Fjölmiðlar – fjórða valdið

Hef nú um sinn verið að velta fyrir mér að skrifa pistil um það vald sem fylgir fjölmiðlum í nútímanum. Um það vald er kennt í Félagsfræði og Stjórnmálafræði en að undanförnu finnst mér stöðugt meira benda til þess að það vald ætti að kynna fyrir knattspyrnumönnum og stjórum.

Áður en lengra er haldið frábið ég mér umræðum um að ég sé að “væla” eða að þetta sé allt “partur af sálfræðistríði”. Þetta er það alls ekki heldur eingöngu tilraun til að skoða stöðu félagsins okkar á meðal fjölmiðlanna.

Írskur dálkahöfundur

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta núna er að ég var staddur á Írlandi í síðustu viku og sat þá á bar og las eitthvað írskt “Times” blað sem ég hef síðan verið að leita að á netinu. Þar var dálkahöfundur þess blaðs að ræða FÁRÁNLEIKA þeirrar umræðu að Liverpool Football Club myndi reka framkvæmdastjórann Rafael Benitez á þeim tímapunkti.

Saga brottrekstra stjóra hjá LFC

Í fyrsta lagi rifjaði hann upp sögu liðsins og þess hvernig þeir skipta um framkvæmdastjóra.

Frá því að Bill Shankly tók við Liverpool þann 1.desember 1959 hefur stjórn félagsins rekið framkvæmdastjóra EINU SINNI á miðju tímabili og það var í janúar 1994 þegar Souness karlinn var rekinn eftir hrikalegt gengi liðsins í tvö ár. Vissulega hættu Evans og Dalglish inni á tímabilinu en Liverpool er einfaldlega ekki klúbbur sem rekinn er á þennan hátt, þrátt fyrir að nýir eigendur séu nú komnir að klúbbnum átti þeir sig á vinnulaginu á Anfield. Enda voru þeir að ræða við Klinsmann á sínum tíma að taka við liðinu eftir tímabilið. Því skyldu menn átta sig á að hefð félagsins fyrir brottrekstri á þessum tímapunkti væri engin.

Staðan í eigendamálum og völd færð til Rafa

Svo voru það eigendurnir. Tom Hicks og George Gillett eru óvinsælir á Anfield. Síðustu 18 mánuði hafa þeir hins vegar skýrt og greinilega fært öll völd knattspyrnumála félagsins á hendur Benitez. Fyrst var það greinilegt þegar Rafa seldi Robbie Keane, síðan þegar ljóst varð að Rick Parry var að fara og síðan þegar búlkinn úr þjálfaraliði vara- og unglingaliðsins var rekinn og nýir menn fengnir í staðinn. Um leið og síðan fór Rafa í að gera langtímasamninga við alla lykilmennina sína, Gerrard, Carragher, Torres, Kuyt og Agger. Nú er verið að verðlauna Reina og reyna (hehe) að fá Mascherano til að skrifa undir langan samning.

Svo fékk Rafa að kaupa tvo stóra spilara fyrir um 20 milljónir punda hvorn, og þrátt fyrir allt er það töluvert traust sem verið er að rétta stjóranum.

Lið Houllier og gengið að undanförnu

Töluvert ræddi þessi dálkahöfundur það sem ég hef áður rætt. Þá staðreynd að af 52 leikmönnum sem voru á aðalliðs-, varaliðs- og unglingasamningum á Anfield í júní 2004 voru í mesta lagi 6 þar á ferð sem telja mátti toppklassaleikmenn, þá Finnan, Riise, Hyypia, Carragher, Hamann og Gerrard. Ég reyndar myndi vilja skoða að bæta Dudek við, en þó ekki. Það sem Rafa tók við voru óefnilegir unglingar (Raven, O’Donnell, Smyth og Foyle – hvar skyldu þeir vera), oflaunaðir slakir leikmenn (Biscan, Cheyrou, Diao og Smicer) og leikmenn sem aldrei náðu sér í gang þrátt fyrir efni áður (Baros, Cissé, Mellor, Le Tallec og Pongolle).

Í dag, einungis FIMM árum síðar eru af þessum 52 leikmönnum sem þá voru á samningi einungis fimm eftir! Gerrard og Carragher voru á aðalliðssamningum og Darby, Spearing og Irwin voru nýkomnir á unglingasamning. í dag eru hjá Liverpool 79 leikmenn á slíkum samningum. Semsagt í raun 74 nýir þó meiriparturinn sé auðvitað unglingar. Sláum þriðjung af og þá erum við með 50 leikmenn í liðinu sem Rafael Benitez hefur fengið þangað og við skulum ekki ætla annað en nýr maður myndi nú ekki nota þá alla.

