Síðasta tímabil Rafa?

Menn setja sér oft takmörk fyrir tímabilið, stjórarnir gera það, leikmennirnir gera það og við stuðningsmenn gerum það. Hversu oft höfum við sagt að núna verðum við í titilbaráttunni? Ansi oft. Hversu oft höfum við sagt að það sé algjört lágmark að vera ennþá í baráttunni um titilinn í x mánuði? Ansi oft. Hversu oft höfum við sagt að ef x árangur náist ekki (one of the above) þá verði að skipta um kall í brúnni? Ansi oft. En það er auðvitað mikið skilgreiningaratriði hver “VIД erum í þessu mengi.

Það var svolítið skrítið á síðasta tímabili hversu umdeildur Rafa Benítez var (sérstaklega framan af). Það virtist vera mikill munur á stuðningi við hann í sjálfri borginni (Liverpoolborg) og svo hérna á skerinu. Menn virtust þó verða meira sammála um ágæti hans eftir því sem á leið og sér í lagi þegar almennilega komst í ljós við hvaða aðstæður hann hafði verið að vinna við. En auðvitað sýnist sitt hverjum í þessum efnum, en þar sem þetta er nú einu sinni bloggsíða, þá ætla ég að lýsa mínu áliti á því hvar við stöndum þegar kemur að stöðu framkvæmdastjóra. Ég gæti verið ansi stuttorður og sagt einfaldlega að við séum með þann besta sem möguleiki væri á, því þannig nákvæmlega er mitt álit á málunum. En ég ætla að nota aðeins fleiri orð í að fara yfir mitt álit.

Þetta málefni er nú ekki beint það frumlegasta, en eitt það allra mikilvægasta. Það er búið að fara aðeins yfir það stjórnendateymi sem Rafa hefur sankað að sér, þjálfarar og annað, og verður að segjast eins og er að þar er spáð í öllum smáatriðum. Það er í rauninni akkúrat sá punktur sem ég tel vera einn stærsta galla Rafa, þ.e. hversu djúpt hann hugsar og rýnir í alla hluti. Það er nú reyndar einnig hans allra allra stærsti kostur. En það sem skiptir mestu máli fyrir hann er árangur og því hefur hann á stundum látið lið sín spila “leiðinlegan” fótbolta (leiðinlegt er reyndar líka mjög huglætt og mikið skilgreiningaratriði).

Fljótlega eftir komu sína til félagsins þá lét Rafa setja mikið af auka myndavélum ofan á Anfield sem taka leikinn upp hver frá sínu sjónarhorni. Þannig kortleggur hann hvert einasta hlaup sem leikmaður tekur í leiknum. Sumir tala um ofskipulagningu, en það er alveg ljóst mál að þegar liðið hans Rafa er komið inn á hans bylgjulengd og skilur hugmyndafræðina til fulls, þá erum við að tala um hrikalega skemmtilegt og sterkt lið (Valencia síðasta árið hans þar). Ég hef ekki ennþá heyrt um neinn annan stjóra sem nýtir sér tæknina jafn vel og er jafn fylgjandi sinni sannfæringu á fótbolta.

Það er ekki bara hvað við sjáum á vellinum, Rafa er búinn að gjörbylta allri uppbyggingu hjá félaginu. Með því að stórefla njósnarakerfið og þjálfarateymið sem sér um yngri leikmenn liðsins, þá er loksins núna sjáanlegt að við förum að fá unga leikmenn upp í aðalliðið, og það jafnvel í meiri vís en nokkurn tíman áður hefur verið. Það er einfaldlega gaman að sjá hversu mikill talent er þarna til staðar.

En eins og áður sagði þá snýst þetta allt um árangur inni á vellinum. Það munu sumir vilja hausinn á Rafa á fati ef næsta tímabil skilar liðinu ekki í titilbaráttu, alveg burt séð frá því hvað annað er verið að vinna í að gera með félagið. Wenger hefur fengið sinn tíma hjá Arsenal og það hefur skilað liðinu í því að þeir eru með stórskemmtilegt lið, en enga titla síðustu árin. Samt dettur fáum í hug að skipta um mann í brúnni þar. Vandamálið er nefninlega það að stuðningsmenn verða að stilla væntingum sínum í samræmi við raunveruleikann. Það hafa stjórnarmenn Arsenal þurft að gera, og flestir stuðningsmenn liðsins hafa þurft að gera það. Við Liverpoolmenn höfum þó ekki getað gert það. Sagan er of stór og stoltið of mikið til að tala um einhverja hindrun sem of stóra. Hinn bitri raunveruleiki er nú bara samt sá að það er mjög langt síðan við unnum síðast deildina og nú síðustu ár hefur það orðið enn erfiðara.

