Spáin, sæti 7 – 13!

Hæjó.

Fyrst verð ég auðvitað að leiðrétta upphaf pistilsins frá í gær með þrjá daga. Pistillinn var saminn á miðvikudagskvöld, en þar sem ég tafðist verulega í ferðalagi dróst að senda hann inn.

En nóg um það. Í dag ætlum við að skoða spá okkar drengjanna fyrir sæti 7 – 13. Hendum okkur í verkið! Spáum í deildina sem hefst á morgun, laugardag!!!

13.sæti: Blackburn Rovers (53 stig)

Helstu nýir leikmenn: Danny Simpson (Man. United) – Paul Robinson (Tottenham) – Robbie Fowler??? (Cardiff)

Helstu brotthvörf: David Bentley (Tottenham) – Brad Friedel (Aston Villa) – Stephane Henchoz (samningslaus)

Stóru fréttir sumarsins á Ewood Park voru auðvitað þjálfaraskiptin. Mark Hughes kvaddi og „The Guv‘nor“ Paul Ince tók við stýrinu. Sumarið hans hefur verið hálf furðulegt og alls konar sögur um skrýtna þjálfunarhætti og ólgu. Hann berst við að halda Santa Cruz og Warnock vinur okkar vill fara. Á móti hefur hann verið að taka fullt af leikmönnum til reynslu og virðist vera að ryena að finna demanta í moldarhaugum. Þekktasta nafnið er auðvitað Fowler, sem líklega er að skrifa undir á næstu dögum, en hann er líka að fara í neðri deildirnar, enda náð góðum árangri þar. Við teljum Blackburn stíga skref til baka í vetur en sigla lygnt neðan við miðja deild.

12.sæti: Newcastle United ( 54 stig)

Helstu nýir leikmenn: Fabricio Coloccini (Deportivo La Coruna) – Danny Guthrie (Liverpool) – Jonas Gutierrez (Mallorca)

Helstu brotthvörf: David Rozehnal (Lazio) – Emre (Fenerbahce) – Peter Ramage (QPR) – Stephen Carr (samningslaus)

Kevin Keegan kom með miklu brauki og bramli „heim“ á St. James Park í fyrravetur. Við það jókst væntingavísitala hinna röndóttu verulega og margir reiknuðu með töfrabrögðum í leikstíl í fyrra og leikmannakaupum í sumar. Talað var um stór nöfn sem kæmu í kippum til hins smávaxna. En ekki er svo enn allavega. Mikið peningavesen virðist á eiganda félagsins og baklandið hálf ótraust. Karlinn hefur þó styrkt varnarleik liðsins eitthvað og bindur miklar vonir við Guthrie karlinn. Við höldum að þetta verði enn eitt miðjumoðsárið hjá Newcastle þar sem hárlitur Kevins gamla verður enn grárri…..

11.sæti: West Ham United (58 stig)

Helstu nýir leikmenn: Jan Lastuvka (Shaktar Donetsk) – Valon Behrami (Lazio)

Helstu brotthvörf: John Pantsil (Fulham) – Bobby Zamora (Fulham) – Richard Wright (Ipswich) – Norberto Zolano og Freddie Ljungberg (samningslausir)

Eftir ansi aktív ár í leikmannakaupum hjá Hömrunum er ljóst að Björgúlfur karlinn er farinn að draga saman seglin. Markmiðið núna er að skera niður kostnað, en vera samt að keppa um Evrópusæti. Uhhhhhh??? Ekki alveg það sem við teljum að muni ganga upp, sér í lagi ef leikmennirnir símeiddu á göngudeildinni halda áfram að eyða meiri tíma á nuddbekknum en á æfingasvæðinu. Ljóst að West Ham er stórt, stórt spurningamerki og tímabilið getur farið í allar áttir. Á nær öllum ensku veðbönkunum er talið langlíklegast að Alan Curbishley fjúki fyrstur allra stjóra, nokkuð sem alveg væri hægt að henda 7 pundum á. Við höldum þó að þeir hangi um miðjuna, án falldraugs en ekki nálægt Evrópumarkmiðinu.

10.sæti: Sunderland (62 stig)

Helstu nýir leikmenn: Steed Malbranque (Tottenham) – El Hadji Diouf (Bolton) – Pascal Chimbonda (Tottenham) – Nick Colgan (Ipswich) – Teemu Tainio (Tottenham)

Helstu brotthvörf: Stephen Wright (Coventry) – Ross Wallace (Preston) – Andy Cole (Burnley) – Ian Harte (samningslaus)

Mótherja okkar í fyrsta leik setjum við félagarnir í 10.sæti. Roy Keane hefur keypt marga góða leikmenn til liðsins, og Diouf, sem munu vafalítið aðstoða liðið við að ná stöðugleikanum sem þeim gekk illa að ná í fyrra. Liðið hefur nú fína breidd í flestum leikstöðum og heimavöllur þeirra er einn sá sterkasti í deildinni og ljóst að öll lið munu þurfa að hafa fyrir stigunum þar. Ef liðið nær góðri byrjun (sem við auðvitað vonum ekki) gætu þeir blandað sér í baráttu um UEFA sætið og náð langt í bikarkeppnunum.