Og hvernig hefur gengið verið? Liverpool urðu síðast meistarar 1990. Frá þeim tíma og þangað til Rafa Benitez tók við hefur liðið náð 2.sæti tvisvar!!! 1991 og 2002. Hæsta stigatala liðsins frá 1991 – 2004 var 80 stig árið 2002.

Fyrsta árið munum við sem CL-árið og annað sem FA-cup árið. En það ár náðum við hæstu stigatölu liðsins frá því að PL var stofnuð, 82 stig og í fyrra náðum við 86 stigum. Öðru sæti.

Muna menn eftir stóryrtum lýsingarorðum um að “risinn væri vaknaður” frá 2006 eða frá því í vor. Held ekki.

Semsagt

Lið sem ekki er vant að reka stjóra á miðri leiktíð, eigendur sem hafa veitt stjóranum mikil völd og ábyrgð og besti árangur í ensku deildinni í um 20 ár.

Að stýra umræðu

Fyrirsagnirnar í blöðunum frá Sunderland-tapi og fram á United-sigur voru margar.

Sky, BBC og Times voru róleg, þó flest teldu pressuna hafa aukist. En snilldarblöðin eins og Sun, NOTW, Daily Star og Daily Express fóru hamförum af gleði yfir slöku gengi LFC!

Drógu upp fréttir um yfirvofandi gjaldþrot og hrun. Það skal þó bent á að árið 2008 náði LFC mesta gróða í sögu félagsins og nýlega gerði félagið stærsta auglýsingasamning í sögu liðsins og a.m.k. næststærsta auglýsingasamning í fótboltanum.

Þessum fréttum sorpmiðlanna bresku var samviskusamlega dreift á 365 miðlum, á Vísi og í íþróttafréttum.

Farið var að ræða um slök kaup Benitez. Drógu þar upp Pennant, Bellamy, Morientez, Gonzalez, Dossena og Babel helst og mest. Gott og gaman hefði nú verið ef þeir hefðu minnst á Poborsky, Nevland, Veron, Taibi, Djemba-Djemba, Kleberson, Hargreaves eða jafnvel Berbatov. En það var ekki gert.

Enda fær maður aldrei umræðu um þau kaup sem hafa mistekist á þeim bæ. Alls ekki á United deild 365 lýsenda og analýsera. Þó kannski aðeins örlar á það hjá Hemma Gunn pirruðum. Heldur er ekki rætt um Stepanovs, Luzhny, Cygan, Jeffers, Wright eða Diawara hjá Wenger.

Þið megið leiðrétta mig ef þið lesið oft fréttir um mistök þessara manna á markaðinum sem mér finnast þó nokkur. Nýjasta dæmið um þetta er auðvitað Owen sem enn er verið að mála sem landsliðsmann framtíðarinnar hjá enskum, komandi inná 13 – 18 mínútum fyrir leikslok í deildarleikjum en fær þó að byrja gegn Barnsley.

Með sömu meðferð hans á Anfield hefði verið farið að spyrja spurninga í blöðunum en ekki á OT.

Svo eru það umræðurnar um karakter stjórnendanna. Þar er Rafa yfirleitt nefndur sem sá þurri sem lítið gefur af sér og enginn fær að ráða nema hann. Bíddu aðeins. Eigum við að líkja honum við þann gamla? Ferguson hárþurrku sem hefur hent leikmönnum frá liðinu fyrir að draga vald hans í efa. Maður sem hefur skipt sér svo sterkt af einkalífi leikmanna að hann hefur kynnt þá fyrir “verðugum eiginkonuefnum”. Telja menn líklegt að hann smiti af sér gleðinni. Löngu hættur að stjórna æfingum og hleypir engum að sér nema Mike Phelan. Lesa bara ævisögur Beckham og Stam ef menn ekki trúa því.

Hvenær lásuð þið síðast frétt um skapgerð Fergie? Ég þarf allavega að leita töluvert að því…

Að fara með vald

Það er ekki nokkur spurning að þeir sem fá penna í hendur eða að slá á lyklaborð tölvu til að skrifa það sem fólk les eða að sjá um lýsingar leikja eða analýseringu eftir þá hafa ákveðið vald. Þeir geta valið sér að standa með mönnum eða liðum og látið dæluna ganga hratt og örugglega gegn öðrum.