Manchester United og Chelsea hafa bara algjörlega breytt stöðu fótboltans á Englandi. Þar geta stuðningsmenn réttilega fussað of svei-að ef deildartitillinn kemur ekki á hverju ári. Peningarnir á þeim bæjum eru bara á allt öðru level-i en annars staðar. Rafa og Wenger þurfa því að reyna að minnka þetta bil á annan hátt og það eru þeir einmitt að reyna að gera. Þau eru ekki mörg +10 milljón punda kaupin sem Liverpool og Arsenal hafa framkvæmt, en annað er uppi á teningnum hjá hinum. Það má eiginlega segja það sama um Liverpool og Arsenal gagnvart liðunum sem þar fyrir neðan eru, þar er einnig himinn og haf á milli þegar kemur að peningum (þó svo að það bil hafi minnkað undanfarið). Því finnst mér það oft hrein og bein vitleysa þegar verið er að ætlast til þess að við séum að draga á þessi tvö lið fyrir ofan okkur. En við erum samt að gera það og við sýndum mikinn progress á síðasta tímabili. Það er því mikið langtímaverkefni sem felst í því að ná að keyra þessi tvö lið af stalli sínum (nema Roman ríki gefist upp á að hrúga peningum sínum inn í Chelsea) og þess vegna myndi ég persónulega ekki panikka þó svo að á næsta tímabili yrðum við 12 stigum á eftir meisturunum (stigi meira en síðast) eða einhverju meiru. Menn mega kalla það metnaðarleysi fyrir mér, ég kalla það raunsæi.

EKki misskilja mig, ég yrði sá kátasti ef við myndum ná númer 19 heim í vor, engin spurning og á haustin byrja öll liðin jöfn að stigum og þá er stefnan sett á titilinn, í rauninni er stefnan að vinna allar keppnir sem keppt er í og það sem meira er, þá á Liverpool FC fínan möguleika á að vinna hvaða keppni sem er, en það þarf margt að koma til. Ekki síst heppni. En ég er þó alveg með það á tæru að það finnast ekki betri menn í starfið en Rafa Benítez og hann hefur stuðning minn algjöran og hefur hann áfram hvort sem liðið byrjar illa eða ekki á komandi tímabili.

Síðasta tímabil Rafa hjá Liverpool hvernig sem fer? No way Jose

25 Comments

  1. algjörlega sammála Steina frá a-ö og það sem er erfiðast fyrir Rafa er sagan , svo líka sem er stór þáttur í væntingunum hja okkur er frækinn sigur okkar í Istanbul,með lið sem er mörgum klössum fyrir neðan það sem við erum með í dag og ef menn t.d spá í hvað við vorum nálæg þessu í fyrra þrátt fyrir meiðsli og utanvallar bull þá voru þetta 11 stig,já og ef við leikum okkur aðeins þá voru töpin gegn scum united 12 stiga sveifla.Ég held að menn ættu að flykkja sér að baki Rafa um ókominn ár og vona það svo sannarlega að hann verði sem allra lengst því mér sýnist þær breytingar sem hann hefur verið að gera á klúbbnum undanfarinn ár jafnast á við Shankley byltinguna. Heyr heyr Steini YNWA

  2. Það er erfitt að segja til um það núna hvort að það eigi að reka Benitez ef að titillinn næst ekki í hús á þessu tímabili. Því það fer að mínu mati eftir því hversu langt frá meisturunum við verðum og hvort að við höfum átt raunverulegan séns eða hvort að um afturför hafi veið að ræða.
    Síðasta vetur hafði ég gefið Benitez upp á bátinn og vildi hann burt sem fyrst, en eins og þú nefnir hér í pistlinum þá vissi maður bara ekki hvað var að gerast á bak við tjöldin.
    Ef að bilið minnkar og við sækjum sigra líka gegn Chelsea og Man U og hættum að gera meðalmennskujafntefli þá vill ég gefa Benitez meiri tíma því það er ekki aðuvelt að minnka bilið við þessi lið, og ég vill ekki þurfa að fara að byrja upp á nýtt með nýjan stjóra sem á líka að fá sinn aðlögunartíma.

