Undirbúningstímabilið hingað til

Hef verið nokkuð duglegur að fylgjast með liðinu okkar í æfingaleikjunum fram til þessa og langaði að draga saman nokkra punkta til að ræða um.

Byrja á að lýsa ánægju minni með hinn brasilíska Diego Cavalieri í markinu. Þessi strákur virkar traustur í flestu, góður á línunni, óhræddur að fara út í teiginn og virkilega fínn að koma boltanum í leik. Tel hann verulega framför í stöðu varamarkmanns, mun betri en Itandje, sem er að frekjast til að fara í PSG í stað Galatasaray. Reina mun áreiðanlega verða betri markmaður með enn öflugri samkeppni.


Mér finnst ljóst að við erum á verulega góðum stað með hafsenta þennan veturinn. Daniel Agger hefur verið að leika gríðarlega vel finnst mér og virkar eins og nýr leikmaður hafi verið keyptur. Enda hefur varnarleikur liðsins verið það traustasta í leikjunum hingað til, fá mörk verið fengin á sig, og færin á okkur mjög fá!

Bakverðirnir hafa verið að vinna sig inn. Dossena og Darby nýir þar og fá mikið að spila. Mér líst afar vel á Dossena, ákafur og áræðinn Mér finnst hann virkilega vilja sanna sig og þó að mér finnist hann þurfa eilítið að bæta varnarleikinn er ég sannfærður um að liðið í heild verður betra með honum.

Darby er spennandi leikmaður, en ég held þó að hann sé ekki alveg tilbúinn. Vantar enn pínu kjöt á hann, en er góður í fótbolta, skynsamur og með verulega mikla sendingagetu. Ég held að þar sé framtíðarbakvörður á ferð! Ég held þó að til of mikils sé ætlast af honum að verða fastamaður í vetur og tel því að gott væri að lána hann í vetur, til Úrvalsdeildarliðs eða toppliðs í 1.deildinni, þar sem hann fengi að spila mikið. Degen var flottur í byrjun en svo hafa meiðslin dregið úr honum, Finnan en kannski á leiðinni í burtu þannig að væntanlega er það Arbeloa sem verður fyrsti kostur þar. Ég hef áður lýst því að ég telji hann ekki afburðaleikmann en hann er fínn kostur og á vel heima í liðinu.

En varnarleikurinn í heild hefur verið flottur og ánægjulegt að sjá að menn virðast vera vel samstilltir og nær til í slaginn!

Miðjan hefur auðvitað verið svolítið í flakki. Masch og Lucas voru fyrst látnir spila og svo datt Alonso inn aftur eftir Spán. Gerrard, Spearing og Plessis voru hins vegar með allan tímann og stundum hafa miðjumennirnir inni á miðju tveir og stundum þrír. Núna í tveim síðustu hefur verið stillt upp í 442 með Gerrard sem sóknarmiðjumann. Mér finnst Rafa enn vera að daðra við leikkerfin á miðjunni. Enda segir hann í viðtölum núna að hann ætli að nota bæði 4-4-2 og 4-2-3-1 í vetur. Yossi Benayoun hefur verið minn óvæntasti glaðningur í þessum leikjum. Gríðarlega flinkur, á fullri ferð bæði í vörn og sókn. Hef enga trú á því að Benitez láti hann fara. Auðvitað er ljóst að breytingar eru enn yfirvofandi á miðjunni. Sennilega er Pennant að fara og líklega er Barry að koma.

Því finnst mér miðjan enn vera eilítið spurningamerki.

Framherjarnir eru mesta framförin! Torres auðvitað óumdeildur, en með tilkomu Robbie Keane skjálfa allar varnir. Punktur. Svo sá maður bara allt í einu stóran, fljótan og tekniskan Frakka fara illa með Rangersmenn og ungverskan dreng með flottar staðsetningar leggja upp mark og fiska víti. Frábært!

Því held ég að augljóst sé að liðið er í framför og eins og Rafael Benitez hefur nú sagt í viðtölum tilbúið að keppa til titils í öllum keppnum vetrarins.

Enn eru eftir tveir æfingaleikir, gegn Vålerenga í Noregi og Lazio á Anfield áður en alvaran hefst í Sunderland. Rafael Benitez hefur undanfarin ár farið að sýna ásana í síðustu leikjunum um leið og hann hefur látið þá sem ekki virka fara, á lán eða í burtu. Í Glasgow sáum við Finnan og Voronin ekki sem hefur ýtt undir sögur að þeir séu að fara og í dag var tilkynnt að David Martin, markvörður, muni spila með Jack Hobbs í Leicester fyrri helming vetrarins.

Því verður gaman að sjá liðið gegn Vålerenga á miðvikudaginn og síðan gegn Lazio. Ég held að gegn Vålerenga fái margir “minni spámenn” síðasta möguleikann á að sýna að þeir geti gegnt hlutverki í liðinu og svo gegn Lazio fáum við góða hugmynd um fyrstu 11 og leikkerfið í fyrsta alvöruleik tímabilsins.