Ég hef oft pirrað mig á þeim góðu drengjum sem stundum detta inn til að greina leiki og lýsa. Því miður detta margir í þá gryfju að lýsa sinni andúð á einstaklingum eða liðum óháð raunveruleikanum. Ekki síst hjá þeim sem sinna þessum störfum hér. Það er alveg ferlega ferlegt að hlusta á menn sem eru að tala um LFC og brosa í kampinn eftir tapleik og nota tækifærið til að berja á liðinu og stjóranum. Slá þá um sig með frösunum sem sóttir eru í Sun og öll hin og eru algerlega tilbúnir að höggva menn án dóms og laga, af einskærri gleði.

En það er líka það sama sem maður sér í íslenska boltanum.

Hér skiptir töluverðu máli að vera vel tengdur íþróttadeildunum og þær hafa átt stóran þátt í að skipta út og inn þjálfurum og færa til leikmenn.

Jafnvel gengið svo langt að segja um suma að “eftirsjá verður af þessum manni úr boltanum” þó að rjúkandi rústir standi eftir hjá liðunum sem þeir voru að kveðja…

Kjarninn

Fjölmiðlar geta með stöðugum fréttum og tilvitnunum hverjir í aðra haft verulega að segja um hvað gerist hjá þeim sem þeir fjalla um.

Undanfarin þrjú ár hefur mér fundist halla verulega á fréttaflutning af liðinu okkar. Gjaldþrotaspjall, endalausar umræður um kulda og það hvernig leikmenn hafa verið “sveltir” eða illa farið með þá. Kuldi þjálfarans.

Hlutirnir eru að sjálfsögðu ekki rósrauðir. En alls ekki kolsvartir.

Ég fer ekki frá þeirri skoðun að fyrir hverja rósrauða frétt sem birt er um LFC koma 7 – 10 kolsvartar til baka.

Þess vegna skiptir máli fyrir okkur öll að reyna að rýna í gegnum sorpið og skoða hvað við getum hlustað á. Ég les langmest blöðin sem eru í Liverpool og reyni að hlusta á eins mörg viðtöl sjálfur og ég get. Ég treysti ekki Lundúnapressunni, hvað þá Vísi.is og íslenskum fréttaflutningi.

Og það er sorglegt ef einhverjir gerðu eins og ég í gær og gáfust upp á íslenskri lýsingu leiks, fyrst og fremst vegna þess að eftir 45 mínútur af leiknum fékk ég nóg af lýsingum á “gríðarlegum efnum” annars liðsins og stöðugu hrósi á Wenger og “hans unglinga”.

Fór á NewsNow í dag og fann þá tvær greinar sem tengjast því sem ég spjalla um, þær eru því miður ekki á stórum og traustum miðlum en ég læt þær fylgja hér og aðra sem kemur hér!!!

21 Comments

  1. Mikið rosalega er ég sammála þér og þessi pistill ætti að forwarda beint á Hansa Bjarna, Magga Gylfa, Hemma Gunn, Henry Birgi og félaga. Ég þakka kærlega fyrir þennan pistil því ég mun linka hann nokkra félaga mína:)

  2. Frábær pistill! Og vel rökstutt. Bendi einnig sérstaklega á seinni linkinn sem þú kemur með í lokin. Þar eru einnig fleiri góðir punktar.

  3. Það er nú alveg hægt að uppfæra þennan pistil á United. Fjölmiðlar í Englandi ganga eru flestir ABU anything but United. Fjölmiðlar á Englandi og á Íslandi nota hvert einasta tækifæri til þess að birta “fréttir” um rjúkandi rústir United, heimsveldi að molna, krísur og deilur milli leikmanna.
    Það er bara þannig að með þá sem eru á toppnum, þá er skemmtilegast fyrir “hlutlausa” að lesa slæmu fréttirnar, þetta á við bæði um United og Liverpool.
    og að setja Hargreaves í flokk yfir misheppnuð kaup er ansi tæpt, sem fótboltamaður er hann hverrar krónu virði og það bjóst engin við þessum hnémeiðslum sem hann er búinn að vera í og það er nú ekki gert annað en að birta 10 verstu kaup Fergusons fréttir á Vísi. Þeir meir að segja settu Owen á lista yfir verstu kaup ársins þrátt fyrir að hann hafi komið frítt og sé á pay as you play díl.

  4. Owen Hargreaves.

    Keyptur á 17 milljónir punda.

    2007 – 2008. 34 leikir, 2 mörk og 2 stoðsendingar. Keyptur til að vera miðjumaður en lék rúman helming leikjanna sem hægri bakvörður.
    2008 – 2009. 3 leikir, 0 mörk og 0 stoðsendingar.