  3. Þetta er hin prýðilegasta greining hjá þér. Ég segi fyrir mig að þegar hann náði liðinu upp úr öldudalnum sem það var komið í á síðasta tímabili þá sá maður úr hverju hann var gerður, ólíkt Houllier sem náði því ekki á sínum tíma.
    Allir þjálfarar hafa sína kosti og galla. Bestu þjálfarar sem eru til eru þeir sem ná því besta sem hægt er út úr hverjum og einum einstaklingi og skapa þannig lið sem nær meiri árangri en búast mætti við fyrirfram. Þetta hefur gerst hjá Benitez, gæði leikmanna og resources hafa ekki endilega verið tipptopp en hann hefur náð – með öðrum aðferðum sem þú kemur inn á – að minnka bilið í peningaveldin. Hann gerir sér fulla grein fyrir því að hann þarf að fara aðrar leiðir og hann gerir það. Hann er klárlega á réttri leið og framfarirnar síðustu ár eru umtalsverðar.

  4. Skemmtileg lesning. Það er alveg á tæru að það er enn gjá á milli peningaliðanna og Liverpool. Ég var eiginlega búinn að gefast upp á Benitez á miðju tímabili í fyrra, þar sem liðið náði botninum með tapi á heimavelli gegn Barnsley. Ástæðan var aðallega sú mér fannst liðið algjörlega hugmyndasnautt og menn voru rúnir öllu sjálfstrausti. Því miður var þetta ekki fyrsta tímabilið undir stjórn Benitez sem þetta gerðist heldur hefur liðið tekið langvarandi slæma kafla á hverri leiktíð undir hans stjórn.
    Hins vegar má segja að ruglið utan vallar í kringum eigendurnar hafi þjappað liðinu saman og leikmenn sem áðdáendur studdu við bakið á stjóranum með góðum árangri.

    Nú er nýtt tímabil og ég er sáttur við að Benitez fái að halda áfram. Það er hins vegar ljóst að liðið verður fara sýna meiri stöðugleika í gegnum tímabilið, þannig að liðið sé ekki farið að keppa um 4. sætið strax í janúar.

    Það má segja margt gott um Benitez, miklu meira gott en slæmt. En það er aðeins einn titill sem aðdáendur liðsins virkilega þrá og ef liðið nær ekki að gera alvarlega atlögu að þeim titli finnst mér alveg réttlætanlegt að meta stöðu framkvæmdastjórans eftir tímabilið líkt og gert er með stöðu leikmanna.
    Framundan er langt og strangt tímabil og ótímabært að spá fyrir um framtíð stjórans. Hann á stuðning minn allan í dag og lítið annað í stöðunni en að vona að liðinu gangi vel.

  5. Frábær pistill Steini
    Ég held að það sé óráðlegt að vera eitthvað að tala um hversu langt hann má vera á eftir eða þessháttar, heldur verður að meta stöðuna hverju sinni. En meðan Rafa sýnir ennþá eldmóð og að hann sé að fara framávið með liðið þá finnst mér og hefur alltaf fundist það algjör fásinna að tala um að láta kallinn fara. Pressan á honum í fyrra var ákaflega heimskuleg og í raun stórundarleg. Það á ekki, á þessum tímapunkti, að vera svona rosaleg pressa á kallinum. Þ.e. hann má ekki eiga smá slæmt run þá eru komnar upp raddir um mannabreytingar, eigendurnir tóku meira að segja þátt í þessu með því að ræða við Klinsmann.

    Besta dæmið um þessa fáránlegu pressu sem var á Benitez í fyrra er þegar liðið fór að hiksta í mjólkurkúnni, CL. Hann vann þessa keppni með hálfgert varalið 2005 og var GRÁTLEGA nálægt því að gera það aftur nokkrum mánuðum áður.

    Þannig að ég er í öllum meginatriðum sammála Steina, það má all hressilega mikið gerast í vetur svo að ég vilji fá kallinn burt.

  6. Frábær pistill. Bara eitt sem ég hef út á þetta að setja. Hugsa að Carragher og Gerrard yrðu líklega kátari, en annars sammála öllu þarna 😉

  7. Wenger hefur fengið sinn tíma hjá Arsenal og það hefur skilað liðinu í því að þeir eru með stórskemmtilegt lið, en enga titla síðustu árin.

    Fengið sinn tíma? Hann vann deild og bikar annað árið sitt, og keypti sér væntanlega smá kredit með því, ekki ósvipað og Benitez í Istanbul fyrsta tímabilið. Wenger tók svo tvennuna aftur 2002, tók svo bikarinn 2003, deildina 2004, og bikarinn 2005. Engir titlar síðustu 3 árin kannski, en mér finnst það ekki samanburðarhæft að tala um að Benitez eigi að fá tíma af því Wenger sé að fá tíma núna eftir að hafa skilað 7 major titlum í hús.

