Aðeins um kaup og sölur Benitez (uppfært: Hægt að kommenta)

Sælt veri fólkið!

Á undanförnum vikum hefur mörgum hér verið tíðrætt um eyðslu Rafael Benitez. Ég viðurkenni alveg að ég hef verið ósáttur með margt hjá Spánverjanum, en langaði aðeins að átta mig á umræðum um mikla eyðslu hans í vitleysu, svona sjá hvað þetta „net spending“ er að gefa honum.

Þess vegna langar mig aðeins að fá smá komment á þessar pælingar mínar. Það sem ég geri er að fara inn á http://www.lfchistory.net/transfers.asp og skoða þar tölur á kaupum og sölum leikmanna. Ég skoða aðeins þá leikmenn sem teljast aðalliðsmenn, um þá getur maður eitthvað sagt.

Ég skipti leikmönnum sem keyptir hafa verið í góð kaup (+), ásættanleg kaup (=) og slæm kaup (-). Auðvitað út frá minni tilfinningu og langar aðeins að draga saman statistík þessara kaupa. Lesið aðeins lengra ef þið nennið takk!

Forsagan – aðkoma Rafael Benitez

Þegar Rafael Benitez kom til Liverpool í júní 2004 höfðu þegar verið teknar tvær ákvarðanir varðandi félagaskipti. Djibril Cissé var að koma fyrir 14.5 milljónir og Markus Babbel var að fara til Þýskalands. Oft er Cisse talinn sem einn af þeim leikmönnum sem Benitez keypti, en það er ekki rétt, allt varðandi þau kaup sá Houllier um.

Reyndar var talið að Owen og Gerrard væru á leið burt en Rafa náði að tala annan þeirra til að vera áfram, sem betur fer!
Liðið sem hann fékk í hendurnar var illa í stakk búið til að ná miklum árangri að flestra mati, hafði verið í vanda með spilamennsku sína og reiddi sig algerlega á tvo fyrrnefnda leikmenn í skorun og sköpun. Að sama skapi voru ekki margir feitir bitar sem hægt var að selja, svo að strax var ljóst að þetta ár gæti Benitez ekki eytt miklu.

En skoðum þá hverjir komu og á hvaða verð. Minni aftur á að ég er með það verð sem kemur upp á lfchistory.net – það tel ég áreiðanlegasta miðilinn. Minni svo á mína einkunagjöf sem ég útskýri svo varðandi kaupin, en rabba bara um sölurnar.

Kaup Benitez leiktímabilið 2004 – 2005

Josemi, 2.0 milljónir (-) náði sér aldrei á strik á Anfield. Antonio Nunez, frítt (=) meinleysisleikmaður sem stóð sig ágætlega og var bara vasapeningur með kaupunum á Owen. Xabi Alonso, 10.7 milljónir (+) þarf ekki að rökstyðja held ég meir, frábær leikmaður þó veturinn í vetur hafi verið erfiður. Luis Garcia, 6.0 millur (+) mistækur vissulega en rammaði sig inn í sögu félagsins okkar með stórkostlegum mörkum í eftirminnilegum leikjum. Mauricio Pellegrino, frítt (-) varnarjaxl sem einfaldlega réð ekki við enska boltann eftir að hafa verið lykilmaður hjá Benitez í Valencia. Fernando Morientes, 6.3 millur (-) með semingi set ég mínus á Morientes. Réð ekki við líkamlega þáttinn í enska boltanum en átti að mínu mati marga fína leiki. Scott Carson, 1.0 milljón (+) leikið ágætlega þegar hann hefur fengið sénsinn og er búinn að leika enskan landsleik.

Heildarvirði kaupa Benitez þetta leiktímabil: 26 milljónir. Þrír leikmenn fá plús, einn hlutlausan og þrír mínusar.

Sölur Benitez leiktímabilið 2004 – 2005

Danny Murphy, Stephane Henchoz og Michael Owen. Owen vildi fara og hinar sölurnar réttlætanlegar. Heildarvirði sala Benitez: 10,5 millur og þar með mismunur kaupa og sala 15,5 milljónir leiktímabilið 2004 – 2005

Evrópumeistarar og hvað?

Liverpool unnu í Istanbul ógleymanlegan sigur. Þó vissum við öll að margt þurfti að breytast til að liðið þokaðist í réttari áttir. Þarna má segja að brotthvarf leikmanna Houllier hafi hafist fyrir alvöru og ekki rakaði það nú inn peningum í kassann! Svona gekk leiktímabilið 2005 – 2006 fyrir sig að mínu mati í kaupum og sölum.

