Liverpool semja við Standard Chartered

Samkvæmt einkafrétt Tony Barrett í The Times í gær munu Liverpool ekki leika í búningum með auglýsingum Carlsberg eftir þetta tímabil. George Gillett, annar eigenda klúbbsins, sagði víst í viðtali í Kanada fyrir helgina að klúbburinn myndi fljótlega kynna nýjan aðalstuðningsaðila sem yrði eitt af stærstu fyrirtækjum heims.

Ég veit ekki hversu frægt vörumerki þetta er endilega, en skv. Barrett (sem er mjög áreiðanleg heimild) mun Liverpool á næstunni kynna samning sinn við fjárfestingarbankann Standard Chartered frá London. Samningurinn á að hljóða upp á 20m punda á ári í fjögur ár, eða 80m punda, fyrir að vera aðalstyrktaraðili klúbbsins og hafa auglýsingu sína framan á treyju liðsins. Það ku vera jafnmikið og Man Utd munu fá frá Aon, sínum nýja styrktaraðila, sem var stærsti samningur síns eðlis þegar hann var kynntur í vor.

Það eru vissulega góðar fréttir að klúbburinn sé loks að byrja að ná svipuðum árangri fjárhagslega og erkifjendurnir, en rauðu djöflarnir hafa sparkað í rassgatið á okkar mönnum í mörg ár á þeim velli og hefur það spilað stórt hlutverk í yfirburðum þeirra á leikmannamarkaði. Þannig að þetta er bara jákvætt, hvað svo sem segja má um önnur verk eigendanna. Þó verðum við að bíða þangað til smáatriði samningsins verða kynnt áður en við getum metið þennan díl að fullu.

Á einu spjallborðinu tók einhver aðdáandinn með PhotoShop-hæfileika sig til og henti upp mögulegu útliti á rauðri treyju með auglýsingu Standard Chartered í aðalhlutverki:

standard-chartered-liverpool

Eins og margir vita verður ný aðaltreyja kynnt næsta vor og verður hún þá sú fyrsta sem ber nýju auglýsinguna. Ég keypti ekki Liverpool-treyjuna sem liðið leikur í núna (þá rauðu, aðal) af því að ég hef aldrei fílað að hafa of mikið hvítt á henni. Mér finnst treyjurnar bestar þegar þær eru bara rauðar, þannig að ég get ekki sagt að ég haldi í sömu von um hönnun og sá sem gerir myndina hér að ofan. Engu að síður finnst mér auglýsingin bara koma vel út – ef hún fær að vera hvít á rauðu gæti þetta alveg fallið ágætlega inn í ‘lúkkið’ án þess að skemma heildina.

28 Comments

  1. Það er búið að staðfesta þetta.

    Verulega góðar fréttir. Ég hef oft talað um að það sé ekki gáfulegt að vera með bjórmerki á búningum knattspyrnuliðs sem vill meika það í t.d. múslimalöndum (einsog Indónesíu) og höfðar líka til foreldra ungra barna.

  2. Þetta er alger snilld og undirstrikar það kannski að eigendurnir eru með einhver spes plön í gangi. Núna erum við ekki bara kominn með nýjan, sterkan stuðningsaðila heldur nýjan viðskiptabanka sem hugsanlega mun veita Liverpool fyrirgreiðslu í stórum kaupum þegar eitthvað vantar upp á !

    Spennandi tímar framundan með meira fjármagni !

  3. Frábærar fréttir. Eitt skref af mörgum til að auka veltu klúbbsins. Næstu skref eru nýr völlur og að auka smásölu um allan heim. Man Utd hafa verið allt of lengi skrefinu á undar okkur í þessum málum.

  4. Það á örugglega eftir að taka einhvern tíma fyrir mig að venjast því að hafa eitthvað annað en Carlsberg merkið framan á búningunum, enda hafa þeir auglýst alveg frá því ég byrjaði að fylgjast með fótbolta. En það er að sjálfsögðu gott að vera að fá mikla peninga í kassann 😀

  5. Þetta gæti einnig verið góðar fréttir frá markaðsfræðilegu sjónarhorni þar sem þessi banki er með stærsta markaðinn sinn í Asíu, Afríku og mið Austurlöndunum. Fínn markaður þar fyrir enska boltann og ekki ólíklegt að þetta muni setja Liverpool smá af blaðið. Finn samt fyrir einhverjum kapítalískum skítaþef af þessum banka, en betra að hann sé að dæla peningum í okkur en einhverja aðra.
    En djöfull er logoið þeirra ljótt. Er ekki bara hægt að fá Candy aftur?

