Góður sigur í “mini” derby

Ákvað að senda hérna inn smá pistil um sigur varaliðsins okkar á varaliði þeirra bláu í kvöld. Var sestur fyrir framan imbann klukkan 19:30 til að horfa nú á fyrsta leikinn á LFC TV í beinni, en þá voru skilaboð uppi um að vegna tæknilegra vandræða þá væri ekki hægt að sýna leikinn. Ég var fúll og svekktur og fór að gera bara eitthvað allt annað. Seinna rambaði ég svo inn til að tékka hvað væri á stöðinni og viti menn, leikurinn var þá kominn á. Staðan var 1-0 fyrir okkar menn, sjálfsmark Everton. Ég náði að sjá dauðafæri í lok hálfleiksins þar sem Nemeth átti frábæran skalla (flikk) innfyrir vörnina á Brouwer sem var nánast kominn einn í gegn, en afgreiddi boltann illa.

Ég ætla ekki að rekja seinni hálfleikinn í einhverju leikskýrsluformi, enda afburða slakur leikskýrslu penni. Ég get þó sagt ykkur það að ég var alveg hrikalega heillaður af mörgum leikmönnum þarna og hreinlega af liðinu í heild sinni. Ég hef lesið mikið um þessa ungu og efnilegu stráka sem hafa verið að ganga til liðs við okkur, en come on. Skoðum liðið:

Bouzanis

Kelly – Huth – San Jose – Insua

El Zhar – Spearing – Plessis – Leto

Nemeth – Brouwer

Varamenn: Stubhaus, Darby (inná fyrir Kelly á 61. mín), Duran (inná fyrir Spearing á 76. mín), Pacheco (inná fyrir Brouwer á 65. mín) og Putterill

Ég tók lítið eftir þeim Kelly og San Jose. Spearing baráttuhundur þarna á miðjunni, en Plessis fannst mér hreint út sagt frábær í hlutverki varnartengiliðs. Þvílíkt yfirvegaður, gerir hlutina einfalt, harður í tæklingum og mikil yfirferð. El Zhar er algjört tæknitröll og tók menn á hægri vinstri og sýndi þvílíka takta. Óheppinn að fá ekki víti og var næst besti maðurinn á vellinum (ásamt Plessis). Leto var skeinuhættur en stóð ekki neitt upp úr, en greinilegt að hann hefur þetta allt í sér. Ég var ekkert sérlega hrifinn af Brouwer, en þeir Huth og Insua virkuðu hrikalega vel. Huth var með tvær stoðsendingar og Insua eina. En þá kemur að rúsínunni í pylsuendanum, Krisztian Nemeth. Váá hvað ég hreifst af þessum framherja og ekki bara vegna þess að hann setti tvö kvikindi í leiknum, heldur var hann bara hrikalega öruggur á bolta og erfiður við að eiga. Virkilega efnilegur strákur, sem var að spila sinn 2 leik með liðinu.

Darby virkaði vel á mig eftir að hann kom inná, Duran einnig (var að koma tilbaka eftir 9 mánaða fjarveru) og þar er á ferðinni líkamlega sterkur strákur sem var afar öruggur á boltann. Pacheco er svo skemmtilegur tittur sem er hrikalega kvikur og með mikinn hraða.

Eins og áður sagði þá sá ég bara lok fyrri hálfleiks og svo allan síðari hálfleik. Við áttum víst mjög góðan fyrri hálfleik eftir því sem ég hef lesið, en ég var impressed, mjög impressed. Ungt lið og afar spennandi, ég spái því að við eigum eftir að sjá all nokkra þeirra fá séns í aðalliðinu á næstu árum. 3-0 sigur.

14 Comments

  1. Þess má geta að í fyrsta leiknum hjá Krisztian Nemeth (f. 05.01.1989) á móti Man City gerði hann einnig 2 mörk sem sagt 4 mörk í 2 leikjum. Hjá MTK Hungária FC skoraði hann 44 mörk í 36 leikjum og í ungverska U21 liðinu hefur hann skorað 7 mörk í 6 leikjum samkvæmt wikipedia. Einnig segja þeir þar að á littlu móti sem haldið var á kýpur með U17 skoraði hann 7 mörk í 3 leikjum. Svo fín byrjun þetta hjá honum.

  2. Ekki nóg með að hann skori mikið, heldur leist mér þræl vel á hann svona þegar kemur að spilamennskunni sjálfri.

  3. Gaman að heyra þetta… Er eitthvað af þessu strákum frá Englandi/Liverpool? Greinilegt að Akademían er að gera góða hluti um þessar mundir.