Kaup Benitez leiktímabilið 2005 – 2006

Boudewijn Zenden, frítt (=) vegna meiðsla sáum við ekki allt til hans sem við gátum, en reynsla hans nýttist liðinu ágætlega, fær því að vera hlutlaus. Jose Reina, 6.0 millur (+) einfaldlega besti markmaðurinn í ensku deildinni að mínu mati. Snilldarkaup. Momo Sissoko, 5.6 millur (=) byrjaði frábærlega en slæm meiðsli gegn Benfica og svo Birmingham fór illa með feril hans á Anfield. Var svo seldur í vetur með talsverðum hagnaði!

Peter Crouch, 7.0 millur (+) án vafa staðið sig vel í Liverpool þó Benitez hafi ekki notað hann nógu mikið að mínu mati. Mark Gonzalez, 1.5 milla (-) náði sér ekki á strik því miður en var seldur aftur í sumar, með hagnaði. Jan Kromkamp, skipti (=) spilaði of stutt til að maður áttaði sig á honum, fín frammistaða á móti West Ham í FA úrslitum kom honum þó upp í hlutlausan í mínum huga. Daniel Agger, 5.8 millur (+) einfaldlega snilldarkaup. Kaupa mann sem aðeins hafði leikið eitt tímabil í dönskum fótbolta á þennan pening er í dag snilld, en þá kom það mörgum á óvart. Robbie Fowler, frítt (+) Guð kom heim og stóð sig vel á þeim tíma sem honum gafst þar. Að auki keyptum við þarna nokkra unga menn sem einhverjar vonir eru bundnar við, ég nefni þar helst Jack Hobbs (150 þúsund), David Martin (250 þúsund), Besian Idrizaj (190 þúsund), Paul Anderson, Miki Roque og Godwin Antwi (óvíst um upphæðir).

En heildarkaup aðalliðsmanna þetta tímabil?

Sú upphæð er 25.9 milljónir. Fjórir leikmenn fá hjá mér plús, þrír eru hlutlausir og einn fær mínus.

Sölur Benitez leiktímabilið 2005 – 2006

Eins og ég sagði áður hófst þarna fyrir alvöru brotthvarf leikmanna Houllier. Einungis fékkst peningur fyrir þrjá, Diouf (3.5), Diarra (2.0) og Baros (6.5). Auk þeirra fór Nunez aftur (2.0) svo að innkoma þessa leiktímabils í það heila var 14 milljónir og “net spending” því 11.9 milljónir. Þetta ár hins vegar fækkaði talsvert á launaskránni þeim leikmönnum sem ekki voru nægilega góðir. Leikmenn eins og Smicer, Biscan, Vignal, Pellegrino, Luzi, Welsh og Josemi kvöddu án þess að við fengjum fyrir þá pening.

Staðan eftir tvö tímabil hjá Benitez.

Þarna var kannski hægt að segja að liðið væri að verða lið Benitez. Ef við skoðum uppgjörið hingað til hefur Benitez keypt fyrir 27.4 milljónum meira en hann hefur selt fyrir. Heildarkaup hans nema vorið 2006 51,9 millur í aðalliðsleikmenn.

Miðað við mitt mat er 36.5 millur farið í leikmenn sem teljast góð kaup. Hlutleysingjarnir hafa nú kostað 5.6 millur og slæmu kaupin upp á 9.8 milljónir.

Enn á eftir að koma í ljós hvað verður um suma þeirra ungu manna sem komið hafa til liðsins á þessum tíma en þó virðist nú í vetur að þar séu á ferð leikmenn sem voru sinna upphæða virði.

En nú hætti ég í bili, á fimmtudaginn mun ég kíkja á seinni tvö tímabilin hjá Rafael og skoða heildarpakkann.

Hvað finnst ykkur um fyrstu tvö ár karlsins í kaupum og sölum?