7 Comments

  1. Ég hef sjálfur ekki séð neinn af þessum æfingaleikjum.. En það fer laglega vel ofan í mig að þú segir að Daniel Agger sé ekki eiðilagður; þvílík snilld. ég var að verða hræddur um, að þetta væri svona Owen dæmi aftur, en svo er víst ekki.
    YNWA

  2. Agger er klassa leikmaður en samt hefur mér fundist Skrtel vera traustari varnarlega. Klárlega 2 af bestu hafsentum í deildinni.
    Annars er ég sammála öllu öðru held ég bara, þessi markmaður er betri en allir markmenn Liverpool undanfarin ár fyrir utan Reina auðvitað (miðað við hvað hann hefur verið að sýna í þessum leikjum).

    Maður hreinlega skríkir af spenningi.

  3. ég er algjörlega sammála pistlinum maggi.

    markvörður, hafsentar, miðjumenn og framlína liverpool eru algjörlega í heimsklassa.

    svo tel ég liverpool fc vera að gera frábæra hluti með að kaupa alla þessa ungu leikmenn, því framtíðin er svakalega björt með þessa gutta! engin spurning. varaliðið á ekki minni séns núna á að vinna deildina heldur en í fyrra. venjulega hafa verið örfáir almenninlegir unglingar í liðunum, en núna er heill hellingur af frábærum unglingum í liverpool, sem er frábært!

  4. Maður er óneitanlega mjög spenntur fyrir komandi tímabili, sérstaklega í ljósi þeirra greina sem maður hefur lesið uppá síðkastið um herkænsku- og uppbyggingarhæfni Rafa og mennina bakvið tjöldin í klúbbnum. Ég ætla samt ekki (af gefinni reynslu) að fara inní þetta tímabil trúandi því að Liverpool verði loksins meistari, innst inni vona ég það að sjálfsögðu en ég ætla samt ekki að gera mér einhverjar vonir. Ég bara hreinlega nenni ekki að byrja nýtt ár eins og öll önnur, drullandi á mig úr svekkelsi yfir því að titilbaráttan sé búin og árið nýbyrjað.

    YNWA
    Óli B.

  5. Það er skiljanlegt Óli B. að menn séu með vaðið fyrir neðan sig þegar kemur að því að spá fyrir um komandi tímabil, en þeir leikir sem ég hef séð með Liverpool (sem eru allir leikir undirbúnings tímabilsins) þá er ég bara nokkuð bjartsínn og ég ætla að leifa mér að segja að þetta lið sem við erum með er það besta sem Rafa hefur haft síðan hann tók við. Ég hef mikkla trú á að vörnin sé að smella saman, sérstaklega er ég ánægður með að Agger skuli vera komin til bara (þegar hann meiddist í fyrra þá fór að halla undan fæti) svo held ég að þeir ungu leikmenn sem eru að banka á dyrnar séru bara vel frambærilegir til að hlaupa í skarðið ef meiðsli koma upp, einnig finnst mér markmennirnir sem við höfum sínt góða leiki sem er bara gott til að setja pressu á Reina ekki það að hann sé að standa sig illa en hópurinn er bara stærri og sterkari núna en hann hefur áður verið og það mun hjálpa okkur… Áfram LIVERPOOL.!

  6. Ég get ekki beðið eftir að tímabilið byri. Með heppni og framúrskarandi framistöðu getum við ógnað toppsætinu fram í lok apríl. Okkur vantar samt einhvern galdramann til að taka okkur skrefinu lengra til að geta orðið alvöru contenders.

    Ég hef fulla trú á því að Insúa, Plessis, Babel og Lucas spili mu fleiri leiki nú en í fyrra og þá sérstaklega tveir síðastnefndu. Nemeth og Pacheco eru auk þess fín viðbót.

    Ég vona samt að Rafa nái að selja Voronin, Pennan og Finnan fyrir tímabilið. Pennant hefur ekkert gert so far annað en að éta gras, Voronin er auðvitað bara Voronin. Finnan verður samt að góðri minningu fyrir vel unnin störf en hans tími hjá liðinu er liðin. Ekki má gleyma að þessir leikmenn eru líklega samanlagt með um 100 þúsund pund á viku (5,2 milljón punda á ári) sem mætti betur nota upp í kaup á Barry/Silva/Rafinha.

    En númer eitt tvö og þrjú er að vera með amk tíu stig eftir fyrstu fjóru leikina. Ég hef tru á því að deildin vinnst í byrjun tímabilsins en ekki undir lok þess.

    En þvílíkt lið:
    ——————–Reina—————-
    —Arbeloa – Agger – Carra – Dossena
    ———Mascherano – Alonso/Barry
    —Keane ——- Gerrard ———Babel
    ——————–Torres

    Klárt að þessi mannskapur er ekkert verri en hjá Chelski og Man Utd. Núna er bara spurning hvort Rafa byrji að leggja meiri áherslu á deildina svo leikmennirnir komi jafn æstir til leiks eins og þeir hafa gert í CL.

  7. bara svona minna menn á að LFC vs Valerenga er að byrja núna..
    Liðið er svona:
    Cavalieri, Arbeloa, Carra, Agger, Dossena, Bennijón, Alonso, Gerrard, Kuyt, Keane og Torres.
    Enginn Voronin, Pennant né Finnan í okkar hóp.

Leto neitað um atvinnuleyfi – fer á lán.

Vålerenga 1 – Liverpool 4 (uppfært)