrir Torres að spila gegn West Ham á mánudaginn, en ég held að (sérstaklega ef að Tottenham og Man City tapa ekki bæði um helgina) Benitez muni gefa honum frí og freista þess að hann geti spilað í Madríd næsta fimmtudag. Það verður allavegana gleðilegt bæði fyrir Torres sjálfan og svo okkur aðdáendur.

10 Comments

  1. Í fyrsta lagi, þá bara verður Torres að geta spilað í Madríd, sjálfs sín og fjölskyldu sinnar vegna. Þegar við lékum í riðlakeppni CL gegn Madrid haustið ’08 missti hann af leiknum vegna meiðsla og það yrði leiðinlegt ef hann missti aftur af. Hann á skilið að vera hylltur á Vicénte Calderon-vellinum.

    Í öðru lagi, þá getur nærvera hans augljóslega haft úrslitaáhrif á útkomu leiksins. Gott fyrir okkar menn.

    Í þriðja lagi, þá er ég sammála þér með Evrópudeildina. Eins gaman og það er að vera kominn í undanúrslit í ár er ég ekki sannfærður um að það sé liðinu fyrir bestu að ná 6. sætinu í deild og þurfa að spila ALLA Evrópudeildina frá og með næsta hausti. Helst myndi ég vilja geta látið liðið einbeita sér að deildinni (eins og t.d. Man City hafa getað gert í vetur) og leggja allt kapp á að ná einu af fjórum efstu sætunum strax til baka.

    Það, fyrir mér, væri mikilvægara en Evrópukeppni á næsta ári.

  2. Ég er sammála því að ég er alls ekki spenntur fyrir því að spila í Evrópudeildinni á næsta ári. Sérstaklega ekki þessari bölvuðu riðlakeppni. Þetta mót er náttúrulega spilað á fimmtudögum sem riðlar leikjaprógramminu í deildinni. Mér finnst þessir mánudagsleikir alveg hræðilega leiðinlegir í samanburði við hefðbundna laugardags- og sunnudagsleiki.

    En viljum við þá ekki vinna Evrópudeildina núna? Væntanlega viljum við það og þá sitjum við uppi með sömu deild að ári.

  3. Ég er ósammála ykkur með Evrópudeildina. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vera a.m.k. með í henni en hins vegar ættum við þá ekki að keyra á sterkasta liðinu. Þvert á móti ættu “kjúklingarnir” að spila alla leikina …. Pacheco, Kelly, Spearing, Guðlaugur ….. 🙂

  4. Ég hef lengi lesið þessa síðu en aldrei tjáð mig hér áður en nú get ég ekki stillt mig. Fréttin í commenti 3 er sennilega sú besta sem ég hef fengið af LFC síðan Torres var keyptur, ef hún hreinlega toppar ekki tíðindin af kaupunum á Torres.

  5. Ég setti eigendafréttina í sér frétt. Þannig að ræðið þau mál þar.

    En er það svo að sigurvegari í EL fari í deildina á næsta ári? Það er eiginlega ekki alveg nógu sniðugt. 🙂

  6. Verð að lýsa furðu minni og undrun á skrifum manna hér. Viljum við ekki komast í Evrópudeildina? Við viljum vinna þessa keppni núna en af hverju viljum við ekki vinna hana eftir ár? Síðan hvenær varð hroki okkar svo mikill að það telst ekki gott að komast í Evrópudeildina? Við ættum að hysja upp um okkur buxurnar og drullast til að ná þessu sæti í Evrópudeildinni því Evrópukvöld á Anfield eru alltaf spennandi. Þetta er stór dolla sem er jafn mikils virði í ár og eftir eitt ár. Er því miður ekki að skilja þessa hugmyndafræði hjá ykkur varðandi þetta. Endum í 7. sæti, lítum verr út og náum okkar versta árangri í háa herrans tíð. Algjört metnaðarleysi að mínu mati.

    Það hafa mörg sterk lið verið með í UEFA Cup í ár og við höfum gert góða hluti undanfarin ár í Meistaradeildinni og sömuleiðis heima fyrir. Ef við getum ekki tekið þátt í Evrópukeppni samhliða ensku deildinni þá höfum við ekki nægilega sterkt lið. Man. Utd gat unnið báðar þessar keppnir og af hverju ættum við ekki að geta gert slíkt hið sama?

  7. Eins og ég benti á byggist mín skoðun að mestu á þessum fimmtudagsleikjum. Að mínu mati er fáránlegt að Evrópudeildin sé ekki spiluð á þriðjudögum og miðvikudögum eins og Meistaradeildin. Mér leiðast mánudagsleikir og hef trú á að þetta raski deildarkeppninni mjög mikið. Svo held ég að það sé riðlakeppnin sem menn agnúast einna mest yfir frekar en útsláttakeppnin sem við komum auðvitað beint inn í.

  8. Liverpool FC er knattspyrnuklúbbur sem vill vera að keppa um titilinn. Ef að klúbburinn telur sig á næsta tímabili ekki hafa mannskap í það að keppa um alla titla sem í boði eru þá erum við á villigötum og þá er Liverpool komið á stall með liðum eins og Everton.

    Að mínu mati var það ekki þátttaka okkar í meistaradeildinni í fyrra (8 liða úrslit) sem kostaði okkur titilinn. Ef að hugarfar klúbbsins og aðdáenda stendur ekki til þess að vinna allt sem í boði er þá er eitthvað mikið að. Fyrst við náum ekki inn í CL vona ég að við verðum með í EL á næsta ári og gerum það af metnaði. Annað hvort gera menn þetta almennilega eða sleppa því. Ég trúi því ekki að Liverpool aðdáendur vilji sjá okkur taka Aston Villa á þetta og gefa leiki í El til að reyna að slefa inn í CL. Það virkar kannski fyrir Villa aðdáendur en Við erum í þessu til þess að reyna að vinna allt. Annað er aumingjaskapur.

    Árangur næst ekki nema með metnaði. Það sem menn eru að lýsa hér samræmist alla vega ekki þeim metnaði sem ég hef fyrir hönd Liverpool. Ekki taka þessu sem árás á ykkur heldur bara mína skoðun á málinu. Get rich or die trying!

  9. Ég er sammála Gumma Daða. Framan af, á meðan við erum að spila við slakari lið í riðlakeppni, þá eigum við að gefa ungum og upprennandi leikmönnum sénsinn. Þess vegna er það algjört möst að ná þessu evrópusæti, fyrir utan það að það er helbert metnaðarleysi að vilja að liðið endi sæti neðar í deildinni til þess að sleppa við að spila í sterkri evrópudeild.

Í minningu 96-menninga.

Liverpool til sölu! (Uppfært)