Birmingham 2 – Liverpool 2

Undanúrslit Meistaradeildarinnar. Þeirra vegna er það orðið nánast árlegur viðburður að Liverpool spili einn eða tvo tilgangslausa deildarleiki þar sem Rafa Benítez stillir upp algjöru varaliði og nánast hendir leikjum frá sér. Svo fór einnig í dag þar sem varaliðið okkar gerði **2-2 jafntefli** gegn grútlélegu Birmingham-liði í leik sem okkar sterkasta lið hefði unnið. Stórt.

Byrjunarlið Liverpool í dag var svona:

Reina

Finnan – Skrtel – Hyypiä – Riise

Pennant – Lucas – Plessis – Benayoun

Crouch – Voronin

**Bekkur:** Itandje, Insúa, Carragher, Gerrard, Kuyt.

Utan hóps í dag: Torres, Babel, Alonso, Mascherano, Arbeloa.

Meiddir: Aurelio, Agger, Kewell.

Sem sagt, af liðinu sem byrjaði leikinn gegn Chelsea á þriðjudag voru aðeins Reina og Skrtel inná í þessum leik. Aðrir voru fyrir utan hóp eða á bekknum.

Fyrri hálfleikur í þessum leik var vart í frásögur færandi. Crouch átti eina færið okkar með langskoti sem Maik Taylor varði vel. Crouch var annars ósýnilegur eins og flest allir í liði okkar manna og á köflum fannst mér Pennant og Voronin vera þeir einu sem voru allavega að reyna.

Eina mark hálfleiksins kom um hann miðjan þegar Riise horfði á James McFadden tölta með boltann upp að endalínu og gefa fyrir. Þar horfði Hyypiä á Finnan og Skrtel fara í skallabolta gegn sama manninum, en boltinn fór framhjá þeim öllum og til **Mikael Forssell** sem var óvaldaður á fjærstöng og setti boltann framhjá Reina. 1-0.

Fljótlega í seinni hálfleiknum syrti í álinn. Okkar menn voru steinsofandi sem fyrr þegar Birmingham fengu aukaspyrnu af dágóðu færi fyrir utan teig okkar manna. Fyrrum Arsenal-maðurinn **Sebastian Larsson** tók aukaspyrnuna í sönnum Beckham-stíl og sett’ann yfir varnvarveginn, upp í samúelinn, óverjandi fyrir Reina. 2-0.

Við þetta vöknuðu okkar menn aðeins og nokkrum mínútum síðar minnkaði **Crouch** muninn. Jermaine Pennant, sem var okkar langbesti maður í dag, lék upp allan hægri kantinn og inná vítateiginn, sólaði einhverja þrjá eða fjóra Brömmara og lagði boltann svo inná teiginn þar sem Crouch tók hann og smellti í hornið niðri. 2-1 og leikurinn enn á lífi.

Þegar kortér var eftir fengum við svo heppnismark. Boltinn barst enn aftur upp hægra megin, þar gaf Lucas fína fyrirgjöf á teiginn þar sem **Yossi Benayoun**, sem hafði ekkert getað fram að því, skallaði boltann í netið. Boltinn hafði reyndar viðkomu í Radhi Jaidi og breytti um stefnu svo Taylor náði honum ekki í markinu en Benayoun er samt réttilega skráður fyrir þessu. 2-2.

Eftir þetta sóttu okkar menn meira í sig veðrið og sóknirnar fóru nær allar í gegnum Pennant á hægri kantinum. Insúa kom inná fyrir Riise sem hafði lítið gert til að sýna Rafa að hann væri að jafna sig eftir sjálfsmarkið gegn Chelsea. Aðrir komu ekki inná, þannig að það má segja að aðalliðið okkar hafi fengið nær algjöra hvíld í dag á meðan Chelsea-liðið þurfti að nota alla sína sterkustu menn í hreina orrustu gegn United. Kannski reynist það okkur til tekna á miðvikudaginn kemur.

