Ársverðlaun 2009 … eða þannig

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir hefur minnkað aðeins virknin hjá okkur hér á blogginu síðustu daga. Þetta er frekar eðlilegt, eins og ástandið á liðinu er. Eins og síðasta færsla hjá Einari Erni sýnir klárlega erum við komin á þann stað í þessu öllu saman að maður getur varla annað en fórnað höndum og viðurkennt að maður veit varla hvað í fjandanum er í gangi.

Þökk sé þessu ömurlega ástandi hefur lítið farið fyrir því að við tökum okkur saman eins og venjan er og kjósum um sumt af því besta á árinu. Þannig að ég ætla bara að taka af skarið og veita nokkur verðlaun í nafni Kop.is. Eftir árið sem nú er að líða efast ég um að nokkur maður verði mér ósammála:

messi_fifa

Þetta er Lionel Messi. Hann er besti leikmaður í heimi árið 2009. Hann spilar fyrir Barcelona, sem er besta knattspyrnulið í heimi árið 2009 og fer í sögubækurnar sem eitt allra besta félagslið allra tíma. Barca tók í ár þátt í sex keppnum og vann þær allar, eins fullkomið og ár getur orðið. Messi var lykillinn í þessu öllu hjá þeim og skoraði að mínu mati mark ársins þegar hann svaraði gagnrýnisröddum í maí gegn Man Utd í úrslitum Meistaradeildarinnar. Þá höfðu menn sagt að Cristiano Ronaldo væri betri leikmaður af því að hann er stærri og líkamlega sterkari og að Messi myndi t.d. aldrei skora jafn mörg skallamörk og C.Ron. þannig að auðvitað innsiglaði Messi sigur Barca í Meistaradeildinni með fallegum sveigskalla utan úr teignum á meðan Ronaldo horfði bjargarlaus á.

Messi er leikmaður ársins. Barca er lið ársins. Pep Guardiola, á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari aðalliðs, er þjálfari ársins í Evrópu.

Í Englandi? Ætli Fulham sé ekki bara lið ársins (get ómögulega hrósað meisturunum hérna, hef ekki orku í það eins og ástandið er) og Roy Hodgson þjálfari ársins? Leikmaður ársins er svo klárlega Didier Drogba, sem hætti í fýlu í febrúar þegar skipt var um þjálfara hjá Chelsea og hefur verið óstöðvandi síðan.

Hjá okkar mönnum? Eigum við ekki bara að segja að Torres sé bestur í ár og Ngog bjartasta vonin, og sleppa því að ræða það lið eitthvað frekar? Sammála? Sammála.

Hvað sem því líður þá efast ég um að það verði frekari skrif á þessa síðu fyrir kalkúninn/rjúpuna/hrygginn annað kvöld. Við snúum svo aftur af krafti á jóladag með upphitun fyrir næsta leik en þangað til langar mig fyrir hönd okkar á Kop.is að óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og FARSÆLS komandi árs. Virkilega farsæls. 🙂

Gleðileg jól!

35 Comments

  1. Sælir félagar

    Góður fyrirjólapistill hjá Kristjáni Atla. Það er engu við hann að bæta. A.m.k. ekki hjá okkur stuðngsmönnum. Rafa og leikmennirnir geta miklu bætt við og vonandi kveðja þeir gamla árið með stæl og heilsa nýju með afburðum. Ykkur kæru félagar og spjallvinir sendi ég mínar bestu jólakveðjur og vonandi fáið þið góða jólagjöf á annan í jólum.

    Gleðileg jól og megi allar góðar vættir geyma ykkur og liðið og stjórann og þá frændur alla og allt heila galleríið á Anfield.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  2. Hvað vil ég fá í jólagjöf?

    Ég vil að liðið sem ég elska hætti að gera sig að fífli og fari nú að spila eins og við stuðningsmennirnir eigum skilið.

    Þarf engar aðrar jólagjafir þetta árið 🙁

  3. Gleðileg jól piltar og þið fáið náttúrulega útnefningu sem síðuhaldarar ársins með áhangendasíðu ársins.

    Ég vona að nú fari stjórnin að kveikja á perunni og fá annan þjálfara til klúbbsins og vonandi mun nýtt ár byrja nýjan kafla í sögu þessa liðs.

