Hugleiðingar um varnarleikinn á næsta ári

Svona á meðan að við bíðum frétta af nýjum leikmönnum og undirbúum okkur undir næsta æfingaleik datt mér í hug að rýna aðeins í þann þátt liðsins sem virðist nú einna fullmótaðastur fyrir næsta tímabil, varnarleikinn.

Í fyrra lenti Liverpool í ákveðnum vandræðum þegar Daniel Agger meiddist og missti í raun úr allt tímabilið. Það var ekki fyrr en í janúar að fenginn var leikmaður sem komst nálægt því að fylla skarð hans, þá vorum við í raun úr leik í titilbaráttunni og þrátt fyrir að Skrtel hafi átt fína byrjun á Anfield og gamla rörið Hyypia ætti frábært tímabil brást varnarleikurinn í stóru leikjunum um vorið, gegn Chelsea og United. Svo í ofanálag lentum við í miklum vandræðum með föst leikatriði á okkur, fengum á okkur 16 mörk upp úr slíku, aukning um 11 mörk milli ára.

Það var því ljóst að eitt af markmiðunum yrði að söðla um með leikmenn og auka breiddina í varnarmönnunum. Tveir hávaxnir bakverðir og nýr markmaður hafa nú þegar bæst í hópinn og hugsanlegt er að Barry komi og sé þá jafnvel hugsaður sem möguleiki í varnarleiknum.
Nýi markmaðurinn, Diego Cavalieri, er lítt þekkt stærð. Hins vegar virðist manni af því sem maður hefur lesið um hann fer þar markmaður sem er góður í teignum og góður að koma boltanum í leik, en eilítið þungur á línunni. Miðað við það held ég að Rafa sé að hugsa um að fá markmann sem svipar til Reina. Itandje var fínn á línunni en vonlaus í teignum og slakur með boltann í fótunum. Ég reyndar hlakka til að sjá hvað verður um David Martin, þar er mikið efni á ferð sem við vonandi nýtum meira en Carson. Væntanlega verður Carson komið með nýjan heimavöll í þessari viku. Maður auðvitað þekkir nýja manninn ekkert en vonandi veldur hann hlutverki sínu sem varaskeifa besta markmanns í enska boltanum (mitt mat). Markvarslan ætti að verða sterkur hlekkur nú eins og áður.

En það er varnaruppstilling þeirra sem næstir koma sem verður gaman að sjá. Það má í raun segja það að við höfum fengið 3 nýja menn þar með endurkomu Agger. Ég tel liðið hafa saknað hans gríðarlega í fyrravetur og í raun ansi gott hvernig tókst til án hans, okkar besta varnarmanns. Frábær dekkari og takklari, snillingur að bera boltann upp og yfirvegaðri en allt. Ég tel hann vera kost Benitez númer eitt í vörninni.

En hvaða vörn munum við spila? Í leiknum gegn Tranmere nú nýlega stillti Rafa upp þriggja hafsenta vörn með vængbakvörðum. Ég held að það gætum við fengið að sjá í leikjum gegn slakari liðum deildarinnar, þá muni Carragher og Skrtel fylgja Agger í hafsentunum og Aurelio/Dossena vera vinstra megin með Degen hægra megin (og Finnan ef hann ekki fer). Dossena fengum við ekki að sjá gegn Tranmere en af öllu sem maður les fer þar öflugur sóknarbakvörður. Degen fengum við að sjá í gær og ég bara var afar sáttur. Auðvitað var mótherjinn veikur, en hann er mjög fljótur, áræðinn og á flotta bolta inn í boxið. Það sem kom mér einna mest á óvart var hæð hans og líkamsstyrkur. Ég geri mér miklar vonir um að þessi strákur nýtist okkur mikið í baráttunni framundan! Því leik ég mér með uppstillingingar, tek fram að miðju- og sóknarmenn eru bara með til að skýra myndina eitthvað aðeins…. Að mínu mati fyrsti kostur í þessu afbrigði:

Reina

Carragher – Agger – Skrtel

Degen – – – – – – – – – – – – – – Dossena
Mascherano – Gerrard – Alonso

Torres – Kuyt

Svo kemur að því að skoða fjögurra manna vörnina í „normal“ leikjum. Gaman verður að sjá hvaða leikmenn munu berjast þar. Ég held að Degen sé ekki nægilega sterkur varnarlega til að verða fyrsti kostur hægra megin, en þar held ég að Arbeloa verði kostur númer eitt, jafn mikið og ég held að hann geti ekki verið vængbakvörður. Verulega verður svo skemmtilegt að velta fyrir sér hafsentaparinu. Ég held að Agger verði lykilmaðurinn og mikil barátta verði milli Carragher og Skrtel um sætið við hlið hans. Svo hefur maður ekki enn séð Dossena, en hann hefur jú spilað í fjögurra manna vörn hjá sínum liðum og ætti að geta staðið þá vakt. Því held ég að uppstillingin verði:

Reina

Arbeloa – Carragher – Agger – Dossena

Babel – Mascherano – Alonso – Benayoun
Gerrard
Torres

En svo er enn eftir sá möguleiki sem ég held að sé ein af ástæðum þess að verið er að eltast við Barry. Í leikjum okkar gegn „stóru“ liðunum þremur höfum við lent í vandræðum gegn öflugum vængmönnum og líkamlega sterkum framherjum. Ég held að þegar Benitez fer næst á OT, SB og Emirates muni hann verulega velta fyrir sér að setja þessa vörn upp:

Reina

Carragher – Skrtel – Agger – Barry

Babel – Mascherano – Alonso – Benayoun
Gerrard
Torres

Auðvitað miðast þetta við að við fáum Barry að lokum en þessi vörn held ég að yrði sett upp í þeim leikjum þar sem eiga þarf við leikmenn þess toga sem ég áður lýsti.

Svo eru það föstu leikatriðin. Dossena er stór og Degen líka, Barry feykisterkur skallamaður með góða hæð. Skrtel hefur nú væntanlega lært svæðisvörnina vel og ég er viss um að í Sviss næstu daga verður mikið verk unnið til að koma í veg fyrir þann leka.

En hvað haldiði, er ég að vaða reyk eða er eitthvað til í þessum pælingum???

10 Comments

  1. Þetta eru allt ágætis uppstillingar sem þú ert með þarna en ég held að ef Babel og Benayoun yrðu saman í byrjunarliðinu þá myndi Babel klárlega byrja vinstra meginn og Benayoun hægra meginn. Einnig á ég mjög bágt með að trúa því að Barry verði keyptur (og það á 15 millur + Finnan) til þess að spila sem vinstri bakvörður. Hann yrði klárlega notaður á miðjunni eða vinstri kanti en að sjálfsögðu getur hann leyst þessa stöðu sem bakvörður, það er ekki spurning en ég held að hann yrði ekki best nýttur þar. Sérstaklega í ljósi þess að Dossena er kominn og Aurelio er fínasti spilari.

  2. hehe, það er hellingur til í þessu hjá þér maggi 🙂

    ég er hinsvegar ekki svo viss um að agger verði kostur númer eitt alveg strax. hann á langt í land með að ná fyrra leikformi og því þarf hann að leggja súper mikið á sig á undirbúningstímabilinu. hann þarf væntanlega nokkra leiki til að ná carra og skrtel sem voru frábærir að mínu mati í fyrra og ég held að þeir byrji saman og agger komi svo inn í þetta fljótlega. við verðum að taka það með í reikninginn að agger lék lítið sem ekkert í fyrra og hann missti því nánast úr heilt tímabil. auðvitað eru skrtel og carra búnir að spila takmarkað í sumar en þeir spiluðu síðast fyrir u.þ.b 2 mánuðum, en það er orðið töluvert lengra síðan að agger spilaði og það telur auðvitað.

    en ég á mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra þriggja. þegar þeir eru allir í toppformi og þá er ég að meina spilformi þá tel ég að Agger og Skrtel séu hafsentaparið, þá er hægt að hafa Carra í bakkaranum og Degen jafnvel fyrir framan hann. annars er erfitt að vera að færa Degen og Dossena mikið til á vellinum, maður þekkir þá mjög lítið og maður fer að ræða þá þegar maður sér meira til þeirra. en ef ég ætti að stilla upp vörn á móti man utd, chelsea eða arsenal þá yrði hún svona:
    carra – skrtel – agger – arbeloa

    en þetta eru gleðifréttir fyrir rafa og liverpool að hafa smá “vandræði” í varnaruppstillingunni, þetta er líka holl samkeppni sem varnarmennirnir fá og það er kostur fyrir þá að þurfa að gefa sig alla í þetta til að tryggja sæti sitt. en framtíðarhafsentaparið er klárlega skrtel – agger 🙂

    snilld! flottur pistill maggi, maður er að komast í gírinn!