  4. gríðarlega mikilvægt að hafa gott og ungt varalið. þessir strákar fá reynslu og finna smjörþefinn af enska boltanum, þó gæðin séu töluvert lelegri heldur en hjá aðalliðunum. en ég vona bara að nemeth haldi áfram að setjann og fái kannski séns í bikarnum eða bara á næsta seasoni 🙂

    en góðar fréttir þarna á ferð!

  5. Fínn leikur. Var mjög ánægur með ungverjann þarna frammi. Leto aftur á móti spilar dáldið eins og honum finnist að hann sé að spila fyrir neðan sig að vera þarna, gefur ekki boltan frá sér etc. Held að Leto sé líklega besti leikmaðurinn sem við eigum í varaliðinu en hann þarf að finna sinn þröskuld. Vonast til að sjá Spearing sem fyrst í hópnum en það gerist ekki fyrr en við losum okkur við 2 miðjumenn.

  6. Nemeth var flottur á móti City, virkar virkilega flottur klárari. Plessis verður örugglega fínn leikmaður, þegar hann er búinn að setja á sig nokkra vöðva og Leto þarf bara að venjast því breska!
    Sá viðtal í gær við Ablett þar sem hann sagði að Benitez væri búinn að gefa það upp að þessir leikmenn hefðu 18 mánuði til að þroskast vel og það var ég sáttur að heyra. Er viss um að nokkrir þarna verði í liðinu eftir 2 ár!

  7. Ekki er langt síðan Jack Hobbs var í þessari stöðu, að spila vel fyrir varaliðið og nú er hann kominn með annan fótinn inn í aðalliðið. Allar líkur á að hann byrji gegn Reading um helgina… Agger meiddur og Carra bæði tæpur vegna meiðsla OG er einu spjaldi frá því að fara í bann… Ef hann fengi spjald yrði hann ekki með gegn Man Utd…

    Hobbs segir við official síðuna í dag að Hyypia hafi líka hjálpað sér mikið í leiknum gegn Bolton… Hef alveg trú á þeim gegn Reading 🙂

  8. Ég held að það sé stutt í að nokkrir strákar fari að banka fast á dyrnar hjá hópnum sem myndar aðalliðið. Við skulum heldur ekki gleyma því að við eigum nokkra sterka stráka sem eru á láni hjá öðrum klúbbum að ná sér í reynslu, menn eins og Hammill, Anderson (sem er btw að brillera með sínu liði), Guthrie, Antwi, Roque, Threlfall, Lindfield, Idrizaj og Peltier. Auðvitað munu bara örfáir ná í gegn, en við erum með stóran hóp mjög efnilegra leikmanna núna. Þessir í útláni, plús varaliðið og svo ekki sé talað um U-18 liðið. Ég er allavega afar spenntur fyrir framtíðinni.

  9. Mér fannst nú illa gert að skrifa fyrsta markið sem sjálfsmark Everton. Ronald Huth átti skot á markið eftir góðan undirbúning El Zahr og varnarmaður Everton reyndi að bjarga markinu en skaut boltanum í eigið mark. Málið er að boltinn var alltaf á leiðinn í markið sama hvort varnarmaður Everton hefði reynt að bjarga þessu eða ekki. Ef þetta var sjálfsmark þá skorar Frank Lampard svona að meðaltali tvö mörk á tímabili.

  10. Frábært hjá ungliðunum okkar og verið á tánum því að við erum rétt að byrja í undirbúningnum með STÓRVELDIÐ LIVERPOOL

    …leifi mér að koma með eitt frá MBL.is
    …brögð í tafli!!!!!
    http://mbl.is/mm/sport/mot/enski/frett.html?nid=1307138

    endilega hendið þessu út ef ég má ekki setja þetta hér inn 😀

    Avanti Liverpool

  11. En því miður fyrir Huth, þá var markið skráð sem sjálfsmark, ekki að það skipti kannski öllu máli, mark er mark.

  12. Já, sá það á leikskýrslunni eftirá. Tók hreinlega ekki eftir því að hann væri inná ef ég á að segja alveg eins og er. En hann lék víst allan tímann.

  13. Bjarni stóð sig ágætlega. En mikið var gaman að fylgjast með El Zhar. Það er greinilega mikill bolti í þessum strák. En það er líka svolítill Ronaldo í honum, sem þyrfti að laga. Mér fannst hann t.d. ekki þurfa mikla snertingu þegar hann vildi víti.

Rafa er maður fólksins

Hobbs er tilbúinn í slaginn.