Síðari hluti tímabils – eftir gluggann.

Þá er janúarglugginn lokaður og ljóst að þann fjórða í röð fáum við meiri pening í kassann en við eyddum, núna á bilinu 6.5 – 8.4 milljónir, eftir því hvaða fréttum maður trúir. Því miður segi ég, því að mínu mati þurftum við styrkingu til að gera alvöru atlögu að því að ná okkar sess í topp fjórum.

Ekki það að það sé útilokað, alls ekki, en veturinn hefur gengið þannig að mér fannst þurfa hjálp.

Á netrúntinum í morgun rakst ég á þessa þýðingu IM Scouting á viðtali í spænska fótboltablaðinu AS við Christian Purslow.

Ég hef áður nefnt það hér að ég tek mikið mark á Purslow sem kanarnir treysta fyrir rekstri klúbbsins. Þessi náungi hefur náð miklum árangri á viðskiptasviðinu, ekki pappírsárangri, og er ákaflega “driven” einstaklingur, eldrauður áhangandi í gegn sem er ákveðinn í að ná árangri með félagið í heild. Í viðtalinu kemur fram að hann hefur aldrei hugsað útí að breyta um stefnu í þjálfaramálum félagsins og Torres og Gerrard eru ekki á leið í burt. Setningin sem mér líkaði var “we are not a selling club”…. Nokkuð sem stendur í stúf við það sem á undan er gengið í raun, en vonandi ávísun á að verið sé að horfa til stórs sumars.

Hann kemur svo með forgangsröð félagsins í dag. Þá meina ég ekki endilega liðsins, en félagsins. Hún er:

1.skref – nýir fjárfestar komi til félagsins.

2.skref – framkvæmdir við nýjan völl hefjast.

3.skref – auka við hagnað félagsins svo að hægt sé að styrkja liðið verulega.

Hvursu hratt segir Purslow ekki. Hann hefur þó ekki breytt fyrri ummælum sínum varðandi nýja fjárfesta svo að reikna má áfram með að við fáum af því fréttir nú í febrúarmánuði. Enn er talað um að framkvæmdir við völlinn hefjist í apríl og þá er spurningin hvort við náum þannig að taka 2 skrefin fljótlega og eigum svo sumarið til að styrkja liðið?

Enn tygg ég sömu tugguna með það að ef að menn úti eru sallarólegir yfir þessu plani hef ég alltaf verið sá sem trúi á langtímamarkmið og að góðir hlutir gerist hægt. Auðvitað er ég orðinn brjálaður á að vinna ekki titla, en ég man líka eftir gúrkutíðinni hjá Souness og Evans, sem stóð í 10 ár og vill bara alls ekki lenda í því aftur. Félagið, ekki endilega liðið, er á allt öðrum stað en þá og vonandi ganga þessi skref það hratt fyrir sig að við þurfum ekki að velta fyrir okkur í ágúst hvað verður, heldur horfa á leikmannahóp með miklu meiri breidd og reynslu en sá sem við eigum núna.

Á rúntinum rakst ég líka á grein Ian Rush sem spjallar um vangaveltur um hvort Rafa fer til Juve og þar sem karlinn er sammála mér að við hefðum átt að kaupa senter.

Svo vann varaliðið okkar Bolton í gær í átta liða úrslitum Lancashire cup, 2-0 með mörkum David Amoo og Damien Plessis. Stóru fréttirnar eru þær úr leiknum að þeir Martin Kelly og Nabil El Zhar náðu að leika leikinn og ætti því að styttast í að þeir fái leikmínútur með aðalliðinu.

4 Comments

  1. Ég held ég sé að komast inn á skoðun þína og Purslow varðandi langtímamarkmið klúbbsins. Ég held að félagið ætti að taka sér Arsenal til fyrirmyndar, þeir eru ekki að stressa sig á 4 titlalausum árum og það er síður en svo heitt undir Wenger. Ég veit ekki hvernig staðan er á Anfield varðandi Benítez en núna eftir jól hefur aðeins kólnað undir Benítez, þrátt fyrir jafnteflin gegn Wolves og Stoke. (Já ég veit, maður hefur sveiflast fram og til baka í þessu). Þeir leikir og þessi janúargluggi núna skipta kannski bara mjög litlu máli þegar til 5-10 ára er litið. Jú, leikirnir skipta máli varðandi það að halda sér í Meistaradeildinni en mér sýnist Benítez þurfa að búa við svipaðar aðstæður og Wenger, sem eyðir yfirleitt ekki miklu í félagsskiptagluggunum.

    Mig minnir að ég hafi séð einhversstaðar að þeir verði búnir að borga upp völlinn árið 2019 og ætli upp úr 2020 að vera með yfirburðalið í enskum fótbolta. Það geta þeir gert á sjálfbæran hátt með stórum velli, mikilli innkomu af honum auk auglýsingasamninga, sjónvarpssamninga og ýmsum öðrum tekjulindum sem falla til.

    Lykillinn að þessu öllu saman hlýtur að vera sjálfbærni. Það gengur aldrei upp til lengdar að ætla að eiga ólígarka eða sykurpabba sem dælir peningum í klúbbinn. Þeir peningar þorna upp fyrr eða síðar. (sjá West Ham). Eðlilegast er, í því umhverfi sem fótboltinn er kominn í, að reka félagið með hagnaði og kaupa leikmenn fyrir þann hagnað.

    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  2. Ég verð aftur að taka upp hanskann fyrir vin minn Roy Evans fyrst sumir kjósa að upphefja Rafa með því að berja á honum. Fyrst er hann spyrtur við Souness eins eins og allt hafi verið eins hjá þeim kumpánum. Samanlögð stjóratíð Souness og Evans varði svo í 7 ár en ekki 10. Á þeim tíma vann liðið FA Cup (92) og League Cup (95).

    Undanfarin 7 ár hafa Benitez og Houllier svo sannarlega jafnað þetta, FA Cup (06) og League Cup (03) og bætt einum stórum bikar við, CL (05).

    Svo þætti mér gaman að sjá þetta plan upp á hið yfirburða tímabil 2019-2020. Þá verður Rafa sextugur, Gerrard fertugur og Insua verður þrítugur. Og svo væri einnig áhugavert að sjá hvernig langtímaplan Purslow fellur að langtímaplani annarra liða…hvort þau hafi það einnig á sinni stefnuskrá að Liverpool verði yfirburðarlið í enska boltanum?

  3. Daði: ég var að tala um Arsenal þegar ég fjallaði um tímabilið 2019-2020. Pointið er sjálfbærni, annað er útúrsnúningur. Því fyrr sem félögin átta sig á því að þau þurfa að vera sjálfbær, því fyrr verða þau tilbúin í topparáttu til langs tíma.

  4. ég persónulega get ekki séð hvernig það sé gott fyrir aðalliðið að Nabil el zhar sé að ná sér af meiðslum. fáranlega lélegur leikmaður og á ekkert erindi í aðalliðið. hef séð hann koma inná í þessum leikjum sem gengur ílla í og hann á að lífga uppá leikinn og alltaf hefur það verið hræðilegt! benitez getur frekað hent inn hvítu flaggi og gefist upp en að setja hann í liðið

Deadline day (Uppfært: lokað)

Að kaupa eða kaupa ekki