Liverpool – Havant & Waterlooville = 5 – 2

Jæja.

Sögulegur leikur á Anfield í dag, daginn eftir að við vonuðumst eftir því að gráu skýin væru horfin á Anfield, um sinn allavega.

Byrjum á byrjunarliðinu.

Itandje

Finnan – Skrtel – Hyypia – Riise

Pennant – Lucas – Mascherano – Benayoun

Babel – Crouch

Tek fram að ég sá leikinn með Sopcast, og með ágætum árangri eftir fyrstu fimmtán. Sá svo highlights í hálfleik og eftir leik. Liverpool byrjaði með látum og Benayoun skallaði framhjá í agalegu dauðafæri strax á þriðju mínútu, það hefði hugsanlega breytt einhverju.

Á 8.mínútu gaf svo nýliðinn Skrtel skelfilegt horn. Boltinn inní og þar stökk Richard Pacquette ALEINN upp og algerlega án dekkunar og skallaði í markið! GAME ON!!!!!

Havant hefði svo átt að komast í 0-2 stuttu seinna upp úr horni þegar Itandje var í fullkomnu tjóni út um allan teig en alfie nokkur Potter brenndi af í DAUÐAFÆRI.

Liverpool var ekki mikið að sækja en skyndilega kom jöfnunarmark þega Lucas Leiva setti sitt fyrsta mark fyrir félagið með frábæru skoti vel utan við teiginn, efst í fjærhornið, óverjandi fyrir markmann utandeildarliðsins. Game over hlaut að vera!

ÓNEI. Barnaskólamistök Steve Finnan gáfu mark! Verður skrifað sem sjálfsmark á Martin Skrtel eftir skot umrædds Alfie Potter en var hryllilegt í alla staði!

Undir lok hálfleiksins jafnaði svo Benayoun eftir góðan undirbúning Jermaine Pennant, sem var eini maðurinn sem hefði átt að leika seinni hálfleikinn. Hinir tíu gátu ekkert í lélegasta hálfleik í sögu LFC!!!!! Stóru nöfnin á bekknum voru farnir að hita upp eftir kortér og Rafa virtist ætla að skipta Carragher inná rétt áður en Lucas jafnaði. Alger hörmung!

Upphaf seinni hálfleiks var besti kafli okkar manna, sem spiluðu eins og úrvalsdeildarliðið sem þeir eiga að vera í 15 mínútur. Á 55.mínútu skoraði Benayoun eftir flotta vinnu hjá Pennant og síðan fullkomnaði hann þrennuna á 59.mínútu eftir mistök markvarðar Havant, sem hafði nóg að gera!

Eftir þetta róaðist leikurinn mikið, leikmenn Liverpool hægðu á ferðinni og Havant menn börðust eins og ljón. Mesta fjörið varð þegar aðdáendur Havant sungu einum rómi „if you hate Man U stand up“ og uppskárum MIKIÐ klapp á Anfield fyrir, svona í kringum mínútu 75.

Kuyt, Carragher og Gerrard komu svo inná til að lífga upp á dæmið, og á 90.mínútu skoraði Crouch eftir undirbúning Gerrard, 5-2. Reyndar örugglega rangstaða, en við þáðum það auðvitað með þökkum. Lokatölur 5-2 og við í hattinum áfram. Gaman var að fylgjast með viðbrögðum eftir leik, allur völlurinn reis úr sætum og klappaði fyrir Havant mönnum, sem stukku auðvitað á leikmenn Liverpool til að ná í treyjur. Þeir eru stóra sagan í FA bikarnum og umræðan í kvöld mun snúast um þá. Þetta virkar hið besta fólk, syngur á pöllunum níð um ákveðin lið og klöppuðu svo fyrir okkar lagi í lokin, þeir verða mínir menn í Blue Square South deildinni í vetur!

Mörkin úr leiknum eru á þessum tengli hér Reyndar vantar markið hans Crouch í þetta safn.

Held við verðum að fara aðeins yfir leik okkar manna áður en ég vel mann leiksins, sennilega margir sem ekki sáu leikinn, honum náði ég í bara fínum gæðum, þó skjástærðin hefði mátt vera stærri.

Markmaðurinn okkar leit illa út, varði reyndar vel í lokin, en hann var ekki að standa sig vel, þó sem betur fer utandeildardrengirnir hefðu ekki náð að refsa honum fyrir stærstu mistökin. Ef við drögumst næst á Emirates eða Stamford vill ég sjá Reina í markinu.