  6. Mér þykja þetta nú aðallega vera góðar fréttir út frá þeirr bölvun sem Carlsberg virðist hafa lagt á lið okkar í Englandi. En með Candy vorum við nánast ósigrandi og eftir að Carlsberg kom höfum við ekki náð í EINN Englandsmeistaratitil

  7. Þetta er náttúrulega ekkert annað en frábært og ekki leið langur tími frá brottför Parry þangað til eitthvað alvöru fór að gerast í þessum málum. Uppbygging klúbba tekur ár ef ekki áratugi og á meðan ManUre var að gleypa allt marketing á níunda áratuginum þá svaf Liverpool einfaldlega. Það er kannski rétt að rifja upp hvað er búið að gerast í markaðsmálum síðan kanarnir komu (ég er þó enginn huge fan af þessum 2 körlum).
    LFC TV er kominn í loftið.
    Það eru vörur á lager í vefversluninni.
    Digital auglýsingaborð á Anfield.
    Loksins kominn með auglýsingasamning sem hægt er að bera saman við minni liðin á Englandi.
    Þegar svona hlutir, sem hafa verið í rusli í svo langan tíma, komast í lag, þá fær maður líka tilfinninguna fyrir því að hlutir sem ekki eru sjáanlegir séu keyrðir af fagfólki.

  8. Frábærar fréttir fyrir klúbbinn peningalega séð og algjörlega skref í rétta átt. Ég viðurkenni nú samt að mér finnst merki carlsberg flottara, merki standard chartered er ekkert augnayndi.

  9. Hitachi – Crown paints – Candy – Carlsberg – Standard Chartered
    Er þetta ekki rétt munað?

  10. Nú er maður í það minnsta laus við röflið yfir því að klæða börnin í áfengisauglýsingar 🙂
    Gott mál og ekki spillir fyrir hversu mikið samningurinn gefur af sér beint í budduna. Svo megið þið alveg bóka að það eru fleiri foreldrar sem núna munu kaupa boli, treyjur og annað á börnin eftir að Carlsberg dettur út.

  11. Ekkert annað en frábærar fréttir sem er vonandi fyrsta skrefið í að lyfta fjárhag Liverpool á æðra stig.

    Eins og Dagur kemur að hér að ofan þá fær maður loksins á tilfinninguna að nú séu það fagmenn sem koma að stjórn klúbbsins.

  12. Já, mjög vel þekktur banki í fjármálaheiminum og gríðalega sterkur í Asíu sérstaklega.

  13. ég er mjög sáttur að calsberg auglýsingin er að fara af liverpool búningnum,ég er alfarið á móti vín,bjór og síggaréttu auglýsingum ekkert af þessum auglýsingum á samleið í íþróttum akkurat ekki neitt,en verst af öllu finnst mér að sjá síggaréttu ( Ferrari ) auglýsingar,en hvað nýu auglýsingu liverpool varðar þá líst mér mjög vel á þetta til framtíðar séð.

  14. Bjór á bara víst samleið með íþróttum. Amk allstaðar annarsstaðar en á Íslandi. Óþolandi þessi viðkvæmni gagnvart öli. Ég held að stemmingin á leikjum hérlendis væri nú mun meiri ef það væri seldur bjór á vellinum í stað þess að þeir sem hafa fengið sér 2-3 og reyna að halda uppi stemmingu eru nánast litnir hornauga

  15. Pétur, er mannskepnan svo ógeðslega leiðinlegt fyrirbæri að hún þarf á bjór að halda til að geta haldið uppi stemmingu á fótboltaleikjum. Hef farið á leiki eftir nokkra bjóra og án þeirra og alltaf hegða ég mér eins og hálfviti og alltaf skemmti ég mér jafnmikið. Bjórinn er algjört aukaatriði. Svo er fínt þegar maður á krakka og vill fara á leiki að fara ekki með þá á eitthvað fyllerí. Íþróttir og áfengi/tóbak (og önnur fíkniefni) fara bara ekki saman.

  16. Mér er slétt sama hvaða auglýsing er framan á treyjunni svo fremi að það séu fúlgur fjár sem renna inn í klúbbinn og fara í leikmannakaup! Einfalt mál.