Það fór þó svo að sigurmarkið kom ekki í þessum leik þrátt fyrir pressu okkar manna undir lokin og því var jafnteflið staðreynd í leik sem hefði unnist ef okkar menn hefðu byrjað að spila fyrr en á 60. mínútu, eða ef aðalliðið hefði spilað. En jafnteflið færir okkur allavega stigið sem þurfti til að gulltryggja fjórða sætið.

**Maður leiksins** Jermaine Pennant. Rafa talaði um það fyrir þennan leik að það væri hópur leikmanna hjá Liverpool sem þyrftu að sýna honum að þeir vildu vera áfram hjá félaginu og hefðu þau gæði sem þarf til. Hann setti svo meira og minna alla þessa leikmenn inná völlinn í dag og miðað við svörin sem við fengum fyrstu 60 mínúturnar virtust menn eins og Finnan, Riise, Crouch og Voronin lítinn áhuga hafa á að sanna sig.

Pennant var hins vegar allur af vilja gerður. Leikur hans í fyrri hálfleik var kaflaskiptur, en hann þó bestur okkar manna, en í seinni hálfleik var hann á köflum sá eini sem lék af getu og það var engin tilviljun að aukin pressa okkar manna eftir að lenda tveimur mörkum undir kom á sama tíma og Pennant tók öll völd á sínum væng. Fínn leikur hjá Pennant sem getur fyrir vikið átt von á að fá aðeins meira að gera en samherjar sínir í dag gegn Chelsea á miðvikudaginn kemur.

Nóg af þessu í bili. Fjórða sætið er öruggt, nú berjast menn upp á líf og dauða á Stamford Bridge á miðvikudaginn kemur. Það er nóg eftir af þessu tímabili ennþá.

29 Comments

  1. Lovely….. Er Birmingham að eiga klassaleik eða Liverpool að eiga slakan leik… nema hvort tveggja sé? 🙂

  2. Ok nú þarf einhver að hjálpa mér. Ég get svarið að ég er að missa vitið. Það er enginn önnur skýring á því!

    Það getur bara ekki verið fræðilegur möguleiki að ég hafi séð örvfættan vinstri bakvörð hjá Liverpool gefa heppnaða sendingu með hægri. Ég bara neita að trúa því! 😀

  3. Sammála með allt í þessari skýrslu og líka með mann leiksins.
    Annars pirraði það mig mjög að liðið skildi ekki pressa út viðbótar tímann og freista þess að ná sigri en ekki að spila til baka á Reina og þess háttar bull.
    Annars flott hjá þeim að koma til baka eftir að hafa verið tveimur mörkum undir.
    Voronin má fara í sumar, við hljótum að vera betur settir með unga og ferska leikmenn eins og Nemeth.
    Ég svei mér saknaði bara Neal Mellor í dag : )
    Riise má fara í sumar, það verður sorglega lítið mál að toppa hann.
    Peter Crouch má fara í sumar, jú hann skorar öðru hvoru en hann er bara með dauða dóm hjá dómarastéttinni eins og hún leggur sig, hann fær aldrei breik.
    Finnan má fara í sumar, það er eflaust hægt að fá smá pening fyrir hann og hann gæti eflaust hjálpað liðum eins og Fulham.
    Lifið heil.

  4. Já, það er ekki laust við að maður furði sig yfir því af hverju Benayoun er alltaf fyrsti varamaður hjá Liverpool í staðinn fyrir Pennant. Hann hefur að mínu mati staðið sig frábærlega í síðustu tveimur leikjum ólíkt Benayoun, sem hefur verið afleitur.

    En fínt að við erum allavegana öruggir í Meistaradeildina. Það leit nú ekki svo vel út á tímabili í vetur.

  5. Sælir
    Plessis,Lucas , Voronin, ömurlegir og ég skil ekki hvað
    menn sjá við Lucas.
    Vona að Voronin verði aldrei aftur í Lfc treyju.
    Er stundum ekki að skilja hann Kristján .