  4. Ég og mitt sauðfé óskar Liverpool-mönnum nær og fjær gleðilegra Jóla osfrv…

    Jólagjöfin í ár er klárlega einn gámur af lýsi, sendur á Melwood.

  5. (Pep Guardiola, á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari aðalliðs, er þjálfari ársins í Evrópu.) Þarna sjá menn og konur að þó að sé skipt um þjálfara þá þarf ekki endilega að byrja að byggja liðið upp sem taki kanski 2-3 ár eins og margir vilja meina, vildi bara koma þessu að. Vona að allir hafi gleðileg jól og tökum nú þetta eftir jólin með meistara töktum. 😉

  6. Gleðileg jól félagar.
    Vonum að þetta fari að skána hjá okkar mönnum.

  7. Það er ekki hægt að mótmæla Barcelona sem besta liði ársins og því síður Messi sem leikmanni ársins. Vill þó meina að hann sé ÁSAMT Xavi og Iniesta lykillinn af þessu öllu hjá Barca, enda tókst þeim að bæta EM titli við þetta safn sitt fyrir ekki svo löngu síðan, án Messi.

    Get eiginlega alveg samþykkt þetta val á Fulham sem lið ársins og eins með Hodgson. Drogba hefur síðan verið svo góður í ár að það er ekki sanngjarnt þá að ég geti ekki gert upp á milli hans og Essien sem mér finnst einfaldlega geðveikur leikmaður.

    Hjá okkur fannst mér Benayoun standa uppúr eftir tímabilið í fyrra en það er ekki hægt að mótmæla vali á Torres heldur!

    Annars ætlaði ég að gera örsutta færslu en set þetta bara hér:
    A) Mér er mein illa við arabavæðingu enska boltans og vill ekki sjá þetta halda áfram að verða einhver managerleikur þeirra ríku. En meðan svo er vona ég heitt og innilega að við tökum þó þátt í þeim leik því óska ég eftir að þetta verði jólagjöfin í ár http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-1237882/Saudi-prince-plans-buy-George-Gilletts-stake-Liverpool.html?ITO=1490

    Það er alveg sama hvaðan kvikindið kemur og næstum hvaðan aurinn er, það er allt skárra en kanar í knattspyrnu.

    B) Þetta tímabil hefur reynt alveg hræðilega á þolrifin og það er alveg ljóst að okkur vantar einhvern stóran trukk í sóknina. Þetta væri samt einum of mikið fyrir mína þolinmæði http://www.mirrorfootball.co.uk/news/Rafa-Benitez-wants-Emile-Heskey-back-at-Liverpool-article266579.html? Ég get ekki Heskey aftur!

    og að loknum óska ég þess heitt og innilega að næsta ár verði þannig að við þurfum ekki að lesa svona fréttir um næstu Jól http://visir.is/article/20091223/IDROTTIR0102/164740767 Reyndar finn ég þessa frétt hvergi á Gaurdian og nenni ekki að spá í O´Neill hjá Liverpool.

  8. @Már Gunnars. Það er ólíku saman að jafna með resourca sem eru til hjá Barcelona og Liverpool því miður. Hann tók við Xavi, Iniesta, Messi, Alves og fleiri mönnum. Gat svo leyft sér að láta Eto frá sér og borga háa fjárhæð í milli til að fá Zlatan.

  9. Gleðileg jól sömuleiðis, Kristján og félagar. Og fyrst minnst er á Barcelona, þá væri auðvitað besta jólagjöfin sú að Liverpool tæki upp sama rekstrarfyrirkomulag og Barcelona. Sem er ekkert að fara að gerast, því miður.

  10. Gleðileg Jól, allir Liverpool menn um allan heim. Vonandi taka leikmenn LFC sig saman í andlitinu í leikjum yfir hátíðirnar, sem og næsta ári. Það væri frábær jólagjöf til stuðningsmanna. Vona að við losnum við Kanana 2010, og að við fáum einhvern góðan leikmann til okkar í janúar. Kannski of frekt af mér, ,,,,,, en ég vona.

  11. Góður pistill Kristján Atli. Get tekið undir allt sem þú skrifar nema það að Fulham sé lið ársins í Englandi. Liverpool er að sjálfsögðu lið ársins. Þeir hafa skemmt okkur svo um munar með frábærri spilamennsku.