  17. Tek undir með nafna #13. Góður punktur.

    Mér er nú alls ekki slétt sama hvaða auglýsing er framan á treyjunni. En er vissulega ánægður ef liðið nær góðum samning með auglýsingarnar.

  18. Það getur vel verið að þið gerið það – en þar sem koma 100 íslendingar saman þar er ekki mikið fjör – þar sem koma 100 fullir íslendingar saman, þar er sungið.

    Þetta virðist ekki bara eiga við um okkur því þið þurfið ekki annað en að sjá stemminguna á leikjum erlendis, þar eru langflestir af þeim sem halda henni uppi búnir að fá sér söngvatn. Sama má svo segja um stuðning við íslensk lið bæði landslið og félagslið, þegar það eru öflugur stuðningssveitir, þá er stór hluti þeirra undir áhrifum – þetta eru bara staðreyndir en ekki skoðanir

  19. já góðar fréttir fyrir okkar ástkæra klúbb .. og þá sérstaklega fjárhagslega! svo er bara að vona að þetta fé renni til leikmannakaupa eða í nýja leikvanginn… en ég er nú sammlála þeim hér fyrir ofan sem eru á móti því að vímugjafa aulysingar eigi heima á búningnum okkar ,,, en mikið djöfull á ég eftir að vera lengi að sætta mig við búninginn með þessu banka nafni 😉 en það hlítur að koma á endanum… eftir cc 4 ár ……..

  20. Stærsti auglýsingasamningur félagsins og að öllum líkindum stærsti auglýsingasamningur í heiminum fyrir knattspyrnulið.

    Frábærar fréttir. Algerlega frábærar og styrkja innviði félagsins verulega og sýna að nýir menni í “commercial” hluta félagsins eru alvöru. Auðvitað verður að nefna kanana en nýju sölustjórarnir, Ian Ayre og Christian Purslow hafa svo sannarlega sýnt að þeir ætla sér langt. Frábær yfirlýsing Purslow og svör þar sem skýrt kemur fram að LFC ætlar að verða besta lið heims hljómar vel í mínum eyrum allavega, langþráðar setningar þar á ferð.

    Viðkvæmni eða ekki viðkvæmni gagnvart öli. Áður hefur verið bent á að múslimaheimurinn vill ekki kaupa búninga með áfengisauglýsingu, en við skulum t.d. ekki gleyma því að LFC hefur ekki getað spilað með auglýsinguna á búningunum í Frakklandi, eða í leikjum unglingaliðsins í FA Youth Cup eða ensku unglingadeildinni.

    Ég vinn þannig vinnu að ef ég myndi mæta í mínum LFC-fatnaði í vinnuna væri ég strax úthrópaður, hef reynslu af því þar sem haft var samband við yfirmann minn fyrir 10 árum þegar ég mætti í keppnistreyju merkt Carlsberg í vinnu. Tottenham ákvað fyrir nokkru að taka Holsten af sínum búningum og því finnst mér þetta rétt skref.

    Þó lógóið hafi vissulega lúkkað virkilega vel.

    Frábærar fréttir og svei mér ef dökku fjármálaskýin voru ekki bara sögusmettugangur bresku pressunnar sem líður best þegar Liverpool á í vanda. Lánalínurnar klárar til langs tíma, stærsti auglýsingasamningur sögunnar, lausafjárstaða eigandanna á þann hátt að þeir þurfa vart að seilast eftir meiri aurum yfir Atlantshafið og liðið á skýrri braut.

    Er glaður og bjartsýnn í dag!

  21. Það sem náttúrulega stendur upp úr í þessu eru hinir nýju menn í vélarrúminu, Purslow og Ayre. Ég man ekki eftir jafn mörgum ánægjulegum fréttum tengdum Parry á hans starfsferli og Purslow hefur komið með núna á 2 vikum. Þeas, þessar fréttir af auglýsingasamningnum og síðan af nánu sambandi hans við Rafa en það er að mínu mati grunnforsenda þess að ná árangri að stjórinn og maðurinn með budduna séu á sömu síðu en það hefur ekki verið þannig um árabil hjá okkur.

    Nú vantar bara að Krákan (Andryi) skori og þá erum við í toppmálum 🙂

Liverpool 4 – Burnley 0

Breytingar á reglum ensku deildarinnar!