Vörnin var algert grín. Hyypia stóð sig vel, en aumingja Skrtel þarf meiri tíma. Inn á milli sá maður að hann er sterkur skallamaður og fínn takklari en svo leit hann afar illa út með boltann og virtist ekki átta sig á hraðanum í leiknum. Riise og Finnan eru á leið út úr þessu liði. Riise er einfaldlega vonlaus, varnar- og sóknarlega og Finnan gerði mörg mistök, verst voru hrikaleg mistök hans sem gáfu Havant annað markið sitt.

Á miðjunni var Mascherano. Ég SKIL EKKI hvers vegna. Í svona leikjum þar sem lið liggja til baka er hann einn af mótherjum okkar. Hann skilaði mörgum sendingum á mótherja, var auðvitað engin hætta fram á við og þær mínútur, 7 talsins, sem Gerrard fékk sást hvað við fáum í svona leikjum þegar sex leikmenn sækja. En Masch var vorkunn, svona leikir verða ekki til þess að hann kostar 17 millur. Hvers vegna Alonso var ekki látinn spila þennan leik með Lucas? Lucas var fínn í heildina, er góður sendingamaður og duglegur, setti frábært mark. Benayoun setti þrennu, en var arfaslakur fyrstu 35 mínúturnar, Pennant var líflegur allan leikinn og maðurinn á bakvið flest það sóknarlega sem við sköpuðum.

Sóknarmennirnir Crouch og Babel eru vonbrigði þessa leiks að mínu mati. Crouch virðist eins og hann hafi misst allt touch á boltann og tók rangar ákvarðanir frá mínútu 1 – 90, sem betur fer fattaði aðstoðardómarinn það þó ekki og hann skoraði, nokkuð sem hann átti ekki skilið. Ryan Babel er mikið efni og hefur margt til að bera sem fótboltamaður. Í dag sýndi hann ekki neitt. Að undanförnu hefur hann fengið að byrja gegn Derby, tvisvar gegn Luton og nú gegn Havant. Ef hann snýtir ekki leikmönnum þessara liða finnst mér ekki ástæða til að reikna með að hann sé bjargvætturinn okkar frammi að svo stöddu, en ég er jafn sannfærður að þessi strákur verður hrein snilld í framtíðinni. Kuyt kom inná og fékk enga þjónustu til að sýna hvort hann gæti eitthvað eða ekki.

Semsagt, í raun margir að spila illa í dag, sérstaklega í ömurlegum fyrri hálfleik, en öruggur sigur og við erum í 16 liða úrslitum í FA bikarnum. Sem er auðvitað aðalatriðið. Til að vinna þá keppni þarf að vinna alla leiki sem maður spilar, óháð mótherja og frammistöðu. Dregið verður í hádeginu á mánudag í næstu umferð, ég vill fá heimaleik gegn einhverjum þeirra stóru.

Að þessu sögðu vel ég mann leiksins. Veit að Benayoun setti þrjú og sýndi hvað í honum býr, en mér fannst Jermaine Pennant bestur í dag, sýndi allan tímann áræðni og áhuga, skapaði mikið og var duglegur í sókn og vörn.

Næsti leikur er svo í deildinni þegar við heimsækjum Björgúlf og félaga í West Ham á miðvikudagskvöldið, þann 30.janúar kl. 19:45. Þar er leikurinn sem við eigum inni á liðin fyrir ofan okkar, leikur sem auðvitað þarf að vinnast.

32 Comments

 1. Það er nokkuð ljóst að Liverpoolmenn voru búnir að ákveða þetta fyrirfram að hafa stöðuna 2-2 í hálfleik.

  Getið rétt ýmindað ykkur hvað þeir hafa grætt mikið á því að setja nokkur þúsund sterlings undir, og hafa sennilega farið langt með að safna uppí verðmiðann á Mascherano með þessu uppátæki sínu.

  Mjög vel til fundið þegar eigendurnir eiga ekki efni á því að leggja út fyrir honum.

 2. Sá seinni hálfleikinn og það sem ég sá til H&W minnti mig á íslenskt 2.deildarlið. Nokkrir 5-6 þokkalegir spilarar og svo voru nokkrir þarna sem voru algjörir þumbar. Það var nú e.t.v. aldrei hætta á að Liverpool myndi tapa þessum leik en að lenda undir tvisvar sinnum á móti pípulagningamanni, kennara, garðyrkjumanni og vörubílsstjóra á heimavelli segir manni að það er eitthvað meira en lítið að. Liverpool vinnur utandeildarlið með 3 mörkum (einu rangstöðumarki) og Arsenal er að vinna annað úrvalsdeildarlið með 3 mörkum. Eðlilegt hefði verið að vinna þetta lið með sex marka mun að lágmarki. Það skiptir þó kannski ekki máli sigur er sigur þó svo að manni hafi verið farið að líða ansi illa eftir fyrri hálfleikinn.