    Gleðileg jól öll saman.

  12. Ég óska Liverpool mönnum nær og fjær, gleðilegra jóla. Vil svo þakka kærlega fyrir þessa síðu. Bara ef þessir blessuðu leikmenn okkar stæðu sig jafn vel og þið.

    Sigurjón #4, ég er klárlega með í þeirri gjöf 🙂 Hætta þessu legköku meðferðar kjaftæði og back to basic !

  13. Fulham eru nálægt því að vera lið ársins en Ryan Giggs er leikmaður áratugarins.

  14. Gleðileg jól félagar og takk fyrir góða síðu.

    “Barca er lið ársins. Pep Guardiola, á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari aðalliðs, er þjálfari ársins í Evrópu.”

    Algjörlega sammála. EN….. hefur því samt ekki verið haldið fram hér á síðunni að það sé tóm tjara að ráða reynslulausa menn? Og að það séu engir kostir í boði í staðinn fyrir Benitez?
    Barca virðist hafa fundið kost á sínum tíma, og það algjörlega óreyndan! Miðað við það sem menn hafa haldið fram hér, m.a. sá er ritar þennan pistil, þá hlýtur það að hafa verið tóm vitleysa hjá þeim að ráða Pep, er það ekki? Maður ræður ekki óreynda menn sem stjóra, eða hvað? Þvílíkt glapræði sýnist mér hjá þeim.

    Varð að koma þessu að því að mér finnst svo spaugilegt þegar menn segja að það séu “engir kostir” í boði í staðinn fyrir Benitez o.s.frv.

  15. Stb, Guardiola er algjörlega undantekningin sem sannar regluna í þessum bransa. Það einfaldlega gerist ekki oft að nýliðar taki við stærstu liðunum og nái árangri, og því síður gerist það yfirhöfuð að menn eigi jafn fullkomið fyrsta ár sem aðalþjálfari, hjá jafn stóru liði og Barca, og Guardiola er að gera núna.

    Þannig að þótt honum hafi tekist vel upp er ekki þar með sagt að við gætum núna ráðið einhvern fyrrverandi fyrirliða undir fertugu (Redknapp? Fowler?) og náð sama árangri. Auðvitað er ekkert sem útilokar það en þetta er meira undantekningin að svona ráðning heppnist.

    Sem gerir árangur Barca í ár enn ótrúlegri, að sjálfsögðu.

  16. Það er heldur ekkert verið að halda því fram að þetta sé alveg vonlaust og hafi aldrei tekist í sögunni… Kenny Daglish var nú alveg ágætur t.a.m. sem stjóri, meira að segja áður en hann hætti að spila. Maður bara sér þennan mann ekki í dag sem myndi gera betur með liðið miðað við aðstæður.
    Guardiola hefði t.a.m. líklega ekki gert mikið á Anifeld leyfi ég mér að tippa á.

  17. Hef bara ekki nennu í að ræða gengi liðsins á þessum tímapunkti.

    Vil í staðin óska öllum Liverpool mönnum nær og fjær gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

    Ykkur síðuhöldurum vil ég þakka sérstaklega fyrir frábært starf á árinu sem nú fer senn að renna sitt skeið á enda.

    YNWA
    Styrmir

  18. Takk fyrir frábæra síðu.
    Hef haft gaman af því að fylgjast með umræðunni hér sem er oft æði tilfinningaþrungin en það er einmitt það sem gerir aðdáendur Liverpool þá bestu í heimi.
    Nú er ekkert annað að gera fyrir okkar menn en að “bíta í skjaldarrendur” eins og Bjarni Fel mundi orða það.

    Gleðilega hátíð.

  19. Má heldur ekki gleyma því að Guardiola bæði spilaði áður með Barcelona (undir Cruyff, no less) og þjálfaði B-liðið með góðum árangri. Hann gjörþekkti því félagið og alla innviði þess og skipulag, og allir, bæði leikmenn og starfsfólk, þekktu hann vel. Það má alls ekki vanmeta þann þátt.