    Þau eru ekki mörg +10 milljón punda kaupin sem Liverpool og Arsenal hafa framkvæmt

    Við síðan Benitez kom: robbie keane, javier mascherano, ryan babel, dirk kuyt á 9, xabi alonso, djibril cisse, fernando torres.
    Arsenal síðan 2004: samir nasri, alexander hleb. 8 vs. 2, er það ekki smá munur ? Plús það að þeir seldu Henry, Vieira, Ashley Cole sem voru þrír stærstu leikmenn liðsins þessi þrjú ár.
    Mér finnst mun eðlilegra að við Púlarar séum fúlir yfir því að Benitez sé ekki að skila neinu í hús þegar hann eyðir fáránlegum pening ár eftir ár (31m komið í sumar, tæpar 70m á síðasta tímabili, rúmlega 27,5m þar á undan). Þetta eru í kringum 130m sem hann hefur eytt í leikmenn. Engin furða að menn eru fúlir. (upphæðir teknar af einni uppáhalds liverpool síðunni minni til að drepa tíma, lfchistory.net). Á sama tíma er Wenger búinn að kaupa leikmenn fyrir u.þ.b. 40m, og missa sína feitustu bita (að Fabregas frátöldum, sem menn héldu ekki að yrði jafngóður og hann er í dag þegar Henry og Vieira fóru, a.m.k. ekki ég).

    Mér finnst nær að tala um að Alex Ferguson hefði fengið sinn tíma, en það var í rauninni allt annað, því lið máttu alveg við því að lenda í 2.sæti, svo 8.sæti án þess að verða af of miklum peningum. Eins og staðan er í dag þá má Liverpool t.d. varla við því að komast ekki í Evrópukeppni, því eins og þeir sögðu nú í vor að þá gerðu þeir ráð fyrir því varðandi leikmannakaup og annað að komast í meistaradeildina væri bara gefið.

    Ég man t.d. þegar við unnum dolluna í Istanbul, að margir púlarakollegar voru að æsa sig yfir því hvort við myndum komast í meistaradeildina árið eftir, og baráttuna þar við Liverpool, í staðinn fyrir að reyna að vinna keppnina það árið, út af peningunum sem fylgja því að vera í meistaradeildinni.

    Ok, kominn mjög langt út af sporinu. Ég er á því samt að Rafael Benitez eigi að vera. Ein pæling líka, ef hann ætti að fara, hvern vilja menn þá fá í staðinn? Hafa menn eitthvað pælt í því? Ég sé ekki neinn í fljótu bragði sem ég sé fyrir mér gera eitthvað betri hluti með Liverpool en Benitez.

  8. Vel mælt SSteinn.

    Ég nenni ekki að fara í einhvern endurskoðendaleik við Halldór en þegar þú segir að Rafa sé búinn að eyða 31 milljónum (skv. LFChistory) þá er í raun eyðslan einungis tæpar 10 milljónir punda þar sem hann er búinn að selja leikmenn fyrir rúmar 20 milljónir. Það er mikilvægt að huga að því.

    Frá því Rafa tók við liðinu þá hefur hann keypt 51 leikmann til félagsins og hafa þeir kostað rúmlega 182 milljónir punda. Á sama tíma hefur hann selt 54 leikmenn fyrir tæplega 93 milljónir punda. Nettó eyðsla uppá 89 milljónir punda sem er rúmlega 18 milljónir punda á ári. Ég veit ekki hvernig þetta lítur út hjá öðrum félögum en það er ljóst að Rafa hefur ekki efni á því að kaupa eitt stk. Verón eða Schevchenko.

    Ég er sammála SSteinn að Rafa er langbesti kosturinn fyrir Liverpool en það sem er einnig mikilvægt er að Liverpool mun halda áfram að vera stórt félag eftir að Rafa fer. Það er búið að byggja upp ákveðnar vinnureglur hjá félaginu sem gerir það líklegra en ella til að vera farsælt um mörg ár.

    Ég hlakka mikið til leiksins gegn Sunderland þann 16. ágúst.