9.sæti: Manchester City (72 stig)

Helstu nýir leikmenn: Tal Ben Haim (Chelsea) – Jo (CSKA Moskva)

Helstu brotthvörf: Bernardo Corradi (Reggina) – Georgios Samaras (Celtic) – Geovanni (Hull) – Andreas Isaksson (PSV) – Sun Jihai (Sheff. Utd.) – Emile Mpenza (samningslaus)

Mark Hughes. Líklega aðalástæða þess að við teljum líklegt að City verði í efri hluta deildarinnar. Þeir fóru hratt af stað í vor með stórum leikmannakaupum en að undanförnu virðist eitthvað hafa lokast á vasa thailenska rugludallsins sem á bláa liðið í borginni vondu. Sögur ganga um að allir leikmenn liðsins séu til sölu og Hughes sé jafnvel að gefast upp einn daginn og hinn daginn er hann að bjóða stórar upphæðir í leikmenn! En City voru erfiðir heim að sækja og Mark Hughes sannaði hæfileika sína í fyrravetur og við spáum því að liðið verði í baráttu um UEFA sæti fram á síðustu vikur. Ef ástandið í kringum liðið róast og Hughes fær sterka leikmenn gætu þeir jafnvel tekið eitt sætið og/eða bikar.

8.sæti: Everton (74 stig)

Helstu nýir leikmenn: Engir ennþá!

Helstu brotthvörf: Andy Johnson (Fulham) – Manuel Fernandes (Valencia) – Thomas Gravesen (Celtic) – Lee Carsley (Birmingham)

Þriðja besta lið Liverpoolborgar raðast í áttunda sæti í spánni okkar. Í raun er með hreinum ólíkindum að enn hafi ENGINN leikmaður verið keyptur þangað, sérstaklega þar sem að þeir leikmenn sem hafa kvatt voru flestir í kringum liðið síðasta tímabil. Sérstaklega virðist þeim vanta inn á miðjunni, en sennilega er verið að leita að sköllóttum manni sem er góður í tveggja fóta tæklingum, þeir eru ekki auðfundnir, en algeng sjón í bláhvíta búningnum! Leikstíllinn þeirra ömurlegi og skipulag Moyes hefur þó skilað þeim stigum undanfarin ár og við spáum því að þeir verði á svipuðu róli en missi af UEFA sætinu. Við vinnum þá í báðum leikjum bye the way!!!

7.sæti: Aston Villa (77 stig)

Helstu nýir leikmenn: Nicky Shorey (Reading) – Luke Young (Middlesboro‘) – Brad Guzan (Chivas) Brad Friedel (Blackburn) – Steve Sidwell (Chelsea) – Curtis Davies (W.B.A.)

Helstu brotthvörf: Luke Moore (W.B.A.) – Patrik Berger (Sparta Prag) – Thomas Sörensen (Stoke)

Íslandsfararnir á Villa Park fá úthlutað fyrsta UEFA sætinu (þ.e. ef að bikarkeppnirnar vinnast af einhverju liðanna í topp 7) frá okkur hér. Nenni ekki að rifja upp samskiptin um GB, en ljóst er að Martin O‘Neill er að kaupa sjóaða leikmenn í deildinni sem munu styrkja liðið talsvert. Breiddin í liðinu er nú að verða meiri og pílurnar á köntunum, Young og Agbonlahor eru að verða með bestu vængmönnum deildarinnar. Við teljum Aston Villa því verða í baráttu um UEFA sæti allt til enda og ef að GB dvelst hjá þeim og liðið sleppur við meiðsli lykilmanna gæti það hæglega farið ofar.

Rétt fyrir klukkan 12:00 á morgun klárum við svo að segja frá spánni, þegar við tilkynnum topp 6 á henni hjá okkur hér. Þar m.a. kemur í ljós hvað við teljum raunhæft markmið fyrir Liverpool í vetur!