    En hvað segiði um Heskey: http://bit.ly/6OhIF8

  20. Takk fyrir frábæra síðu….
    Jólagjöfin mín í ár eða vor alveg sama er 4sæti, nýjir eigundur og martin o’neill…
    En já og aftur takk ein besta síða landsins, ég kvet ykkur til að halda áfram á sömubraut…

  21. Sælir félagar og til hamingju með síðu ársins, að mínu mati. Þótt ég hafi ekki verið að skrifa mikið hérna, hef ég kíkt hingað inn svona u.þ.b. 1700 sinnum á ári. 🙂

    Gleðileg jól og áfram Liverpool !

  22. Sælir félagar.

    Án þess að ætla að setja út á Guardiola kom hann nú að góðu búi hjá Barca. Við erum nú með svipað dæmi hérna heima í Heimi Guðjóns hjá FH þar sem fyrrum leikmaður sem þekkir klúbbinn út og inn tekur við stjórastarfinu og landar titli á sínu fyrsta ári sem þjálfari hjá liði í efstu deild.

    En það verður ekki tekið af Guardiola að hann lifir fyrir þetta lið og nær með mjög góðum árangri að stimpla inn þann hugsunarhátt hjá liðsmönnum enda Barca liðið sem við vorum svo heppnir að fá að fylgjast með síðasta árið einhver besta liðsheild sem nokkurn tíma hefur sést.

    Ég vil fá að bæta í þakklætisbunkann hjá ykkur síðuhöldurum fyrir þessa frábæru síðu ykkar og óska ykkur og gestum þessarar síðu öllum Gleðilegra Jóla og farsældar á nýju ári.

  23. Gleðileg jól og takk fyrir síðuna!

    Smá innskot. Ef skipta á Rafa út, af hverju ættum við frekar að vilja Martin O’neill en til dæmis King Kenny. Þurfum við að leita langt yfir skammt? Annað, er það svo víst að O’neill vilji fara frá Villa yfir í lið sem er neðar í deildinni?
    Æ ég veit ekki.

  24. Sælir,
    ég fékk kristallskúlu í skóinn nú í nótt. Ég var að lesa í hana og stórmerkilegir hlutir sáust. Aston Villa byrjar að fatast flugið í enda janúar, Tottenham endar í 5. sæti og Liverpool verður á þvílíku “rönni” og síðustu 7 leikirnir verða alveg rosalegir og skila okkur á endanum 4. sætinu eftir baráttu við Arsenal um 3. sætið.
    Gleðileg jól og farsælt komandi ár, hafið það sem allra best yfir hátíðarnar og heyrumst hressir annan dag jóla, eftir að hafa rassskellt Úlfunum á Anfield í leik þar sem Aquilani byrjar inn á og skorar mark.

  25. Gleðileg jól….leiðin liggur uppá við og hún hefst með sigri á Wolves í næsta leik.

  26. Sælir félagar

    Ég gleymdi því sem síst mátti gleymast. Það er að þakka þeim sem halda úti þessari síðu af einstakri elju og dugnaði. Síða þessa árs og síðustu ára í fótboltaumræðu og ekki annað að sjá en svo muni verða meðan síðuhaldara þrýtur ekki örendið. Takk strákar, þið eruð frábærir. Gleðileg jól sérstaklega til ykkar.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  27. Gleðileg jól ágætu félagar.

    Takk fyrir gott spjall á árinu og kærar þakkir fyrir að halda þessari frábæru síðu úti.

  28. Gleðileg Jól til Púllara nær og fjær.

    Takk fyrir Kop.is. Þið síðuhaldarar eruð frábærir…. 🙂

    YNWA

  29. Gleðileg jól, kæru Kop.is-haldarar. Þið eruð meistarar, og eigið hrós skilið fyrir frábæra síðu!

    Sjáumst hressir á milli jóla og nýárs og auðvitað auðvitað auðvitað munum við taka jólatörnina með pompi og pragt!!

    Frohe Jól! Áfram Liverpool!

  30. Til hamingju með jólin púllarar…þetta fer allt upp á við á komandi tímum,og bind ég þá vonir um að eitthvað sé til í þessum “fréttum” sem bárust frá Bretlandi um helgina…

Hvað í fjandanum hefur breyst? – og vangaveltur um það hvort við vorum á lyfjum síðasta sumar

Gleðileg Jól