  Svei mér,, ég sá ekki getumun á vinstribakvörðum liðanna.

 3. Afsakið tengillinn sýnir ekki rétta mynd… 🙁 En það er mynd 9 af honum Neil Mellor sem mig langaði að setja tengil á.

 4. einare.
  Hvaða máli skiptir það hvað þeir gera? Hefði verið skárra að fá á sig 2 mörk ef þeir væru læknar eða lögfræðingar? Væri ástandið á Anfield þá eitthvað betra en það er? Ég get ekki séð eitthvað samasem merki sem segir að ef þú ert pípari eða vörubílstjóri að þá kunnir þú ekkert í fótbolta.
  Ég ætla ekki í einhvern hana slag við þig eða einhvern annan út af þessu kommenti, en mér finnst bara svona ummæli sýna iðn og verkafólki óvirðingu. Þetta er kannski óþarfa viðkvæmni, en þetta er það sem mér finnst. Þið fyrirgefið þennan útúrdúr.

 5. Baldvin. Ég held að menn séu ekki að ráðast á menn í svona störfum, heldur að benda á það að leikmenn H&W eru líka menn í fullri vinnu. Þetta eru ekki atvinnumenn í fótbolta.

 6. Hvernig er hægt að sleppa því að velja leikmann sem skorar þrennu sem mann leiksins? þetta er nú einu sinni keppni í að skora sem flest mörk en ekki að vera sæmilega góður í 90 min.

  Annars bara gaman af þessu og til hamingju með að vera komin í næstu umferð. Þetta var klárlega viðureign umferðarinnar.

 7. Sá ekki leikinn en var að horfa á mörkin. Þið eruð frábærir en eigum við ekki að fara að tala aðeins meira á jákvæðu nótunum um liðið? Ég skil það mæta vel að menn hafi ekki verið að æsa sig upp almennilega í þessum leik þó það sé ekki afsakanlegt fyrir atvinnumenn. Ég hef trú á því að við séum að hrökkva í gírinn 🙂

 8. Sigur er alltaf sigur og mun betra allt annað, á meðan liðið sigrar leikina er mér slétt sama um allt annað þannig að ég er mjög sáttur.

 9. Þetta eru allt mjög góð mörk frá Benayoun…. maður leiksins. Gaman að sjá hversu vel hann var með á nótunum í teignum. Hversu oft hefur maður ekki séð framherjana okkar í vetur (fyrir utan Torres samt) klúðra því sem þeir fá úr að moða í teignum. Yossi á skilið hrós.

  Ég sá ekki fyrri hálfleikinn og aðeins síðustu 25 mín eða svo af seinni hálfleik en þetta Havant and Waterloovillle lið litu ótrúlega vel út. Spiluðu skipulega og þegar þeir sóttu þá voru þeir að skapa hættu og létu varnarmenn okkar líta skelfilega út á köflum. Aumingja Skrtel var bara tekinn í nefið þarna einu sinni sem ég sá. Og Finnan var sko langt frá því að vera sannfærandi. En flottur leikur fyrir Skrtel til að byrja almennilega í rauðu treyjunni. Hann verður alls ekki dæmdur út frá þessum eina leik. Nei nei.

  Það kæmi mér ekki á óvart að um eitthvað vanmat hafi verið að ræða hjá sumum leikmönnum. Sérstaklega JM og Finnan. Ekki gott. Það kann aldrei góðri lukku að stýra.

  Það er náttúrulega bara brandari að þessu liði tókst að leiða leikinn tvisvar sinnum á Anfield. Mikið óskaplega er ég feginn að Gerrard og Torres hafi ekki verið hent inn á í einhverjum panik. Algjörlega nauðsynlegt að byrjunarliðið í dag skyldi klára sig á þessum hvunndags hetjum frá Havant, úr þvi sem komið var.

 10. Mér fannst Crouch sanna ótvírætt í þessum leik að hann er afburða alhliða striker sem verður að fá vera frammi með Torres alla leiki sem eftir er af tímabilinu.
  Ótrúleg vinnusamur og var gjörsamlega útum allt í þessum leik stöðugt haldandi boltanum vel uppi og kom honum alltaf á liðsfélaga. Svo maður tli ekki um ógnina sem er af honum inní teig.

  H&W voru helvíti hressir. Ég bíð bara eftir Hollywood fjölskyldumynd um þetta ævintýri. Hicks hlýtur að redda því enda mikill séntilmaður þar á ferð sem kann að nota sín viðskiptasambönd til góðra verka.