6 Comments

  1. ince verður sennilega fyrstur til að fjúka úr stjórastól. maðurinn er alger fáviti sem ekki hefur rettindi til að þjálfa. hann ætti að skella sér í meiraprófið og
    taka að sér að keyra liðsrútuna. mér hefur alltaf fundist það svartur blettur á sögu liverpool að þetta gerpi hafi verið fyrirliði. hafði ekkert fram að færa og
    hjálpaði ekkert. sama á við hvað þjálfun varðar. einnig er vert að minnast á að Curbishley er ekki maður sem vinnur eitt né neitt. hans stærsta afrek á þjálfaraferlinum er að hafa haldiði charlton frá falli í 10+ ár. þeir voru snöggir
    niður þegar hann hvarf þaðan. björgólfur myndi gera vel í þvi að ráða gaua þórðar til að taka þessa stráka í ísbað.

  2. Já HVAÐ ER AÐ FRÉTTA Steinþór J? Tókstu bláu pillurnar í staðinn fyrir þær rauðu? Fyrir þetta comment ættirðu náttúrulega að vera bannaður á öllum spjallsíðum tengdum fótbolta.
    Paul Ince afrekaði það m.a að spila með Liverpool, Enska landsliðinu, Inter Milan og ónefndu meistaraliði í Englandi. Tala nú ekki um fjölda leikja og marka sem þessi guð átti þátt í. Það hlýtur að hafa verið einhver slembilukka sem gerði þetta allt að verkum, ekki satt? Og eflaust fékk hann fyrirliðabandið hjá Englandi og Liverpool bara útaf pólítík, ekki satt? Eða var þetta ekki bara vinargreiði sem hann átti inni hjá þjálfurunum? Hlýtur bara að vera, ekki satt?

    Síðan á sínu öðru ári sínu sem framkvæmdarstjóri kemur hann Milton Keynes Dons upp um deild og er að búa til nýtt “Crazy Gang” þar. Eflaust átti hann ekkert í þessum árangri, hlýtur bara að hafa verið með góðan aðstoðarþjálfara og gott teymi í kringum sig sem tók allar þær ákvarðanir sem hann átti að taka út á æfingasvæði, á meðan hann var á skrifstofu félagsins í símsvörun, ekki satt?

    Og síðan fær hann tilboð frá félagi í Premíunni sem hefur verið á mikilli uppleið og var með frábæran stjóra sem nú er farinn. Hlýtur bara að vera að það félag, Blackburn, hafi misst allan metnað, vilji ekki lengur bæta sig á öllum sviðum knattspyrnunnar og ákveðið að ráða bara einhvern “fávita” og “gerpi”. Eða hvað?
    Kannski það bara að þessi “fáviti” og “gerpi” hafi bara keypt sig inní félagið með tilboði sem stjórnarmenn gátu ekki hafnað og nú ætli hann að sökkva skipinu svo um munar, ásamt því auðvitað að taka meiraprófið. Ekki satt?

    Þetta er allt saman stórt samsæri og röð tilviljana um feril Paul Ince sem leikmanns og stjóra, er það ekki annars?

  3. Hahaha… rólegir!

    Þannig að Portsmouth og Tottenham auk the usual suspects taka top 6 að ykkar mati! Ekki svo ólíklegt verður að segjast.

    Er hægt að fá röddina frá Frank í Donnie Darko til að telja niður í leikinn gegn Sunderland?

  4. Maður gat nú alveg verið án svona fréttar. Bölvað rugl er þetta eiginlega! Venjulega væri mér alveg sama um svona slúður en heimildarmaðurinn þykir nú nokkuð traustur.

  5. þó að ince hafi vakið aðdáun annara þá hefur undirritaður aldrei verið í hópi aðdáenda hans. vel má vera að hann hafi staðið sig vel í þeim liðum sem hann
    var hluti af en vera hans í þeim liðum var EKKI það sem skipti sköpum.
    ég sá aldrei að hann hann hefði komið með eitthvað sérstakt með sér til Liverpool FC. Gary McAllister gerði það sannarlega en ekki Ince.
    Hafi einhver orðið pirraður útaf málfari mínu biðst ég velvirðingar en Ince fyrir mér á ekkert gott skilið. Hafi hann áhuga á að þjálfa lið i efstu deildum evrópu er bezt fyrir hann að ná sér í uefa pro gráðuna hið allra fyrst áður en hann
    fer að vinna við þjálfun hjá liðum sem vilja láta taka sig alvarlega. nefni ég mann að nafni Ian Rush. Hann hefur í rólegheitum verið að mennta sig í þjálfunarfræðum og ætlar greinilega að læra að ganga áður en hann fer að
    hlaupa. Ince æðir áfram á huxunar og vits. Mín spá er að hann verði ekki
    hjá Blackburn Rovers í maí.

Sunderland á morgun.

Topp sex í enska boltanum í vetur!