  9. Eg hef marg oft sagt það, að Rafa á að fá minst 5 ár. Hann hefur unnið dollur, en ekki dolluna sem allir vilja sjá (og sérstaklega Hyypia). Ferguson vann enga titla fyrstu 4 eða 5 árin með M U, svo að Rafa má alveg vera lengur. Eina sem mér( ásamt fleirum) finnst slæmt, það eru þessar roteringar,einnig að Gerrard er oft að spila á kantinum en er samt frjáls og þó, hann er svolítið bundinn þar. Gerrard vill vera á miðjuni og er bestur þar, þótt að hann sé ágætur allstaðar. Semsagt áfram RAFA og LIVERPOOL, þið verðið drullu góðir á næsta tímabili ekki spurning

  10. Alveg sammála þessari grein, ég vill engan í stað Rafa. En ég set væntingar mínar frekar fram í stigum. Ég vill sjá framför milli ára, við tókum 76 stig í fyrra og unnum ekkert af 6 stórleikjunum (arsenal, chelsea, man.utd). Ég set væntingar mínar á 82-85 stig og 2-3 sigur leiki gegn stórum liðum, þó það sé í raun aukaatriði, þá yrði ég sáttur. Þá erum við að sjá að Rafa heldur áfram að þróa liðið og er á réttri leið.

    85 stig hefði í fyrra dugað okkur í 2-3 sæti með Chelsea og titilbaráttu fram í enda móts.

  11. Hægri bakvörðurinn Luke Young að fara til Aston Villa. Því minnka líkurnar á því að Finnan verði notaður sem skiptimynt í kaupum á Barry..

  12. Nokkuð góð grein hjá þér SSteinn. þessi urmæða kemur upp á yfirborðið reglulega, og víst á hún rétt á sér. En það er eitt sem menn verða að hafa í huga og það er að fótbolti nútímans sníst að mestu leiti um peninga og það verður bara að segast eins og er að af þeim hefur ekki verið nóg hjá Liverpool saman borið við t.d. Man Utd og Chelsea. Það hefur verið krafa á hverju ári að nú eigi að landa titlum, það eru liðin 18 – 19 ár síðan Liverpool vann deildina og þá hljóta menn að spyrja sig hvað sé að og hvað sé til bóta. Oftar en ekki er það stjórin sem allt veltur á, ég held að Liverpool séu með góðan stjóra og að hann er á réttri leið með liðið og ég held einnig að það væri óðsmans æði að fara henda honum núna hann á að vera og hafa fullan stuðning stjórnar og stuðningsmanna. Og talandi um stjór þá er framkoma ´H&G á síðasta tímabili ekki til þess fallin að hjálpa stjóranum og liðinu. En vonandi eru þeir félagar búnir að einsetja sér að koma liðinu á rétta braut og stiðja Rafa í orði og á borði. Eis og ég segi hérna þá eru gerðar mikklar kröfur til LFC ár hvert og aldrey meira en nú þetta tímabil, ég held að þessar kröfur hafi aldrey átt eins mikið rétt á sér og núna. Breiddin í liðinu hefur sjaldan verið meiri og gæðin í þeim leikjum sem liðið er að spila á þessu undirbúningstímabili hvort það skilar okkur titli eða ekki verður svo bara tímin að leiða í ljós. En mitt mat er að Rafa á að vera við stjórnvöldin lengi og ég hef fulla trú á að það muni skila sér og vonadi á þessu tímabili… Áfram Liverpool..!!!

  13. Ef liðið gerir atlögu að titlinum í ár, finnst mér eðlilegt Benitez verði áfram við stjórnvölin. Ef þetta verður barátta um fjórða sætið enn eitt árið, held ég einfaldlega að hann komist ekki lengra með liðið með fullri virðingu fyrir þessum ágæta manni (óþarfi að hlaða inn kommentum hvað Ferguson fékk langan tíma með ManUtd, ég veit). Benitez er frábær þjálfari og taktískur snillingur. Hann hefur sýnt það með ótrúlegum árangri í meistaradeildinni að hann les styrkleika og veikleika andstæðingana einna best manna. Hann hefur samt oft á tíðum verið í ansi mikilli tilraunastarfsemi með róteringar og leikkerfi í ensku deildinni og ég hef oft verið ósammála hvernig hann róterar og stillir upp liðinu. Það var ekki fyrr en á seinni hluta síðasta tímabils sem mér fannst Benitez gera virkilega góða hluti með liðið. Þá hætti hann að róta til fastamönnum inn og út úr liðinu eins og “spákaupmaður” og spilaði/þróaði leikkerfi sem gekk bara ansi vel og hélt sig við það, þ.e 4-2-3-1. Vonandi að kallinn haldi sig við þessa hugmyndafræði á komandi tímabili, held að liðið aðlagist mun betur ef það er ekki í sífellu verið að breyta hlutverki leikmanna.
    Kannski er ég óþolinmóður, ég er ekki búddamunkur, en ég tel mig hafa haft hnefafylli af þolinmæði undanfarin ár gagnvart Benitez. Ég verð að viðurkenna að sem stuðningsmaður Liverpool er ég líka orðinn langþreyttur á biðinni eftir titli í ensku deildinni, mig hungrar í einn slíkan. Svo er svo óþolandi að þurfa að hlusta á þessa Man Utd apaketti.