  Þetta var svona leikur sem Liverpool gat aldrei “unnið”. Máttu ekki vinna of stóran sigur né gátu þeir tapað þessum leik. Þetta snerist um að vinna huga og hjörtu almennings og leyfa varamönnum Liverpool að bæta móralinn. Það var nú vitað að H&W myndu setja allt í fyrri hálfleikinn og skítt með að fá 2 mörk á sig gegn þessu utandeildarliði.

  Það sem skiptir mestu máli núna er að fá meiri leikgleði í leik Liverpool. “back to the basics”. Þessi leikur gat ekki komið á betri tíma fyrir liðið. Menn hljóta að sjá gleðina hjá H&W og muna hversu skemmtilegt sé að spila fótbolta.

  Þetta verður allt á uppleið hjá Liverpool eftir þetta.

 11. Það sem ég var hrifnastur af í þessum leik var að sjá auglýsinguna framan a búningum utandeildarliðsins. Snilld.

 12. Baldvin, ertu ekki að grínast með þessu kommenti að ofan?
  Hvernig hvarflar að þér að ég sé að draga fólk í dilka eftir starfstéttum?
  Ég var að benda á annað liðið er skipað atvinnumönnum í knattspyrnu en hitt liðið er skipað áhugamönnum út hinum ýmsu atvinnugreinum. Auk þess er ég að vitna í störf sem leikmenn H&W starfa við í raunveruleikanum ef eitthvað er að marka þá grein sem ég las fyrir leikinn.
  Held að allir sjái það að ég er ekkert að dæma einn eða neinn enda dæmi ég fólk ekki eftir útliti, kynþætti, störfum eða þess háttar.
  Þetta segir eiginlega meira um það hvernig þú hugsar heldur en ég.

 13. Ekki las ég það úr þínum skrifum “Einare”, annað en akkúrat það sem að þú segir í þínum ummælum nr. 18.

  AVANTI LIVERPOOL – RAFA – http://www.kop.is

 14. Yossi var maður leiksins. Hann var áhugasamur í fyrri hálfleik og skoraði þrjú góð mörk…

 15. Ef við hefðum fleiri leikmenn á borð við Carragher, Gerrard, Reina og Torres, sem ég tel vera yfirburða menn í þessu liði, þá væri hægt að hvíla stór nöfn oftar. Ef við tökum Carra, Gerrard og Torres úr liðinu eru mjög góðar líkur á því að liðið vinni ekki næsta leik sem þeir spila. Þetta er klárlega “Cry for Quality” fyrir Rafa og þegar hann opnar veskið næst yrði það til að fjárfesta í reyndum leikmanni sem hjálpar liðinu Í DAG en ekki eftir 3-5 ár.

  Frammistaðan í dag kom í raun svo sem ekkert á óvart ef maður lítur á uppstillinguna en þarna fengu 4 leikmenn (Babel, Crouch, Lucas, Itandje) að spila sem spila ekki reglulega með liðinu + þessi nýji sem fékk frekar scary introduction í enska boltann. Mascherano og Benayoun eru ágætir til að fylla upp í hópinn en restin (Finnan, Hyypia, Riise og Pennant) eru leikmenn sem þarf nauðsynlega að skipta út og fylla upp í með leikmönnum sem geta hjálpað liðinu strax.

  Við erum allavega 5 quality leikmönnum frá því að vera “contenders”. (Quality leikmenn = ekki ofborgaðir miðlungsleikmenn)

 16. Eitt enn. Ég er hræddur um að Arsene Wenger hafi upplifað þó nokkrar stundir eins og það sem Rafa upplifði í dag í fyrri hálfleik, þegar hann stillti sínu varaliði í bikurunum undanfarin árin. Munurinn á þessum tveimur framkvæmdastjórum er klárlega sá að annar kann að mótívera liðið og hinn er týndur út á túni og ekki alveg að koma þeim skilaboðum áleiðis sem hann ætlar sér. Ofskipulagður?