  6. Maður var að sofna í fyrri hálfleik en vaknaði örlítið í þeim síðari. En annars glataður leikur og ansi lítið fyrir augað… Spurning hvort Pennant fái fleiri sénsa en efa að hann fái sæti í liðinu á miðvikudaginn. Mér fannst hann eini leikmaðurinn í dag kannski utan við Skrtel sem hafði einhvernáhuga á að spila þennan leik. Annars fínt að hafa getað hvílt svona vel í leiknum og átt alla þá sterkustu eins ferska og hægt er á miðvikudaginn.. En ég held að maður þurfi að fara að leggja sig aðeins núna því þreytan er óbærileg eftir að hafa setið í 90 mínútur og horft á jafn ömurlegan leik.

  7. Get alveg verið sammála þér ÞGE með Voronin gjörsamlega andlaus og ekkert að gerast í kringum hann hvorki i dag né á móti Fulham seinasta laugardag…

    Vorum líka að ræða það strákarnir á Allanum áðan að við værum til í að sjá meira til Lucasar hann er ekki að sýna mér að hann sé þessi stórkostlegi leikmaður sem Benitez talaði um þegar hann keypti hann…

  8. Ég held nú að ef að mið er tekið af aldri Lucasar og tíma hans í PL þá finnst mér hann alveg eiga sjénsinn inni.

  9. Já þettað varalið er ekki eins og sumir hafa sagt.T D ekki amarlegt að eiga 2 lið . Þeir eiga alls ekki 2 lið.Liðið sem var í dag er O K í 1 deild,en samt 1 stig .og ég segi ekki meira

  10. Pennant klárlega maður leiksins. Ég er alveg til í að halda honum á næstu leiktíð en kaupa samt hægri kannt og láta Pennant vera backup fyrir hann. Tek undir með Einari að mér finnst skrítið að Benayoun (sem er ekki hátt skrifaður á listanum mínum) geti haldið Pennant útúr liðinu.

    Með Lucas þá er hann ungur og mér finnst hann hafa sýnt hæfileika sína vel það sem af er tímabilinu. Ég gerði heldur ekki þær kröfur til hans að hann væri einhver “stórkostlegur” leikmaður. Hann er ungur og þarf tíma og mér finnst hann hafa sýnt góðan leik á sínu fyrsta tímabili. Benites talar um hann sem leikmann fyrir framtíðina og ég held að hann eigi eftir að verða það.

    Gaman að sjá Plessis í liðinu þó þetta hafi ekki verið hans besti leikur þá held ég að hann geti orðið gott backup fyrir Macherano á næstu leiktíð. ENN skemmtilegra var að sjá Insua, loksins fær hann tækifæri aftur. Líst mjög vel á þennan strák, mjög sókndjarfur sem er búið að vera ákveðinn skortur á þó Aurelio hafi allur verið að koma til þegar hann meiddist (aftur).

    Voronin var hins vegar bara alls ekki að gera sig. Held að hann sé smám saman að spila sig burt frá Liverpool.

    Hvað varðar sölulistann þá finnst mér að Voronin, Riise og Finnan mættu verða seldir fyrir næsta season. Ætti að vera hægt að ná einhverjum 10-12 milljón punda fyrir þá hlýtur að vera.

  11. Sammála því að Lucas eigi að fá að sanna sig. Því miður er ég samt vantúaður á hann þar sem hann vantar allan hraða og hefur ekki þann styrk sem miðjumaður þarf til að stjórna miðjuspili gegn öflugum liðum. Vonandi á hann þó eftir að afsanna þetta á næstu leiktíð:-)

    Leikurinn í dag var slakur og nokkrir leikmenn sem spiluðu verða klárlega ekki hjá Liverpool eftir sumarið. Þeirra tími er liðinn (Riise, Finnan, Crouch) og tíma annarra kemur líklega aldrei (Benayoun, Voronin). Spennandi tímar framundan með kaupum og sölum:-)

  12. Verð bara að vera ósammála varðandi Benayoun. Hann átti fínan leik og ólíkt öðrum heldur hann boltanum vel og er leitandi fram á við, í staðinn fyrir að senda knöttinn aftur í sífellu. Plessis var ágætur, gæti verið fínt backup og spurning hvað verður með Danny Guthrie sem kom inná hjá Bolton í dag.