    “Ég hef ekki ennþá heyrt um neinn annan stjóra sem nýtir sér tæknina jafn vel og er jafn fylgjandi sinni sannfæringu á fótbolta.”
    Ég held að Benitez sé langt frá því að vera sér á báti hvað þetta varðar. Til að mynda þegar Gus Hiddink þjálfaði PSV, æfðu þeir í vestum með innbyggðum tölvubúnaði þar sem var m.a hægt að fylgjast með hlaupum, staðsetningum og líkamlegu formi leikmanna.

  14. Fín predikun þarna á ferðinni en ég ætla að vera algjörlega ósammála þér, Steini, varðandi einn hlut. Ef við endum 12 stigum fyrir aftan toppliðin á næsta tímabili, myndi ég svo sannarlega finnast það vera allt of mikill munur þrátt fyrir eyðslugetu hjá topp 2 liðunum. Afhverju? Jú, ef Rafa heldur áfram að stilla sínu sterkasta liði í hvert skipti eins og hann gerði sl. 2 mánuði eða svo af tímabilinu, þá er ekki 12 stiga munur á milli þessara liða. Ef meiðsli setja strik í reikninginn og við þurfum að stilla upp lakari liðum þá er 12 stiga munur svo sem ekkert óraunhæfur.
    Rafa hefur allavega áttað sig á því á þessu sumri að með því að kaupa sterka breska leikmenn myndi gera liðið sterkari í deildinni. Annars hef ég engar áhyggjur af Rafa sem framkvæmdastjóra EF (stórt EF!) hann heldur áfram að stilla sterkasta liði sínu þegar hann getur.

  15. Flottur pistill. Ég er á því að Rafa eigi að vera áfram, nánast sama hvernig tímabilið fer. Mér fannst hann ganga of langt í róteringum í fyrra og rótera stundum á einkennilegan hátt (t.d. með að nota Torres í deildarbikar gegn Birmingham en hvíla svo næsta leik í deildinni). Ég er hlynntur róteringum, þær eru einfaldlega nauðsynlegar í nútímabolta, en er á móti öfga-skiptikerfi eins og þetta var komið útí. Sjálfstraust liðsins hvarf á tímabili og ég fór því að efast um að Rafa væri rétti stjórinn fyrir okkur. En svo skipti Rafa um skoðun, fór að keyra meira á sama liðinu og þeir sem spiluðu vel héldu sinni stöðu. Síðustu mánuðir tímabilsins voru glæsilegir.

    Núna finnst mér augljóst að liðið er að batna smám saman og því á Rafa að fá lengri tíma. Auk þess er enginn annar betri en hann í boði!

    Ég geri ekki kröfu um að vinna deildina í ár, en dreymi að sjálfsögðu um það 😉 Krafan í vetur er að hanga lengur í baráttunni, fyrst fram yfir jól (þá verður ekki hægt að hlægja að manni í jólaboðunum eins og mörg undanfarin ár) og svo eins langt fram á vor og hægt er. Vonandi fram í maí. Ef það gengur eftir geta kraftaverkin gerst …..

  16. Ég var einn af þeim sem vildi Raffa burt á miðju tímabili. Ég hef þó aðeins dregið í land með þann vilja loks þegar hann fór að spila mikið til á sama liðinu leik eftir leik kom stöðugleiki í þetta bara alltof seint. Að lenda 12 stigum á eftir meisturum á komandi vori er að mínu mati algjörlega óviðunandi. Okkar hópur er síst lakari en þeirra liða sem eiga að teljast peningalið. Mér finnst líka leikmannakaupinn oft hæpinn. Benitez virðist frekar vilja kaupa 3 miðlungsmenn en 1 dýrann og verulega góðann, það finnst mér meira vera verið að spá í magn en gæði. Vona að honum beri gæfa til þess að leyfa ungu strákunum að spila í vetur þá er framtíðin björt.

  17. Fínn pistill SSteinn, og kannski slær aðeins á væntingarnar hjá manni. Og þó … mér finnst liðið hafa allt til að bera til að vera með í alvarlegri titilbaráttu í ár. Ungir strákar að koma sterkir upp, reynsluboltar halda áfram, baráttuglaðir (Keane) … blandan er góð hjá okkur og meðalaldurinn líka. Var ekki talað um mentality líka?