19 Comments

 1. Mjög góð grein:-)
  Ég verð að segja að ég er mjög sáttur við kaup og sölur Benitez þessi tvö tímabil. Hjá félaginu voru allt of margir leikmenn sem voru einfaldlega slakir eða komnir yfir sitt besta og því nauðsynlegt að gera miklar breytingar. Alonso, Agger, Reina, Garcia, Crouch eru leikmenn sem allir hafa staðið sig vel og eiga mörg ár eftir (nema Garcia sem er farinn). Aðrir leikmenn sem komu á þessum tíma voru látnir fara ef þeir stóðust ekki væntingar (Josemi, Nunez, Kromkamp, Morientes) og þeir kostuðu félagið ekki mikið þegar upp var staðið. Fjárhagsstaða félagsins var líka með þeim hætt að verðflokkarnir sem horft var til voru ekki merkilegir og því nauðsynlegt að kaupa ,,uppfyllingarleikmenn” til styttri tíma.

 2. Já, flott grein Maggi og sammála mörgu þarna. Það er bara alveg hrikalega erfitt að skilgreina það hvað séu góð kaup og hvað ekki. Þú notar eina aðferð, þ.e. þú skoðar eingöngu frammistöðuna á vellinum og kaupverðið þegar þú metur þetta. Væntanlega er það besta aðferðin við þessa flokkun.

  Tökum Sissoko sem dæmi. Hann spilar virkilega vel til að byrja með, en hefur fatast flugið. Kaupum hann á 5,6 millur, náum ýmsu út úr honum og seljum hann svo aftur á 9 millur. Ég myndi segja að þetta hafi verið góð kaup, en þá er ég auðvitað að taka inn í söluna líka. Það er svolítið athyglisvert að Rafa virðist varla tapa á leikmönnum. Af þessum sem við erum að fjalla um í þessum hluta, þá er það aðeins Morientes og Garcia sem við höfum fengið minna fyrir heldur en við greiddum út.

  Það er líka eitt atriði sem ég er ákaflega ánægður með hjá Rafa. Ef leikmaður er engan veginn að fitta inn og er hrein og klár mistök, þá er hann fljótur að henda þeim á brott á ný.

 3. Snilldargrein Maggi. Flott yfirlit og ég hlakka til að sjá seinni hlutann hjá þér. Tek undir með Sstein um að erfitt sé að skilgreina hvað séu góð kaup og hvað ekki. Sissoko er spurningamerki í mínum huga, þ.e. í dag myndi ég sennilega setja = merkið á hann, eftir yfirlegu gæti þetta breyst hjá mér. Er einna hrifnastur af Reina og Agger kaupunum, og Alonso er á góðum degi með þeim betri í boltanum.

 4. Varðandi þennan link hjá Hrafni er ágætt að minnast á að utd þurfti ekki að kaupa marga leikmenn á 9. áratugnum án þess þó að ég viti mikið hvað er á bak við þessar tölur. Þeir byggðu liðið sitt upp á unglingaliðinu eitthvað sem þeir eru klárlega ekki að gera í dag. Væri nær að taka þessar tölur frá árinu 2000 til dagsins í dag.

 5. Hrafn, tölurnar fyrir Rafa á þessum tengli eru einfaldlega margar hverjar rangar. Tökum sem dæmi Torres sem var keyptur á 20,2 en ekki 26,2. Gonzalez kom á rúma 1.5 en ekki 4.5. Cisse á ekki að skrifast sem kaup Rafa því þau kaup voru frágenginn ÁÐUR en Rafa kom.

  Bara með þessu þremur dæmum erum við með mínus á eyðsluna uppá rúmar 20 M.

  Þannig að fyrir mér eru þessar tölur marklausar.

 6. Samkv. okkar heimildum þá var samið upp á nýtt á sínum tíma þegar Speedy lenti í öllum þessum meiðslum og fékk ekki atvinnuleyfi.

  Það er ágætis yfirferð yfir þetta mál hérna hjá vinum okkar í Noregi.

 7. Að selja Alou Diarra voru sennilega mistök. Hefðum mátt gefa honum tíma enda hefur hann sannað sig með franska landsliðinu núna í seinni tíð

 8. Það hefur reyndar ekkert gengið neitt voðalega vel hjá honum blessuðum. Hann var seldur til Lyon að mig minnir, en var ekki að gera góða hluti þar. Svo var verið að tala um að Portsmouth væri á eftir honum, en það gekk ekki upp. Hann er búinn að missa sæti sitt í landsliðinu, þannig að ég veit ekki hversu mikil mistök þetta voru. Hvern ætti hann að taka út úr okkar liði? Javier? Gerrard? Xabi? Lucas? Held að hann ætti ekki break inn í þetta hjá okkur.