    Riise, Finnan og Voronin eru hins vegar leikmenn sem mættu fara.

  13. Voronin hefur nú ekki fengið að spila mikið á tímabilinu vegna meiðsla svo að mér finnst frekar ósanngjarnt að vera að drulla yfir hann. Hann er ágætis leikmaður að mínu mati og hann og Torres voru mjög gott framherjapar í byrjun þessarar leiktíðar.

    Voronin er vinnusamur og duglegur og minnir mann örlítið á Wayne Rooney, þótt hann sé örlítið minni talent heldur en enska undrabarnið.

    Mér finnst að Voronin eigi að fá séns á næsta tímabili, en það má alveg selja Crouch og Riise mín vegna. Jafnvel Finnan líka, en mér finnst hann samt alveg vera fínn.
    Maður þarf eiginlega að sjá hverjir verða keyptir til að vita hverjir ættu að verða seldir, en mér finnst voronin allavega ágætur.

    Btw, ömurlegur leikur og auðvitað bara fyrirstaða fyrir leikinn gegn Chelsea, en öll lið hafa gott af því að rífa sig upp úr 2-0 og ná 2-2 jafntefli.

  14. Bara til að koma nokkru á hreint:

    Pennant var miklu betri en Benayoun í dag. Benayoun reyndi en datt oftar en ekki um sjálfan sig. Hann náði þó markinu sem er gott. Málið með Benayoun er að hann heldur bolta oft betur en Pennant, og svo er hann miklu lunknari við að skora mörk (komin með 10 eða 11 í vetur held ég, sem er mjög gott – svipað og Luis García var að skora í svipuðu hlutverki). Rafa setur hann oft inn fyrir Babel þegar liðið þarf á því að halda boltanum betur sín á milli, á meðan Rafa setur Pennant oft inn fyrir Kuyt þegar okkur vantar meiri hraða upp þann kant. Ólíkir leikmenn, ólík hlutverk.

    Voronin var mjög duglegur í dag og barðist vel, sem ég nefndi í leikskýrslunni. Ég nefndi hins vegar ekki að hann hefði spilað vel, enda gat hann ekkert. Ég ákvað að segja sem minnst um það. Hann og Crouch voru báðir slappir í dag, en mér fannst Voronin þó berjast betur. Crouch er aftur á móti alltaf meira ógnandi og skorar meira, það er bara staðreynd, og því myndi ég miklu frekar vilja halda honum en Voronin ef ég ætti að velja á milli.

    Lucas og Plessis voru að spila annan leik sinn saman á miðjunni um ævina, og sá síðarnefndi annan aðalliðsleik sinn saman um ævina. Þeir voru slakir í dag en ef við getum ekki fyrirgefið það við þessar aðstæður getum við það aldrei. Menn geta ekki heimtað að ungu strákarnir „fái séns“ og svo snúið sér við og hrópað á þá þegar þeir leika illa er þeir stíga sín fyrstu skref með aðalliðinu. Það eiga allir ungir leikmenn slaka leiki þegar þeir eru að brjótast í aðalliðið, það er hluti af því að læra. Annað hvort eru menn sáttir við að menn eins og Lucas, Babel, Plessis, Insúa og vonandi fleiri fái smám saman að koma meira og meira inní þetta eða ekki.