    Þetta er ekki alltaf spurning um peninga, þó svo að Chelsea hafi sýnt það einna skýrast þegar þeir unnu fyrir fjórum árum (2004-2005). Ég hef horft á lið eins og Real Madrid og séð að þar geta stundum peningar haft ekki eins mikið að segja. Eða hvernig var annars verðprísinn á Madrid vs. Barcelona, Valencia og fleiri tímabilin 2003-2006?

    Kjarninn í liði Liverpool er frábær. Við getum unnið öll lið, við þurfum bara að losna við grýluna gagnvart Manure og Chelsea – en fyrst og fremst að hafa hugarfarið í lagi.

    Skv. Magnúsi Agnari er nettóeyðsla Rafa 89 milljónir – eða um 18 milljónir á ári. Þetta eru auðvitað sláandi lægri tölur en hjá Manure og Chelsea – ég hélt hins vegar að með nýjum eigendum kæmi mun meira fjármagn inn. Ég hélt að það þyrfti ekki alltaf að selja einhvern til að geta keypt annan. Ég hélt að H&G myndu ausa meiri pening í liðið, þannig að spurningar um leikmenn eins og Barry yltu ekki á því hvort við gætum keypt hann á 18 millur, svo lengi sem við fengjum góðan prís fyrir Alonso … eða eitthvað þvíumlíkt.

    Ég sagði rétt áðan að peningar skiptu ekki öllu í þessu, en samt er ég að tala um hversu strangt H&G virðast halda um budduna. Nýr völlur jú – frábært – en 10 milljónir í nettó-eyðslu er ekki mikið. Stórlið á að geta leyft sér meir eyðslu, finnst mér. Að þeim orðum sögðum ítreka ég samt að ég tel okkur vera með lið sem getur keppt um Englandsmeistaratitilinn!

  18. Góður pistill Steini. Mjög góður!
    Er sammála Ívari Erni að eftir tap fyrir Barnsley í fyrra spurði ég stórra spurninga um hæfi Rafa. Hann svaraði því vel fyrir mig og ég sannfærðist á ný að hann hefur margt gott með sér og á skilið að fá meiri tíma og stuðning.
    Ég hef áður talað um það sem menn úti í Liverpool tala um, endurbyggingu liðsins og umgjarðar þess, nokkuð sem Evans og Houllier náðu ekki að gera. Allt félagið er á nýju leveli og hver leikmaðurinn af öðrum lýsir ánægju með vinnubrögðin og framkvæmd alls í kringum liðið.
    Eilítil breyting frá agaleysi Evans og skammsýni Houllier.
    En mest sammála er ég breyttum raunveruleika enska boltans. Ég fullyrði að í öllum öðrum löndum Evrópu væri þetta lið orðið landsmeistari. Í Englandi eru bara 2 sterkustu lið Evrópu, og sennilega heimsins, í dag. Sama þó við fílum þau ekki.
    Það að fara fram úr þeim verður stærsti sigur þjálfara í sögu ensku knattspyrnunnar, mun slá út árangur Sir Alex þegar hann velti Liverpool af stallinum!

  19. Stefán Kr það er ekkert ef liðið gerir atlögu að titlinum, við ætlum að vinna titilinn og það er ekkret me he með það við vinnum hann allri saman liðið og stuðningmennirnir…

  20. Nr. 7 Þórhallur
    Þau eru ekki mörg +10 milljón punda kaupin sem Liverpool og Arsenal hafa framkvæmt

    Við síðan Benitez kom: robbie keane, javier mascherano, ryan babel, dirk kuyt á 9, xabi alonso, djibril cisse, fernando torres.
    Arsenal síðan 2004: samir nasri, alexander hleb. 8 vs. 2, er það ekki smá munur ? Plús það að þeir seldu Henry, Vieira, Ashley Cole sem voru þrír stærstu leikmenn liðsins þessi þrjú ár.

    Keane var nú bara að koma, JM líka og virkar sem ákaflega góð kaup, Babel er líka nýr og talinn líklegur til að springa út, Kuyt vinur minn hefur nú ekki verið það rosaleg sóun á peningun og flestir segja að hann sé bara alls engin sóun á peningum, Alonso er ennþá stór partur af liðinu og mun verðmætari í dag en hann var 2004, Houllier keypti Cisse og við vorum nú afar óheppnir með hann og svo er það Torres, þann gullmola þarf ekkert að ræða.

    Enginn af þessum yfir 10.m.p kaupum Rafa hefur klikkað illa enn sem komið er og flestir þessara manna eru ennþá líklegir til að vera burðarásar í liðinu næstu tímabilin.