    Óvíst hvort hann spilar meir.

    Hlýtur að vera vond kaup, að fá enskan landsliðsmiðjumann, sem ALLTAF hefur verið injury-prone og láta hann spila allt aðra stöðu. En sennilega ekki þar sem hann er á OT……

  5. Hann spilaði flesta leikina sem miðjumaður en fór í bakvörðin þegar mikið var um meiðsl í liðinu og hann á ð verða klár um miðjan nóv.

  6. Hvaða fréttir eru það ? Ég hef ekki séð slæma frétt um United í langan tíma, hvorki í íslenskum eða enskum miðli. Verður að rökstyðja þetta aðeins betur. Afhverju ætti Owen ekki að vera í þessum hóp ?? Kannski fullsnemmt að tala um verstu kaupin þegar 1/4 afr mótinu er búinn. Menn vissu svo víst af meiðslum Hargreaves, hann hafði verið ár minnir mig frá hjá Bayern vegna einmitt þessa meiðsla. Ferguson vissi vel að hann væri meiðslapési og þú þarft ekkert að vera að reyna að segja mér annað Már. Svo voru þetta að mig minnir 10 verstu kaup ársins. Jolen Lescott var þar efstur og ég man ekki annað en að hann hafi verið keyptur í hitt Manchester liðið.

    Annars frábær pistill Maggi og fræðilegur !

  7. Get bara ekki verið sammála því að þetta sé svona svart og hvítt, fjölmiðlar á móti Liverpool og með United eða öðrum liðum, hvort sem er á Íslandi eða í útlöndum. Las breska könnun fyrir margt löngu sem sýndi fram á það að ef frétt um United væri á forsíðu seldist dagblaðið betur. Miðað við að stjörnudýrkun hefur farið vaxandi ef eitthvað er kemur lítið á óvart þó að margar fréttir birtist um liðin í efstu sætunum, líka vondar. Oft skapa liðin sér líka sína eigin gröf í þessum efnum hóst Gillet og Hicks hóst

    Held að á spjallborði allra stóru liðanna fjögurra sé á einhverjum tímapunkti hægt að finna svipaða umræðu t.a.m. núna um Ferguson og dómara sem fjölmiðlar hafa mikið velt sér upp úr og hjá Arsenal þegar blaðran springur og í ljós kemur að þeir vinna ekkert 5. árið í röð.

    Umræður um kaup á lélegum leikmönnum eru eða voru ölluheldur algengar hjá United og Arsenal upp úr aldamótum þegar flest allir ofangreindir “snillingar” voru keyptir. Það sést kannski best á því að allir Arsenal leikmennirnir sem nefndir eru voru keyptir fyrir langa löngu og flestir löngu farnir. Svo sýnist mér Berbatov ekki hafa farið varhluta af gagnrýni. Hargreaves hefur þó verið látinn í friði, sennilega af því að hann er enskur landsliðsmaður.

  8. Í öllum meginatriðum er ég hjartanlega sammála þessum pistli. Fréttaumfjöllun um enska knattspyrnu á þessu landi eru yfirleitt á sama plani og fréttirnar á Vísi.is um fullar leikkonur á skonsunni. Semsagt rusl.

    Þýddar fréttir úr breskum sorpblöðum eru birtar á miðlum eins og Visi.is og matreiddar eins og þær séu sannleikur. Þrátt fyrir að allir viti og amma mín að bresk sorpblöð séu álíka áreiðanleg og Baggalútur.

    Ef einhverjir sorpþýðendur eru að lesa þessa síðu (T.d. Henry Birgir Gunnarsson eða Hans Steinar Bjarnason) langar mig að benda þeim á 3. gr. í Siðareglum Blaðamannafélags Íslands.

    ,,Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er ”

    En svo ég komi mér nú að efninu. Eru fréttir um slæma fjárhagstöðu félagsins endilega svo mikið rugl? Er það lygi að ef klúbburinn komist ekki í Meistaradeildina (sem er vissulega möguleiki) þá muni klúbburinn fara í greiðslustöðvun?

    Vissulega er skuldastaða klúbbsins áþekk skuldastöðu hinna toppliðanna þriggja. Hinsvegar þá mun okkar lán falla á gjalddaga strax næsta sumar. Skv. minni bestu vitneskju þá er ekki nokkur einasti séns á klúbburinn muni geta borgað þetta lán. Eina von okkar sé að lánið verði framlengt eða þá að nýjir eigendur komi inn í félagið með nýtt fjármagn.