 17. eikifr ég ætla að koma með gamlann en gildann frasa um þessa 2 stjóra og hæfni þeirra og sérstaklega þegar er verið að tala um að koma liðinu í réttann gír.Ef að wenger er svona mikið betri en Rafa í að mótivera leikmenn,hvar er þá þessi svokallaða mótivering t.d í CL???
  Ég veit að þetta er alltsaman þreytt staðreynd að Rafa er langtum fremri en wenger í CL og svo öfugt.En það verður að gefa Rafa kallinum kreditt fyrir það sem hann hefur vel gert en ekki bara lasta hann endalaust.
  Mín skoðun er bara sú að stöðnunin sem Liverpool er í á Englandi nær svo rosalega langt5 aftur í tímann að margir stuðningsmenn Liverpool voru ekki einusinni fæddir og það sama á við flesta united og arsenal menn

 18. Leikurinn sem við eigum inni verður spilaður 5. mars á Anfield……….! Það er heil umferð í vikunni.

 19. didi: Ég ætla ekki að nota neinn frasa er ég segi að Wenger kemur sínu liði í CL ár eftir ár án mikilla vandamála. Rafa virðist vera í vafa um í hvorn fótinn hann eigi að stíga og finnst mér hann vera farinn að versna. Það hefur klárlega eitthvað að gera með “Kanafíflin” sem eiga klúbbinn en hópurinn eins og hann er í dag getur spilað mun betur en hann gerir þessa dagana hvernig sem kanafíflin láta. Það er algjörlega í höndum Benitez hvernig þessi fjandans hópur spilar en framkvæmdastjórinn er klárlega ræður ekki við hann.

 20. þessi þjálfari er alltaf í fýlu mér finnst hann ekki motivera leikmenn til að leika vel að neinu viti þeir eru orðnir með fýlusvip líka og engin leikgleði, svo því fyrr því betra að koma líflegri þjálfara að sem getur gefið þeim meiri innblástur í leikjum.

 21. Einare. Ég veit alveg hvað þú varst að meina og ég er að hluta sammála þér. Mér finnst bara að þú hefðir mátt segja:

  að lenda undir tvisvar sinnum á móti utandeildarliði á heimavelli segir manni að það er eitthvað meira en lítið að.

  Ég er ekki að setja mig í einhverjar ritskoðunar stellingar, það eru aðrir sem sjá um það hér. Málið er að ég er lærður iðnaðarmaður og er verulega viðkvæmur hvað þetta varðar og hef sjálfsagt sett þetta komment mitt inn af full mikilli fljótfærni. Ég veit að þú varst að leggja áherslu á þitt point og ef þér finnst ég hafa verið að saka þig um einhverja “dilkaskiptingu” þá var ég ekki að því.
  Ég sá ekki leikinn en mér var sagt að “ruslakallinn hafði tekið Riise í rassgatið” allan leikinn. Ég segi því aftur: það sem þú gerir dagsdaglega hefur ekkert að gera með fótboltalega getu þína. Aftur á móti gæti verið að ruslakarlinn hafi ekki haft þol í 90 mín af því að hann þurfti að skila sínu vinnuframlagi deginum áður við eitthvað allt annað en fótbolta.
  Ég bið þig bara afsökunar einar ef þér finnst ég hafa verið að saka þig um eitthvað misjafnt, og eins og ég sagði ætla ég ekki í einhvern hanaslag við þig. Mér yfirleitt leiðist umræða hérna um einhvern “tittlingaskít” eins og þetta og óvart missti mig í einhvern hlut sem á ekkert skilt við Liverpool FC.
  En eitt að lokum. Ég var staddur á Aston villa leiknum og það sem allir á vellinum sungu nánast allan leikinn var:
  They dont care about Rafa
  they dont care about fans
  liverpool football club
  is out of our hands.
  Andrúmsloftið frekar skrýtið og ekki eins og maður á að venjast, en samt sem áður þá sungu saman “læknar og lögfræðingar, rafvirkjar og rútubílstjórar” og það voru allir sammála, það er eitthvað mikið að á Anfield.

 22. Það sem ég hef lesið um stemmninguna á Anfield í gær var að í hvert skipti sem einhver reyndi að koma þessu lagi af stað eða öðrum í svipuðum dúr voru þeir púaðir niður og sungið eitthvað stuðningslag í staðinn. Sem sagt kop stúkan púaði sjálfa sig niður þegar einhver reyndi einhverja neikvæðni. Þannig að sama hvort eitthvað hafi breyst eða ekki þá hafa menn ákveðið að hætta neikvæðninni í bili og einbeita sér að því að styðja liðið sitt. Spurning hvort við reynum það ekki líka.

 23. Bogi. Rétt hjá þér, vitlaust hjá mér í pistlinum. Takk fyrir að leiðrétta það.

  Eikifr. Þú ert að grínast með Wenger og CL er það ekki? Þú manst auðvitað að Arsenal slapp inn í CL í síðasta leik fyrir 2 árum þegar Tottenham var með hálft liðið sitt í matareitrun og í fyrra var Arsenal ekki öruggt inn fyrr en þrjár umferðir voru eftir. Bæði árin löngu á eftir LFC og Benitez minn kæri.

One Ping

 1. Pingback:

Byrjunarliðið komið.

Hicks segir allt það rétta