    Þegar Wengar náði sýnum titlum var hann langt í frá að berjast við svona sterk (aðallega fjárhagslega) United og Chelski lið og eins komið hefur á daginn hefur komu stórra bikara farið fækkandi hjá Arsenal undanfarið. Ekki misskilja mig Wenger er frábær stjóri, einn sá albesti og vinnur mjög vel úr því sem hann fær að moða og hann byrjar mjög snemma að byggja leikmenn upp fyrir aðallið Arsenal.

    Benitez er afar frábrugðin Wenger en hans uppbygging lítur ansi vel út og er alveg á pari við þá áætlun sem hann ætlaði að vinna út frá. Það sem Benitez þyrfti að fá er almennur stuðningur allra meðan hann er að gera vel, líka þegar við tökum litlu skrefin afturábak.

    Nr.14 eikifr
    Rafa hefur líkt og flest allir góðir þjálfarar fyrir löngu gert sér grein fyrir mikilvægi þess að rótera liðinu yfir allt tímabilið, margir virðast halda að hann hafi nánast fundið það upp og sé sá eini sem noti þetta kerfi, slík er stundum gagnrýnin, aðalvandamálið hjá okkur hefur verið að við höfum ekki haft nógu góðan hóp, þ.e. það er allt of mikill munur á “byrjunarliðsmanninum” og þeim sem kemur inn í staðin fyrir hann þegar þarf að rótera. Þetta vandamál er alltaf að minnka meira og meira með hverju tímabilinu sem Rafa er við stjórnvölin.
    Þess fyrir utan þá er Rafa allajafna frekar trúr hryggsúlu liðsins og notar þessa mikilvægustu pósta nánast alltaf þegar þeir eru 100% heilir (sem er alls ekki alltaf).

  21. Þakka SSteini fyrir pistilinn. Ég er sammála flestu sem þar kemur fram þó ég vilji ekki sætta mig við 12 stiga mun í lok leiktíðar. Annað sem ég hefi við pistilinn að athuga hefur þegar komið fram í kommentum annara og ekki ástæða til að fjölyrða um það.

    Ég vænti mikils á komandi tímabili þó ekki verði TITILLINN í húsi í lok þess. Ég hefi áður sagt það og það stendur að ég geri þá kröfu til RB og liðsins um að það verði í baráttunni fram á síðustu stundu.

    Annars bara aftur þakkir fyrir góðan pistil og ég er viss um að komandi leiktíð verður ánægjulegri en sú síðasta.
    Það er nú þannig

    YNWA

    ES. Er það rétt sem ég hefi heyrt á skotspónum að Björgúlfur ætli að ráða Guðjón Þórðar í stað Curbs hjá WH???

  22. Nei það er ekki rétt hjá þér að Guðjón verði ráðin í stað Curbishley hjá West ham.

  23. Mér finnst flestir vera að gíra niður væntingarnar og sætti sig bara við 2-4 sæti! Verð að segja að ég vænti ekki neins annars en að vera í toppbaráttunni í vetur og ef það tekst ekki þá hefur Rafa mistekist. Það eru fleiri búnir að starfa undir erfiðum kringumstæðum, sbr. Róman með puttana í öllu hjá Chelski og endalaust vesen með framkvæmdastjóra. Sagan endalausa með Ronaldo hjá United auk mikilla meiðsla þar á bæ undanfarin ár hefur ekki gert Ferguson auðvelt fyrir sem og allt vesenið með eigendur þar á bæ. Svo hefur Wenger þurft að sjá á eftir mörgum góðum leikmönnum og þarf að byggja á yngri mönnum enda mikill peningur farið í að byggja nýjan völl. Auðvitað verður gríðarlega erfitt að ná gullinu en ég vil ekki trúa öðru en að það sé raunhæft og það hefur verið markmið #1 síðan Rafa kom og ef hann dettur úr baráttunni fyrir jól eins og áður þá veit ég bara að ég verð hundfúll, þunglyndur, andfúll, leiður, nöldurseggur o.s.frv. Hér á þessum bæ er allt annað en barátta um titil = failure. Man United gat tekið Evrópu og England með Fletcher, O’Shea, Ji-Sung, Carrick, Neville, W.Brown og Ryan Joseph Giggs sem er 35 ára kantmaður…Við eigum ekki að þurfa að sæta okkur við að vera eftirbátar Man United og Chelsea…punktur.

  24. Mér þykir halla á Wes brown og Gary neville í þessari umræðu.

CR

Þeir fara ekki fet!