    Ef Liverpool komist ekki í Meistaradeildina sé fjárhagsstaða klúbbsins svo slæm að ekki séu nokkrar fjárhagslegur forsendur fyrir því hví skuldunautur okkar Royal Bank of Scotland ætti að framlengja það.

    (Auk þess sem möguleikar okkar á því að greiða okkar lán upp eru töluvert minni en möguleikar hinna liðanna vegna smæðar leikvangs okkar. Nýr leikvangur myndi aftur á móti þýða enn meiri skuldsetningu. Chelsea hefur jú vissulega jafn lítinn leikvöll og við – og enn skuldsettari en eru hinsvegar með sykurpabba sem dælir peningum í félagið)

    Ennfremur veltir maður fyrir sér hvaða fjárhagslegu forsendur láu á baki því að Royal Bank of Scotland ákvaðu að framlengja lán okkar seinasta sumar. Trúa þeir því að þeir muni fá peninginn til baka í náinni framtíð? RBS lítur hinsvegar ekki lögmálum markaðirins þar sem það er í eigu breska ríkisins. Við getum því ekki útilokað að ástæður þess að lánið hafi verið framlengt séu e.t.v. pólitískar. Verkamannaflokkurinn er í ríkisstjórn í Bretlandi þessi misserin. Liverpool er rauð borg. Á Merseyside eru 16 þingsæti sem Verkamannaflokkurinn hefur hingað til gengið að sem vísum. Ef Verkamannaflokkurinn myndi setja Liverpool FC í greiðslustöðvun (sem myndi hafa í för með sér sölu á bestu leikmönnum þess[…] liðið mynda enda eins og Leeds) myndi þeir glata stórum hluta þeirra þingsæta.

    Í júní verður Íhaldsflokkurinn væntanlega kominn í ríkisstjórn á Bretlandi. RBS verður því komið með nýja yfirstjórn. Ljóst er að Íhaldsflokkurinn hefur litla hagsmuni af því að forða Liverpool FC sérstaklega frá greiðslustöðvun.

    Ef það eru einhverjir rangfærslur í þessu hjá mér, eða einhver hluti sögunnar sem mér er ekki kunnugur, þá endilega leiðréttið mig. Endilega, endilega. Því satt best að segja, þá er þessi staða að valda mér töluverðum áhyggjum af klúbbnum mínum.

  9. P.S. Jú, ég las greinina sem Einar Örn benti á um daginn. Hún var fróðleg. En hún náði samt ekki að eyða þessum áhyggjum mínum.

  10. Myndi nú ekki flokka Hargreaves sem léleg kaup. Það vita allir hvað hann getur í fóbolta. Lykilmaður í liðinu á fyrsta tímabilinu þar sem hann brilleraði í CL leikjunum. Ef hann hættir brálega þá má telja þetta vera flopp kaup.
    Og Haukur segir: Ég hef ekki séð slæma frétt um United í langan tíma, hvorki í íslenskum eða enskum miðli. Þá spyr ég: ef ekkert er í gangi á þá að búa eitthvað til ? liðið var taplaust frá 19 ágúst. Menn verða að viðurkenna að Liverpool hefur verið fyrirsagnamatur í góðan tíma, taphrinan og svo endalaus sirkus með eigendur og hugsanlega sölu á liðinu sem og læti milli benitez kanana. Með svona fréttum seljast víst blöðin. Menn verða að horfa útfyrir ramman. Annars er gaman að þessu !!

  11. Kóngurinn er með’etta:

    Frjálsir við erum, fellum ekki dóma
    flíkum aðeins því sem tíðast ber á góma.
    Oftast við reynum rjómanum að fleyta.
    Reyndin er sú að við erum sífellt að leita.

    Náðu þér í eyðni, þú endar á mynd.
    Enginn þarf að segja okkur það geti kallast synd.
    Forsíðan í einn dag, framtíðin í tvo.
    Síðan færðu okkar samvisku og hendur til að þvo.

    Við nærum þig á hörmungum og hryllingi í dag.
    Því heilbrigð frétt er lásí tónn og illa sungið lag.
    Mannorð þitt er okkar matur, punktur, komma, strik.
    Við myrðum þig og blásum burt, sem þú værir ryk.

    Geiríkur ég heiti, heillin mín góða.
    Hentu í mig lyginni, kallaðu mig sóða.
    Með gáfunum ég punta mig, með penna vil ég stýra.
    Með prúðmennsku enginn getur selt slúðrið dýra.