  15. Ég segi enn og aftur .Þettað lið sem var í dag væri eflaust í 4-5 sæti í 1 deild…punktur

  16. Þetta var eins og búast mátti við. Pennant átti fínan leik en aðrir voru slakir þó sáttur við karakterinn í liðinu að rífa sig upp og vinna upp tveggja marka forskot. Fínt hjá Benitez að gefa ungum strákum séns í þessum leikjum sem eftir eru. Þó svo Plessis hafi nú ekki átt góðan leik þá getur maður nú fyrirgefið honum það. Sama má segja Lucas. Mér finnst menn full fljótir að vera dæma hann úr leik. Held að hann eigi mikið inni og vonandi fáum við að sjá meira frá honum á næsta tímabili. Drengurinn var jú leikmaður ársins í Brasilíu í fyrra, þannig að sitthvað kann hann fyrir sér.

    Eftir leiki dagsins verður gaman að fylgjast með úrvalsdeildinni. Hörkubarátta á toppi og botni. Ferguson að fara á taugum og farinn að væla yfir dómgæslu, því miður vantar Mourinho til þess að kítast við hann að þessu sinni.

  17. munið þið þegar þið lærðuð að hjóla 4 til 5 ára… gleymist aldrei, er það?
    en þegar þið kunnuð að sparka í bolta í fyrsta skipti almennilega… gleymist seint…. en það voru samt margir inná í dag sem sennilega kunna hvorugt…. sorry þetta var frekar dapurt f. utan Pennant var frískur og Skrtel var taustur…. en Finnan Voronin Riise Crouch Plessis Lucas ÓMG hvað þetta var lélegt hjá þeim… Menn sem hafa ekki minnstan áhuga á að vera inná , allveg sama hver það er eiga ekki að spila… nota frekar unga stráka úr varaliðinu… leyfa þeim að finna smá blóðbragð, láta þá verða hungraða, frekar en að láta þá finna skítalytina af letingjunum…

    takk Krissi

  18. Já, þetta var hvorki skemmtilegur né góður leikur. Mér finnst hins vegar bara mjög eðlilegt að Rafa noti svona leiki til að láta menn sanna sig sem ekki hafa átt sæti í byrjunarliðinu, þ.m.t. þessir ungu strákar eins og Plessis og Insua. Við erum að tala um 9 breytingar á liðinu frá síðasta leik, það má alveg reikna með því að samvinna leikmanna líði aðeins fyrir það. En ég er alveg sammála með að Pennant hafi verið maður leiksins, einnig fannst mér Skrtel mjög góður, mjög vaxandi leikmaður. Vissuð þið að tímabilið sem Pennant lék með Birmingham átti hann flestar fyrirgjafir allra leikmanna í úrvalsdeildinni. Ég held að það sé vel hægt að nota hann á kantinum í 4-4-2 uppstillingu. En það verður fróðlegt að fylgjast með næstu deildarleikjum þar sem þeir skipta nánast engu máli, það verður örugglega ýmislegt prófað.

  19. Sælir félagar
    Þetta var heldur dapurt en hafðist það sem til var stofnað held ég. Riise er búinn, Voronin dapur, Crouch slakur, Plessis er efni. Lucas verður að fara að sýna meira, Insúa kom vel inn, Nemeth hefði átt að vera í hópnum. Það hefði verið gaman að fá hann inn um miðjan seinni því hann hefði sett eitt eða tvö gegn þessu drulluslaka Birmingham liði. Það er greinilegt að nokkrir eru að spila sig út úr liðinum. Það er allt í lagi, ég þakka þeim framlag þeirra í gegnum tíðina.
    Það er nú þannig

    YNWA

  20. Mér fannst Insúa koma mjög vel út í þessum leik.. Teknískur, snöggur, sterkur og með frábærar sendingar… Af hverju hefur hann ekki fengið fleiri sénsa!?

  21. Meira af Insúa takk. Lítur svaka vel út.

    Plessis fær séns, alveg eins og Momo á sínum tíma. Munurinn virðist vera sá að Plessis kann að halda stöðunni sinni.

    Lucas á eftir að reynast okkur vel.

    Ég tel líklegt að ef Voronin fær svona 400 ár til að sanna sig þá muni hann að lokum skora meira en Dalglish fyrir Liverpool.