  3. Vel mælt nafni.

    Það eru 4 leikmenn sjálfkjörnir í byrjunarlið Liverpool, Reina, Carragher, Gerrard og Torres. Ég sé hins vegar Agger slá Carragher þarna út eftir tímabilið.

    Rafa virðist vera afar hrifinn af leikmönnum sé geta spilað fleiri en eina stöðu og ef Degen og Dossena er öflugir fram á við þá er klárt mál að það hjálpar í leikjum þar sem andstæðingurinn liggur djúpt í vörninni.

    Ég hef samt sem áður ekki miklar áhyggjur af varnarleiknum okkar þar sem við erum með trausta leikmenn og góða breidd. Ég hef meiri áhyggjur af sóknarleiknum því við getum ekki ávallt treyst á að Torres og Gerrard búi til og skori öll mörkin. Leikmaður eins og David Silva væri afar jákvæð búbót við liðið en leikmaður í hans klassa. Ég er ekkert viss um að Bentley myndi vera mikið betri kostur en Pennant, báðir miðlungsleikmenn.

  4. Alltaf gaman að sjá spekúleringar sem þessar. Ég er sammála þér að verulegu leiti fyrir utan fyrstu varnaruppstilinguna. Ég hed að Rafa fari seint út í þriggja manna varnarlínu. Það hefur vara sést í fótbolta síðan fyrir aldamót þótt að ég persónulega geti stundum verið hlynntur því. En fjögurra manna varnarlína með djúpum miðjumanni – Mascherano – getur virkað nokkurn veginn sem þriggja manna lína þar sem Mascherano koverar fyrir bakverðina. En sweeper notar hann varla. Í þessum heimaleikjum gegn lakari liðum þá þróast leikkerfið út í að verða 2-1-3-4. Smá útskýring: Ég fór á Liverpool-Bolton í fyrra á Anfield. Leikurinn þróaðist út í einstefnu okkar manna og það sem gerðist var það að Riise og Finnan (ef ég man rétt) voru yfirleitt komnir upp að vítateigshorni hjá Bolton. Miðjumaðurinn var djúpur og kantmennirnir drógu sig inn á miðjuna fyrir framan vítateiginn. Þar var mikið kraðak með miðjumönnum beggja liða og varnarmönnum Bolton. Ennfremur tel ég óþarft að fjölga leikmönnum sem eru ekki flinkir sóknarmenn í þessum leikjum.
    Varðandi stórleikina þá tek ég algjörlega undir þessa uppstilingu með Carra í hægri bakverðinum og jafnvel Barry vinstra megin. Þannig held ég að það verði erfitt að segja til um hver er fyrsti, annar og þriðji kostur í hafsentinn, þetta verður rótering og stillt upp eftir andstæðingnum hverju sinni.
    http://www.knattspyrna.bloggar.is

  5. Skemmtilegar pælingar, eitt held ég þó að sé klárt, Barry ef hann kemur er hugsaður á miðjuna með Gerrard. Þeir hafa náð þar mjög vel saman með landsliðinu og Barry er klárlega hugsaður sem miðjumaður af Benítez enda maðurinn nýbúin að splæsa í vinstri bakvörð.

    Varðandi liðsuppstillingu þá fannst mér liðið springa út eftir að Rafa setti sóknarleikinn meira á oddinn og stillti upp Torres frammi og þremur framliggjandi miðjumönnum þar fyrir aftan með Gerrard einn af þeim í nokkuð frjálsu hlutverki. Þetta leikkerfi svínvirkaði og okkar helstu stjörnur Torres og Gerrard “fíluðu” sig vel í þessu kerfi. Áfram sem mest með þetta kerfi segi ég. Má svo hugsa eitthvað annað á útivelli gegn þessum þremur stóru og í slíkum leikjum.