    Við nærum þig á hörmungum og hryllingi í dag.
    Því heilbrigð frétt er lásí tónn og illa sungið lag.
    Krossfarar við erum í klóaki með frétt.
    Við kennum ekki siðfræði, hvað sé rangt og rétt.

  12. Fréttirnar beinast aðallega að SAF og hafa miður gáfaðir blaðamenn verið að púkka upp á “sérfræðinga” eins og Poll og Winter sem eru alræmdir ABUar til að dæma um öll vafamál varðandi dómgæslu United. Svo er mikið búið að fjalla um það á Englandi hvernig Glazerarnir hafa farið með Tampa Bay Buccanaiers og áætla flestir að þeir muni gera það sama við United. Við höfum ekki lent jafn illa í ruslpressunni og Liverpool í ár það er hins vegar alveg ljóst.
    En meiðslinn sem Hargreaves var að lenda í hjá Bayern voru aldrei jafn slæm og þetta blessaða hlauparahnésdæmi sem hann er í núna og engin leið fyrir menn að sjá það fyrir, svo það er full snemmt að afskrifa hann, ef hann spilar ekki aftur þá fer hann í flokk virkilega slæmra kaupa en það bendir allt til þess að spili aftur og það eftir u.þ.b. 2 vikur.
    Svo er nú ekki hægt að setja Nevland greyið í flokk slæmra kaupa, hann kostaði lítið sem ekkert var 19 ára og var keyptur áður en hann spilaði meistaraflokksleik í Noregi. Hann var keyptur eftir að hafa staðið sig vel í æfingaleikjum með varaliði United. Ef hann er settur í flokk með slæmum kaupum þá ætti nú Haukur Ingi að vera þar hjá Liverpool.

  13. Mér finnst nú yfirleitt ekki halla mikið á liðið sem heild í umræðunni undanfarið (tek fram að ég fullyrði ekkert um það hvernig þetta er heima á klaka), þ.e.a.s. leikmenn og áhangendur. Brandarakallarinr frá Bandaríkjunum geta náttúrulega engum nema sjálfum sér um kennt en hins vegar fær maður það oft á tilfinninguna að greyið hann Benitez fái ekki sanngjarna meðferð, hann virðist vera ægilega óvinsæll eitthvað hjá blaðamannastéttinni ensku.
    Í sambandi við fjárhagsstöðuna hef ég hins vegar minni áhyggjur, þó svo við næðum ekki CL sæti þetta árið. Það væri ansi mikil áhættufjárfesting hjá Standard Charter að henda 80 millj. pundum næstu fimm árin í lið sem gæti allt eins endað í neðri deildunum með smá óheppni.
    Svona í lokin, ætti þessi grein ekki réttilega að heita: Fjölmiðlar-annað valdið þegar fótbolti á í hlut 🙂

  14. Margt gott í þessum pisli.
    Umræða fjölmiðla um LFC er hins vegar á engan hátt einhvert einelti eins og hér er sett fram. Heldur einfaldlega sprottinn af þeirri staðreynd að félögin sem við miðum okkur við hafa náð miklu betri árangri en við í mörg ár og væntingarnar alltaf miklar hjá LFC.
    Til hvers að tala um slæm kaup hjá Wenger og Ferguson. Árangur Ferguson fennir yfir það og nettó hagnaður Wenger á leikmannamarkaði á sama tíma og Benitez er held ég 120mPund í mínus. Annar í + og hinn í feitum mínus. Sá sem er í + er ofar en við í töflunni.
    Umræðan um leikmannakaupin er algjörlega FairPlay og þar erum við einfaldlega lang besta skotmarkið.

  15. Irish Times er nú ekki bara eitthvað blað á Írlandi, það er þarlendur Moggi eða ígildi London Times.

    En pistillinn er góður og sanngjarn, þótt við megum alveg passa okkur á paranojunni. Staðreyndin er því miður sú (af því að ég kenni einmitt félagsfræði og stjórnmálafræði) að fjölmiðlamenn eru almennt frekar lélegir í sínun starfi.

    Og svona til að halda áfram með fordóma og alhæfingar þá eru þetta oftar en ekki frekar ómerkilegir pappírar sem hugsa um sitt eigið rassgat og það að ná athygli með stórum fyrirsögnum og litlu innihaldi og helst sem minnstri vinnu. Þeir fara ekkert eftir siðareglunum sínum. Þeir eru nánast alltaf mjög litaðir af eigin skoðunum og eigendavaldi og annarlegum hagsmunum sem þarf að þjóna. Þess vegna er fjölmiðlastéttin jafn virðingarlaus og hún er. En þrátt fyrir alla þessa annmarka stýrir þessi stétt að verulegu leyti umræðunni, hvort sem um er að ræða okkar ástkæra félag eða íslenska pólitík.