  22. Það tekur því varla að eyða orðum á þessa hörmung áhugaleysið skein úr andlitum meðalskussana sem Benitez stillti upp. Hélt að menn hefðu metnað til þess að sanna sig fyrir stjóranum. Vona að insua fái að spila þá leiki sem liðið á eftir í deildinni kom vel inn. Pennant var frískur, er bestur gegn slöku liðunum fínn í þá leiki. Vil alveg fá að sjá fleiri gutta á vellinum aðeins að herða í þeim.

  23. Pennant MOTM, Crouch orðinn hörku skotmaður / finisher. Að öðru leiti má þessi leikur alveg gleymast sem fyrst. 🙂

  24. Mér finnst að Pennant eigi að fá fleirri sjénsa, hann er búinn að sína frábært fordæmi sem atvinnumaður bæði með að biðja um að spila með varaliðinu þegar hann var ekki í hópnum á móti Arsenal og með því að vera ótrúlega hvetjandi á ungu strákana í hópnum. Finnst hann vera taka stórt skref sem Knattspyrnumaður og því væri ég til í að sjá hann í fleirri leikjum.

  25. Ég sá ekki þennan leik en má kannski greina þetta áhugaleysi leikmanna Liverpool með þeirri ástæðu að það var töluvert meira undir fyrir leikmenn Birmingham sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni?

  26. Þetta voru fín úrslit og það er gott fyrir ungu strákana að fá að spila. Ég er sammála því að Voronin á ekki heima í þessu liði og Riise er kominn yfir sitt besta. Ég vil gjarnan fá góða kantmenn og bakverði í þetta lið. Það er ljóst að það er það sem vantar. Senteramálin okkar eru í ágætum málum, miðjan er frábær þó mér sýnist Alonso eiga að fara í sumar fyrir Barry, og miðvarðastaðan er í mjög góðum málum. Eftir stendur kanturinn í heild. Ég væri mjög til í að fá Bentley á hægri kantinn og ég veit ekki alveg með vinstri en af hverju ekki til dæmis Downing. Hann getur varla viljað vera endalaust í þessu Boro liði. Annars nú er verið að tala um það að Moro sé kandítat DIC. Athyglisvert vægast sagt. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það en þessi maður er þannig að maður elskar að hata hann. Ég vil gjarnan hafa Benites áfram allavega í eitt ár enn og held að við gætum gert alvöru atlögu að titlinum næst en þetta segir maður náttúrulega á hverju ári. Svo er Tottenham búið að kaupa þennan Modric sem var orðaður við okkur, góð kaup þar held ég.

  27. Barry inn fyrir Alonso – eru menn eitthvað bilaðir? 😮

    Annars dapur leikur, Pennant var flottur og Insúa átti mjög góða innkomu. Plessis náði ekki að fylgja eftir góðu debuti gegn Arsenal, Voronin reyndi og reyndi en ekkert gekk. Benayoun var eins og krakki, átti fínar rispur en þess á milli slakur.

    En gott að Chelsea þurftu að eyða öllu púðri í leikinn gegn ManU og Torres og félagar verða úthvíldir á miðvikudaginn. Við tökum þetta á Stamford, rústum þessu heimaleikjameti þeirra! Ekki satt?

  28. Sæll Andri,
    ég ætla að vona að ég sé ekki orðinn bilaður en á að bæta Barry við miðjuna okkar? Gerrard er búinn að segja opinberlega að hann vilji fá Barry og það er ljóst að hann yrði í byrjunarliðinu ef hann kæmi. Er Alonso að sætta sig við það að vera á bekknum lengst af? Ég veit það ekki en ég er ekki að sjá það fyrir mér þannig að mér fannst þetta líklegt. Ég er ekki alveg að átta mig á því hvort að þetta væri gott eða ekki en ég tel þetta ekki ólíklegt.

Birmingham á morgun

Fallbaráttan, tuð og myndbönd