  6. Ég held að kerfið komi til með að vera nokkurnvegin það sama og í lok síðasta tímabils, svona allajafna. Fer auðvitað eftir því hvaða leikmenn koma til með að bætast í hópinn.

    Held að það verði lögð öllu meiri áhersla á að bakverðirnir taki meiri þátt í sóknarleiknum, en þó bara annar í einu. þ.e. í flestum tilvikum verði þrír varnarsinnaðir varnarmenn ef svo má segja, einn varnartengiliður (JM gerir varnarbakverði stundum nánast óþarfa) og svo einn mjög sóknarsinnaður bakvörður. Þannig að ég sé fyrir mér marga leiki með Carra eða Arbeloa í bakverði og sóknarsinnaðan mann hinumegin. (eigum reyndar orðið gríðarlega marga möguleika í bakvarðarstöðunni). Endurkoma Aggers gerir okkur líka kleyft að spila örlítið ofar á vellinum og vonandi fækkar draumaboltunum frá miðvörðum til sóknarmanns með útsjónarsemi Aggers.

    Sömu sögu er hægt að segja með sóknina, á móti sóknarsinnuðum kanntmanni er oftast varnarsinnaður kanntmaður hinumegin, sbr. ef Babel spilar þá er oftast Kuyt hinumegin. Sé fyrir mér Barry taka svolítið Kuyt stöðuna vinstramegin ef hann kemur.

    Varðandi Gerrard þá tel ég það ekkert óhugsandi að Rafa kaupi mann sem hugsaður er í þá stöðu sem hann var að spila í fyrra, í holuna fyrir aftan eða með Torres (sbr Keane/Aguero). Þannig að hann geti nýtt Gerrard á miðjuna stundum. Það vantaði í fyrra einhvern á miðjuna með sprengikraft og hæfileika til sóknarleiks. JM sér um varnarhlutverkið, Alonso er mjög djúpur og með litla yfirferð og passar því oft illa með JM á miðjunni (Lucas gæti reyndar komið sterkur í þetta hlutverk). Þarna gæti Barry líka komið sterkur inn, held að hann geti ýtt liðinu örlítið ofar en t.d. Alonso gerði í fyrra.

    En allavega þá held ég að heilt yfir tímabilið komi þetta til með að vera stillt upp með:
    – markverði 😉
    – þremur varnarmönnum á móti einum sóknarþenkjandi full back, (stundum tveimur full back)
    – Mjög djúpum varnarsinnuðum miðjumanni (JM) á móti meira sóknarþenkjandi playmaker.
    – Mjög sóknarþenkjandi kanntmanni á móti vinnusömum kanntmanni hinumegin (mjög breytilegt eftir mótherja)
    – Einum sóknartengilið með nokkuð frjálst hlutverk fyrir aftan framherja
    – og svo auðvitað Torres

  7. Ég man að Rafa notaði þetta kerfi sem var gegn Tranmere einu sinni gegn Newcastle þegar að Kromkamp spilaði sinn fyrsta leik og þetta virkaði vel þá.

    Í Daily Post pistli er talað um uppstillinguna sem 3-2-3-1-1, sem gæti hugsanlega verið eitthvað á þessa leið

    Reina

    Carragher – Skrtel – Agger
    Degen – – – – – – – – – – – Dossena
    Gerrard – Mascherano – Barry
    Babel
    Torres

    En þetta er samt hálf furðulegt þar sem að kraftar miðjunnar nýtast kannski ekki alltof vel. Eða hvað?

    Þetta eru allavegana áhugaverðar pælingar og góður pistill, Maggi.

  8. Liðsuppstilling á næsta ári er hausverkur. Ef Rafa kaupir Barry og Keane, eru þeir á leiðinni í byrjunarliðið. Maður spyr sig hvort þetta Barry og Macherano verði fyrir framan fjóra varnarmenn, Keane fyrir framan þá, Gerrard hægra megin, Babel vinstra megin og Torres fremstur…

    Ég legg síðan til Einar og Kar að þið setjið inn link hérna hægra megin með upplýsingum um hvernig maður gerir svona völl og linka og svona sem menn eru stundum í vandræðum með 🙂 Ég á klárlega að kunna að gera svona völl samt! 🙂

Sigur á Tranmere og never ending story…

Fer Alonso kannski ekkert? (Uppfært)