    Þótt menn haldi jafnvel með neðrideildarliðum þá er líka búið að sannfæra okkur um að sexý sóknarbolti sé hið eina rétta og það telji ekki einu sinni að skora mikið af mörkum því ef þau eru eftir skyndisóknir þá telja þau ekki sem sexý sóknarbolti. Þess vegna fékk Houllier óvægna gagnrýni og Benítez ekki síður. Af hverju getum við ekki dáðst að skipulögðum og góðum varnarleik? Af hverju er búið að telja okkur trú um að við viljum bara sjá endalausan sóknarleik?

    Lundúnapressan er mjög Arsenal-væn og líklega líka Chelsea-væn. Man Utd. held ég að fái nú ekki skárri útreið en við og t.d. Newcastle. Wenger þarf mjög sjaldan að hlusta á harða gagnrýni þrátt fyrir 4 titlalaus ár og eilífar sölur á toppleikmönnum. Hann spilar náttúrulega svo fallegan fótbolta, ekki satt?

  16. Mjög margt til í þessum pistli þó Már hafi líka eitthvað til síns máls líka (eitthvað sem gerist ca. 5 sinnum á ári og aðeins og föstudögum).

    Líklega eiga eigendur liðsins báðir nokkar úrklippubækur af fréttum sem þeir telja vera afar ósanngjarna í sinn garð, en samúð mín er langt í frá með þeim. Það sem hefur oftast farið í taugarnar á mér og fleiri poolurum er hvað Benitez virðist á köflum bara ekki geta gert neitt rétt í augum pressunnar á meðan Wenger er nánast guð frábærleikans með sitt “unga” lið og Ferguson er taktískur snillingur og ósnertanlegur í sálfræðistríðum með því að nota oftar en ekki sömu eða svipaðar aðferðir og Rafa.

    Gott dæmi um þetta er að það er ennþá verið að draga zonal vörn hans í efa og finna henni allt til foráttu. Þetta er söngur sem flestir fjölmiðlar taka þátt í að syngja og þið getið bókað að sá sem lýsir leiknum minnist á þetta um leið og við fáum á okkur mark úr föstu leikatriði. Það bregst ekki. Meira að segja fyrrum leikmenna eins og A. Hansen sem ætti að vita betur útvarpar heimsku sinni oft á tíðum. Því staðreyndin er að varnarleikurinn hjá liðinu undir stjórn Benitez hefur alltaf verið með því besta sem gerist í Englandi og þetta zonal kerfi hefur svínvirkað, þó það sé auðvitað langt í frá óskeikult, ekki frekar en man marking.
    Þessi umræða hefur aftur orðið mjög hávær í ár eftir slæma byrjun á tímabilinu, þó lítið sé minnst á að liðið er töluvert lágvaxnara í ár plús það að mikið rót hefur verið á miðju og vörn liðsins. = það er bersýnilega ekki búið að stilla saman strengi sína.

    Annað gott dæmi er sú svakalega gagnrýni sem Rafa fékk, einn þjálfara, á sig fyrir að skipta reglulega um leikmenn (rotation). Almennt virðist fólk vera farið að átta sig á að hann hafði klárlega rétt fyrir sér þar og var í raun að róta minna í liði sínu heldur en aðalkeppinautarnir. Eins var alltaf passað sig á að taka alls ekki inn í jöfnuna þegar hann varð að breyta liðinu vegna meiðsla eða þreytu leikmanna og hvað þá að hann var bara með mun minni breidd heldur en hinir meðlimir topp 4.

    Svo brosir Rafa ekki nóg og það eitt virðist stundum vera næg ástæða til að reka manninn, a.m.k. úthúða honum í fjölmiðlum, þetta er sérstök íþrótt hjá 365 hér á landi.

    Þegar Rafa úthúðaði Ferguson með nokkrum staðreyndum var hann búinn að missa vitið eins og Keegan. Samt var varla minnst á það er Liverpool pakkaði United saman á Old Trafford.

    Það er hægt að finna mörg lítil sem stór dæmi um í besta falli skrítna umfjöllun sem Rafa fær, sérstaklega þegar miðað er við media darlings eins og Fergie, Wenger, Fat Sam o.fl.