 9. Það má endalaust deila um hvað er réttu kaupin og hvað ekki, svona vangaveltur koma helst upp þegar illa gengur ( á ég þá við stöðuna í deildinni ) og eflaust er það alveg rétt að það er altaf hægt að fara betur með peningin. En skoðið önnur lið hvað vru þau að eiða og hver er mismunu þeirra á kaupum og sölu og hver reru gæði þeirra leikmanna. Ég er nokkuð sáttur við það sem Rafa er að gera í leikmannakaupum og með liðið (mæti spara skiptikerfið aðeins) Ég er viss um að hann á eftir að færa ollur bikarinn innan tveggja ára.

 10. Jose Reina, 6.0 millur (+) einfaldlega besti markmaðurinn í ensku deildinni að mínu mati.

  Veit að þú bættir við þarna “að mínu mati” en Cech er svoleiðis langbesti markmaðurinn í þessari deild, og ég held að þeir séu margir sem myndu eflaust frekar vilja hafa van der Sar í sínu liði heldur en Reina.

  Mér finnst hann hefði mátt gefa Gonzalez og Paletta meiri tíma. Þeir blómstruðu kannski ekkert hjá Liverpool, en þeir eru líka kornungir og hefðu vel getað mátt vera hjá liðinu áfram. Sama á við um Pongolle, sem er að standa sig vel á Spáni.

  Kuyt fyrir 9m eru heldur ekkert spes kaup, finnst að Bellamy hefði einnig mátt fá eitt tímabil í viðbót. Svo fannst mér hann aldrei gefa Cisse séns nema sem kantmanni, þannig að maður veit aldrei hvað hefði getað orðið úr honum.

 11. Ég get engan veginn verið sammála þér hérna Halldór. Hefur þú ekkert séð til Cech í vetur? Hefði reyndar aldrei samþykkt að hann væri langbesti markvörðurinn í þessari deild, en fyrir um einu og hálfu ári síðan hefði ég samþykkt hann sem þann besta. Í dag? Nei. Alls ekki. Reina (og víst telst ég litaður) er að mínu mati sá besti. Ég leyfi mér líka að stórlega efast um það að þú finnir marga (sem eru ekki Man.Utd menn) sem myndu frekar vilja hafa Van der Saar í sínu liði heldur en Reina.

  Gonzalez, Paletta og Pongolle eru því miður ekki af nægilega háum standard fyrir liðið eins og við viljum hafa það. Pongolle er ekki einu sinni fastamaður hjá fallbaráttuliði á Spáni. Ég er sem sagt ósammála þér í öllu sem þú segir hérna 🙂 Það er ekki oft sem það gerist að maður sé algjörlega ósammála (helst Kuyt, en ég er á því að það komi ekki í ljós fyrr en síðar hvort hann reynist slæm, ekkert spes eða sæmileg kaup).

 12. Þar sem að ég er að skrifa hér í fyrsta sinn segi ég flott grein og
  greinilegt að búið er að leggja töluverða vinnu í þessa samantekt.
  Því á að fagna ekki að vera að karpa um einhver nokkur pund.
  flott grein og gaman að skoða þetta.
  ps
  Sakna Garcia, gerði fínt mót fyrir okkur
  kv Rúnar G

 13. Cech er svoleiðis langbesti markmaðurinn í þessari deild

  Hvernig í ósköpunum geta menn komist að þessari niðurstöðu?

 14. Cech var svoleiðis langbesti markmaður deildarinnar á sínu fyrsta tímabili á Englandi. Síðan þá hefur hann verið lengi frá vegna meiðsla og í kjölfarið lifað ansi sterkt á fornri frægð. Hann er enn góður en ekki jafn ofurgóður og hann var á fyrsta tímabili sínu.

  Reina og Van der Sar hafa verið honum fremri, að mínu mati með talsverðum mun, síðustu tvö tímabil. Í vetur hefur Almunia líka verið betri en Cech, að mínu mati, svo ekki sé minnst á David nokkurn James sem hefur verið í fantaformi í vetur.

  Cech á enga áskrift að titlinum „besti markvörður Englands“ bara af því að hann virtist eitt sinn vera ósigrandi. Horfið á Reina, Van der Sar eða James spila þessa dagana og reynið svo að segja sjálfum ykkur að Cech sé að spila jafn vel.

Everton? Já, alveg rétt, þeir eru erkifjendur okkar!

DIC bjóða í Liverpool!!