  17. Sammála Babu í flestu.

    Grasið virðist alltaf vera grænna hinumegin, og undanfarið hefur þó umræðan náð nýjum áður óþekktum lægðum, menn vilja Benitez í burtu (allt í lagi, getum verið sammála um að vera ósammála) en vilja þess í stað ráða Daglish eða aðra álíka fyrrum hetjur sem hafa ekki komið nálægt stjóra stöðu síðan konur gengu með axlarpúða.

    Ég held að fyrirsagnir þessa tímabils undirstriki flest það sem kemur fram í pistli Magga.

    -Ef við fáum á okkur mark úr föstuleikatriði er það svæðisvörninni að kenna.

    -Ef tvö lið stilla upp varaliði sem eru meira og minna samsett af ungum leikmönnum, og annað þeirra er Arsenal. Fá “Young guns” umfjöllunina, þrátt fyrir að meðalaldur liðanna hafi verið mjög svipaður sbr úttekt sem var gerð í síðasta þræði.

    Og svo mætti áfram telja.

  18. Góður pistill. Veitir jafnvel pistli tomkins sem kom sama dag harða keppni!:)
    Hann ræðir nefnilega einmitt þetta mál að hluta þar.
    http://tomkinstimes.com/2009/10/fao-open-minded-football-journalists/

    Ótengt innihaldi þessa pistils er þarna að finna gleðifregnir eins og þessar:
    “In 2007, Benítez thought he had tied up a deal for a Brazilian wunderkind, who is now one of the world’s hottest strikers, but through no fault of his own the player was not snapped up. Other top-class youngsters, also now at major English and European outfits, were in his office, but again, nothing happened quickly enough.”

    🙁

  19. Jesús drengir! Jú einhver atriði rétt hjá Magga en shit, erum við sápuópera??? “We against the world”! Okkar menn hafa fengið slæma umfjöllun einfaldlega vegna þess að við höfum verið í dauðaskotfæri! Helv… kanarnir, 4 töp í röð, frestun leikvangs vegna peningaskorts, flopp leikmanna hjá okkur, tilfinngalitlum Rafa osfrv. Ég man nú vel eftir því þegar Man Utd skeit á sig hérna fyrir nokkrum árum og endaði í 3.sæti deildarinnar, fjölmiðlar hérlendis og erlendis spöruðu þá ekki skotin og hvort það væri ekki kominn tími á hinn (tilvitnun) “elliæra stjóra United” og allt ruslið sem hann keypti fyrir morðfjár eins og Kleberson, Djemba Djemba, Forlan og Verón… Rafa fær oft ósanngjarna meðferð fjölmiðla en punktur! Liverpool hefur fengið þessa meðferð einfaldlega vegna þess að þeir hafa boðið skotfærin á silfurfati! Afhverju átti svo að fara í saumana á því þegar við rústuðum Man U á OT? Hvaða lið landaði titli 2 mánuðum seinna eftir sigur okkar á United? Jú var það ekki Man U! Þó þeir töpuðu báðum leikjunum sínum gegn okkur í fyrra hirtu þeir titilinn og jöfnuðu okkur á titlum! Það er auðvitað yndislegt að vinna Man U, en það merkir lítið fyrir mér ef þeir verða svo alltaf á verðlaunapalli eftir hverja leiktíð og við í 2. eða 3. sæti, þá vil ég frekar tapa báðum leikjunum á móti þeim og vinna kannski eitt helv…. mót!!!

  20. Algerlega sammála Eyþóri. Alveg ótrúlegt að heyra fullorðna menn væla endalaust um ósanngjarna meðferð og að það séu allir á móti Liverpool. Verum meiri menn en þetta!!!

  21. Málið er einfalt. Benitez og Liverpool munu ekki frá frið og respect fyrr en liðið vinnur enska meistaratitilinn….svo einfalt er það.
    Þangað til munu andstæðingar Liverpool og blaðamenn halda áfram að tönglast á titlaleysi og vonlausum kaupum Liverpool.
    Það er pressa á Liverpool að vinna meistaratitilinn ekki síst frá stuðningasmönnunum sjálfum. Það allra síðasta sem félagið þarf er að fara leggjast í volæði eins og Íslendingar gagnvart Icesave og væla undan því að hvað allir aðrir eru vondir við okkur þegar við erum sjálfir búnir að skíta upp á bak í ensku deildinni síðustu tuttugu ár.
    Það man enginn hvaða lið lenti í 2. sæti!!!

Arsenal 2 – Liverpool 1

Fulham á morgun – Uppfært